Hæstiréttur íslands
Mál nr. 350/2001
Lykilorð
- Ölvunarakstur
|
Nr. 350/2001. |
Fimmtudaginn 15. nóvember 2001. |
|
|
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Sigríði Jórunni Jóhanns Óskarsdóttur (Steingrímur Þormóðsson hrl.) |
Ölvunarakstur.
S var ákærð fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis frá golfskálanum á Bíldudal til heimilis síns þar sem lögregla hafði afskipti af henni. S kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis er hún ók umrædda leið en hafa drukkið af stút óblandað sterkt áfengi eftir að hún kom heim til sín. Skömmu síðar hafi hún farið út í bifreið sína og sest upp í hana í því skyni að ná í veski sitt. Lögreglumaður sá, sem handtók S, kvaðst hafa séð bifreið hennar við golfskálann rúmum hálftíma áður en hann sá S aka henni áleiðis heim til sín, en samkvæmt gögnum málsins kom annar lögreglumaður á vettvang nokkrum mínútum eftir handtöku hennar. Í dómi Hæstaréttar segir að þrátt fyrir þessar aðstæður hafi þess ekki verið gætt við rannsókn málsins að taka þvagsýni af S til alkóhólsrannsóknar, heldur látið við það sitja að taka úr henni blóð, en samanburður á þessum sýnum hefði getað veitt upplýsingar um hvort ákærða hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hún ók bifreiðinni. Þá hafi lögreglumennirnir ekki kannað hvort vél bifreiðarinnar væri heit viðkomu eða hvort einhver vitni hafi verið að hugsanlegri drykkju S í golfskálanum eða akstri hennar þaðan. Þótti sök S ekki nægilega sönnuð og var hún sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2001 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærða verði sakfelld fyrir þá háttsemi, sem henni er gefin að sök í ákæru, dæmd til refsingar, sviptingar ökuréttar og greiðslu alls sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Ákærða krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að sér verði gerð vægasta refsing, sem lög leyfa.
Eins og greinir í ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa 14. júlí 2000 ekið bifreiðinni LO 492 undir áhrifum áfengis frá bifreiðastæði við golfskálann á Bíldudal, norður Dalbraut, inn á Tjarnarbraut og síðan inn á bifreiðastæði við Tjarnarbraut 17, þar sem lögregla hafði afskipti af henni.
Ákærða hefur frá upphafi neitað sök. Hún kveðst hafa ekið bifreiðinni þá leið, sem lýst er í ákæru, en hún hafi þá ekki verið undir áhrifum áfengis, enda hafi hún ekki drukkið meira en tvo bjóra sem hún hafi neytt um hádegisbil þennan dag. Eftir að hún kom heim á bifreiðinni frá golfvellinum um kl. 19.40 hafi hún drukkið af stút óblandað sterkt áfengi. Skömmu síðar hafi hún farið út í bifreið sína og sest upp í hana í því skyni að ná í veski sitt. Hún hafi því ekki verið að aka bifreiðinni, eins og lögreglumaðurinn er handtók hana hafi fullyrt. Fram er komið að sá lögreglumaður er einn til frásagnar um ætlaðan akstur ákærðu, en samkvæmt gögnum málsins kom annar lögreglumaður á vettvang nokkrum mínútum eftir handtöku hennar. Þrátt fyrir þessar aðstæður var þess ekki gætt við rannsókn málsins að taka þvagsýni af ákærðu til alkóhólrannsóknar, heldur látið við það sitja að taka úr henni blóð, en samanburður á þessum sýnum hefði getað veitt upplýsingar um hvort ákærða hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hún ók bifreiðinni frá golfskálanum. Þá könnuðu lögreglumennirnir tveir, sem komu á vettvang, ekki hvort vél bifreiðar ákærðu væri heit viðkomu. Lögreglumaður sá, sem handtók ákærðu, kveðst hafa séð bifreið hennar við golfskálann á Bíldudal rúmum hálftíma áður en hann sá ákærðu aka henni áleiðis heim tíl sín. Allt að einu hirtu lögreglumennirnir ekki um að kanna hvort einhver vitni hefðu verið að hugsanlegri drykkju ákærðu í golfskálanum eða akstri hennar þaðan. Að þessu virtu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 20. júlí 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 29. júní sl., að undangengnum munnlegum málflutningi, hefur sýslumaðurinn á Patreksfirði höfðað hér fyrir dómi þann 9. apríl 2001 með ákæru á hendur Sigríði Jórunni Jóhanns Óskarsdóttur, kt. 050447-4489, Tjarnarbraut 17, Bíldudal,
„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 14. júlí 2000 ekið bifreiðinni LO-492 undir áhrifum áfengis frá bifreiðastæði við golfskálann á Bíldudal, norður Dalbraut, inn á Tjarnarbraut og síðan inn á bifreiðastæði við Tjarnarbraut 17, þar sem lögreglan hafði afskipti af henni.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993.“
Ákærða kveðst hafa ekið bifreiðinni eins og lýst er í ákæru, en segist ekki hafa verið undir áhrifum áfengis. Hún segist hafa fengið sér tvo litla bjóra um hádegi, en ekki neytt annars áfengis þennan dag, áður en hún ók frá golfskálanum. Hafi hún þá verið leið yfir slæmu gengi á golfvellinum um daginn. Þegar hún hafi verið komin heim hafi hún tekið viskíflösku og teygað af stút. Sig hafi brátt vantað vindlinga, sem hafi verið í handtösku hennar í aftursæti bifreiðarinnar. Hafi hún þá farið út í bifreiðina og af vana sest í ökumannssætið og ætlað að teygja sig í handtöskuna. Í þeim svifum hafi Árni Víðir Alfreðsson lögreglumaður komið og handtekið hana. Hafi þau síðan beðið komu Sveins Ólafssonar flokksstjóra frá Patreksfirði.
Ákærða var síðan færð á lögreglustöðina á Patreksfirði. Læknir tók blóðsýni úr henni klukkan 21:37. Samkvæmt frumskýrslu Árna Víðis Alfreðssonar var ákærða handtekin um kl. 20.05-20.10. Vínandamagn í sýninu reyndist 1,41.
Árni Víðir Alfreðsson ber að hafa verið á frívakt þetta kvöld. Sveinn Ólafsson hafi hringt og beðið sig að kanna hvað væri hæft í tilkynningu sem borist hefði um að ákærða væri að aka ölvuð um Bíldudal. Vitnið fór þegar á stúfana og sá fljótlega hvar bifreið ákærðu stóð við golfskálann. Sinnti hann henni þá ekki meir og kvaðst ekki hafa talið ástæðu til að skipta sér af ákærðu, en skömmu síðar sá hann hvar bifreiðinni var ekið norður Dalbraut. Vitnið kveðst hafa farið á eftir og gefið ökumanni merki um að stöðva, án árangurs. Hafi bifreiðin ekki numið staðar fyrr en fyrir utan heimili ákærðu, þar sem hann hafi handtekið hana þá þegar, þar sem hún sat í ökumannssæti bifreiðarinnar. Skömmu síðar hafi Sveinn Ólafsson flokksstjóri komið á vettvang.
Sveinn Ólafsson ber að kært hafi verið símleiðis yfir ölvunarakstri ákærðu og hann hafi þá hringt í Árna Víði og síðan lagt af stað sjálfur til Bíldudals frá Patreksfirði. Hafi hann komið þangað skömmu eftir að Árni Víðir handtók ákærðu.
Vitnið Árni Víðir Alfreðsson ber samkvæmt framansögðu að hafa séð óslitið til ferða ákærðu við aksturinn, sem það hafi reynt að stöðva, en síðan fylgt henni eftir uns hún nam staðar utan við heimili sitt þar sem vitnið handtók hana þá þegar. Framburður ákærðu og vitnisins fer saman um það að vitnið handtók ákærðu þar sem hún sat í ökumannssæti bifreiðarinnar. Framburður vitnisins er í samræmi við frumskýrslu þess og ekkert liggur fyrir í málinu sem er sérstaklega til þess fallið að draga úr trúverðugleika hans. Gegn honum stendur framburður ákærðu um áfengisneyslu sína eftir að akstri lauk, sem er með nokkrum ólíkindablæ. Til þess er þó að líta að ákærða neitaði þegar í frumskýrslu sinni að hafa verið að aka bifreið og kvaðst ekki hafa verið við akstur er hún var handtekin, án þess að sjáanlegt sé af frumskýrslunni að hún hafi verið nánar spurð um atvik, þrátt fyrir greinargóðan framburð og skýrt málfar. Ákærða var ekki látin gefa þvagsýni í þágu rannsóknarinnar. Að þessu virtu og því að aðeins eitt vitni var að akstri ákærðu, þykir ekki sök hennar ekki alveg nægilega sönnuð. Verður hún því sýknuð af kröfum ákæruvaldsins. Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Steingríms Þormóðssonar hrl., 80.000 kr.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.
DÓMSORÐ:
Ákærða, Sigríður Jórunn Jóhanns Óskarsdóttir, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Steingríms Þormóðssonar, hrl., 80.000 kr.