Hæstiréttur íslands

Mál nr. 481/2014


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Ábyrgð


                                     

Fimmtudaginn 19. febrúar 2015.

Nr. 481/2014.

Edda Olgeirsdóttir

(Daníel Isebarn Ágústsson hrl.)

gegn

Lánasjóði íslenskra námsmanna

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

Lánasamningur. Ábyrgð.

L höfðaði mál gegn H og E til heimtu skuldar samkvæmt skuldabréfi sem H gaf út til L árið 1998 og E gekk í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Í dómi héraðsdóms voru kröfur L teknar til greina. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar virt væri hlutverk L eins og það væri markað í 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og hafðar væru í huga ástæður þær er lágu að baki ákvörðun E um að gerast sjálfskuldarábyrgðarmaður umrætt sinn, yrði ekki séð að líkur hefðu verið að því leiddar að mat á hæfi H til að standa í skilum með lánið hefði neinu breytt um þá ákvörðun E að gangast í sjálfskuldarábyrgð. Gæti samkvæmt þessu ekki komið til álita að ógilda ábyrgðarskuldbindinguna með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga á þeim grundvelli að ósanngjarnt væri af L að bera ábyrgðina fyrir sig. Þá var talið að L hefði í endanlegri kröfugerð sinni tekið fullt tillit til þeirra greiðslna sem E hafði innt af hendi til L inn á skuld H áður en hún var gjaldfelld. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2014. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er það hlutverk hans að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að miða skuli við að lán sem falla undir ákvæði laganna nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar hans. Samkvæmt 5. mgr. 6. gr. laganna eins og hún hljóðaði fram að því að henni var breytt með 1. gr. laga nr. 78/2009 skyldu námsmenn sem fengju lán úr sjóðnum undirrita skuldabréf við lántöku og leggja fram yfirlýsingu að minnsta kosti eins manns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu allt að tiltekinni hámarksfjárhæð. Í 3. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að lánstími er ótilgreindur en greitt skal af námsláni samkvæmt 8. gr. þar til skuldin er að fullu greidd og í 4. mgr. 7. gr. segir að endurgreiðsla hefjist tveimur árum eftir námslok. Samkvæmt 8. gr. laganna ákvarðast árleg endurgreiðsla í tvennu lagi og er þar annars vegar um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum og hins vegar viðbótargreiðslu sem er háð tekjum lántaka.

Í hinum áfrýjaða dómi er rakið efni skuldabréfs þess er sonur áfrýjanda gaf út til stefnda 30. desember 1998 og áfrýjandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Samkvæmt framburði áfrýjanda fyrir dómi gekkst hún í umrædda sjálfskuldarábyrgð fyrir son sinn að hans ósk svo hann kæmist í nám þar sem hann hafi ekki átt í önnur hús að venda með fjármögnun þess. Þegar virt er hlutverk stefnda eins og það er markað í 1. gr. laga nr. 21/1992 og hafðar eru í huga ástæður þær er lágu að baki ákvörðun áfrýjanda um að gerast sjálfskuldarábyrgðarmaður umrætt sinn verður ekki séð að líkur hafi verið að því leiddar að mat á hæfi lántakans til að standa í skilum með lánið hefði neinu breytt um þá ákvörðun áfrýjanda að gangast í sjálfskuldarábyrgð. Getur samkvæmt þessu ekki komið til álita að ógilda ábyrgðarskuldbindinguna með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 á þeim grundvelli að ósanngjarnt sé af stefnda að bera ábyrgðina fyrir sig. Af gögnum málsins verður ráðið að stefndi hefur í endanlegri kröfugerð sinni tekið fullt tillit til þeirra greiðslna sem áfrýjandi innti af hendi til stefnda inn á skuld lántaka áður en hún var gjaldfelld. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir atvikum er rétt að málskostnaður millum aðilanna falli niður á báðum dómstigum en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað milli áfrýjanda, Eddu Olgeirsdóttur, og stefnda, Lánasjóðs íslenskra námsmanna, en hann fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2014

Mál þetta, sem dómtekið var 28. maí sl., var höfðað af Lánasjóði íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu birtri 25. maí 2013 á hendur Eddu og 8. maí sama ár á hendur Hreini Líndal.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að greiða stefnanda óskipt 3.225.123 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 354.007 krónum frá 1. september 2010 til 1. september 2011, af 589.373 krónum frá 1. september 2011 til 1. mars 2012, af 703.364 krónum frá  þeim degi til 1. september 2012, af  914.885 krónum frá  þeim degi til 17. janúar 2013, en af 3.225.123 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þess er og krafist að stefndu verði dæmd óskipt til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.

Stefnda Edda Olgeirsdóttir, hér eftir nefnd stefnda, krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af kröfu stefnanda, en til vara að krafan verði lækkuð verulega. Stefnda krefst og málskostnaðar að mati dómsins.

II.

Stefndi Hreinn Líndal, hér eftir nefndur stefndi, ritaði hinn 30. desember 2012 undir skuldarbréf til viðurkenningar á skuld sinni við stefnanda. Kemur fram í skuldabréfinu að reiknuð fjárhæð láns eftir hvert misseri skuli greiðast inn á bankareikning lántakanda og að lántaki veiti stefnanda heimild til að færa inn á skuldabréfið við námslok upphæð skuldarinnar miðaða við þágildandi vísitölu neysluverðs. Er innfærð upphæð höfuðstóls skuldabréfsins 1.987.764 krónur og innfærð grunnvísitala 202,8. Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins var krafa samkvæmt þeim bundin lánskjaravísitölu, miðað við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að lánið var tekið, og skyldi hún bera breytilega vexti, sem aldrei yrðu hærri en 3%. Endurgreiðsla láns átti að hefjast tveimur árum eftir námslok og fara fram með árlegum greiðslum, sem ákveðnar yrðu í tvennu lagi. Annars vegar væri föst ársgreiðsla að fjárhæð 52.698 krónur, nema eftirstöðvar lánsins væru lægri, og tæki hún breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs. Skyldi gjalddagi þeirrar greiðslu að jafnaði vera 1. mars ár hvert. Hins vegar væri um að ræða viðbótargreiðslu sem miðaðist við 4,75% af útsvarsstofni næsta árs á undan endurgreiðsluári, sem tæki tilteknum breytingum í samræmi við breytingar á neysluvísitölu. Frá viðbótargreiðslunni skyldi dragast hin fasta greiðsla lánsins og skyldi gjalddagi viðbótargreiðslunnar vera 1. september ár hvert. Í bréfinu sagði að auki meðal annars að lánið yrði gjaldfellt án sérstakrar uppsagnar stæði lántakandi ekki í skilum með greiðslu afborgana og ef mál risi út af skuldabréfinu væri heimilt að reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Lyti málsmeðferðin þá reglum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Til tryggingar endurgreiðslu á höfuðstóli láns, allt að 3.000.000 króna, ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllu kostnaði ef vanskil yrðu, staðfesti stefnda Edda með undirritun sinni hinn 30. desember 1998 að hún tækist á hendur sjálfskuldarábyrgð á umræddu láni. Kemur þar fram að höfuðstóll sjálfskuldarábyrgðarinnar breytist í samræmi við vístölu neysluverðs frá útgáfudegi ábyrgðarinnar.

Fram kemur í stefnu að vegna vanskila allt frá gjalddaga hinn 1. september 2010 hafi skuldin öll verið gjaldfelld samkvæmt heimild í 11. gr. laga nr. 21/1992, með ákvörðun stjórnar stefnanda 17. janúar 2013.

Fram kemur í greinargerð stefndu að stefndi Hreinn hafi flutt erlendis árið 2002. Fljótlega eftir flutningana hafi hann leitað til stefndu og sagst vera í greiðsluvandræðum vegna umrædds láns. Árin 2002-2011 hafi stefnda því greitt stefnanda samtals 871.558,6 krónur vegna lánsins.

III.

Stefnandi vísar eins og fyrr segir til þess að vegna verulegra vanskila, allt frá gjalddaga hinn 1. september 2010, hafi skuldin öll verið gjaldfelld samkvæmt heimild í 11. gr. laga nr. 21/1992, með ákvörðun stjórnar hinn 17. janúar 2013. Kveður hann  nánari sundurliðun kröfunnar vera sem hér segir:

Gjalddagi

Upphæð

01.09.2010

01.09.2011

01.03.2012

01.09.2012

17.01.2013

354.007

235.366

113.991

211.521

2.310.238

Samtals 3.225.123 krónur, sem sé stefnufjárhæð þessa máls. Hafi skuldin ekki fengist greidd, þrátt fyrir innheimtutilraunir, og sé stefnanda nauðsyn að fá dóm fyrir kröfu sinni. Sé málið rekið sem skuldabréfamál eftir ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins.

Sé á því byggt að með áritun sinni á skuldabréfið hafi stefndi skuldbundið sig til að greiða skuldina í samræmi við skilmála skuldabréfsins og að stefnda hafi með áritun sinni á bréfið tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins í samræmi við skilmála þess.

IV.

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína aðallega á því að krafa stefnanda sé röng og með öllu ósönnuð. Framlögð skjöl nægi ekki til að hægt sé að átta sig á þeirri skuld sem stefnandi krefji stefndu um og ekki virðist tekið tillit til allra þeirra innborgana sem stefnda hafi innt af hendi, samtals að fjárhæð 871.558,6  krónur.

Einnig sé á því byggt að stefnandi hafi hvorki framkvæmt greiðslumat á skuldara lánsins, stefnda Hreini, né hafi hann kynnt stefndu slíkt mat. Hafi stefnandi þannig vikist undan skyldum sínu samkvæmt svokölluðu Samkomulagi um notkun sjálfskuldaábyrgða, sem undirritað hafi verið af Páli Péturssyni, þáverandi félagsmálaráðherra og Finni Ingólfssyni, þáverandi viðskiptaráðherra, fyrir hönd stjórnvalda. Hafi samkomulagi þessu verið ætlað að setja meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er sjálfsskuldarábyrgð væri sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu og sé í 3. gr. þess kveðið á um mat á greiðslugetu. Komi þar fram að lánveitendum sé gert skylt að greiðslumeta lántaka þegar óskað sé sjálfskuldarábyrgðar til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu sem nemi meira en einni milljón króna. Þar segi jafnframt að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gangist í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Loks beri lánveitanda að upplýsa ábyrgðarmann ef niðurstaða greiðslumats bendi til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Þá komi fram í 4. gr. samkomulagsins að fjármálafyrirtækjum beri að gefa út upplýsingabæklinga um sjálfskuldarábyrgðir og dreifa með skjölum sem afhent séu ábyrgðarmönnum til undirritunar. Framangreint samkomulag hafi tekið gildi hinn 1. maí 1998 og hefði þannig tekið gildi er stefnda ritaði undir hina umdeildu sjálfskuldarábyrgð. Fyrir liggi að sjálfsskuldarábyrgð stefndu hljóði upp á tryggingu á skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól allt að 3.000.000 króna, ásamt vöxtum, verðtryggðum miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs, og sé hún því hærri en lágmarksfjárhæð 3. gr. samkomulagsins.

Stefnandi sé stjórnvald og sé hann því bundinn af framangreindu samkomulagi, með vísan til undirritunar tilgreindra ráðherra, fyrir hönd stjórnvalda. Meginreglur fjármunaréttar, viðskiptavenja og almennar reglur um vandaða stjórnsýsluhætti leiði til sömu niðurstöðu, enda beri að gera sömu kröfur til stefnanda hvað varði ábyrgðarmenn og gerðar séu til annarra lánastofnanna.

Jafnframt sé á því byggt að stefnandi hafi ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni skv. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, sbr. einnig þær reglur sem gilt hafi fyrir gildistíð laganna, og hafi með því sýnt af sér verulegt tómlæti. Af þeim sökum telji stefnda sig óbundna af undirritun sinni á umrædda sjálfskuldarábyrgð.

Í e-lið 2. gr. laga nr. 32/2009 komi skýrt fram að lögin gildi um stefnanda. Samkvæmt 12. gr. sömu laga gildi 7. gr. um ábyrgðir sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. sömu laga sé með ábyrgðarmönnum átt við einstakling sem gangist persónulega í ábyrgð eða veðsetji tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka, enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 skuli lánveitandi senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu svo fljótt sem kostur sé þegar um sé að ræða vanefndir lántaka. Samkvæmt d-lið skuli lánveitandi með sama hætti tilkynna ábyrgðarmanni eftir hver áramót um stöðu láns sem ábyrgð standi fyrir og senda honum jafnframt yfirlit yfir ábyrgðir. Samkvæmt athugasemdum í greinagerð með frumvarpi til laganna sé meginsjónarmiðið að baki 7. gr. það, að lánveitandi tilkynni ábyrgðarmanni um öll þau atvik sem áhrif geta haft á forsendur ábyrgðar, ábyrgðarmanni í óhag. Ákvæðum 7. gr. er meðal annars ætlað að tryggja að ábyrgðarmaður eigi þess ávallt kost að grípa inn í aðstæður og greiða gjaldfallna afborgun eins og hún standi á gjalddaga, en 4. mgr. kveði á um að lánveitandi geti ekki þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Þá sé forsenda þess að lánveitandi geti innheimt dráttarvexti og vanskilakostnað sú að hann hafi tilkynnt ábyrgðarmanni með hæfilegum fyrirvara um vanefndir lántaka, sbr. 3. mgr. Í greinagerð frumvarpsins sé einnig áréttað að það sé lánveitandi sem beri sönnunarbyrðina fyrir því að tilkynningaskyldu hafi verið gætt, enda standi það honum nær en ábyrgðarmanni. Ljóst sé að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að hann hafi gætt að hinni lögbundnu tilkynningaskyldu sem á honum hvíli samkvæmt ákvæðum a-, c- og d-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.

Loks sé á því byggt að stefnandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um að lánveitandi geti ekki, þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni, gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Liggi fyrir að stefnandi hafi sýnt af sér algert tómlæti í þeim efnum. Skuli í því sambandi á það bent að erindi það er stefnandi segist hafa sent stefndu hinn 18. janúar 2013, og hafi innihaldið tilkynningu um gjaldfellingu, sé að vettugi virðandi. Beri erindið með sér að tilkynnt sé um gjaldfellingu á láni nr. x og sé höfuðstóll þess sagður vera 5.535.361 króna og staða þess 18. janúar 2013 sögð vera 6.186.627 krónur. Sé þar og skorað á stefndu að greiða skuldina án tafar. Ljóst sé að sjálfskuldarábyrgð sú er stefnda hafi undirritað hafi að hámarki numið 3.000.000 króna, verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs, og hafi ábyrgðin verið bundin við lán nr. R-026369. Verði því að telja að umræddri tilkynningu um gjaldfellingu hafi verið svo ábótavant að ekki verði á henni byggt í máli þessu, dómkröfum stefnanda til stuðnings. Það hafi því ekki verið fyrr en með birtingu stefnu í máli þessu sem stefndu hafi í raun orðið ljóst að stefnandi hygðist innheimta kröfu á hendur henni vegna umræddar sjálfsskuldarábyrgðar. Hafi hún því ekki fengið færi á að grípa inn í aðstæður og greiða gjaldfallnar afborganir lánsins, eins og þær hafi staðið á gjalddaga. Að framangreindu virtu telji stefnda því að gjaldfelling stefnanda á umræddu láni R-026369 geti ekki haft gildi gagnvart henni og beri af þeim sökum að fella niður hina umræddu sjálfskuldarábyrgð.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu gerir hún þá kröfu að dómkrafa stefnanda verði lækkuð þar sem ljóst sé að hún sé mun hærri en núvirði umræddrar sjálfskuldarábyrgðar. Þá sé einnig byggt á því til lækkunar að stefnandi hafi í engu tekið tillit til þegar greiddra afborgana stefndu, samtals að fjárhæð 871.558,6 krónur.

Vegna lækkunarkröfunnar sé auk framangreinds vísað til þess að samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 verði ábyrgðarmaður ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða innheimtukostnaði lántaka sem falli til eftir gjalddaga, nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni hafi sannanlega verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Hafi stefnandi á engan hátt sýnt fram á að þetta hafi verið gert.

VI.

Niðurstöður

Stefnandi höfðar mál þetta sem skuldabréfamál á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, á hendur stefnda Hreini Líndal sem skuldara samkvæmt framangreindu skuldabréfi, útgefnu af honum hinn 30. desember 1998, og á hendur stefndu Eddu, sem ritaði þann sama dag undir yfirlýsingu á bréfinu um að hún tækist á hendur sjálfskuldaábyrgð á láninu til tryggingar greiðslu á höfuðstól allt að 3.000.000 króna, ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði vegna vanskila. Var mætt af hálfu beggja stefndu við þingfestingu málsins hinn 11. júní 2013 og fengu þau frest til að skila greinargerð í málinu. Skilaði stefnda greinargerð sinni í næsta þinghaldi en stefndi fékk enn ítrekað fresti til að skila greinargerð, allt þar til við fyrirtöku málsins hinn 3. desember sama ár, en þá féll þingsókn hans niður.

Gegn mótmælum stefnanda getur stefnda einungis komið að þeim vörnum sem kveðið er á um í 118. gr. laga nr. 91/1991, þar á meðal vörnum ef hún á ekki að sanna þær staðhæfingar sem varnir byggjast á eða unnt er að sanna þær með skjölum sem hún leggur fram, sbr. 3. tl. greinarinnar.

Stefnda byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki sýnt með gögnum fram á hver sé raunveruleg fjárhæð þeirrar skuldar sem stefnandi krefji hana um á grundvelli skuldabréfsins og að við útreikning kröfunnar hafi ekki verið tekið tillit til innborgana sem hún hafi innt af hendi til stefnanda samkvæmt framlögðum kvittunum, samtals að fjárhæð 871.558,60 króna, á árabilinu 2002-2011. Eins og áður er fram komið leiðrétti stefnandi, með bókun við upphaf aðalmeðferðar, dómkröfu sína til lækkunar vegna þess að eftirstöðvar lánsins við gjaldfellingu þess, 2.310.238 krónur, hefðu fyrir mistök verið tvífærðar í útreikningum á stöðu lánsins. Nema endanlegar dómkröfur stefnanda því eftir lækkunina 3.225.123 krónum, að viðbættum dráttarvöxtum og kostnaði, og er þar um að ræða höfuðstól vegna gjalddaganna 1. september árin 2010-2012 og 1. mars 2012, að viðbættum hinum gjaldfelldu eftirstöðvum lánsins 17. janúar 2013 að fjárhæð 2.310.238 krónur. Liggja fyrir í málinu afrit af tilkynningum til stefndu um vanskil á framangreindum gjalddögum og um gjaldfellingu lánsins, sem sýna meðal annars gjaldfallinn höfuðstól hverrar afborgunar og höfuðstól gjaldfelldra eftirstöðva lánsins á þeim tíma.

Ljóst er að framlögð kvittun stefndu vegna greiðslu hinn 3. september 2002, að fjárhæð 52.492,60 krónur, lýtur ekki að þeirri skuld sem hér er til umfjöllunar heldur skuld stefnda Hreins Líndal samkvæmt skuldabréfi sem sagt er hafa númerið 0245573, vegna gjalddaga 2. maí og 2. júní 2002. Að öðru leyti sýna kvittanir þessar innborganir stefndu inn á skuldabréf stefnda hjá stefnanda áður en kom til þeirra vanskila sem mál þetta er sprottið af, fyrir utan innborganir hinn 1. mars 2010 að fjárhæð 108.949 krónur og 1. mars 2011 að fjárhæð 109.583 krónur. Verður af gögnum ráðið að framangreindar innborganir hafa verið til uppgjörs á þeim afborgunum lánsins sem féllu í gjalddaga á framangreindum dögum og að stefnandi hafi tekið fullt tillit til þeirra, enda lýtur stefnukrafan ekki að vanskilum á þeim gjalddögum.

Að framangreindu virtu verður ekki talið að stefnda hafi sýnt fram á að stefnandi hafi ekki tekið fullt tillit til innborgana sem hún hefur innt af hendi inn á umrædda skuld við stefnanda og verður þeirri málsástæðu, til grundvallar kröfu hennar um sýknu eða lækkunar á kröfu stefnanda, því hafnað. Þá hefur stefnda ekki leitt neinar líkur að því að útreikningar stefnanda á framangreindum höfuðstólsfjárhæðum, að teknu tilliti til þeirrar tvífærslu á gjaldföllnum höfuðstól sem áður er getið um og leiðrétt var með sérstakri bókun stefnanda, séu á einhvern hátt rangir, sem leiða eigi til lækkunar eða niðurfellingar á dómkröfu stefnanda gagnvart henni. Verður staðhæfingum hennar þar um því hafnað.

Stefnda byggir kröfu sína í öðru lagi á því að stefnandi hafi hvorki framkvæmt greiðslumat vegna stefnda Hreins né kynnt stefndu slík mat, en stefnanda hafi verið þetta skylt samkvæmt Samkomulagi um notkun sjálfskuldarábyrgða, dags. 27. janúar 1998. Aðilar samkomulags þessa voru Samband íslenskra viðskiptabanka, f.h. viðskiptabanka, Samband íslenskra sparisjóða, f.h. sparisjóða, Kreditkort hf., Greiðslumiðlun hf., Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra og félagsmálaráðherra af hálfu stjórnvalda. Þrátt fyrir aðkomu framangreindra ráðherra, fyrir hönd stjórnvalda, að samkomulaginu verður af efni þess ráðið að því var einungis ætlað að taka til framangreindra íslenskra fjármálafyrirtækja en ekki að binda lánasjóði ríkisins, eins og stefnanda. Auk þess er hér til þess að líta að samkomulag þetta var ekki undirritað af menntamálaráðherra og gat því ekki bundið stefnanda sem stjórnvald sem undir það ráðuneyti heyrir. Með hliðsjón af þessu verður ekki fallist á það með stefndu að stefnandi hafi við útgáfu skuldabréfsins verið skuldbundinn til að láta framkvæma greiðslumat fyrir stefnda Hrein og kynna henni það mat. Er þessari málsástæðu stefndu því hafnað. Af því leiðir og að ekkert hald er í þeirri málsástæðu stefndu að víkja beri sjálfskuldarábyrgðinni til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þar sem ósanngjarnt sé, með tilliti til brota stefnanda á samkomulaginu, að bera ábyrgðina fyrir sig og byggja á henni rétt.

Stefnda byggir og á því að stefnandi hafi ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni skv. a- og d-lið 1. mgr. og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Hafi stefnandi með þessu sýnt af sér verulegt tómlæti sem eigi að leiða til þess að hún sé óbundin af ritun sinni undir sjálfsskuldarábyrgðaryfirlýsinguna, sbr. 2. mgr. 7. gr., en að öðrum kosti að gjaldfelling lánsins teljist ólögmæt, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar. Einnig sé ljóst að tilkynningu um gjaldfellingu lánsins hafi verið svo ábótavant að ekki verði á henni byggt. Í málinu liggja fyrir afrit af svokölluðum innheimtuviðvörunum, til beggja stefndu, vegna vanskila þess stefnda á framangreindum gjalddögum, afrit tilkynninga um gjaldfellingu námslánsins sömuleiðis til þeirra beggja og loks afrit yfirlits til stefndu yfir stöðu lánsins í lok árs 2011, dags. 31. janúar 2012, og stöðu þess í lok árs 2012, dags. 6. febrúar 2013. Verður ráðið af bréfunum til stefnda Hreins að þau hafi verið send á heimilisfang stefndu og átt að berast henni. Kannaðist hún við það í skýrslu sinni fyrir dómi að tilkynningar vegna stefnda hefðu borist henni, þar sem hann hefði verið búsettur erlendis. Hefði hún svo reynt að senda þær tilkynningar áfram til stefnda, eftir að hún fékk upplýst um heimilisfang hans í Bretlandi. Spurð hvort hún hefði sjálf fengið sendar umræddar tilkynningar kvaðst hún ekki neita því að svo gæti verið þótt hún myndi ekki beinlínis eftir því. Hún fyndi þær allavega ekki hjá sér. Hún kannaðist þó við að hafa fengið tilkynningu stefnanda um gjaldfellingu skuldarinnar, sem dagsett er 18. janúar 2013, og innheimtuviðvörun, dags. 16. október 2012. Þá kom fram hjá stefndu að hún hefði fengið þær upplýsingar hjá starfsmanni stefnanda að því aðeins gæti stefnandi knúið á um greiðslu lánsins gagnvart skuldara lánsins, stefnda, að hún hætti að greiða af því þannig að lánið yrði gjaldfellt vegna vanskila. Að því virtu sem hér hefur verið rakið verður að telja nægilega liggja fyrir að stefnandi hafi sent stefndu framangreindar tilkynningar og að stefndu hafi verið fullljóst, þrátt fyrir vöntun á númeri lánsins í gjaldfellingartilkynningunni og framangreinda tvífærslu gjaldfellds höfuðstóls, að sú tilkynning laut að hinu umdeilda láni stefnda. Samkvæmt því verður að hafna málsástæðum hennar er að þessu lúta.

Við útgáfu umrædds skuldabréfs tókst stefnda á hendur sjálfskuldarábyrgð „til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól allt að kr. 3.000.000, ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil verða“. Þá kemur fram að höfuðstóll ábyrgðarinnar skuli breytast í samræmi við vísitölu neysluverðs frá útgáfudegi ábyrgðarinnar. Við útfyllingu stefnanda á höfuðstóli lánsins reyndist hann mun lægri en framangreind hámarksfjárhæð ábyrgðarinnar, eða 1.987.764 krónur. Grunnvísitala lánsins var þá 202,8, en var 402,0 í lok árs 2012, rétt fyrir gjaldfellingu lánsins. Samkvæmt því verður að telja að eftirstöðvar höfuðstóls lánsins, að teknu tilliti til áfallinna verðbóta, rúmist innan sjálfskuldarábyrgðar stefndu, að viðbættum vöxtum og kostnaði við innheimtu þess. Verður því ekki á það fallist með stefndu að dómkrafa málsins gagnvart stefndu sæti lækkun þar sem hún rúmist ekki öll innan sjálfsskuldarábyrgðar stefndu.

Að virtu öllu því sem að framan hefur verið rakið verða dómkröfur stefnanda teknar til greina. Verður báðum stefndu því gert að greiða stefnanda óskipt hina umstefndu skuld, að viðbættum dráttarvöxtum eins og fram kemur í dómsorði.

Stefndi Hreinn Líndal og stefnda Edda greiði stefnanda óskipt 500.000 krónur í málskostnað.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm  þennan.

Dómsorð:

Stefndu, Hreinn Líndal Ágústsson og Edda Olgeirsdóttir, greiði stefnanda, Lánasjóði íslenskra námsmanna,  óskipt 3.225.123 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 354.007 krónum frá 1. september 2010 til 1. september 2011, af 589.373 krónum frá 1. september 2011 til 1. mars 2012, af 703.364 krónum frá  þeim degi til 1. september 2012, af  914.885 krónum frá  þeim degi til 17. janúar 2013, en af 3.225.123 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda óskipt 500.000 krónur í málskostnað.