Hæstiréttur íslands

Mál nr. 322/2015

Kemis-heildverslun ehf. (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)
gegn
Margréti R. Dahl-Christensen (Guðmundur B. Ólafsson lögmaður)
og gagnsök

Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Laun
  • Aðilaskipti

Reifun

M krafði KH ehf. um greiðslu vangoldinna launa á tímabilinu frá og með júní 2011 til og með júlí 2012. Hafði F ehf., sem síðar fékk heitið KH ehf., keypt allan rekstur K ehf. í apríl 2012. Talið var að réttindi og skyldur K ehf. samkvæmt ráðningarsambandi M við félagið hefðu færst yfir til KH ehf. á framsalsdegi, þar á meðal vanefndir félagsins á skyldum sínum gagnvart henni fyrir aðilaskiptin, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Þá var ekki talið að KH ehf. hefði fært haldbær rök fyrir því að M hefði unnið að því í lok starfstíma síns hjá K ehf. að koma á samkeppni við félagið og þar með fyrirgert rétti sínum til að gerast starfsmaður KH ehf. Loks var talið sannað að um hefði samist milli hennar og K ehf. að hún fengi greidda tvo tíma dag í fasta yfirvinnu, auk unninnar yfirvinnu. Á hinn bóginn hefði hún hvorki sýnt fram á að hún ætti rétt á launum í uppsagnarfresti í maí, júní og júlí 2012 né að samið hefði verið um að hún skyldi fá greidda dagpeninga og ökutækjastyrk frá félaginu. Var KH ehf. gert að greiða M nánar tilgreinda fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 2015. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 22. júlí 2015. Hún krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 9.404.330 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. júlí 2011 til greiðsludags, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Með kaupsamningi 20. apríl 2012 keypti Fígaró ehf., sem síðar fékk heiti aðaláfrýjanda, allan rekstur Kemis ehf., hverju nafni sem nefndist, þar með talin viðskiptavild, viðskiptasambönd, vörulager, rekstrartæki og lausafé, nafn félagsins, heimasíða, netföng og veffang og allt annað sem rekstrinum tilheyrði, þar með talin sprengiefnageymsla á Hólmsheiði. Samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins er ljóst að með honum fóru fram aðilaskipti á skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, sbr. 4. tölulið 2. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Jafnframt er óumdeilt í málinu að gagnáfrýjandi var starfsmaður aðaláfrýjanda á kaupsamningsdegi. Færðust réttindi og skyldur Kemis ehf. samkvæmt ráðningarsambandi gagnáfrýjanda við félagið því yfir til aðaláfrýjanda á framsalsdegi, þar á meðal vanefndir félagsins á skyldum sínum gagnvart gagnáfrýjanda fyrir aðilaskiptin, sbr. 1. mgr. 3. gr. fyrrgreindra laga, eins og henni var breytt með 2. gr. laga nr. 81/2010. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um að aðaláfrýjandi hafi orðið vinnuveitandi gagnáfrýjanda við aðilaskiptin og þá tekið við skyldum Kemis ehf. gagnvart henni, svo og að ákvæði 5. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 103/2011, eigi hér ekki við. Þá er staðfest sú niðurstaða dómsins að aðaláfrýjandi hafi ekki fært haldbær rök fyrir því að gagnáfrýjandi hafi unnið að því í lok starfstíma síns hjá Kemis ehf. að koma á samkeppni við félagið og þar með fyrirgert rétti sínum til að gerast starfsmaður aðaláfrýjanda. Loks verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að gagnáfrýjandi hafi leitt nægar líkur að því að um hafi samist milli hennar og Kemis ehf. að hún fengi greidda tvo tíma á dag í fasta yfirvinnu, auk unninnar yfirvinnu. Á hinn bóginn hefur gagnáfrýjandi hvorki sýnt fram á að hún eigi rétt á launum í uppsagnarfresti í maí, júní og júlí 2012 né að umsamið hafi verið að hún skyldi fá greidda dagpeninga og ökutækjastyrk frá félaginu.

II

Gagnáfrýjandi skýrði svo frá fyrir héraðsdómi að launaseðlar hafi verið gefnir út mánaðarlega fyrir aðra starfsmenn en sig og eiginmann sinn, en hún hafi gefið út launaseðla fyrir þau „eiginlega ... bara svona eftir- má segja eftir hendinni, því að ég vissi það að við fengjum ekki laun greidd hvort eð væri.“ Hafi launaseðlar þeirra fyrir árið 2011 og „janúar og febrúar“ legið fyrir áður en hún hætti, en þá hafi hún útbúið fyrir starfslok sín. Að virtum þessum framburði gagnáfrýjanda og með hliðsjón af framangreindum óreglulegum greiðslum inn á laun hennar verður að telja að umræddir launaseðlar hafi verið útbúnir skömmu fyrir starfslok hennar. Hefur gagnáfrýjandi ekki sýnt fram á að samist hafi um þau launakjör sem þar koma fram. Verða þeir því ekki lagðir til grundvallar við úrlausn málsins.

Gagnáfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt launaseðil sinn frá mars 2008, eftir að starf hennar breyttist og hún tók við bókhaldi félagsins, þar sem grunnlaun hennar voru tilgreind 357.000 krónur. Miðar gagnáfrýjandi kröfu sína samkvæmt því við kjarasamningsbundnar launahækkanir á þeirri fjárhæð frá og með nóvember 2009 til og með júlí 2012 og nemi hún samkvæmt því að lágmarki 8.377.537 krónum. Þá eru innifalin í þeirri fjárhæð ökutækjastyrkur og dagpeningar, samtals 290.000 krónur, sem koma til frádráttar kröfu gagnáfrýjanda, þar sem ósannað er samkvæmt framansögðu að hún hafi átt rétt á slíkum greiðslum. Jafnframt hefur áður verið komist að þeirri niðurstöðu að gagnáfrýjandi eigi ekki rétt á launum í maí, júní og júlí árið 2012. Samkvæmt þessu nemur krafa gagnáfrýjanda um laun á tímabilinu frá júní 2011 til apríl 2012 samtals 6.793.236 krónum.

Af hálfu aðaláfrýjanda voru lögð fram í héraðsdómi gögn, sem unnin voru af hálfu löggilts endurskoðanda upp úr bókhaldi Kemis ehf., er gagnáfrýjandi færði frá árinu 2008 undir bókhaldslyklinum „ógreidd laun.“ Þar kom fram að hún hafi á tímabilinu frá og með júní 2011 til og með apríl 2012 fengið greiddar samtals 2.571.820 krónur inn á laun sín hjá félaginu með eftirtöldum tíu greiðslum: 145.000 krónur 1. júlí 2011, 250.000 krónur 2. september sama ár, 331.000 krónur 5. sama mánaðar, 200.000 krónur 18. október sama ár, 300.000 krónur 7. nóvember sama ár, 200.000 krónur 29. sama mánaðar, 300.000 krónur 3. janúar 2012, 300.000 krónur 14. febrúar sama ár, 272.910 krónur 13. maí sama ár og aftur sömu fjárhæð sama dag. Staðfesti endurskoðandinn fyrir dómi að hafa unnið þessi gögn upp úr bókhaldinu. Verður því að leggja til grundvallar útreikningi kröfu gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjanda að áðurnefndar greiðslur Kemis ehf. inn á laun hennar samkvæmt bókhaldi félagsins komi til frádráttar kröfu hennar á hendur aðaláfrýjanda. Önnur viðskipti gagnáfrýjanda og fyrrgreinds félags koma ekki til álita í máli þessu, sem rekið er sem vinnulaunamál.

Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til framangreindra innborgana á laun gagnáfrýjanda samkvæmt bókhaldi Kemis ehf., samtals 2.571.820 krónur, og að frádregnum dagpeningum og ökutækjastyrk að fjárhæð 290.000 krónur, er fallist á með gagnáfrýjanda að ógreidd krafa hennar á hendur aðaláfrýjanda nemi 3.931.416 krónum, sem beri vexti eins og dæmdir voru í héraði. 

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir og hefur þá verið tekið tillit til þess að samhliða máli þessu er rekið annað samkynja mál.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Kemis-heildverslun ehf., greiði gagnáfrýjanda, Margréti R. Dahl- Christiansen, 3.931.416 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2015.

                Mál þetta höfðaði Margrét R. Dahl-Christiansen, Iðavöllum, Vogum, með stefnu birtri 28. mars 2014 á hendur Kemis-heildverslun ehf., Breiðhöfða 15, Reykjavík.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 19. desember sl. 

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu á 9.404.330 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 547.248 krónum frá 1. júlí 2011 til 1. ágúst sama ár, af 1.162.195 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 1.777.141 krónu frá þeim degi til 1. október sama ár, af 2.384.193 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 3.173.729 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 3.880.674 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2012, af 4.240.560 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 4.944.893 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 5.643.754 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 6.342.614 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 7.041.475 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 7.194.516 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 7.893.376 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár og af 9.404.331 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Hún krefst þess að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. júlí 2012 en síðan árlega. 

                Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 8.601.177 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 602.485 krónum frá 1. júlí 2011 til 1. ágúst sama ár, af 1.287.352 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 1.972.222 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, af 2.641.503 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 3.292.762 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 3.924.466 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2012, af 4.172.126 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 4.779.376 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 5.381.736 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 5.984.096 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 6.607.539 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 6.685.167 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 7.308.605 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár og af 8.682.236 krónum frá þeim degi til greiðsludags. 

                Hún krefst þess að dráttarvextir leggist við höfuðstól á sama hátt og í aðalkröfu. 

                Stefnandi krefst málskostnaðar bæði í aðal- og varakröfu að mati dómsins.  Hún krefst vaxta af málskostnaði samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir dómsuppkvaðningu til greiðsludags.  Loks krefst hún virðisaukaskatts af málskostnaði. 

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar.  Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að mati dómsins. 

                Stefnandi var starfsmaður Kemis ehf.  Ágreiningur málsins snýst um það hvort laun stefnanda hafi verið að fullu greidd og hvort hún eigi rétt á launum í uppsagnarfresti frá 1. maí 2012 að telja.  Inn í þetta blandast einnig ágreiningur um hvaða laun hafi verið umsamin.  Samhliða þessu máli hefur verið rekið sambærilegt mál Péturs Hlöðverssonar, eiginmanns stefnanda, á hendur stefnda.  Voru skýrslur teknar samtímis í báðum málunum, en fyrir dóminn komu þau hjónin, Elías Kristjánsson, sem var framkvæmdastjóri og eigandi Kemis ehf., Hörður Hermannsson, eigandi stefnda, Theodór Sigurbergsson endurskoðandi og Helgi Tómas Gunnarsson, sem fyrrum var starfsmaður Kemis ehf. 

 

                Rétt er að hefja atvikalýsingu á því að skýra aðild stefnda að málinu.  Hana byggir stefnandi á lögum nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.  Hún var starfsmaður Kemis ehf.  Með samningi dags. 20. apríl 2012 keypti stefndi, sem þá hét Fígaró ehf., allan rekstur Kemis. 

                Í samningnum segir að allur rekstur Kemis sé seldur stefnda.  Stefndi andmælir því að hér hafi orðið aðilaskipti í skilningi laga nr. 72/2002.  Byggir hann það einkum á því að hann hafi ekki hafið starfsemi þá sem hann tók við af Kemis ehf. fyrr en í júlímánuði 2012, þegar hann fékk leyfi til að versla með sprengiefni o.fl.  Þá telur hann að stefnandi hafi verið hætt störfum þegar aðilaskiptin áttu sér stað.  Verður nánar fjallað um þetta og aðrar málsástæður stefnda í þessu sambandi síðar. 

                Stefnandi hóf störf hjá Kemis ehf. í október 2003 og starfaði hjá fyrirtækinu til loka apríl 2012.  Hún vann við bókhald og almenn skrifstofustörf allan sinn starfstíma og var undir lokin eini starfsmaðurinn á skrifstofu auk framkvæmdastjóra, sem var eigandi fyrirtækisins.  Sá hún alla tíð um útreikning launa og launabókhald.  Á árinu 2009 jukust starfsskyldur hennar þegar fjármálastjóri hætti störfum og stefnandi tók við verkefnum hans. 

                Fram kom í skýrslutökum að síðustu árin hafi rekstur Kemis ehf. dregist mjög saman.  Var svo komið í árslok 2011 að framkvæmdastjórinn, Elías Kristjánsson, íhugaði að hætta rekstri fyrirtækisins.  Sagði hann öllum starfsmönnum upp fyrir áramótin.  Er það óumdeilt.  Stefnandi hætti hins vegar ekki störfum í lok mars 2012 eins og uppsögnin miðaði við, heldur starfaði hún áfram til aprílloka.  Stefnandi heldur því fram að hún hafi verið beðin um að halda áfram starfi sínu.  Sama kom fram í skýrslu eiginmanns hennar, Péturs Hlöðverssonar.  Sagði stefnandi að hún hefði samið um þetta við Sigurð Gíslason, hann hefði beðið þau bæði að vera áfram.  Þetta hefði ekki verið framlenging uppsagnarfrests eða tímabundin ráðning.  Sigurður Gíslason kom ekki fyrir dóm, en hann mun vera tengdafaðir Harðar Hermannssonar, forsvarsmanns stefnda.  Fyrirtæki sem hann stýrir mun hafa keypt fasteign Kemis ehf. og leigt stefnda. 

                Hörður Hermannsson, eigandi stefnda, bar á annan veg.  Hann sagði að hann hefði sjálfur samið við stefnanda og eiginmann hennar um að þau ynnu í einn eða tvo mánuði í viðbót.  Elías Kristjánsson kvaðst hafa verið viðstaddur þegar Hörður samdi við stefnanda um að hún yrði tvo mánuði í viðbót. 

                Stefnandi og eigimaður hennar fóru í leyfi í lok apríl.  Þau komu ekki til starfa aftur.  Annar starfsmaður hafði tekið við öllum verkefnum stefnanda og aðgangi þeirra beggja að húsnæðinu og tölvuaðgangi hafði verið lokað.  Segjast þau hafa fundið að þau væru ekki velkomin lengur, þau hafi mætt óskemmtilegu viðmóti.  Þau hafi heyrt að sagt hefði verið að þau væru hætt störfum.  Hörður Hermannsson kvaðst ekki hafa viljað fá þau aftur til starfa.  Lokað hefði verið á allan aðgang þeirra að fyrirtækinu.  Það hefði komið í ljós að ekki var allt með felldu.  Allar upplýsingar um fjárhagsstöðu fyrirtækisins hefðu verið rangar.  Kvaðst hann telja að stefnandi hefði falið ítrekunarbréf frá innheimtumanni ríkissjóðs. 

                Stefnandi kvaðst hafa verið atvinnulaus frá því að hún hætti hjá Kemis.  Iðavellir ehf. hafi ekki verið með neina starfsemi á árinu 2012.  Hún kvaðst ekki hafa verið að stela viðskiptum af Kemis. 

                Stefnandi segir að laun hennar hafi ekki verið greidd að fullu á árinu 2011 vegna erfiðleika í rekstri félagsins.  Hafi safnast upp skuld við hana.  Þá hafi hún og eiginmaður hennar einnig greitt reikninga fyrir félagið úr eigin vasa.  Eftir að reksturinn hafði verið seldur stefnda hafi kröfu hennar verið hafnað af fyrri eigendum Kemis og stefnda.  Hafi þeir sagt að laun samkvæmt útgefnum launaseðlum væru of há, ekki hefði verið samið um svo há laun.  Hafi stefndi útbúið nýja launaseðla og sent skattyfirvöldum.  Þeir hafi sýnt lægri laun en hinir fyrri.  Þetta hafi verið gert án samráðs við hana. 

                Stefnandi reiknar sér tvo yfirvinnutíma á dag, óunna.  Bæði hún og eiginmaður hennar báru að samið hefði verið um tvo óunna yfirvinnutíma á dag, unnin yfirvinna hefði verið greidd til viðbótar.  Elías Kristjánsson sagði á hinn bóginn að ekki hefði verið greidd óunnin yfirvinna.  Leiddur var sem vitni Helgi Tómas Gunnarsson, en hann vann hjá Kemis ehf. á árunum 2006 til 2008.  Hann bar að sér hefðu verið greiddir tveir óunnir yfirvinnutímar á dag.  Stefnandi sagði að skýringin á því að henni voru greiddir dagpeningar hafi verið sú að þessi tilhögun hafi sparað Kemis peninga, það hafi verið ódýrara að greiða henni dagpeninga heldur en laun. 

                Í greinargerð stefnda er stuttlega lýst aðdragandanum að því sem hann kallar „... ákvörðun um að kaupa það sem eftir stóð af lausafé félagsins og leita eftir að endurvekja viðskipti við birgja félagsins sem höfðu að mestu lagst af“.  Komið hafi í ljós við skoðun endurskoðanda að utanumhaldi í fjármálum fyrirtækisins hafi verið verulega ábótavant.  Launaseðlar hafi ekki verið gerðir mánaðarlega og skilagreinum ekki verið skilað.  Þá hafi komið í ljós að laun hefðu hækkað án þess að hækkunin hefði verið borin undir Elías Kristjánsson.  Þrátt fyrir hækkun á launaseðlum hefðu laun ekki verið greidd í samræmi við hækkunina.  Laun hafi verið greidd stefnanda óreglulega og því hafi verið ómögulegt að sjá hvaða laun hefðu verið greidd.  Launagreiðslur hafi verið á hendi stefnanda. 

                Vegna þessa, sem stefndi kallar rangfærslur, hafi endurskoðandi verið fenginn til að fara yfir launaseðlana og leiðrétta fyrir tímabilið frá 1. janúar 2011 til 30. apríl 212.  Hafi þá verið byggt á þeim launum sem framkvæmdastjóri hefði samið um við stefnanda.  Leiðréttar skilagreinar hafi verið sendar til innheimtumanns ríkissjóðs, lífeyrissjóða og stéttarfélags. 

                Stefndi segir að skoðun á rekstrargrundvelli Kemis hafi sýnt að félagið hafi verið ógjaldfært.  Samið hafi verið um kaup á lausafé Kemis þann 20. apríl.  Samhliða hafi félag eigu aðila sem séu tengdir eigendum stefnda keypt fasteignina að Breiðhöfða 15 af Kemis. 

                Aðalkrafa stefnanda byggir á launaseðlum sem hún útbjó er hún starfaði hjá Kemis.  Krafan sundurliðast svo: 

 

                Varakrafa stefnanda er miðuð við launahækkanir samkvæmt kjarasamningi og grunnlaun á árinu 2008 og sundurliðast svo: 

 

                Stefndi hefur eins og áður segir aðrar hugmyndir um laun stefnanda.  Hann sundurliðar í greinargerð sinni laun og launagreiðslur til stefnanda:

                Stefndi telur samkvæmt þessu að hann hafi ofgreitt stefnanda. 

Laun

Orlofs- og des.-uppbót

Heildar-laun

Stað-greiðsla

Lífeyris-sjóður, séreigna-sjóður og félagsgjald

Inn-borgun

Samtals

jún.11

372.173

20.300

392.473

98.067

26.265

145.000

123.141

júl.11

372.173

 

372.173

90.394

24.935

250.000

6.844

ágú.11

372.173

 

372.173

90.394

24.935

331.000

-74.156

sep.11

372.173

 

372.173

90.394

24.935

200.000

56.844

okt.11

372.173

 

372.173

90.394

24.935

612.398

-355.554

nóv.11

372.173

 

372.173

90.394

24.935

300.000

-43.156

des.11

372.173

70.400

442.573

126.955

29.652

200.000

85.966

jan.12

372.173

 

372.173

87.575

24.935

300.000

-40.337

feb.12

385.199

 

385.199

92.502

25.808

300.000

-33.111

mar.12

385.199

 

385.199

92.502

25.808

272.910

-6.021

apr.12

385.199

 

385.199

92.502

25.808

272.910

-6.021

-285.561

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi kveðst eiga launakröfu og kröfu um laun í uppsagnarfresti á hendur stefnda.  Hún vísar til laga nr. 72/2002 um aðild stefnda, sem hafi tekið yfir rekstur Kemis ehf.  Telur hún að öll réttindi og skyldur í ráðningarsambandi hennar hafi flust yfir á stefnda, þar á meðal allar vanefndir Kemis ehf. 

                Stefnandi kveðst hafa samið um ákveðin kjör sem hafi tekið breytingum með samþykki framkvæmdastjóra og eiganda fyrirtækisins.  Hún vísar til launaseðla sem gefnir voru út.  Hún byggir á því að samið hafi verið um fasta yfirvinnu sem allir starfsmenn hafi fengið, til viðbótar við laun fyrir unna tíma.  Þá hafi verið greiddir dagpeningar og ökutækjastyrkur, sem ekki hafi verið ger.. upp eins go fram komi á launaseðlum. 

                Stefnandi segir að Elías Kristjánsson hafi aldrei gert athugasemdir við laun eða launaútreikning.  Hann hafi staðfest ársreikning félagsins sem hafi byggt m.a. á launabókhaldi fyrirtækisins og skuldastöðu sem þar hefði verið skráð.  Það hafi fyrst verið er unnið var að sölu fyrirtækisins að neitað var að gera upp launaskuldina og launaseðlum verið breytt. 

                Stefnandi vísar til kjarasamnings um gjalddaga launa á fyrsta degi næsta mánaðar.  Þá vísar hann til 8. gr. orlofslaga um greiðslu áunninna orlofslauna við lok ráðningartíma.  Þá beri og að greiða áunnið hlutfall af orlofs- og desemberuppbót samkvæmt kjarasamningi. 

                Stefnandi segir að greitt hafi veirð inn á kröfuna í desember 2011, 417.459 krónur, og 545.820 krónur í maí 2012. 

                Stefnandi krefst 30 daga orlofs vegna orlofsársins 2011-2012 og 7,5 daga vegna orlofsársins 2012-2013. 

                Sundurliðun kröfunnar kemur fram hér að framan í umfjöllun um málsatvik.  Aðalkrafa nemur samtals 9.404.331 krónum.  Dráttarvaxta er krafist frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir launatímabil. 

                Í varakröfu er byggt á upphaflegum grunnlaunum sem hafi verið 357.000 krónur á árinu 2008 og þessum breytingum: 

 

                Febrúar 2008                       5,5% hækkun                                      376.635

                Nóvember 2009  3,5% hækkun                                      389.817

                Júní 2010                             2,5% hækkun                                      399.563

                Júní 2011                             4,25% hækkun                    416.544

                Febrúar 2012                       3,5% hækkun                                      431.123

 

                Varakrafan er sundurliðuð að framan, en hún er samtals að fjárhæð 8.682.235 krónur. 

                Stefnandi vísar til laga nr. 28/1930, orlofslaga nr. 30/1987, laga nur 72/2002 og meginreglna kröfuréttar og vinnuréttar og kjarasamninga VR við vinnuveitendur. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

i

                Í fyrsta lagi telur stefndi sig ekki geta borið ábyrgð á vanefndum Kemis ehf., nú S13 ehf. sem nú er til gjaldþrotaskipta.  Ráðningu stefnanda hafi verið slitið fyrir aðilaskiptin eða í síðasta lagi í tengslum við þau, auk þess sem stefnandi hafi ákveðið að starfa ekki hjá stefnda heldur hefja eigin rekstur í samkeppni við stefnda. 

                Það sé skilyrði þess að réttindi og skyldur færist milli aðila við aðilaskipti að ráðningarsamningur sé enn í gildi.  Ráðningarsamningi stefnanda hafi verið slitið áður en aðilaskiptin urðu.  Stefnandi hafi hætt störfum 30. apríl 2012.  Aðilaskipti að fyrirtækinu hafi í fyrsta lagi orðið í maí 2012, en stefndi kveðst byggja á því að aðilaskipti að rekstrinum hafi ekki orðið fyrr en þann 11. júlí 2012, þegar hann fékk leyfi til þess að versla með sprengiefni og hvellhettur. 

                Stefndi byggir á því að málatilbúnaður stefnanda um að hún hafi tekið starf hjá stefnda, eða hafi átt rétt til þess að fá starf hjá stefnda, ásamt öðrum starfsmanni sem er eiginmaður hennar, fari gegn háttsemi þeirra í aðdraganda og kjölfar starfsloka.  Þau hafi unnið að því að koma á fót sjálfstæðum atvinnurekstri í samkeppni við Kemis á þeim tíma sem þau voru að ljúka störfum hjá fyrirtækinu.  Þetta staðfesti það samkomulag að hún léti af störfum hjá Kemis og tæki ekki starf hjá stefnda.  Stefndi hefur lagt fram afrit tölvupóstsamskipta stefnanda við einn af birgjum Kemis, dags. 9. júlí 2012.  Þá reki stefnandi ásamt eiginmanni sínum fyrirtækið Iðavelli, en á heimasíðu þess félags sé skrá um alla fyrri birgja Kemis. 

                Stefndi vísar til yfirlýsingar endurskoðanda félagsins sem sýni að stefnandi hafi unnið að því að eyðileggja viðskiptasambönd Kemis.  Þetta hafi verið alvarlegt brot gegn trúnaðarskyldum hennar og samrýmist ekki þeirri málsástæðu hennar að hún hafi orðið eða ætlað að verða starfsmaður stefnda.  Með háttsemi sinni hafi hún fyrirgert hugsanlegum rétti til þess að ráðningarsamningur hennar yrði tekinn yfir af stefnda. 

                Stefndi byggir á því að stefnandi hafi sem gjaldkeri og bókari brotið mjög alvarlega gegn trúnaðarskyldum sínum og það leiði til sömu niðurstöðu.  Færsla launa hafi ekki verið í samræmi við það sem um hafi samist.  Hún hafi einnig lýst því yfir á fundi hinn 15. febrúar 2012 að engar útistandandi skuldir væru innheimtanlegar, þrátt fyrir að útskrifaðir og óútskrifaðir reikningar hafi numið 80 milljónum króna.  Enn fremur vísar stefndi til yfirlýsingar endurskoðanda félagsins  þar sem segi:  „nánast allar þær upplýsingar sem komu frá [stefnanda] og maka hennar voru vísvitandi rangar.  Bæði eignir og skuldir voru vantaldar og á sama tíma voru sömu einstaklingar að skemma viðskiptasambönd félagsins sér og félagi sínu til hagsbóta“. 

ii

                Í öðru lagi byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki átt neina launakröfu á hendur Kemis ehf.  Ekki hafi verið samið um að hún fengi þau laun sem hún krefjist. 

                Stefndi segir að stefnandi hafi ekki fengið greidd full laun á tímabilinu, en hún hafi sjálf séð um útborgun launa.  Hún hafi þess í stað fært launakröfu sína sem skuld félagsins.  Þegar framkvæmdastjóri félagsins hafi komist á snoðir um hækkunina hafi hann fengið endurskoðanda hjá Grant Thornton til að leiðrétta rangfærslurnar.  Hafi þá verið tekið mið af þeim kjörum sem samið hafði verið um við stefnanda og að stefnandi hafi átt rétt til launa til loka aprílmánaðar.  Þegar dregnar hafi verið frá þær greiðslur sem greiddar hafi verið til innheimtumanns ríkissjóðs og laun sem stefnanda hafi verið greidd, megi sjá að stefndi hafi ekki vanefnt, heldur hafi stefnandi fengið of mikið greitt.  Í greinargerð stefnda er sundurliðun á þessum greiðslum og er niðurstaða stefnda sú að hann hafi ofgreitt 285.561 krónu.  Því beri að sýkna hann af launakröfu stefnanda. 

iii

                Í þriðja lagi byggir stefndi á því að ekki hafi átt sér stað aðilaskipti í skilningi laga nr. 72/2002.  Samkvæmt 4. tl. 2. gr. laganna séu aðilaskipt samkvæmt lögunum talin aðilaskipti þar sem efnahagsleg eining haldi einkennum sínum, þ.e. sem skipuleg heild verðmæta sem notuð verði í efnahagslegum tilgangi.  Líta beri til þess hvers konar fyrirtæki sé um að ræða, hvort áþreifanleg verðmæti eins og fasteignir eða lausafé, séu framseld, hvert sé verðmæti óhlutbundinna verðmæta, hvort meirihluti starfsmanna flytjist til nýja fyrirtækisins og hvort framsalshafi haldi viðskiptavinum framseljanda.  Sá tími sem rekstur fyrirtækis liggur niðri þar til reksturinn hefst að nýju getur einnig haft áhrif á þetta mat, svo og að hve miklu leyti reksturinn er sambærilegur fyrir og eftir aðilaskiptin. 

                Stefndi hafi keypt allan rekstur Kemis ehf., þ.m.t. viðskiptavild, viðskiptasambönd, vörulager, rekstrartæki og lausafé, nafn félagsins, heimasíðu, netföng og veffang og sprengiefnageymslu á Hólmsheiði.  Hann hafi ekki keypt fasteignina að Breiðhöfða 15 þar sem meginrekstur fyrirtækisins var.  Þótt viðskiptavild hafi verið keypt hafi flest viðskiptasambönd Kemis ehf. verið ónýt þegar kaupin fóru fram.  Engir starfsmenn hafi flust yfir til stefnda. 

                Stefndi kveðst hafa þurft að vinna upp traust á markaðnum til að fá viðskipti, félagið hafi í raun verið á upphafsreit.  Reksturinn hafi ekki verið sambærilegur fyrir og eftir hin ætluðu aðilaskipti.  Þá hafi starfsemi Kemis ehf. í raun lokið í desember 2011, en hann hafi ekki getað hafi starfsemi fyrr en hann fékk tilskilin leyfi þann 11. júlí 2012.  Reksturinn hafi því legið niðri í rúmlega hálft ár. 

                Af þessu telur stefndi ljóst að ekki hafi farið fram aðilaskipti að rekstri í skilningi laga nr. 72/2002. 

 

iv

                Loks hafi réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi ekki færst yfir til stefnda þar sem jafna megi stöðu Kemis ehf. við það að félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. 

                Stefnandi vill skýra 5. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002 rúmt þar sem Kemis ehf., síðar S13, hafi verið ógjaldfært er salan fór fram og verið tekið til gjaldþrotaskipta skömmu síðar.  Því eigi ekki að leggja á hann ábyrgð á kröfum sem ella hefðu fengist greiddar að mestu úr ábyrgðarsjóði launa.  Lögum nr. 72/2002 hafi ekki verið ætlað að taka til þeirrar aðstöðu sem sé í þessu máli. 

                Verði ekki á þetta fallist byggir stefndi á því að hann ábyrgist aðeins þá greiðslu sem ekki hefði fengist greidd úr þrotabúi S13 og að því frágengnu úr ábyrgðarsjóði launa.  Nægar eignir séu í búinu til að greiða kröfu stefnanda.  Stefnandi beri áhættuna og tjón af því að hann fylgdi ekki eftir kröfu sinni gagnvart þrotabúinu og ábyrgðarsjóði launa. 

v

                Varakrafa stefnda byggist á því að stefnandi eigi ekki rétt á greiðslu yfirvinnu, orlofs af yfirvinnu, ökutækjastyrks og dagpeninga.  Þessir liðir séu ekki í samræmi við samning stefnanda og Kemis.  Engar skýringar séu gefnar á yfirvinnu og fastri yfirvinnu.  Þá sé reiknað með dagpeningum þótt ekkert liggi fyrir um ferðalög stefnanda erlendis á vegum Kemis.  Þá sé ósannað að samið hafi verið um ökutækjastyrk.  Telur stefndi að lækka verði kröfu stefnanda sem nemi þessum liðum. 

                Þá segir stefndi að stefnandi taki aðeins tillit til innborgana að fjárhæð 963.279 krónur.  Þær hafi numið 3.184.218 krónum á þessu tímabili.  Telur hann að allar innborganir eigi að koma til frádráttar.  Þá eigi að draga frá staðgreiðslu opinberra gjalda, iðgjöld til lífeyrissjóða og félagsgjöld.  Sundurliðar hann þessar greiðslur í greinargerð sinni, en á tímabilinu frá júní 2011 til apríl 2012 nam staðgreiðsla opinberra gjalda 1.042.073 krónum og iðgjöld og félagsgjöld 282.951 krónu, auk þess sem hann hafi greitt samtals 3.184.218 krónur. 

                Þá byggir stefndi á því að stefnandi eigi ekki rétt til launa í maí, júní og júlí eins og hún krefjist.  Henni hafi verið sagt upp og hún starfað út uppsagnarfrestinn.  Í þessu sambandi skoraði stefndi á stefnanda að leggja fram skattframtal sitt fyrir árið 2012.  Draga yrði frá kröfu vegna þessa tímabils allar launagreiðslur sem stefnandi kunni að hafa fengið frá öðrum á sama tímabili. 

                Stefndi vísar til laga nr. 72/2002, tilskipunar 77/187/EBE, almennra reglna samninga- og kröfuréttar, meginreglu um trúnaðarskyldu starfsmanna í ráðningarsamningi, laga nr. 21/1991 og laga nr. 88/2003 um ábyrgðarsjóð launa. 

                Niðurstaða

                Rétt er að leysa fyrst úr því hvaða laun stefnandi hafi átt að fá í starfi sínu hjá Kemis ehf.  Aðilar gefa upp þrjá valkosti.  Stefnandi gerir aðalkröfu þar sem laun hennar hækkuðu umtalsvert í október 2011.  Hún gerir varakröfu þar sem hún miðar við laun sem henni hafi verið greidd á tilteknum tíma og bætir síðan við almennar launahækkanir samkvæmt kjarasamningi VR.  Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi haft tiltekin laun, lægri en hún heldur fram sjálf, en hann hefur ekki annað fyrir sér en orð Elíasar Kristjánssonar, forsvarsmanns Kemis ehf.  Útreikningar endurskoðanda á launum hennar byggjast á þessum upplýsingum.  Útreikningurinn getur ekki styrkt sönnunargildi þessara upplýsinga. 

                Vitni hafa ekki verið leidd um þetta atriði og gögn eru fátækleg.  Báðir aðilar hafa útbúið launaseðla miðað við kröfur sínar.  Þegar sönnunarstaðan er metin hallar á stefnda.  Hann verður að bera hallann af því að hafa ekki gert skriflegan samning við starfsmann sinn þar sem launakjör væru ákveðin.  Á hinn bóginn hefur stefnandi ekki sannað nægilega að samið hafi verið um verulega launahækkun í október 2011.  Stefndi hefur ekki hnekkt þeirri tölu sem hún tilgreinir sem laun sín í reifun á varakröfu.  Þá má fallast á útreikning á launahækkunum, en þeim hefur stefndi ekki mótmælt. 

                Stefnandi heldur því fram að hún hafi samið um tvo óunna yfirvinnutíma á dag.  Þessu mótmælir stefndi og segir Elías Kristjánsson að ekki hafi verið samið um óunna yfirvinnu.  Í samræmi við framburð stefnanda er framburður eiginmanns hennar, sem rekur nú sambærilegt mál á hendur stefnda.  Þá kom fram í skýrslu vitnisins Helga Tómasar Gunnarssonar að greiddir hefðu verið tveir óunnir yfirvinnutímar hjá fyrirtækinu.  Að þessum framburði virtum verður að telja sannað að stefanandi hafi átt að fá greidda tvo yfirvinnutíma á dag, til viðbótar við greiðslur fyrir unna tíma. 

                Stefnandi hefur sýnt fram á að ýmsar greiðslur sem stefndi telur að hafi verið launagreiðslur til hennar voru endurgreiðslur til hennar vegna greiðslna sem hún hafði innt af hendi fyrir stefnda.  Niðurstaðan um yfirvinnutímana leiðir einnig til þess að líta verður á fullyrðingar stefnanda um önnur atriði til útreiknings launanna sem líklegri en fullyrðingar stefnda um hið gagnstæða.  Þá hefur hún einnig skýrt hvers vegna henni voru reiknaðir dagpeningar, en Elías Kristjánsson var ekki spurður um þetta fyrir dómi. 

                Stefnandi var ráðin til starfa hjá Kemis ehf. og hafði ráðningu ekki verið slitið þann 20. apríl 2012 þegar stefndi keypti allan rekstur Kemis.  Ráðningarsambandið var enn til staðar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 72/2002.  Stefndi varð vinnuveitandi stefnanda sama dag og hann keypti rekstur Kemis.  Engu skiptir í þessu sambandi hvenær stefndi fékk leyfi til að versla með sprengiefni og hvellhettur, það er ekki forsenda þess að hann geti ráðið starfsmenn.  Þá keypti hann reksturinn samkvæmt skýrum ákvæðum í samningi og getur ekki borið fyrir sig að verðmætin sem hann fékk hafi verið lítils eða einskis virði.  Þá hafði Kemis ehf. ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta þegar aðilaskiptin urðu og því getur stefndi ekki byggt á 5. mgr. 3. gr. áðurnefndra laga.  Ákvæðið á ekki við þótt fyrirtæki sé ógjaldfært.  Þar sem stefndi tók á sig skyldur Kemis ehf. gagnvart stefnanda er hann keypti reksturinn, getur hann ekki krafist lækkunar vegna þess að hún hafi ekki lýst kröfum í þrotabú Kemis ehf. 

                Fullyrðingar í greinargerð stefnda um að stefnandi hafi ásamt eiginmanni sínum unnið að því að koma á fót starfsemi í samkeppni við Kemis eru ekki studdar haldbærum gögnum.  Aðgerðir hennar og skráningar á heimasíðu fyrirtækisins Iðavalla eftir að hún hætti störfum geta ekki komið að haldi.  Þá er í gögnum málsins að finna ýmsar fullyrðingar Elíasar Kristjánssonar um misgjörðir stefnanda og eiginmanns hennar.  Málið hefur að litlu leyti verið flutt um þessi atriði og tilraun hefur vart verið gerð til að sanna nokkuð af því sem fullyrt er.  Loks í skýrslu sinni fyrir dómi sagði Elías Kristjánsson að á tímabili hefði nafngreindur maður verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins, en að stefnandi hefði ekki leyft honum að sjá launaseðla.  Frásögn þessi er með nokkrum ólíkindablæ og er ekki unnt að draga af þeim ályktanir sem máli skipta um niðurstöðu málsins. 

                Í bréfi endurskoðanda, dags. í nóvember 2012, sem vann fyrir aðila við söluna á rekstrinum kemur fram að ágreiningur hafi risið milli stefnda og seljandans.  Er þar einnig að finna ýmsar fullyrðingar um misgjörðir stefnanda og eiginmanns hennar.  Ekki hefur heldur verið gerð tilraun til að styðja þessar fullyrðingar haldbærum gögnum og er ekki unnt að líta til þeirra við niðurstöðu málsins. 

                Stefnandi krefst launa í þrjá mánuði frá lokum apríl 2012 að telja, en hún telur að sér hafi þá verið sagt upp störfum.  Stefndi byggir á því að samið hafi verið um framlengingu uppsagnarfrests, eða tímabundna ráðningu.  Þegar þetta er metið verður að horfa til þess að stefnanda var ekki sagt upp störfum með beinum hætti í lok apríl.  Hún fór í leyfi að eigin sögn, en kom ekki aftur til starfa.  Gögn málsins styðja þá fullyrðingu hennar að hún hafi verið óvelkomin í fyrirtækið þegar hér var komið sögu, en ekki er hægt að draga þá ályktun að hún hafi bókstaflega verið hrakin á brott.   Þá er ósannað að Sigurður Gíslason hafi haft umboð til að ráða stefnanda til starfa hjá stefnda.  Verður að byggja niðurstöðu á því að stefnandi hafi í raun hætt störfum að eigin frumkvæði í lok apríl og eigi ekki rétt á launum lengur en til þess tíma. 

                Eins og að framan er getið verður að dæma stefnanda laun reiknuð í samræmi við varakröfu hennar.  Leggja verður til grundvallar fullyrðingar hennar um ökutækjastyrk og dagpeninga, en eins og áður segir verður stefndi að bera hallann af því að hafa ekki lagt fram skriflegan ráðningarsamning. 

                Stefnandi hefur ekki sannað að hann hafi greitt stefnanda laun umfram þær greiðslur sem hún tilgreinir sjálf að fjárhæð 963.279. 

Aðilar eru sammála um að ógreidd laun stefnanda á tímabilinu frá því í júní 2011 til loka apríl 2012 nemi 6.657.548 krónum.  Verður stefndi dæmdur til að greiða þessa fjárhæð með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir frá stefnubirtingardegi.  Vegna ákvæðis 1.mgr. 12. gr. vaxtalaga þarf ekki að mæla fyrir um höfuðstólsfærslu vaxta. 

Stefnda verður gert að greiða stefnanda 990.000 krónur í málskostnað.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.   Málskostnaður ber vexti samkvæmt skýrum ákvæðum laga frá 15. degi eftir dómsuppkvaðningu og á ekki við að mæla fyrir um þann útreikning í dómsorði. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.  Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna anna dómara.  Lögmenn aðila voru sammála honum um að endurflutningur væri óþarfur. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, Kemis-heildverslun ehf., greiði stefnanda, Margréti R. Dahl-Christiansen, 6.657.548 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. mars 2014 til greiðsludags og 990.000 krónur í málskostnað.