Hæstiréttur íslands
Mál nr. 161/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 20. apríl 2005. |
|
Nr. 161/2005. |
Sýslumaðurinn á Akureyri(Eyþór Þorbergsson fulltrúi) gegn X (Sigmundur Guðmundsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. apríl 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 25. apríl 2005 kl. 11. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Varnaraðili er grunaður um þátttöku í fíkniefnabroti og brotum gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, þar á meðal alvarlegri líkamsárás.
Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. apríl 2005.
Mál þetta barst dóminum í gær með bréfi sýslumannsins á Akureyri dagsettu í gær og var þingfest og tekið til úrskurðar samdægurs.
Krefst sýslumaðurinn á Akureyri þess að X [...] Akureyri, verði úrskurðaður í gæsluvarðhald í 11 daga til mánudagsins 25. apríl n.k., með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991.
Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu sýslumanns verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.
Sýslumaður kveður málavexti þá að lögreglan á Akureyri hafi haft til rannsóknar í nokkurn tíma meint fíkniefnabrot kærða. Sú rannsókn hafi m.a. farið fram með því að lögreglan hafi með heimild héraðsdóms beitt símahlerunum. Í rannsókn þessari hafi vaknað rökstuddur grunur um að kærði hafi staðið að nokkuð umfangsmikilli sölu á fíkniefnum hér á Akureyri og eins hafi vaknað rökstuddur grunur um þátttöku hans í annars konar brotum.
Kærði hafi verið handtekinn ásamt félögum sínum í bifreið á leið frá Reykjavík með um 300 gr. af hassi sem talið sé að hafi átt að fara til sölu hér á Akureyri.
Kveður sýslumaður rannsókn málsins vera á frumstigi. Ætla verði að kærði muni getað torveldað rannsókn ef hann gangi laus meðan á frumrannsókn standi, með því m.a. að hafa áhrif á framburð vitna og samsekra og skjóta undan munum.
Hjá lögreglu hefur kærði neitað sök í málinu, en rannsóknargögn þau er frammi liggi í málinu þ.á.m. skýrslur um símahleranir á samtölum kærða þykja renna stoðum undir grun lögreglunnar um refsiverða háttsemi svo sem að framan er lýst. Þykja því skilyrði framangreindra lagagreinar vera fyrir hendi til að úrskurða kærða í gæsluvarðhald. Ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Verða kröfur sýslumanns því teknar til greina.
Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
Á L Y K T A R O R Ð :
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til mánudags 25. apríl n.k. kl. 11:00.