Hæstiréttur íslands

Mál nr. 379/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Lagarök
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. október 2001.

Nr. 379/2001.

Sláturfélagið ferskar afurðir ehf.

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Tryggva Eyjólfssyni

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Aðför. Lagarök. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

S hf. leitaði eftir því að fjárnám sem T fékk gert hjá honum yrði fellt úr gildi. Í kröfugerð S hf. og greinargerð fyrir héraðsdómi var af hálfu S hf. vísað til eldri laga um meðferð einkamála nr. 85/1936 og ekki nefnd lög um aðför nr. 90/1989, sem krafa hans var í raun byggð á. Með vísan til f. liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 var kröfu S hf. vísað frá héraðsdómi. Í kæru til Hæstaréttar var því ómótmælt haldið fram af hálfu S hf., að við munnlegan flutning málsins í héraði hafi að nokkru verið úr þessu bætt, m.a. með tilvísun til 15. kafla laga nr. 90/1989, svo ekki hafi átt að fara á milli mála á hvaða ákvæðum laganna málsóknin væri reist. Með hliðsjón af þessu og málatilbúnaði S hf. að öðru leyti þótti ekki næg ástæða til að láta framangreindan ágalla varða því að máli S hf. yrði vísað frá dómi. Gilti þá einu þótt ekki hefði verið leiðréttur sá fingurbrjótur að vísa til brottfallinna laga nr. 85/1936 í stað laga nr. 91/1991. Frávísunarúrskurður héraðsdóms var því felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 27. september 2001, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.

Í máli þessu leitar sóknaraðili eftir því að fá fjárnám, sem varnaraðili fékk gert hjá honum 23. janúar 2001, fellt úr gildi. Sendi sóknaraðili Héraðsdómi Norðurlands vestra tilkynningu 16. febrúar 2001 um að hann krefðist úrlausnar um aðfarargerðina. Er þar greint frá þeim atriðum, sem skulu koma fram í slíkri tilkynningu, sbr. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 90/1989. Kröfugerð sóknaraðila er ótvíræð og málsástæður nægilega fram komnar svo unnt sé að taka afstöðu til krafna hans. Annmarki er hins vegar á hinum skriflega málatilbúnaði sóknaraðila um það atriði að geta helstu lagaákvæða eða réttarreglna, sem hann telur eiga við um ágreiningsefnið.

Í kæru til Hæstaréttar er því ómótmælt haldið fram að við munnlegan flutning málsins í héraði hafi að nokkru verið úr þessu bætt. Hafi það verið gert með því að lesa orðrétt hluta athugasemda er fylgdu 3. tl. 1. mgr. 1. gr. frumvarps, er varð að lögum nr. 90/1989. Í þeirri reifun hafi komið fram tilvísun til 15. kafla sömu laga, svo ekki hafi átt að fara neitt á milli mála um það á hvaða ákvæðum laganna málsóknin væri reist. Þegar litið er til þessa og málatilbúnaðar sóknaraðila að öðru leyti er ekki næg ástæða til að láta framangreindan ágalla varða því að máli sóknaraðila verði vísað frá dómi. Gildir þá einu þótt ekki hafi verið leiðréttur sá fingurbrjótur að vísa til brottfallinna laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði í stað laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður hinn kærði úrskurður samkvæmt því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 27. september 2001.

I.

Mál þetta barst dóminum með bréfi lögmanns sóknaraðila 19. febrúar sl. en var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 13. þessa mánaðar.

Sóknaraðili er Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf., kt. 670988-1479, Brekkugötu 4, Hvammstanga.  Kröfur sóknaraðila eru þær að árangurslaus fjárnámsgerð sýslumannsins á Blönduósi nr. 020-2000-00181 hjá sóknaraðila sem fram fór þann 23. janúar að kröfu varnaraðila verði felld úr gildi og ógilt með úrskurði.  Jafnframt er gerð krafa um málskostnað.  Til vara er þess krafist að fjárnámið verði fellt úr gildi að hluta. 

Varnaraðili er Tryggvi Eyjólfsson, kt. 190927-2619, Lambavatni, Þingeyjarsýslu.  Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi.  Til vara að kröfu sóknaraðila um ógildingu fjárnámsgerðar sem fram fór 23. janúar 2001 verði hafnað og fjárnámið standi óhaggað.  Í báðum tilfellum gerir varnaraðili kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila. 

II.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

Sóknaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að sátt sú sem fjárnámsgerðin er byggð á sé ekki raunveruleg krafa sem geti verið grundvöllur aðfarar og því verði að fella fjárnámið úr gildi í heild sinni.  Bendir hann á að samningur sem skrifað er undir með fyrirvara sé ekki gildur samningur.  Þannig sé dómur með fyrirvara um réttmæti og án dómsorða eða þannig að stefndi skuli greiða ákveðna fjárhæð með fyrirvara um að dómurinn sé réttur vitanlega markleysa.  Sama gildi um sátt þá sem hér var notuð til grundvallar.  Hún sé markleysa og að engu hafandi.  Þá byggir sóknaraðili á því að hann hafi greitt inn á kröfuna en tillit hafi ekki verið tekið til þess þegar fjárnámið var gert.  Verði talið að sáttin sé hæf sem grundvöllur aðfarargerðar þá sé óheimilt að gera fjárnám fyrir hærri fjárhæð en þeirri sem sóknaraðili skuldar varnaraðila. 

Hvað lagarök varðar vísar sóknaraðili til I. kafla laga 85/1936 en önnur lagarök er ekki að finna í kröfugerð hans.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðili byggir kröfu sína um frávísun á meginreglu 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um skýra og ljósa kröfugerð.  Sérstaklega vísar hann til f. liðar nefndrar 80. greinar.  Hann bendir á að sóknaraðili byggi kröfur sínar á lögum nr. 85/1936 en þau hafi verið felld úr gildi fyrir áratug.  Ekki verði séð að unnt sé að standa í ágreiningsmáli þar sem tekist er á um lagareglur sem ekki eru gildandi réttur.  Þetta leiði til þess að ekki sé unnt að taka kröfu sóknaraðila til efnismeðferðar.  Auk þess sé framsetning kröfu sóknaraðila svo óskýr að öðru leyti að útilokað sé fyrir varnaraðila að átta sig á henni.  Bendir varnaraðili á í þessu sambandi að sóknaraðili nefni ekki í kröfu sinni eða greinargerð lög nr. 90/1989 um aðför og því erfitt að sjá á hverju hann byggir kröfur sínar. 

Varakröfu sína byggir varnaraðili á því að sóknaraðili geti ekki gert kröfu um ógildingu fjárnáms á grundvelli 15. kafla aðfararlaga á þeirri forsendu að réttarsátt sem var grundvöllur fjárnáms hafi ekki verið gildur samningur henlur verði að höfða dómsmál á grundvelli 110. gr. laga 91/1991 til að fá dómsátt ógilta að hluta eða öllu leyti.  Verði ekki fallist á þetta bendir varnaraðili á að dómsáttin hafi verið gildur samningur og þau loforð sem fram koma í henni séu í fullu gildi.  Þrátt fyrir að sóknaraðili hafi ritað fyrirvara í sáttina um réttmæti kröfunnar þá breyti hann engu um greiðsluloforð hans og haggi því ekki rétti varnaraðila til að gera fjárnám samkvæmt sáttinni.  Fyrirvari sóknaraðila í sáttinni hafi þá einu þýðingu að hann geti látið reyna á það hvort krafa varnaraðila hafi verið réttmæt með því að höfða einkamál.  Eftir standi viðurkenning sóknaraðila á greiðsluskyldu sinni.  Þetta leiði til þess að sýkna beri varnaraðila af kröfum sóknaraðila í máli þessu. 

Varnaraðili telur að við ákvörðun málskostnaðar skuli tekið tillit til þess að svo virðist sem sóknaraðili hafi eingöngu höfðað máli til að komast hjá greiðslu skuldar sem hann hefur þegar viðurkennt. 

Hvað lagarök varðar vísar varnaraðili til 1. og 15. kafla laga nr. 90/1989.  Til almennra reglna samningaréttarins um skuldbindingargildi samning.  Einnig til 15. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og hvað málskostnað varðar til 21. kafla laga nr. 91/1991.  Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum 50/1988 um virðisaukaskatt.

III.

Niðurstaða.

Í kröfugerð sinni og greinagerð vísar sóknaraðili til eldri laga um meðferð einkamála nr. 85/1936 og nefnir í engu lög um aðför nr. 90/1989 sem krafa hans er í raun byggð á.  Með þessu skortir algjörlega að hann uppfylli ákvæði f liðar 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Úr þessum galla bætti sóknaraðili ekki eftir að greinargerð varnaraðila kom fram og heldur ekki við flutning málsins.  Er hér um grundvöll að málatilbúnaði sóknaraðila að ræða.  Þegar af þessari ástæðu verður krafa varnaraðila um frávísun málsins tekin til greina.

Eftir úrslitum málsins verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.  Að viðbættum virðisaukaskatti.

Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ.

Kröfu sóknaraðila, Sláturfélagsins Ferskar afurðir ehf., er vísað frá dómi.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Tryggva Eyjólfssyni, 100.000 krónur í málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.