Hæstiréttur íslands

Mál nr. 365/2016

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
X (Áslaug Gunnlaugsdóttir hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Norræn handtökuskipun

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem talið var að skilyrði laga nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun) væru uppfyllt til að afhenda mætti X finnskum yfirvöldum samkvæmt handtökuskipun þeirra.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. maí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2016 þess efnis að fullnægt sé skilyrðum til að afhenda megi varnaraðila samkvæmt norrænni handtökuskipun frá finnskum yfirvöldum. Kæruheimild er í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun). Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Áslaugar Gunnlaugsdóttur héraðsdómslögmanns, 306.900 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                                        

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2016.

                Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að fyrir hendi séu skilyrði til afhendingar X samkvæmt norrænni handtökuskipun frá finnskum yfirvöldum, dags. 23. febrúar 2016.

                Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að þann 11. mars sl. hafi ríkissaksóknara borist frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu gögn máls nr. 007-2016-[...] er varði beiðni finnskra yfirvalda um handtöku og afhendingu X (varnaraðili) vegna meðferðar sakamáls þar í landi, þ.e. norræn handtökuskipun. Þá hafi ríkissaksóknara einnig borist viðbótargögn frá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra. Grundvöllur norrænu handtökuskipunarinnar sé úrskurður héraðsdóms í Varsinais-Sumoi frá 23. febrúar 2016 í máli nr. [...], þar sem varnaraðili hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald að honum fjarstöddum skv. ákvæðum finnskra laga. Úrskurðurinn sé meðfylgjandi handtökuskipuninni. Fram komi í gögnum málsins að varnaraðili sé grunaður um rán í félagi við annan mann. Með því að hafa þann 10. febrúar 2012 í Lieto, Finnlandi, ásamt öðrum aðila sem hafi verið sakfelldur í málinu, með ofbeldi barið og sparkað víðsvegar í líkama A (brotaþola), slegið hann með hníf í höndina og flösku í höfuðið, tekið af brotaþola veski er hafi innihaldið 1480 evrur, Nokia farsíma, bíllykla og bifreið. Auk þess að hafa neytt brotaþola til þess að hringja í vin sinn í því skyni að útvega meiri fjármuni sem hafi  átt að afhenda þriðja manni fjármunina og hafi hann síðan átt að afhenda hinum grunuðu fjármunina. Að lokum hafi hann hellt dísel yfir brotaþola og skilið hann eftir bundinn í iðnaðarhúsnæði. Þá komi einnig fram í gögnum málsins að um sé að ræða meint brot gegn 2. grein 31. kafla finnsku hegningarlaganna.

Ríkissaksóknari hafi sent lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu norrænu handtökuskipunina til meðferðar þann 1. apríl sl. í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlanda vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun). Þann 14. apríl sl. hafi varnaraðila verið kynnt handtökuskipunin í skýrslutöku hjá lögreglu. Aðspurður kvað varnaraðili fyrirliggjandi handtökuskipun sem og önnur gögn eiga við sig. Varnaraðili kvaðst ekki samþykkja að verða afhentur finnskum yfirvöldum en kvaðst kannast við aðild sína að málinu, en kvaðst ekki hafa tekið mikinn þátt í átökunum og hann einungis lamið brotaþola smávegis. Nánar aðspurður kvaðst varnaraðili hafa bæði sparkað í brotaþola og kýlt hann. Varnaraðili kvaðst hafa verið 14 ára þegar þetta hafi gerst. Aðspurður kvað hann persónuupplýsingar um hann hér á landi vera réttar, bæði að því er varði nafn og fæðingardag hans. Þá kvað hann brotaþola hafa afhent þeim þá fjármuni sem komi fram í verknaðarlýsingunni eftir átökin.

Ríkissaksóknari hafi ákveðið 27. apríl sl. að verða við beiðni finnskra yfirvalda um afhendingu varnaraðila til Finnlands á grundvelli norrænnar handtökuskipunar, sbr. lög nr. 12/2010 og beri málið undir Héraðsdóm Reykjavíkur, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 12/2010, til úrskurðar um hvort skilyrði séu til afhendingar.

Um skilyrði afhendingar samkvæmt norrænni handtökuskipun sé fjallað í II. kafla laga nr. 12/2010. Samkvæmt því sem að framan er rakið telji ríkissaksóknari að afhenda eigi varnaraðila í samræmi við handtökuskipunina og telji skilyrði afhendingar vera uppfyllt enda séu hvorki skyldubundnar né valkvæðar synjunarástæður fyrir hendi, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 12/2010.

                Krafa varnaraðila um að kröfu sóknaraðila verði hafnað byggir í fyrsta lagi á því að hann hafi verið barn þegar atburður sá gerðist, sem krafan er byggð á. Er vísað til b liðar 5. gr. laga nr. 12/2010. Í öðru lagi er vísað til þess að varnaraðili hafi ekki átt þátt í brotinu sem um ræðir í kröfugerð sóknaraðila. Í þriðja lagi er vísað til þess að 7. gr. laga nr. 13/1984 eigi hér við með lögjöfnun. Bent er á að varnaraðili hafi flúið ómannúðlegar aðstæður í heimalandi sínu og í framhaldinu lent í höndum glæpamanna en hann hafi verið kærður í Finnlandi fyrir að ráðast á einn þeirra.

                Varnaraðili er fæddur 16. nóvember [...]. Hann var því rúmlega 15 ára gamall þegar atburður sá gerðist sem krafan er byggð á. Kröfu sóknaraðila verður því ekki hafnað af þeim sökum að ekki megi afhenda varnaraðila sökum ungs aldurs, sbr. nefnda grein laga nr. 12/2010. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. nefndra laga úrskurðar dómurinn aðeins um hvort skilyrði séu til afhendingar varnaraðila og getur við mat á því ekki tekið afstöðu til sektar eða sakleysis varnaraðila. Við mat á því hvort orðið verði við kröfu sóknaraðila verður dómurinn að byggja á ákvæðum laga nr. 12/2010 sem mæla fyrir um að með úrskurði verði ákveðið hvort skilyrði til afhendingar séu fyrir hendi eða ekki. Mat á þeim atriðum sem um er fjallað í 7. gr. laga nr. 13/1984 koma ekki til álita við það mat og skilyrði lögjöfnunar eru ekki fyrir hendi.

                Samkvæmt öllu framansögðu og með vísun til þess sem að framan var rakið úr kröfugerð ríkissaksóknara og gagna málsins er fallist á að fyrir hendi séu skilyrði laga nr. 12/2010 um að afhenda varnaraðila eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þóknun verjanda varnaraðila skal greidd úr ríkissjóði en hún er ákveðin með virðisaukaskatti í úrskurðarorði.

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Skilyrði til afhendingar X samkvæmt norrænni handtökuskipun frá finnskum yfirvöldum, dags. 23. febrúar 2016 eru fyrir hendi.

                Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Áslaugar Gunnlaugsdóttur hdl., 352.935 krónur, skal greidd úr ríkissjóði.