Hæstiréttur íslands

Mál nr. 159/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 18. mars 2011.

Nr. 159/2011.

Ákæruvaldið

(Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars  2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 13. apríl 2011, klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.                     

                                                    Dómsorð:                               

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2011.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði með vísan til 2. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að X, kennitala [...], verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 13. apríl 2011, kl. 16.00

Í greinargerð kemur fram að mál hafi borist ríkissaksóknara 20. desember sl. Með ákæruskjali dagsettu 24. janúar 2011 hafi ákærði verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa mánudaginn 11. október 2010, á göngustíg í [...] í Reykjavík, ráðist með ofbeldi á A, slegið hana ítrekað með hörðu áhaldi í höfuð og tekið hana hálstaki og þrengt að þar til hún missti meðvitund, allt með þeim afleiðingum að hún hafi hlotið 3 ½ cm langan skurð á hnakka hægra megin, djúpan 3 cm langan skurð á enni, brot á nærkjúku hægri vísifingurs, mar á hálsi undir kverkum, mar í handarkrika hægra megin og maráverka á vinstri hendi. Hafi brotið verið heimfært undir 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Málið hafi verið þingfest þann 31. janúar sl. þar sem ákærði hafi neitað sök. Aðalmeðferð hafi verið þann 17. febrúar sl. og málið dómtekið sama dag.

Vísað sé til fyrirliggjandi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-24/2011

Fram kemur að dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 12. nóvember 2010 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. mars 2011. Úrskurðir héraðsdóms hafi tvívegis verið staðfestir af Hæstarétti, sbr. dóma nr. 636/2010 og nr. 680/2010. Úrskurður héraðsdóms frá 4. mars sl. hafi  ekki verið kærður til Hæstaréttar.

Ákærði hafi verið sakfelldur fyrir alvarlegt brot. Með hliðsjón af því og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo standi á sé þess krafist að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti standi, sbr. 2. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008.

Með dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 636/2010 og 680/2010 var fallist á að það brot, sem dómfelldi hefur nú verið sakfelldur fyrir, sé þess eðlis að uppfyllt sé skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með dómi meiri hluta dómenda í héraðsdómi frá því í dag í máli nr. S-24/2011 var honum gert að sæta fangelsi í þrjú ár fyrir brot þetta en til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald hans frá 12. nóvember 2010. Með hliðsjón af þessu og með vísan til 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 er fallist á að dómfelldi sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

X, kennitala [...], skal áfram sæta gæslu­varð­haldi meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 13. apríl 2011, kl. 16.00