Hæstiréttur íslands

Mál nr. 587/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. október 2009.

Nr. 587/2009.

A

(Guðríður Lára Þrastardóttir hdl.)

gegn

B

(enginn)

 

Kærumál. Lögræði.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var svipt sjálfræði í tvö ár á grundvelli a. liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. september 2009, þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila svipt sjálfræði tímabundið í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Guðríðar Láru Þrastardóttur héraðsdómslögmanns, 124.500 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. september 2009.

                Með beiðni sem barst dóminum 17. september sl. hefur sóknaraðili B, [...], krafist fyrir Héraðsdómi Reykjaness að systir hans, A, kt. [...],[...] verði svipt sjálfræði tímabundið í 2 ár skv. a-lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Málavextir og málsástæður:

Varnaraðili greindist með geðklofasjúkdóm í janúar 2006 og hefur verið lögð inn á geðdeild eftir það í nokkur skipti, nú síðast 31. ágúst sl. Varnaraðili var svipt sjálfræði þann 23. febrúar 2006 til 6 mánaða og var þá meðhöndluð með forðalyfi og mætti reglulega í sprautur og eftirlit. Síðar mun hún hafa hætt á lyfjunum og þá farið að halla undan fæti. Nú er varnaraðili sjúklingur á deild 32C og er læknir hennar þar Guðrún Geirsdóttir, geðlæknir. Samkvæmt mati læknisins, sem fram kemur í læknisvottorði dags. 10. september sl., þá er varnaraðili haldin alvarlegum geðklofasjúkdómi sem þarfnast lyfjameðferðar til lengri tíma. Innsæi hennar í eigin sjúkdóm er verulega ábótavant og hún hefur ekki verið til samvinnu um lyfjatöku. Varnaraðili hefur hins vegar sýnt bata í þau skipti sem hún hefur verið á geðrofslyfjum og þá náð góðum tímabilum. Að mati læknisins er nauðsynlegt að varnaraðili verði svipt sjálfræði til að þiggja meðferð til a.m.k. tveggja ára, þar sem reynslan sýni að styttri tími nægi ekki og einnig með tilliti til þess hversu alvarleg veikindi varnaraðila eru.

Við meðferð málsins fyrir dóminum var sóknaraðila skipaður talsmaður skv. 1. mgr. 31. gr. lögræðislaga. Þá var varnaraðila skipaður verjandi úr hópi starfandi lögmanna skv. 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga. Dómari kynnti varnaraðila fram komna sjálfræðissviptingarkröfu. Verjandi hafði uppi andmæli við framgangi kröfunnar og til vara að nái hún fram að ganga verði tími sjálfræðissviptingar styttur verulega.

Niðurstaða:

Í framlögðu læknisvottorði Guðrúnar Geirsdóttur, geðlæknis, sem hún hefur staðfest fyrir dóminum segir að varnaraðili sé haldin alverlegum geðsjúkdómi sem þarfnist lyfjameðferðar til lengri tíma. Innsæi hennar í eigin sjúkdóm sé verulega ábótavant og hún hafi ekki verið til samvinnu um lyfjatöku. Þar segir einnig að varnaraðili hafi sýnt batamerki í þau skipti sem hún hafi verið á geðrofslyfjum og náð góðu tímabili. Endurtekin veikindi varnaraðila sýni að henni sé bráðnauðsynlegt að taka lyf reglubundið til þess að ná bata. Taldi Guðrún í vætti sínu fyrir dóminum að af þessum sökum væri nauðsynlegt að svipta varnaraðila sjálfræði eigi skemur en í tvö ár vegna veikinda hennar og nauðsynlegrar lyfjameðferðar.

Með vísan til 4. gr.a-liðar lögræðislaga nr. 71/1997 þykir sóknaraðili hafa fært fram fullnægjandi rök fyrir kröfu sinni sem verður því tekin til greina.

Samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist allur kostnaður vegna málsins úr ríkissjóði þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Inga H. Sigurðssonar hdl. og skipaðs talsmanns sóknaraðila Guðrúnar Sesselju Arnardóttur eins og segir í úrskurðarorði.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

A, kt. [...], er svipt sjálfræði tímabundið í tvö ár frá uppkvaðningu úrskurðar þessa að telja.

Þóknun talsmanns sóknaraðila og þóknun verjanda varnaraðila að fjárhæð 74.700 krónur til hvors um sig greiðist úr ríkissjóði, tillit hefur verið tekið til virðisaukaskatts.