Hæstiréttur íslands

Mál nr. 613/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                       

Fimmtudaginn 18. september 2014.

Nr. 613/2014.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

X

(Jóhannes Árnason hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr.  95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 15. september 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til mánudagsins 13. október 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var 12. september 2014 gefin út ákæra á hendur varnaraðila fyrir stórfellda líkamsárás aðfaranótt fimmtudagsins 17. júlí  sama ár og er brotið talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómum réttarins 28. júlí 2014 í máli nr. 521/2014 og 25. ágúst sama ár í máli nr. 551/2014 var því slegið föstu að fullnægt væri skilyrðum til þess að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þau rök sem færð voru fram til stuðnings þeirri niðurstöðu standa óhögguð. Samkvæmt því og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands mánudaginn 15. september 2014.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Vesturlands úrskurði að X, kt. [...], [...], [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til mánudagsins 13. októ­ber 2014, kl. 16:00.

Kærði hefur mótmælt kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.

Í greinargerð ríkissaksóknara með kröfunni segir að með bréfi lögreglustjórans á Akranesi 9. þ.m. hafi ríkis­saksóknara borist gögn í máli lög­reglu nr. 014-2014-[...]. Með ákæru dagsettri 12. þ.m. hafi ríkissaksóknari höfðað sakamál fyrir Héraðsdómi Vesturlands á hendur X og Y sem hér greinir:

„fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 17. júlí 2014, á hafnar­­svæðinu í [...], í sameiningu ráðist á A, kennitala [...], ákærði Y með því að slá A hnefahögg í andlitið svo hann missti með­vitund og skall aftur fyrir sig og lenti harkalega með höfuðið á jörðinni, og ákærði X sem fylgdi á eftir með því að slá A liggjandi og meðvitundarlausan á jörðinni tvö hnefa­högg í and­litið svo höfuðið skall harka­­­lega á jörðinni, allt með þeim afleið­ingum að hann hlaut lífshættulega og alvar­lega höfuð­­­áverka, þar með talið mar á höfuð­leðri ofan við hægra eyra á stóru svæði, mjúkpartabólgur utan við hægra kinnbein og meira áber­andi bólgur, mar og blæðingu hægra megin aftarlega á hvirfli utan höfuð­kúpu, beinbrot hægra megin aftarlega á gagnaugablaðsbeini, sem gekk áfram niður í höfuð­kúpubotn og aftur að hnakka­beins­hluta höfuðkúpu, dreift mar innan höfuð­kúpu í hægra neðanverðu heila­hveli með bólgu og mið­­línu­tilfærslu heila yfir til vinstri með aukinn bjúg og blæð­ingar hægra megin, sem leiddi til heilaskaða, meðal annars með verulegum minnis­­­skerð­­­ingum og skertri hæfni til skilnings og tjáningar, auk máttminnkunar og skertrar líkam­­­legrar hreyfigetu.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.“ 

Málið hafi verið þingfest 15. þ.m. í Héraðsdómi Vesturlands á dómþingi sem háð hafi verið í dóm­húsinu við Lækjartorg í Reykjavík.

Í rannsóknargögnum sé meðal annars myndupptaka úr eftirlitsmyndavélakerfi Grundar­fjarðar­hafnar sem sýni ákærðu umrædda nótt veitast harkalega að brotaþola með þeim hætti sem greinir í ákæru. Til viðbótar liggi fyrir greinargóður framburður, B, sem verið hafi vitni að hinni meintu líkamsárás. Einnig liggi fyrir mats­­gerð tveggja dómkvaddra sérfræðinga frá 8. þ.m. þar sem nákvæmlega hafi verið gerð grein fyrir áverkum og alvarlegum afleiðingum fyrir brotaþola. Í matsgerðinni komi einnig fram að hin meinta líkamsárás sé talin vera orsök þeirra alvarlegu afleiðinga sem urðu hjá brotaþola og þáttur hvors ákærðu um sig verði ekki sérstaklega aðgreindur í því tilliti. Þá liggi fyrir skýrslur fjölda vitna sem borið hafi um meint atvik með beinum eða óbeinum hætti eða aðdraganda þeirra.

Að mati ríkissaksóknara séu ákærðu undir sterkum grun um að hafa í sameiningu framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og geti brot þeirra varðað fangelsi allt að 16 árum, ef sök sannist. Ákærðu hafi í sameiningu, tveir gegn einum, án nægjan­legs tilefnis, veist harka­lega að brotaþola og þar með orðið valdir að meiri háttar líkams­tjóni. Þá telur ríkissaksóknari ljóst að þau brot sem ákærðu eru gefin að sök séu þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almanna­hagsmuna. Óforsvaranlegt þyki að ákærðu gangi lausir þegar sterkur rökstuddur grunur leiki á að þeir hafi framið svo alvar­leg brot sem þeim séu gefin að sök.

Ákærðu hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 17. júlí sl., þar af á grundvelli almannahagsmuna frá 24. sama mánaðar, sbr. úrskurð Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. R-20/2014 (17. júlí sl./RÞJ), hæstaréttardóm í máli nr. 504/2014 (22. júlí sl./CS) og hæstaréttardóma í málum nr. 521/2014 og 522/2014 (28. júlí sl.), úrskurð Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. R-25/2014 (19. ágúst sl./CS) og hæstaréttardóm í máli nr. 551/2014 (25. ágúst sl./RÞJ).

Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 2. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærði er undir sterkum grun um að hafa ásamt öðrum manni ráðist að brotaþola og valdið honum stórfelldum áverkum á höfði aðfaranótt 17. júlí sl. og nú í dag var þingfest sakamál á hendur honum fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. hegningarlaga nr. 19/1940. Fallist er á það með saksóknara að þegar litið er til brots þess sem kærði er ákærður fyrir standi almannahagsmunir til þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi en brot hans getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þykja uppfyllt hér og verður krafa ríkissaksóknara tekin til greina eins og hún er fram sett.

Allan V. Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákærði, X, kt. [...], skal sæta sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til mánudagsins 13. októ­ber 2014, kl. 16:00.