Hæstiréttur íslands
Mál nr. 6/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
- Fjöleignarhús
|
|
Föstudaginn 12. janúar 2001. |
|
Nr. 6/2001. |
Atli Eiríksson sf. (Guðjón Ólafur Jónsson hdl.) gegn Húsfélaginu Flétturima 2-8 (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanna. Fjöleignarhús.
Húsfélag fjöleignarhúss (H) óskaði eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn til að skoða og meta ýmsa galla, sem H taldi vera á fjöleignarhúsi, sem byggt hafði verið af A sf. Krafðist A sf. þess að hafnað yrði þeim liðum í matsbeiðninni er vörðuðu séreignir annarra en H. Mál hafði ekki verið höfðað um sakarefnið og sótti öflun matsgerðar á þessu stigi því stoð til XII. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 77. gr. Hæstiréttur taldi að aðili gæti ekki notið þeirra lögvarinna hagsmuna, sem vísað er til í ákvæðinu, nema hann væri sá, sem með réttu gæti sótt í dómsmáli kröfu á grundvelli matsgerðar. Með því að H hefði ekki gegn andmælum A sf. fært viðhlítandi rök fyrir því hvernig hann gæti að réttu lagi átt aðild að hugsanlegri kröfu á grundvelli hinna umdeildu liða í matsbeiðni var fallist á mótmæli A sf. og synjað um dómkvaðningu matsmanns að því leyti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. janúar 2001. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2000, þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að synjað verði um dómkvaðningu manns til að meta 2., 3. og 5. lið í viðbótarmatsbeiðni varnaraðila frá 24. október 2000. Þá krefst hann einnig kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.
I.
Samkvæmt gögnum málsins mun sóknaraðili hafa byggt fjöleignarhús að Flétturima 2-8 í Reykjavík á árunum 1993 og 1994. Með beiðni 27. maí 2000 óskaði varnaraðili eftir því að dómkvaddir yrðu tveir menn til að skoða og meta ýmsa galla, sem hann taldi vera á húsinu, þar á meðal á þaki, útveggjum og tröppum, auk leka og fleiri atriða, sem þar greindi nánar. Samkvæmt beiðninni var leitað matsins til að sanna að húsbyggjandinn hefði ekki skilað fullnægjandi verki og að húsið væri haldið göllum. Á dómþingi 2. júní 2000 voru tveir menn dómkvaddir til að annast matið.
Hinn 24. október 2000 óskaði varnaraðili eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu „tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til að skoða og meta eftirfarandi:
1.Hvort pússning á svölum og stigagangi utanhúss á Flétturima 2-8, Reykjavík, sé með eðlilegum hætti, orsakir þeirra vandamála sem kunna að vera þar á ferðinni og kostnaðinn við að bæta úr.
2.Skemmdir á parketi í íbúð 0301 að Flétturima 4 og kostnað við að bæta úr.
3.Skemmdir á málningu í lofti og á veggjum í íbúð 0301 að Flétturima 4 og kostnað við að bæta úr.
4.Hvort frágangur á einangrun í þaki að Flétturima 2-8 sé fullnægjandi.
5.Lekaskemmdir í íbúð 0101 að Flétturima 6 og kostnað við að bæta úr. M.a. er vitað um skemmdir á parketi og á vegg.”
Þessi matsbeiðni var tekin fyrir á dómþingi 6. nóvember 2000. Krafðist þá sóknaraðili þess að henni yrði hafnað að því er varðar ofangreindan 2., 3. og 5. lið, þar sem þeir varði séreignir annarra en varnaraðila, enda lægi ekkert fyrir um að honum hefði verið falið að leita matsgerðar um þá. Með hinum kærða úrskurði var mótmælum sóknaraðila hafnað og orðið við matsbeiðninni.
II.
Mál hefur ekki verið höfðað um það sakarefni, sem fyrrnefndar matsbeiðnir varnaraðila lúta að. Öflun matsgerðar á þessu stigi sækir því stoð til XII. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 77. gr. þeirra, en samkvæmt því ákvæði getur aðili, sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta, beiðst dómkvaðningar matsmanns þótt krafa hafi ekki verið gerð um matsatriði í dómsmáli, ef það er gert til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni. Sjálfgefið er að aðili geti ekki notið þeirra lögvarinna hagsmuna, sem vísað er til í ákvæðinu, nema hann sé sá, sem með réttu gæti sótt í dómsmáli kröfu á grundvelli matsgerðar. Varnaraðili hefur ekki gegn andmælum sóknaraðila fært viðhlítandi rök fyrir því hvernig hann gæti að réttu lagi átt aðild að hugsanlegri kröfu á grundvelli hinna umdeildu liða í matsbeiðni, en í þeim efnum kemur skírskotun til 2. mgr. 57. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús að engu haldi. Stoðar varnaraðila heldur ekki að bera fyrir sig umboð til að leita matsgerðar í þágu þeirra manna, sem eiga fyrrnefndar íbúðir að Flétturima 4 og 6, enda gæti slíkt umboð, hefði það sannanlega verið veitt, ekki heimilað honum að fara í eigin nafni með hagsmuni annarra fyrir dómi. Að þessu athuguðu verður að fallast á mótmæli sóknaraðila gegn matsbeiðni varnaraðila frá 24. október 2000 að því er varðar 2., 3. og 5. lið hennar og synja um dómkvaðningu matsmanns að því leyti.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er að dómkveðja mann til að meta þau atriði, sem greinir í 2., 3. og 5. lið matsbeiðni varnaraðila, Húsfélagsins Flétturima 2-8, frá 24. október 2000.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, Atla Eiríkssyni sf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2000.
Með beiðni dags. 27. maí sl. fór Húsfélagið Flétturima 2-8, Reykjavík, þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til að skoða og meta tiltekin atriði varðandi húseignina Flétturima 2-8, eins og nánar greinir í matsbeiðni.
Samkvæmt dómkvaðningu 2. júní sl. voru þeir Magnús Guðjónsson húsasmíðameistari og Freyr Jóhannesson, byggingatæknifræðingur dómkvaddir til að framkvæma hið umbeðna mat.
Í þinghaldi í matsmálinu 6. nóvember sl. var lögð fram viðbótarmatsbeiðni dags. 24. október sl., þar sem þess var óskað að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til að skoða og meta tilgreind atriði, sem talin voru upp í töluliðum 1-5, eins og nánar greinir í matsbeiðni. Af hálfu matsþola var þess þá krafist að matsliðum 2, 3, og 5 samkvæmt þeirri matsbeiðni yrði hafnað þar sem beðið væri um mat á einstökum íbúðum sem væru séreignir og ekki lægi fyrir að húsfélaginu hafi verið falið að reka það matsmál.
Í þinghaldi í matsmálinu 8. nóvember sl. gerði lögmaður matsbeiðanda svofellda grein fyrir sjónarmiðum matsbeiðanda vegna framkominna mótmæla matsþola:
1. Skýrt og ljóst sé hvað meta skuli.
2. Að því leiti sem séreignir séu metnar þá eigi húsfélagið lögvarða hagsmuni af því að fá matið og því sé málið skylt m.a. vegna hugsanlegrar bótaábyrgðar húsfélagsins gagnvart einstökum eigendum. Það sé verkefni félagsfundar að finna að störfum húsfélagsins en ekki matsþola. Það sé algjörlega innanhússmál húsfélagsins hvort beðið sé um mat á séreignum og sé matsþola óviðkomandi.
Lögmenn tjáðu sig um álitaefnið fyrir dóminum og var það lagt í úrskurð 8. nóvember sl.
Niðurstaða
Samkvæmt 2. tölulið í viðbótarmatsbeiðni dags. 24. október sl. er þess óskað að metnar verði skemmdir á parketi í íbúð 0301 að Flétturima 4 og kostnað við úrbætur. Samkvæmt 3. tölulið í þeirri matsbeiðni er þess óskað að metnar verði skemmdir á málningu í lofti og á veggjum í íbúð 0301 að Flétturima 4 og kostnað við úrbætur. Samkvæmt 5. tölulið í þeirri matsbeiðni er þess óskað að metnar verði skemmdir vegna leka á parketi og á vegg í íbúð 0101 að Flétturima 6 og kostnað við úrbætur.
Um matsgerðir er fjallað í IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna kveður dómari einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila. Húsfélagið Flétturima 2-8 er aðili að matsmáli þessu og er óumdeilt að það sé til þess bært að óska mats um þau atriði er greinir í matsbeiðni dags. 27. maí sl. og matsatriði samkvæmt töluliðum 1 og 4 í viðbótarmatsbeiðni frá 24. okóber sl. Telja verður að tilgreind matsatriði samkvæmt 2., 3. og 5. tölulið í viðbótarmatsbeiðni tengist matsmálinu með þeim hætti að eðlilegt sé að óskað sé mats um þau. Þá verður að telja að þau matsatriði varði sameiginlega hagsmuni húseigenda, sem matsbeiðanda ber að gæta, sbr. 2. mgr. 57. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Verður því að hafna framkomnum mótmælum matsþola gegn umbeðinni dómkvaðningu og skal hún fara fram.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Umbeðin dómkvaðning matsmanna skal fara fram.