Hæstiréttur íslands
Mál nr. 725/2009
Lykilorð
- Sjómaður
- Laun
- Loforð
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 14. október 2010. |
|
Nr. 725/2009. |
Einar Björn Ólafsson (Jónas Þór Jónasson hrl.) gegn HB Granda hf. (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) |
Sjómenn. Laun. Loforð. Sératkvæði.
Málavextir voru þeir að E var ráðinn til starfa á togara til einnar ferðar en var sagt upp störfum þegar tekin var ákvörðun um að selja skipið, skömmu áður en haldið var í ferðina. Kaupandi togarans hafði hug á að halda skipinu áfram til sömu veiða um einhvern tíma og bauð skipverjum, þ. á m. E, að halda skiprúmi sínu næstu veiðiferð. Með hliðsjón af 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 gaf H vilyrði um greiðslu meðallauna til skipverja út uppsagnarfrest óháð því hvort þeir færu veiðiferð með kaupanda togarans. E hlaut ekki greiðslu meðallauna í einnar viku uppsagnarfresti og höfðaði mál þetta af þeim sökum. Var talið að framangreint loforð H til skipverja hefði tekið til E og H gert að greiða E laun í uppsagnarfresti. Ekki var fyrir að fara fyrri starfsreynslu E á togaranum hjá H og varð því við útreikning meðallauna að taka mið af launum þeim sem E hafði af störfum hans um borð í skipinu eftir sölu þess.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2009 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 315.063 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2007 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Stefndi gerði út frystitogarann Engey RE 1 skipaskrárnúmer 2662. Á fyrstu mánuðum ársins 2007 var skipið gert út til síldar- og kolmunnaveiða. Áfrýjandi var ráðinn til starfa á skipinu með munnlegum ráðningarsamningi og er ágreiningslaust að sá samningur var til einnar ferðar. Þann 20. mars 2007, skömmu áður en sú ferð skyldi hefjast, seldi stefndi Samherja hf. skipið. Mun kaupandi þess hafa haft hug á að halda skipinu áfram til sömu veiða um einhvern tíma og hafa boðið skipverjum, þar á meðal stefnda, að halda skiprúmi sínu að minnsta kosti í næstu veiðiferð. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 á skipverji, þegar skip er selt öðrum innlendum útgerðarmanni, rétt á að krefjast lausnar úr skiprúmi og á þá samkvæmt 3. mgr. sömu greinar rétt til kaups í sex vikur nema uppsagnarfrestur sé skemmri tími. Samkvæmt því var ljóst að þeir úr skipshöfninni sem áttu þennan kost sáu sér lítinn hag í því að þiggja boð Samherja hf. um áframhaldandi skiprúm. Við þessar aðstæður átti Bergur Þorkelsson starfsmaður Sjómannafélags Íslands fund með starfsmannastjóra stefnda þar sem til umræðu var hvort stefndi væri tilbúinn til að borga laun í uppsagnarfresti til skipverja óháð því hvort þeir færu í næstu veiðiferð skipsins í eigu Samherja hf. Í framhaldi af þessum fundi sendi starfsmannastjóri stefnda starfsmanni sjómannafélagsins svohljóðandi tölvupóst 24. mars 2007: „Það tilkynnist hér með að HB Grandi mun greiða skipverjum Engeyjar meðallaun út sinn uppsagnarfrest, óháð því hvort þeir fari næstu veiðiferð með Engey eða ekki.“ Áfrýjandi mun hafa farið tvær veiðiferðir með skipinu í eigu Samherja hf., sem nú bar nafnið Kristina, og var lögskráður frá 27. mars til 15. maí 2007.
II
Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að ráðningarsamband hafi verið komið á milli aðila um að áfrýjandi færi í eina veiðiferð. Með sölu skipsins hafi ráðningu áfrýjanda verið slitið og eigi hann við þær aðstæður rétt til launa í uppsagnarfresti, sbr. fyrrgreind ákvæði 22. gr. sjómannalaga, sem sé ein vika samkvæmt 9. gr. sjómannalaga og ákvæði kjarasamnings. Í framangreindum tölvupósti stefnda 24. mars 2007 hafi falist staðfesting á samkomulagi Sjómannafélags Íslands og stefnda. Það hafi ekki verið skilyrt eða bundið við fastráðna skipverja og hafi því samkvæmt efni sínu tekið til áfrýjanda.
Stefndi kveðst hafa ráðgert að senda skipið til annarra verkefna á fjarlægum miðum um mánaðarmótin apríl-maí 2007. Því hafi almennt verið búið að segja upp ráðningarsamningum skipverja og hafi þeir verið að vinna á uppsagnarfresti þegar skipið var selt. Við þær aðstæður sem upp hafi komið við fyrirvaralitla sölu skipsins hafi félagið vilja gera vel við þá sem unnið höfðu hjá útgerðinni og lýst því einhliða yfir að þeim sem voru að vinna í uppsagnarfresti yrði greitt óháð því hvort þeir þægju skiprúm hjá Samherja hf. Hafi vilyrði um þá greiðslu verið umfram skyldu. Hafi því vilyrði ekki verið beint til áfrýjanda. Áfrýjandi hafi þegið boð Samherja hf. um að halda ráðningu sinni og hafi hann eftir það ekki átt kröfu á stefnda. Stefndi andmælir því þó ekki að ef áfrýjandi hefði nýtt rétt sinn til lausnar úr skiprúmi samkvæmt 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga hefði uppsagnarfrestur hans verið ein vika.
III
Í fyrrgreindum tölvupósti stefnda 24. mars 2007 fólst loforð um greiðslu. Því var beint til Sjómannafélags Íslands í framhaldi af viðræðum við stefnda. Loforðið tók til að „greiða skipverjum Engeyjar“ og var samkvæmt orðalagi sínu hvorki bundið við fastráðna skipverja né þá sem þegar hafði verið sagt upp vegna fyrirhugaðra breytinga á útgerðarháttum skipsins. Efnislega fólst í loforðinu að skipverjum yrðu greidd meðallaun „út sinn uppsagnarfrest“ óháð því hvort þeir færu næstu veiðiferð. Ágreiningslaust sýnist vera að hefði áfrýjandi ekki þegið boð Samherja hf. og nýtt rétt sinn samkvæmt 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga til að krefjast lausnar úr skiprúmi hefði uppsagnarfestur hans samkvæmt 3. mgr. sömu greinar verið sjö dagar. Hann hafði því þá réttarstöðu gagnvart stefnda að loforðið tók efnislega til hans. Þá er ljóst að loforðið var til þess fallið fyrir áfrýjanda sem aðra skipverja að hafa áhrif á það hvort hann kaus að nýta sé framangreindan rétt til lausnar úr skiprúmi. Samkvæmt framansögðu tekur fyrrgreint greiðsluloforð stefnda til áfrýjanda.
Í loforði stefnda fólst að skipverjum skyldu greidd meðallaun út sinn uppsagnarfrest. Er eðlilegt að skýra loforðið svo að þar sé átt við þau meðallaun sem til grundvallar hefðu verið lögð fyrir hvern skipverja við greiðslu launa á uppsagnarfresti vegna slita á ráðningarsamningi hans. Almennt er í þeim efnum miðað við laun viðkomandi skipverja vegna starfa um borð á tímabili fyrir slit ráðningarsamnings. Áfrýjandi var hins vegar í þann veginn að hefja störf og er því ekki um að ræða meðallaunaviðmiðun vegna starfa hans um borð fyrir sölu skipsins. Hann starfaði hins vegar um borð í 50 daga eftir söluna, en þá var skipinu haldið til hliðstæðra veiða og áður. Við þær aðstæður er eðlilegt að taka mið af meðallaunum hans á því tímabili, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 46/2001, sem birtur er í dómasafni réttarins 2001 á bls. 2963. Lögskráningardagar áfrýjanda falla saman við ráðningartíma hans. Í málinu liggur fyrir staðfest staðgreiðsluyfirlit skattstjórans í Reykjavík fyrir áfrýjanda er tekur til umrædds tímabils. Þar kemur fram að Samherji hf. greiddi áfrýjanda 1.488.394 krónur á árinu 2007. Verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 208.375 krónur og 16.670 krónur að auki vegna 8% lífeyrisframlags eða samtals 225.045 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, HB Grandi hf., greiði áfrýjanda, Einari Birni Ólafssyni, 225.045 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2007 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Málsaðilar eru sammála um að úrslit málsins ráðist alfarið og eingöngu af skýringu á loforði því sem stefndi sendi með tölvupósti til Sjómannafélags Íslands 24. mars 2007 svohljóðandi: „Það tilkynnist hér með að HB Grandi mun greiða skipverjum Engeyjar meðallaun út sinn uppsagnarfrest, óháð því hvort þeir fari næstu veiðiferð með Engey eða ekki.“ Þá eru þeir einnig sammála um að loforðið fól í sér rétt skipverjum til handa sem þeir hefðu ekki notið ella og að það var einhliða af stefnda hálfu í þeim skilningi að hann vænti einskis endurgjalds frá þeim.
Hinn 30. apríl 2007 sendi skrifstofustjóri Sjómannafélags Íslands tölvupóst til stefnda með ósk um könnun á rétti áfrýjanda og tveggja annarra manna, sem eins mun hafa staðið á um, og ekki hefðu „fengið greiddan uppsagnarfrestinn eins og hinir.“ Spurði hann hvort móttakandi tölvupóstsins gæti kannað þetta fyrir sig. Þessu svaraði starfsmannastjóri stefnda með tölvupósti sama dag. Þar segir meðal annars svo: „Allir þessir menn voru aðeins ráðnir til eins túrs allir fóru þeir Samherjatúrinn og [skipstjórinn] veit ekki betur en að þeir séu enn um borð. Þetta voru ekki fastráðnir starfsmenn HB Granda og teljum við okkur ekki þurfa að greiða þeim túr sem þeir fá hvort eð er greiddan frá Samherja.“ Samkvæmt þessu er ljóst að stefndi lét strax og tilefni kom upp í ljós þá túlkun á loforði sínu að það ætti ekki við áfrýjanda þar sem hann hefði ekki verið fastráðinn á skipið og hann hefði farið veiðiferðina sem hann hefði verið ráðinn til þó að farin hefði verið eftir að skipið var komið í eigu Samherja hf.
Stefndi hefur meðal annars talið að með orðunum „út sinn uppsagnarfrest“ í hinum umdeilda tölvupósti hafi verið átt við þá skipverja sem sagt hafði verið upp og voru á uppsagnarfresti þegar stefndi seldi skipið. Þetta hafi ekki átt við um áfrýjanda sem einungis hafði verið ráðinn til einnar veiðiferðar og ekki hafði verið sagt upp. Þá telur stefndi að fyrirheitið um greiðslu meðallauna hafi alls ekki getað átt við um áfrýjanda. Ekki hafi verið um nein slík laun hans að ræða þar sem hann hafi alls ekki starfað hjá stefnda fram að hinni fyrirhuguðu veiðiferð.
Þegar litið er til þess að loforð stefnda fól í sér rétt skipverjum til handa umfram skyldu stefnda, að í því fólst örlæti af hans hálfu í þeim skilningi að hann vænti ekki endurgjalds þeirra, að hann hefur gefið skýringar á loforði sínu sem vel rúmast innan orðalags þess og loks að hann gaf þær skýringar strax og eftir þeim var leitað, tel ég að rétt sé að leggja túlkun stefnda til grundvallar dómi í málinu. Samkvæmt því tel ég að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm, en dæma áfrýjanda til að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 5. maí 2009, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Einari Birni Ólafssyni, kt. 230385-2549, Baughúsum 34, Reykjavík, gegn HB Granda hf., kt. 541185-0389, Norðurgarði, Reykjavík, með því að sótt var þing af hálfu aðila er málið var þingfest hinn 23. september 2008.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 315.063 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 30. apríl 2007 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður milli aðila verði felldar niður.
Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því: Af hálfu stefnanda segir að stefndi hafi keypt frystitogarann Engey RE-1 í maí 2005 og gert skipið út allt fram í mars 2007 er skipið var selt Samherja hf. Síðustu veiðiferð skipsins í útgerð stefnda hafi lokið með löndun 17. mars 2007 og skipið afhent Samherja hf. hinn 22. mars 2007. Stefnandi hafi verið ráðinn ásamt tveimur öðrum skipverjum til einnar veiðiferðar á Engey RE-1, en með sölu stefnda á skipinu til Samherja hf. hafi stefndi rift ráðningu stefnanda og stefnandi þannig öðlast rétt á greiðslu meðallauna einnar viku á uppsagnarfresti skv. ákvæði greinar 1.11 í kjarasamningi milli Sjómannasambandi Ísland annars vegar og Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins hins vegar.
Þá segir að ætlun Samherja hf. hafi verið að gera skipið út til veiða á erlendum miðum, en þó hafi verið fyrirhugað að halda áfram um sinn síldar- og kolmunnaveiðum svo sem stefndi hafði notað skipið. Fyrirsvarsmenn Samherja hf. hafi því óskað eftir að hluti áhafnar Engeyjar RE-1 héldu áfram störfum á skipinu við veiðar á síld og kolmunna. Skipverjum hafi hins vegar verið ljóst að héldu þeir áfram störfum á skipinu fyrirgerðu þeir rétti til launa frá stefnda á uppsagnarfresti. Í þessari stöðu hafi Sjómannafélag Íslands og stefndi, HB Grandi hf., komist að samkomulagi, hinn 24. mars 2007, um að útgerðin greiddi skipverjum Engeyjar RE-1 meðallaun á uppsagnarfresti óháð því hvort þeir færu í næstu veiðiferð með skipinu eða ekki. Stefnandi hafi verið einn þeirra sem hélt til veiða á skipinu í útgerð Samherja hf.
Greint er frá því að sjómannafélagið hafi í tölvupósti, hinn 30 apríl 2007, krafist þess að umræddum þremur skipverjum, sem ráðnir voru af stefnda í túrinn sem ekki var farinn, yrðu greidd laun á uppsagnarfresti vegna sölu stefnda á Engey RE-1. Sama dag hafi starfsmannastjóri stefnda með bréfi staðfest að þremenningarnir hefðu verið ráðnir til að fara túrinn sem ekki var farinn, en haldið fram, að þeir hefðu ekki verið fastráðnir starfsmenn HB Granda hf. og því væri félaginu óskylt að greiða þeim laun á uppsagnarfresti þar sem þeir fengu túrinn greiddan frá Samherja hf. Sjómannafélagið hafi þá í tölvupósti til stefnda, hinn 2. maí 2007, áréttað samkomulag aðila frá 24. mars 2007; þremenningarnir ættu rétt á launum í eina viku á uppsagnarfresti þar sem þeir voru ráðnir á skipið er það var selt. Sama dag hafi í tölvupósti frá stefnda til sjómannafélagsins verið haldið fram - í fyrsta sinn að samkomulagið frá 24. mars 2007 næði aðeins til fastráðinna skipverja Engeyjar RE-1 og þar af leiðandi ekki til þremenninganna. Þeir hefðu fengið greiðslu vegna túrsins frá Samherja hf. og væri stefnda óskylt að greiða þeim laun á uppsagnarfresti.
Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst á þann veg að Engey RE-1 hafi í upphafi árs 2007 verið á síld- og kolmunaveiðum, en legið hafi fyrir að verkefni Engeyjar RE-1 yrðu önnur að lokinni vetrarvertíð. Af þeirri ástæðu hafi uppsagnir hafist á skipinu í janúar og febrúar eftir lengd uppsagnarfrests skipverja. Ætlað hafi verið að skipið færi til nýrra verkefna við strendur Afríku um mánaðamótin apríl/maí. En skömmu áður hafi stefndi fengið tilboð í skipið og selt það til Samherja hf., hinn 20 mars 2007, eða skömmu áður en síðasti túr þess hér á landi var fyrirhugaður af hálfu stefnda.
Þá segir að áhöfn skipsins hafi almennt verið á uppsagnarfresti eða haldið til annarra starfa vegna fyrirhugaðra breytinga á rekstri skipsins þegar skipið var selt. Af þeirri ástæðu og vegna forfalla hafi tvo háseta vantað í síðustu veiðiferðina. Þess vegna hafi stefnandi einungis verið ráðinn til þess að fara þá ferð.
Því er lýst að eftir kaupin hafi Samherji hf. haft hug á að halda áfram eitthvað lengur sömu veiðum og skipið var á og boðið öllum skipverjum að halda plássum sínum sem starfsmenn Samherja hf. og fara m.a. í næstu veiðiferð, sem þá hafði verið undirbúin. Hafi stefnandi einnig fengið slíkt boð þar sem hann hafði verið ráðinn til að fara í næstu ferð skipsins. Nokkrir starfsmenn stefnda hefðu hins vegar lýst því yfir að þeir hefðu lítinn hag af því að fara umrædda veiðiferð með Samherja hf. enda tryggðu 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 þeim rétt til þess að hætta við skipti á útgerðarmanni og fá laun á uppsagnarfresti, þá að hámarki í sex vikur.
Við þessar aðstæður, segir af hálfu stefnda, að starfsmönnum stefnda sem voru á uppsagnarfresti, hafi verið tjáð, að þeir fengu greidd meðallaun á uppsagnarfresti hvort sem þeir tækju boði um ráðningu Samherja hf. á skipið eða ekki. Hafi stefndi þannig viljað sérstaklega launa þeim starfsmönnum sínum sem unnið höfðu hjá félaginu fyrir tryggð þeirra og bæta þeim að einhverju leyti þá röskun sem sala á skipinu hefði fyrir þá. Um hafi verið að ræða loforð um greiðslu umfram skyldu a.m.k. í þeim tilvikum þar sem viðkomandi starfsmenn tóku boði um ráðningu hjá Samherja hf. Þessa yfirlýsingu hafi starfsmannastjóri stefnda gefið í tölvupósti til Bergs Þorkelssonar, skrifstofustjóra Sjómannafélags Íslands, hinn 24. mars 2007. Í framhaldinu hafi í tölvupóstum milli sömu aðila inntak þessa vilyrðis stefnda verið skýrt nánar. Starfsmannastjóri stefnda hafi ekki haft stöðu til að gefa slíkt loforð en verið falið að kom því til skila og skýra það nánar þegar veittar upplýsingar um inntak loforðsins reyndust ekki nægilega skýrar.
Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á: Helstu málsástæður stefnanda eru að hann hafi verið ráðinn í eina veiðiferð á skipi stefnda þegar stefndi ákvað að selja skipið. Samkomulag hafi verið milli stefnda og Sjómannafélags Íslands, hinn 24. mars 2007, um að allir skipverjar Engeyjar RE-1 fengju laun á uppsagnarfresti vegna sölu á skipinu til Samherja hf. Það hafi ekki verið fyrr en um mánaðamótin apríl/maí 2007 sem stefndi hélt því fram að samkomulagið næði einvörðungu til fastráðinna skipverja. Með vísun til afdráttarlauss orðalags samkomulagsins, meginreglna samning- og vinnuréttar og greinar 11.1 í kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands annars vegar og Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins hins vegar eigi stefnandi rétt á að fá greidd meðallaun á einnar viku uppsagnarfresti vegna sölu stefnda á Engey RE-1. Samkomulag hafi verið milli stefnda og Sjómannafélagis Íslands um að miða útreikninga meðallauna skipverja á uppsagnarfresti við árstímabil frá og með lokum síðustu veiðiferðarinnar eða tímabilið 17. mars 2006 til 19. mars 2007. Hins vegar sé deilt um hvernig gera eigi meðallaun upp.
Stefnandi byggir á því „að gera verði meðallaunin upp með því að deila heildarlaunum/stöðugildi háseta á umræddu árstímabili niður á lögskráningardaga háseta í skiprúmi á sama tíma. Eru meðallaun í uppsagnarfresti svo fundin út með því að margfalda launum pr. lögskráðan dag saman við fjölda daga stefnanda í uppsagnarfresti (7 dagar). Óhjákvæmilegt sé í tilviki stefnanda að miða við heildarlaun og lögskráningu í stöðu háseta á tímabilinu, enda ekki um það að ræða að miða við hans eigin laun og lögskráningu um borð í Engey RE-1.“ Þessi útreikningsaðferð sé í fullu samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar.
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt útreikningi sjómannafélags stefnanda á dskj. nr. 8 hafi heildarlaun háseta á viðmiðunartímabilinu 17. mars 2006 til 19. mars 2007 numið samtals 13.502.892 krónum. Samkvæmt lögskráningarvottorði hafi verið lögskráð í stöðu háseta á sama tíma í 324 daga. „Meðallaun pr. lögskráðan dag nema hér kr. 42.675 .- á dag. Meðallaun stefnanda í einnar viku uppsagnarfresti eigi samkvæmt þessu að nema kr. 291.725.- (41.675 * 7 = 291.725). Ofan á þá fjárhæð bætast 8% greiðsla , kr. 23.338.-, vegna tapaðra lífeyrisréttinda stefnanda. Samkvæmt þessu nemur krafa stefnda alls kr. 315.063.- [291.725 + 23.338 = 315.063].“
Um réttarheimildir vísar stefnandi til ákvæða sjómannalaga nr. 35/1985, til kjarasamninga SSÍ og LÍÚ, til dóma Hæstaréttar um uppsögn og riftun skipsrúmssamninga, einkum H.2001.1483, H.2002.4277, H.2002.4317 og H.2002.4379 til almennra reglna vinnu- og kröfuréttinda um greiðslu verklauna og launa í uppsagnarfresti. Um orlof er vísað til kjarasamninga og orlofslaga nr. 30/1987. Um tapaðar lífeyrisgreiðslur er vísað til H.2000.2064 og H.2002.3295.
Helstu málsástæður stefnda og réttarheimildir er hann byggir á: Vísað er til þess að stefnandi var ráðinn til þess að fara ferð sem átti að verða síðasta ferð Engeyjar RE-1 í rekstri stefnda, HB Granda hf. Atvik hafi hins vegar orðið þannig að umrædd veiðiferð var ekki farin. Greint er frá því að nýr eigandi, Samherji hf., hafi tekið við skipinu og boðið m.a. stefnanda að halda ráðningu sinni á skipið og hafi stefnandi þáð það. Og staðhæft er að við svo búið hafi stefnandi ekki átt frekari kröfur á hendur stefnda og ekki komið til þess að stefndi þyrfti að segja stefnanda upp vegna sölu á skipinu.
Áréttað er að í málatilbúnaði sínum haldi stefnandi því fram að samkomulag hafi orðið milli stefnda og Sjómannasambands Íslands um greiðslu á meðallaunum á uppsagnarfresti til starfsmanna stefnda sem stefnandi eigi að njóta. Ekkert samkomulag hafi verið gert við Sjómannasamband Íslands um þetta, heldur hafi stefndi einhliða lýst því yfir að hann myndi greiða skipverjum Engeyjar RE-1 meðallaun út sinn uppsagnarfrest óháð því hvort þeir færu í næstu veiðiferð eða ekki. Um hafi verið að ræða vilyrði stefnda um greiðslu til skipverjanna án skyldu, sem ekki hafi verið beint til stefnanda og ekki falið í sér samning, enda hafi stefndi ekki krafist endurgjalds. Þessu vilyrði hafi ekki verið beint til stefnanda, enda hafi hann þá hvorki verið skipverji á Engey RE-1 né á uppsagnarfresti. Þegar eftir því var leitað hafi inntak þessa vilyrðis verið nánar skýrt fyrir fulltrúa Sjómannasambands Íslands og sérstaklega tekið fram að þessu vilyrði hafi aðeins verið beint til þeirra sem fastráðnir voru hjá stefnda og næði hvorki til stefnanda né annarra sem ráðnir höfðu verið tímabundið til að fara síðustu veiðiferð skipsins. Í þessu sambandi er að auki bent á að áskilnaður stefnda um að miða greiðsluna við meðallaun viðkomandi geti aðeins átt við um þá sem voru áður á launum hjá stefnda. Byggt er á því að almennar reglur samningaréttar um gjafagerninga og önnur vilyrði um endurgjald beri að túlka í samræmi við vilja gefanda.
Verði talið að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda vegna fyrrgreinds vilyrðis byggir stefndi á því að miða verði við meðallaun stefnanda síðasta árið. Stefnandi hafi ekki upplýst um laun og því sé ekki hægt að efna umrædda kröfu. Í þessu sambandi er vísað til þess að þeir skipverjar, sem fengu laun á grundvelli vilyrðisins, hefðu allir fengið greitt miðað við eigin meðallaun síðustu 12 mánuði eða styttri tíma ef þeir höfðu ekki verið í starfi í 12 mánuði. Það liggi því fyrir í framkvæmd hvert hafi verið inntak vilyrðis stefnda. Þá er einnig bent á að laun á uppsagnarfresti skv. 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 taki mið af meðallaunum viðkomandi starfsmanns í því skiprúmi sem hann var í áður en skipið var selt. Þessu til viðbótar staðhæfir stefndi að útreikningar á meðallaunum, sem lagðir hafa verið til grundvallar greiðslum skv. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga og launum á uppsagnarfresti eftir að skip hefur verið selt, hafi í áratugi verið óumdeildir og ávallt hafi meðallaun verið reiknuð sem laun á dag, þ.e. mánaðarlaun eða heildarlaun fyrir tiltekið tímabil sé deilt með fjölda daga á tímabilinu. Allt til 12. desember 2002 hafi þessi aðferð við að reikna meðallaun verið óumdeild og ávallt notuð án undantekningar í dómum Hæstaréttar og þegar samið var um uppgjör utan réttar. Hinn 12. desember 2002 og svo aftur, hinn 19 desember 2002, hafi fallið í Hæstarétti dómar sem byggðust á því að meðallaun í uppsagnarfresti voru reiknuð sem meðallaun á lögskráningardag en ekki eins og áður hafði verið. Hvorki sé þó að finna í þessum dómum rök fyrir svo stórfelldri breytingu á útreikningi á meðallaunum né rök fyrir því að við útreikning bóta fyrir missi vinnutekna skipverja skuli ekki lengur leitast við að finna þá fjárhæð sem skipverji mátti vænta að hafa í tekjur á umræddu tímabili miðað við reynslu fyrri mánaða. Á hinn bóginn hafi, hinn 19. desember 2002, einnig fallið dómur í Hæstarétti, mál nr. 342/2002, þar sem byggt hafi verið á hefðbundnum útreikningi á meðallaunum og síðan hafi fallið dómar sem byggjast á sama grunni og engin stefnubreyting hafi orðið á þessum uppgjörum útgerða þrátt fyrir tvo tilgreinda dóma.
Um það hvernig eigi að reikna meðallaun á dag ef reikna þarf laun fyrir hluta úr mánuði vísar stefndi einnig til 28. gr. sjómannalaga. Sama grunnregla gildi um meðaltalsútreikning hvort heldur um hluta úr mánuði eða lengri tími sé að ræða. Samkvæmt ákvæðinu sé skýrt að deila skuli mánaðarlaunum með 30 dögum.
Niðurstaða: Bergur Þorkelsson, starfsmaður Sjómannafélags Íslands, bar fyrir rétti að hafa komið fram fyrir Sjómannafélag Íslands í viðræðum við stefnda, HB Granda hf., varðandi uppgjör á meðallaunum til skipverja Engeyjar RE-1 í mars á árinu 2007.
Bergur sagði að skipið hafi verið selt skyndilega eftir að menn voru komnir í land. Skipið hafi verið í Færeyjum. Þá hafi sjómenn hringt í hann, en þeim hafði verið boðið að fara túr með Samherja sem var næsti túr; menn hafi verið mjög fljótir að sjá að þeir þénuðu það sama með því að sitja heima hjá sér í mánuð og að fara túrinn. Bergur kvaðst þá hafa haft samband við Öldu, starfsmannastjóra hjá Granda, og spurt hvort Grandi væri tilbúinn að borga uppsagnarfrestinn óháð hvort menn færu túrinn hjá Samherja eða ekki.
Bergur sagði að fljótlega síðar hafi fundur verið haldinn á laugardegi hjá Granda og málin rædd. Síðan hafa Alda svarað honum með tölvupósti að þeir myndu borga uppsagnarfrestinn óháð hvort menn færu túrinn eða ekki.
Vísað var til þess að tölvupóstur Guðrúnar Öldu Elísdóttur starfsmannastjóra, til hans [Bergs], hinn 24. mars 2007 sbr. dskj. nr. 12, segi: „Það tilkynnist hér með að HB Grandi mun greiða skipverjum Engeyjar meðallaun út sinn uppsagnarfrest, óháð því hvort þeir fari næstu veiðiferð með Engey eða ekki.“ Og spurt var hvað átt væri við með orðunum meðallaun út sinn uppsagnarfrest og hvort þetta hafi verið rætt eitthvað frekar. Bergur sagði að þetta hefði ekkert verið rætt á fundinum; ekkert hefði verið farið út í útreikninga.
Bergur sagði að almennur skilningur hjá sjómannafélaginu varðandi meðallaun væru að það væri meðallaun stöðugildis sem ætti að endurspegla túrinn „hvað menn skyldu hafa haft í tekjur þennan uppsagnarfrest og það er sem við höfum alltaf haft hjá sjómannafélaginu“. Bergur kvaðst hafa ætlað að allir hásetar fengju sömu laun á uppsagnarfresti og að það tæki ekki einungis til fastráðinna starfsmanna.
Bergur kvaðst hafa unnið hjá sjómannafélaginu frá árinu 2005 en verið í stjórn frá árinu 1987. Hann kvaðst hafa komið að uppgjörum við sjómenn vegna launa á uppsagnarfresti frá því að hann hóf störf hjá sjómannafélaginu, en eigin uppgjör sem sjómaður frá árinu 1987. Hann kvaðst ekki þekkja til að breytingar hafi orðið á þessum tíma í uppgjörsmálum eða hvernig menn reikna meðallaun, enda komi það hvergi sérstaklega fram í samningum eða lögum hvernig þessu skuli háttað.
Stefnandi byggir á því að samkomulag hafi orðið milli stefnda og Sjómannafélags Íslands, hinn 24. mars 2007, um að allir skipverjar Engeyjar RE-1 fengju laun á uppsagnarfresti vegna sölu á skipinu til Samherja hf. Ekki liggur þó fyrir að samkomulag hafi orðið þennan dag á milli stefnda og Sjómannafélags Íslands. Í tölvupósti Guðrúnar Öldu Elísdóttur, starfsmannastjóra HB Granda hf., til Bergs Þorkelssonar, starfsmanns Sjómannafélags Íslands, hinn 24. mars 2007, segir: „Það tilkynnist hér með að HB Grandi mun greiða skipverjum Engeyjar meðallaun út sinn uppsagnarfrest, óháð því hvort þeir fari næstu veiðiferð með Engey eða ekki“, þ.e. einhliða yfirlýsing af hálfu starfsmannastjórans, án staðfestingar.
Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi hafi haldið ráðningu sinni á skipinu, eftir að Samherji hf. tók við því, og farið sína fyrstu veiðiferð á skipinu sem starfsmaður Samherja hf. Ekki kom því til að þörf væri fyrir stefnda að segja stefnanda upp vegna sölu á skipinu.
Samkvæmt framangreindu og að öðru leyti, með vísan til lagasjónarmiða og röksemda stefnda hér að framan, ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, en eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, HB Grandi hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Einars Björns Ólafssonar.
Málkostnaður fellur niður.