Hæstiréttur íslands
Mál nr. 361/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 27. september 2001. |
|
Nr. 361/2001. |
Sýslumaðurinn á Blönduósi(Þórhallur H. Þorvaldsson fulltrúi) gegn X(Gunnar Sólnes hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var grunaður um aðild að broti gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með áorðnum breytingum. Talið var að skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála væri fullnægt fyrir gæsluvarðhaldi yfir X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. september 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 23. september 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til sunnudagsins 30. sama mánaðar kl. 20. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
I.
Samkvæmt gögnum málsins voru lögreglumenn á Blönduósi við eftirlit á bifreið seint að kvöldi laugardagsins 22. september 2001. Veittu þeir þá athygli bifreið, sem ekið var úr bænum til austurs, og ákváðu að stöðva hana til að kanna hvernig ökumaður væri á sig kominn. Skammt utan bæjarins gáfu þeir merki um að stöðva bifreiðina. Í beinu framhaldi af því sáu lögreglumennirnir að ljósbrúnum pakka var kastað út um glugga á bifreiðinni. Stöðvuðu lögreglumennirnir bifreið sína og tóku upp pakkann, sem lá nærri miðlínu á veginum, en á sama tíma hafði hin bifreiðin einnig numið staðar. Um leið og lögreglumennirnir fóru aftur upp í bifreið sína var hinni ekið af stað á miklum hraða. Lögreglumennirnir veittu henni eftirför og gáfu stöðvunarmerki, sem ekki var sinnt. Var bifreiðinni ekið á um 130 til 140 km hraða eftir þjóðvegi nr. 1 til austurs þar til ökumaður stöðvaði hana skammt norðan við Fagranes, um 12,5 km frá þeim stað, sem stöðvunarmerki var fyrst gefið. Var ökumaðurinn handtekinn ásamt farþega, sem reyndist vera varnaraðili. Viðurkenndi ökumaðurinn að hafa reykt hass fyrir aksturinn. Voru þeir fluttir á lögreglustöðina á Blönduósi, þar sem þeir voru vistaðir í fangaklefa. Við athugun á pakkanum, sem hafði verið fleygt út um glugga bifreiðarinnar, kom í ljós að hann hafði að geyma 140 töflur, sem efnaprófun gaf til kynna að hefðu að geyma fíkniefnið MDMA, ásamt um 3,4 g af mulningi úr slíkum töflum. Fundust þar enn fremur um 250 g af efni, sem talið var hass.
Lögreglan tók skýrslu af varnaraðila eftir hádegi næsta dag. Hann skýrði þar frá því að um kvöldmatarleytið 22. september 2001 hafi verið hringt heim til hans á Akureyri og hann beðinn um að sækja pakka á nánar tilgreindum stað fyrir vestan Blönduós, en sér hafi verið boðið að fá hass að endurgjaldi fyrir það. Nokkru síðar hafi vinur varnaraðila komið á bifreið, sem tilheyrði nafngreindum manni, og þeir farið saman til að vitja pakkans. Þegar þeir hafi verið á leið aftur til Akureyrar og farið um Blönduós hafi þeir orðið varir við að þeim væri veitt eftirför í lögreglubifreið. Kvaðst varnaraðili hafa haldið á pakkanum fram að því og vitað að fíkniefni væru í honum. Hafi varnaraðila brugðið svo mjög við eftirför lögreglunnar að hann hafi hent pakkanum út um glugga farþegamegin á bifreiðinni. Hafi varnaraðili og ökumaðurinn síðan ætlað að koma sér undan lögreglunni, en látið af þeirri fyrirætlan eftir hraðakstur nokkra stund. Varnaraðili neitaði að upplýsa hver hafi falið honum að sækja pakkann.
Sóknaraðili krafðist 23. september 2001 að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna málsins allt til mánudagsins 1. október nk. Varnaraðili var leiddur fyrir dómara að kvöldi fyrrgreinda dagsins og kvaðst engu hafa að bæta við lögregluskýrslu sína, sem hann kvað vera rétta. Eins og ráðið verður af áðursögðu var fallist á kröfu sóknaraðila með hinum kærða úrskurði, en þó þannig að gæsluvarðhaldi var markaður tími til 30. september nk. kl. 20.
II.
Fallist verður á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um afbrot, sem varðað getur fangelsisrefsingu samkvæmt 2. gr., 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með áorðnum breytingum. Þótt varnaraðili hafi greint frá atvikum á framangreindan hátt ber frásögn hans með sér að hér hafi komið við sögu einn eða fleiri aðrir en hann og ökumaður bifreiðarinnar. Um þá hefur hann ekki gefið upplýsingar. Meðan svo er ástatt er hætta á að varnaraðili torveldi rannsókn málsins með sammæli við vitni eða samseka ef hann fær að ganga laus. Þegar af þessum ástæðum eru skilyrði til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Sóknaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti og verður því staðfest niðurstaða hans um tímalengd gæsluvarðhaldsins.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 23. september 2001.
I.
Með kröfu fyrr í dag hefur lögreglustjórinn á Blönduósi krafist þess að X [ ] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 1. október nk. kl. 20:00.
Af hálfu kærða hefur kröfunni verið hafnað.
II.
Lögreglan á Blönduósi var við umferðareftirlit í gærkvöldi og veittu lögreglumenn athygli bifreiðinni [ ] sem ekið var austur út úr Blönduóssbæ og ákváðu þeir að stöðva bifreiðina og kanna ástand ökumanns. Þegar ökumanni var gefið merki um að stöðva með bláum ljósum lögreglubifreiðarinnar sáu lögreglumenn að pakka var kastað út um glugga á bifreiðinni. Stöðvaði ökumaður lögreglubifreiðarinnar bifreiðina og var pakkinn tekinn upp. Í framhaldi af því var ekið á eftir bifreiðinni [ ] en ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum í fyrstu. Eftir u.þ.b. 12,5 kílómetara akstur stöðvaði bifreiðin [ ]. Klukkan 23:28 voru ökumaður bifreiðarinnar og farþegi handteknir og færðir á lögreglustöðina á Blönduósi til skýrslutöku.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Blönduósi voru í pakka þeim sem hent var úr bifreiðinni [ ] 140 heilar töflur u.þ.b. 7 mm í þvermál 0.2 gr. að þyngd. Einnig var mulningur af brotnum töflum u.þ.b. 3.4 gr. að þyngd. Við ODV prófun gaf mulningurinn jákvæða svörun sem MDMA eða Ecstasy. Jafnframt voru í pakkanum tvær brúnar plötur vaðfðar í plast samtal u.þ.b. 250 gr. að þyngd sem við ODV prófun sýndu jákvæða svörun við Kannabis (hass).
Samkvæmt framlögðum gögnum er rannsókn málsins ekki lokið og er enn nokkurt verk þar óunnið. Fyrir liggur að kærði var við annan mann með allverulegt magn fíkniefna undir höndum skömmu áður en hann var handtekinn og telur rannsóknari nauðsynlegt að koma í veg fyrir að kærði geti torveldað rannsóknina með því að hafa samband við vitni eða aðra samseka og/eða komið undan gögnum sem kunna að hafa þýðingu í málinu. Fallast verður á þessi rök rannsóknara.
Samkvæmt framansögðu og með víana til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nrþ 19/1991, um meðferð opinberra mála, ber að fallast á kröfu lögreglustjórans á Blönduósi um að kærði skuli sæta gæsluvarðhaldi. Rétt þykir að gæsluvarðhaldið vari ekki lengur en í eina viku þ.e. til sunnudagsins 30. september nk. kl. 20:00.
Halldór Halldórsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ.
Kærði, X [ ] sæti gæsluvarðhaldi allt til klukkan 20:00 sunnudaginn 30. september næstkomandi.