Hæstiréttur íslands

Mál nr. 584/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                                                              

Þriðjudaginn 1. nóvember 2011.

Nr. 584/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2011 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. nóvember 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. nóvember 2011, kl. 16:00. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að 10. október sl. hafi lögregla fundið og lagt hald á mikið magn hættulegra fíkniefna, sem flutt hafi verið til landsins með skipi frá Hollandi.  Um magn og tegund efna er vísað til meðfylgjandi efnaskýrslu lögreglu.

Í kjölfarið hafi einn maður verið handtekinn og úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald vegna málsins. Sá aðili hafi viðurkennt aðild sína að málinu. Hann kvaðst þó hvorki hafa komið að skipulagningu né fjármögnun innflutningsins. Hann kvað sitt hlutverk einungis hafa verið að koma efnunum í umrætt skip. Hann kvað kærða, X, vera aðalmann fíkniefnainnflutningsins og hafi hann skipulagt hann og fjármagnað. 

Kærði, X, hafi verið staddur á Spáni er ofangreind fíkniefni hafi komið til landsins, en hann hafi verið handtekinn við komuna til landsins síðastliðna nótt. X hafi verið undir rannsókn lögreglu um nokkurt skeið og hafi lögregla beitt ýmsum rannsóknarúrræðum sem hafi veitt lögreglu mikilvægar upplýsingar sem styrki mjög grun lögreglu um aðild X að málinu, jafnframt sem þær renni stoðum undir framburð ofangreinds aðila um þátt hans.

Kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að afbroti sem allt að 12 ára fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins sé skammt á veg komin, en nauðsynlegt sé að yfirheyra kærða frekar og fleiri einstaklinga sem kunni að tengjast málinu. Rannsaka þurfi þætti er snúa að aðdraganda brotsins, skipulagningu og fjármögnun. Gangi kærði frjáls ferða sinna telur lögreglan að hann kunni að torvelda rannsóknina, s.s. með því að koma undan munum sem hafa sönnunargildi í málinu eða hafa áhrif á aðra samverkamenn. Um sé að ræða mikið magn fíkniefna sem víst þyki að hafi átt að fara í sölu- og dreifingu hér á landi.  Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus. 

Að dómi lögreglu þykir meint brot kærða varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt er það mat lögreglunnar að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt. Með skírskotun til þess, framlagðra gagna og a.liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Meðal gagna málsins er skýrsla lögreglu um yfirheyrslu yfir kærða sem fram fór í dag. Kærði neitar alfarið sök. Engu að síður þykja framlögð rannsóknargögn ótvírætt styðja þá fullyrðingu lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a laga nr. 19/1940. Er þá sérstaklega haft í huga að mál þetta varðar innflutning á miklu magni hættulegra fíkniefna sem kærði er grunaður um að aðild að.  Tekið er undir það með lögreglustjóra að rannsókn málins sé skammt á veg komin og nauðsynlegt að yfirheyra kærða frekar, svo og aðra einstaklinga sem kunna að tengjast málinu, en einnig þurfi að rannsaka aðra þætti brotsins, s.s. skipulagningu þess og fjármögnun. Tekið er undir það með lögreglustjóra að hætt sé við að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins, gangi hann laus, sbr. a-liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Verður því fallist á framkomna kröfu eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Að sama skapi þykja ekki efni til að fallast á að varðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.  Í ljósi rannsóknarhagsmuna, svo og með vísan til b liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, verður kærða gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Ingimundur Einarsson kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt.[...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. nóvember 2011, kl. 16:00.  Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.