Hæstiréttur íslands
Mál nr. 323/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 24. maí 2011. |
|
Nr. 323/2011. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Óli Á. Hermannsson saksóknarfulltrúi) gegn X (Jóhannes Árnason hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. maí 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. maí 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. júní 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 23. mars 2011 á grundvelli rannsóknarhagsmuna samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með hinum kærða úrskurði er varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laganna. Fallist verður á með sóknaraðila að sterkur grunur leiki á að varnaraðili hafi framið afbrot sem varðað geti 10 ára fangelsi. Þegar litið er til hins mikla magns þeirra efna sem um ræðir og hættueiginleika þeirra þykir mega ætla að gæsluvarðhaldið sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. maí 2011.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krefst þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. júní 2011 kl. 16:00.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hrundið.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot á lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í kröfu lögreglustjórana kemur m.a. fram að tilkynning hafi borist lögreglu frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 22. mars 2011 um að kærði hefði verið stöðvaður við tollhlið ásamt ferðafélaga sínum, A, með ferðatösku sem grunur væri um að innihéldi fíkniefni. Við skoðun á ferðatöskunni hafi komið í ljós að hún hafi verið með falskan botn. Við skoðun tæknideildar hafi komið í ljós umtalsvert magn af meintum fíkniefnum sem hafi verið falin í fölskum botni töskunnar. Samtals hafi fundist 36.604 stk. af E-töflum og 4.471 stk. af LSD-t-öflum. Kærði hafi verið yfirheyrður en framburður hans verið á reiki. Rannsókn málsins sé nú lokið og verði málið sent ríkissaksóknara í dag.
Málið sé stórfellt og ljóst sé að um mikið magn fíkniefna sé að ræða. Einangrun hafi verið aflétt af kærða.
Lögreglan telji að fíkniefnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar. Með tilliti til hagsmuna almennings telji lögreglan að nauðsynlegt sé að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan að mál hans sé meðferðar.
Kærði hefur viðurkennt að eiga þátt í stórfelldu fíkniefnabroti. Framburður hans hjá lögreglu hefur hins vegar verið mjög á reiki og hefur hann slegið úr og í varðandi þátt sinn í brotinu. Öruggt má telja að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot er því alvarlegt og verður því talið að það sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fullnægt og verður því krafa lögreglustjórans tekin til greina.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. júní 2011, kl. 16.00.