Hæstiréttur íslands
Mál nr. 400/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 15. júlí 2009. |
|
Nr. 400/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi
á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til mánudagsins 10. ágúst 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2009.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til mánudagsins 10. ágúst 2009 kl. 16.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri í dag, hafi X verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa að kvöldi miðvikudaginn 3. júní og aðfaranótt fimmtudagsins 4. júní 2009 í garði við húsið að [...], Reykjavík, og inni í húsinu margsinnis slegið A í höfuðið, ýmist með krepptum hnefa eða flötum lófa, með þeim afleiðingum að hann missti að lokum meðvitund og hlaut stór glóðaraugu með miklum bólgum á báðum augum, skrámur hér og þar á höfði, mar og bólgur á enni, áverka á tannholdi og tönnum í efri góm, heilablæðingu, heilabjúg og að öllu líkindum höfuðkúpubotnsbrot. Sé brotið heimfært undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Við skýrslutökur hjá lögreglu hafi ákærði játað að hafa slegið A tvisvar í andlitið, á milli augnanna, inni í húsinu með þeim afleiðingum að A hafi fallið í gólfið og kveðst ákærði þá hafa dregið hann inn á baðherbergi í vistarverum sínum, skilið hann þar eftir og beðið eftir að hann vaknaði. Síðar hafi hann með aðstoð lagt A, sem hafi verið án meðvitundar, upp í rúm sitt.
A hafi verið komið undir læknishendur eftir hádegi þann 4. júní og var hann þá meðvitundarlaus og með þá áverka sem lýst sé í ákæru. A hafi verið í lífshættu fyrst eftir að hann kom á sjúkrahús.
Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 5. júní s.l. og hafi hann sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, frá 15. júní. Ákæra hafi verið gefin út í málinu og sé því uppfyllt það skilyrði ákvæðisins að um sterkan grun sé að ræða, auk þess sem ákærði hafi játað að hafa slegið A. Brot það sem hér um ræði varði fangelsi allt að 16 árum sbr., 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Að mati ákæruvaldsins krefjist almannahagsmunir þess að maður sem sannur hafi orðið að alvarlegu broti gegn lífi og líkama annars manns, líkt og ákærði, sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir dómstólum.
Með vísan til þess sem að framan var rakið er fallist á með ríkissaksóknara að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið alvarlega líkamsárás sem getur haft í för með sér stórfellt heilsutjón, en slíkt brot kann að varða allt að 16 ára fangelsi samkvæmt. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Hefur ákæra verið gefin út á hendur kærða vegna þeirrar líkamsárásar. Brotið sem kærði er grunaður um er þess eðlis að telja verður gæsluvarðhaldið nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrði eru því fyrir því að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Er því fallist á kröfu ríkissaksóknara um áframhaldandi gæsluvarðhald eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hervör Þorvalsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, X, kt. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til mánudagsins 10. ágúst 2009 kl. 16.00.