Hæstiréttur íslands
Mál nr. 178/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Einkahlutafélag
- Prókúruumboð
|
|
Fimmtudaginn 5. júní 2003. |
|
Nr. 178/2003. |
Flugskólinn Flugsýn ehf. (Valgeir Kristinsson hrl.) gegn Ögmundi Gíslasyni (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Einkahlutafélag. Prókúruumboð.
Talið var að E, þáverandi framkvæmdastjóri F ehf., hafi í skjóli prókúruumboðs sem hann hafði fyrir félagið haft heimild til að rita undir skuldabréf í nafni þess. Stoðaði ekki fyrir F ehf. að bera fyrir sig að E hafi láðst að vísa til prókúrunnar. Þá var heldur ekki fallist á að samþykki tveggja stjórnarmanna F ehf. hafi þurft til ráðstöfunarinnar, enda var ekki sýnt fram á að hún væri óvenjuleg eða mikils háttar. Var því staðfest fjárnám sem Ö fékk gert hjá F ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2003, þar sem staðfest var fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 15. nóvember 2002 hjá sóknaraðila fyrir kröfu varnaraðila að fjárhæð 866.667 krónur auk nánar tiltekinna vaxta og kostnaðar. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi og sér dæmdur málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði er mál þetta sprottið af skuldabréfi, upphaflega að fjárhæð 1.000.000 krónur, sem Einar Örn Einarsson, þáverandi framkvæmdastjóri sóknaraðila, gaf út í nafni félagsins 29. maí 2001. Í málinu liggur fyrir að Einar hafði prókúruumboð fyrir sóknaraðila meðan hann gegndi starfi framkvæmdastjóra. Hafði hann í skjóli umboðsins heimild til að rita undir skuldabréfið í nafni sóknaraðila, sbr. 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð og stoðar ekki fyrir sóknaraðila að bera fyrir sig að Einari hafi láðst að vísa til prókúrunnar, sbr. dóm Hæstaréttar 1996, bls. 3663. Þá verður heldur ekki fallist á að samþykki tveggja stjórnarmanna sóknaraðila hafi þurft til ráðstöfunarinnar, enda hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hún hafi verið óvenjuleg eða mikils háttar, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hefur sóknaraðili hvorki skírskotað til upplýsinga í ársreikningum eða bókhaldi sínu né á annan hátt gert sennilegt að svo sé. Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Flugskólinn Flugsýn ehf., greiði varnaraðila, Ögmundi Gíslasyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2003.
Með bréfi dagsettu 18. nóvember 2002 skaut sóknaraðili, Flugskólinn Flugsýn ehf., kt. 530400-2470, máli þessu til héraðsdóms. Varnaraðili er Ögmundur Gíslason, kt. 300975-4379.
Sóknaraðili krefst þess að fjárnám er gert var að kröfu varnaraðila 15. nóvember 2002 í máli nr. 011-2002-19235 verði fellt úr gildi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, til vara krefst hann þess að fjárnámsgerðin verði staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Varnaraðili krafðist fjárnáms hjá sóknaraðila með beiðni 25. september 2002. Þar er lýst kröfu samkvæmt skuldabréfi er sóknaraðili gaf út 29. maí 2001, upphaflega að fjárhæð 1.000.000 krónur. Segir að bréf þetta hafi verið í vanskilum frá 20. nóvember 2001 og að eftirstöðvar höfuðstóls séu 866.667 krónur, en krafan samtals að fjárhæð 1.174.927 krónur. Bréf þetta er gefið út af Einari Erni Einarssyni fyrir hönd sóknaraðila, en Einar gekkst sjálfur í sjálfskuldarábyrgð.
Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins skyldi það greitt með 30 afborgunum á eins mánaðar fresti. Fyrsti gjalddagi var 20. júlí 2001. Bréfið var til innheimtu í Landsbanka Íslands. Samkvæmt áritun á það var greitt af því 19. september og 12. október 2001 og 1. febrúar 2002, þannig að fjórar fyrstu greiðslurnar hafa verið inntar af hendi.
Við fyrirtöku hjá sýslumanni 14. nóvember 2002 er bókað að fyrir sóknaraðila sé mættur Sigurður Hjaltested og hann sagður eigandi flugskólans. Segir að hann mótmæli kröfunni og segi að um fjársvik sé að ræða og að hann ætli að leggja fram kæru. Var gerðinni frestað til fyrirtöku daginn eftir. Þá var auk Sigurðar mættur lögmaður fyrir sóknaraðila. Eru mótmælin ítrekuð og er bókuð ábending um að umrætt skuldabréf sé ekki gefið út með réttum hætti, það sé einungis undirritað af framkvæmdastjóra, sem hafi ekki heimild til að rita firmað einn. Fulltrúi sýslumanns ákvað að halda gerðinni áfram og lauk gerðinni með því að gert var fjárnám í flugvélinni TF-FFC.
Meðal gagna sem sóknaraðili leggur fram er yfirlýsing Magnúsar Rúnars Dalberg, viðskiptafræðings, sem hann gefur sem skráður skoðunarmaður sóknaraðila. Þar segir að enginn starfsmaður hafi verið á launum hjá sóknaraila frá stofnun félagsins og til ársloka 2002. Jafnframt segir að umrætt skuldabréf komi ekki fram í bókhaldi félagsins, “...enda hefur andvirði bréfsins ekki runnið inn á nokkurn reikning í eigu félagsins, að því er ég best veit.”
Varnaraðili lagði fram afrit launaseðla sem sýna launagreiðslur til hans á tímabilinu frá 6. apríl 2000 til 30. apríl 2001. Sóknaraðili lagði fram bréf ritað af framkvæmdastjóra sínum þar sem staðhæft er að varnaraðili hafi komið á starfsstöð félagsins í apríl 2002 og útbúið nefnda launaseðla og skilað til Ríkisskattstjóra.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um ógildingu aðfarargerðarinnar í fyrsta lagi á því að framkvæmdastjóri hafi ekki getað skuldbundið félagið einn. Vísar hann til vottorðs hlutafélagaskrár þar sem fram kemur að firmað riti tveir stjórnarmenn saman. Samkvæmt þessu vottorði sátu þeir Ragnar J. Magnússon (formaður), Einar Örn Einarsson og Jón Grétar Sigurðsson (meðstjórnendur) í stjórn sóknaraðila er umrætt skuldabréf var gefið út, 29. maí 2001. Þá var Einar Örn framkvæmdastjóri og hafði hann auk Jóns Grétars prókúruumboð.
Þá heldur sóknaraðili því fram að varnaraðili hafi sjálfur útfyllt bréfið og að hann hafi ekki átt neina kröfu á hendur sér. Segir hann að hjá sér hafi aðeins starfað verktakar, en engir launþegar.
Varnaraðili krefst frávísunar málsins vegna þess að ekki hafi verið fylgt formreglum 93. gr. laga nr. 90/1989. Málsástæður séu vanreifaðar og ekki studdar lagarökum svo sem áskilið sé í 3. tl. 1. mgr. 93. gr.
Kröfu um staðfestingu aðfarargerðarinnar byggir varnaraðili á því að umrætt skuldabréf sé löglegt og gefið út af þar til bærum aðila fyrir hönd sóknaraðila. Einar Örn Einarsson hafi haft umboð til að skuldbinda sóknaraðila með útgáfu skuldabréfs. Segir nánar að bréfið hafi verið gefið út til að greiða launakröfu varnaraðila, en hann hafi verið launþegi hjá sóknaraðila. Hafi það verið innan verkahrings framkvæmdastjóra að leysa launamál.
Þá bendir varnaraðili á að Einar Örn Einarsson hafi haft prókúru fyrir sóknaraðila. Jafnframt hafi hann verið framkvæmdastjóri. Vísar varnaraðili til 25. gr. laga nr. 42/1903 varðandi prókúruumboðið og heimildir prókúruhafa, en til 44. gr. laga nr. 138/1994 varðandi heimildir framkvæmdastjóra einkahlutafélags.
Í munnlegum málflutningi mótmælti varnaraðili því að varnir er byggðu á lögskiptum aðila kæmust að í málinu.
Auk áðurgreindra réttarheimilda vísar varnaraðili almennt til XV. kafla aðfararlaga nr. 90/1989.
Niðurstaða.
Sóknaraðili skaut máli þessu til héraðsdóms með bréfi þar sem hann lýsir kröfum sínum um ógildingu gerðarinnar og þeim atvikum sem hann byggir á. Er bréf hans nægilega skýrt til að leggja grunn að málsmeðferð og verður leyst úr kröfum hans á þeim grundvelli sem hann leggur með bréfi sínu.
Umrætt skuldabréf er fullgild aðfararheimild samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Skuldabréfið var gefið út af framkvæmdastjóra félagsins, sem hafði prókúruumboð. Við undirritun er ekki skírskotað til prúkúruumboðsins.
Ekki kemur fram að sóknaraðili hafi haft uppi andmæli við skuldabréfinu fyrr en við fjárnámsgerðina. Hafði þó þrívegis verið greitt af bréfinu, en ekki kemur fram hver innti greiðslu af hendi.
Útgáfa þessa skuldabréfs ber ekki með sér að vera óvenjuleg eða mikils háttar ráðstöfun í skilningi 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Að þessu virtu verður ekki fallist á að framkvæmdastjóra hafi skort heimild til útgáfu bréfsins. Skiptir þá ekki máli þó ekki sé vísað til prókúruumboðs framkvæmdastjórans.
Varnaraðili andmælti því ekki í greinargerð sinni að varnir er byggðu á lögskiptum aðila kæmust að í málinu. Það gerði hann fyrst í málflutningsræðu. Er þessi mótbára of seint fram komin.
Varðandi þá fullyrðingu sóknaraðila að varnaraðili eigi ekki með réttu neina fjárkröfu liggja ekki fyrir í raun önnur gögn en gagnstæðar fullyrðingar aðila. Þau gögn önnur sem lögð eru fram geta ekki talist sönnunargögn um þetta atriði. Þar sem framkvæmdastjóri sóknaraðila gaf út umrætt skuldabréf verður að fella á sóknaraðila sönnunarbyrði um það að varnaraðili eigi ekki fjárkröfu. Gegn mótmælum og útskýringum varnaraðila er sú sönnun ekki komin fram.
Samkvæmt þessu verður fjárnámsgerðin staðfest. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila 80.000 krónur í málskostnað. Er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Framangreind fjárnámsgerð er staðfest.
Sóknaraðili, Flugskólinn Flugsýn ehf., greiði varnaraðila, Ögmundi Gíslasyni, 80.000 krónur í málskostnað.