Hæstiréttur íslands

Mál nr. 631/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur


         

Miðvikudaginn 12. desember 2007.

Nr. 631/2007.

Halldór Kristjánsson

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

Skálpa ehf.

(Kristín Edwald hrl.)

 

Kærumál. Frestur.

Að kröfu varnaraðila frestaði héraðsdómur aðalmeðferð málsins um óákveðinn tíma eða þar til fyrir lægi dómur Hæstaréttar Íslands í öðru máli milli sömu málsaðila og séð yrði fyrir endann á opinberri rannsókn vegna kæru varnaraðila á hendur sóknaraðila. Í dómi Hæstaréttar sagði að kröfur sem varnaraðili hefði uppi í öðru dómsmáli til sjálfstæðs dóms þar gæti ekki verið hafðar uppi til skuldajafnaðar í þessu máli. Yrði því ekki séð að niðurstaða hins dómsmálsins hefði neina þá þýðingu fyrir dómkröfur þessa máls að efni væri til að fresta meðferð þess. Þá lægju ekki fyrir gögn í málinu sem sýndu að opinber rannsókn stæði yfir í tilefni af kærubréfi varnaraðila til lögreglu, hvað þá að fyrir lægi að hverju slík rannsókn beindist. Voru því engin efni til að fresta meðferð málsins af þessu tilefni og hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2007, þar sem aðalmeðferð héraðsdómsmálsins nr. E-919/2007 milli málsaðila var frestað um óákveðinn tíma eða þar til fyrir liggur dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. E-1871/2007 milli sömu aðila sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. október 2007 og séð verður fyrir endann á opinberri rannsókn vegna kæru varnaraðila á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og héraðsdómara gert að boða til aðalmeðferðar svo fljótt sem unnt er. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur varnaraðila með stefnu sem mun hafa verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. febrúar 2007. Krefst hann vangoldinna launa úr hendi varnaraðila, en sóknaraðili hafði starfað sem framkvæmdastjóri varnaraðila og verið sagt upp störfum 21. september 2006. Varnaraðili telur sóknaraðila hafa brotið af sér í starfi og mun hafa í öðru dómsmáli gert kröfur á hendur honum af því tilefni. Mun hann hafa uppi sömu kröfur til stuðnings sýknukröfu sinni í þessu máli. Dómur er sagður genginn í héraði í umræddu dómsmáli með þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hafi verið sýknaður af kröfum varnaraðila. Segir varnaraðili að áfrýjunarstefna vegna dómsins hafi verið send Hæstarétti. Þá mun varnaraðili hafa 21. desember 2006 sent kæru til lögreglu vegna ætlaðra brota sóknaraðila. Ekkert liggur fyrir í málinu um hvort hafin hafi verið opinber rannsókn á hendur sóknaraðila í tilefni kærunnar. Varnaraðili vísar til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings kröfu sinni um staðfestingu hins kærða úrskurðar.

Kröfur sem varnaraðili gerir í öðru dómsmáli til sjálfstæðs dóms þar geta ekki verið hafðar uppi til skuldajafnaðar í þessu máli. Verður ekki séð að niðurstaða hins dómsmálsins hafi neina þá þýðingu fyrir dómkröfur þessa máls að efni séu til að fresta meðferð þess. Þá liggja ekki fyrir gögn í málinu sem sýna að opinber rannsókn standi yfir í tilefni af nefndu kærubréfi varnaraðila til lögreglu, hvað þá að fyrir liggi að hverju slík rannsókn beinist. Eru engin efni til að fresta meðferð málsins af þessu tilefni.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðili, Skálpi ehf., greiði sóknaraðila, Halldóri Kristjánssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

                            Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2007.

Stefndi krefst þess að aðalmeðferð sem ákveðin hefur verið 8. nóvember nk. verði frestað um óakveðinn tíma.  Stefndi byggir kröfu sína um frestun aðalmeðferðar á því að 5. október sl. hafi í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr. E-1871/2007 verið kveðinn upp dómur í máli milli sömu aðila um kröfur sem byggðar séu á sömu málsástæðum og hafðar séu uppi í máli þessu.  Ákvörðun hafi verið tekin um  að áfrýjað málinu til Hæstaréttar Íslands.  Þá hafi stefndi, með kæru, dags. 21. desember 2006, kært stefnanda til lögreglunnar í Reykjavík fyrir fjárdrátt og svik í tengslum við starf hans sem framkvæmdastjóra hjá stefnda.  Sé þeirri rannsókn ekki lokið.  Telur stefndi rétt að aðalmeðferð máls þessa verði frestað þar til séð verði fyrir endann á rannsókninni og dómur Hæstaréttar liggur fyrir.

          Stefnandi rökstyður mótmæli sín með því að ekki hafi, þrátt fyrir nokkrar fyrirtökur í málinu, ekki komið til tals að fresta málinu.  Ekkert nýtt hafi nú komið fram sem gefi tilefni til frestunar málsins.  Dómkrafa í máli þessu sé launakrafa og geti það valdið stefnanda réttarspjöllum verði málinu frestað.  Þá bendir stefnandi á að aldrei hafi komið fram krafa af hálfu stefnda um að sameina málin. 

          Fallist er á það með stefnda að bæði niðurstaða í opinberri rannsókn vegna kæru stefnda á hendur stefnanda svo og úrslit máls þess milli stefnanda og stefnda, sem áfrýjað verður til Hæstaréttar þar sem byggt er á sömu málsástæðum og í máli þessu, kunni að skipta verulegu máli um úrslit þessa máls. Er því fallist á þá kröfu stefnda að fresta aðalmeðferð um óákveðinn tíma eða þar til niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir í umræddu máli og séð verður fyrir endann á opinberri rannsókn vegna kæru stefnda á hendur stefnanda.

          Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

                                                  Ú R S K U R Ð A R O R Ð

          Aðalmeðferð í máli þessu er frestað um óákveðinn tíma eða þar til fyrir liggur dómur Hæstaréttar Íslands í máli því sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. október sl. í máli nr. E-1871/2007 milli sömu aðila og séð verður fyrir endann á opinberri rannsókn vegna kæru stefnda á hendur stefnanda.