Hæstiréttur íslands
Mál nr. 289/2000
Lykilorð
- Vinnuslys
- Ábyrgðartrygging
- Gjaldþrotaskipti
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 14. desember 2000. |
|
Nr. 289/2000. |
Ingibjörg Hákonardóttir (Þorsteinn Hjaltason hdl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Ólafur Axelsson hrl.) |
Vinnuslys. Ábyrgðartrygging. Gjaldþrotaskipti. Aðild.
Árið 1989 slasaðist I á fæti við vinnu sína hjá K og hlaut 20% örorku af. Ágreiningur varð um bótaskyldu og dómur kveðinn upp í því máli 19. febrúar 1991 þar sem bótaábyrgð K var staðfest og I dæmdar bætur. Þeim dómi var ekki áfrýjað. Kveður I að síðar hafi komið í ljós að afleiðingar slyssins væru alvarlegri en haldið var og fjárhagslegt tjón sitt meira, en örorka var nú metin 30%. I krafði SA um bætur vegna hins aukna tjóns á grundvelli ábyrgðartryggingar K og byggði á því að þar sem búið væri að viðurkenna greiðsluskyldu K í dómsmáli ætti hún beinan rétt á hendur vátryggingafélagi hans á grundvelli 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga. Bent var á að K sé löngu gjaldþrota og skiptum á búi hans lokið og því eigi I enga möguleika á að stefna honum. Í héraðsdómnum kemur fram að hinar auknu kröfur I byggi á nýju örorkumati, sem hafi verið mótmælt efnislega af SA. Upphæð bóta I vegna slyssins hafi því ekki verið ákveðin að öðru leyti en gert var með dómnum frá 1991 og þar af leiðandi væru skilyrði nefndrar 1. mgr. 95. gr. ekki fyrir hendi. Ekkert réttarsamband væri milli SA og I og bæri að sýkna SA með vísan til aðildarskorts. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóminn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júlí 2000. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.829.400 krónur með nánar tilgreindum vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. mars 1989 til 30. maí 1998, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 2.606.986 krónum. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. maí 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. apríl s.l. hefur Ingibjörg Hákonardóttir, kt. 270560-3859, Melasíðu 8 J, Akureyri, höfðað með stefnu útgefinni 20. mars 1999, á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda greiði henni skaðabætur að upphæð kr. 10.829.400,-, auk 13 % (sic) frá slysdegi þann 29.03.1989 til 11.04.1989, 15 % frá þeim degi til 11.06.1989, 17 % frá þeim degi til 21.07.1989, 12 % frá þeim degi til 01.08.1989, 10 % frá þeim degi til 01.09.1989, 6 % frá þeim degi til 21.09.1989, 8 % frá þeim degi til 21.10.1989, 9 % frá þeim degi til 01.11.1989, 11 % frá þeim degi til 01.01.1990, 9 % frá þeim degi til 21.01.1990, 7 % frá þeim degi til 01.03.1990, 5 % frá þeim degi til 01.04.1990, 3 % frá þeim degi til 01.10.1990, 2,5 % frá þeim degi til 01.01.1991, 3,5 % frá þeim degi til 21.01.1991, 5 % frá þeim degi til 01.06.1991, 6 % frá þeim degi til 01.08.1991, 7 % frá þeim degi til 11.10.1991, 4 % frá þeim degi til 01.11.1991, 3,75 % frá þeim degi til 21.11.1991, 3,5 % frá þeim degi til 01.12.1991, 3 % frá þeim degi til 01.02.1992, 2,5 % frá þeim degi til 11.02.1992, 2% frá þeim degi til 21.03.1992, 1,25 % frá þeim degi til 01.05.1992, 1 % frá þeim degi til 11.08.1993, 1,25 % frá þeim degi til 11.11.1993, 0,5 % frá þeim degi til 01.06.1995, 0,65 % frá þeim degi til 01.10.1996, 0,75 % frá þeim degi til 21.01.1997, 0,9 % frá þeim degi til 01.05.1997 og 1 % frá þeim degi til 30.05.1998 allt samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987, en með dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr. vaxtalaga, sbr. 15. gr. sömu laga, frá 30.05.1998 til greiðsludags. Allt að frádregnum kr. 2.606.986,- miðað við slysdag þann 29.03.1989.
Krefst stefnandi þess jafnframt, að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 29. mars 1990, sbr. 12. gr. vaxtalaga. Þá krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu, auk virðisaukaskatts.
Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnanda jafnframt gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.
Þann 29. mars 1989 slasaðist stefnandi við vinnu sína hjá K. Jónssyni & Co hf. Var hann metin 20 % varanlegur öryrki vegna slyssins, sbr. mat Björns Önundarsonar læknis dags. 8. janúar 1990.
K. Jónsson & Co hf. var með ábyrgðar- og slysatryggingar hjá stefnda á þeim tíma sem slysið varð. Ágreiningur varð um bótaskyldu hlutafélagsins og var rekið mál um þann ágreining fyrir bæjarþingi Akureyrar og var dómur í því máli kveðinn upp þann 19. febrúar 1991. Í þeim dómi var öll sök á slysi stefnanda lögð á K. Jónsson & Co hf. og stefnanda dæmdar bætur. Dóminum var ekki áfrýjað og greiddi stefndi bætur til stefnanda samkvæmt honum.
Kveður stefnandi þegar fram liðu stundir hafi komið í ljós, að afleiðingar slyssins hafi í verulegum mæli verið mun alvarlegri en séð hefði verið fyrir, þegar framangreint örorkumat Björns Önundarsonar hafi farið fram. Í framhaldinu hafi Stefán Yngvason bæklunarlæknir metið svokallaða fjárhagslega örorku stefnanda 75 .
Þáverandi lögmaður stefnanda, Ásmundur S. Jóhannsson hdl., höfðaði þann 10. janúar 1994 mál á hendur stefnda til greiðslu bóta, sem reiknaðar voru út eftir hinu fjárhagslega mati á örorku stefnanda. Var málinu vísað frá með dómi Hæstaréttar, sem kveðinn var upp 30. júní 1994, með þeim rökum, að um væri að ræða nýja málsástæðu, sem hægt hefði verið að hafa uppi í hinu fyrra máli.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar óskaði lögmaður stefnanda eftir því við Björn Önundarson, að hann endurmæti læknisfræðilega örorku stefnanda. Það gerði Björn og var niðurstaða hans m.a. sú, að tímabundin örorka stefnanda hafi verið 100 % í fjórtán mánuði, en 65 % í sex mánuði. Varanlega örorku stefnanda mat hann 30 %.
Kveður stefnandi lögmann sinn hafa tjáð sér í framhaldi af hinu síðastnefnda mati, að hann myndi stefna málinu inn aftur og hafi stefnandi haldið að málið væri í góðum farvegi. Í apríl 1998 hafi lögmaðurinn hins vegar viðurkennt fyrir stefnanda, að málið væri ekki í neinum farvegi og að ekkert hefði verið gert til að koma málinu aftur inn til úrlausnar dómstóla. Þá hafi stefnandi leitað til núverandi lögmanns síns, Þorsteins Hjaltasonar hdl. Í kjölfarið hafi stefnda verið ritað bréf um málið, tryggingafræðingur reiknað út tjón stefnanda og hafi krafa verið gerð á stefnda samkvæmt því mati. Stefndi hafi hins vegar hafnað endurupptöku málsins.
Stefnandi kveður slysið hafa orðið 29. mars 1989, en skaðabótakröfur fyrnist á 10 árum. Fyrningartími byrji að líða þegar fyrst sé hægt að gera upp tjónið, en það sé þó nokkru eftir slysdag. Í allra fyrsta lagi byrji fyrningarfrestur að líða þegar slysið eigi sér stað, í þessu tilfelli 29. mars 1989. Bótakrafa stefnanda hafi því getað fyrnst í fyrsta lagi 29. mars 1999. Hins vegar rofni fyrningarfrestur þegar mál sé höfðað með birtingu stefnu, en það hafi gerst fyrir 29. mars 1999. Krafa stefnanda sé því ekki fyrnd.
Kveður stefnandi tómlæti ekki til að dreifa af hans hálfu í málinu. Stefnandi hafi vitað af kröfu sinni og hafi ráðið til sín lögmann til að sinna málinu. Lögmaðurinn hafi ekki sinnt málinu, en þrátt fyrir það hafi hann fullvissað stefnanda um, að allt væri í góðu lagi. Stefnandi geti ekki átt að þurfa að gjalda fyrir aðgerðarleysi lögmanns sín í málinu.
Stefnandi kveður í málinu um að ræða ábyrgðartryggingu, en vátryggingartaki K. Jónsson & Co. hf. sé hins vegar löngu orðinn gjaldþrota og skiptum á búi hans lokið. Ekki séu til staðar lagaheimildir til að taka upp skiptin til að koma kröfum stefnanda þar að. Stefnandi eigi því enga möguleika á að stefna vátryggingartaka vegna krafna sinna. Hins vegar sé búið að staðreyna í dómsmáli greiðsluskyldu vátryggingafélagsins skv. 91. gr. laga nr. 20, 1954 um vátryggingarsamninga og því leiði af 1. mgr. 95. gr. sömu laga, að stefnandi eigi beinan rétt á hendur stefnda.
Bendir stefnandi á, að í máli því, sem hann hafi höfðað og vísað hafi verið frá dómi með dómi Hæstaréttar 30. júní 1994, hafi stefnda verið stefnt einum eins og í máli þessu og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við það í dómnum eða af stefnda.
Bótaábyrgð stefnda kveður stefnandi vera búið að staðreyna með dómnum sem kveðinn hafi verið upp 19. febrúar 1991.
Stefnandi kveður mál þetta snúast um hvort stefnanda sé rétt að fá greiddar auknar bætur, vegna þess að örorka hans hafi síðar verið metin meiri, bæði hin tímabundna og varanlega, en þegar tjónið hafi verið gert upp. Til þess að nefndar kröfur stefnanda komi til álita, verði stefnandi að leiða raunhæfar líkur að því, að forsendur bótaákvörðunar dómsins hafi brostið eða breyst í svo afdrifaríku tilliti, að ætla megi, að afleiðingar slyssins séu verulega mun alvarlegri en áður varð séð fyrir. Stefnandi kveður Björn Önundarson lækni hafa metið örorku stefnanda 8. janúar 1990 og hafi dómur héraðsdóms dags. 19. febrúar 1991 verið byggður á því mati. Vegna breyttra forsendna hafi Björn metið örorku stefnanda að nýju og í hinu nýja mati dags. 3. ágúst 1994 segi m.a.: „Taka ber fram, að slasaða var metin vegna afleiðinga nefnds slyss af undirrituðum hinn 8. janúar 1990, og þá til 20% varanlegrar örorku. Einkenni hafa á hinn bóginn farið mjög versnandi og því er nú gert endurmat vegna afleiðinga slyss þessa.“. ... „Með tilliti til þess sem að framan greinir þykir því ekki óeðlilegt að endurmeta nú örorku slösuðu þar sem einkenni hafa farið mjög versnandi frá því hið fyrra örorkumat var unnið í janúar 1990 og þá ekki síst í seinni tíð. Með tilliti til þess sem að framan greinir svo og hins að meira en 5 ár eru liðin frá því að áðurnefnt slys átti sér stað þykir tímabundin og varanleg örorka slösuðu hæfilega metin sem hér segir:
Í fjórtán mánuði 100 %
Í sex mánuði 65 %
Varanlega 30 %“
Stefnandi kveður afleiðingar slyssins þannig hafa verið í verulegum mæli mun alvarlegri en séð hafi verið fyrir, þegar örorkumatið frá 8. janúar 1990 hafi farið fram. Stefnandi hafi því ekki fengið fullar bætur eins og hann eigi rétt á. Kveður stefnandi forsendur bótaákvörðunar dómsins frá 19. febrúar 1991 því hafa brostið og séu lagaskilyrði fyrir því að endurupptaka málið til að leiðrétta bætur til stefnanda.
Stefnandi kveður afleiðingar slyssins hafa verið mjög alvarlegar. Hann geti lítið unnið fyrir tekjum vegna þess og hafi vinnutekjur hans verið kr. 746.397,- árið 1996 og 729.543,- árið 1997. Stefnandi hafi eitt barn á framfæri sínu og séu eignir hans óverulegar.
Um lagarök kveðst stefnandi vísa til almennra reglna skaðabótaréttar og til 91. gr. og 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20, 1954 um vátryggingasamninga. Til stuðnings vaxtakröfu sé vísað til ákvæða vaxtalaga nr. 25, 1987, 73., 12. og 15. gr. Varðandi málskostnað vísist til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91, 1991, en um virðisaukaskatt til laga nr. 50, 1988.
Stefndi kveður í málinu vera um að ræða aðildarskort, sem leiði til sýknu. Stefndi sé vátryggingafélag, sem K. Jónsson & Co hf. hafi keypt ábyrgðartryggingu hjá. Í því felist, að tryggingin sé eingöngu keypt í þágu þess fyrirtækis. Eigi tjónþolar enga beina kröfu á hendur félaginu. Hvað varði vísun stefnanda til 95. gr. laga nr. 20, 1954 þá eigi hann enga frekari kröfu á hendur stefnda, þar sem þær bætur sem dæmdar hafi verið af héraðsdómi Akureyrar 19. febrúar 1991, séu að fullu greiddar.
Kveður stefndi kröfu um sýknu einnig byggja á því, að um sé að ræða nýja málsástæðu sem hægt hafi verið að hafa uppi í máli því, sem lokið hafi með dómi Hæstaréttar 30. júní 1994. Stefnandi geti ekki nú byggt kröfu sína vegna sama tjónsatviks (versnun) á nýrri málsástæðu, sem hann hafi getað komið að í nefndu máli.
Þá byggi sýknukrafan jafnframt á því, að með dómi héraðsdóms 19. febrúar 1991 hafi stefnandi fengið fullnaðarbætur vegna tjóns síns. Stefndi kveður stefnanda hafa byggt bótakröfu sína í því máli á örorkumati læknis, sem unnið hafi verið tæpu ári eftir slys stefnanda. Í matinu komi berlega fram, að stefnanda eigi eftir að versna vegna væntanlegra slitbreytinga. Ummæli læknisins hafi því gefið honum fullt tilefni til að vera með fyrirvara við móttöku bótanna, ef hann hygðist hafa uppi frekari kröfugerð síðar vegna slyssins. Þar sem enginn fyrirvari hafi verið gerður í þá veru hafi stefnandi misst frekari bótarétt vegna tómlætis.
Stefndi kveður ósannað að stefnandi hafi hlotið heilsubrest sem hafi í verulegum atriðum orðið annar og meiri en gert hafi verið ráð fyrir þegar honum hafi verið greiddar skaðabætur á grundvelli dómsins frá 1991. Forsendur fyrir því uppgjöri hafi því ekki brostið.
Verði talið að stefnandi eigi rétt til viðbótarskaðabóta kveðst stefndi mótmæla þeirri aðferð sem beitt sé í stefnu, að reikna bótagreiðsluna frá 1991 sem innborgun á heildartjónið. Í tilviki sem þessu beri að reikna viðbótartjónið eitt og sér, þ.e. miðað við 10 % varanlega, læknisfræðilega örorku.
Vöxtum eldri en 4 ára kveðst stefndi mótmæla sem fyrndum.
Þá kveðst stefndi mótmæla einstökum kröfuliðum sem of háum. Bendir stefnda sérstaklega á að ekkert tillit sé tekið til skatt- og eingreiðsluhagræðis, miskabótakrafa sé of há og tímabundið örorkutjón allt greitt.
Álit dómsins:
Mál þetta er til komið vegna ábyrgðartryggingar, sem K. Jónsson & Co hf. keypti hjá stefnda í þágu hlutafélagsins. Hlutafélagið var tekið til gjaldþrotaskipta nokkrum árum eftir slys stefnanda og er skiptum á búi félagsins lokið. Stefnandi hefur því enga möguleika á að gera frekari kröfur á hendur hlutafélaginu.
Það er eðli ábyrgðartryggingar, að hún greiðir vátryggingartaka, sem í þessu tilfelli var K. Jónsson & Co hf., bætur fyrir fjártjón vegna skaðabótakröfu, sem gerð er á hendur honum. Tjónþoli á því að meginstefnu til ekki beinan rétt á vátryggingarfélag ef tjónvaldur er ábyrgðartryggður, sbr. þó 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20, 1954 um vátryggingarsamninga. Ábyrgðartrygging sú, sem hlutafélagið keypti hjá stefnda, var frjáls ábyrgðartrygging og liggur fyrir, að félaginu bar engin skylda til að kaupa greinda tryggingu.
Kveðið var á um bótaábyrgð K. Jónssonar & Co hf. á slysi stefnanda með dómi uppkveðnum á bæjarþingi Akureyrar 19. febrúar 1991. Dómi þessum var ekki áfrýjað og gerði stefndi að fullu upp við stefnanda samkvæmt honum. Málshöfðun stefnanda nú byggir á því, að forsendur að bótaákvörðun dómsins hafi brostið eða þær breyst í svo afdrifaríku tilliti, að ætla megi, að afleiðingar slyssins séu verulega mun alvarlegri en áður var talið og byggt var á í dómnum. Stefndi hefur mótmælt framangreindri málsástæðu stefnanda og kveður ósannað, að forsendur ofangreinds dóms hafi brostið
Samkvæmt áðurnefndri 1. mgr. 95. gr. laga um vátryggingarsamninga, sem tekur til ábyrgðartrygginga, öðlast sá, sem tjón bíður, rétt vátryggðs á hendur vátryggingarfélagi, þegar staðreynt hefur verið, að vátryggður sé skaðabótaskyldur þeim, er tjónið beið og upphæð bótanna hefur verið ákveðin.
Hinar nýju kröfur stefnanda byggja á örorkumati Björns Önundarsonar dags. 3. ágúst 1994 og hefur þeim verið mótmælt efnislega af stefnda eins og fram kemur hér að framan. Hefur upphæð bóta stefnanda vegna slyssins 1989 því ekki verið ákveðin, að öðru leyti en gert var með dómnum frá 1991, en greint skilyrði verður að vera uppfyllt svo tjónþoli öðlist rétt vátryggðs á hendur tryggingarfélaginu á grundvelli 1. mgr. 95. gr. laga um vátryggingarsamninga. Er því ekkert réttarsamband milli stefnda og stefnanda í máli þessu. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda með vísan til aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Dóm þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.
DÓMSORÐ :
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýknað af kröfum stefnanda, Ingibjargar Hákonardóttur.
Málskostnaður fellur niður.