Hæstiréttur íslands
Mál nr. 643/2016
Lykilorð
- Skuldabréf
- Gjaldþrotaskipti
- Fyrning
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. september 2016. Hann krefst þess að viðurkennd verði slit á fyrningu kröfu sinnar á hendur stefndu samkvæmt skuldabréfi númer R-043742, útgefnu 2. apríl 2003 og upphaflega að fjárhæð 4.658.560 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.
Samkvæmt gögnum málsins undirritaði stefnda 2. apríl 2003 skuldabréf, sem bar númerið R-043742, og viðurkenndi þar að skulda áfrýjanda fjárhæð, sem nema myndi heildarskuld hennar vegna námslána, en honum var í skuldabréfinu veitt heimild til að færa inn þá fjárhæð við námslok stefndu. Óumdeilt er að stefnda hafi lokið námi 22. nóvember 2004 og hafi áfrýjandi þá réttilega ritað fjárhæð skuldar hennar, 4.658.560 krónur, á viðeigandi stað í skuldabréfinu, en skuldin var bundin vísitölu neysluverðs með tiltekinni grunntölu. Fyrir liggur að stefnda hafi innt af hendi greiðslur samkvæmt skuldabréfinu á fyrsta gjalddaga þeirra á árinu 2007 og einnig á gjalddögum 2008 og 2009, en á árinu 2010 varð áfrýjandi við umsókn stefndu um frystingu lánsins, sem svo var nefnd og átti að standa til ársloka 2012. Á því tímabili komst á 5. júní 2012 samningur fyrir stefndu um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, en sá samningur átti ekki að raska kröfu áfrýjanda á hendur stefndu að öðru leyti en því að þar var mælt fyrir um að afborganir og vextir af kröfunni skyldu falla niður í þrjú ár frá gildistöku samningsins, sbr. g. lið 1. mgr. 3. gr. laganna. Með kröfu, sem barst héraðsdómi 4. september 2013, leitaði stefnda gjaldþrotaskipta á búi sínu og var krafan tekin til greina 19. sama mánaðar. Við skiptin var lýst kröfum að fjárhæð samtals 30.505.387 krónur, en þar af nam krafa áfrýjanda á grundvelli fyrrnefnds skuldabréfs 8.525.176 krónum. Skiptunum lauk 19. desember 2013 án þess að greiðsla fengist upp í hana. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., svo sem þeirri lagagrein var breytt með 1. gr. laga nr. 142/2010, rufu gjaldþrotaskiptin á búi stefndu fyrningu á kröfu áfrýjanda samkvæmt skuldabréfinu, en við lok skiptanna hófst nýr tveggja ára fyrningarfrestur kröfunnar. Í málinu er deilt um hvort fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 142/2010, til að áfrýjandi fái með dómi viðurkennd slit á þessari fyrningu kröfunnar með þeim áhrifum að upp frá því gildi um hana fyrningarfrestur eftir almennum reglum laga.
Samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 er réttur áfrýjanda til að fá slitið fyrningu kröfu sinnar á hendur stefndu háður þeim skilyrðum að hann sýni fram á annars vegar að hann hafi sérstaka hagsmuni af því og hins vegar að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfunni á nýjum fyrningartíma. Varðandi skýringu á fyrirmælum um þessi skilyrði hefur áfrýjandi meðal annars vísað til þess að með 1. gr. laga nr. 142/2010 hafi ekki aðeins verið sett ný regla um að krafa á hendur þrotamanni fyrnist á tveimur árum eftir lok gjaldþrotaskipta í stað eldri reglu 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um að gjaldþrotaskipti ryfu fyrningu lýstrar kröfu og hæfist við lok þeirra á nýjan leik sami fyrningarfrestur og áður gilti um hana, heldur hafi einnig verið takmörkuð mjög heimild kröfuhafa til að fá fyrningu slitið. Standi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar því í vegi að leidd séu í lög á afturvirkan hátt skilyrði, sem tálmi í svo ríkum mæli að fyrningu verði slitið að þau jafngildi banni við því, en að þessu verði sérstaklega að gæta við skýringu og beitingu 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Um þessa röksemd áfrýjanda er til þess að líta að fyrirmælin í síðastnefndu lagaákvæði eru ekki afturvirk í öðrum skilningi en þeim að þau taka til allra krafna á hendur þrotamanni, sem ekki er fullnægt við gjaldþrotaskipti, án tillits til þess hvort þær hafi orðið til áður en eða eftir að lög nr. 142/2010 tóku gildi. Með lögum er unnt að breyta fyrningartíma kröfu frá því, sem gilti við stofnun hennar, enda sé kröfuhafa þá gefið ráðrúm til að rjúfa fyrningu kröfu sinnar ef nýjum fyrningartíma hennar væri að öðrum kosti að ljúka eða þegar lokið. Eðli máls samkvæmt hefur löggjafinn þá einnig svigrúm til að setja nýjar reglur um hvernig og með hvaða skilyrðum fyrningu kröfu verði slitið. Ákvæði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 fela í sér almenna takmörkun á rétti kröfuhafa til að slíta fyrningu við tilteknar aðstæður og tekur hún jafnt til allra. Eru því ekki efni til að láta 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar setja sérstakt mark á skýringu 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991.
Í lögskýringargögnum, sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi, verður lítið séð sem máli skiptir um hvernig löggjafinn hafi ætlast til að skýrð yrðu þau fyrirmæli í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 að kröfuhafi þurfi að sýna fram á sérstaka hagsmuni sína af því að slíta fyrningu kröfu til þess að við því megi verða. Eftir orðalagi þessa lagaákvæðis og með hliðsjón af því, sem þó kom fram í lögskýringargögnum, verður að líta svo á að í tilvikum, þar sem krafa hefur ekki orðið til út af ólögmætri háttsemi skuldarans, feli þetta skilyrði einkum í sér að kröfuhafi þurfi vegna sinna eigin aðstæðna að hafa svo að teljandi sé hagsmuni umfram aðra kröfuhafa af því að tiltekin krafa verði ekki látin falla niður fyrir fyrningu. Þótt áfrýjandi beri eftir lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna ríkar skyldur til að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð með lánum geta þær einar ekki valdið því að aðstæður hans séu í framangreindum skilningi sérstakar í samanburði við aðra lánveitendur. Í því sambandi verður heldur ekki litið fram hjá því að áfrýjandi er ríkisstofnun, sem fær samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 15. gr. laga nr. 21/1992 fé til að standa undir starfsemi sinni meðal annars með framlögum ríkisins, þess sama og hefur í skjóli löggjafarvalds síns sett 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 án þess að undanþiggja áfrýjanda eða aðra tiltekna lánardrottna frá því að þurfa að hlíta reglum ákvæðisins. Því hefur ekki verið borið við að stefnda hafi með ólögmætri háttsemi stofnað til skuldar við áfrýjanda. Þegar af þessum ástæðum eru ekki uppfyllt skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 til að verða við kröfu áfrýjanda um að viðurkennd verði slit á fyrningu kröfu hans á hendur stefndu og þarf þá ekki að líta frekar til þess að hann hefur á engan hátt leitt í ljós að líkur séu á að fullnusta kröfunnar gæti fengist á nýjum fyrningartíma.
Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en um hann og gjafsóknarkostnað stefndu hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, greiði í ríkissjóð 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Vilborgar Drífu Gísladóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 750.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júlí 2016.
Mál þetta var höfðað 13. október 2015 af Lánasjóði íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, gegn Vilborgu Drífu Gísladóttur, Hvammabraut 10, 220 Hafnarfirði. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð sem fram fór 10. júní sl.
Stefnandi krefst þess að fyrningarslit kröfu hans á hendur stefndu samkvæmt skuldabréfi nr. R-043742, útgefnu 2. apríl 2003, upphaflega að fjárhæð 4.658.560 krónur, verði viðurkennd með dómi.
Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefnda krefst aðallega sýknu, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Upphaflega gerði stefnandi jafnframt fjárkröfu á hendur stefndu að fjárhæð 8.442.302 krónur auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. júní 2013 til greiðsludags. Við upphaf aðalmeðferðar málsins féll stefnandi frá þessari kröfu með þeim skýringum að við upphaf gjaldþrotaskipta hafi krafan verið í skilum og því yrði greitt áfram af skuldabréfinu samkvæmt ákvæðum þess, ef fallist yrði á dómkröfu stefnanda.
I.
Vegna náms í snyrtifræði við Snyrtiakademíuna í Kópavogi, 2002-2003, sótti stefnda um námslán hjá stefnanda, en stefnda lauk námi 22. nóvember 2004. Undirritaði hún 2. apríl 2003, skuldabréf að fjárhæð 4.658.560 krónur, til viðurkenningar á teknum námslánum. Skuldabréfið er verðtryggt, og ber breytilega vexti sem aldrei skyldu þó vera hærri en 3% ársvextir af höfuðstól skuldarinnar og skyldu reiknast frá námslokum. Bú ábyrgðarmanns á láninu hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Í samræmi við lög nr. 21/1992 hófust endurgreiðslur námslánsins tveimur árum eftir námslok, sbr. einnig skilmála skuldabréfsins. Fyrsta afborgun af skuldabréfinu var þann 1. mars 2007. Fyrsti gjalddagi var greiddur og tveir næstu, þ.e. 1. mars 2008 og 1. mars 2009. Greiðslur samkvæmt skuldabréfinu voru í tvennu lagi, annars vegar þessi fasta greiðsla og síðan tekjutengd greiðsla að hausti. Aldrei kom til slíkrar greiðslu hjá stefndu sökum lágra tekna.
Með auglýsingu sem birt var í Lögbirtingablaði, útgefnu 25. janúar 2011, var tilkynnt að umboðsmaður skuldara hefði móttekið umsókn stefndu um greiðsluaðlögun einstaklinga skv. lögum nr. 101/2010 og hófst þá tímabundin frestun greiðslna hjá stefndu. Með auglýsingu í Lögbirtingablaði, útgefnu 23. maí 2011, var tilkynnt um afturköllun umsóknar stefndu um greiðsluaðlögun. Enn var í auglýsingu í blaðinu 24. júní 2011, tilkynnt að umboðsmaður skuldara hefði móttekið umsókn stefndu um greiðsluaðlögun einstaklinga og hófst þá aftur tímabundin frestun greiðslna hjá stefndu. Með auglýsingu í blaðinu 7. júní 2012, var svo tilkynnt að samningur um greiðsluaðlögun einstaklinga hefði komist á hjá stefndu 5. júní 2012, og tímabundinni frestun greiðslna samkvæmt lögum nr. 101/2010 væri þá lokið.
Þrátt fyrir að ná þessum áfanga komst stefnda ekki út úr fjárhagsörðugleikum sínum og með bréfi til Héraðsdóms Reykjaness, 4. september 2013, krafðist hún þess að bú hennar yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 19. september 2013, var fallist á þá kröfu og var innköllun til kröfuhafa birt í Lögbirtingablaði 11. október 2013. Skiptum á eignalausu þrotabúi stefndu lauk 19. desember 2013. Fasteign hennar var seld nauðungarsölu í nóvember 2013.
Stefnda kveður meginástæðuna fyrir fjárhagsörðugleikum sínum tekjulækkun, en þó einkum þá að hún hafi glímt við veikindi frá 2009 sem orðið hafi þess valdandi að hún hafi ekki getað unnið úti í fullu starfi. Þá hafi hún þurft að minnka við sig vinnu árið 2006 þegar börn hennar greindust með [...]. Stefnda var svo loks greind 2014 með [...].
Stefnda útskrifaðist úr snyrtiskólanum árið 2003 en hefur hins vegar aldrei lokið sveinsprófi og hefur þar af leiðandi ekki löggildingu til að starfa sem snyrtifræðingur. Við aðalmeðferð málsins gaf stefnda skýrslu símleiðis frá Noregi, þar sem hún hefur búið síðan 22. júní 2015. Hún hefur leitað þar eftir atvinnu en án árangurs. Hún kveðst ekki fær um að vinna nema hlutastarf vegna heilsuleysis. Þá sagðist hún ekki eiga rétt til atvinnuleysisbóta í Noregi.
Áður en stefnandi féll frá fjárkröfu sinni í málinu, sundurliðaði hann kröfuna þannig að eftirstöðvar námslánsins án verðbóta eftir greiðslu gjalddaga 1. mars 2009, hefðu numið 4.644.675 krónum auk verðtryggingar til september 2014, eða 8.068.509 krónur, auk 1% vaxta, þ.m.t. vaxtavaxta frá 1. mars 2009 til 19. september 2015, 373.793 krónur, eða alls samtals 8.443.302 krónur.
II.
Stefnandi kveðst byggja á því að stefnda sé skuldbundin til að endurgreiða námslánið sem hafi gjaldfallið 19. september 2013, þegar bú hennar var tekið til gjaldþrotaskipta. Við skiptalok 19. desember 2013 hafi því nýr fyrningarfrestur byrjað að líða í samræmi við 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Ekki skipti máli hvað það varðar, hvort kröfu sé lýst í þrotabú eða ekki.
Kröfu sína um viðurkenningu á fyrningarslitum byggi stefnandi á því að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að fá fyrningunni slitið. Sú sérstaða hvíli á stefnanda að hlutverk hans sé að veita námsmönnum námslán og allir námsmenn sem uppfylli skilyrði laga nr. 21/1992, sbr. reglugerð nr. 478/2011, fyrir því að fá námslán, eigi rétt á því, í samræmi við markmið og tilgang stefnanda.
Samkvæmt 8. gr. laga nr. 21/1992 ákvarðist árleg endurgreiðsla lánanna í tvennu lagi. Annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum og hins vegar viðbótargreiðslu sem miðist við ákveðinn hundraðshluta tekna tekjuársins á undan endurgreiðsluári, sbr. 10. gr. laganna.
Stefnandi kveður íslenska löggjöf bera þess víða merki að kröfur stefnanda séu taldar sérstaks eðlis og að baki liggi sérstakir og ríkir almannahagsmunir. Stefnandi vísar til þess að lán stefnanda eru undanþegin lögum um neytendalán, sbr. j-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 33/2013, um neytendalán, sbr. áður c-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 121/1994.
Stefnandi vísar einnig til þess að lán stefnanda eru undanþegin lögum um greiðsluaðlögun, sbr. g- og h-lið 3. gr. laga nr. 101/2010. Að baki þessum sérstöku ívilnunum í garð stefnanda standi þau rök að kröfusafn stefnanda byggi á ríkum almannahagsmunum, þar sem endurgreiðsla standi að verulegu leyti undir fjármögnun nýrra lánveitinga. Lánin séu veitt með því markmiði að jafna aðstöðu til náms, þau séu veitt á niðurgreiddum kjörum og því ekki veitt á viðskiptalegum forsendum. Þá séu endurgreiðslukjör lánanna óvenjuhagstæð þar sem þau taki að mestu mið af tekjum lánþegans. Enn fremur sé stefnanda heimilt að veita undanþágur frá árlegum endurgreiðslum vegna sérstakra aðstæðna hjá lánþega, samanber 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, og 12. og 13. gr. reglugerðar nr. 478/2011.
Stefnandi telur að horfa beri til þess að lán sjóðsins séu samfélagslegt úrræði og endurgreiðsla lánanna sé mikilvæg fyrir fjármögnun nýrra útlána stefnanda, auk þess að taka beri tillit til annarra lánþega námslána og eftir atvikum sjálfskuldarábyrgðaraðila m.t.t. jafnræðissjónarmiða. Því hafi stefnandi verulega hagsmuni af því að fá fyrningunni slitið. Á stefnanda hvíli sú skylda að gæta jafnræðis gagnvart öðrum lánþegum sínum á grundvelli 11. gr. laga nr. 37/1993.
Verði látið viðgangast að kröfur lítils hóps lánþega námslána fyrnist á 2 árum, meðan kröfur á hendur öðrum skuldurum séu innheimtar á miklu lengri tíma, sé þeim síðarnefndu mismunað með ólögmætum hætti.
Stefnandi minni á heimild í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 til að veita lánþega námsláns undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða að öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara svo sem vegna veikinda eða slysa, sem skerði ráðstöfunarfé hans eða möguleika á því að afla tekna.
Stefnandi kveðst byggja á því að samkvæmt verklagsreglum hans sé öllum lánþegum heimilt að koma námslánum sínum í skil, hvort sem krafan hefur verið gjaldfelld eður ei. Greiðist þá eftirleiðis afborganir af námsláninu skv. fyrirmælum 8. gr. laga nr. 21/1992, og samkvæmt skilmálum skuldabréfs stefnda vegna námslána. Greiðslubyrði námslána stefnda fari aldrei yfir 3,75% af tekjustofni hans, en nemi annars rétt rúmum tíu þúsund krónum á mánuði á ársvísu, sé tekið mið af fastri árlegri afborgun af námsláninu.
Stefnandi bendir á að í skaðabótarétti sé viðurkennt að við útreikning á töpuðum framtíðartekjum verði aflahæfi metið út frá því hvort tjónþoli hafi lokið námi sem hann hefur lagt stund á. Tjón á aflahæfi sé þá metið á grundvelli starfsréttinda ef námi hefur verið lokið á slysdegi. Á því sé byggt, að sömu sjónarmið skuli leggja til grundvallar í þessu máli, og aflahæfi og greiðslugeta stefndu verði metin á grundvelli mögulegra tekna á því fagsviði sem hún hafi menntað sig til.
Af öllu framangreindu leiði, að líkur megi telja á því að fullnusta geti fengist á kröfu stefnanda á nýjum fyrningartíma. Framlögð kröfuskrá styðji málatilbúnað stefnanda um framtíðargreiðsluhæfi stefnda.
Af lögskýringargögnum verði ráðið að dómstólum sé eftirlátið að meta hvenær sérstakir hagsmunir kröfuhafa séu fyrir hendi svo viðurkenna megi slit fyrningar. Í lögskýringargögnum sé nefnt í dæmaskyni, ef niðurfelling getur talist óhæfileg gagnvart öðrum skuldurum eða samfélaginu sjálfu, teljist hagsmunir kröfuhafa sérstakir. Stefnandi telji hvort tveggja eiga við í tilviki stefnda.
Stefnda komi til með að búa að sérmenntun sinni á sviði snyrtifræði alla ævi. Engin sanngirnisrök mæli með því að skuld hennar verði markaður skemmri fyrningartími en annarra sem tekið hafa félagsleg lán á niðurgreiddum kjörum hjá stefnanda.
Við aðalmeðferð byggði stefnandi og á því að umrætt lagaákvæði beri að skýra með hliðsjón af einkum eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Við túlkun ákvæðisins beri því að gæta þess að ekki sé farið gegn fyrirmælum 2. gr., 27. gr., 61. gr., 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Stefndi taldi þetta nýja málsástæðu og mótmælti henni sem of seint fram kominni.
Stefnandi kveðst vísa til meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga. Þá vísi hann til laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 33/2013, um neytendalán, laga nr. 121/1994, um neytendalán (brottfallin), og 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þá sé vísað til reglugerðar nr. 478/2011, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum, og reglugerðar nr. 602/1997 (brottfallin). Um varnarþing vísist til ákvæða í skuldabréfinu sjálfu og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Stefnda kveðst byggja einkum og aðallega á því að skilyrði 3. mgr. 165.gr. laga um gjaldþrot o.fl., nr. 21/1991, sbr. lög nr. 142/2010, séu ekki uppfyllt og þar af leiðandi sé ekki tæk sú krafa stefnanda að fyrningarslit verði viðurkennd.
Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrot o.fl., nr. 21/1991, sbr. lög nr. 142/2010, sé fyrningarfrestur krafna tvö ár frá því skiptum er lokið. Í 3. mgr. komi fram að fyrningu krafna verði aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um slíka viðurkenningu. Hana skuli því aðeins veita með dómi, að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma. Hvorugt þessara skilyrða sé uppfyllt að mati stefndu.
Í athugasemdum við lagafrumvarp það er síðar varð að lögum nr. 142/2010 komi fram það markmið að verið væri að auðvelda einstaklingum að koma fjármálum sínum á réttan kjöl. Þá sé sérstaklega tekið fram í þeim athugasemdum, að ekki eigi að vera unnt að slíta fyrningunni nema í undantekningartilvikum og sönnunarbyrði þar að lútandi alfarið lögð á kröfuhafa.
Stefnda kveðst ekki fallast á þá málsástæðu stefnanda að hagsmunir hans séu svo sérstakir að telja verði fyrra skilyrði 3. mgr. uppfyllt. Vísi hún til þess að samkvæmt lögskýringargögnum beri að horfa, við skýringu á sérstökum hagsmunum, til þess af hvaða rót kröfurnar séu runnar og höfð í huga tilvik eins og að krafa á hendur þrotamanni hafi orðið til með saknæmri eða ámælisverðri háttsemi hans. Einnig beri að líta til sjónarmiða um hvort stofnað hafi verið til skuldar á óheiðarlegan hátt eða hvort niðurfelling gæti talist óhæfileg í samanburði við aðra skuldara og hagsmuni almennings o.s.frv. Ljóst sé því að ekki sé um tæmandi talningu að ræða en stefnda bendir hins vegar á að um undantekningarákvæði sé að ræða og því verði að túlka heimild til fyrningarslita þröngt.
Ef fallist er á þau sjónarmið stefnanda, að sérstakir og ríkir almannahagsmunir séu á bak við kröfur hans, þá bendi stefnda á að hið sama kunni að gilda um aðrar kröfur, t.d. skattkröfur. Í meðförum löggjafans hafi því hins vegar verið hafnað að skattkröfur ættu að vera sérstaklega undanskildar, í ljósi rétthæðar þeirra við gjaldþrot. Sömu sjónarmið hljóti að gilda um kröfu stefnanda.
Stefndi telji, með vísan til athugasemda við lög nr. 142/2010 og annarra lögskýringagagna, að undantekningarákvæðinu sé frekar ætlað að taka mið af aðstæðum þrotamanns og kröfuhafa hverju sinni, heldur en almennum samfélagslegum röksemdum.
Stefnda kveðst telja að kveða hefði þurft sérstaklega á um það ef stefnandi ætti að njóta undanþágu frá 3. mgr. 165. gr. laganna.
Stefnda mótmæli því að fortakslausu skilyrði 2. ml. 2. mgr. 165. gr. laganna sé fullnægt, og fullyrðir að hún sé ófær um að greiða af kröfunni komi til þess að fyrningunni verði slitið, og alls ekki fær um að greiða alla skuldina. Lánið hafi verið gjaldfellt í heild og krafan nemi með dráttarvöxtum um 10.500.000 krónum við ritun greinargerðar.
Skiptum á eignalausu búi stefndu hafi lokið í desember sama 2013, íbúðina hafi hún misst á nauðungarsölu árið 2013. Hún hafi því þurft að vera á leigumarkaði síðan og haldið heimili fyrir sig og son sinn sem hafi verið á hennar framfæri. Samkvæmt skattframtölum hafi tekjur hennar árið 2013 numið 2.561.724 krónum og árið 2014 2.113.292 krónum. Hún sé atvinnulaus sem stendur og atvinnuhorfur hennar ekki góðar. Þar sem hún hafi ekki löggildingu til að starfa sem snyrtifræðingur þá hamli það möguleikum hennar til að fá vinnu á þeim vettvangi. Aukinheldur sé hún illa haldin af [...] og sá sjúkdómur geri það að verkum að hún geti ekki unnið fullt starf, hvort heldur á snyrtistofu eða annars staðar.
Tekjur stefndu hafi verið 160.479 krónur á mánuði við ritun greinargerðar, og meðaltal mánaðarlegra tekna hennar, miðað við tvö síðastliðin árin þar á undan, hafi verið um 195.000 krónur á mánuði. Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara sé kostnaður einstaklings með eitt barn á heimili 184.843 krónur á mánuði fyrir utan húsaleigu, rafmagn og hita. Sé litið til tekna stefndu sé því ljóst að hún á ekki fyrir útgjöldum heimilisins sem stendur og hefur raunar ekki átt það undanfarin misseri. Ekkert gefi vísbendingu um að stefnda verði betur í stakk búin til að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum við stefnanda í framtíðinni og skiptir því engu máli útskýringar í stefnu á greiðslufyrirkomulagi námslána þar sem stefnda eigi nú þegar ekki fyrir mánaðarlegum útgjöldum. Fyrir liggi svo að í dag er staðan sú að stefnda er með öllu tekjulaus og viti ekki hvað framtíðin beri í skauti sér.
Miðað við stöðu stefndu, þ.e. tekjur, heilsufar, atvinnu og atvinnuhorfur, verði því að telja útilokað að stefnandi fái kröfu sína greidda að fullu á nýjum fyrningartíma. Stefnandi hafi ekki getað leitt að því neinar líkur en fyrir þeim líkum beri hann fulla sönnunarbyrði.
Í varakröfu kveðst stefnda mótmæla kröfufjárhæðinni. Hún telji ljóst að við gjaldfellingu skuldarinnar hafi vextir þá þegar verið fyrndir og því óheimilt að leggja þá við höfuðstól skuldarinnar. Forsendur dráttarvaxta séu því rangar, auk þess sem upphafstíma þeirra er mótmælt. Þá virðist sem láðst hafi að gæta að ákvæðum innheimtulaga nr. 95/2008, sérstaklega 7. gr. þeirra.
Um lagarök vísi stefndi til meginreglna gjaldþrotaréttar um jafnræði kröfuhafa, svo og laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sérstaklega 165. gr. þeirra laga, sbr. lög nr. 142/2010. Þá sé einnig vísað til laga um fyrningu, nr. 14/1905 og nr. 150/2007, og innheimtulaga, nr. 95/2008. Málskostnaðarkröfu sína styðji stefnda við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sérstaklega 130. gr.
IV.
Meginágreiningur málsins snýr að túlkun á 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 2. mgr. 165. gr. er mælt fyrir um hver verði afdrif krafna sem ekki greiðast við gjaldþrotaskipti. Fram til 29. desember 2010 hljóðaði 2. mgr. 165. gr. laganna þannig: „Þrotamaðurinn ber ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjaldþrotaskiptin. Ef kröfu hefur verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu hennar slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar nýr fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið, ef krafan var viðurkennd, en ella á þeim degi sem kröfunni var lýst.“
Samkvæmt þessu rufu gjaldþrotaskipti fyrningu kröfu, og hófst þá nýr fyrningarfrestur sem var jafn langur og gilt hafði um kröfuna fyrir skiptin, sbr. lög nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og síðar lög nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda.
Með lögum nr. 142/2010 var 165. gr. breytt og við hana bætt þriðju málsgreininni. Ákvæði 2. og 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 hljóða nú svo:
„Þrotamaðurinn ber ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjaldþrotaskiptin. Hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildir þessi sami fyrningarfrestur um hana, enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma.
Fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. verður aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skal því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gilda almennar reglur um fyrningu hennar. Hafi kröfuhafi fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign þrotamannsins áður en frestur skv. 2. mgr. var á enda fyrnist krafa hans þó ekki að því leyti sem fullnusta fæst á henni á síðari stigum vegna þeirra tryggingarréttinda.“
Í þessari lagabreytingu fólst að þegar bú einstaklings hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta styttist fyrningarfrestur allra krafna sem ekki fást greiddar við skiptin og verður tvö ár, burtséð frá því hversu langur hann var fyrir skiptin. Því til viðbótar kemur að kröfuhafi getur ekki rofið fyrningu kröfu sinnar nema dómstóll samþykki það með dómi, en slíkt gerist ekki nema að uppfylltum nokkuð ströngum skilyrðum 3. mgr., sbr. og nánari útlistun á ákvæðinu í lögskýringargögnum.
Ekki verður gerður ágreiningur um það að héraðsdómur úrskurðaði stefndu gjaldþrota 19. september 2013, og því ekki verið mótmælt eða því hnekkt, að stefnda hafi þá uppfyllt skilyrði 1. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991. Þá hefur ekkert komið fram í máli þessu, sem er þess eðlis að stefnandi verði talinn, vegna háttsemi stefndu eða tilurðar skuldarinnar, hafa sérstaka hagsmuni af því að rjúfa fyrningu kröfu sinnar, sbr. nánari umfjöllun síðar.
Ágreiningslaust er að mál þetta var höfðað fyrir lok þess tveggja ára frests sem tilgreindur er í 165. gr. laga nr. 21/1991.
Þótt stefnandi sjái ýmsa annmarka á 2. og 3. mgr. 165. gr. hefur hann ekki byggt á því í málinu að víkja beri því til hliðar fyrir þá sök að það sé andstætt stjórnarskrá, heldur lagði hann einkum áherslu á að nýta bæri efnisinntak 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, sem lögskýringargagn þegar hugtakið „sérstakir hagsmunir“ í 3. mgr. 165. gr. væri túlkað eða skýrt. Í tilefni af mótmælum stefndu staðfesti stefnandi, við munnlegan málflutning, að ekki væri hér um málsástæðu að ræða.
Ef hægt er að líta svo á að almenn stytting á fyrningarfresti, sem ætlað er að ganga yfir alla kröfuhafa, hvort sem eru í forgangi eða almennir, feli í sér skerðingu lögvarinna eignarréttinda, er til þess að líta í máli þessu að eignaskerðingin væri þá almenn og tekur til allra kröfuhafa. Jafnframt verður litið til þess að við upphaf fyrningarfrests standa kröfuhafar frammi fyrir eignalausu búi, eða þá eftir atvikum búnir að fá úthlutun upp í kröfur sínar, og hafa þó tvö ár frá þeim tíma til að fylgjast með framvindu mála í, væntanlega, nokkuð veikri von um að fá fullnustu krafna sinna. Því verður ekki talið að 72. gr. stjórnarskrárinnar leiði til þess að fallist verði á kröfur stefnanda, enda verður ekki betur séð en að slík niðurstaða fæli í sér að ákvæðinu yrði vikið til hliðar og aðrir kröfuhafar ættu sömu réttindi og stefnandi, enda njóta kröfuréttindi þeirra væntanlega sömu verndar og kröfuréttindi stefnanda á grundvelli 72. gr.
Ekki verður fallist á það að þær reglur sem settar hafa verið um endurgreiðslufyrirkomulag á þeim lánum sem stefnandi veitir, skapi honum einhvern sérstakan rétt andspænis öðrum kröfuhöfum þegar kemur að mati á því hvort skilyrðum 3. mgr., um sérstaka hagsmuni og líkur á endurgreiðslu, sé fullnægt.
Mikilvægt, og jafnvel meginmarkmið fyrningarákvæðis gjaldþrotalaga, verður að telja, að einstaklingum, hverra bú hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta, og bera eftir skiptalok áfram ábyrgð á skuldum sínum, þeim er ekki fengust greiddar við undir skiptum, sé auðveldað að koma fjármálum sínum á réttan kjöl eins og segir í almennum athugasemdum í frumvarpi til laga nr. 142/2010. Ákvæðið á eðli máls samkvæmt ekki við um lögaðila, enda hætta þeir að vera til við lok gjaldþrotaskipta.
Þrátt fyrir að stefnanda séu vissulega fengin úrræði til að veita umlíðun á greiðslu skulda um stundarsakir, skuldbreyta lánum o.s.frv., breytir það ekki þeirri staðreynd að við vanskil er honum allt að einu heimilt, að meginstefnu til, að gjaldfella skuld við sjóðinn, verði veruleg vanskil á greiðslum, sbr. 11. gr. laga nr. 21/1992 og almennar reglur kröfuréttar. Í stefnu málsins er því reyndar haldið fram að krafa stefnanda hafi gjaldfallið sjálfkrafa 19. september 2013, en með breyttri kröfugerð við aðalmeðferð virðist dregið í land með það af hálfu stefnanda. Burtséð frá því má ljóst vera að undir slíkum kröfum gæti stefnda ekki staðið, miðað við framlögð gögn, en stefnandi hefði þá, ef fallist væri á kröfur hans, hins vegar einn þeirra kröfuhafa, sem lýstu um 30 milljón króna kröfum samtals í bú stefndu, möguleika á fullnustu, hvort sem væri að hluta eða öllu. Það sem skiptir ekki minna máli er að krafa stefnanda myndi voma yfir stefndu um ókomin ár og gera henni mjög erfitt fyrir, jafnvel útilokað, að ná framangreindum markmiðum sem stefnt var að, að veita einstaklingum tækifæri á að ná.
Í ofanálag verður ekki betur séð en að það hafi verið stutt gögnum af stefndu í máli þessu, að hún sé ekki aflögufær í dag um að greiða lágmarksendurgreiðslu til stefnanda samkvæmt reglum sjóðsins. Dómurinn sér reyndar ekki að það skipti máli við úrlausn þessa máls.
Dómurinn telur ótvírætt að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því, að hann uppfylli það skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1992, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. lög nr. 142/2010, að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að fyrningarslit þeirrar kröfu sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti á búi stefndu, en fékk ekki greidda, verði viðurkennd.
Til stuðnings því að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að rjúfa fyrningu kröfunnar vísar stefnandi til hlutverks síns sem fólgið sé m.a. í skyldu sjóðsins til að veita námsmönnum námslán að uppfylltum skilyrðum laga og reglugerða um sjóðinn og tryggja þannig jafnrétti til náms. Einnig verði horft til eðlis þeirra lána sem sjóðurinn veitir. Þá telur stefnandi íslenska löggjöf undirstrika sérstöðu sjóðsins og að hann sinni ríkum almannahagsmunum, sem og hafi almenningur ríka hagsmuni af því að sjóðurinn sé vel fjármagnaður og innheimti útistandandi kröfur með jafnræði skuldara að leiðarljósi. Dómurinn telur að almennt séð sé ekki hægt að beita 3. mgr. 165. gr. og viðurkenna fyrningarslit út frá almennum hagsmunum kröfuhafa eða eðli þeirrar starfsemi sem hann rekur, heldur verði að meginstefnu fremur horft til skuldarans, aðstæðna hans og tilurðar skuldarinnar.
Það skortir á að útskýrt sé í lögunum, hvað séu sérstakir hagsmunir samkvæmt ákvæðinu. Út frá lagatextanum er eina skýra vísbendingin sú, að meginreglan samkvæmt 165. gr. er að allar kröfur fyrnast á tveimur árum, sem og að af 3. mgr. 165. gr. má ráða að einungis í undantekningartilvikum sé hægt með dómi að viðurkenna fyrningarslit. Ekki verður betur séð af lögskýringargögnum með ofangreindum ákvæðum, að það hafi verið af ráðnum hug, sem löggjafinn kaus að hafa ákvæðið með þessum hætti, sbr. athugasemdir með frumvarpinu, þar sem segir: „Til þess að fá slíkan viðurkenningardóm samkvæmt frumvarpinu þarf lánardrottinn að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að fá fyrningunni slitið, auk þess sem hann verður að leiða líkur að því að hann geti fengið fullnustu kröfu sinnar með lengri fyrningartíma. Þegar rætt er hér um sérstaka hagsmuni lánardrottins er horft til þess af hvaða rót kröfurnar eru runnar og höfð í huga tilvik eins og krafa á hendur þrotamanni sem til hefur orðið með saknæmri eða ámælisverðri háttsemi hans. Hér er að sjálfsögðu ekki um tæmandi talningu að ræða en til þess ber að líta að hér er gert ráð fyrir að um undantekningartilfelli verði að ræða og þrönga túlkun á heimildinni. Er ráðgert að það komi í hlut dómstóla að afmarka í framkvæmd hvers konar tilvik gætu heyrt hér undir.“
Víðar í lögskýringargögnum kemur fram að ætlan löggjafans hafi verið sú, að gera yrði strangar kröfur í þessum efnum. Í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar eru framangreind sjónarmið áréttuð og tekin sem dæmi um kröfur sem átt gætu hér undir, svo sem tildæmdar skaðabætur vegna saknæmrar eða ólögætrar háttsemi, óhæfilegar arðgreiðslur, óhóflegir kaupaukar og aðrar slíkar ósiðlegar athafnir eins og það er orðað. Undir meðförum málsins á Alþingi var umfjöllun um hvort undanþiggja ætti tilteknar kröfur undan ákvæðinu. Voru þar m.a. nefndar kröfur um viðbótarmeðlag til barns, skattkröfur, vangoldinn virðisaukaskatt og forgangskröfur við gjaldþrotaskipti. Þessum hugmyndum var hafnað og því enga undanþágu að finna í greininni.
Stefnandi vísar til jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár, til stuðnings því að ekki verði, á grundvelli 165. gr. laga nr. 21/1991, felld niður námslán hjá sumum námsmönnum á meðan aðrir sem kjósi að standa í skilum, eða a.m.k. reyna það, verði að greiða af lánum sínum. Dómurinn telur þetta sjónarmið ekki geta ráðið úrslitum. Fremur verði horft til jafnræðisreglunnar, með tilliti til annarra kröfuhafa, þegar metið er hvort skilyrðum ákvæðisins um sérstaka hagsmuni sé fullnægt. Því verði að gera, líkt og skýr ádráttur er um í ofangreindum athugasemdum með frumvarpinu, strangar kröfur þegar lagt er mat á þetta atriði, enda felur viðurkenningardómur í sér að einn kröfuhafa er settur skör hærra en aðrir, og eftir atvikum fleiri kröfuhafar. Í þessu sambandi verður og ekki litið fram hjá meginreglunni um jafnræði kröfuhafa, sem gildir við þá sameiginlegu fullnustugerð sem gjaldþrotaskipti eru. Jafnframt verður litið til þess að kröfur stefnanda njóta ekki forgangs við gjaldþrotaskipti heldur eru almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Kröfum stefnanda væri hins vegar, bakdyramegin ef þannig má orða það, veittur tiltekinn forgangur fram yfir aðra kröfuhafa ef fallist yrði á kröfu hans.
Þrátt fyrir að stefnanda sé veitt sérstaða, t.a.m. í lögum nr. 33/2013 um neytendalán og lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, og önnur sjónarmið styðji að einhverju marki að stefnandi hafi að sumu leyti aðrar og ríkari skyldur en aðrir almennir kröfuhafar, m.a. gagnvart viðsemjendum sínum, verður ekki fallist á að stefnandi hafi slíka sérstöðu og sérstaka hagsmuni að falli undir umrætt ákvæði. Telur dómurinn, miðað við meginregluna, orðalag ákvæðisins, og lögskýringargögn, að sérstaklega hafi þá átt að tiltaka í ákvæðinu slíka undanþágu til handa stefnanda, enda löggjafanum verið það í lófa lagið. Þá er einnig horft til þess að skattkröfur voru ekki taldar eiga erindi undir slíka undanþágu og með því verður að álykta sem svo að almennt séð verði slíkar kröfur þá ekki felldar undir ákvæðið, en þær styðjast þó við mörg af þeim sjónarmiðum sem stefnandi hefur teflt fram til stuðnings sérstöðu sinni.
Þrátt fyrir að slík umfjöllun sé ekki nauðsynleg, þar sem skilyrðinu um sérstaka hagsmuni er ekki fullnægt, skal þó áréttuð varðandi síðara skilyrði 3. mgr. 165. gr. um líkur á fullnustu, umfjöllun hér að framan, um að stefnda virðist með öllu ófær í dag um að efna skuldbindingar sínar við stefnanda, en stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir hinu gagnstæða. Í því sambandi er bent á að í nefndaráliti allsherjarnefndar kemur fram að með skilyrðinu sé átt við greiðslu heildarkröfunnar eða meirihluta hennar, en ekki lítils hluta kröfunnar.
Með vísan til framangreinds verður stefnda því sýknuð af dómkröfu stefnanda. Eftir þeim úrslitum, með hliðsjón af umfangi málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað að fjárhæð 900.000 krónur.
Stefndu var, með bréfi innanríkisráðuneytisins 8. desember 2015, veitt gjafsókn til þess að grípa til varna í þessu máli. Af þeim sökum verður stefnandi dæmdur til þess að greiða ofangreinda fjárhæð í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Berglindar Svavarsdóttur hrl., greiðist úr ríkissjóði.
Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Dómari og aðilar töldu ekki þörf á endurflutningi málsins.
Af hálfu stefnanda flutti málið Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson hæstaréttarlögmaður og af hálfu stefndu flutti málið Berglind Svavarsdóttir hæstaréttarlögmaður.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefnda, Vilborg Drífa Gísladóttir, er sýknuð af kröfum stefnanda, Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
Stefnandi greiði 900.000 kr. í málskostnað, sem renni í ríkissjóð.
Málskostnaður stefndu og málflutningsþóknun lögmanns hennar, Berglindar Svavarsdóttur hrl., 900.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.