Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-277
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Handtaka
- Miskabætur
- Hafnað
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 27. nóvember 2020 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 30. október sama ár í málinu nr. 404/2019: Íslenska ríkið gegn A og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta til heimtu miskabóta og bóta vegna tekjutaps vegna frelsissviptingar sem hann sætti í tengslum við ætlaða líkamsárás og frelsissviptingu. Frelsissvipting leyfisbeiðanda var annars vegar í kjölfar handtöku og í gæsluvarðhaldi og hins vegar er hann afplánaði eftirstöðva fangelsisrefsingar. Í dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi ekki talinn hafa sýnt fram á tekjutap vegna frelsissviptingar en á hinn bóginn var hann talinn eiga rétt til miskabóta samkvæmt 246. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála vegna handtöku hans og gæsluvarðhalds. Dómurinn taldi jafnframt að leyfisbeiðandi ætti rétt á miskabótum þar sem orðið hefði óhæfilegur dráttur á útgáfu ákæru í málinu með þeirri afleiðingu að hann átti ekki kost á reynslulausn úr fangelsi þannig að í því hafi falist saknæmt og ólögmætt brot gegn frelsi leyfisbeiðanda í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Leyfisbeiðandi kveður tilgang áfrýjunar vera að fá dómi Landsréttar hnekkt að því er varðar niðurstöðu hans um miskabætur vegna þess hluta frelsissviptingar leyfisbeiðanda er sneri að afplánun eftirstöðva fangelsisrefsingar og tafa á útgáfu ákæru. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið sé fordæmisgefandi um túlkun á bæði 246. gr. laga nr. 88/2008 og 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar um það hvort bótaréttur verði reistur á umræddum ákvæðum vegna frelsissviptingar sökum afplánunar eftirstöðva fangelsisrefsingar. Þá telur telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.