Hæstiréttur íslands
Mál nr. 143/2008
Lykilorð
- Áfengislagabrot
- Auglýsing
- Ábyrgð á prentuðu máli
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 6. nóvember 2008. |
|
Nr. 143/2008. |
Ákæruvaldið(Daði Kristjánsson, settur saksóknari) gegn Jónasi Kristjánssyni og Mikael Torfasyni (Einar Þór Sverrisson hrl.) |
Áfengislagabrot. Auglýsing. Ábyrgð á prentuðu máli. Sératkvæði.
J og M voru sakfelldir fyrir að hafa sem ritstjórar DV á árinu 2005 birt áfengisauglýsingu í blaðinu í desember 2005 og með því brotið gegn 20. gr., sbr. 27. gr. laga nr. 75/1998, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956. Ekki var talið að 20. gr. áfengislaga bryti í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi eða skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, en slíkum vörnum hefði áður verið hafnað í dómum Hæstaréttar. Þá byggðu J og M einnig á því að ekki hefði verið sýnt fram á að háttsemin væri þeim saknæm og þá héldu þeir því jafnframt fram að 15. gr. laga nr. 57/1956 fullnæði ekki kröfum um skýrleika refsiheimilda svo þeir yrðu sakfelldir á hlutlægum grundvelli. Vísuðu þeir til þess að deildaskipting væri á blaðinu og að auglýsingadeildin væri aðskilin frá ritstjórn. Í 15. gr. laga nr. 57/1956 segir um ábyrgð á efni rita, að útgefandi rits eða ritstjóri beri refsi- og fébótaábyrgð á efni rits ef höfundur hefur ekki nafngreint sig. Í málinu lá fyrir að auglýsandinn hefði ekki verið nafngreindur í auglýsingunni og því reyndi á ábyrgð J og M sem ristjóra samkvæmt ofangreindu ákvæði. Í lögbundinni ábyrgð J og M sem ristjóra fólst að þeim bar að yfirfara það efni blaðsins sem þeir voru ábyrgir fyrir og bar að gæta þess að efni sem birt hefði verið í blaðinu væri ekki andsætt lögum. Talið var að þar sem þeir létu með öllu undir höfuð leggjast að sinna lögbundum skyldum sínum hefðu þeir fellt á sig saknæma refsiábyrgð á því broti sem þeim var gefið að sök. J og M voru því hvor um sig dæmdir til greiðslu 400.000 króna sektar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Benedikt Bogason dómstjóri.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 21. febrúar 2008 að fengnu áfrýjunarleyfi 19. sama mánaðar í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.
Ákærðu krefjast aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.
I
Ákærðu er gefið að sök að hafa sem ritstjórar dagblaðsins DV birt áfengisauglýsingu í blaðinu 8. desember 2005 og með því brotið gegn 20. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Um er að ræða tegundina „Amarula“ sem er áfengi í skilningi 2. gr. áfengislaga.
Ákærðu bera fyrir sig að það efni sem birt var í dagblaðinu hafi ekki verið áfengisauglýsing heldur leyfileg umfjöllun um áfengistegund. Í hinum áfrýjaða dómi er skilmerkilega lýst þeirri opnu blaðsins sem hefur að geyma þetta efni. Þegar virtur er texti á þessum síðum blaðsins og það myndefni sem þar er að finna er vafalaust að um er að ræða áfengisauglýsingu sem fer í bága við 20. gr. áfengislaga. Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að bann við áfengisauglýsingum brjóti hvorki gegn 73. gr. stjórnarskrárinnar né skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem hefur lagagildi með lögum nr. 2/1993. Um þetta vísast til dóma réttarins í máli nr. 415/1998 á bls. 718 í dómasafni réttarins 1999, dóms í máli nr. 599/2006, sem kveðinn var upp 14. júní 2007, og dóms í máli nr. 491/2007, sem kveðinn var upp 23. október 2008.
II
Ákærðu telja að ekki hafi verið sýnt fram á að háttsemin sé þeim saknæm og þeir vefengja jafnframt að 15. gr. laga nr. 57/1956 fullnægi kröfum um skýrleika refsiheimilda svo þeir verði sakfelldir á hlutlægum grundvelli. Loks benda ákærðu á að ákæruvaldið hafi ekki gefið viðhlítandi skýringu á því af hverju þeir hafi verið saksóttir en ekki útgefandi blaðsins. Ákærðu vísa til þess að deildaskipting sé á blaðinu og sé auglýsingadeild aðskilin frá ritstjórn. Hafi þeir ekki tekið ákvörðun um að auglýsingin yrði birt í blaðinu og sennilega hafi ákærði Jónas verið í fríi þann dag sem auglýsingin var birt.
Í 3. gr. laga nr. 57/1956 er að finna ákvæði um nafngreiningu á útgefanda og ritstjóra prentaðra rita. Þar segir í 1. mgr. að útgefandi rits, sem gefið er út hér á landi, skuli nafngreina sig á hverju eintaki þess. Í 2. mgr. ákvæðisins segir síðan svo: „Ef útgefandi ræður ritstjóra, einn eða fleiri, að riti, skal hver þeirra nafngreina sig á ritinu.“ Í athugasemdum við þetta ákvæði með frumvarpi til laganna segir að þessi áskilnaður sé nauðsynlegur vegna ákvæða V. kafla frumvarpsins um ábyrgð á efni rits. Í því tölublaði DV sem umrædd auglýsing birtist í voru ákærðu báðir nafngreindir sem ritstjórar blaðsins.
Í 15. gr. laga nr. 57/1956, sem er að finna í V. kafla laganna um ábyrgð á efni rita, segir efnislega að útgefandi rits eða ritstjóri beri refsi- og fébótaábyrgð á efni rits ef höfundur hefur ekki nafngreint sig. Í málinu liggur fyrir að innflytjandi áfengisins sem auglýst var er Globus hf. og fékk það fyrirtæki auglýsinguna birta og greiddi fyrir hana. Auglýsandinn er hins vegar ekki nafngreindur í auglýsingunni og reynir því á ábyrgð ákærðu samkvæmt þeim lagareglum sem hér hafa verið raktar. Í lögbundinni ábyrgð ákærðu sem ritstjóra fólst að þeim bar að yfirfara það efni blaðsins sem þeir voru ábyrgir fyrir og bar að gæta þess að efni sem birt var í blaðinu væri ekki andstætt lögum. Til „efnis rits“ teljast auglýsingar, sbr. dóma Hæstaréttar í dómasafni réttarins 1963 á bls. 1, máli nr. 415/1998 á bls. 781 í dómasafni réttarins 1999 og í máli nr. 165/2006 frá 8. febrúar 2007. Breytir engu um ábyrgð ákærðu þótt á blaðinu hafi verið starfrækt sérstök auglýsingadeild og stoðar ekki fyrir þá að bera fyrir sig að þeir hafi talið auglýsingar í blaðinu utan starfssviðs síns sem ritstjóra. Svo sem rakið er í héraðsdómi hafa ákærðu lýst því fyrir dómi að þeir hafi engin afskipti haft af því hvaða auglýsingar birtust í blaðinu. Með því að láta þannig með öllu undir höfuð leggjast að sinna þessari skyldu hafa ákærðu fellt á sig saknæma refsiábyrgð á því broti sem þeim er gefið að sök. Þegar af þeirri ástæðu verður sakfelling þeirra staðfest og þarf þá hvorki að fjalla um hvort refsiábyrgð á hlutlægum grundvelli verði komið við né um þá tilhögun saksóknar að höfða ekki málið á hendur útgefanda blaðsins.
III
Ákærðu hafa unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. áfengislaga. Þykir refsing hvors þeirra hæfilega ákveðin 400.000 króna sekt sem ákærðu ber að greiða innan fjögurra vikna en sæta ella vararefsingu, eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærðu verða dæmdir til að greiða óskipt áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Jónas Kristjánsson, greiði 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 24 daga.
Ákærði, Mikael Torfason, greiði 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 24 daga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 341.782 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Einars Þórs Sverrissonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Í sératkvæði í dómi Hæstaréttar 23. október 2008 í máli nr. 491/2007 komst ég að þeirri niðurstöðu að í 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998 fælist brot gegn jafnræðisreglu, sem nyti verndar samkvæmt 73. og 65. gr. stjórnarskrár og að lagaákvæðið gæti því ekki talist gild refsiheimild að því er varðaði þá háttsemi sem þar um ræddi. Stóð svo á í málinu að ritstjóri íslensks blaðs var með vísan til 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, ákærður fyrir brot gegn nefndu ákvæði áfengislaga, sbr. 27. gr. þeirra. Í því máli sem hér er til úrlausnar eiga við öll sömu sjónarmið og grein var gerð fyrir í nefndu sératkvæði.
Nú liggur fyrir að meirihluti Hæstaréttar í ofangreindu máli var annarrar skoðunar en ég um gildi refsiheimildarinnar. Taldi meirihlutinn tilvitnuð lagaákvæði standast stjórnarskrá og beitti þeim sem heimild til ákvörðunar refsingar í málinu. Kemur þá til athugunar hvort sú niðurstaða sé bindandi fyrir Hæstarétt, og eftir atvikum einstaka dómara við réttinn, í síðari málum þar sem reynir á hliðstætt sakarefni og þá á grundvelli fordæmisreglu sem felist í dóminum.
Það er skoðun mín að fordæmi sé ekki sjálfstæð réttarheimild, sem dómstólum sé skylt að beita án tillits til þeirrar réttarheimildar sem leiddi til niðurstöðunnar. Ég tel að fordæmi sé frekar afleidd heimild sem sé aðeins jafn bindandi og sú réttarheimild sem fordæmið byggist á. Dómstólar hafa ekki að réttum stjórnlögum vald til að setja lagareglur. Þeirra hlutverk er að finna þær réttarheimildir sem í gildi voru á þeim tíma sem málsatvik urðu og leiða af þeim reglur sem beitt er við dómsúrlausn, sbr. 61. gr. stjórnarskrárinnar. Á það jafnt við um sett lög sem aðrar réttarheimildir. Þó að Hæstiréttur komist þannig að ákveðinni niðurstöðu um beitingu réttarheimildar í tilteknu máli hefur það að mínum dómi ekki þá þýðingu að til hafi orðið ný lagaregla sem upp frá því sé skylt að beita í sambærilegum málum á sama hátt og skylt er að beita lögum sem stafa frá löggjafanum. Þrátt fyrir þetta kann að vera nauðsynlegt vegna sjónarmiða um jafnræði manna og samræmi í dómsúrlausnum að taka mið af fyrri úrlausnum Hæstaréttar þegar leyst er úr máli. Verður dómari að vega þessi sjónarmið saman þegar á reynir.
Í þessu máli er um að ræða sakarefni sem varðar að mínum dómi brot gegn stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi og jafnræði borgara, sbr. 65. og 73. gr. stjórnarskrár. Tel ég brot bæði felast beinlínis í ákvæðum settra laga og einnig í framkvæmd laga svo sem lýst var í nefndu sératkvæði í máli nr. 491/2007. Að auki er hér um að ræða refsimál en stjórnarskráin hefur að geyma ákvæði í 69. gr. sem felur í sér sérstakar kröfur til skýrleika laga sem heimila refsingu. Við þessar aðstæður hlýt ég að komast að sömu niðurstöðu og í máli nr. 491/2007. Ber því að mínum dómi að sýkna ákærðu og leggja sakarkostnað vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti á ríkissjóð.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. janúar 2008
I
Málið, sem dómtekið var 10. janúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 25. september 2007 á hendur „Jónasi Kristjánssyni kt. 050240-3559, Fornuströnd 2, Seltjarnarnesi, og Mikael Torfasyni, kt. 080874-3599, Dofraborgum 16, Reykjavík, fyrir áfengislagabrot, með því að hafa sem ritstjórar dagblaðsins DV, útgefið af 365-prentmiðlun ehf., kt. 480702-2390, birt auglýsingu af áfengi af tegundinni Amarula á bls. 20 og 21 í DV þann 8. desember 2005 með fyrirsögninni „Amarula cream-Andi Afríku“ og „Ferskur náttúrulegur rjómalíkjör“ en í auglýsingunni er texti þar sem lýst er eiginleikum Amarula til hliðar við mynd af flösku af Amarula.
Telst þetta varða við 20. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75, 1998, sbr. 15. gr, laga um prentrétt nr. 57, 1956.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“
Ákærðu neita sök og krefjast sýknu en til vara vægustu refsingar. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu, verði greiddur úr ríkissjóði.
II
Í DV 8. desember 2005 birtist á miðopnu, blaðsíðum 20 og 21 umfjöllun um Amarula rjómalíkjör sem ákæruvaldið telur auglýsingu. Líkjör þessi er með 17% áfengisstyrkleika og þar af leiðandi áfengi í skilningi áfengislaganna.
Nú verður því lýst sem birtist í blaðinu. Efst á blaðsíðu 20 er skjaldarmerki í ljósgulum lit og er það hið sama og er á mynd af flösku af Amarula sem er á blaðsíðu 21. Fyrir neðan skjaldarmerkið er ritað stórum stöfum með gulum lit og í eilitlum boga orðið Amarula og þar fyrir neðan í sama lit, en með minni stöfum, orðið cream og þar fyrir neðan í svörtum, en með minni stöfum, orðin Andi Afríku. Þar á eftir kemur svohljóðandi texti: „Rjómalíkjör frá Suður-Afríku hefur slegið í gegn víða um lönd undanfarin ár. Amarula heitir þessi ferski náttúrulegi rjómalíkjör og er stundum nefndur „Andi Afríku“ enda búinn til úr ávexti sem hefur verið notaður til lækninga og sem frjósemislyf öldum saman. Marula tréð er jafnan um 10 15 metra hátt og hvert tré getur gefið af sér allt að tvö tonn af ávöxtum á ári. Afrísku fílarnir eru sólgnir í ávöxtinn, keyra hausinn í bol trjánna og hirða upp ávextina sem hrynja niður við höggið. Ef Marula ávöxturinn sleppur við ágengni fílanna mun hann þroskast og falla loks til jarðar þar sem hann tekur að gerjast í hitamollunni og verður aðeins áfengur og mjög sætur. Fílarnir eru ekki síst sólgnir í þroskuðu ávextina og má gjarnan sjá þá ráfa um létta í anda eftir átveisluna!“ Fyrir neðan þennan texta eru fimm litmyndir. Ein af nokkrum fílum á ferð, með tré, böðuð í kvöldsólinni, í baksýn. Önnur af þremur gulum ávöxtum á trjágrein. Sú þriðja er af stórum, dökkum hnetum og sú fjórða er af stórum tréámum, sem liggja á hlið í geymslu. Fimmta myndin sýnir svo hóp kvenna í litskrúðugum kjólum á göngu í halarófu í trjálundi með strákofa í baksýn og bera þær allar uppmjó föt á höfðinu. Er þá upptalið efni á síðu 20 í blaðinu.
Á blaðsíðu 21 er á efri helmingi blaðsíðunnar mynd af fíl að teygja sig upp í tré á gresjunni með morgunsólina í baksýn. Í forgrunni myndarinnar sést hluti af efra borði glass með brúnleitum vökva og þremur ísmolum. Á neðri helmingi blaðsíðunnar er texti sem ber yfirskriftina: „Ferskur náttúrulegur rjómalíkjör.“ Textinn sjálfur er svohljóðandi: „Marula ávöxturinn er notaður af innfæddum til að búa til sultur og vín auk þess að vera notaður sem krydd í exótíska rétti. Steinn ávaxtarins er afar harður og þarf nokkuð lag til að opna hann en það er vinnunnar virði því hnetan er sú prótínríkasta sem um getur. Hnetuolían er notuð til að búa til snyrtikrem og nef- og eyrnadropa fyrir ungabörn. Í víngerðina er hins vegar aðeins kjöt ávaxtarins notað, steinarnir og hýðið er skilið frá. Marula safinn er látinn gerjast og síðan eimaður. Vínið er síðan geymt í eikartunnum í tvö til þrjú ár. Þar á eftir er Marula ávaxtaþykkni blandað í til að jafna drykkinn. Þegar pöntun berst er ferskum rjóma blandað í líkjörinn þar til mýkt og jafnvægi er náð. Útkoman til neytenda er afar mjúkur og vandaður rjómalíkjör sem flestir njóta beint úr kæli eða á klaka auk þess sem hann er kjörinn í kokteila.“ Neðst á blaðsíðunni standa orðin The Spirit of Africa og þar fyrir neðan www.amarula.com. Til hliðar hægra megin við framangreindan texta er mynd af flösku af Amarula sem nær yfir hálfa blaðsíðuna og vinstra megin er mynd af litlu glerglasi með brúnleitum vökva og ísmola og, að því er virðist, súkkulaðispónum.
III
Ákærði Jónas kvaðst hafa verið ritstjóri DV umræddan dag þegar framangreint efni birtist í blaðinu. Hann kvað það hafa komið frá auglýsingadeild, en hann sjálfur hafi ekki komið að birtingunni á nokkurn hátt. Raunar kvaðst hann líklega ekki hafa verið við vinnu þessa viku og fyrst vitað af þessu efni þegar hann var yfirheyrður af lögreglu. Spurður af ákæruvaldinu kvað hann þetta efni ekki vera ritstjórnarlegs eðlis heldur kæmi það frá auglýsingadeild sem hefði afmarkaða reiti í blaðinu sem ritstjórnin sæi ekki nema sem rauða fleti. Ákærði kvaðst hvorki vita hver hafi átt frumkvæði að birtingunni né hvort greitt hafi verið fyrir hana. Hann sem ritstjóri hefði aldrei haft afskipti af auglýsingum.
Ákærði Mikael kvaðst hafa verið ritstjóri DV umræddan dag þegar framangreint efni birtist í blaðinu. Hann kvaðst engan þátt hafa átt að birtingu þess, enda væri það ekki hlutverk ritstjórnar að koma að birtingu auglýsinga.
Guðbergur Kári Ellertsson sölustjóri Globus hf. sem hefur umboð fyrir Amarula líkjör, bar að fyrirtækið hafi ekki látið birta auglýsinguna. Hins vegar hafi verið haft samband við það vegna útgáfu sérblaðs DV sem átti að fjalla um mat og drykk. Af því tilefni hafi blaðinu verið sent efni, þar á meðal textinn sem birtist svo og myndirnar. Globus hf. hafi greitt blaðinu 60.000 krónur fyrir umfjöllunina. Hann kvaðst ekki hafa haft samband við DV heldur hafi Ámundi Ámundason, starfsmaður blaðsins, haft samband við sig.
Börkur Árnason framkvæmdastjóri Globus hf. bar að hann hefði ekkert komið nálægt birtingu framangreinds efnis, en sér hefði skilist að greitt hefði verið fyrir það.
Ámundi Ámundason var sölumaður á auglýsingadeild DV 8. desember 2005. Hann bar að ákærðu hefðu engin afskipti haft af þessari birtingu. Þeir hafi úthlutað honum tilteknu plássi í blaðinu sem hann hafi átt að selja auglýsingar í. Aðra aðkomu hafi þeir ekki haft að birtingu þessa efnis. Þess sé líka að geta að auglýsingar berist ekki ritstjórn heldur fari beint í prentsmiðju þar sem þeim sé komið fyrir í blaðinu. Ámundi kvaðst hafa hringt í Globus hf. og spurt hvort þeir vildu birta framangreint efni. Þeir hafi viljað það og greitt fyrir 60.000 krónur.
IV
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998 eru hvers konar auglýsingar á áfengi og áfengistegundum bannaðar. Í 2. mgr. segir að með auglýsingum sé átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi og svo framvegis. Í opnu DV sem hér er til umfjöllunar birtist allstór mynd af áfengisflösku, auk mynda af áfenginu í glösum og mynda úr því umhverfi sem ávöxturinn vex í, sem áfengið er lagað úr. Í texta er fróðleikur um ávöxtinn og áfengið eins og rakið var.
Það er í fyrsta lagi vörn ákærðu að hér hafi verið um löglega umfjöllun að ræða en ekki tilkynningu til almennings vegna markaðssetningar. Umfjöllun um áfengi, eins og aðra vöru, er, eðli málsins samkvæmt, ritstjórnarlegt efni þar sem ritað mál er meginefnið og myndir eru til frekari skýringa eða til að lífga upp á textann. Hér er ekki um það að ræða nema að litlu leyti. Í fyrsta lagi er efst á fyrri síðunni mynd af merki sem er hið sama og á áfengisflöskunni og þar fyrir neðan nafn áfengisins ritað stórum áberandi stöfum. Þá er allstór mynd af áfengisflöskunni og svo mynd af áfenginu í glasi og hluti af stærstu myndinni sýnir hið sama. Þótt í textanum sé nokkur fróðleikur um ávöxtinn, sem áfengið er unnið úr, og hvernig það er lagað, breytir það því ekki að framsetning efnisins á þessum tveimur síðum er fyrst og fremst til að leggja áherslu á neyslu áfengisins, bæði í máli og myndum. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að framangreint efni sé auglýsing sem brjóti í bága við 20. gr. áfengislaganna.
Í öðru lagi er það vörn ákærðu að þeim verði ekki refsað fyrir að auglýsingin birtist í DV þar eð þeir hafi ekki komið að birtingunni og eigi því ekki sök á því að hún birtist. Ákærðu voru ritstjórar blaðsins þegar auglýsingin birtist. Enginn höfundur er nafngreindur í henni, en samkvæmt 15. gr. laga um prentrétt ber höfundur refsiábyrgð á efni rits, hafi hann nafngreint sig. Hafi enginn höfundur nafngreint sig ber útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgðina. Ákærðu bera þannig, samkvæmt nefndu lagaákvæði, refsiábyrgð á efni blaðsins og komast þeir ekki undan henni þótt aðrir starfsmenn blaðsins sjái um einstaka efnisþætti. Hið sama gildir einnig þótt því sé þannig fyrir komið við vinnslu blaðsins að ákærðu sjái ekki tiltekna hluta þess áður en það er prentað, en á því fyrirkomulagi bera ákærðu ábyrgð sem ritstjórar.
Samkvæmt framansögðu verða ákærðu sakfelldir fyrir að hafa birt auglýsingu um áfengi, eins og þeim er gefið að sök, og er brot þeirra rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni. Ákærðu hafa ekki áður sætt refsingu og er refsing hvors þeirra nú hæfilega ákveðin 200.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 14 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna. Málsvarnarlaun verjanda ákærðu, Einars Þórs Sverrissonar hdl., ákveðast 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og skulu ákærðu greiða þau óskipt. Annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Ákærðu, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, greiði hvor um sig 200.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 14 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.
Ákærðu greiði óskipt málsvarnarlaun verjanda síns, Einars Þórs Sverrissonar hdl., 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.