Hæstiréttur íslands
Mál nr. 462/2002
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Læknir
- Sjúkrahús
- Örorka
- Læknaráð
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 27. febrúar 2003. |
|
Nr. 462/2002. |
Andri Snær Sigurjónsson(Karl Axelsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Skaðabótamál. Læknar. Sjúkrahús. Örorka. Læknaráð. Aðfinnslur.
A krafðist skaðabóta vegna ætlaðra mistaka við skurðaðgerð sem hann gekkst undir. Í málinu lágu fyrir nokkur fjöldi læknisfræðilegra álita. Vegna vafa um það, hvort A kynni að hafa rumskað fyrir lok aðgerðar og fengið svæfingarlyf til viðbótar hinum fyrri, var tekið fram, að fullyrðing skurðlæknisins yrði ekki lögð til grundvallar í málinu, þar sem hún nyti ekki stuðnings í skráðum samtímagögnum og framburði vitna. Þótt sumir álitsgjafar hefðu tekið mið af þessari fullyrðingu skurðlæknisins yrði engu að síður að leggja heildarmat á álitin. Þegar gögn málsins væru þannig virt yrði ekki séð, að stoðum hefði verið rennt undir þá staðhæfingu A, að mistök hefðu orðið í aðgerðinni eða undirbúningi hennar. Var Í því sýknað af kröfum A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Málinu var áfrýjað 9. október 2002. Áfrýjandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 17.462.161 krónu með 2% ársvöxtum frá 29. nóvember 1997 til 19. apríl 2000 en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Áfrýjandi krefst málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en hann nýtur gjafsóknar fyrir báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Áfrýjandi greindist með samfallið vinstra lunga eða svonefnt loftbrjóst á heilsugæslustöðinni á Egilstöðum 5. nóvember 1997. Ekki tókst að ráða bót á meini hans á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, en þar var fjórum sinnum lögð inn slanga í brjósthol hans. Var áfrýjandi fluttur til Reykjavíkur 28. nóvember og gekkst undir skurðaðgerð á Landspítalanum í Reykjavík daginn eftir. Hann reisir kröfu sínu um skaðabætur úr hendi stefnda á þremur málsástæðum. Í fyrsta lagi hafi staða vinstri handleggs við aðgerðina verið röng, í öðru lagi hafi orðið mistök við svæfingu hans og í þriðja lagi hafi honum ekki verið veittar upplýsingar fyrir aðgerðina um áhættu samfara henni.
Í lýsingu aðgerðarlæknis 29. nóvember 1997 kemur fram, að áfrýjandi hafi verið svæfður á venjulegan hátt og settur í hægri „dicubitusstöðu“ á skurðarborðið. Gerður hafi verið 6 cm skurður fyrir neðan hárlínu í vinstri holhönd og opnað inn í brjósthol á þriðja rifjabili, lagfærð þau mein, sem voru á lunganu og skurði lokað. Farið hafi verið með sjúkling inn á gjörgæslu í góðu ástandi eftir aðgerðina, þar sem tekin yrði eftirlitsmynd (controlmynd) af honum. Á svæfingablaði kemur fram, að svæfing hafi hafist kl. 17.25 og lokið kl. 18.45 og í hjúkrunarskýrslu segir, að aðgerðin hafi byrjað kl. 18.00 og lokið kl. 18.25. Í engu þessara gagna er þess getið, að erfiðleikar hafi komið upp í aðgerðinni eða áfrýjandi þurft á endurtekinni svæfingu að halda. Í bréfi aðgerðarlæknis til heilsugæslulækna á Egilsstöðum 14. janúar 1998 er gerð grein fyrir aðgerðinni og sagt, að eftirlitsmynd af lungum hafi sýnt vel þanið lunga. Á deild gangi allt vel, drenið hafi verið fjarlægt fljótlega, lungað hafi haldist þanið og sjúklingur hitalaus. Nokkurs stirðleika hafi gætt í vinstri öxl og hafi sjúklingur rétt byrjað sjúkraþjálfun. Læknirinn hafi séð sjúklinginn á göngudeild 5. desember 1997 og hafi hann ennþá verið stirður í öxlinni en lungað verið þanið og skurðir litið vel út. Gert væri ráð fyrir því, að áfram yrði fylgst með sjúklingi á Egilsstöðum og hann færi væntanlega í frekari sjúkraþjálfun.
Aðgerðarlæknir skráði viðbót við aðgerðarlýsingu 20. júlí 1998, eftir að áfrýjandi hafði beint kvörtun til landlæknis 25. maí sama ár og óskað rannsóknar á ætluðum mistökum við aðgerðina. Þar segir, að sjúklingi hafi verið komið fyrir í hægri hliðarlegu á skurðarborði en vinstri handleggur settur í „maximus“, en það sé stöng, sem er fest við skurðarborð öðru megin, gangi beint upp og fari svo þvert yfir borðið og skilji að athafnasvæði skurðlækna og svæfingarlækna. Framhandleggur hafi verið fóðraður samkvæmt venju og vafinn á þessa stöng með olnboga í 90° og „upphandlegg abduction“ í rúmar 45° um axlarlið. Í lok aðgerðar, þegar verið var að taka síðustu sporin í húð, hafi sjúklingur vaknað illa í áðurnefndri legu og reynt að losa vinstri handlegg, togað bæði fram á við og aftur á við. Hann hafi fengið viðbótar svæfingarlyf, og var um það vísað til gagna, sem aðgerðarlæknir hefur ekki gert nánari grein fyrir. Það hafi tekið sjúkling eina til eina og hálfa mínútu að róast aftur, sárinu síðan lokað og umbúðir settar á það. Handleggur hafi verið tekinn niður og sjúklingur settur á bak og síðan farið með hann „vakandi og í góðu ástandi inn á vöknun.“
Í svarbréfi þáverandi landlæknis til áfrýjanda 8. september 1998 vegna áðurnefndrar kvörtunar segir, að líklegast megi rekja óþægindi hans til rangrar legu á handlegg við aðgerð. Enga frekari umfjöllun eða rökstuðning getur þar að líta.
Með bréfi lögmanns áfrýjanda til Ríkisspítala 5. október 1998 var þess óskað, að viðurkennd yrði bótaskylda vegna aðgerðarinnar 29. nóvember 1997. Þeirri beiðni var hafnað með bréfi 25. nóvember 1998 og fylgdi því greinargerð Grétars Ólafssonar yfirlæknis á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans frá 20. október sama ár. Þar kemur meðal annars fram, að við aðgerðina hafi verið notuð hefðbundin aðferð, sem beitt hafi verið við fjölmargar slíkar aðgerðir hér á landi um árabil og séu þær gerðar á sama hátt á samsvarandi sjúkradeildum erlendis. Hér hafi átt sér stað röð tilvika, sem stuðlað hafi að þeim einkennum, er sjúklingur lýsi, og samræmist fylgikvillum, sem alltaf geti átt sér stað við skurðaðgerðir eða aðrar lækningaaðgerðir.
Þessu næst beindi lögmaður áfrýjanda 16. desember 1998 kvörtun til nefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Í álitsgerð hennar frá 16. júní 1999 segir, að ekkert komi fram í gögnum málsins, sem bendi til þess, að lega á handlegg áfrýjanda hafi verið röng. Nefndin telur gagnrýnivert, að ekki hafi verið fært strax inn á aðgerðarblað, að hann hafi rumskað í lok aðgerðar og brotist um, en þó verði að leggja þá staðhæfingu í síðari viðbót við aðgerðarlýsingu til grundvallar. Svæfingarlækni hefði átt að vera ljóst, að áfrýjandi væri að rumska, og auka þá þegar við svæfinguna, þar sem ekki hafi verið búið að leysa handlegginn. Nefndin telur langlíklegast, að umbrot áfrýjanda hafi valdið þeim skaða, sem hann hafi orðið fyrir, og hafi því verið gerð mistök við svæfingu hans.
Lögmaður áfrýjanda spurðist fyrir um það með bréfi til Ríkisspítala 23. september 1999, hvort framangreint álit nefndar um ágreiningsmál breytti fyrri afstöðu þeirra til málsins. Því var svarað neitandi 13. október 1999 að fengnu áliti Odds Fjalldal yfirlæknis svæfinga- og gjörgæsludeildar Landspítalans 8. sama mánaðar og var sú afstaða áréttuð af hálfu ríkislögmanns 19. október 1999.
Í álitsgerð yfirlæknisins kemur fram, að hann telji niðurstöðu nefndarinnar um mistök við svæfingu áfrýjanda órökstudda og byggða á mjög veikum forsendum en ekki þeirri læknisfræðilegu þekkingu, sem fyrir liggi um taugaskaða við skurðaðgerðir. Það sé mjög algengt og þyki góður siður, að sjúklingur byrji að rumska undir lok aðgerðar, þótt auðvitað sé ekki æskilegt, að hann hreyfi sig mikið. Mjög ólíklegt sé, að það hafi getað valdið einhverjum skaða á „plexus brachialis.“ Sjúklingi hafi í byrjun aðgerðar verið gefið vöðvaslakandi lyf og vöðvar hans verið alveg slakir, þegar handleggur hafi verið bundinn við „maximus“ eða stöngina. Undir lok aðgerðar, þegar sjúklingur hafi byrjað að rumska, hafi vöðvaslökun að mestu verið horfin og hann fengið „tonus“ í vöðva, en þá verði hætta á togi mun minni. Teljist það mistök við svæfingu, að sjúklingur rumski undir lok aðgerðar, séu gerð mistök við svæfingar á hverjum degi á öllum svæfingadeildum. Ekki sé venja að geta þessa sérstaklega hér á landi eða annars staðar, svo að hann viti til, en þó megi hugsa sér, að þess hefði verið getið umrætt sinn, ef það hefði borið að með mjög óvenjulegum hætti, þannig að erfiðleikum hafi valdið. Þá kemur fram í áliti yfirlæknisins, að líkamsbygging einstaklinga geti í ýmsum atriðum verið breytileg og þeir því mismunandi viðkvæmir fyrir ákveðinni stöðu á skurðarborði, en slíkt sé ekki unnt að sjá fyrir. Því geti einstaklingur, sem settur sé í ákveðna stöðu, á meðan hann er í svæfingu, lent í því að verða fyrir einhverjum slíkum taugaskaða og áfrýjandi, enda þótt allt hafi verið gert rétt samkvæmt gildandi reglum. Skaði af þessum toga sé vel þekktur og eigi hann sér oftast fleiri en eina orsök.
Í málinu liggur fyrir greinargerð Torfa Magnússonar sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum frá 12. október 1999. Þar kemur fram það álit, að við aðgerð hafi komið áverki á brjóstgrindartaug áfrýjanda, en þekkt sé, að slíkir áverkar geti komið í tengslum við brjóstholsaðgerðir, sem framkvæmdar séu í gegnum vinstri holhönd. Hann geti ekki fullyrt, hvort í þessu tilviki hafi verið um að ræða mistök í aðgerð eða ekki, þar sem hann sé ekki í aðstöðu til að meta, hvernig staðið hafi verið að aðgerðum á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað og Landspítalanum.
Eftir að mál þetta var höfðað lét núverandi landlæknir að beiðni heilbrigðisráðuneytisins frá sér fara rökstudda álitsgerð 18. október 2000 um kvörtun áfrýjanda vegna ætlaðra mistaka í umræddri aðgerð á Landspítalanum. Hann telur engan vafa leika á því, að klínísk vandamál áfrýjanda frá öxl megi rekja til þessarar aðgerðar. Allt bendi til þess, að taugaskaði hafi orðið og sé líklegast, að hann hafi orðið á upparmstaugaflækjunni (brachial plexus) fremur en á einstökum taugagreinum í húð neðar. Útilokað sé að kveða upp úr um það með vissu miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, hvort skaðinn hafi orðið vegna rangrar stöðu handleggs í aðgerð eða hins, að áfrýjandi hafi vaknað og kippt handleggnum til í aðgerðarlok, en hið síðarnefnda sé þó líklegra. Ekki komi annað fram í aðgerðarlýsingum en að eðlilega hafi verið staðið að legu áfrýjanda á skurðarborði og aðgerðinni sjálfri og hún gengið áfallalaust fyrir sig. Í lok aðgerðar sé venja að létta á svæfingu og reyna að stilla svo til, að sjúklingur vakni um það leyti, sem síðustu spor séu sett í húð, þannig að unnt sé að fá fram sjálfkrafa öndun sem fyrst eftir það og fjarlægja barkarennu. Sá hafi ljóslega verið tilgangur svæfingarlæknisins við aðgerðina. Örsjaldan beri svo við, að sjúklingar vakni illa og ósjálfráðar hreyfingar og vöðvakippir verði, eins og lýst sé í tilviki áfrýjanda. Í allri sanngirni verði þessum atburði best lýst sem slysi eða óvæntu óhappi fremur en að um sé að ræða læknisfræðileg mistök.
II.
Í þinghaldi í héraði 25. maí 2001 óskuðu lögmenn aðila þess sameiginlega, að þrjár tilgreindar spurningar yrðu lagðar fyrir læknaráð og féllst dómsformaður á beiðnina með úrskurði sama dag. Læknaráð afgreiddi málið á fundi sínum 14. desember 2001 með svofelldum hætti:
„1. Svar við spurningu dómara hvort lega handleggs hafi verið röng: Nei, ekkert kemur fram í gögnum sem bendi til þess að staða handleggs hafi verið röng og verður ekki annað séð en frágangur handleggs hafi verið samkvæmt því sem tíðkast við slíkar aðgerðir. Ekki verður þó útilokað að líkamsbygging (anatomia) mannsins hafi verið slík að stelling handleggs hafi valdið togi á taugar þær sem liggja til armsins þótt reglum hafi verið fylgt.
2. Svar við spurningu dómara hvort mistök hafi orðið við svæfingu: Ekki verður ráðið af gögnum að um mistök hafi verið að ræða í svæfingu en ljóst er að vöknun með þeim hætti sem lýst er og sá tími sem tók að svæfa manninn á ný telst ekki í samræmi við það sem tíðkast við eðlilega svæfingu, en skýring á því hvað olli er ekki gefin. Það sem gerðist er þó ekki sönnun þess að atburðurinn í svæfingu hafi verið orsök fylgikvilla þeirra sem Andri Snær Sigurjónsson hlaut, þar sem einkenni frá taugum eftir svæfingar eru þekkt og koma fyrir án þess að um sé að ræða ótímabæra vöknun. Ætla má að mest hætta á togi á taugar sé í djúpri svæfingu þegar vöðvar slakna svo mjög að spenna (tonus) þeirra veitir ekki taugum lengur stuðning. Hins vegar ber á það að líta að sökum þess hve einkenni Andra Snæs Sigurjónssonar urðu mikil og varanleg verður ekki útilokað að þetta atvik hafi stuðlað að fylgikvillum hans en orsakasamband verður ekki rakið hvorki af þeim læknisfræðilegu gögnum sem fyrir liggja í málinu né af reynslu annarra í fræðilegum upplýsingum úr vísindaritum.
3. Svar við spurningu dómara hvort í samtímaaðgerðarlýsingu hefði átt að geta þess ef sjúklingur hefði vaknað illa og reynt að losa vinstri handlegg og togað fram á við og aftur á við og róast aftur á 1 - 1½ mínútu: Læknaráð telur að þar sem þrír aðilar: aðgerðarlæknir, svæfingarlæknir og svæfingarhjúkrunarfræðingur hafi ekki talið efni til þess að skrá umrætt atvik hafi það ekki virst markvert er það gerðist. Það hlýtur jafnan að vera háð mati og reynslu hvers og eins hvað talið er skráningarvert og er ekki aðfinnsluvert þótt upp kunni að koma atvik af þessu tagi þar sem eftir á að hyggja komi upp atriði sem hefði verið rétt að færa til bókar.“
Í rökstuðningi réttarmáladeildar læknaráðs með tillögum að ofangreindum svörum ráðsins kemur meðal annars fram, að vel sé þekkt, að alvarlegir taugaáverkar komi fyrir við læknisaðgerðir. Í þeim tilvikum geti verið um fórnarkostnað að ræða, þegar gera þurfi víðfeðma aðgerð, en einnig sé þekkt, að taugar geti orðið fyrir skaða við minni aðgerðir. Langoftast gangi einkenni til baka og þyki ekki umtalsverð. Ekki sé vitað, hvers vegna einkenni komi fyrir hjá sumum sjúklingum en ekki öðrum, en því kunni að ráða mismunandi byggingarlag auk þess sem aðgerðirnar séu aldrei nákvæmlega eins framkvæmdar. Ekki séu efni til annars en að álykta, að einkenni áfrýjanda frá vinstri öxl hafi komið til við þá brjóstholsaðgerð, sem gerð hafi verið í nóvember 1997. Ekki verði séð, að umbúnaður um vinstri arm mannsins hafi verið með nokkrum öðrum hætti en eðlilegt og venjulegt sé við aðgerðir af þessu tagi og hið sama sé að segja um aðgerðina sjálfa.
Áfrýjandi gerir þær athugasemdir við niðurstöðu læknaráðs og réttarmáladeildar þess, að í afgreiðslu og meðferð málsins hafi tekið þátt læknar á Landspítalanum við Hringbraut, þar sem hin ætluðu mistök hafi orðið. Þeir hafi verið vanhæfir til þessara verka samkvæmt II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beri því að líta með öllu fram hjá áliti læknaráðs. Hvorugur málsaðila hreyfir hins vegar andmælum vegna setu landlæknis í læknaráði, þótt hann hefði áður látið uppi álit í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1942 um læknaráð er það meðal hlutverka ráðsins að láta dómstólum í té sérfræðilegar umsagnir varðandi læknisfræðileg efni. Í 1. gr. laganna er ráð fyrir því gert, að meðal ráðsliða séu yfirlæknar lyflæknisdeildar og handlæknisdeildar Landspítalans, sem er langstærsta sjúkrahús landsins, þar sem starfa fjölmargir læknar og sérfræðingar á mörgum mismunandi sérfræðisviðum eða deildum. Samkvæmt gögnum málsins tók enginn læknir á handlækningasviði þátt í afgreiðslu læknaráðs, en prófessorinn í handlæknisfræði vék sæti vegna vanhæfis og tók sérfræðingur í taugasjúkdómum á endurhæfingarsviði spítalans sæti hans við meðferð málsins, bæði í réttarmáladeild og fullskipuðu læknaráði. Hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á, að ómálefnaleg sjónarmið hafi haft áhrif á úrlausn læknaráðs, en álit þess og aðrar álitsgerðir í málinu verður að meta í ljósi þeirrar stöðu, sem álitsgjafar gegna.
III.
Að beiðni áfrýjanda mat Jónas Hallgrímsson læknir afleiðingar vefjaskemmda áfrýjanda í kjölfar aðgerðarinnar 29. nóvember 1997. Í matsgerð hans 19. mars 2000 kemur meðal annars fram, að reikna megi með, að einkenni áfrýjanda verði varanleg og muni hindra hann á margvíslegan hátt, þannig að vinstri hönd og handleggur verði honum til lítilla nota. Ennfremur muni verkir baga hann verulega og flest álag á vinstri handlegg og hönd verði honum ofviða. Mat læknirinn varanlegan miska áfrýjanda vegna þessa 30%. Ljóst væri, að taugaskemmdirnar hefðu mikil áhrif á alla framtíð hans, sem hafi hugsað sér að verða húsasmiður. Nú væri hann neyddur til að hætta því og óvíst um framvindu við nám og afköst eftir það. Þess vegna væri örorka áfrýjanda meiri en miskinn og mat læknirinn varanlega örorku hans 50%.
Að beiðni stefnda fjallað örorkunefnd samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, um varanlega örorku og miskastig áfrýjanda vegna afleiðinga aðgerðarinnar. Í álitsgerð hennar 16. apríl 2002 segir meðal annars, að áfrýjandi hafi ennþá mikil einkenni og verulega skerta getu til vinnu og tómstundaiðkana. Nefndin telji, að eftir 1. júlí 1999 hafi hann ekki getað vænst frekari bata, sem máli skipti, og sé varanlegur miski hans 25%. Rétt sé að meta örorkustig áfrýjanda út frá þeirri forsendu, að hann hefði í framtíðinni starfað sem húsasmiður, hefði hann ekki orðið fyrir umræddu heilsutjóni vegna aðgerðarinnar. Þetta heilsutjón skerði verulega getu hans til öflunar vinnutekna í framtíðinni og metur örorkunefnd varanlega örorku áfrýjanda 50%.
IV.
Við meðferð málsins hefur ríkt vafi um það, eins og í héraðsdómi greinir, hvort áfrýjandi kunni að hafa rumskað fyrir lok aðgerðar eða ekki og fengið svæfingarlyf til viðbótar hinum fyrri. Fullyrðing skurðlæknisins um það nýtur ekki stuðnings í skráðum samtímagögnum og önnur vitni en hann sjálfur minnast þess ekki. Það verður því ekki lagt til grundvallar dómi, að svo hafi verið. Engu að síður verður að leggja heildarmat á fram komin læknisfræðileg álit, þótt sumir álitsgjafar hafi tekið mið af því, að áfrýjandi gæti hafa losað svefn of snemma og hreyft handlegginn. Þegar gögn málsins eru þannig virt verður ekki séð, að stoðum hafi verið rennt undir þá staðhæfingu áfrýjanda, að mistök hafi orðið í aðgerðinni 29. nóvember 1997 eða undirbúningi hennar.
Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms, sem kveðinn var upp af embættisdómara ásamt sérfróðum meðdómendum, verður hann staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir dóminum greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Það er aðfinnsluvert, hversu málavaxtalýsing héraðsdóms er brotakennd og ófullkomin, þótt ýmislegt, sem þar skortir, sé nefnt í umfjöllun um málsástæður aðila og niðurstöðukafla dómsins.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2002.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 28. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Andra Snæ Sigurjónssyni, kt. 300575-5879, Tjarnarlöndum 21, Egilsstöðum, með stefnu birtri 4. september 2000 á hendur íslenzka ríkinu.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða honum kr. 17.462.161, með 2% ársvöxtum af þeirri fjárhæð frá 29. nóvember 1997 til 1. maí 1999, en með 4,5% ársvöxtum frá þeim degi til 19. apríl 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi, ásamt virðisaukaskatti, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda, og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Til vara er þess krafizt, að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.
II.
Málavextir:
Tildrög málsins eru þau að stefnandi greindist á Heilsugæslunni á Egilsstöðum með samfallið vinstra lunga (loftbrjóst, pneumothorax) þann 5. nóvember 1997. Þann sama dag var hann fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupsstað til frekari meðhöndlunar. Þar voru í þrígang gerðar tilraunir til að meðhöndla þetta með því að setja upp svokallað dren. Þær tilraunir tókust ekki, og var nýtt dren sett upp þann 28. nóvember og stefnandi fluttur til Reykjavíkur á handlækningadeild Landspítalans. Þar var framkvæmd skurðaðgerð á honum næsta dag. Aðgerðina framkvæmdi Kristinn B. Jóhannsson, sérfræðingur á handlækningadeild Landspítalans. Fór hún þannig fram, að skorið var í handarkrika stefnanda og opnað inn í brjósthol í þriðja rifjabili. Þá voru lagfærð þau mein sem voru á lunganu og skurðum lokað. Samkvæmt aðgerðarlýsingu, sem færð var inn á svo kallað aðgerðarblað, var farið með sjúkling inn á gjörgæzlu í góðu ástandi að aðgerð lokinni og þess jafnframt getið, að tekin yrði eftirlitsmynd (controlmynd) af honum þar. Á meðfylgjandi svæfingarblaði kemur fram, að svæfing hefst kl. 1725 og lýkur kl. 1845. Hvorki í aðgerðarlýsingu né á svæfingarblaði er þess getið, að erfiðleikar hefðu komið fram í aðgerðinni. Svæfingarlæknir var Jón Bragi Bergmann og svæfingarhjúkrunarfræðingur Þuríður Bergljót Haraldsdóttir.
Í læknabréfi aðgerðarlæknisins, dags. 14. janúar 2000, til lækna á Heilsugæzlu Egilsstaða segir m.a., að controlmynd af lungum hafi sýnt vel þanið lunga. Á deild gangi allt vel, drenið hafi verið fjarlægt fljótlega, og hafi lunga haldizt þanið og sjúklingur hitalaus, en nokkurs stirðleika gætti í vinstri öxl hjá sjúklingi, og væri hann byrjaður í sjúkraþjálfun á Landspítalanum. Læknirinn hafi síðan séð sjúklinginn á göngudeild 5. desember 1997. Þá hafi hann enn verið stirður í öxlinni, lungað hefði verið þanið og skurðir litið vel út.
Stefnandi kveðst hafa átt við þrálát einkenni að stríða frá vinstri öxl allt frá aðgerðinni, en fyrir aðgerðina hafi hann ekki kennt sér meins. Vegna þessa kveðst stefnandi hafa leitað til ýmissa lækna og annarra aðila, og hafi verið talið ljóst, að hann hefði orðið fyrir taugaskaða í aðgerðinni 29. nóvember 1997. Kveður stefnandi þessi einkenni hafa hamlað honum við öll störf, en á þessum tíma hafi hann starfað hjá húsameistara samhliða því að hann stundaði húsasmíðanám.
Stefnandi taldi, að mistök hefðu átt sér stað við aðgerðina 29. nóvember 1997 og óskaði eftir því við landlækni, að rannsókn færi fram á málinu. Af hálfu landlæknis var handlækningadeild Landspítalans sent bréf, dags. 18. júní 1998, þar sem óskað var afrita úr sjúkraskrá stefnanda, auk þess sem kvörtunarbréf stefnanda fylgdi. Eftir að rannsókn landlæknis hófst, útbjó aðgerðarlæknirinn, Kristinn B. Jóhannsson, viðbót við aðgerðarlýsingu, dags. 20. júlí 1998. Þar er þess fyrst getið, að stefnandi hefði vaknað illa, meðan verið var að taka síðustu spor í húð, reynt að losa vinstri handlegg og togað fram á við og aftur á við. Þá hafi stefnanda verið gefin viðbótar svæfingarlyf og það tekið hann 1 til 1½ mínútu að róast. Stefnandi kveðst ekki muna eftir þessum atburðum.
Þáverandi landlæknir skilaði áliti í málinu, dags. 8. september 1998, og var niðurstaða þess sú, að langlíklegast væri, að rekja mætti óþægindi stefnanda til rangrar legu á handlegg við aðgerð. Með bréfi lögmanns stefnanda til Ríkisspítala, dags. 5. október 1998, sem ítrekað var 10. nóvember 1998, var þess óskað, að bótaskylda vegna aðgerðarinnar 29. nóvember 1997 yrði viðurkennd. Með bréfi Ríkisspítala til lögmanns stefnanda, dags. 25. nóvember 1998, var því alfarið hafnað, að um saknæma háttsemi starfsmanna Landspítalans hefði verið að ræða. Lögmaður stefnanda lagði málið því næst undir nefnd um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Í álitsgerð sinni frá 16. júní 1999 taldi nefndin færslu aðgerðarlýsinga í málinu gagnrýnisverða. Niðurstaða nefndarinnar var sú, að mistök hefðu átt sér stað við svæfingu álitsbeiðanda í aðgerðinni, sem líklegt yrði að telja, að hefðu valdið tjóni hans. Var í áliti nefndarinnar m.a. stuðzt við áðurnefnda viðbót við aðgerðarlýsingu.
Eftir að álitsgerð ágreiningsmálanefndarinnar frá 16. júní 1999 lá fyrir, sendi lögmaður stefnanda Ríkisspítölum bréf, dags. 28. júní 1999, sem ítrekað var 23. ágúst 1999, þar sem óskað var svara við því, hvort álitsgerðin breytti afstöðu Ríkisspítala. Engin svör bárust, og var fyrirspurnin enn ítrekuð með bréfi, dags. 23. september 1999. Með bréfi lögmanns Ríkisspítala, dags. 24. september 1999, var þeirri skoðun lýst, að viðkomandi svæfingarlæknir hefði ekki fengið tækifæri til að tjá sig um málið hjá ágreiningsmálanefndinni. Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 24. september 1999, var bent á, að þetta væri rangt, þar sem Ríkisspítalar hefðu haft alla möguleika á að tjá sig um efni málsins fyrir ágreiningsmálanefndinni. Með bréfi lögmanns Ríkisspítala til lögmanns stefnanda, dags. 12. október 1999, var því lýst, að afstaða Ríkisspítala væri óbreytt og að niðurstaða ágreiningsmálanefndarinnar byggðist á mjög veikum forsendum. Með bréfi ríkislögmanns, dags. 19. október 1999, var kröfum stefnanda á hendur Ríkisspítölum endanlega hafnað.
Af hálfu stefnanda var óskað eftir því við Jónas Hallgrímsson lækni, að hann mæti líkamstjón stefnanda vegna skurðaðgerðinnar 29. nóvember 1997. Í matsgerð læknisins, sem dagsett er 19. marz 2000, kemur fram, að reikna megi með því, að einkenni stefnanda vegna aðgerðarinnar verði varanleg, og að þau muni hindra hann á margvíslegan hátt, þannig að vinstri hönd og handleggur verði honum til lítilla nota, og enn fremur muni verkir baga hann verulega, þannig að flest álag á vinstri handlegg og hönd verði honum ofviða. Mat læknirinn varanlegan miska stefnanda vegna þessa 30%. Varanleg örorku er talin vera 50%. Byggir læknirinn á því, að taugaskemmdirnar, sem um ræðir, muni hafa mikil áhrif á alla framtíð stefnanda, sem hafði hugsað sér að verða húsasmiður. Hann væri neyddur til að hætta því og óvíst um framvindu við nám og afköst eftir það. Kemst læknirinn að þeirri niðurstöðu, að hefði aðgeðin heppnazt eins og til stóð, hefði stefnandi hvorki hlotið miska né varanlega örorku. Í matsgerðinni segir enn fremur, að hefði aðgerðin heppnazt sem skyldi, hefði mátt vænta þess, að ekki yrði frekari bati eftir aðgerðina um tveimur mánuðum síðar. Stefnandi er talinn hafa verið veikur, án þess að vera rúmfastur, í 1½ ár frá útskrift frá Landspítalanum. Þá er hann talinn hafa verið óvinnufær í 23 mánuði eftir aðgerðina.
Aðilar deila um bótaskyldu stefnda vegna meintra læknamistaka við framangreinda aðgerð.
Landspítalinn, sem hefur verið og er rekinn á ábyrgð íslenzka ríkisins undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur breytt um nafn og heitir nú Landspítalinn - háskólasjúkrahús, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 127/2000. Ekki er ágreiningur um aðild að málinu.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að við aðgerðina 29. nóvember 1997 hafi átt sér stað bótaskyld mistök. Á þeim mistökum beri íslenzka ríkið ábyrgð samkvæmt reglunni um húsbóndaábyrgð, en íslenzka ríkið, undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hafi farið með rekstur Landspítalans. Byggt sé á því, að við aðgerðina hafi lega á handlegg verið röng. Um það sé vísað til álits landlæknis, sem sé óháður aðili. Einnig sé byggt á því, að mistök hafi átt sér stað við svæfingu stefnanda í aðgerðinni. Um það sé vísað til álits nefndar um ágreiningsmál, sem starfi samkvæmt lögum nr. 97/1990. Tilurð viðbótaraðgerðarlýsingar frá 20. júlí 1998, löngu eftir aðgerðina, sé afar sérkennileg. Hún hafi verið útbúin af aðgerðarlækni, sem hafði verið borinn þeim sökum, að hafa gert mistök við aðgerð, sem landlæknir hafði hafið rannsókn á. Trúverðugleika frásagnarinnar í viðbótaraðgerðarlýsingunni verði að skoða í þessu ljósi. Af hálfu stefnanda sé byggt á því, að þetta leiði til þess, að viðbótaraðgerðarlýsingin 20. júlí 1998 hafi ekkert sönnunargildi um þau atriði, sem séu stefnanda óhagstæð. Vilji dómurinn ekki fallast á, að lega við aðgerðina hafi verið röng og/eða að mistök hafi orðið við svæfingu, sé byggt á því, að stefnandi hafi í engu verið upplýstur um það stórkostlega heilsufarstjón, sem hann kynni að verða fyrir í aðgerðinni. Allt leiði framangreint til bótaskyldu ríkisins vegna málsins.
Um afleiðingar umræddra mistaka bendi stefnandi á, að í norrænum skaðabótarétti, þ.á.m. hér á landi, hafi sönnunarsjónarmið þróazt á þann veg, að sú sönnunarregla sé talin gilda um skaðabótaábyrgð lækna og sjúkrastofnana, að sannist á annað borð mistök eða vanræksla, þá beri viðkomandi læknir og/eða sjúkrastofnun sönnunarbyrði fyrir því, að afleiðingar hefðu komið fram, þótt engin mistök hefðu verið gerð. Umrædd regla feli þannig í sér öfuga sönnunarbyrði, hvað þennan þátt varði, en hún styðjist við fjölda dómafordæma. Hins vegar verði að telja afleiðingar þeirra læknamistaka, sem hér um ræði, það skýrar, að vafasamt sé, að á umrædda sönnunarreglu reyni með beinum hætti í málinu.
Stefnandi byggir bótakröfu sína á þágildandi skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996, og sundurliðast stefnufjárhæðin svo:
1. Tímabundið atvinnutjón
- 166.685 kr. x 27 kr. 4.500.495
- laun 1999 -kr. 237.571
- dagpen. frá TR 1999 -kr. 427.572
- laun 1998 -kr. 171.586
- dagpen. frá TR 1998 -kr. 101.480 kr. 3.562.286
2. Þjáningabætur 845 kr.x 540 d. kr. 448.200
3. Varanlegur miski kr. 1.181.625
4. Varanleg örorka kr. 10.797.400
5. Annað fjártjón kr. 1.472.650
Samtals kr. 17.462.161
Krafa stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón byggi á meðaltekjum iðnaðarmanna, sem hafi á slysdegi verið kr. 1.887.000 á ári. Við þá fjárhæð bætist 6% mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð, þannig að viðmiðið verði kr. 2.000.220, eða kr.166.685 á mánuði. Af staðfestingum vinnuveitenda verði ráðið, að stefnandi hafi átt völ á störfum, sem hefðu gefið honum tekjur af þessari stærðargráðu. Jónas Hallgrímsson læknir hafi metið aðstöðuna svo, að stefnandi hafi verið tímabundið óvinnufær vegna afleiðinga aðgerðarinnar í 27 mánuði. Til frádráttar kröfum stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón komi þær dagpeningagreiðslur, sem hann hafi fengið frá TR á tímabilinu, svo og þær tekjur, sem hann hafi unnið sér inn á tímanum.
Krafa stefnanda um þjáningabætur byggist á mati Jónasar Hallgrímssonar læknis, dags. 19. marz 2000, þess efnis að hann hafi verið veikur í skilningi skaðabótalaga í eitt og hálft ár eftir útskrift. Um sé að ræða 18 mánuði, eða 540 daga. Miðað sé við fjárhæðina 700 kr. á dag í þjáningabætur, sbr. 3. gr. skaðabótalaganna, að viðbættri vísitöluhækkun samkvæmt 15. gr. skaðabótalaganna. Vísitala, þegar bætur séu ákvarðaðar í ágúst 2000, sé 3878, en hafi, við gildistöku skaðabótalaganna 1. júlí 1993, verið 3282. Því sé miðað við fjárhæðina kr. 830 á dag og heildarkrafa vegna þjáningabóta verði kr. 830 margfaldaðar með 540 dögum, eða samtals kr. 448.200.
Krafan um bætur fyrir varanlegan miska taki mið af mati örorkunefndar, sem meti miska stefnanda vegna aðgerðarinnar 25%. Fjárhæð miskabóta sé svo fengin með því að vísitölubæta 4.000.000 kr. fjárhæðina samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. skaðabótalaga (3878/3282). Niðurstaðan sé sú, að miskabætur séu 25% af kr. 4.726.500, eða kr. 1.181.625.
Krafan um bætur fyrir varanlega örorku taki mið af meðaltekjum iðnaðarmanna á slysdegi, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna, en stefnandi hafi á slysdegi verið í húsasmíðanámi í Verkmenntaskólanum á Akureyri og unnið að iðn sinni samhliða því. Meðaltekjur iðnaðarmanna hafi á slysdegi, líkt og fyrr greini, verið kr. 1.887.000 á ári. Við það bætist 6% mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð, þannig að viðmiðið verði kr. 2.000.220. Við þá viðmiðunarfjárhæð bætist vístöluhækkun samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga. Vísitala á slysdegi hafi verið 3592, en vísitala, þegar bótafjárhæðin sé ákvörðuð í apríl 2000, sé 3878. Samkvæmt því miðist ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku við kr. 2.159.480. Sú fjárhæð sé síðan margfölduð samkvæmt reiknireglu 6. gr. skaðabótalaga með 10 og örorkustiginu, sem Jónas Hallgrímsson hafi metið 50%. Niðurstaðan úr því sé sú, að bætur fyrir varanlega örorku ákvarðist kr. 10.797.400.
Krafa um bætur fyrir annað fjártjón sé sett fram vegna tafa í námi, röskunar á stöðu og högum, þar sem stefnandi þurfi nú að marka sér nýja braut, hvað varði nám og störf með tilheyrandi tekjutapi og útlögðum kostnaði, vegna ýmiss ferðarkostnaðar t.d. milli Egilsstaða og Reykjavíkur, vegna kostnaðar við læknisheimsóknir, sjúkraþjálfun og fleira. Fjárhæð bóta vegna þessa sé mjög hóflega metin kr. 1.000.000.
Stefnandi krefjist vaxta af bótakröfu sinni samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga. Fram til 1. maí 1999 hafi vaxtafótur samkvæmt þeirri grein verið 2%, en með lögum nr. 37/1999 hafi honum verið breytt í 4,5%. Það sé ljóst, að vaxtareglum sé ætlað að vernda ávöxtun kröfu, eins og hún sé á hverjum tíma. Þar með sé ljóst, að breytingin á vaxtafætinum, sem gerð hafi verið með lögum nr. 37/1999, hljóti að vernda ávöxtun skaðabótakrafna, sem til höfðu orðið fyrir gildistöku þeirra laga. Þá sé vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 um dráttarvaxtakröfu stefnanda, en dráttarvaxta sé krafizt mánuði eftir að örorkumat Jónasar Hallgrímssonar læknis, dags. 19. marz 2000, lá fyrir, eða frá 19. apríl 2000.
Stefnanda hafi, með bréfi dómsmálaráðherra, dags. 17. maí 2000, verið veitt gjafsókn til reksturs máls þessa fyrir héraðsdómi.
Um lagarök sé einkum vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins, laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, læknalaga nr. 53/1988, laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga, skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, og að því er varði málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. og 129. gr.
Málsástæður stefnda:
Stefndi mótmælir því, að lega vinstri handleggs stefnanda hafi verið röng við aðgerðina eða að mistök hafi átt sér stað við svæfingu. Álitsgerð fyrrverandi landlæknis á dskj. nr. 14, þar sem líklegast var talið, að óþægindi stefnanda mætti rekja til rangrar legu á handlegg við aðgerð, er ekki rökstudd. Þá liggi fyrir álitsgerð Grétars Ólafssonar, yfirlæknis á Landspítala, á dskj. nr. 17, þar sem hann telji, að vandmál stefnanda megi rekja til fylgikvilla, sem alltaf geti komið upp við aðgerðir, án þess að rekja megi þá til saknæmrar hegðunar starfsfólks. Í þriðja lagi liggi fyrir álitsgerð nefndar samkvæmt lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, sbr. dskj. nr. 22, þar sem komizt sé að þeirri niðurstöðu, að ekkert bendi til rangrar legu handleggs í aðgerðinni, en að mistök hafi orðið við svæfingu stefnanda. Í fjórða lagi liggi fyrir á dskj. nr. 28 álitsgerð Odds Fjalldal, forstöðulæknis á Landspítala, við niðurstöðu nefndar um ágreiningsmál. Forstöðulæknirinn fallist ekki á niðurstöðu nefndarinnar og telji, að hún byggi ekki á þeirri læknisfræðilegu þekkingu, sem fyrir liggi varðandi taugaskaða við skurðaðgerðir, sem hann rökstyðji síðan nánar. Í fimmta lagi liggi fyrir greinargerð Torfa Magnússonar læknis á dskj. nr. 30. Læknirinn kannist við, að þekkt sé, að áverki á brjóstgrindartaug geti komið upp í sambandi við brjóstholsaðgerðir, sem framkvæmdar séu í gegnum vinstri holhönd, en geti ekki fullyrt í tilviki stefnanda, hvort um mistök í aðgerð hafi verið að ræða. Í sjötta og síðasta lagi liggi fyrir ítarleg álitsgerð núverandi landlæknis á dskj. nr. 38. frá 18. október 1999. Niðurstaða hans og álit sé eftirfarandi:
"Ljóst er að taugaskaða Andra Snæs má rekja beint til aðgerðarinnar sem gerð var á Landspítala Hringbraut þann 29. 11. 1997. Orsakasamhengið er skýrt þó ekki sé fyllilega ljóst hvort ástæðan var staða handleggs í aðgerð eða snöggar hreyfingar þegar Andri Snær vaknaði í aðgerðarlok. Seinni skýringin er líklegri. Markmið svæfingar í aðgerðum er að vekja sjúkling í lokin og ekkert kemur annað fram en eðlilega hafi verið staðið að því. Því verður að líta á hinar snöggu hreyfingar sem slys eða alvarlegt óhapp í aðgerð fremur en rekja megi þær til beinna mistaka."
Á dskj. nr. 20 séu málavextir máls þessa og sjónarmið stefnda ítarlega reifuð af hálfu lögmanns Ríkisspítala. Í dómsmáli þessu sé byggt á sömu sjónarmiðum og málsástæðum og þar komi fram.
Sýknukrafa stefnda byggi á því, að sú læknismeðferð, sem stefnandi fékk á Landspítala hafi verið eðlileg og í samræmi við viðurkenndar starfsaðferðir. Ljóst sé, að rekja megi taugaskaða stefnanda til aðgerðarinnar, en stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að ósannað sé, að lega handleggs stefnanda í aðgerðinni hafi verið röng, eða að mistök hafi átt sér stað við svæfingu hans. Um þessi grundvallaratriði í málinu vísist fyrst og fremst til framangreindrar álitsgerðar landlæknis á dskj. nr. 38. Þar segi landlæknir m.a., að venja sé í lok aðgerðar að létta á svæfingu og reyna að stilla svo til, að sjúklingur vakni um það leyti, sem síðustu spor séu sett í húð til þess að auðvelda sjúklingi öndun eftir aðgerð. Ekki verði annað ráðið af umsögn landlæknis, en að svæfing stefnanda hafi verið eðlileg og sú staðreynd, að stefnandi vaknaði eða rumskaði í lok aðgerðar, sé ekki rakin til mistaka starfsfólks stefnda. Þvert á móti virðist beinlínis eiga að stefna að vöknun við aðgerðarlok, og hin ósjálfráðu viðbrögð stefnanda hafi því verið slys eða ígildi þess, sem útilokað sé að sjá fyrir um. Þar með geti viðbrögð stefnanda ekki leitt til bótaskyldu ábyrgðarmanna sjúkrahússins.
Í áliti nefndar um ágreiningsmál, sbr. dskj. nr. 22, sé komizt að þeirri niðurstöðu, að mistök hafi verið gerð við svæfingu stefnanda. Þessari niðurstöðu hafi verið mótmælt af Oddi Fjalldal forstöðulækni, sbr. dskj. nr. 28, þar sem sagt sé, að nefndarmenn virðist ekki hafa tileinkað sér þá læknisfræðilegu þekkingu, sem fyrir liggi varðandi taugaskaða við skurðaðgerðir. Álitið að öðru leyti telji hann byggt á veikum forsendum og rökstyðji það nánar. Fullyrði læknirinn, að taugaskaði, eins og stefnandi fékk upp úr aðgerðinni, sé vel þekktur og eigi sér oftast fleiri en eina orsök.
Um þá fullyrðingu stefnanda, að ranglega hafi verið búið um stöðu handleggs hans fyrir og í aðgerð, vísist til umsagnar landlæknis á dskj. nr. 38. Landlæknir komist að annarri niðurstöðu, þ.e. hann telji líklegast, að búið hafi verið á eðlilegan hátt um handlegginn og þar af leiðandi verði að draga þær ályktanir, að eitthvað annað hafi valdið stefnanda skaða, sbr. nánar útskýringar hans. Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, komist að ólíkri niðurstöðu, sbr. dskj. nr. 14. Hann telji líklegast, að rekja megi óþægindi stefnanda til rangrar legu á handlegg við aðgerð. Þessi fullyrðing sé algjörlega órökstudd og virðist í raun sett fram sem ósönnuð getgáta. Gera verði þá lágmarkskröfu til slíkra fullyrðinga, að þær séu rökstuddar með vísan til fyrirliggjandi gagna. Í þessu tilviki sé það ekki gert. Önnur gögn styðji heldur ekki þessa fullyrðingu, sbr. t.d. nefndarálit á dskj. nr. 22, og hljóti hún því að teljast ósönnuð.
Bótaskylda stefnda í máli þessu ráðist væntanlega af því, hvort stefnanda takist að sýna fram á bótaskyld mistök á grundvelli sakarreglunnar. Stefndi telji, að stefnanda hafi alls ekki tekizt að sýna fram á mistök starfsmanna stefnda í aðgerðinni 29. nóvember 1997. Þvert á móti sýnist flest benda til þess, að verklag lækna og hjúkrunarfólks hafi verið innan eðlilegra marka. Viðurkennt sé, að óheppilegt hafi verið að þurfa að útskýra nákvæmar síðar verklag og fyrirkomulag við aðgerð stefnanda, sbr. dskj. nr. 12. Til skýringar á dómskjali þessu verði fyrst að benda á, að læknar hafi ekki séð fyrir skaða stefnanda og hafi væntanlega ekki talið vöknun hans og viðbrögð það afbrigðileg, að nauðsyn bæri til að skrá þau niður. Í öðru lagi hafi viðbótin frá 20. ágúst 1998 verið hugsuð til þess að freista þess að útskýra málið eftir á, með tilliti til þeirra afleiðinga, sem þá voru komnar fram. Í þessu samhengi verði að meta viðbótarskráninguna. Hún út af fyrir sig sé ekkert grunsamleg og fráleitt sé, að aðdragandi og tilurð hennar skapi bótagrundvöll fyrir stefnanda. Skráning þessi hafi hjálpað til við að upplýsa málið og þar sé ekkert, sem leitt geti til bótaskyldu stefnda.
Samkvæmt framansögðu þyki stefnda einsýnt, að ekki hafi tekizt að sýna fram á bótaskyldu hans vegna aðgerðarinnar 29. nóvember 1997. Beri því að sýkna stefnda.
Örorkumati stefnanda á dskj. nr. 31 sé mótmælt. Matið sé ekki í samræmi við 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og lögin voru í nóvember 1997. Þar að auki telji stefndi nauðsynlegt, að miski og örorka stefnanda verði borinn undir örorkunefnd, eins og ráð sé fyrir gert í núgildandi 10. gr. skaðabótalag, komi krafa fram um það.
Tölulegri kröfugerð stefnanda sé mótmælt í heild sinni. Mótmælin eigi því við um alla liði í tölulegri kröfugerð stefnanda, eins og þeim sé lýst í stefnu. Tímabundnu atvinnutjóni sé mótmælt sem ósönnuðu og forsendum þess á sama hátt. Viðmiðunartímabili vegna þjáningabóta sé mótmælt sem allt of löngu og ósönnuðu. Fyrirvari sé gerður við miska og örorku stefnanda, sbr. fyrri mótmæli við örorkumat stefnanda. Nauðsynlegt sé að mótmæla tölulegum viðmiðunum stefnanda við útreikning varanlegrar örorku, en hann virðist ekki vera í samræmi við ákvæði skaðabótalaga. Öðru fjártjóni stefnanda sé á sama hátt mótmælt sem ósönnuðu og án lagaheimilda. Upphafsdegi dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi, sem og læknarnir, Kristinn Jóhannsson og Jón Bragi Bergmann, og Þuríður Bergljót Haraldsdóttir svæfingarhjúkrunarfræðingur.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því í fyrsta lagi, að lega handleggs við aðgerðina hafi verið röng. Þessa málsástæðu sína byggir stefnandi á áliti þáverandi landlæknis, sem fram kemur í bréfi til stefnanda á dskj. nr. 14, dags. 8. september 1998. Í því skjali segir svo:
“Þú gekkst undir aðgerð vegna loftbrjósts og eftir það fékkst þú minnkaðan kraft í vinstri öxl, brottfall á skyni aftan til í handleggnum og breytt skyn yfir vinstri öxl. Síðan hafa tilkomið verkir fram á brjóst. Meginvandamál eru verkjaköst. “Togáverki á neðri plexus gæti einnig skýrt skyntapið og motorísk einkenni”.
Áverkinn svarar til skemmda frá C5 og C7 taugum (motorísk) og frá C7 og C8 taugum (sensorisk).
Líklegast er að rekja megi þessi óþægindi til rangrar legu á handlegg við aðgerð.”
Ekki kemur fram í þessu bréfi landlæknis, á hvaða gögnum hann byggir niðurstöðu sína, eða hvort hann hafi sjálfur skoðað stefnanda. Álit landlæknis er ekki rökstutt frekar en þarna kemur fram.
Í málinu liggja fyrir fjölmargar álitsgerðir lækna varðandi áverka stefnanda. Í álitsgerð nefndar um heilbrigðismál samkvæmt l. nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, segir í niðurstöðu, að ekkert í framlögðum gögnum málsins bendi til, að mati nefndarinnar, að lega á handlegg hafi verið röng í aðgerðinni. Torfi Magnússon læknir, sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum, sem var með stefnanda til meðhöndlunar og skoðunar frá 27. apríl 1998, kemst að þeirri niðurstöðu í greinargerð sinni, dags. 12. október 1999, að einkenni stefnanda bendi til áverka á brjóstgrindartaug, sem tengist aðgerðinni sjálfri, en ekki legu handleggs. Núverandi landlæknir kemst að þeirri niðurstöðu í álitsgerð sinni, dags. 18. október 2000, að ljóst sé, að taugaskaða stefnanda megi rekja beint til aðgerðarinnar, en orsakasamhengið sé ekki fyllilega ljóst, þ.e. hvort ástæðan hafi verið staða handleggs í aðgerð eða snöggar hreyfingar, sem lýst er í viðbótaraðgerðarlýsingu Kristins Jóhannssonar skurðlæknis, en telur síðari skýringuna líklegri. Í niðurstöðu réttarmáladeildar læknaráðs frá 17. ágúst 2001 er spurningu dómara varðandi legu handlegs svarað svo, að ekkert komi fram í gögnum, sem bendi til þess, að staða handleggs hafi verið röng, og verði ekki annað séð en frágangur handleggs hafi verið samkvæmt því, sem tíðkist við slíkar aðgerðir, þótt ekki verði útilokað, að líkamsbygging stefnanda hafi verið slík, að stelling handleggs hafi valdið togi á taugar þær, sem liggi til armsins, þótt reglum hafi verið fylgt. Læknarnir, Kristinn Jóhannsson og Bragi Bergmann, báru báðir fyrir dómi, að lega handleggs stefnanda hefði verið samkvæmt hefðbundnum, viðurkenndum aðferðum. Í öðrum gögnum málsins en reifuð hafa verið hér að framan kemur ekkert fram, sem styður þá kenningu fyrrverandi landlæknis, að lega handleggs stefnanda hafi verið röng í aðgerðinni. Er þessari málsástæðu stefnanda því hafnað.
Í annan stað byggir stefnandi kröfur sínar á því, að mistök hafi átt sér stað við svæfingu. Þá staðhæfingu byggir stefnandi á áliti nefndar um ágreiningsmál á dskj. nr. 22. Í álitsgerðinni er byggt á því, að þær upplýsingar, sem fram koma í viðbótaraðgerðarlýsingu Kristins Jóhannssonar skurðlæknis, dags. 20. júlí 1998, um að stefnandi hafi vaknað illa undir lok aðgerðar og reynt að losa vinstri handlegg og togað bæði fram á við og aftur á við, séu réttar, og sé það langlíklegasta skýringin á skaða þeim, sem stefnandi varð fyrir við aðgerðina. Er það því niðurstaða nefndarinnar, að mistök hafi verið gerð við svæfingu stefnanda í aðgerðinni. Báðir hafa lögmenn aðila talið viðbótaraðgerðarlýsinguna ótrúverðuga, en lögmaður stefnanda talið, að byggja verði á henni að svo miklu leyti, sem það sé málstað stefnanda í hag.
Viðbótaraðgerðarlýsingin er rituð tæpum 8 mánuðum eftir að aðgerðin fór fram. Segir þar svo m.a.:
“Aðgerðin gekk eðlil. fyrir sig eins og kemur fram í aðgerðarlýsingu skrifaðri 29.11.97. Í lok aðgerðar, þegar var verið að taka síðustu sporin í húð, vaknar sj. illa, hann er þá ennþá í áðurnefndri legu og reynir að losa vi. handlegg, togar bæði fram á við og aftur á við. Sj. fær viðbótar svæfingarlyf, sjá gögn. Það tekur 1 -1½ mín. fyrir sj. að róast aftur. Sárinu er síðan lokað og umbúðir settar á sárið. Handleggur tekinn niður og sj. settur á bak. Síðan er farið með sj. vakandi og í góðu ástandi inn á vöknun.”
Í upprunalegri aðgerðarlýsingu er ekkert minnzt á, að sjúklingur hafi vaknað í lok aðgerðar og teygt handlegg.
Jón Bragi Bergmann svæfingarlæknir rakti fyrir dóminum gang aðgerðarinnar eftir svæfingarblaði, sem er fskj. með dskj. nr. 5, en þar eiga að vera skráðar allar upplýsingar um sjúkling, meðan á aðgerð stendur, s.s. lyfjagjafir, blóðþrýstingur og púls. Hvergi á blaðinu koma fram skráningar um viðbótarsvæfingarlyf í lok aðgerðar eða breytingar á blóðþrýstingi eða hjartslætti, sem bent gætu til þess, að sjúklingur hafi losað svefn og hreyft sig, eins og lýst er í viðbótaraðgerðarlýsingunni. Sérstaklega aðspurður kvaðst Jón Bragi ekki minnast þess, að stefnandi hefði vaknað upp undir lok aðgerðar og rykkt til handleggnum og bætti við, að hefði það gerzt, hefði honum verið gefið viðbótarsvefnlyf. Þuríður Bergljót Haraldsdóttir svæfingarhjúkrunarfræðingur bar á sömu lund, en hún kvaðst ekki muna eftir þessari sérstöku aðgerð.
Kristinn Jóhannsson skurðlæknir skýrði svo frá fyrir dómi, að hann myndi vel eftir aðgerðinni. Hann kvað ástæðu þess, að hann hefði ekki getið þess í upprunalegri aðgerðarlýsingu, að stefnandi hefði vaknað illa og hreyft sig í lok aðgerðar, vera þá, að hann hefði haldið, að það hefði kannski ekki þýðingu, en þegar sjúklingurinn fór að fá stirðleika í vinstri öxl, hafi hann munað þetta nákvæmlega og bætt þessu inn í. Hann hafi bara viljað vera heiðarlegur, þegar hann sá, að stefnandi var stirður í öxl. Hann kvað svæfingarlækninn ekki hafa verið viðstaddan á skurðstofunni, þegar atvikið varð, það sé ekki venja, að svæfingarlæknir sé inni undir aðgerð, en svæfingarhjúkrunarfræðingurinn hafi dregið upp lyf og gefið sjúklingnum. Aðspurður um gögn, sem hann vísar í, þegar hann fjallar um viðbótarsvæfingu í viðbótaraðgerðarlýsingunni, svaraði hann því til, að hann hefði verið að lýsa því, sem svæfingarlæknir hefði skrifað niður á svæfingarblað, sem hann kvaðst hafa fyrir framan sig. Nánar inntur eftir því kvaðst hann ekki sjá það á svæfingarblaðinu og kvaðst ekki hafa lesið þessi svæfingargögn.
Í viðbótaraðgerðarlýsingu segir, að sjúklingur hafi verið vakandi og í góðu ástandi, þegar farið með hann inn á vöknun. Kristinn var spurður nánar út í þetta atriði og bent á, að hvorki svæfingarlæknirinn né sjúklingurinn könnuðust við það. Svaraði Kristinn því til, að sjúklingurinn hefði örugglega verið tekinn úr öndunarvél og hann hefði andað sjálfur, “en ég er ekkert alveg öruggur, að hann hafi verið áttaður á öllu”.
Svo mikið ber á milli í viðbótaraðgerðarlýsingu og öðrum gögnum málsins, einkum samtíðarlýsingu, sem lesa má út úr svæfingarblaði, svo og frumlýsingu skurðlæknisins, auk þess sem í viðbótaraðgerðarlýsingunni er vitnað í upplýsingar úr gögnum, sem skurðlæknirinn hafði ekki kynnt sér, og sem ekki reyndust réttar, að viðbótaraðgerðarlýsingin verður ekki trúverðug, og verður ekkert á henni byggt um málsatvik.
Með því að niðurstaða nefndar um ágreiningsmál byggir alfarið á því, að sú frásögn sé rétt, sem fram kemur í viðbótaraðgerðarlýsingunni, en ekki tekin sjálfstæð afstaða til þess, hvort einkenni stefnanda samrýmist áverkum af þessum toga, þykir ekki unnt að byggja á henni við niðurstöðu í máli þessu.
Núverandi landlæknir byggir álit sitt einnig á atvikalýsingu í viðbótaraðgerðarlýsingunni, en í áliti hans segir, að ljóst sé, að taugaskaða Andra Snæs megi rekja beint til aðgerðarinnar og sé orsakasamhengið skýrt, þótt ekki sé fyllilega ljóst, hvort ástæðan hafi verið staða handleggs í aðgerð, eða snöggar hreyfingar, þegar stefnandi vaknaði í aðgerðarlok. Sé seinni skýringin líklegri. Með sömu rökum og hér að framan er óhjákvæmilegt að hafna niðurstöðu landlæknis, sem byggir á ósönnuðum og ótrúverðugum staðhæfingum í viðbótaraðgerðarlýsingu.
Réttarmáladeild læknaráðs, sem staðfest er af læknaráði, hafnar því í áliti sínu, að mistök hafi átt sér stað í svæfingu og bendir m.a. á, að það atvik, sem lýst er í viðbótaraðgerðarlýsingu sé ekki sönnun þess, að atburðurinn hafi verið orsök fylgikvilla þeirra, sem stefnandi hlaut, þar sem einkenni frá taugum eftir svæfingar séu þekkt og komi fyrir, án þess að um sé að ræða ótímabæra vöknun. Þá segir, að orsakasamband verði ekki rakið, hvorki af þeim læknisfræðilegu gögnum, sem fyrir liggi í málinu, né af reynslu annarra í fræðilegum upplýsingum úr vísindaritum.
Torfi Magnússon læknir kemst að þeirri niðurstöðu í greinargerð sinni á dskj. nr. 30, svo sem fyrr greinir, að stefnandi hafi orðið fyrir áverka á brjóstgrindartaug og ekki útilokað að um áverka á armflækju væri einnig að ræða. Var það mat hans, að einkenni þessi stæðu í beinum tengslum við aðgerðirnar. Er sú niðurstaða hans byggð á skoðun og prófunum, ásamt lýsingu á sjúkrasögu stefnanda. Segir í greinargerðinni, að þekkt sé, að slíkir áverkar geti komið í tengslum við brjóstholsaðgerðir, sem framkvæmdar séu í gegnum vinstri holhönd. Tekur læknirinn ekki afstöðu til þess, hvort um mistök í aðgerð sé að ræða eða ekki, þar sem hann sé ekki í aðstöðu til að meta, hvernig að aðgerðum var staðið. Þá telur hann sig ekki í aðstöðu til að leggja mat á hverja aðgerð fyrir sig, eða þátt hverrar aðgerðar í einkennum sjúklings, en eins og fram hefur komið gekkst stefnandi undir fjórar aðgerðir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað, þar sem dren var sett upp hjá honum, án árangurs.
Af öðrum gögnum í málinu verður ekkert um það ráðið, af hvaða orsökum einkenni stefnanda eru. Hafa þannig engin haldbær rök komið fram, sem styðja staðhæfingar stefnanda um, að mistök hafi orðið, hvort heldur er við frágang handleggs fyrir aðgerð, svo sem fyrr er rakið, né við svæfingu. Dómurinn telur þó sennilegt, miðað við þær upplýsingar, sem fyrir liggja í málinu, að einkennin megi rekja til aðgerðarinnar á Landspítalanum 29. nóvember 1998. Það er álit hinna sérfróðu meðdómsmanna, að þau svari vel til skaða á brjóstgrindartaug (intercostobrachial taug), eins og lýst er í álitsgerð Torfa Magnússonar á dskj. nr. 30, og geti verið afleiðing aðgerðarinnar, án þess að vanræksla í framkvæmd aðgerðar, óheppileg staða handleggs eða óhóflegt tog á handlegginn í aðgerðinni þurfi að hafa komið til sem orsakaþættir.
Stefnandi byggir að lokum á því, að hann hafi ekki verið upplýstur um áhættu samfara aðgerðinni, áður en hún var gerð.
Skurðlæknirinn, Kristinn Jóhannsson, skýrði svo frá fyrir dómi, að hann væri ekki vanur skýra sjúklingum frá öllum aukakvillum, sem upp geti komið við aðgerðir, allar aðgerðir hafi einhverja hættu í för með sér. Þykir því mega byggja á því, að stefnanda hafi ekki verið skýrt frá áhættu eða mögulegum aukaverkunum af aðgerðinni.
Skurðlæknirinn skýrði svo frá, að ekki hefði verið um aðrar leiðir að ræða í tilviki stefnanda. Hann hafi verið með samfallið lunga, sem hefði verið reynt að laga í fjórgang á Neskaupstað, með því að setja slöngu í vinstra brjósthol og halda lunga hjá honum þöndu. Ástæða þess, að lungað féll saman, hafi verið klasi af blöðrum á lungnatoppi, en þær hafi verið of margar til þess að önnur aðferð hefði dugað.
Stefnandi svaraði svo fyrir dómi, aðspurður um, hvort hann hefði átt einhverja aðra kosti en skurðaðgerð. “Ég gat náttúrlega ekki lifað með lungað svona, þeir voru búnir að reyna þarna aðrar aðgerðir nokkrum sinnum á Norðfirði, áður en ég kem suður.”
Með vísan til framanritaðs þykir sýnt, að stefnandi hafi ekki átt aðra kosti en aðgerðina, og ekki sennilegt, að hann hefði hafnað aðgerð, enda þótt honum hefði verið skýrt frá mögulegum aukaverkunum hennar, og hefur stefnandi enda ekki haldið því fram. Það eitt, að honum var ekki skýrt frá mögulegum aukaverkunum, nægir því ekki til sakfellis.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 600.000, greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. útlagður kostnaður. Ekki hefur verið litið til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn áamt meðdómsmönnunum Birni Geir Leifssyni lækni og Sveini Geir Einarssyni lækni.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenzka ríkið, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Andra Snæs Sigurjónssonar, í máli þessu.
Málkostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 600.000, greiðist úr ríkissjóði.