Hæstiréttur íslands

Mál nr. 627/2008


Lykilorð

  • Ökuréttarsvipting
  • Sératkvæði


Miðvikudaginn 6

 

Miðvikudaginn 6. maí 2009.

Nr. 627/2008.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson, settur saksóknari)

gegn

Árna Rúnarssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Ökuréttarsvipting. Sératkvæði.

Í héraði var Á fundinn sekur um að hafa ekið bifreið tvisvar sinnum óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ólöglegra fíkniefna. Var hann dæmdur til að greiða 140.000 krónur í sekt í ríkissjóð og sviptur ökurétti í níu mánuði. Málinu var skotið til Hæstaréttar vegna ágreinings um tímalengd ökuréttarsviptingar. Í Hæstarétti var ökuréttarsvipting Á þyngd í samræmi við dómvenju við ákvörðun ökuréttarsviptingar, sbr. nú reglugerðar nr. 328/2009. Var Á sviptur ökurétti í 14 mánuði að frádreginni 9 mánaða sviptingu ökuréttar sem hann sætti frá birtingu héraðsdóms.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. september 2008 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst þess að ökuréttarsvipting ákærða verði lengd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Ákærði rökstyður frávísunarkröfu sína með því að þar sem fullnustu ökuréttarsviptingar samkvæmt héraðsdómi hafi lokið, verði ekki höfð uppi krafa um frekari ökuréttarsviptingu. Eins og fram kemur í dómi réttarins 26. mars 2009 í máli nr. 563/2008 eru í XXXI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eða XVIII. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er áður giltu, engin ákvæði sem takmarka heimild ákæruvalds til að krefjast þyngingar viðurlaga þegar fullnustu  þeirra viðurlaga sem ákveðin voru með héraðsdómi lýkur áður en dómur Hæstaréttar gengur. Verður þessari kröfu ákærða því hafnað.

Við fyrirtöku málsins í héraði var bókað að gætt væri ákvæða 3. mgr. 32. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála um að ákærði þyrfti ekki að tjá sig um sakarefni. Því næst var ákæran borin undir ákærða og bókað að þar sem fyrir lægi skýlaus játning ákærða væri farið væri með málið eftir ákvæðum 125. gr. þeirra laga. Í héraðsdómi er áréttað að farið hafi verið með málið samkvæmt framangreindu ákvæði á grundvelli skýrrar játningar ákærða sem samræmst hafi gögnum málsins. Málið hafi verið tekið til dóms eftir að gefinn hefði verið kostur á reifun um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu ákærða að meðferð í héraði hafi ekki verið ábótavant þrátt fyrir ómarkvissar bókanir í þinghaldi og að látið hafi verið hjá líða að bóka um að ákærða væri gefinn kostur á skipun verjanda og að honum hafi verið kynnt gögn málsins. Þykja því ekki efni til að ómerkja af sjálfsdáðum meðferð málsins af þessum sökum.

Í máli þessu er ákærði fundinn sekur um að hafa ekið bifreið tvisvar sinnum óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ólöglegra fíkniefna. Í annað sinnið mældist í blóði hans amfetamín 305 ng/ml en í hitt sinnið kókaín 25 ng/ml og krefst ákæruvaldið frekari ökuréttarsviptingar en ákærða var gerð með hinum áfrýjaða dómi, en málinu hefur ekki verið áfrýjað til þyngingar á refsingu ákærða. Ákærði hefur unnið sér til sviptingar ökuréttar samkvæmt 1. mgr., sbr. 4. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þegar litið er til dómvenju við ákvörðun ökuréttarsviptingar, sbr. nú reglugerð nr. 328/2009 um breytingu á reglugerð nr. 930/2006 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, sbr. og dóm réttarins 31. janúar 2008 í máli nr. 490/2007 ber að ákveða ákærða ökuréttarsviptingu í 14 mánuði fyrir þau brot sem hann er sakfelldur fyrir samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga.

 Eins og áður greinir er niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða ekki til endurskoðunar og verður hún óröskuð, sem og ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.

Með þessari dómsniðurstöðu er lagfærð ákvörðun héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ákærða í samræmi við 102. gr. umferðarlaga eftir að málið hafði verið rekið þar samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991. Því er rétt að áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða, Árna Rúnarssonar, og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði er sviptur ökurétti í 14 mánuði frá uppkvaðningu dóms þessa að telja að frádreginni 9 mánaða sviptingu ökuréttar sem ákærði sætti frá 24. maí 2008.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

                                      Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Röksemdir ákærða fyrir aðalkröfu hans um að málinu verði vísað frá Hæstarétti lúta að því að lög heimili ekki að sviptingu ökuréttar sé skipt á tvö tímabil vegna sama brotsins. Samkvæmt 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fresti áfrýjun ekki verkun héraðsdóms að því er varðar sviptingu ökuréttar, nema héraðsdómari hafi sérstaklega ákveðið með úrskurði að svo skuli vera. Slíkum úrskurði sé ekki til að dreifa í málinu og hafi því níu mánaða svipting héraðsdóms á ökurétti ákærða hafist við birtingu héraðsdóms fyrir honum 24. maí 2008 og lokið 24. febrúar 2009. Hann hafi því verið kominn með ökuréttinn á ný, þegar málið var tekið til dóms í Hæstarétti 27. apríl 2009. Þetta eigi að leiða til frávísunar málsins frá Hæstarétti.

Svipting samkvæmt héraðsdómi á ökurétti ákærða stóð yfir við útgáfu áfrýjunarstefnu 29. september 2008. Sá annmarki, sem ákærði telur vera á áfrýjun málsins, var ekki til staðar þá. Að auki tel ég að framangreindar ástæður ákærða fyrir frávísunarkröfu hans varði efni málsins og geti því ekki leitt til þess að því verði vísað frá Hæstarétti. Er ég samkvæmt þessu sammála meirihluta dómenda um að synja þeirri kröfu.

Samkvæmt 4. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 skal við ákvörðun um tímalengd sviptingar ökuréttar vegna brota á 45. gr. a. laganna meðal annars miða við magn ávana- og fíkniefna í blóði eða þvagi ökumanns. Krafa ákæruvaldsins um að ökuréttarsvipting ákærða verði lengd byggist á því að magn amfetamíns sem mælst hafi í blóði hans eftir brotið 17. febrúar 2008 samkvæmt matsgerð 17. mars 2008 hafi verið yfir þeim mörkum sem við sé miðað í viðmiðunarreglum ríkissaksóknara 25. júlí 2007, þegar metið sé hvort um mikið eða lítið magn teljist vera að ræða, en þar er miðað við 170 ng/ml í blóði þegar um amfetamín ræðir. Svo sem fram kemur í héraðsdómi mældust 305 ng/ml í blóði ákærða samkvæmt nefndri matsgerð. Samkvæmt viðmiðunarreglunum skiptir þessi aðgreining sköpum þegar gerð er krafa um tímalengd sviptingar í málum af þessu tagi. Þannig eigi krafa að vera að lágmarki um sviptingu í 3 mánuði ef um sé að ræða magn undir þessum mörkum en að lágmarki eitt ár sé það yfir þeim. Reglur um þetta er nú að finna í reglugerð nr. 328/2009 um breytingu á reglugerð nr. 930/2006 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið skipti það samkvæmt lögum miklu máli við ákvörðun um tímalengd á sviptingu ökuréttar ákærða, hversu mikið magn var talið hafa verið í blóði hans. Farið var með málið í héraði eftir 125. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilyrði slíkrar meðferðar máls var meðal annars að ákærði játaði skýlaust þá háttsemi sem honum væri gefin að sök. Í II. lið ákæru er ákærða meðal annars gefið að sök að hafa 17. febrúar 2008 ekið bifreið „óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns“, án þess að neitt sé tekið fram um magn efnisins sem mælst hafi í blóði hans. Við fyrirtöku málsins í dómi 23. apríl 2008 var bókað að fyrir liggi skýlaus játning ákærða í málinu. Það verður þó ekki ráðið af bókuninni að honum hafi sérstaklega verið kynnt niðurstaða nefndrar matsgerðar um magn amfetamíns í blóði hans sem þó ræður samkvæmt framansögðu úrslitum við ákvörðun á tímalengd sviptingar ökuréttar. Tel ég ósannað að ákærði hafi játað að hafa verið yfir fyrrgreindum viðmiðunarmörkum við aksturinn, þó að leggja megi til grundvallar játningu hans um að hafa verið „óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns.“

Af þeim ástæðum sem að framan greinir tel ég að ekki sé unnt að taka til greina kröfu ákæruvalds um að ökuréttarsvipting ákærða verði lengd. Beri að fallast á kröfu ákærða um staðfestingu hins áfrýjaða dóms. Ég er sammála meirihlutanum um áfrýjunarkostnað.

   

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 30. apríl 2008.

Mál þetta, sem þingfest var 23. apríl sl. og dómtekið sama dag er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 8. apríl 2008 á hendur Árna Rúnarssyni, kt. 200787-2349, Breiðumörk 11, Hveragerði,

fyrir umferðarlagabrot

I.

með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 27. janúar 2008, ekið bifreiðinni PB-341 norður Breiðumörk í Hveragerði, óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa kókaíns. 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66,2006 sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

II.

með því að hafa, skömmu fyrir hádegi sunnudaginn 17 febrúar 2008, ekið bifreiðinni OS-196 norður Flatahraun við Kaplakrika í Hafnarfirði, án lögboðinna skráningamerkja að framan og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns.

Telst brot ákærða varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66,2006 og 63. sbr. 64. gr. nefndra umferðarlga, sbr. 17. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja nr. 751/2003 með síðari breytingum, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

 Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar, samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44, 1993, lög nr. 57, 1997, lög nr. 23, 1998, lög nr. 132, 2003 og lög nr. 84, 2004 og lög nr. 66,2006.“

Ákærði kom fyrir dóminn og játaði brot sín greiðlega. Er játning hans í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sín en þau eru í ákæru réttilega færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. 

Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða, sem óskaði ekki eftir skipun verjanda, hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Um málavexti vísast til ákæruskjals. 

Ákærða hefur áður verið gerð refsing samkvæmt sakavottorði sem liggur frammi í málinu en þær refsingar hafa ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú. Í matsgerð frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði dagsett 27. febrúar 2008 kemur meðal annars fram að í blóði ákærða hafi mælst amfetamín 305 ng/ml og í matsgerð dagsett 17. mars 2008 kemur fram að í blóði ákærða hafi mælst kókaín 25 ng/ml. Amfetamín og kókaín eru í flokki  ávana- og fíkniefni, sem óheimil eru á íslensku forráðasvæði. Ákærði telst því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar blóð- og þvagsýnin voru tekin.

Er refsing ákærða ákveðin 140.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæta ella fangelsi í tíu daga auk þess að verða sviptur ökurétti eins og í dómsorði segir. Í samræmi við 1. mgr. 165. gr. ber að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar sem er samkvæmt yfirliti 181.905 krónur.

                Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Árni Rúnarsson, greiði 140.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í tíu daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í níu mánuði frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 181.905 krónur.