Hæstiréttur íslands
Mál nr. 426/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Dómari
- Vanhæfi
|
|
Þriðjudaginn 18. nóvember 2003. |
|
Nr. 426/2003. |
Jórunn Anna Sigurðardóttir (Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.
J krafðist þess að fjölskipaður héraðsdómur viki sæti eftir að Hæstiréttur hafði í annað sinn ómerkt dóm héraðsdóms og vísaði málinu heim í hérað. Var um að ræða sömu kröfur og hún hafði uppi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 49/2002 eftir fyrri heimvísun þess. Með vísan til forsendna héraðsdóms og fyrrnefnds dóms Hæstaréttar var kröfu J hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fjölskipaður héraðsdómur viki sæti í máli hennar gegn varnaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dómurunum í héraði verði gert að víkja sæti í málinu og að sér verði dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Mál sóknaraðila gegn varnaraðila hefur tvívegis verið ómerkt í Hæstarétti og vísað heim í hérað, sbr. dóma réttarins 29. mars 2001 í máli nr. 373/2000 og 2. október 2003 í máli nr. 135/2003. Þá liggur fyrir dómur Hæstaréttar 7. febrúar 2002 í máli nr. 49/2002, þar sem sóknaraðili hafði uppi sömu kröfur og hún hefur í þessu máli eftir fyrri heimvísun þess. Líkt og í því máli heldur sóknaraðili nú fram að dómarar í máli hennar hafi með dómum og úrskurðum, sem gengið hafa í málinu, tjáð sig þannig um það að draga megi óhlutdrægni þeirra í efa. Þá séu ótvíræð tengsl meðdómsmanna við þann lækni, sem framkvæmdi aðgerðina, sem um er deilt í málinu. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, sbr. og fyrrnefndan dóm Hæstaréttar frá 7. febrúar 2002, verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2003.
Fyrir því er venja að skýra hina almennu vanhæfisreglu er fram kemur í g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 - og eldri ákvæði sama efnis - á þann veg, að héraðsdómari verði ekki talinn vanhæfur þó hann hafi áður leyst úr máli að efni til, ef hann fjallar um það að nýju að undangenginni ómerkingu fyrri úrlausnar. Verður og að miða við að Hæstiréttur hafi ekki talið að dómarar í þessu máli væru vanhæfir til að fara með málið á nýjan leik, þegar málinu var vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar á ný. Þá hefur ekkert komið fram sem gefur tilefni til að óhlutdrægni héraðsdómara verði með réttu dregin í efa.
Samkvæmt framangreindu verður kröfu stefnanda, um að dómarar máls þessa víki sæti, hafnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfu stefnanda um að dómarar málsins víki sæti er hafnað.