Hæstiréttur íslands

Mál nr. 30/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 14



 

Þriðjudaginn 26. janúar 1999.

Nr. 30/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

Ó

(Brynjar Níelsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Krafist var framlengingar gæsluvarðhaldsvistar Ó, eingöngu á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála en Ó var undir rökstuddum grun um innflutning á 630 grömmum af kókaíni. Ó hafði þegar setið í gæsluvarðhaldi í rúmlega mánuð á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Ekki var fallist á að gæsluvarðhaldsvist Ó yrði framlengd á þessum grunni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 17. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili játað að hafa átt þátt í innflutningi á um 630 g af kókaíni til landsins, svo sem hann er borinn sökum. Sóknaraðili reisir ekki kröfu sína um gæsluvarðhald á því að þess sé þörf vegna rannsóknar málsins, heldur eingöngu á ákvæði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ekki verður fallist á að hér séu alveg næg efni til að beita gæsluvarðhaldi með stoð í því ákvæði. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 1999.

 Ár 1999, miðvikudaginn 20. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Helga I. Jónssyni héraðs­dómara, kveðinn upp úrskurður þessi.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að Ó verði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 17. mars nk. kl. 16.00.

Kærði mótmælir kröfunni.

Að morgni 19. desember 1998 var G handtekinn á Keflavíkurflugvelli við komu frá Bandaríkjunum með 630 g af kókaíni, falin í farangri sínum. Hann kvaðst við yfirheyrslu hafa flutt efnið inn frá Mexíkó fyrir kærða og S. Hafi honum verið lofað hluta efnisins eða peningum sem greiðslu fyrir hlut sinn að málinu. Kærði neitaði í upphafi allri aðild að innflutningnum. Var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald 23. desember síðastliðinn sem rann út kl. 16.00 í dag. Kærði hefur við síðari yfir­heyrslur játað aðild að málinu með þeim hætti að hann hafi að beiðni S farið til Mexíkó og komið G þar í samband við nafngreindan mann. Kærði kveðst hafa gert sér grein fyrir að hann var með þessu að aðstoða við kaup á fíkniefnum, kókaíni eða amfetamíni. Ástæða þess að kærði féllst á beiðni S hafi verið sú að S hafi skuldað kærða um 250.000 krónur og kærði ekki séð að hann gæti endurgreitt þá fjárhæð með öðru móti. G og S bera hins vegar báðir að kærði sé skipuleggjandi og aðalfjármögnunar­aðili á innflutningi umræddra fíkniefna. Í rannsóknargögnum kemur fram að kærði hefur tekið út umtalsverðar fjárhæðir af greiðslukortum í áðurnefndri ferð sinni til Mexíkó.

Kærði er undir sterkum grun um stórfellt brot sem getur varðað hann allt að 10 ára fangelsi samkvæmt 173 gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verður að telja brot kærða þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um gæsluvarðhald. Verður krafa Lögreglustjórans í Reykjavík tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Kærði, Ó, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 17. mars 1999 kl. 16.00.