Hæstiréttur íslands
Mál nr. 587/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 15. nóvember 2006. |
|
Nr. 587/2006. |
Ákæruvaldið(Júlíus Magnússon fulltrúi) gegn X (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. desember 2006 kl 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2006.
Lögreglustjórinn í Keflavík hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, [kt. og heimilisfang], verði með úrskurði gert að sæta framlengingu á gæsluvarðhaldi til kl. 16:00 föstudaginn 8. desember nk. á meðan mál hans eru til rannsóknar og eftir atvikum þar til dómur gengur í málum hans.
Krafan er reist á ákvæðum c liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að kærði sé grunaður um að hafa framið fjölda hegningarlagabrota á þessu ári og séu mál þessi nú til rannsóknar hjá lögreglunni í Keflavík og á Selfossi, Húsavík, Akureyri og víðar. Er um að ræða þjófnaði, nytjastuldi, fjársvik, eignaspjöll og umferðarlagabrot. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness þann 19. október september sl. til föstudagsins dagsins í dag kl. 16 og var sá úrskurður staðfestur af Hæstarrétti.
Í dag lagði ákæruvaldið fram ákæru sem kærða var birt í dómi í dag en í ákærunni sem er í 15 liðum kemur X við sögu í 7 liðum ýmist einn eða með fleirum. Eru öll brotin sem kærði er sakaður um framin á árinu 2006 á tímabilinu 11. ágúst til 22. september. Þrátt fyrir þetta kemur fram í greinargerð Jóhannesar Jenssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar í Keflavík, sem fylgir gæsluvarðhaldskröfunni, að lögreglan hafi í dag lagt lokahönd á rannsókn fjölda mála sem kærði X, ýmist einn eða í slagtogi við aðra er grunaður um aðild að. Um 15 aðskilin mál sé að ræða og samkvæmt greinargerðinni er X grunaður um að hafa einn átt aðild að 6 hegningarlagabrotum auk þess sem hann er grunaður um að hafa í slagtogi með öðrum átt aðild að 7 öðrum hegningarlagabrotum á tímabilinu frá 23. júlí til 5. september 2006. Í nefndri greinargerð Jóhannesar Jenssonar, segir að verið sé að ganga frá fleiri málum og verði þau ásamt þeim sem þegar eru fullrannsökuð send í einu lagi til sýslumannsfulltrúa, væntanlega ekki síðar en 14. nóvember nk.
Með skírskotun til þess sem nú hefur verið rakið er gæsluvarðhaldskrafan sett fram. Þykir lögreglu augljóst þegar skoðaður er brotaferill kærða síðustu mánuðina að hann sé vanaafbrotamaður og mikil hætta sé á að hann muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið, verð hann látinn ganga laus.
Er krafan um gæsluvarðhald reist á c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Þegar virt er hve tíð brot þau eru, sem kærði X er grunaður um í júlí, ágúst og september sl., má fallast á að veruleg hætta sé á því að hann haldi áfram brotastarfsemi verði hann frjáls ferða sinna og því sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi meðan mál hans eru til lykta leidd. Þá er haft í huga að kærði var á 3 ára skilorði vegna 3 mánaða fangelsisdóms sem hann hlaut 9. mars sl. m.a. fyrir þjófnað þegar brotahrinan gekk yfir sem málið varðar. Þrátt fyrir það að mörg þessara brota séu smávægileg og sök um sum þeirra játuð þykir þó rétt að fallast á gæsluvarðhaldskröfuna eins og hún er fram sett. Telur dómari að lögregla hafi lagt sig alla fram til þess að ljúka rannsókn á þeirri brotahrinu sem málið snýst um. Ákæra hefur verið gefin út og birt kærða eins og áður segir og allt bendir til þess að ákæra vegna þeirra brota til viðbótar sem verið er að leggja lokahönd á sé í burðarliðnum. Þykir því mega fallast á að umkrafinn gæsluvarðhaldstími sé nauðsynlegur til þess að leiða mál kærða til lykta. Er því kærði X með vísan til c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. desember nk. kl. 16:00.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. desember nk. kl. 16:00.