Hæstiréttur íslands
Mál nr. 49/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Aðfarargerð
- Kröfugerð
|
|
Þriðjudaginn 12. febrúar 2008. |
|
Nr. 49/2008. |
Hörður Jónsson(Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn Uppsalamönnum ehf. (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.) |
Kærumál. Aðfarargerð. Kröfugerð.
Í máli vegna beinnar aðfarargerðar krafðist U þess að viðurkennt yrði að tiltekin skylda hvíldi á H, en ekki að fá umræddri skyldu fullnægt með aðfarargerð. Þegar af þeirri ástæðu að engin heimild þótti fyrir slíkri kröfugerð í 78. gr. laga nr. 90/1989 var kröfu hans hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2008, þar sem sóknaraðila var gert að fjarlægja nánar tilgreindar hindranir við því að varnaraðili fengi notið umferðarréttar til lóðar að Laugavegi 85 í Reykjavík. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað og honum gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Mál þetta á rætur að rekja til aðfararbeiðni varnaraðila 22. október 2007 til Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem hann krafðist „dómsúrskurðar um að Herði Jónssyni, sem jafnframt er eigandi Laugarvegar nr. 87 verði gert að fjarlægja allar þær bifreiðar, muni eða aðrar tálmanir sem takmarka umferðarrétt Uppsalamanna ehf. um lóðina og þar með aðgengi þeirra að lóð sinni nr. 85.“ Um heimild fyrir þessu vísaði varnaraðili til 78. gr. laga nr. 90/1989.
Samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði er þeim, sem aftrað er með ólögmætum hætti að neyta réttinda, sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós að hann geti fært sönnur fyrir þeim með gögnum, sem aflað verður eftir 83. gr. laga nr. 90/1989, heimilað að beina til héraðsdóms beiðni um að skyldu þess efnis, sem getið er í 72. gr. eða 73. gr. laganna, verði fullnægt með aðfarargerð, þótt ekki liggi fyrir aðfararheimild samkvæmt 1. gr. þeirra. Eftir hljóðan beiðni varnaraðila leitar hann ekki eftir því að héraðsdómur veiti honum heimild til að fá tiltekinni skyldu sóknaraðila fullnægt með aðfarargerð, heldur dómsúrskurðar um að honum beri að gera tilgreindar ráðstafanir. Fyrir slíkri kröfugerð stendur engin heimild í 78. gr. laga nr. 90/1989, enda felur úrskurðarorð hins kærða úrskurðar, þar sem fallist var á dómkröfu varnaraðila, ekki í sér ákvörðun um að bein aðfarargerð megi fara fram. Þegar af þessum sökum verður ekki komist hjá því að hafna kröfu varnaraðila.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Uppsalamanna ehf., um að sóknaraðila, Herði Jónssyni, verði með dómsúrskurði gert að fjarlægja bifreiðar, muni og aðrar tálmanir, sem takmarki umferðarrétt varnaraðila til lóðar að Laugavegi 85 í Reykjavík.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2008.
Með beiðni, móttekinni 23. október 2007, hafa Uppsalamenn ehf., Bæjarlind 4, Kópavogi, krafist þess að varnaraðila, Herði Jónssyni, Bakkaflöt 12, Garðabæ, sem jafnframt er eigandi Laugavegar 87, verði gert að fjarlægja allar þær bifreiðar, muni eða aðrar tálmanir sem takmarka umferðarrétt Uppsalamanna ehf. um lóðina og þar með aðgengi þeirra að lóð sinni nr. 85. Þá er krafist málskostnaðar auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar.
I.
Málavextir eru þeir að sóknaraðili stendur í byggingaframkvæmdum við Laugaveg 85. Varnaraðili, sem er eigandi lóðarinnar við Laugaveg 87, hefur lagt bifreiðum sínum þannig á lóð sinni að tálmað hefur umferð sóknaraðila að lóðinni við Laugaveg 85. Samkvæmt deiliskipulagi fyrir reit 1.174.1, sem samþykkt var í borgarráði 9. júní 2005, er kvöð um gegnumakstur á lóðinni nr. 87 við Laugaveg.
II.
Sóknaraðili byggir mál sitt á því að samkvæmt skipulagi sé umferðarkvöð um lóðina nr. 87 við Laugaveg inn á lóðina nr. 85 við Laugaveg. Í kvöðinni felist að lóðarhafar verði að þola umferð annarra ökutækja um lóð sína. Sóknaraðili, sem standi í byggingarframkvæmdum við Laugaveg 85, hafi að undanförnu orðið fyrir umtalsverðu tjóni vegna háttsemi eiganda lóðar nr. 87, sem leggi bifreiðum sínum á norðvesturenda lóðar sinnar, þvert á umferðarrétt sóknaraðila.
Sóknaraðili kveðst ítrekað hafa óskað eftir því að varnaraðili fjarlægi fyrrnefndar bifreiðar en án árangurs. Þá hafi sóknaraðili leitað liðsinnis hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna brota varnaraðila á umferðarlögum og umferðarrétti sóknaraðila, en þær aðgerðir hafi engu skilað.
Sóknaraðili kveðst hafa orðið fyrir töluverði tjóni vegna tafa á byggingaframkvæmdum sem hann hafi orðið fyrir vegna brota varnaraðila á skýrum umferðarrétti sóknaraðila sem eigi sér stoð í þinglýstum heimildum og deiliskipulagi svæðisins. Kveðst sóknaraðili ekki geta lokið lóðarframkvæmdum vegna varnaraðila.
III.
Varnaraðili byggir á því að einu kvaðirnar sem þinglýst hafi verið á lóð hans nr. 87 við Laugaveg séu svo kölluð „gangréttindi“ frá 16. mars 1944. Um aðrar kvaðir varðandi umferðarréttindi eigenda Laugavegs 85 sé ekki að ræða.
Það sé ekki á valdi borgaryfirvalda að setja á eignarlóðir einhliða kvöð um umferðarrétt, þar sem verið sé án heimildar að skerða eignarrétt eignarlóðarhafa. Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár sé eignarrétturinn friðhelgur og engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema að uppfylltum nánari skilyrðum. Byggingayfirvöld hafi því engan rétt til að skerða eignarréttindi manna, s.s. að láta einstaklingum í té ótilgreindan umferðarrétt um eignarlóð annars manns.
Staðfesting byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar frá 3. október 2007 sé markleysa og hafi ekkert lagalegt gildi gagnvart varnaraðila sem eiganda að eignarlóðinni nr. 87 við Laugaveg.
Eigendur Laugavegs 85 eigi engan rétt til umferðar um eignarlóð varnaraðila eða til þess að vera á eignarlóð hans með ökutæki eða hvers konar aðra muni. Réttur varnaraðila til þess að vera með bifreiðar sínar á eignarlóð sinni og annað sem tálmað geti umferð að lóðinni nr. 85 við Laugaveg sé ótvíræður. Þá sé réttur sóknaraðila ekki svo skýr og ótvíræður að fullnægt sé skilyrðum 78. gr. laga nr. 90/1989.
Þá byggir varnaraðili á því að sóknaraðili sé ekki einn eigandi að lóðinni nr. 85 við Laugaveg heldur sé hún í óskiptri sameign hans og Ofjarls ehf. skv. kaupsamningi dags. 20. júní 2007. Sóknaraðili standi einn að aðfararbeiðni en sameigandi, Ofjarl ehf., hefði einnig átt að standa að málinu með vísan til 18. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Í máli þessu er ágreiningur um það hvort varnaraðila, sem er eigandi lóðar nr. 87 við Laugaveg, sé heimild að hindra aðgang sóknaraðila að lóð sinni sem er nr. 85 við Laugaveg.
Í deiliskipulagi fyrir reit 1.174.1, sem fékk meðferð í samræmi við ákvæði 25. gr. skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 og samþykkt var í skipulagsráði þann 1. júní 2005 og borgarráði 9. sama mánaðar, kemur fram að á lóðinni nr. 87 við Laugaveg sé kvöð um gegnumakstur. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild stjórnartíðinda þann 11. ágúst 2005. Í bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. þann 3. október 2007, kemur fram að í kvöðinni felist að lóðarhafar verði að þola umferð annarra ökutækja um lóð sína.
Ótvírætt er því að á lóðinni nr. 87 við Laugaveg hvílir kvöð um gegnumakstur. Er þinglýsing kvaðarinnar ekki skilyrði fyrir gildi hennar, líkt og gerðarþoli heldur fram.
Þá verður ekki fallist á það með varnaraðila að með kvöð um gegnumakstur á lóð hans sé brotið gegn 72. gr. stjórnarskrár.
Varnaraðili byggir einnig á að sóknaraðili sé ekki einn eigandi lóðarinnar nr. 85 við Laugaveg, og sameigandi hans, Ofjarl ehf., hafi einnig átt að standa að málinu með vísan til 18. gr. l. nr. 91/1991.
Óumdeilt er að 18. gr. laga nr. 91/1991 eigi við um óskipta sameign. Af því leiðir þó ekki, að ávallt sé ófrávíkjanleg nauðsyn, að slíkir sameigendur eigi samaðild að höfðun máls út af sameigninni.
Í máli þessu liggur fyrir að með kaupsamningi, dags. 20. júní 2007, seldi sóknaraðili Ofjarli ehf. fasteign sína að Laugavegi 87. Kveðst sóknaraðili ekki hafa getað lokið lóðarframkvæmdum vegna hindrana varnaraðila. Í munnlegum málflutningi fyrir dóminum kom fram að málshöfðun þessi hafi verið sóknaraðila nauðsynleg svo hann geti efnt skyldur sínar gagnvart Ofjarli ehf. samkvæmt kaupsamningnum. Verður því að telja að sóknaraðila hafi verið nauðsynlegt að fá úrlausn dómstóla um umferðarréttinn burtséð frá vilja sameigenda til þátttöku í málssókn með honum. Þegar það er virt og að fyrir dóminn hefur verið lögð yfirlýsing Ofjarls ehf., dags 26. nóvember 2007, þar sem fram kemur að sóknaraðili hafi fullt umboð til málarekstursins, verður ekki talið að ákvæði 18. gr. laga nr. 91/1991 séu, eins og hér stendur á, til fyrirstöðu því að dómur verði lagður á ágreiningsefni máls þessa.
Því er það niðurstaða dómsins að vegna kvaðar um gegnumakstur á lóðinni nr. 87 við Laugaveg sé varnaraðila óheimilt að hindra umferð eiganda Laugavegar 85 inn á lóð sína. Þar sem fullnægt er skilyrðum 78. gr. laga nr. 90/1989 er því fallist á kröfur sóknaraðila um að varnaraðila, sem eiganda Laugavegar 87, verði gert að fjarlægja allar þær bifreiðar, muni eða aðrar tálmanir sem takmarka umferðarrétt gerðarbeiðanda um lóðina og þar með aðgengi gerðarbeiðanda að lóð sinni nr. 85.
Með vísan til þessarar niðurstöðu málsins verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 80.000 krónur í málskostnað.
Ekki eru efni til að mæla fyrir um heimild til fjárnáms fyrir kostnaði af væntanlegri gerð vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Varnaraðili, Hörður Jónsson, sem eigandi Laugavegar 87, skal fjarlægja allar þær bifreiðar, muni eða aðrar tálmanir sem takmarka umferðarrétt sóknaraðila, Uppsalamanna ehf., um lóðina og þar með aðgengi sóknaraðila að lóð sinni nr. 85.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 80.000 krónur í málskostnað.