Hæstiréttur íslands

Mál nr. 179/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                              

Fimmtudaginn 18. apríl 2013.

Nr. 179/2013.

Ólafur Melsted

(Jóhann H. Hafstein hrl.)

gegn

Seltjarnarneskaupstað

(Anton B. Markússon hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Ó á hendur S var vísað frá dómi en málið var til komið vegna starfsloka Ó hjá S. Talið var að krafa Ó um viðurkenningu á ólögmæti uppsagnar hans væri málsástæða fyrir annarri kröfu Ó um að viðurkennd yrði bótaskylda S vegna tjóns Ó vegna sömu uppsagnar. Yrði því ekki lagður dómur á fyrri kröfuna. Þá var Ó hvorki talinn hafa gert grein fyrir því fjárhagslega tjóni sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna starfslokanna né hvernig þau tengdust meintu einelti sem hann taldi sig hafa orðið fyrir. Einnig var í dómi Hæstaréttar tekið fram að við úrlausn málsins skipti túlkun ákvæða tiltekins kjarasamnings verulegu máli en málið hefði ekki verið reifað með tilliti til hans af hálfu Ó og hann ekki lagður fram. Braut málatilbúnaður Ó gegn e. lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvikum og málsástæðum aðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir nánar hefur sóknaraðili uppi í málinu viðurkenningarkröfur í tilefni af starfslokum hans sem framkvæmdastjóra tækni- og umhverfissviðs varnaraðila í september 2010. Málið var dómtekið 1. febrúar 2012 að loknum munnlegum málflutningi en vísað frá án kröfu með hinum kærða úrskurði.

Meginágreiningur aðila lýtur að því hvort starfslok sóknaraðila hafi þegar leitt af því að starf hans var lagt niður með samþykkt bæjarstjórnar varnaraðila 8. september 2010 um að breyta skipuriti sveitarfélagsins eða hvort sóknaraðila hafi verið sagt upp störfum með bréfi bæjarstjóra varnaraðila 14. sama mánaðar þar sem sóknaraðila var tilkynnt um hið breytta skipurit. Við úrlausn um það atriði verður sú ályktun dregin af gögnum málsins að túlkun ákvæða kjarasamnings milli launanefndar sveitarfélaga og samflots bæjarstarfsmannafélaga kunni að skipta verulegu máli, en báðir aðilar vitna til þess kjarasamnings í málatilbúnaði sínum án þess þó að leggja hann fram í málinu. Skortir á að málið sé reifað með tilliti til þessa af hálfu sóknaraðila. Þá verður ekki annað séð en að fyrri liður aðalkröfu sóknaraðila sé málsástæða fyrir síðari lið aðalkröfunnar og að á hann verði í því samhengi ekki lagður sérstakur dómur. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ólafur Melsted, greiði varnaraðila, Seltjarnarneskaupstað, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2013.

I

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 1. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ólafi Melsted, kt. 021265-3819, Frostaskjóli 73, Reykjavík, með stefnu, birtri 25. apríl 2012, á hendur Seltjarnarneskaupstað, kt. 560269-2429, Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennt verði með dómi, að uppsögn hans hjá stefnda, sem tilkynnt var með bréfi, dagsettu 14. september 2010, hafi verið ólögmæt, og í öðru lagi er þess krafizt, að viðurkennd verði bótaskylda stefnda vegna tjóns stefnanda, sem rekja má til hinnar ólögmætu uppsagnar. Til vara krefst stefnandi þess, að viðurkennt verði með dómi, að stefnda hafi verið óheimilt að haga starfslokum hans hjá stefnda á þeim grunni, sem gert var með samþykktum skipulagsbreytingum hjá stefnda 8. september 2010 og tilkynnt með bréfi bæjarstjóra stefnda, dagsettu 14. september 2010.

Þá krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati dómsins

II

Málavextir

Málavextir eru þeir, að í október 2008 hóf stefnandi störf hjá stefnda sem framkvæmdastjóri tækni- og umhverfissviðs. Hinn 1. júlí 2009, urðu bæjarstjóraskipti hjá stefnda, þegar Jónmundur Guðmarsson lét af embætti bæjarstjóra og við starfi hans tók Ásgerður Halldórsdóttir, núverandi bæjarstjóri.

Í lok janúar 2010 fór stefnandi í leyfi frá störfum vegna veikinda. Í læknisvottorði Önnu Kr. Jóhannsdóttur, dags. 26. janúar sama ár, kemur fram að hann sé með öllu óvinnufær vegna sjúkdóms. Í kjölfarið leitaði stefnandi til sálfræðings og aftur til fyrrnefnds læknis til að leita upplýsinga um veikindi sín eða sjúkdóminn og ástæður hans. Kveður stefnandi, að ráða megi af greiningum þeirra, að veikindi hans sé að rekja til eineltis, sem hann hafi mátt þola á vinnustað sínum. Kveðst stefnandi enn ekki hafa snúið aftur til starfa á almennum vinnumarkaði, samkvæmt læknisráði og ráðgjöf þeirra sálfræðinga, sem hann hafi leitað til.

Stefnandi sendi bæjarstjórn Seltjarnarness ítrekað bréf, þar sem hann kvaðst hafa verið beittur alvarlegu og ítrekuðu einelti af hálfu Ásgerðar Halldórsdóttur bæjarstjóra, og óskaði eftir því, að hið meinta einelti yrði rannsakað nánar, án árangurs. Hafi stefnandi því óskað eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur, að dómkvaddir yrðu matsmenn til að fá úr því skorið hvort hann hefði orðið fyrir einelti á vinnustað af hálfu bæjarstjóra, og hverjar væru orsakir og afleiðingar, sem slíkt einelti kynni að hafa í för með sér á heilsu hans og líðan. Í þinghaldi þann 15. október voru dómkvaddir sálfræðingarnir Jón Benedikt Björnsson og Sveina Berglind Jónsdóttir. Er matsgerð þeirra dagsett 2. marz 2011. Telur stefnandi niðurstöðu matsmanna sanna, að hann hafi orðið fyrir einelti af hálfu bæjarstjórans, sem hafi haft áhrif á líðan hans og heilsu.

Í september 2010 barst stefnanda bréf frá bæjarstjóra stefnda, dags. 14. september 2010. Þar kemur meðal annars fram, að á fundi bæjarstjórnar stefnda þann 8. september 2010 hafi verið samþykkt tillaga að nýju skipuriti sveitarfélagsins, sem skyldi taka gildi 1. október sama ár. Þar kemur jafnframt fram, að breytingar á skipuriti feli í sér, að störf núverandi framkvæmdastjóra verði lögð niður. Í bréfinu er stefnanda síðan tilkynnt, að breytingar verði gerðar á starfsskyldum hans frá 30. september 2010 og að ekki sé farið fram á vinnuframlag af hans hálfu frá þeim degi.

Stefnandi kveður sér ekki hafa verið ljóst, hvort verið væri að leggja niður stöðu hans án endurráðningar, eða hvort væri verið að segja honum upp störfum hjá stefnda. Með bréfi til bæjarstjórnar stefnda, dags. 28. september 2010, var óskað nánari skýringa á því, sem og hver væri tilgangur skipulagsbreytinganna, þar sem honum hafi virzt sem einn megin tilgangur nýja skipuritsins hafi verið að leggja niður þáverandi stöðu hans sem framkvæmdastjóra tækni- og umhverfissviðs. Í bréfinu var þess síðan krafizt, að bæjarstjórn afturkallaði ákvörðun sína um að leggja niður stöðu hans. Með svarbréfi lögmanns stefnda, dags. 4. október, var kröfu stefnanda hafnað.

Stefnandi beindi í kjölfarið kæru til innanríkisráðuneytisins vegna þess að staðið hefði verið að uppsögn hans hjá stefnda með ólögmætum hætti. Í úrskurði ráðuneytisins var komizt að þeirri niðurstöðu, að ákvörðun stefnda um niðurlagningu stöðu stefnanda hefði farið í bága við 1. mgr. 56. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga og því verið ólögmæt.

Með bréfi stefnanda til stefnda, dags. 26. marz 2012, óskaði stefnandi eftir afstöðu stefnda til framangreindrar niðurstöðu innanríkisráðuneytisins og hvort stefndi viðurkenndi bótaskyldu. Með bréfi, dags. 11. apríl sama ár, hafnaði stefndi bótaskyldu og vísaði um það til bókunar, sem lögð var fram af hálfu meirihluta bæjarstjórnar á fundi bæjarstjórnar þann 14. marz 2012, en þar kemur meðal annars fram, að ekki yrði aðhafzt af hálfu stefnda vegna úrskurðar innanríkisráðuneytisins.

Stefndi lýsir samskiptum stefnanda og Ásgerðar Halldórsdóttur svo, að hinn 26. október 2009, þremur mánuðum eftir að Ásgerður Halldórsdóttir tók við sem bæjarstjóri, hafi hún kallað stefnanda á sinn fund til að fá skýringar á því, hvers vegna hann hefði farið með trúnaðarsamtal þeirra á fund umhverfisnefndar bæjarins 22. sama mánaðar, þar sem skipulagsáætlun bæjarins var kynnt, og jafnframt gert henni upp skoðanir varðandi framtíðarskipulag bæjarins. Á fundinum hafi hún gert athugasemdir við háttalag og framgöngu stefnanda í starfi. Tveimur dögum eftir fundinn hafi borizt bréf frá lögmanni stefnanda, stílað á bæjarstjóra, þar sem skorað hafi verið á hana að afhenda skriflegt eintak áminningar, sem stefnandi hafi talið hana hafa veitt honum á fundinum. Bæjarstjóri hafi ekki talið umrætt tiltal undanfara uppsagnar í skilningi kjarasamnings, og hafi hún því ekki orðið við áskorun stefnanda.

Stefndi kveður ýmsar vísbendingar hafa komið fram á þessu tímamarki um, að vilji stefnanda stæði ekki lengur til að starfa áfram í þágu stefnda og bendir á, að í árslok 2009 og upphafi árs 2010 hafi stefnandi sótt um nokkur störf. Með bréfi dags. 18. janúar 2010, sem var stílað á forseta bæjarstjórnar stefnda, Jónmund Guðmarsson, hafi stefnandi óskað eftir því við bæjarstjórn, að gengið yrði til viðræðna um starfslok hans hjá stefnda. Samkvæmt ákvæðum ráðningarsamnings og kjarasamnings hafi stefnandi átt rétt á launum í þrjá mánuði.

Stefndi hafi orðið við beiðni stefnanda um viðræður um starfslok, og hafi bæjarstjórn stefnda samþykkt að fela forseta bæjarstjórnar og fyrrverandi bæjarstjóra, Jónmundi Guðmarssyni, og Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra að leiða viðræðurnar fyrir sína hönd. Stuttu síðar hafi Ásgerður sagt sig frá málinu og eftirlátið Jónmundi og lögmanni bæjarins að leiða það til lykta.  

Viðræður, jafnt formlegar sem óformlegar, um starfslok stefnanda hafi verið í gangi næstu vikur og mánuði. Með bréfi stefnanda, dags. 7. apríl 2010, hafi þótt ljóst, að samkomulag myndi ekki nást um starfslok stefnanda hjá stefnda. Ástæða þess, að samningaviðræður sigldu í strand, hafi verið sú, að stefnandi hafi gert óraunhæfar og fráleitar kröfur, þ.e. um laun í tvö ár, en stefndi hafi ekki getað orðið við þeirri kröfu.

Hinn 26. janúar 2010, um viku eftir að stefnandi fór fram á viðræður um starfslok sín hjá stefnda, hafi hann mætt á vinnustað og tilkynnt, að það færi bezt á því, að hann færi í veikindafrí. Við svo búið hafi hann yfirgefið vinnustaðinn og hafi ekki mætt til vinnu síðan.

Tæpum mánuði síðar hafi stefnda borizt læknisvottorð, undirritað af heimilislækni stefnanda, þar sem fram hafi komið, að stefnandi væri óvinnufær með öllu ótímabundið vegna sjúkdóms, án frekari skýringa. Í kjölfarið hafi kröfugerð stefnanda breytzt í þá veru, að hann hafi krafizt þess að fá greitt veikindaleyfi rúma fimm mánuði ofan á 24 mánuði, sem hann hafi áður krafizt í laun. Næstu mánuði á eftir hafi stefnandi sent endurnýjun á vottorði, þar sem fram komi sömu upplýsingar og í upphaflega vottorðinu. Á þessu hafi orðið breyting í júlí 2010, en þá hafi stefnandi sent inn nýtt vottorð, dags. 14. júlí 2010, þar sem fram hafi komið í fyrsta skipti, að hann væri haldinn atvinnusjúkdómi. Hvergi komi fram í vottorðinu, að stefnandi hafi orðið fyrir einelti á vinnustað. Þá komi heldur ekki fram, hvaða einkenni leiði til algjörrar óvinnufærni. Þá hafi viðkomandi læknir ekki tilkynnt atvinnusjúkdóm stefnanda til vinnueftirlitsins í samræmi við ákvæði 79. gr. laga nr. 46/1980 fyrr en um haustið 2010.

Stefndi kveður hafa verið tekna ákvörðun árið 2009 um að ráðast í stjórnkerfisbreytingar innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Ráðgjafarfyrirtækinu Capacent hf. hafi verið falið að skoða stjórnskipulag stefnda, bera það saman við nokkur sambærileg sveitarfélög, Mosfellsbæ og Vestmannaeyjar, og gera á þeim grunni tillögur að úrbótum eða breytingum á stjórnskipulagi stefnda miðað við rekstrarumhverfi bæjarins næstu árin. Hafi ítarleg fagleg vinna átt sér stað til grundvallar fyrirhuguðum stjórnkerfisbreytingum. Lykilorðið í nýju skipuriti hafi verið samvinna, meiri skilvirkni og sveigjanleiki.

Capacent hafi skilað skýrslu sinni í ágúst 2010. Meðal helstu niðurstaðna hafi verið tillaga um innleiðingu á svokölluðu „flötu skipulagi“ en megineinkenni þess sé dreifstýring. Lagt hafi verið til, að starfsemi sveitarfélagsins yrði skipt upp í a.m.k. sex verkefnasvið og að störf þáverandi framkvæmdastjóra, þ. á m. stefnanda, yrðu lögð niður.

Á fundi 8. september 2010 hafi meirihluti bæjarstjórnar stefnda samþykkt nýtt skipurit fyrir stjórnsýslu bæjarins, en samkvæmt því hafi verið gerðar grundvallarbreytingar á stjórnskipulagi Seltjarnarnesbæjar. Hafi hið nýja skipurit öðlazt gildi 1. október sama ár. Í því hafi, auk annars, falizt, að stöður allra framkvæmdastjóra sviða bæjarins hafi verið lagðar niður og nýjar stöður sviðstjóra stofnaðar. Á þessum tíma hafi stefnandi verið framkvæmdastjóri Tækni- og umhverfissviðs bæjarins. Líkt og stöður annarra framkvæmdastjóra hafi staða hans verið lögð niður með innleiðingu nýs skipurits. Hafi þeim verið tilkynnt ákvörðunin í bréfi, dags. 14. september 2010. Að auki hafi verið gerð grein fyrir réttarstöðu hvers og eins í skilningi kjarasamnings. Í tilviki stefnanda hafi háttað svo til, að hann hafi átt rétt á launum í þrjá mánuði.

Í kjölfar gildistöku nýs skipurits hafi stefndi auglýst laus til umsóknar störf fjögurra sviðstjóra. Vegna fjárskorts í kjölfar efnahagskreppunnar hafi þótt einsýnt, að verkefni á sviði skipulags- og byggingarmála yrðu afar takmörkuð næstu misseri og ár. Hafi því verið ákveðið að bíða með ráðningu byggingarfulltrúa. Þess í stað hafi vinna, sem tengzt hafi málaflokknum og þolað enga bið, s.s. nauðsynlegar viðhaldsaðgerðir, verið keypt af verktökum Þá hafi einnig verið tekin sú ákvörðun að ráða ekki í starf menningarfulltrúa, heldur hafi verkefni, sem hann áður sinnti, verið færð til innan sviða bæjarins. Enn hafi ekki verið ráðið í umræddar stöður.

Í bréfi, dags. 2. febrúar 2010, hafi fyrst komið fram ásakanir stefnanda á hendur Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra stefnda um, að hún hefði lagt stefnanda í einelti. Ásökunum hafi verið mótmælt sem röngum og órökstuddum. Það hafi ekki verið fyrr en með framlagningu matsbeiðni stefnanda í júlí 2010, sem lýsingar á hinu meinta einelti hafi fyrst komið fram. Fram til þess tíma hafi stefnandi, þrátt fyrir ítrekaða eftirgangsmuni og áskoranir, ekki reynzt fáanlegur til að lýsa í hverju eineltið hafi falizt. Það sé því alrangt, sem fullyrt sé í stefnu, að matsmálið verði rakið til aðgerðarleysis stefnda. Sannleikur málsins sé sá, að á fundi, sem stefnandi hafi átt með trúnaðarlækni stefnda 30. marz 2010, hafi sá síðarnefndi ráðlagt stefnanda að koma málinu í eðlilegan farveg með aðkomu sérfróðra aðila á þessu sviði. Þeirri tillögu hafi stefnandi hafnað og kosið heldur að höfða umrætt matsmál.

Með bréfi, dags. 28. september 2010, hafi stefnandi krafizt þess, að bæjarstjórn stefnda afturkallaði ákvörðun sína um að leggja niður stöðu stefnanda. Í bréfi, dags. 4. október sama ár, hafi stefndi hafnað kröfu stefnanda. Í kjölfarið hafi stefnandi beint stjórnsýslukæru til innanríkisráðuneytisins, sem hafi komizt að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum hinn 22. febrúar 2012, að ákvörðun um niðurlagningu á starfi stefnanda hefði farið í bága við 1. mgr. 56. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og því verið ólögmæt.

III

Málsástæður stefnanda

Aðalkrafa

Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á því, að uppsögn hans hjá stefnda hafi verið ólögmæt, í fyrsta lagi á því, að hún hafi ekki verið í samræmi við ákvæði þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Uppsögn hans og ákvörðun um niðurlagningu stöðu hans og málsmeðferð, hvað hana varði, þ.m.t. tilkynning og ákvörðun um starfslok, hafi farið í bága við 1. mgr. 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og góða stjórnsýsluhætti.

Í samþykkt bæjarstjórnar varðandi skipulagsbreytingar þær, sem samþykktar hafi verið 8. september 2010, sé hvergi getið um, hvort breytingarnar hefðu í för með sér starfslok stefnanda hjá stefnda. Bæjarstjórn hafi enga ákvörðun tekið, eða fjallað um, hvenær ákvörðun um niðurlagningu stöðu stefnanda tæki gildi, við hvaða dagsetningu ætti að miða og hvenær stefnandi ætti að láta af störfum. Bæjarstjórn hafi því enga formlega ákvörðun tekið um starfslok stefnanda hjá stefnda. Breyti engu, þótt þáverandi starf stefnanda hafi verið lagt niður. Sé hér um verulegan ágalla að ræða m.t.t. þess, að bæjarstjóri hafi tilkynnt stefnanda um starfslok hans, án atbeina bæjarstjórnar. Í reynd sé það svo, að bæjarstjóri virðist hafa talið sig hafa haft einhvers konar vald til að túlka samþykktina á þann veg, að breytingarnar fælu í sér starfslok stefnanda hjá stefnda, sbr. bréf bæjarstjóra til stefnanda, dags. 14. september 2010. Þessa ákvörðun, um að tilkynna stefnanda um starfslok, hafi bæjarstjóri tekið einhliða og án nokkurs samráðs við bæjarstjórn, þrátt fyrir að það hafi einvörðungu verið á færi bæjarstjórnar að veita stefnanda lausn frá starfi og kveða á um, hvernig starfslokum hans skyldi háttað, sbr. 1. mgr. 56. gr. sveitarstjórnarlaga. Á því sé byggt, að uppsögn stefnanda brjóti í bága við fyrrgreint ákvæði laganna, þar sem bæjarstjórn stefnda hafi ein verið bær til að leysa hann frá störfum.

Stefnandi vísi í öðru lagi til fyrirliggjandi úrskurðar innanríkisráðuneytisins frá 22. febrúar 2012, þar sem ráðuneytið hafi einmitt leyst úr þessu sama ágreiningsefni. Með úrskurði ráðuneytisins hafi verið komizt að þeirri skýru niðurstöðu, að ákvörðun stefnda um niðurlagningu stöðu stefnanda og uppsögn í kjölfarið hafi farið í bága við 1. mgr. 56. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga og því verið ólögmæt. Í rökstuðningi með úrskurðinum sé í fyrsta lagi vísað til þess, að hvergi í samþykkt bæjarstjórnar frá 8. september 2010 komi fram, að ráðningarsamningi stefnanda hafi verið sagt upp. Þá sé til þess vísað, að af ákvæði 56. gr. sveitarstjórnarlaga sé ljóst, að það sé eingöngu sveitarstjórn, sem geti veitt lausn frá störfum, ef um er að ræða stjórnunarstöður, líkt og stefnandi hafi gegnt hjá stefnda. Síðan segi, að þótt staða stefnanda hafi verið lögð niður, hafi það ekki sjálfkrafa falið í sér, að ráðningarsamningi hans hafi jafnframt verið sagt upp. Þar sem uppsögn stefnanda hafi farið í bága við 1. mgr. 56. gr. sé hún ólögmæt.

Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst, að starfslok stefnanda eigi sér aðeins stoð í ákvörðun bæjarstjóra, sem honum hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 14. september 2010. Tilkynning bæjarstjóra til stefnanda hafi því brotið gróflega í bága við 1. mgr. 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og verið í andstöðu við góða stjórnsýsluhætti.

Stefnandi byggir einnig á því, að uppsögn úr starfi hjá stefnda, með bréfi dagsettu 14. september 2010, hafi verið ólögmæt, þar sem engin málefnaleg sjónarmið hafi legið að baki uppsögninni, og hafi hún því brotið gróflega í bága við réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins.

Stefnandi vísar til greinar 11.1.6.1 í kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga og samflots bæjarstarfsmannafélaga, sem gilt hafi til 30. nóvember 2010. Sé þar sérstaklega kveðið á um, að óheimilt sé að segja starfsmanni upp, án málefnalegra ástæðna. Stefnandi byggir á því, hvernig svo sem litið sé á starfslok hans hjá stefnda, að engar málefnalegar ástæður hafi legið að baki uppsögn hans eða þeirri einhliða ákvörðun bæjarstóra, að ekki væri lengur óskað starfskrafta stefnanda. Ekkert liggi fyrir um tilgang og markmið þeirra skipulagsbreytinga, sem stefndi hafi vísað til vegna uppsagnar stefnanda.

Stefnandi vísi til þess, að í bréfi bæjarstjóra, dags. 14. september 2010, sé engan rökstuðning að finna fyrir uppsögn hans og þeirri íþyngjandi ákvörðun stefnda, að ekki væri óskað eftir áframhaldandi starfskröftum stefnanda, hvorki í nýju starfi né öðru starfi hjá stefnda. Þá sé heldur ekki, í bréfi frá lögmanni stefnda, dags. 4. október 2010, að finna nein haldbær rök fyrir uppsögninni, þrátt fyrir það að stefnandi hafi óskað eftir því með bréfi, dags. 28. september 2010. Stefndi hafi því ekki veitt rökstuðning í samræmi við rétt stefnanda í þeim efnum, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá vísar stefnandi einnig til þess, að á sama tíma og bæjarstjóri hafi sent honum bréf með tilkynningu um uppsögn, hafi verið rekið matsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að fá úr því skorið, hvort bæjarstjóri hafi lagt stefnanda í einelti. Líkt og nú hafi verið staðreynt af dómkvöddum matsmönnum, tveimur sálfræðingum, hafi stefnandi verið lagður í einelti á vinnustað sínum af hálfu bæjarstjóra. Matsmenn hafi talið, að þær breytingar til hins verra á líðan, högum og heilsu stefnanda sé að rekja til háttsemi bæjarstjórans. Þá hafi bæjarstjóri látið þau orð falla í viðurvist bæjarstjórnarmanna að hún ætli sér að gera allt til að koma stefnanda úr starfi, jafnvel leggja starf hans niður ef svo bæri undir.

Þá byggir stefnandi á því, að brotið hafi verið gegn andmælarétti hans, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hafi einhliða ákvörðun bæjarstjóra stefnda um starfslok stefnanda því verið ólögmæt. Stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að tala máli sínu, áður en honum hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 14. september 2010, að ekki væri lengur óskað starfskrafta hans, þrátt fyrir að bæjarstjórn hafi aldrei fjallað um, eða tekið einhverja ákvörðun um, starfslok stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að vegna hinnar ólögmætu uppsagnar eigi hann rétt á bótum úr hendi stefnda og sé af þeirri ástæðu krafizt viðurkenningar á bótaskyldu stefnda. Bótaskylda stefnda taki þá mið af tjóni stefnanda, sem rekja megi til þeirrar ólögmætu háttsemi stefnda sem að framan greini.

Stefnandi hafi sannanlega orðið fyrir verulegu fjártjóni. Í þeim efnum vísi stefnandi aðallega til þess, að hann hafi orðið fyrir tekjutapi. Þá megi einnig nefna, að hin ólögmæta uppsögn hafi valdið honum tjóni, sem rekja megi til útlagðs kostnaðar, s.s. kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar, málshöfðunar, kvörtunar til ráðuneytisins o.fl.

Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því, að dómstóll skeri úr um það, hvort staðið hafi verið að uppsögn hans með lögmætum hætti. Stefnandi vísi til þess, að það sé engum vafa undirorpið, að hann hafi orðið fyrir tjóni, sem rekja megi beint til starfsmissisins, sér í lagi, ef fallist verði á, að um ólögmæta uppsögn hafi verið að ræða. Þá hafi stefnandi orðið fyrir miska.

Um heimild til að krefjast viðurkenningar á bótaskyldu vísi stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um viðurkenningu á bótaskyldu sé sett fram í ljósi þess, að enn í dag sé óljóst, hvert sé endanlegt tjón stefnanda og hver sé endanlegur miski hans vegna hinnar ólögmætu uppsagnar. Slíkt haldist í hendur við heilsu hans og líðan vegna þess eineltis, sem hann hafi orðið fyrir á vinnustað sínum hjá stefnda og hafi verið staðreynt af dómkvöddum matsmönnum. Stefnandi sé enn óvinnufær vegna atvinnusjúkdóms og sé í reglulegri meðferð hjá sálfræðingi.

Varakrafa

Stefnandi krefst þess til vara, að viðurkennt verði með dómi, að stefnda hafi verið óheimilt að haga starfslokum hans hjá stefnda á þeim grunni, sem gert hafi verið með samþykktum skipulagsbreytingum 8. september 2010 og tilkynnt með bréfi bæjarstjóra stefnda, dags. 14. september 2010. Varakrafa stefnanda sé reist á öllum sömu málsástæðum og aðalkrafa að breyttu breytanda.

Varakrafan markist af því, að hún taki mið af því, að skipulagsbreytingar hjá stefnda, sem samþykktar hafi verið af bæjarstjórn 8. september 2010, hafi einungis verið yfirskin til þess að bola stefnanda úr starfi. Því sé um að ræða dulbúna og ómálefnalega brottvikningu úr starfi hjá stefnda.

Stefnandi vísar annars vegar til þess, að í samþykkt bæjarstjórnar varðandi skipulags­breytingar þær, sem samþykktar hafi verið 8. september 2010, sé hvergi getið um það, hvort breytingarnar hefðu í för með sér starfslok stefnanda hjá stefnda. Hins vegar sé vísað til þess, hvað varði sjónarmið um ólögmæt starfslok, enda verði litið svo á, að staða stefnanda sem framkvæmdastjóra hafi verið lögð niður og að hið nýsamþykkta skipulag hafi verið gert til málamynda í því skyni að bola stefnanda úr starfi sínu sem framkvæmdastjóra tækni- og umhverfissviðs. Stefndi hefur aldrei fært fram nein haldbær rök fyrir breytingunum, eða hvert hafi verið raunverulegt markmið þeirra. Stefnandi bendi enn og aftur á, að hið nýsamþykkta skipulag stefnda hafi tekið afar litlum breytingum, að undanskilinni þeirri breytingu, að heitinu „framkvæmdastjóri“ hafi verið breytt í annað heiti, og að verkefnasviðin hafi fengið ný heiti.

Stefnandi bendi sérstaklega á, að staða hans, eða sambærileg staða, hafi ekki enn verið auglýst til umsóknar, þegar mál þetta sé höfðað, þrátt fyrir að búið sé að ráða í aðrar stöður yfirmanna á starfssviðum hjá stefnda, eins og þær séu skilgreindar í nýju skipuriti. Þeir framkvæmdastjórar, sem hafi starfað hjá stefnda, þegar skipulaginu var breytt og störf þeirra lögð niður, hafi allir verið endurráðnir strax, að undanskildum Óskari Sandholt, en gerður hafi verið við hann sérstakur starfslokasamningur. Telji stefnandi þetta ótvíræða staðfestingu á því, að um sé að ræða dulbúna brottvikningu, þ.e. að títtnefndar skipulagsbreytingar hafi aðeins verið yfirskin til þess að koma stefnanda úr starfi, og aðrar ástæður liggi raunverulega að baki. Sé í þeim efnum einnig bent á, að dómkvaddir matsmenn hafi nú staðreynt, að bæjarstjóri hafi lagt stefnanda í einelti, þegar hann starfaði hjá stefnda.

Um lagarök sé aðallega vísað til sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglna stjórnsýsluréttar, s.s. um góða stjórnsýsluhætti, réttmætisreglunnar og andmælaréttar, sem og til skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá sé vísað til 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi viðurkenningarkröfu stefnanda. Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður stefnda

Stefndi kveður það vera meginmálsástæðu sína, að rétt hafi verið staðið að niðurlagningu á starfi stefnanda og ákvörðun þar um hafi verið að öllu leyti í samræmi við lög og stjórnvaldsreglur.

Í ársbyrjun 2009 hafi þáverandi fjármálastjóra stefnda verið falið að leita leiða til að hagræða í rekstri, sem heyrði undir bæjarskrifstofuna. Ráðgjafarfyrirtæki, með sérhæfingu á þessu sviði, hafi verið fengið til að gera tillögur, og hafi tilgangur og markmið þeirrar vinnu verið að ná utan um verklag, styrkja þjónustu bæjarins og ná fram betri nýtingu á fjármunum þess. Tækni- og umhverfissvið bæjarins hafi einnig verið skoðað með sama hætti. Skráning verkferla hafi leitt af sér tillögur að sparnaði og hagræðingu, sem kynntar hafi verið í fjárhags- og launanefnd stefnda í lok árs 2009. Í marz 2010 hafi bæjarstjórn stefnda falið ráðgjafarfyrirtækinu Capacent hf. að skoða skipulag bæjarins og bera það saman við sambærileg sveitarfélög með það fyrir augum að gera tillögur að úrbótum eða breytingum á stjórnskipulaginu.

Í skýrslu, sem Capacent hf. skilaði til bæjarstjórnar í byrjun septembermánaðar 2010, hafi verið lagt til, að stjórnskipulagi bæjarins yrði breytt á þá leið, að í stað þrepaskipts stjórnskipulags skyldi tekið upp svokallað „flatt“ skipulag. Nánar tiltekið hafi falizt í tillögum Capacent, að starfsemi sveitarfélagsins skyldi skipt upp í sex verkefnasvið og störf allra framkvæmdastjóra yrðu lögð niður. Samhliða skyldu gerðar breytingar á innri starfsemi stjórnsýslunnar og tilfærsla yrði á verkþáttum milli sviða. Meðal helstu breytinga, sem falizt hafi í hinu „flata“ skipulagi, hafi verið sú tilhögun, að unnt væri að fela einstökum starfsmönnum verkefnastjórn á tilteknu verkefni tímabundið, þvert á sviðin.

Tillaga Capacent hf. um nýtt skipulag hafi verið tekin til meðferðar og afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar 8. september 2010. Hafi tillagan verið samþykkt með fimm atkvæðum meirihlutans gegn tveimur atkvæðum minnihlutans. Á fundinum hafi meirihlutinn lagt fram svohljóðandi bókun.

Meirihluti sjálfstæðismanna vill lýsa ánægju sinni með nýtt skipurit bæjarins. Lykilorðið í nýja skipuritinu er samvinna, breytingin hefur í för með sér meiri skilvirkni og sveigjanleika. Stjórnsýslan verður betur í stakk búin til þess að takast á við ný verkefni sem geta komið skyndilega upp, að öðru leyti er vísað til greinargerða með breytingum á skipuriti stjórnsýslunnar. Með þessum breytingum er talið að ná megi fram umtalsverðri hagræðingu. Breytingarnar hafa það að markmiði að auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri og starfsemi bæjarins.

Í kjölfar ákvörðunar bæjarstjórnar stefnda hafi öllum þeim fimm framkvæmdastjórum, sem hlut áttu að máli, þ. á m. stefnanda, verið send tilkynning um niðurlagningu á störfum þeirra og kjarasamningsbundinn rétt þeirra til launa á uppsagnarfresti, sbr. bréf bæjarstjóra til stefnanda, dags. 14. september 2010.

Á grundvelli sjálfsákvörðunarréttar stefnda, sem varinn sé af ákvæði 78. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sé honum í sjálfsvald sett að gera hverjar þær breytingar á stjórnkerfi og stjórnskipulagi bæjarins, sem hann telji þjóna hagsmunum, jafnt sveitarfélagsins sem íbúum þess, bezt. Að sjálfsögðu beri sveitarfélögum að gæta fyllsta réttar starfsmanna sinna við innleiðingu stjórnkerfisbreytinga í þeim tilvikum, er þær hafi í för með sér niðurlagningu á störfum viðkomandi. Slíkt hafi stefndi gert við niðurlagningu á störfum framkvæmdastjóranna.

   Stefnandi haldi því fram, að bæjarstjóri hafi tekið einhliða ákvörðun um niðurlagningu á starfi stefnanda og það án nokkurs samráðs við bæjarstjórn. Það sé augljóst, að stefnandi kjósi vísvitandi að horfa fram hjá þeirri staðreynd, að með innleiðingu nýs skipurits hafi vitanlega falizt ákvörðun bæjarstjórnar um niðurlagningu starfa framkvæmdastjóra frá og með 1. október 2010 eða sama tíma og nýja skipuritið tók gildi. Hvernig stefnandi fái það út, að bæjarstjóri hafi tekið einhliða ákvörðun um niðurlagningu á störfum framkvæmdastjóranna, sé stefnda með öllu fyrirmunað að skilja. Vitaskuld hafi bæjarstjóri ekki tekið ákvörðun um slíkt, heldur hafi það verið ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar. Svo öllu sé haldið rétt til haga sé ljóst af framlagðri fundargerð fjárhags- og launanefndar stefnda, dags. 2. september 2010, sem samþykkt hafi verið á fundi bæjarstjórnar 8. september 2010, að bæjarstjóra hafi verið falið að undirbúa málið. Tilkynning bæjarstjóra til stefnanda, dags. 14. september 2010, í kjölfar ákvörðunar bæjarstjórnar um innleiðingu nýs skipurits, sem hafi falið í sér niðurlagningu á stöðu hans, hafi því verið í umboði bæjarstjórnar og fyllilega eðlileg. Með öllu sé óhugsandi að túlka tilkynningu bæjarstjóra um niðurlagningu starfs svo, að í henni hafi falizt einhliða ákvörðun bæjarstjóra um uppsögn ráðningarsamnings.

Ljóst sé, að í hinu nýja skipuriti hafi falizt niðurlagning á stöðum allra framkvæmdastjóra hjá sveitarfélaginu samkvæmt eldra skipulagi. Þetta atriði hafi verið rætt á fundi bæjarstjórnar, sbr. fundargerð af fundinum og tilvísun til greinargerðar með breytingum á skipuriti stjórnsýslunnar. Allir bæjarfulltrúar hafi því verið meðvitaðir um, að með samþykki hins nýja skipurits hafi falizt ákvörðun um að leggja niður umræddar stöður framkvæmdastjóra. Fullyrðing stefnanda um annað sé augljós útúrsnúningur og eftiráskýring.

Á því sé byggt, að ákvörðun um niðurlagningu á störfum allra framkvæmdastjóranna hafi verið almenns eðlis, þ.e. náð til allra framkvæmdastjóra hjá stefnda, alls fimm talsins, en hafi ekki varðað stefnanda eingöngu, líkt og hann haldi sjálfur fram. Um heildarendurskoðun hafi verið að ræða á stjórnsýslu stefnda, en ekki einvörðungu sérstaka breytingu á starfi stefnanda. Nánar sé á því byggt, að ákvörðunin hafi verið nauðsynleg til að ná markmiðum hins nýja skipurits. Stefndi haldi því staðfastlega fram, að innleiðing skipurits og ákvörðun um niðurlagning á störfum framkvæmdastjóranna hafi grundvallazt á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi.

Til viðbótar sé á því byggt, að ákvörðun um niðurlagningu á störfum framkvæmdastjóra, þ. á m. stefnanda, hafi ekki farið í bága við ákvæði 1. mgr. 56. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Stefnandi, líkt og aðrir framkvæmdastjórar, hafi verið í starfi sínu hjá stefnda í Starfsmannafélagi Seltjarnarnesbæjar, sem er stéttarfélag skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Um kaup og kjör stefnanda sem starfsmanns Seltjarnarnesbæjar hafi því farið eftir kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga. Í 11. kafla þess kjarasamnings sé fjallað um réttindi og skyldur starfsmanna og þar sérstaklega vísað til þess, hvernig um réttindi starfsmanna skuli fara í þeim tilvikum, þegar störf eru lögð niður. Af framansögðu leiði, að ákvörðun bæjarstjórnar hafi verið fyllilega í samræmi við ákvæði þágildandi sveitstjórnarlaga, sbr. 56. og 57. greinar laganna sem og ákvæði kjarasamninga. Af hálfu stefnda sé á því byggt, að ákvæði kjarasamnings séu skýr um það, hvað felist í niðurlagningu starfs. Niðurlagning starfs hafi óhjákvæmilega í för með sér slit á ráðningarsamningi, nema til komi önnur ákvörðun um ráðningu í nýtt starf. Stefnandi vísi til úrskurðar ráðuneytisins varðandi meint brot stefnda á þágildandi sveitarstjórnarlögum. Stefndi lýsi sig alfarið ósammála niðurstöðu ráðuneytisins og telji rökstuðning þess ekki standast skoðun. Þess alvarlega misskilnings virðist gæta hjá ráðuneytinu, að eftir að bæjarstjórn tók ákvörðun um að leggja niður stöðu stefnanda, hafi henni verið fært, með vísan til meðalhófsreglu, að færa stefnanda til í starfi, án þess að til þess kæmi að gildandi ráðningarsamningi hans sem framkvæmdastjóra yrði sagt upp. Að mati stefnda fái þessi ályktun ráðuneytisins ekki staðizt. Því til stuðnings sé bent á, að sé ákvörðun tekin af hálfu bæjarstjórnar um að leggja niður stöðu stefnanda, sé eðli málsins samkvæmt ekki hægt að færa hann til í starfi og ráða í nýtt starf, án þess að segja uppi fyrri ráðningarsamningi og gera við hann nýjan. Þar af leiðandi sé óhjákvæmilegt annað en að telja, að með gildri samþykkt bæjarstjórnar á skipuritinu, sem falið hafi í sér niðurlagningu á stöðu stefnanda, hafi bæjarstjórn tekið ákvörðun um starfslok hans sem framkvæmdastjóra. Undirstrikað skuli, að ráðuneytið hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að skipulagsbreytingar hafi verið almenns eðlis, en ekki hafi verið um ræða sérstaka breytingu, er varðað hafi stefnanda eingöngu.

Stefndi mótmæli alfarið sem rakalausri þeirri fullyrðingu stefnanda, að skipulags­breytingar, sem innleiddar hafi verið í stjórnsýslu stefnda, hafi verið til málamynda í því skyni að bola stefnanda úr starfi, eins og segi í stefnu. Sem fyrr greini hafi breytingarnar verið almenns eðlis og varðað grundvallaruppbyggingu á starfsemi sveitarfélagsins en ekki einvörðungu starf stefnanda. Þá telji stefndi ástæðu til að mótmæla sérstaklega sem órökstuddum og ósönnuðum ummælum, sem stefnandi telji, að bæjarstjóri hafi látið falla í viðurvist bæjarstjórnarmanna, „að hún ætli sér að gera allt til að koma stefnanda úr starfi, jafnvel leggja starfs hans niður ef svo ber undir“. Að mati stefnda sé ásökun stefnanda sérlega meiðandi og feli í sér aðdróttun í garð bæjarstjórans. Í ljósi þess, hversu alvarleg ásökunin sé, verði að gera þá kröfu til stefnanda, að hann styðji hana áþreifanlegum sönnunargögnum. Eins og málatilbúnaði stefnanda sé háttað, vegi hann alvarlega að starfsheiðri og æru bæjarstjóra. Verður að átelja stefnanda fyrir að ráðast með svo ómaklegum hætti að persónu bæjarstjóra líkt og gert er í stefnu. Að sjálfsögðu eigi bæjarstjóri ekki aðild að málinu persónulega, heldur starfi hann sem framkvæmdastjóri stefnda í umboði bæjarstjórnar.

Þá sé umfjöllun í stefnu um endurráðningar annarra framkvæmdastjóra í störf í bezta falli villandi. Stefndi bendi á, að innleiðing nýs skipurits og niðurlagning á störfum á grundvelli þess sé algerlega aðskilið því ferli, sem fari af stað, þegar ráðið sé í nýjar stöður samkvæmt nýju skipuriti. Hinar nýju stöður samkvæmt skipuriti, störf sviðstjóra, hafi verið í samræmi við reglur stefnda um mannaráðningar, auglýstar opinberlega, bæði í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Í kjölfarið hafi afar vandað og fagmannlegt ráðningarferli farið af stað, m.a. með gerð hæfnismats og viðtölum. Enda þótt tveir af fimm fyrrverandi framkvæmdastjórum hafi verið ráðnir til stefnda, geti það aldrei talizt staðfesting þess, að niðurlagning á störfum þeirra hafi verið yfirskin til að bola stefnanda úr starfi, líkt og haldið sé fram í stefnu. Umræddir einstaklingar hafi sótt um hinar nýju stöður, eins og hverjir aðrir umsækjendur hafi gert og á nákvæmlega sömu forsendum. Niðurstaðan hafi verið sú, að þeir hafi talizt hæfastir til að gegna starfinu. Lögð sé áherzla á, að þeir hafi verið ráðnir til stefnda með önnur starfsheiti, breyttu verksviði og á öðrum starfskjörum.

Stefndi vísi því alfarið á bug, að einstakar efnisreglur stjórnsýsluréttarins hafi verið brotnar við innleiðingu nýs skipurits og niðurlagningu á störfum framkvæmdastjóra. Hvað réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins varði, árétti stefndi það sjónarmið, að ákvörðun um stjórnkerfisbreytingar og niðurlagningu á störfum hafi grundvallazt á málefnalegum og lögmætum forsendum. Ákvörðunin hafi varðað hagræðingu innan stjórnsýslunnar og hafi verið tekin til að auka skilvirkni í starfsemi sveitarfélagins. Hún hafi verið almenns eðlis en ekki beinzt að stefnanda persónulega. Samkvæmt framansögðu sé það eindregin skoðun stefnda, að hann hafi í einu og öllu gætt málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar í tengslum við ákvörðun bæjarstjórnar, og sé staðhæfingum stefnanda, sem fram komi í stefnu annars efnis, alfarið mótmælt.

Stefnandi kveðist hafa orðið fyrir tekjutapi vegna ákvörðunar stefnda um niðurlagningu á stöðu hans. Stefndi hafni málatilbúnaði stefnanda sem fráleitum. Lögð sé áherzla á, að niðurlagning starfa framkvæmdastjóra í kjölfar gildistöku nýs skipurits hafi verið fyllilega lögmæt og í samræmi við stjórnarskrárvarinn rétt stefnda um sjálfsákvörðunarrétt í stjórnskipulagi sveitarfélagsins. Að sjálfsögðu hafi stefndi gætt þess sérstaklega að tryggja réttindi allra framkvæmdastjóranna við niðurlagningu á störfum þeirra. Hafi stefnandi þar ekki verið undanskilinn. Raunar sé það svo, að stefndi, sem lýst hafi því yfir á bæjarskrifstofu stefnda í lok janúar 2010, að hann væri farinn í veikindafrí, hafi verið á launum hjá stefnda út allt árið. 

Stefndi vísi til meginreglna íslenzks vinnuréttar, auk ákvæða kjarasamninga varðandi niðurlagningu á störfum og starfsloka. Þá sé vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þágildandi sveitastjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. 56. og 57. gr. laganna, sem og til meginreglna stjórnsýslu- og sveitarstjórnaréttar. Loks sé vísað til sjálfsákvörðunarréttar sveitarfélaga, sbr. 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Um málskostnað vísist til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laganna.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi, sem og Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesskaupstaðar, Arnar Jónsson, ráðgjafi hjá Capacent, Guðrún Helga Brynleifsdóttir hrl., Jón Benedikt Björnsson sálfræðingur og Sveina Berglind Jónsdóttir sálfræðingur.

Málatilbúnaður stefnanda er að ýmsu leyti óljós. Þannig má ráða af málavaxtalýsingu í stefnu, að málavextir snúist um bætur vegna eineltis, sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir af hálfu núverandi bæjarstjóra stefnda. Í kafla í stefnu, sem fjallar um málsástæður, er hins vegar byggt á því, að starfslok stefnanda hafi brotið gegn 56. gr. sveitarstjórnarlaga, þar sem formsatriða hafi ekki verið gætt. Í kafla, þar sem fjallað er um bótakröfu stefnanda, virðist meint tjón hans hins vegar einkum tengjast því meinta einelti, sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Fyrir liggur, að stefnandi var á launum hjá stefnda út árið 2010. Hefur hann ekki gert reka að því að staðreyna fjárhagslegt tjón vegna starfsloka sinna, heldur er einungis vísað til þess, að hann hafi orðið fyrir tekjutapi, án þess að gerð sé grein fyrir því, í hverju það sé fólgið. Á hinn bóginn er þeirri staðhæfingu stefnda, að stefnandi hafi þegið laun út árið 2010, ómótmælt. Þá kom fram hjá stefnanda við skýrslugjöf fyrir dómi, að hann væri enn ekki orðinn vinnufær vegna þeirra veikinda, sem hann rekur til hins meinta eineltis, en hann hafði verið í veikindaleyfi á launum af þeim sökum í rúma átta mánuði, þegar staða hans var lögð niður. Einnig vísar stefnandi um meint tjón sitt til útlagðs kostnaðar vegna uppsagnarinnar, svo sem lögmannsaðstoðar o.fl., án þess að gera frekari grein fyrir honum. Loks kveður stefnandi óljóst, hvert endanlegt tjón hans sé, og hver sé endanlegur miski vegna uppsagnarinnar, en slíkt haldist í hendur við heilsu hans og líðan vegna þess eineltis, sem hann hafi orðið fyrir. Þá snerust skýrslutökur fyrir dómi af hálfu stefnanda að miklu leyti um hið meinta einelti. Kom m.a. fram í framburði stefnanda, að hann rekur starflok sín til eineltis af hálfu bæjarstjórans. Engin grein er hins vegar gerð fyrir því í kafla, sem fjallar um málsástæður stefnanda, á hvern hátt hið meinta einelti tengist meintri, ólögmætri uppsögn hans eða niðurlagningu á starfinu, enda þótt lesa megi milli línanna, að það hafi verið undirliggjandi þáttur í starfslokum hans. Loks kemur fram í stefnu, að stefnandi áskilji sér rétt til þess að höfða sérstakt dómsmál vegna hins meinta eineltis, þegar heilsa stefnanda verði orðin þannig, að unnt verði að meta raunverulegt tjón hans, sem af eineltinu leiði, enda þótt það virðist hluti af dómkröfum í máli þessu. Brýtur framangreindur málatilbúnaður stefnanda gegn e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 á þann hátt, að ekki verður lagt á málið efnisdómur. Er því ekki hjá því komizt að vísa málinu í heild sinni frá dómi ex officio. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málinu er vísað frá dómi ex officio.

Málskostnaður fellur niður.