Hæstiréttur íslands
Mál nr. 152/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Opinber skipti
- Óvígð sambúð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. febrúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að við skipti til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar hennar og varnaraðila yrði miðað við að skipt yrði til helminga hlutum varnaraðila í félaginu A ehf. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á framangreinda kröfu hennar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði skráðu málsaðilar sig í sambúð [...] en þau voru þá 23 ára gömul og barnlaus. Þau voru eignalaus í upphafi sambúðar en á sambúðartíma varð eignamyndun sem nánari grein er gerð fyrir í hinum kærða úrskurði. Þau töldu saman fram til skatts öll sambúðarár sín að undanskildum tekjuárunum 2012 og 2013. Á sambúðartímanum héldu þau heimili saman og eignuðust tvö börn, sem fædd eru á árunum [...] og [...]. Á sama tíma öfluðu þau sér jafnframt menntunar en sóknaraðili er [...] og hefur aflað sér framhaldsmenntunar á því sviði en varnaraðili [...] auk þess sem hann stundaði [...]. Aðilar slitu sambúð á árinu 2013 og er ágreiningslaust að viðmiðunardagur fjárslita sé 1. júní þá um sumarið.
Í meginatriðum sýnast aðilar báðir una því að eignir frá sambúðartímanum skuli skiptast að jöfnu á milli þeirra óháð formlegri skráningu eignarhalds. Það á þó ekki við um einkahlutafélagið A sem er til umfjöllunar í máli þessu. Varnaraðili stofnaði félagið á árinu 2009 og var einn skráður fyrir hlutafé í félaginu. Byggir hann á því að sá hlutur eigi við fjárskipti aðila allur að koma í hans hlut en sóknaraðili telur hins vegar að hluturinn í félaginu skuli skiptast að jöfnu á milli aðila.
II
Að lögum gilda ekki settar efnisreglur um skiptingu eigna sambúðarfólks við lok sambúðar þeirra hliðstætt því sem á við um hjúskap. Sú afstaða hefur á hinn bóginn mótast í dómaframkvæmd að líta beri á slíka aðila sem tvo sjálfstæða einstaklinga og að í hlut hvors aðila um sig komi þá þær eignir sem viðkomandi kom með í sambúðina eða eignast meðan á henni stendur. Hefur opinber skráning eigna á viðkomandi aðila því þýðingu í þessu sambandi. Þetta er þó ekki algilt og hefur verið viðurkennt af dómstólum að hvað sem slíkri tilhögun líði þá geti sambúðarmaki átt tilkall til þeirra eigna sem að óbreyttu kæmu í hlut hins aðilans. Er þá litið svo á að sameiginleg eignamyndun hafi orðið á sambúðartímanum sem báðir aðilar eigi tilkall til. Meðal þeirra atriða sem litið er til við mat á þessu er eignastaða aðila við upphaf sambúðar, lengd sambúðar, fjölskylduhagir, þar með talið tilkoma sameiginlegra barna, öflun menntunar á sambúðartíma, tekjuöflun, tilhögun skattskila, sameiginleg not eigna auk fleiri atriða. Að meginreglu hvílir þó sönnunarbyrðin á þeim aðila sem heldur fram slíkri sameiginlegri eignamyndun, þrátt fyrir opinbera skráningu eignar á gagnaðila ellegar tilurð hennar að öðru leyti. Til þess er þó að líta að það hefur áhrif á tilhögun þeirrar sönnunarbyrði hversu mörg framangreindra atriða hafa verið fyrir hendi í sambúð, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar frá 25. janúar 2016 í máli nr. 811/2015 og 15. september 2016 í máli nr. 511/2016.
Svo sem rakið hefur verið hér að framan stóð sambúð aðila í fimmtán ár. Þau voru eignalaus í upphafi hennar en á sambúðartímanum ríkti með þeim fjárhagsleg samstaða í öllum atriðum. Sá veruleiki endurspeglast svo í afstöðu þeirra vegna annarrar eignamyndunar á sambúðartímanum en deilt er um í málinu, en af gögnum þess og málatilbúnaði aðila verður ráðið að þau sætti sig að óbreyttu við þá niðurstöðu að því sem næst allar aðrar eigur þeirra, en umþrætt félag, skuli skipast að jöfnu milli þeirra. Framlög þeirra til öflunar launatekna, eignamyndunar, og uppeldis barna og heimilishalds verða ekki metin svo, heildstætt séð, að á annað halli í þeim mæli að marki í þeim samanburði. Þá sýnast möguleikar þeirra til öflunar menntunar hafa verið mjög sambærilegir.
Hvað hlutaféð í A ehf. varðar þá er fallist á það sem fram kemur í hinum kærða úrskurði að það skipti vart öllu máli fyrir niðurstöðu málsins hvort upphaflegt fjárframlag til stofnunar félagsins hafi komið frá varnaraðila eða verið greitt úr sameiginlegum sjóðum enda um óverulega fjárhæð að ræða. Þá fær það heldur ekki ráðið úrslitum að félagið hafi verið hugarfóstur varnaraðila, hann stýrt því og byggt það upp án beinnar aðkomu sóknaraðila en þess ber þá að gæta að félagið er stofnað á sambúðartímanum. Þau verðmæti sem varnaraðili þannig skapaði urðu meðal annars til vegna framlags sóknaraðila til annarra framangreindra þátta sem vörðuðu sambúð þeirra og fjárhagslega afkomu á þeim sama tíma. Hefur varnaraðili því ekki, með hliðjón af því heildstæða mati sem leggja ber til grundvallar fjárskiptum aðila, fært fyrir því haldbær rök að annað eigi að gilda um hlutafjáreignina í A ehf., eins og hún stóð og miðað við andvirði hlutanna á viðmiðunardegi skipta 1. júní 2013, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991, en aðrar eigur málsaðilanna. Samkvæmt þessu er fallist á kröfu sóknaraðila um að við skipti til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar með henni og varnaraðila verði lagt til grundvallar að skipt verði til helminga verðmæti hlutafjár varnaraðila í félaginu A ehf. á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verður staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Við opinber skipti til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar milli sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, skal skipt að jöfnu verðmæti hlutafjár varnaraðila í félaginu A ehf., 191.920 hlutir að nafnvirði, á viðmiðunardegi skiptanna 1. júní 2013.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2017.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 10. janúar 2017, barst dóminum 13. júní 2016 með bréfi skiptastjóra við opinber skipti vegna fjárskipta á milli málsaðila.
Sóknaraðili er K, [...].
Varnaraðili er M, [...].
Sóknaraðili krefst þess að við skipti til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar með henni og varnaraðila verði miðað við að skipt verði til helminga hluta varnaraðila í einkahlutafélaginu A. Þá krefst hún málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu sóknaraðila. Til vara krefst varnaraðili þess að miðað verði við að hlutdeild sóknaraðila verði annað og lægra hlutfall en helmingur en þó aldrei hærra en 15% af hlut varnaraðila í félaginu. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar.
II
Málavextir
Málsaðilar skráðu sig í sambúð 25. júní 1998 en þá voru þau [...] ára gömul. Sambúðin stóð í tæp 15 ár og eignuðust þau á þeim tíma tvo drengi, fædda [...] og[...]. Sambúðinni lauk sumarið 2013.
Málsaðilar töldu saman fram til skatts öll sambúðarárin sín, að undanskildum tekjuárunum 2012 og 2013. Aðilar voru eignalaus þegar þau hófu sambúð sína og komu sér upp ýmsum eignum á sambúðartíma. Samkvæmt málsgögnum er um að ræða fjórar fasteignir, tvö ökutæki og hlutabréf. Fasteignirnar að [...], [...] og [...] eru þinglýstar eignir beggja aðila en fasteignin að [...] er þinglýst eign varnaraðila. Aðilar eru skráðir eigendur hvort að sínu ökutækinu. Þá eru hlutir í einkahlutafélögunum B, C og A, öll skráð eign varnaraðila. Sóknaraðili telur sig hins vegar eiga rétt til hlutdeildar í hlutafé varnaraðila í síðastgreinda félaginu en því hafnar varnaraðili. Með úrskurði dómsins, uppkveðnum 31. mars 2015, var fallist á kröfu sóknaraðila um að fram færu opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila vegna slita á óvígðri sambúð. Með bréfi skiptastjóra til dómsins var ágreiningi um hlutdeild sóknaraðila í hlutabréfum varnaraðila í félaginu vísað til dómsins, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl.
III
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili vísar til þess að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafi verið viðurkennt að við fjárskipti við lok óvígðrar sambúðar geti sambúðarmaki átt tilkall til hlutdeildar í eignum hins, hvernig sem háttað sé skráningu og þinglýsingu eignarheimilda, sé sýnt fram á að eignamyndun hafi orðið á sambúðartíma þegar báðir aðilar hafi lagt sitt af mörkum. Sé þannig litið fram hjá nafnskráningu eigna til þess að komast að sanngjarnri niðurstöðu um skiptingu þeirra. Við mat á framangreindu sé m.a. horft til lengdar sambúðar, fjárhagslegrar samstöðu aðila og tekna.
Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína á því að hún eigi tilkall til helmingshlutar í hluta varnaraðila í A ehf., óháð skráningu. Aðilar hafi verið með sameiginlegan fjárhag og talið fram sameiginlega til skatts allt frá árinu 1999 fram til tekjuárs 2012. Í skattframtali aðila 2010 sé sérstaklega tilgreint, vegna flutnings á lögheimili varnaraðila milli Íslands og Svíþjóðar, að aðilar séu enn í sambúð og með sameiginlegan fjárhag og óski því eftir áframhaldandi samsköttun. Varnaraðili hafi séð um gerð skattframtala aðila og stafi skýringin því frá honum.
Sóknaraðili vísar til þess allar eignir aðila hafi orðið til á sambúðartíma með sameiginlegu framlagi beggja. Þau hafi verið ung að árum þegar samband þeirra hófst og bæði eignalaus. Tekjur aðila hafi verið í sameiningu nýttar til reksturs heimilis, afborgana skulda og eignamyndunar og hafi laun sóknaraðila að jafnaði verið lögð inn á reikning varnaraðila. Hin fjárhagslega samstaða á sambúðartíma sé fullkomlega hliðstæð því að um hjúskap hafi verið að ræða.
Hvað varðar eign varnaraðila í A ehf. þá vísar sóknaraðili til þess að eignin hafi myndast á sambúðartíma og með framlagi beggja. Á meðan varnaraðili hafi unnið við stofnun félagsins, á þeim tíma sem sóknaraðili var í námi í Svíþjóð, hafi varnaraðili um tíma verið atvinnulaus. Launatekjur sóknaraðila í starfsnáminu hafi því verið eina tekjulind fjölskyldunnar á þessum tíma. Í framhaldi af því hafi varnaraðili til að byrja með verið á lágmarkslaunum hjá A ehf. Starf varnaraðila hafi aukist jafnt og þétt og hafi hann þurft að ferðast mikið milli Íslands og Svíþjóðar. Sóknaraðili hafi ekki getað verið á sama tíma í fullu starfsnámi og séð jafnframt um báða drengi aðila í fjarveru varnaraðila. Hún hafi því flust heim með þá 2011 og lokið námi sínu hérlendis. Námslok hafi þó frestast nokkuð þar sem sóknaraðili hafi verið áfram í skertu starfshlutfalli eftir að heim var komið, svo að varnaraðila væri kleift að vinna jafn mikið og raun bar vitni við starf sitt og uppbyggingu félagsins. Slíka ákvörðun hefði sóknaraðili ekki tekið í samráði við varnaraðila, nema ljóst væri að hann stæði að uppbyggingu félagsins í þágu þeirra beggja og fjölskyldunnar, svo sem varnaraðili hafi ítrekað lýst yfir við sóknaraðila. Því verði að telja sanngjarnt og eðlilegt að sóknaraðili eigi helmingstilkall til hluta varnaraðila í því. Verulega myndi halla á sóknaraðila við uppgjör fjárskipta þessara, ef þessari eign varnaraðila yrði haldið utan skipta og teldist til séreignar hans.
Þá kveður sóknaraðili að aðilar séu sammála um að skipta öðrum eignum sínum til jafns, þar á meðal fasteign að [...], sem sé eingöngu skráð sem þinglýst eign varnaraðila. Þessi fasteign, sem og aðrar fasteignir aðila, hafi verið taldar fram í skattframtali sóknaraðila 2013, vegna tekjuárs 2012, en ekki varnaraðila, en aðilar hafi ekki notið samsköttunar það ár. Sóknaraðili telur að þetta sýni fram á að aðilar hafi átt og litið svo á að þær eignir sem mynduðust á sambúðartíma væru sameign þeirra beggja.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili vísar til þess að engin heildstæð löggjöf sé til um óvígða sambúð hér á landi ólíkt hjúskap. Í hjúskaparlögum nr. 31/1993 sé að finna yfirgripsmiklar reglur, m.a. um réttindi og skyldur og um fjármál hjóna, en samkvæmt 1. gr. laganna sé tekið skýrt fram að þau gildi ekki um óvígða sambúð. Engar sérstakar skráðar lagareglur gildi því um um skiptingu eigna sambúðarfólks við slit á sambúð.
Varnaraðili byggir á þeirri meginreglu að við fjárslit við lok óvígðrar sambúðar eigi hvor einstaklingur þær eignir sem hann komi með í sambúð og eignist meðan á sambúð standi, nema sérstaklega hafi verið samið um annað. Litið sé á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og um fjármál þeirra fari eftir almennum reglum fjármunaréttar. Hvor aðili haldi þeim eignum og skuldum sem hann sé skráður fyrir. Opinber eignaskráning veiti líkindi fyrir eignarrétti. Haldi annar aðila fram að skráning eignarhalds sé röng beri honum að sanna sérstakt framlag sitt til eignamyndunar, það er að framlög aðila til eignamyndunar eigi að leiða til annarrar niðurstöðu. Strangar kröfur séu gerðar til sönnunar á því að verðmæti sem myndast á sambúðartíma verði talin sameign aðila með þessum hætti. Af dómafordæmum megi ráða að aðallega sé horft til beinna fjárframlaga en Hæstiréttur hafi hert skilyrði fyrir því að dæma sambúðaraðila eignarhlutdeild í eignum hins aðilans vegna vinnuframlags á heimili frá því sem var hér áður fyrr þegar á stundum var horft til „ráðskonukaups“, enda sé um allt aðra aðstöðu að ræða þegar málið lúti að sambúð tveggja langskólagenginna aðila á vinnumarkaði.
Hvað varði vinnuframlag á heimili, hafi aðilar sinnt heimili og börnum nær jafnt. Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila um hið gagnstæða. Oftast hafi verið gott jafnræði en á stundum hafi annar aðili sinnt heimili og börnum meira samkvæmt samkomulagi aðila svo hinn gæti stundað nám eða vinnu.
Varnaraðili vísar til þess að beint fjárframlag hans til heimilis aðila og sameiginlegra fjárfestinga í fasteignum og bifreiðum hafi verið miklu hærra en sóknaraðila. Þær eignir hafi þó verið skráðar meðvitað á báða sambúðaraðila, sem og skuldir þeim tengdar. Varnaraðili hafi lagt til 69% fjárframlags aðila en sóknaraðili 31% á sambúðartíma. Í samræmi við meginreglu um fjárskipti við slit á sambúð bæri honum í raun hærri hlutdeild en opinber skráning segir til um, s.s. í fasteignum sem skráðar eru á báða aðila, bifreiðum og innbúi, vegna hærra framlags hans.
Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila þess efnis að í gildi sé samkomulag um skipti þeirra eigna og skulda sem á aðilum hvíli. Varnaraðili bendir á að aðilar hafi frá upphafi litið svo á að arfur sóknaraðila á hennar reikningi sé eign sóknaraðila en ekki sameign þeirra.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili eigi engan rétt til hlutdeildar í A ehf. Einkahlutafélög varnaraðila hafi einungis tengst atvinnu hans. A ehf. hafi verið stofnað af hálfu varnaraðila og hafi hlutir varnaraðila verið skráðir á nafni hans frá upphafi, ólíkt sameiginlegum fjárfestingum aðila. Félagið hafi verið hugarfóstur varnaraðila, og ásamt því að vera stofnandi félagsins, hafi hann verið forstjóri þess og helsta driffjöður frá upphafi. Eina beina framlag til verðmætaaukningar eftir stofnun þess, hafi verið eigin vinna varnaraðila. Án varnaraðila hefði því ekki verið um nein verðmæti að ræða. Því sé hvorki sanngjarnt né eðlilegt að líta á hlut varnaraðila í félaginu eins og hverja aðra hluti hjá félagi í stöðugum rekstri. Verðmæti A ehf., viðskiptavild og framgangur, hafi verið og sé nátengdur framlagi varnaraðila til framtíðar, í formi leiðsagnar og vinnuframlags.
Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi lagt eitthvað það til rekstrar A ehf. sem réttlætt gæti að henni yrði játaður eignarhlutur í félaginu í andstöðu við skráðar heimildir. Engin sönnun hafi verið færð fyrir slíku.
Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu sóknaraðila að hann hafi verið atvinnulaus á þeim tíma sem hann hafi unnið að uppbyggingu A ehf. og að launatekjur sóknaraðila hafi verið eina tekjulind fjölskyldunnar. Á tímabilinu 2009-2013 hafi heildartekjur varnaraðila verið hærri en tekjur sóknaraðila og hafi hann lagt þær til reksturs heimilisins. Þá mótmælir varnaraðili staðhæfingu sóknaraðila um að framlag sóknaraðila til heimilis hafi á þeim tíma verið meira en varnaraðila. Fyrri hluta þessa tíma hafi varnaraðili sinnt heimili og börnum meir, en sóknaraðili síðari hluta. Þannig sé af og frá að eignamyndun varnaraðila í A ehf. hafi orðið til með framlagi beggja. Jafnvel þó að metið yrði að vinnuframlag sóknaraðila á heimili hafi verið meira á tilgreindu tímabili, sé því alfarið hafnað að slíkt sé nægjanlegt þannig að réttlætt gæti eignatilkall sóknaraðila í eign varnaraðila í félaginu.
Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili hafi ekki átt þátt í stofnun A ehf., hafi aldrei verið skráð fyrir neinum eignum eða öðru í tengslum við félagið, aldrei komið að vinnu við félagið eða innt af hendi nein fjárframlög til þess rekstrar.
Varnaraðili bendir á að jöfn skráning annarra eigna aðila, þ.e. fasteigna og bifreiða, sýni að aðilar álitu þær eignir sameiginlegar en ekki aðrar eignir, s.s. félög í eigu varnaraðila eins og A ehf. Ætlunin hafi þannig verið að sameiginlegar eignir yrðu skráðar að jöfnu. Varnaraðili kveður að fasteignin að [...] hafi ranglega einungis verið skráð á hans nafn. Báðir aðilar hafi frá upphafi viðurkennt að þrátt fyrir það sé um sameign að ræða.
Varnaraðili byggir á því að niðurstaða um helmingshlutdeild sóknaraðila í A ehf. yrði verulega ósanngjörn, sé litið til eðlis þeirrar eignar sem um ræði. Eðli sprotafyrirtækja sé slíkt, að verðmæti byggjast upp á löngum tíma. Uppbyggingu félagsins hafi ekki verið lokið við sambúðarslit aðila 2013. Möguleg verðmætaaukning hafi átt sér stað bæði fyrir og í verulegum mæli eftir sambúðarslit. Varnaraðili hafi innt af hendi persónulegt vinnuframlag sitt, bæði fyrir og eftir sambúðarslit.
Til stuðnings varakröfu sinni bendir varnaraðili á að frá því að störf hófust við félagið í apríl 2009 og til október 2016 séu liðnir 90 mánuðir. Þar af hafi sambúð aðila staðið yfir í 50 mánuði. Þar sem engin leið sé að verðmeta sprotafyrirtæki, eins og A ehf., á einstökum tímum mætti líta á verðmætaaukningu félagsins á línulegan hátt allt frá stofnun til dagsins í dag. Ef fallist yrði á að sóknaraðili ætti einhvern rétt til hlutdeildar væri einungis unnt að reikna þá hlutdeild af þeirri verðmætaaukningu sem félli undir sambúðartíma. Með því væri aldrei hægt að komast að þeirri niðurstöðu að hlutdeild sóknaraðila við skipti væri helmingur þeirra hluta sem varnaraðili á.
IV
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila og varnaraðila, vegna loka óvígðrar sambúðar þeirra. Málsaðila greinir á um hvort sóknaraðili eigi tilkall til hlutar varnaraðila í einkahlutafélaginu A. Sóknaraðili byggir kröfu sína á fjárhagslegri samstöðu aðila og því að eignamyndun varnaraðila í félaginu hafi orðið til á sambúðartíma með framlagi þeirra beggja. Varnaraðili hafnar kröfu sóknaraðila og vísar meðal annars til þess að eina beina framlag til verðmætaaukningar félagins eftir stofnun þess hafi verið eigin vinna varnaraðila. Sóknaraðili hafi ekki komið að stofnun félagsins, vinnu við það né innt af hendi fjárframlög til rekstrar þess.
Engar lögfestar reglur eru um skipti eigna við lok óvígðrar sambúðar. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar ber við slit sambúðar að líta á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og gildir þá sú meginregla að hvor aðili taki þær eignir sem hann átti við upphaf sambúðar eða eignaðist meðan á sambúðinni stóð. Er almennt litið svo á að þinglýstar eignarheimildir og opinber skráning eigna veiti líkindi fyrir eignarrétti. Þrátt fyrir framangreint hefur í dómaframkvæmd réttarins verið viðurkennt að sambúðarmaki geti átt tilkall til hlutdeildar í eignum hins, hvernig sem háttað er skráningu og þinglýsingu eignarheimilda, sýni sá sambúðarmaki fram á að eignamyndun hafi orðið á sambúðartíma þegar báðir aðilar hafi lagt sitt af mörkum. Í samræmi við þetta hvílir á sóknaraðila sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi innt af hendi bein og óbein framlög til eignamyndunar í A ehf. á sambúðartímanum og er sönnun í þeim efnum forsenda þess að fallist verði á kröfu hennar.
Eins og rakið hefur verið voru málsaðilar skráð í sambúð í um 15 ár og eignuðust þau tvo drengi á sambúðartímanum. Báðir aðilar lögðu aflafé sitt til reksturs heimilisins, kaupa á fasteignum og bifreiðum, afborgana skulda og annarra útgjalda. Þau töldu saman fram til skatts öll árin, að undanskildum tekjuárunum 2012 og 2013. Samkvæmt framlögðum skattframtölum aflaði varnaraðili hærri tekna öll sambúðarárin, að undanskildum tekjuárunum 2009 og 2010. Meðal eigna aðila eru fjórar fasteignir. Þrjár þeirra eru þinglýstar eignir beggja aðila en ein þeirra er þinglýst eign varnaraðila. Aðilar eru sammála um að sú fasteign sé samt sem áður sameign þeirra og töldu þau fram helmings eignarhlut hvort í fasteigninni til skatts. Þeim ber saman um að fasteignakaupin hafi verið á ábyrgð beggja enda voru þau aðallega fjármögnuð með lánum, sem ýmist voru sameiginleg eða hvert á sínum aðilanum. Af framangreindu er ljóst að með aðilum var fjárhagsleg samstaða á sambúðartímanum. Það eitt og sér nægir þó ekki til þess að sóknaraðili eigi sjálfkrafa rétt til tilkalls helmings í hlut varnaraðila í A ehf. heldur verði að líta til fleiri þátta.
Á sambúðartíma menntuðu báðir aðilar sig. Sóknaraðili stundaði [...] og lauk [...] árið 2005. Varnaraðili lauk grunnnámi sínu í [...] vorið 1999. Um svipað leyti stofnaði hann hugbúnaðarfyrirtæki og vann við uppbyggingu þess. Varnaraðili hóf nám við háskóla í Bandaríkjunum haustið 2006 og varð sóknaraðili eftir á Íslandi með drengina, en sá yngri var þá nýfæddur. Sóknaraðili flutti, ásamt þeim, til varnaraðila tæpu ári síðan. Aðilar fluttust aftur til Íslands haustið 2008. Sóknaraðili hóf þá starfsnám í [...] en varnaraðili starfaði örstutt hjá banka og í framhaldinu hjá [...] um nokkurra mánaða skeið. Varnaraðili stofnaði svo A ehf. í mars 2009. Um haustið sama ár fluttu aðilar til Svíþjóðar þar sem sóknaraðili hóf framhaldsnám í [...]. Varnaraðili vann á þessum tíma við uppbyggingu A ehf. Vorið 2011 fluttu aðilar með drengina til Íslands. Þau greinir á um ástæðu þess. Sóknaraðili kveður að það hafa verið vegna mikillar fjarveru varnaraðila frá heimili þeirra í Svíþjóð, í tengslum við uppbygginguna, sem hafi orðið þess valdandi að hún hafi ekki getað sinnt framhaldsnámi sínu sem skyldi, en varnaraðili kveður að þau hafi viljað búa nær ættingjum og vinum. Allt að einu er ljóst að um sameiginlega ákvörðun málsaðila var að ræða og getur það atriði ekki ráðið úrslitum í málinu, né heldur að meiri ábyrgð á heimilisrekstrinum kunni að hafa hvílt á herðum sóknaraðila eftir að heim var komið.
Í framburði varnaraðila fyrir dóminum kom fram að hann hefði greitt fyrir hlut sinn í A ehf. með tekjum sínum frá [...] og starfslokagreiðslum frá nafngreindum banka. Endanlegt fjárframlag hans til stofnunar félagsins hafi verið 191.000 krónur. Sóknaraðili hefur ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings að hún hafi innt af hendi greiðslur fyrir stofnfé í félaginu. Að mati dómsins skiptir þó ekki öllu máli, fyrir niðurstöðu málsins, hvort umrætt fjárframlag hafi komið frá varnaraðila eða úr sameiginlegum sjóðum aðila enda um lága fjárhæð að ræða í samanburði við tekjur og eignir þeirra. Sú staðhæfing sóknaraðila að launatekjur hennar í starfsnáminu í Svíþjóð hafi, þegar varnaraðili stóð að uppbyggingu félagsins, verið megin tekjulind fjölskyldunnar stenst ekki skoðun. Varnaraðili hefur vísað til þess að þó að hann hafi ekki fengið greidd laun frá félaginu fyrr en snemma árs 2010 hafi hann fengið greiðslur frá Vinnumálastofnun vegna úrræðis sem hann nýtti sér sem hét „Þróun eigin viðskiptahugmyndar“. Samkvæmt framlögðum skattframtölum fékk sóknaraðili 4.411.528 krónur í tekjur fyrir árið 2009 en varnaraðili 3.032.742 krónur. Árið 2010 voru tekjur sóknaraðila 5.770.192 krónur og varnaraðila 5.513.040 krónur
Að mati dómsins verður að líta til þess að varnaraðili stóð einn að stofnun A ehf. í mars 2009, þ.e. um fjórum árum áður en aðilar slitu samvistum. Þeirri staðhæfingu varnaraðila að félagið hafi verið hugarfóstur hans, hann hafi verið forstjóri þess og helsta driffjöður frá upphafi, byggt upp rekstur félagsins og unnið fyrir það til dagsins í dag, hefur ekki verið mótmælt af hálfu sóknaraðila. Hafa hlutir í félaginu einungis verið skráðir á nafn varnaraðila frá upphafi, ólíkt öðrum fjárfestingum aðila. Óumdeilt er að sóknaraðili kom aldrei að rekstri félagsins.
Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið, verður því að hafna kröfu sóknaraðila um að henni beri helmingshlutdeild í félaginu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu sóknaraðila, K, um að við skipti til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar með henni og varnaraðila, M, verði miðað við að skipt verði til helminga hlutum varnaraðila í félaginu A ehf., er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.