Hæstiréttur íslands

Mál nr. 336/2014


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur
  • Skilorð
  • Dráttur á máli
  • Aðfinnslur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 29. janúar 2015.

Nr. 336/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Gunnari Friðbergi Jóhannssyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.

Jóna Björk Helgadóttir hdl.)

(Páll Arnór Pálsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Skaðabætur. Skilorð. Dráttur á máli. Aðfinnslur.

G var sakfelldur fyrir kynferðisbrot, sem talin voru varða við 199. gr., 2. mgr. 202. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og brot gegn barnaverndarlögum gagnvart fimm stúlkum. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að G hefði ekki áður sætt refsingu, en jafnframt haft í huga að brot hans beindust að stúlkum á viðkvæmum unglingsaldri sem hann hafði afskipti af í félags- og ungmennastarfi. Með því hefði G brugðist trúnaðartrausti þeirra. Var refsing G ákveðin fangelsi í níu mánuði. Að virtum drætti á rannsókn málsins og meðferð þess í héraði svo og undir áfrýjun málsins var fullnustu refsingarinnar frestað og félli hún niður að liðnum tveimur árum héldi G almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga. Þá var G gert að greiða brotaþolum skaðabætur, að fjárhæð 250.000 krónur til fjögurra þeirra en 150.000 krónur til þess fimmta.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara ómerkingar héraðsdóms en að því frágengnu refsimildunar. Einnig krefst ákærði þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi en til vara lækkunar þeirra.

A, B, C, D og E krefjast þess, hver fyrir sitt leyti, að ákærða verði gert að greiða sér 900.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola í héraði sem ákveðin verður með virðisaukaskatti vegna hvers brotaþola fyrir sig 188.250 krónur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Eins og fram kemur í héraðsdómi dróst meðferð máls þessa úr hömlu af ástæðum sem ákærða verður ekki um kennt. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 21. mars 2014 en þá voru liðin rúm þrjú ár frá því brotum ákærða lauk. Hann tilkynnti um áfrýjun héraðsdóms með bréfi sem barst ríkissaksóknara 8. apríl 2014 og fékk ríkissaksóknari sama dag sendar dómsgerðir í málinu frá héraðsdómi með endurritum af skýrslum sem gefnar voru fyrir dómi. Málsgögn bárust á hinn bóginn ekki Hæstarétti fyrr en 16. október 2014. Þegar virt er sú töf sem hafði orðið við meðferð málsins áður en dómur gekk í héraði var enn brýnni ástæða en ella til að rekstur þess færi ekki frekar úr skorðum hvað málshraða varðar. Sá dráttur sem varð á meðferð málsins frá því tilkynnt var um áfrýjun og þar til málsgögn bárust Hæstarétti hefur ekki verið skýrður með haldbærum rökum. Er hann aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola í héraði sem skal samtals vera 941.250 krónur.

Ákærði, Gunnar Friðberg Jóhannsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.310.468 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 21. mars 2014.

                Mál þetta, sem tekið var til dóms 24. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 19. júní 2013 á hendur ákærða, Gunnari Friðberg Jóhannssyni, kt. [...], til heimilis að [...], [...]

„fyrir eftirfarandi kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum framin í húsnæði Leikfélags [...] [...],[...], nema annað sé tekið fram, frá nóvember 2010 fram í janúar 2011:

I.

Gegn A, kennitala [...], sem þá var 14 ára, með  því að  hafa ítrekað haft á orði að hún væri með flott brjóst og flottan rass, í þrjú skipti snert brjóst hennar utan klæða, í fimm skipti snert rass hennar utan klæða og í eitt skipti losað brjóstahaldara hennar.

Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Gegn B, kennitala [...], sem þá var 15 ára, með því að hafa snert rass hennar utan klæða í a.m.k. fjögur skipti og snert brjóst hennar utan klæða a.m.k. tvisvar.

Telst þetta varða við 199. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 88/2000.

III.

Gegn C, kennitala [...], sem þá var 14 til 15 ára, með því að hafa í eitt skipti losað brjóstahaldara hennar, í a.m.k. fjögur skipti reynt að losa brjóstahaldara hennar, í a.m.k. fjögur skipti snert brjóst hennar utan klæða og snert rass hennar utan klæða í a.m.k. 5 skipti.

Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga fram til 25. desember 2010 en við 199. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga eftir það.

IV.

Gegn D, kennitala [...], sem þá var 15 ára, með því að hafa ítrekað snert rass hennar utan klæða og losað brjóstahaldara hennar í tvö skipti.

Telst þetta varða við 199. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

V.

Gegn E, kennitala [...], sem þá var 14 ára, með því að hafa í samskiptum á netinu spurt hana „í hvernig nærbuxum ertu“.

Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

 Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu F, kennitala [...], f.h. A, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð kr. 900.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu úr hendi ákærða samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.

Af hálfu G, kennitala [...], f.h. B, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð kr. 900.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu úr hendi ákærða samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.

Af hálfu H, kennitala [...] (svo) f.h. C, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð kr. 900.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu úr hendi ákærða samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.

Af hálfu I, kennitala [...] f.h. D, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð kr. 900.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu úr hendi ákærða samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.

Af hálfu J, kennitala [...], f.h. E, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð kr. 900.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu úr hendi ákærða samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“              

             Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að öllum bótakröfum verði vísað frá dómi og verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna sem greiðist úr ríkissjóði.

Málavextir.

                Með bréfi dagsettu 17. febrúar 2011 óskaði fjölskyldu- og fræðslusvið [...] eftir lögreglurannsókn vegna ætlaðrar óviðeigandi hegðunar ákærða gagnvart unglingsstúlkum, en hann var starfsmaður frístundahússins [...]. Í greinargerð sem fylgdi kærunni kemur fram að könnun málsins samkvæmt 35. gr. barnaverndarlaga væri hafin. Hefði ákærða verið vísað úr starfi tímabundið, enda krefðust hagsmunir barnanna þess að þegar yrði gripið til aðgerða þar sem fyrir dyrum hafi staðið ferð þeirra til fastalandsins og hafi ákærði átt að vera einn af fararstjórunum. Fram kemur í greinargerðinni að könnun málsins hafi falist í viðtölum við fimm stúlkur sem tilkynnt hefði verið um að hefðu orðið fyrir áreitni eða óviðeigandi hegðun af hálfu ákærða, viðtölum við foreldra stúlknanna og upplýsingaöflun hjá formanni Leikfélags [...]. Hafi könnunin leitt í ljós að ákærði virtist eiga í óviðeigandi samskiptum við a.m.k. fimm unglingsstúlkur á aldrinum 14-16 ára. Léki grunur á því að athæfið varðaði við kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga og var áreitnin m.a. talin hafa átt sér stað í tölvusamskiptum en einnig með líkamlegum snertingum og orðaskiptum, hvort tveggja af kynferðislegum toga. Hefði þessi áreitni einkum átt sér stað á æfingum hjá [...]félagi [...], en flestar stúlkurnar hefðu tekið þátt í uppsetningu hjá félaginu síðastliðna önn, en ákærði hefði einnig verið þátttakandi. Ákærði hafi ekki virst sýna þessa hegðun af sér þegar hann hafi verið í starfi hjá frístundahúsinu en stúlkunum hafi þótt nærvera hans þar óþægileg vegna samskipta við hann annars staðar.

                Í greinargerðinni er gerð grein fyrir viðtölum nefndarmanna við brotaþolana fimm í máli þessu og kemur þar fram að brotaþolinn B, kt. [...], hafi fyrst mætt í viðtal 18. janúar 2011 og hafi hún þá ekki viljað að nafn hennar kæmi fram. Í viðtali 9. febrúar sama ár hafi hún frekar viljað að nafn hennar kæmi fram en að gerandi kæmist upp með að gera rangt ítrekað. Í símtali við móður B daginn eftir hafi verið lögð áhersla á að stúlkurnar fengju að vera saman í þessu þar sem þær fengju stuðning hver af annarri. Í greinargerðinni kemur fram að brotaþolinn E, kt. [...], hafi greint frá óviðeigandi samskiptum við ákærða en móðir hennar talið reynslu hennar eina og sér kannski ekki gefa ástæðu til kæru, en hún hefði ekki á móti því að nafn hennar kæmi fram ef hinar stúlkurnar kæmu einnig fram. Í greinargerðinni er haft eftir brotaþolanum D, kt. [...], að hún hafi lengi verið óviss með hversu óviðeigandi hegðun ákærða hafi verið þar sem hann hafi látið sem hann snerti hana óvart. Hafi hún og aðrar stúlkur í leikritinu farið að ræða málin og uppgötvað að hann væri að gera þetta við fleiri og ólíklegt væri að um óviljaverk væri að ræða. Þá kemur fram í greinargerðinni að brotaþolinn C, kt. [...], hafi greint frá óviðeigandi samskiptum við ákærða og þá er greint frá stúlku fæddri 1996 sem hafi sagst hafa orðið fyrir áreitni af  hálfu ákærða sem túlka mætti sem óviljandi snertingar en henni hafi engu að síður þótt þær óþægilegar. Þegar hún hafi farið að ræða málin við aðrar stúlkur sem upplifað hefðu hið sama hafi þær verið sammála um að ólíklegt væri að um óviljaverk væri að ræða. Þessi stúlka vildi ekki að nafn hennar kæmi fram á þessu stigi en síðar kom í ljós að um var að ræða brotaþolann A, kt. [...].

                Í vottorði K, starfsmanns barnaverndarnefndar [...], dagsettu 1. mars 2011, kemur fram að rætt hafi verið við brotaþolann B þann 18. janúar sama ár. Hún kvað ákærða hafa tekið utan um hana, látið höndina renna niður á rass, beðist þá afsökunar og sagst hafa rekist í hana. Hafi B talið lítinn sem engan möguleika vera á því að hann hafi rekist í hana óvart svona ítrekað.

                Í vottorði L félagsráðgjafa og M sálfræðings, dagsettu 8. mars 2011, kemur fram að rætt hafi verið við brotaþolann C um samskipti hennar við ákærða. Hún hafi greint frá því að ákærði hafi áreitt sig talsvert á æfingum í leikfélaginu, hann hafi látið sig detta á brjóst hennar, hneppt brjóstahaldaranum frá og sett höndina á stól áður en hún settist ofan á hönd hans. Þá hafi hann haldið um rass hennar þegar leikarar fóru í hring á æfingum.

                Í vottorði L félagsráðgjafa, dagsettu 8. mars 2011, kemur fram að brotaþolinn E hafi komið ásamt móður sinni í tvö viðtöl til starfsmanns barnaverndar. Hafi hún sagt óviðeigandi samskipti ákærða að mestu hafa átt sér stað í gegnum tölvu, msn og facebook. Hún hafi ekki upplifað óviðeigandi samskipti í félagsmiðstöðinni og ekki orðið fyrir líkamlegri snertingu af hans hálfu. Brotaþoli hafi afhent lögreglu endurrit samskipta á facebook sem  hún hafi sagt stafa frá ákærða, en þar komi fram að hann hafi spurt hana „í hvernig nærbuxum ertu?“, en síðar í sömu skilaboðum standi „neei djóóóók!“.

                Í vottorði M sálfræðings, dagsettu 7. mars 2011, vegna brotaþolans D kemur fram að allt frá því æfingar hófust um haustið hafi ákærði sýnt af sér hegðun  sem henni hafi þótt óþægileg. Hann hafi hrasað ítrekað þannig að hendur hans hafi lent á brjóstum hennar og síðan beðist afsökunar. Þegar leikendur hafi myndað hring í lok æfingar hafi hann sótt í að vera við hlið hennar og lagt hendur á rassinn á henni.

                Brotaþolinn A gaf skýrslu hjá lögreglu þann 6. apríl 2011. Skýrði hún frá því að ákærði hafi verið sérstaklega vinsamlegur við hana, lýst því að hún væri með flottan rass og brjóst í búningnum sem hún léki í. Hann hafi slegið í rassinn á henni, síðan farið að klípa í rassinn á henni og þóst detta á hana og þá snert brjóstin en alltaf sagt fyrirgefðu. Þegar farið hafi verið í hring fyrir leiksýningar hafi hann strokið henni um mjöðmina, strokið hárið og þetta hafi aukist þar til hann hafi verið farinn að koma við rassinn eða brjóstin eða strjúka hárið fjórum til sex sinnum á dag. Þá hafi hann klappað henni á lærin og losað brjóstahaldarann.

                Brotaþolinn B gaf skýrslu hjá lögreglu þann 6. apríl 2011. Hún kvað ákærða ítrekað hafa sagt við sig hvað hún væri sæt og falleg og ef hann væri yngri myndi hann reyna við hana. Hann hafi knúsað hana og rennt höndunum á rassinn og hafi þetta gerst fjórum til fimm sinnum. Hann hafi haft samband við hana á samskiptamiðlinum formspring og lýst því hve hann langaði til að knúsa hana og kyssa en kærasta hans og barn hindruðu hann í því. Þá hafi ákærði þóst snerta brjóst hennar óvart tvisvar til þrisvar sinnum.

                Brotaþolinn C gaf skýrslu hjá lögreglu þann 5. apríl 2011. Hún kvað ákærða hafa horft á milli brjósta hennar, knúsað hana og haldið utan um rassinn á henni. Þá hafi hann reynt að losa brjóstahaldarann og ítrekað gengið með höndina á lofti til þess að rekast á brjóst hennar.

                Brotaþolinn D gaf skýrslu hjá lögreglu þann 5. apríl 2011. Hún kvað ákærða alltaf hafa gengið lengra og lengra eftir að hafa fyrst verið góður við hana. Hann hafi byrjað að strjúka bakið en farið neðar og neðar og í hringnum fyrir leiksýningar hafi hann oft tekið um rassinn á henni. Þá hafi hann leyst brjóstahaldara hennar tvisvar, knúsað hana og sett hendur á rassinn á henni. Þá hafi hann haft samband við hana á formspring og spurt hvort henni þætti gott að láta strjúka á sér rassinn og í kjölfarið hafi hann komið til hennar og farið að strjúka rassinn á henni. Þá hafi hann einu sinni náð að setja lófann undir rassinn á henni áður en hún settist og ítrekað rekist í brjóstin á henni.

                Brotaþolinn E gaf skýrslu hjá lögreglu þann 6. apríl 2011. Hún kvað ákærða hafa sýnt sér óviðeigandi hegðun í félagsmiðstöðinni og haft samband við hana á facebook og talað eins og hann væri jafngamall henni. Hún kvaðst hafa hundsað skilaboð frá honum en hann hafi haldið áfram að senda henni. Hann hafi spurt hana á facebook í hvernig nærbuxum hún væri en sagt svo „djók“ á eftir.

                Í vottorðum N, sálfræðings hjá Barnahúsi, dagsettum 26. janúar 2012, sem varða alla brotaþola, kemur fram að barnaverndarnefnd [...] hafi óskað eftir sérfræðilegri greiningu og meðferð fyrir brotaþolana með tilvísun sem borist hafi Barnahúsi 8. apríl 2011. Í vottorðunum kemur fram að í viðtölum hafi verið notuð Áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð þar sem lögð sé áhersla á fræðslu um eðli og afleiðingar kynferðisbrota ásamt því að hjálpa unglingnum að takast á við þessar afleiðingar með því að læra betri leiðir til að takast á við hugsanir og tilfinningar sem séu algengar hjá þolendum kynferðisbrota. Meðferðin byggist á fræðslu, streitustjórnun, tilfinningatjáningu, hugrænni úrvinnslu og berskjöldun þar sem barninu sé hjálpað að horfast í augu við áfallareynslu sína. Þá kemur fram í vottorðunum að í fyrstu þremur viðtölunum hafi sálfræðingurinn hitt alla brotaþola saman og hafi komið fram hjá þeim að þeim hafi fundist erfitt að segja frá ætluðu kynferðisbroti við skýrslutöku hjá lögreglu. Þær hafi allar verið mjög niðurbrotnar þegar þær  hafi rætt samskipti við ætlaðan geranda og hafi þær tárast mikið í fyrstu tveimur viðtölunum og augljóst að umræðuefnið hafi verið þeim þungbært. Þær hafi sagst hafa treyst ætluðum geranda og litið upp til hans, en hann hefði síðan brugðist trausti þeirra og farið freklega yfir þeirra mörk án þess að þær hefðu náð að átta sig á því gerast. Þær hafi fundið fyrir mikilli vanlíðan vegna ætlaðra snertinga og athugasemda um útlit og vaxtarlag sem þær hafi upplifað sem óviðeigandi, sérstaklega í ljósi þeirrar yfirburðastöðu sem ætlaður gerandi hafi verið í vegna starfa sinna í frístundamiðstöð og leikfélagi. Þá hafi þeim fundist mjög erfitt að mæta ætluðum geranda á förnum vegi eða í sundi.

                Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu vegna ásakana brotaþolanna fimm þann 9. maí 2011. Hann kannaðist ekki við að hafa snert þær með þeim hætti sem þær lýstu en hann kannaðist við að strákarnir hafi verið að metast um það að geta losað brjóstahaldara með einni snertingu. Hafi þetta tíðkast í mörg ár að stríða stelpunum með þessum hætti. Ákærði útilokaði ekki að í atganginum í leikhúsinu hafi hann snert rass einhverra brotaþolanna án þess að veita því sérstaka athygli. Ákærði kannaðist við að hafa losað um brjóstahaldara hjá brotaþolunum C og D. Hann mundi ekki eftir því að hafa spurt brotaþolann E um það í facebook samskiptum í hvernig nærbuxum hún væri.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

 Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann kannaðist við að hafa losað brjóstahaldara brotaþolans A. Um hafi verið að ræða svokallaðan ærslaleik í leikfélaginu og hálfgerður metingur í strákunum, hvort það væri hægt að losa brjóstahaldara með einni hendi utan klæða. Hún hafi staðið einhvers staðar í salnum og þá hafi hann farið aftan á bakið og stungið puttanum undir klemmuna, klemmt saman þannig að hún losnaði. Ákærði mundi ekki viðbrögð hennar við þessu. Hann kvað þetta ekki hafa verið af kynferðislegum toga og hefðu aðrir strákar tekið þátt í þessum leik og allar stelpurnar í húsinu að hann hélt. Ákærði kannaðist ekki við að hafa talað um að A væri með flott brjóst og flottan rass og þá kannaðist hann ekki við að hafa snert rass hennar og brjóst. Hann kvaðst ekki hafa vitað nákvæmlega hversu gömul hún var en hélt að hún hefði verið fjórtán til sextán ára. Ákærði mundi eftir að hafa faðmað A en hún hafi ekki gert neinar athugasemdir við faðmlögin og þá hafi ekki komið fram að henni hafi fundist þau óeðlileg eða óæskileg. Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu um að vel geti verið að hann hafi  sagt við brotaþolann A að hún væri með flottan rass og flott brjóst. Ákærði kvaðst hafa verið í miklu uppnámi í skýrslutöku hjá lögreglu, það gæti vel verið að hann hefði sagt þetta. Þá var borinn undir hann framburður hans hjá lögreglu þess efnis að hann hafi snert rass A utan klæða og jafnframt að vel gæti verið að hann hefði klipið hana eða slegið í rassinn í einhverjum atgangi án þess að hann myndi það sérstaklega. Ákærði kvað vel geta staðist að hann hefði sagt þetta hjá lögreglu en hann kannaðist ekki sérstaklega við þetta. Um væri að ræða einhvers konar viðmót sem ákærða hafði þótt gegnumgangandi í leikfélaginu, fólk var að hnýta og pota og kitla og klípa og rassskella og svoleiðis.

 Ákærði kannaðist hvorki við að hafa snert rass brotaþolans B né snert brjóst hennar utan klæða sér vitandi eins og hann komst að orði en hann kannaðist við að hafa faðmað hana eins og alla aðra í leikfélaginu. Hann kvað geta verið að hann hefði snert hana í ærslagangi eða atgangi í leikhúsinu án þess að hann myndi sérstaklega eftir því. Hann kvaðst hafa vitað að hún væri 14 ára gömul og hafi samskipti hans við hana verið góð og hafi hún aldrei brugðist illa við honum. Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þess efnis að hann hafi sett hendurnar utan um axlirnar eða mjóbakið á henni og kreist hana að sér og klappað á henni bakið. Þá gæti það vel hafa gerst þegar hann hafi faðmað fólk að hann hafi snert rassinn á því þegar hann hafi verið að fara frá því og sleppt höndunum af því. Hann kvaðst ekki hafa fundið að þessum brotaþola hafi fundist þetta óþægilegt.  

 Ákærði kannaðist við að hafa losað brjóstahaldara brotaþolans C eins og lýst er í ákæru og kvaðst hann hafa talið að hún væri 14 eða 15 ára, en þetta hafi gerst í ærslagangi innan leikfélagsins. Ákærði mundi ekki hvort hún hefði beðið hann um að hætta en ef svo hefði verið hefði hann hætt. Ákærði kannaðist ekki við að hafa snert hana að öðru leyti en bara til að faðma hana við sömu aðstæður og hann lýsti varðandi aðra brotaþola. Hann kynni að hafa snert rass hennar óvart en ekki hefði verið um ásetning að ræða. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að henni þætti þetta óþægilegt. Ákærði kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því meðan á þessu stóð að brotaþoli gæti hafa upplifað það að hann hafi losað brjóstahaldara hennar sem kynferðislega áreitni.

Ákærði kannaðist við að hafa losað brjóstahaldara brotaþolans D eins og lýst er í ákæru, en þetta hafi gerst í ærslagangi innan leikfélagsins. Ákærði kannaðist ekki við að hafa snert hana að öðru leyti en bara til að faðma hana við sömu aðstæður og hann lýsti varðandi aðra brotaþola. Hann kynni að hafa snert rass hennar óvart en ekki hefði verið um ásetning að ræða.   Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þess efnis að hann hafi í umræddum hring haldið utan um mjöðmina á henni og hrist hana til og þá gæti vel verið að hann hafi slysast til þess að grípa um rassinn á henni en ekki mjöðmina. Ákærði kvað þetta geta staðist, hringnum væri auðveldast að lýsa þannig að íþróttamenn eða fótboltamenn fara saman í hring og klappa hver öðrum þegar þeir fara út úr honum.  Þau hafi staðið þarna öll þétt saman í hring og klappað hvert öðru og hrist hvert annað.  Snerting gæti hafa átt sér stað  en hann kannaðist ekki sérstaklega við að hafa snert rassinn á þessum brotaþola.

Ákærði kannaðist við að hafa verið í samskiptum á facebook við brotaþolann E og hann mótmælti því ekki að hafa spurt hana í hvernig nærbuxum hún væri. Hann kvaðst ekki muna sérstaklega eftir þessu tilviki en taldi að um grín hefði verið að ræða. Ákærði kvað slíka spurningu alla jafna vera af kynferðislegum toga en hún hafi ekki verið þannig meint í þessu tilviki. Ákærði benti á að hann hafi sett „djók“ fyrir aftan en það þýddi að hann hefði verið að fíflast. Gæfi það væntanlega í skyn að hún ætti ekki að svara spurningunni vegna þess að hann hafi ekki langað að vita svarið.

Brotaþolinn A skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði hafi verið mjög vingjarnlegur við hana í upphafi, hann hafi brosað til hennar og viljað vera vinur hennar. Fyrsta mánuðinn, eða í nóvember, hafi  hann verið að brosa og blikka til hennar og kvaðst hún ekki hafa tekið það nærri sér, þetta væri bara karakterinn hans. Í desember  hafi hann byrjað að strjúka læri og koma við rass og brjóst. Hann hafi verið að ganga fram hjá henni, dottið hálfpartinn á hana með hendurnar uppi og rekist utan í hana. Hann hafi alltaf sagt, úps, fyrirgefðu og kvaðst brotaþoli þá hafa farið að taka þessu þannig að þetta væri henni að kenna. Hún kvaðst hafa sagt við sjálfa sig að þetta væri ekkert af því að hann segði alltaf fyrirgefðu. Þegar þetta hafi hins vegar gerst nokkrum sinnum á dag í langan tíma þá sé þetta ekkert óvart. Maður detti ekkert á brjóstin á manneskju þrisvar til sex sinnum á dag. Hún kvaðst eitt sinn hafa verið að horfa á sig í speglinum og ákærði hafi setið í sófanum og farið að lýsa því hvernig hún væri í búningnum og sagt síðan að hún væri með flottan rass og flott brjóst í þessum búningi, að hún væri voðalega flott í þessum búningi. Þetta hafi verið þunnur samfestingur með frönskum rennilás sem náð hafi alveg upp. Hún kvaðst á þessum tíma hafa verið rosalega óþroskuð, ekki komin með brjóst og hafi henni fundist þetta ógeðslegt. Hún kvaðst hafa gengið í burtu og fundist rosalega óþægilegt að svona fullorðinn maður væri að segja eitthvað svona við hana. Þetta hafi haldið svona áfram rosa mikið, slá í rass og klípa og koma og horfa á hana eins og hann ætti hana. Þau hafi alltaf farið í hring áður en þau fóru inn í salinn þar sem þau hafi haldið hvort utan um annað. Þær D hafi alltaf verið saman en ákærði hafi alltaf komið á milli þeirra. Hann hafi haldið utan um mjaðmir þeirra og strokið þær og ef hann hafi haldið um höfuð þeirra hafi hann strokið þeim báðum í einu um hárið. Hún kvað ákærða hafa komið við rassinn á henni í hálfgerðu gríni eins og allir aðrir hefðu tekið þessu. Allir hafi setið saman í sófanum, ákærði hafi eitthvað verið að grínast og slegið í rassinn og farið að hlæja. Brotaþoli kvaðst einnig hafa séð ákærða gera þetta við brotaþolana B og D og hafi þetta gerst oft á dag. Hann hafi komið við rassinn og lærin á þeim þegar þau hafi setið saman í sófanum. Hann hafi klipið í þær þegar þær hafi staðið upp. Þá taldi hún ákærða hafa snert á henni brjóstin fjórum til sex sinnum. Þá hafi ákærði í eitt skipti losað brjóstahaldara hennar þegar þau hafi setið í sófanum og verið að spjalla. Hafi honum fundist þetta rosalega fyndið en hún kvaðst hafa beðið hann að festa hann aftur.

Hún kvaðst hafa sagt O bróður sínum frá þessu og þá hafi hann sagt henni að aðrar stelpur segðu að hann gerði þetta líka við þær.  Bróðir hennar hafi hins vegar ekki trúað því að ákærði gæti gert svona. Hafi brotaþoli þá hugsað að ef hún segði frá myndi enginn trúa henni. Hún kvaðst hafa rætt þetta mikið við D vinkonu sína. Þegar ákveðið hefði verið að ákærði færi með þeim í Samfés ferðalag hafi stelpurnar hist og ákveðið að fara ekki. E hafi síðan ákveðið að segja kennaranum sínum frá. Í framhaldi af því kvaðst hún hafa sagt móður sinni og kennaranum sínum frá atvikum. Hún kvað þær stelpurnar hafa farið að tala saman um háttsemi ákærða og hafi þá komið í ljós að þær hefðu eiginlega sömu sögu að segja um hann, þetta hafi gerst oftar hjá sumum og sjaldnar hjá hinum. Hún taldi að þessari háttsemi ákærða hefði verið lokið um það bil sem hún átti afmæli þann 15. janúar 2011.

 Vitnið F, móðir brotaþolans A, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi fengið vitneskju um það sem hafi gerst í foreldraviðtali, en þá hafi komið fram að eitthvað væri í gangi gagnvart öðrum stúlkum. Brotaþoli hafi síðar sagt henni frá því sem hafi gerst en hún hafi ekki lýst því í smáatriðum en hún hafi lýst því að ákærði hefði snert hana á óþægilegan hátt en það eigi ekki að koma fyrir fjórtán ára krakka. Hún kvaðst hafa orðið vör við breytingar á líðan brotaþola á þessum tíma, hún hafi farið mikið inn í sjálfa sig. Hún kvað O son sinn hafa verið í leikhúsinu á þessum tíma og kvaðst hún hafa orðið ofsalega reið við hann þegar brotaþoli hafi sagt henni að hún hafi sagt bróður sínum frá atvikum, henni hafi fundist að hann ætti að passa hana og þá hafi hún litið á ákærða sem vin bróður síns.

                 Brotaþolinn B skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði hafi byrjað á því að vinna traust hennar í leikhúsinu og hafi hann viljað vera vinur hennar. Hafi fyrst verið um að ræða venjuleg faðmlög og knús en allt í einu hafi hann byrjað á því að færa höndina niður á rassinn á henni. Hafi það gerst í fjögur til fimm skipti, oftast þegar hún hafi verið að koma inn í leikhúsið. Þá hafi hann alltaf þegar hún mætti honum á göngum í leikfélaginu labbað þannig með hendurnar uppi að hann myndi óvart snerta brjóstin á henni og hafi þetta gerst a.m.k. í tvö skipti. Hann hafi alltaf sagt afsakið eða fyrirgefðu en eftir á hafi hún fattað að svona oft geti ekki verið óvart. Þegar hann hafi verið að knúsa hana hafi hann alltaf fært hendurnar niður. Hún mundi ekki til þess að hún hefði beðið ákærða um að hætta þessu, enda hefði hún verið fjórtán, fimmtán ára og ekki vitað hvernig hún hefði átt að stöðva slíkan mann. Hún kvað sér hafa liðið ömurlega og verið hrædd. Hún kvaðst ekki hafa sagt neinum frá þessu en þegar hún og brotaþolarnir A, C og D hafi í nóvember eða desember farið að tala saman hafi þær séð að hann hafi verið að gera þetta við þær allar. Þær hafi séð að eitthvað væri rangt við þetta og hafi E þá farið að tala við kennarann sinn um þetta. Hún kvaðst hafa sagt móður sinni frá þessu í janúar eða febrúar en áður hefði hún verið búin að segja P vinkonu sinni frá atvikum. Hún kvaðst hafa hætt að mæta í félagsmiðstöðina um þetta leyti af því ákærði hafi verið þar. Hún kvað að ákærði hefði verið vinur allra, hann hafi verið fyndinn og skemmtilegur og hafi hann í byrjun unnið sér inn traust. Hann hafi síðan hægt og rólega í einhverjum skrefum farið að gera óviðeigandi hluti. Hún kvaðst á þessum tíma hafa fundið fyrir óöryggi, kvíða og vanlíðan og verið oft mjög hrædd. Ákærði hafi leikið teiknimyndapersónu í þessu leikriti og ef hún sjái þessa teiknimyndapersónu þá fái hún ógeð yfir sig. Hún kvaðst ekki hafa séð ákærða gera neitt við A og C en hún kvaðst hafa séð hann snerta brjóst D. Þá mundi hún ekki hvort hann hefði losað brjóstahaldara hjá A eða D.

 Vitnið G, móðir brotaþolans B skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hefði komið til sín í janúar eða febrúar 2011 og sagt sér hvað hefði gerst. Hún hafi sagt ákærða hafa þuklað hana að utanverðu, rassinn þrisvar til fjórum sinnum, brjóstin alla vega tvisvar og látið einhver óviðeigandi orð falla. Hafi þetta gerst í leikhúsinu, byrjað í nóvember 2010 og staðið eitthvað fram í janúar 2011. Hún sagði brotaþola hafa verið mjög hrædda, henni hafi liðið mjög illa og átt erfitt með að segja frá þessu. Hún hafi sótt félagsmiðstöðina á þessum tíma, en ákærði hafi einnig verið þar. Vitnið kvaðst ekki hafa áttað sig á því fyrr en eftir á að hún hafi ekki viljað fara þangað með vinkonum sínum, en hún kvaðst ekki hafa tengt það því að ákærði hafi verið þar. Hún kvað það hafa verið vissan létti hjá brotaþola að hafa sagt frá þessu, en hún hafi verið óskaplega hrædd, hún hafi verið mjög viðkvæm og svolítið þung. Hún kvað brotaþola hafa leitað til sálfræðings árið 2012, þær hafi farið í tvö skipti og hafi það gert brotaþola gott.

Brotaþolinn C skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði hafi gengið á móti þeim og snert brjóstin á þeim og rekist utan í rassinn á þeim. Fyrst hafi hann sagt æ, úps, sorrý og eitthvað. Svo hafi hann alltaf verið að knúsa þær og taka utan um rassinn á þeim. Vitnið kvað ákærða hafa komið við rassinn á sér og brjóstin og þá hafi hann knúsað hana. Þegar hann hafi gengið fram hjá henni hafi hann haft hendurnar í þeirri hæð að hann myndi rekast utan í brjóstin hennar eða rekast í rassinn á henni. Vitnið lýsti atviki þegar hún hafi staðið fyrir framan fullt af krökkum og hafi hún verið í flísbúningi. Henni hafi verið heitt í honum og kvaðst hafa farið úr ermunum og bundið búninginn þannig að brjóstahaldarinn hafi haldið honum uppi. Hafi ákærði þá komið aftan að henni, losað brjóstahaldarann og ef hún hefði ekki áttað sig á því hvað hann hafi verið að gera hefði búningurinn losnað og allt dottið niður. Þá hafi það komið fyrir að hann hafi sett lófann undir þegar sest var við hliðina á honum þannig að hún hafi sest á lófa hans.  Þegar farið hefði verið í hringinn á undan sýningum hefði hann snert rassinn á henni og brjóstin og stundum rassinn á hinum stelpunum. Vitnið taldi að ákærði hefði reynt að losa brjóstahaldara hennar um átta sinnum. Hún kvaðst aldrei hafa séð ákærða koma við rassinn á fullorðna fólkinu eða strákunum en hann hafi gert þetta við stelpurnar, alla vega þær B og D, þ.e. bæði komið við rass þeirra og brjóst.

  Vitnið H, móðir brotaþolans C og skólastjóri í grunnskóla [...] á umræddum tíma, skýrði svo frá fyrir dómi að stúlka hafi komið fram og sagt að hún treysti sér ekki til að fara í ferð með félagsmiðstöðinni þar sem ákærði hafi átt að fara með sem gæslumaður. Hún kvaðst hafa rætt við dóttur sína sem hafi sagt henni að það væru þarna hlutir í gangi og hafi brotaþoli ætlað að tala við M. Hafi brotaþoli talað um að um eitthvert káf hefði verið að ræða og hefði viðkomandi rekist í brjóstin á henni og káfað á rassi hennar. Hún kvað brotaþola á þessum tíma hafa verið spennta, þreytta og pirraða. Hún hafi verið ofboðslega kvíðin og fundist hræðileg tilhugsun að þurfa að hitta ákærða. Hún hafi ekki verið hrædd um að hann gerði henni eitthvað, heldur hafi allt rifjast upp og henni þá liðið illa. Hún hafi unnið í sjoppu á kvöldin og stundum hringt grátandi heim vegna þeirrar tilfinningar að þurfa að afgreiða ákærða. Brotaþola hafi greinilega létt þegar ákærði fór úr bæjarfélaginu.

 Vitnið Q, faðir brotaþolans C, skýrði svo frá fyrir dómi að dóttir hans hefði hringt í hann og skýrt honum frá því að ákærði hefði káfað á henni og hefði það gerst í leikfélaginu. Hann hefði líka reynt að losa brjóstahaldara og verið að rekast óvart á brjóstin  á henni. Vitnið kvað dóttur sína gjörólíka því sem hún hafi verið áður. Hún hafi áður alltaf skriðið í fangið á honum og notað hvert tækifæri til þess að kúra. Barnið sem hann hafi fengið í hendurnar eftir þetta hafi ekki skriðið í fangið á pabba sínum til þess að kúra, hún hafi forðast snertingar. Hann kvaðst hafa tapað dóttur sinni þarna og það sé ofsalega slæmt. 

 Brotaþolinn D skýrði svo frá fyrir dómi að þetta hafi byrjað í leikhúsinu, ákærði hafi unnið sér inn traust hjá öllum, hann hafi komið og knúsað þær, verið rosalega vinalegur og virst vera annt  um þær allar. Knúsin hafi farið í að vera aðeins meira en bara knús, höndin hafi alltaf farið neðar og neðar, þetta hafi farið ganga alltof langt, hann hafi slegið í rassinn á henni og losað brjóstahaldarann á henni þrisvar að því er hún hélt. Hún kvaðst líka hafa séð ákærða gera hið sama við brotaþolana A, B og C. Fyrir sýningar hafi alltaf verið farið í hvatningahring þar sem allir hafi staðið í hring og haldið utan um hvert annað. Hún og A hafi alltaf staðið hlið við hlið þegar ákærði hafi komið, hann  hafi alltaf komið til sín og þegar hún hafi ekki ætlað að leyfa honum að vera við hlið sér og haldið fastar utan um A hafi hann alltaf stíað þeim í sundur og hönd hans hafi alltaf verið komið á rassinn. Hún kvaðst hafa reynt að færa hönd hans ofar en velti fyrir sér hvað 14 eða 15 ára stelpa gæti sagt við fullorðinn mann. Þá kvaðst hún hafa séð hann ganga á móti stelpunum og fara óvart með höndina utan um brjóstin á þeim, en alltaf sagt, æi fyrirgefðu, þetta var alveg óvart. Hún grunaði ákærða um að hafa sent henni skilaboð á formspring, daginn eftir hafi ákærði slegið hana í rassinn og sagt við hana að hún fílaði þetta, hann vissi það alveg. Hafi þetta verið í samræmi við skilaboðin sem hún hafi fengið.  Þá hafi staðið til að þær færu með félagsmiðstöðinni á söngvakeppnina [...] og hafi ákærði átt að vera fararstjóri. Hafi E þá komið til þeirra og spurt hvernig ákærði væri við þær því hún hefði verið að fá óþægileg skilaboð frá honum. Þær hafi þá sest niður og farið að tala saman um hvað þeim hafi þótt háttsemi ákærða óþægileg. Hann hafi verið búinn að vinna traust þeirra og síðan brotið á þeim. E hafi farið lengra með málið og hafi þær þá verið búnar að ákveða að hætta við að fara. Hún kvað sér hafa liðið ömurlega eftir þetta, hún hafi alltaf verið lokuð en þegar hún hafi byrjað í leikhúsinu hafi hún farið að hleypa fólki að sér. Hún kvaðst hafa treyst ákærða fyrir öllu en svo hafi hann brotið svona á henni. Hún kvaðst hafa leitað til sálfræðings þar sem  hún hafi verið orðin mjög niðurbrotin og þunglynd, orðin mjög döpur og búin að ýta öllum vinum sínum í burtu.

 Vitnið I, móðir brotaþolans D, skýrði svo frá fyrir dómi að M sálfræðingur hafi hringt í hana í janúar eða febrúar og greint henni frá atvikum. Hún kvaðst hafa talað við dóttur sína sem hefði opnað sig og sagt henni frá öllu. Hún hafi sagt að hún hefði fengið nafnlaus skilaboð á formspring, svo sem hvort hún vildi láta káfa á brjóstunum á sér eða hvort hún vildi láta koma við rassinn á sér og síðan hafi þetta verið framkvæmt í leikhúsinu daginn eftir. Stúlkunum hafi fundist ákærði hafa verið að verki en hann hafi síðan snert rass þeirra og brjóst í leikhúsinu daginn eftir. Vitnið taldi að um fleiri en fimm skipti hefði verið að ræða. Þá hafi hún lýst því að þegar hún hafi verið að setjast í sófa hafi ákærði sett höndina fyrir og þegar hún hafi gengið eftir þröngum gangi hafi hann sett hönd á annað hvort rass eða brjóst. Hún kvað stelpurnar hafa haldið mikið saman en einhverjum vikum seinna hefði hún farið að merkja breytingar á brotaþola. Hún hafi farið að loka sig meira af, bara verið í tölvu inni í herbergi, skólinn hafi farið að ganga illa og hafi hún verið greind með ofvirkni, athyglisbrest og þunglyndi.

 Brotaþolinn E skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi sótt félagsmiðstöðina og þar hafi hún kynnst ákærða. Hann hafi farið að spjalla við hana á facebook og verið þar með óþægilegar glósur, hún væri fín og flott. Hann hafi til dæmis verið með óþægilegar glósur eins og allir eru í nærbuxum nema E, hún er allsber. Hann hafi einnig verið með aulabrandara eins og að allir væru að dansa við stelpur nema R, hann væri að dansa við strákúst. Hún kvaðst hafa prentað samtalið varðandi nærbuxurnar út og afhent umsjónarkennara sínum það og þá hafi málið farið af stað. Hún kvað sér hafa fundist þetta mjög óþægilegt því hún kvaðst hafa vitað af þessu með B og D, að ákærði væri alltaf að taka utan um þær, slá þær í rassinn og eitthvað svoleiðis. Hún kvað sér hafa þótt óþægilegt að ákærði væri að spyrja hana í hvernig nærbuxum hún væri, það væri ekki við hæfi og frekar ógeðfellt.

 Vitnið S skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi verið hjá brotaþolum þegar ákærði var að tala við þær á msn og þá hafi hún verið í féló með E. Hún kvað ákærða hafa spurt B á msn um brjóstahaldarastærð og hvernig brjóstahaldarar hennar væru á litinn. Þá hafi hann talað um að E væri með flott brjóst og flottan rass. Hún kvaðst ekki hafa séð neina óeðlilega háttsemi af hálfu ákærða. Borin var undir vitnið skýrsla þess hjá lögreglu þar sem hún lýsir því í símaviðtali að hún hafi séð ákærða slá B á rassinn í leikhúsinu. Vitnið kvaðst ekki muna eftir þessu fyrir dómi.

Vitnið O, bróðir brotaþolans A, skýrði svo frá fyrir dómi að hann og ákærði hefðu verið vinir frá því þeir voru litlir. Hann kvaðst ekkert hafa vitað af máli þessu fyrr en systir hans kom til hans og sagði honum frá því sem ákærði hefði verið að gera, hann hafi verið að losa brjóstahaldara og káfa á henni en hún hafi ekki nefnt hvar. Hann kvaðst varla hafa trúað því en eftir að hann hafi heyrt þetta kvaðst hann hafa séð ákærða reyna að losa brjóstahaldara B en hann mundi ekki hvort það hefði tekist. Hafi þetta gerst inni í setustofu í leikhúsinu. Hann kvaðst hafa séð ákærða rassskella B einu sinni en það hefði ekki verið í sama skipti og hann losaði brjóstahaldara hennar. Vitnið vissi ekki ástæðu þess að ákærði gerði þetta og þá kvað hann engan hafa manað hann til þess. Vitnið kvaðst á þessum tíma hafa verið í stjórn leikfélagsins og þegar hann hafi séð þetta hafi hann rætt þetta við aðra stjórnarmeðlimi. Ákærði hafi verið kallaður á fund og honum gerð grein fyrir því að þetta væri hegðun sem ekki væri liðin í leikfélaginu. Vitnið mundi hvorki eftir viðbrögðum ákærða né því hvort hann hefði kannast við þetta. Að sögn vitnisins hafi þessi fundur sennilega verið í kringum 6. janúar 2011, eða í tengslum við síðustu sýninguna um það leyti. Vitnið kvað systur sína hafa verið í rusli þegar hún skýrði honum frá þessu og kvaðst honum finnast ömurlegt að hafa ekki trúað henni.

 Vitnið T skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði væri mjög góður vinur hans. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neitt óeðlilegt í samskiptum ákærða við stúlkurnar annað en að hann hafi í eitt skipti séð hann leysa brjóstahaldarann hjá einni, A að hann minnti. Hann minnti að viðbrögð hennar hafi verið þau að hún hafi hlegið. Þá kvað vitnið D eitthvað hafa nefnt það við sig að ákærði væri að losa brjóstahaldarann hjá fleiri stúlkum og hafi hann hvatt hana til að snúa sér til stjórnarinnar. Vitnið minnti að leikhúshúmorinn væri svolítið sérstakur, strákar væru t.d. að slá á rassinn hvor á öðrum þegar þeir væru á nærbuxunum og kvaðst hann hafa túlkað þetta sem einhvern húmor sem farið hafi úr böndunum. Borin var undir vitnið skýrsla þess hjá lögreglu þar sem hann lýsir því að hann hafi séð ákærða leysa brjóstahaldarann frá hjá þessum stelpum. Hann hafi faðmað stelpurnar, leyst frá og sagt svo bara æi fyrirgefðu, hlegið og farið svo í burtu. Hafi vitninu fundist þetta vera eitthvað trix hjá honum. Vitnið kvað þarna rétt eftir sér haft, en þetta hafi aðeins átt við um eina stúlku. Þá var borinn undir vitnið framburður þess hjá lögreglu þess efnis að D hafi sagt honum að ákærði hefði sagt við B að hún væri með svo flottan líkama og hvort hún vildi sitja fyrir nakin. Þá hafi vitnið talið sig vita að ákærði hefði ekki hætt að leysa brjóstahöldin. Þá hafi vitnið minnt að ákærði hefði káfað á D á stöðum sem hún hafi ekki viljað láta strjúka sér á en vitnið hafi ekki spurt nánar um það og ekki viljað fá nákvæmar lýsingar. Vitnið kvað þarna rétt eftir sér haft og tók fram aðspurður að þessi atvik rifjuðust upp fyrir honum þegar framburður hans hjá lögreglu var lesinn fyrir hann.

Vitnið U skýrði svo frá fyrir dómi að A hefði hætt í danshópi hjá honum í byrjun ársins 2011 eða í byrjun febrúar og hafi hún sagt vitninu að hún hafi hætt vegna þess að henni hafi fundist óþægilegt að vera í húsinu vegna ákveðinna hluta. Vitnið kvaðst hafa heyrt af einhverju slúðri um málið og kvaðst hann hafa spurt hana hvort þetta tengdist þessu slúðri og hafi hún játað því. Hún kvaðst hafa verið búin að segja frá þessu og því hafi honum ekki fundist ástæða til að hún lýsti þessu fyrir vitninu. Vitnið kvað hana hafa komið aftur og hafi hann hvatt hana til að mæta, halda bara áfram og reyna að standa þetta af sér. Hún hafi komið aftur inn í hópinn en ákærði hafi ekki verið í þessum danshópi. Aðspurð af hverju henni hafi þótt óþægilegt að vera þarna fyrst ákærði var ekki á staðnum hafi hún svarað því til að það að vera í húsinu rifjaði upp vondar minningar og léti henni líða illa.

Vitnið V skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið leikari í leikhúsinu á umræddum tíma. Hann kvað sér hafa fundist voðalega margt „corny“ eins og hann tók til orða en hann kvaðst aldrei hafa orðið var við kynferðislega áreitni.  Margt hafi hins vegar ekki passað þarna og kvaðst hann hafa tjáð stjórn leikfélagsins það á þeim tíma. Til dæmis hafi hann spurt hvort það væri eðlilegt að 14 ára stelpa myndi koma og hlamma sér í fangið á  honum, en honum hafi fundist að öðrum þarna hafi þótt þetta sjálfsagt. Hann kvað alla einhvern veginn hafa setið saman og kitlað hvert annað og hafi honum ekki þótt þetta viðeigandi. Vitninu fannst háttsemi ákærða athugaverð eins og annarra þarna inni, t.d. eins og að vera með 14 eða 15 ára stelpu í kjöltu sinni. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að ákærði væri að snerta stúlkurnar eða losa brjóstahaldara þeirra og þá mundi hann ekki eftir athugasemdum hans um vaxtarlag þeirra eða þvíumlíkt. 

Vitnið X skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi ekki orðið var við kynferðislega háttsemi ákærða gagnvart stúlkunum og þá kvaðst hann ekki hafa séð hann losa brjóstahaldara þeirra. Vitnið kvaðst sjálft oft hafa gert það, um grín síðan í grunnskóla hefði verið að ræða. Vitnið kannaðist ekki við að ákærði hefði verið manaður í að gera þetta.

 Vitnið M sálfræðingur skýrði svo frá fyrir dómi að tilkynning hafi borist frá skóla varðandi brotaþolann E og í viðtali við hana hafi komið upp fleiri nöfn, þeirra B og D. Vitninu hafi verið falið að ræða við D og fá upplýsingar frá henni og móður hennar. Hún hafi greint frá óviðeigandi samskiptum við ákærða, snertingar, hann hafi þóst detta á brjóstin hennar og komið við rassinn á henni. Hefði þetta verið ítrekað á æfingatímabili í leikfélaginu. Þá hafi hann verið með athugasemdir um að hún væri falleg.  Hún kvað D hafa verið í uppnámi og fundist þetta erfitt. Vitnið kvaðst hafa rætt við C og hafi þær D og B verið viðstaddar. C hafi lýst því að ákærði hafi komið við brjóst hennar, látið sig detta á hana og beðist afsökunar á því. Þá hafi hann sett hendur á rass hennar þegar þau hafi staðið í hring, hneppt brjóstahaldara frá og sett hönd undir þegar hún hafi sest á stól. Vitnið kvað allar stúlkurnar hafa verið í miklu uppnámi þegar hún hafi talað við þær. Vitnið kvaðst einnig hafa rætt við A og hafi hún sagt að ákærði væri að detta á brjóst hennar og beðist afsökunar á því. Henni hafi fundist þetta óþægilegt. Þegar þau hafi myndað hring í leikhúsinu hafi hann reynt að setja hendur á rassinn á henni og verið með athugasemd um vaxtarlag hennar. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt við B um atvikin en hún hafi verið búin að skýra félagsráðgjafa frá reynslu sinni. Vitninu fannst stúlkurnar mjög trúverðugar og fannst þær vera að segja satt.

Vitnið Y námsráðgjafi skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi verið beðin um að ræða við E sökum þess að hún hefði tjáð kennara að einhver ósæmileg hegðun hefði átt sér stað. Hún kvaðst hafa hvatt hana til að segja móður sinni frá þessu. Hún hafi komið til vitnisins stuttu seinna og sagt að hún hefði sagt móður sinni frá og þá hefði hún talað um að D og B hefðu mjög líklega orðið fyrir einhverju svipuðu. Vitnið kvaðst hafa kallað þær til sín og hvatt þær til að greina frá því. Hún kvað stúlkurnar mjög lítið hafa talað um það sem hefði gerst en E hefði talað um að henni hefði verið sýnd hegðun sem hún hefði talið óþægilega og ekki viðeigandi.    

Vitnið L félagsfræðingur skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi talað við E og hafi hún greint frá óviðeigandi samskiptum við ákærða í gegnum facebook. Hún hafi komið mjög vel fyrir en í miðju viðtali hafi hún brostið í grát og hafi þetta greinilega verið mjög erfitt fyrir hana. Brotaþola hafi fundist ákærði skemmtilegur starfsmaður og vinsæll og hafi hún viljað að hann lærði að eiga samskipti við ungar stúlkur. Vitnið staðfesti að E hefði látið hana hafa útprentun af samskiptum hennar við ákærða þar sem hann spyr í hvernig nærbuxum hún sé. Vitnið kvaðst hafa átt tvö viðtöl við hana eftir þetta.

 Vitnið N sálfræðingur skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþolinn   A hafi fyrst komið til hennar 4. maí 2011, þegar málinu hafi verið vísað í Barnahús í kjölfarið á skýrslutöku eftir að málinu hafði verið vísað í lögreglurannsókn. Þá hafi verið  óskað eftir aðkomu Barnahúss að málinu og ákveðið í samræmi við ósk stúlknanna að þær yrðu saman í viðtölum til að byrja með. Hafi vitnið orðið við þeirri bón af því að þær hafi haft mjög svipaða reynslu þannig að fyrstu þrjú viðtölin að vitnið minnti hafi verið hópviðtöl. Síðan hafi hún hitt A í tvö eða þrjú skipti eina og svo aftur í lokin í hóp. Hún hafi alltaf komið vel fyrir, hún hafi verið 15 ára þegar viðtölin fóru fram og verið einlæg og hreinskilin í öllum samskiptum og hafi átt ágætt með að tjá sig um sína reynslu þannig að hún hafi getað nýtt sér viðtalsmeðferð vel. Hún kvaðst hafa lagt fyrir hana lista til þess að meta líðan og það hafi ekki komið fram nein þunglyndiseinkenni eða slíkt og viðbrögð hennar við þeirri reynslu sem hún segi að hún hafi orðið fyrir hafi verið í takt við það sem gengur og gerist meðal barna sem upplifi svipaða reynslu. Hún hafi ekkert verið að ýkja sín viðbrögð, verið með báða fætur á jörðinni en henni hafi liðið mjög illa og þetta hafi haft mikil áhrif á hana. Hún hafi verið ringluð og áttavillt eftir þetta og átt erfitt með að fóta sig og þetta hafi haft mikil áhrif á hana sérstaklega í tengslum við leikhúsið sem hafi verið hennar yndi og helsta áhugamál. Hún hafi á tímabili jafnvel verið að hugsa um að hætta í leikhúsinu af því að hún hafi ekki treyst sér þar inn af því að það hafi vakið hjá henni svo miklar minningar. Fram kom hjá vitninu að hún hafi hitt stúlkurnar rétt fyrir þinghaldið og kvaðst hún hafa orðið fyrir sjokki við að sjá að þær væru ekki alveg komnar á þann stað sem hún hafi haldið að þær væru þegar hún hafi lokið málum þeirra.   

Vitnið kvað brotaþolann B vera mun lokaðri, hún hafi verið hæglátari og ekki hafi borið mikið á henni í hópmeðferðinni. Hún hafi tjáð sig minna en hinar en í sjö einstaklingsviðtölum hafi hún betur náð að tjá sig um áhrifin á sjálfa sig því hún hafi tjáð sig meira almennt innan hópsins. Hún kvaðst hafa átt nokkur einstaklingsviðtöl við hana líka og hitt hana sjö sinnum og þá hafi hún náð að tjá sig betur um áhrifin á sjálfa sig af því að hún hafi tjáð sig meira svona almennt innan hópsins. Hún hafi líka orðið fyrir alvarlegu áfalli tveimur árum áður þar sem hún hafi misst pabba sinn og verið mjög illa stödd þ.a.l. hafi hún ekki verið búin að vinna sig út úr því áfalli á nokkurn hátt, það hafi verið óvænt og líka haft áhrif og í rauninni megi segja almennt um það þegar börn hafi upplifað áföll áður en þau verði fyrir kynferðislegri áreitni eða óþægilegri reynslu á því sviði geti það magnað áhrif eldri áfalla. Leiklistin og leikfélagið hafi spilað veigamikið hlutverk í lífi hennar og allt í einu hafi henni þótt óþægilegt að vera þar því staðurinn hafi kallað fram óþægilegar minningar hjá henni. Hún kvað B enn vera svolítið brotna og þurfi hún að vinna sig betur út úr þessu og þyrfti hún á nokkrum stuðningsviðtölum að halda. Hún kvaðst hafa greint væg þunglyndiseinkenni hjá henni. 

 Vitnið kvað C hafa verið afskaplega heilbrigða og kannski væri hún sterkust af þeim, hún væri mjög ákveðin og hafi verið ágætlega stödd, en undirliggjandi kvíði gæti hafa truflað hana. Umræddur atburður hafi aukið kvíða hjá henni og þá hafi hún allaf verið hrædd um að mæta ákærða. Hún hafi ekki sýnt þunglyndiseinkenni og ekki hafi verið greind hjá henni áfallastreituröskun, enda atburðurinn kannski ekki þess eðlis, um hafi verið að ræða erfiða lífsreynslu fyrir hana. Hún hafi greint vanlíðan  hjá henni, hún hafi grátið mikið og átt mjög erfitt með að tala um þetta í fyrstu.

 Vitnið kvað brotaþolann D vera viðkvæma og hafi þetta haft hvað víðtækust áhrif á hana. Hún eigi sögu um áföll, hún hafi misst móður sína sem barn og hafi það verið henni afar erfið lífsreynsla. Hún hafi kannski verið með brotnustu sjálfsmyndina fyrir og þ.a.l. veikust fyrir öllu hóli og jákvæðum athugasemdum sem hún hafi upplifað frá ákærða. Hún hafi þurft á mikilli hjálp að halda í kjölfarið og verið í sálfræðiviðtölum um þó nokkurt skeið. Hún kvað hana í dag ekki vera á góðum stað, hún muni þurfa að vinna töluvert meira í þessu tiltekna máli til þess að ná sér aftur á strik. Þegar hún hafi komist inn í  leikfélagið, sem hafi verið henni mjög mikilvægt, hafi hún getað verið hún sjálf. Henni hafi fundist mjög mikið til ákærða koma og litið á hann sem mentor og treyst honum mikið.    Afleiðingarnar af því þegar hann hafi rofið þetta traust séu meiri fyrir vikið þannig að þessi vanlíðan sem þarna komi fram sé ekki tengd móðurmissi eða slíku heldur þessum ætluðu brotum.

 Vitnið kvaðst hafa hitt brotaþolann E sjaldnast af stúlkunum eða þrisvar í hópi og einu sinni í einstaklingsviðtali. Aðkoma hennar sé ekki í gegnum leiklistina heldur í gegnum félagsmiðstöðina og hafi hún greint vitninu frá því að samskipti hennar og ákærða hefðu að mestu verið í gegnum netið. Þau  hafi samt haft mikil áhrif á hana og henni fundist þau mjög óviðeigandi af einstaklingi sem hafi vitað að hún væri svona ung. Félagsmiðstöðin hafi verið mikilvægur þáttur í hennar lífi og hún hafi farið að forðast þann stað út af þessum samskiptum sem henni hafi ekki fundist viðeigandi. Vitnið kvað E ekki líða neitt sérstaklega vel í dag, hún væri ennþá dálítið upptekin af þessu og virtist ekki alveg hafa náð að vinna sig út úr þessu. 

Vitnið P skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi leikið í umræddu leikriti og kvaðst hún muna eftir því að allir leikarar hafi setið saman í stjörnusalnum þegar ákærði hafi beðið B um að setjast á sig, B hafi sest ofan á hné hans og á meðan hún hafi setið þar hafi ákærði alltaf verið að líta yfir axlir hennar og horfa ofan í brjóst hennar. Vitnið kvaðst hafa spurt hvað hann væri að gera en hann hafi bara farið að hlæja. Vitnið kvað A og B hafa sagt sér frá einhverju sem sennilega hafi tengst facebook eða msn en hún kvaðst vera búin að gleyma því. Borin var undir vitnið fullyrðing þess í símaskýrslu hjá lögreglu að B hafi sagt henni  að ákærði hefði káfað á brjóstunum á henni og káfað eða klipið hana í rassinn. Vitnið kvaðst þá muna eftir þessu samtali við B og þá minnti hana að ákærði hefði oft verið að klípa A og B í rassinn.

Vitnið Z sálfræðingur skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að D hafi komið til vitnisins í greiningarskyni. Hún hafi verð greind sem barn með athyglisbrest og ofvirkni og hefði henni farið aftur námslega. Hún kvaðst hafa hitt hana í sjö skipti í maí og júní 2013 og kvaðst hún þá hafa greint hana með athyglisbrest án ofvirkni, en það gerist oft að ofvirknieinkenni breytist þegar börn eldist. Þá hafi komið fram depurðareinkenni hjá henni, greinilegt hafi verið að sjálfsmynd hennar hafi verið brotin, tilfinningar óstöðugar og erfiðleikar í tengslum eða nánum samskiptum. Hún kvað að farið hafi að halla undan fæti hjá brotaþola á þeim tíma sem ætlað brot var framið.

Vitnið Þ skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hafi verið umsjónarkennari þegar B, D og ein önnur stúlka, sennilega C, hafi brotnað niður eða verið eitthvað leiðar í tíma hjá honum eða öðrum kennara. Þær hafi verið grátandi inni á bókasafni þar sem þær hafi verið látnar jafna sig og stappa stálinu hver í aðra. Þær hafi talað um að einhver hefði verið að þreifa á þeim eða klípa þær.

Vitnið Æ, sálfræðingur, skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að brotaþolinn B ætti áfallasögu, hún hafi misst föður sinn eftir veikindi, móðir hennar hafi einnig veikst alvarlega og hafi hún fundið fyrir depurð og kvíða í tengslum við það. Hún hafi síðan lýst því að hún hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu ákærða þegar hún starfaði í leikhúsinu og eftir það hafi hún farið að finna fyrir afmörkuðum kvíða. Hún ætti erfitt með að vera á ákveðnum stöðum í bænum og hafi verið hrædd við að rekast á ákærða. Þá hafi hún verið hrædd við að vera þar sem mikið af fólki sé samankomið og gæti komið með athugasemdir um atburðinn, hún finni fyrir hamlandi kvíða sem hún hafi ekki haft áður.  

Niðurstaða.

                Ákærða eru í máli þessu gefin að sök kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum frá nóvember 2010 og fram í janúar 2011 gagnvart fimm stúlkum sem þá voru á aldrinum 14 til 15 ára. Ákærði og brotaþolarnir A, B, C og D tóku þátt í leiksýningu á vegum Leikfélags [...]. Brotaþolinn E tók ekki þátt í umræddri leiksýningu, en ákærða er gefið að sök að hafa í samskiptum við hana á netinu spurt hana í hvernig nærbuxum hún væri.

                Ákærði hefur viðurkennt að hafa í ærslagangi og í stríðni losað brjóstahaldara brotaþolanna A, C og D og er sú háttsemi hans því sönnuð. Brjóstahaldari hylur líkamshluta sem nýtur verndar samkvæmt ákvæðum 199. gr. almennra hegningarlaga og því er augljóst að sú háttsemi ákærða að losa um brjóstahaldara gat leitt til þess að þessi líkamshluti beraðist. Ekkert hald er í þeirri vörn ákærða að um grín eða stríðni hafi verið að ræða. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa sent brotaþolanum E skilaboð á netinu og spurt hana í hvernig nærbuxum hún væri. Hann tekur hins vegar fram að um grín hafi verið að ræða, enda hafi hann sett orðin, „nei djók“, á eftir spurningunni. Ummæli ákærða beindust að 14 ára barni og hlaut honum að vera ljóst að þau væru til þess fallin að særa blygðunarsemi þessa brotaþola. Sú vörn ákærða að um grín hafi verið að ræða leysir hann ekki undan sök.

                Lýsing þeirra brotaþola sem störfuðu með ákærða í leikhúsinu er í meginatriðum samhljóða um háttsemi hans gagnvart þeim. Hann hafi ítrekað látið sem hann rækist óviljandi í brjóst þeirra þegar hann gekk fram hjá þeim og þá hafi hann í svokölluðum hvatningarhring gert sér far um að vera nálægt þeim og þar hafi hann strokið þeim um rassinn. Þá hafa þær lýst faðmlögum hans og knúsi þannig að hann hafi í lok faðmlagsins látið höndina snerta rass þeirra. Ákærði neitar sök að þessu leyti. Ljóst er að stúlkurnar lögðu ekki fram kæru fyrr en þær fóru að bera saman bækur sínar og fylgjast með háttsemi ákærða gagnvart þeim hverri fyrir sig. Virðast þær þá hafa sannfærst um að útilokað væri að allar þessar snertingar ákærða væru óviljandi og þegar fyrirhugað var að ákærði yrði gæslumaður í fyrirhugaðri ferð tóku þær þá ákvörðun að skýra frá hegðun ákærða.

                Að mati dómsins er framburður allra brotaþola mjög trúverðugur og er gott innbyrðis samræmi í honum. Var ljóst að þessi atvik hafa haft mikil áhrif á alla brotaþola og glíma þær enn við afleiðingarnar. Framburður þeirra fær einnig stoð í framburði foreldra þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómi auk vitnanna O, sem sagðist hafa séð ákærða rassskella B einu sinni, T, sem minnti að ákærði hefði káfað á D. Þá kvað vitnið V háttsemi ákærða hafa verið athugaverða og vitnið P minnti að ákærði hefði oft klipið A og B í rassinn. Brotaþolinn A kvað ákærða oft hafa komið við rass og brjóst brotaþolanna B og D en ósamræmi er í framburði hennar um það hvenær brot byrjuðu og þá er á reiki hjá henni hversu oft ákærði snerti brjóst hennar og rass. Brotaþolinn B kvaðst hafa séð ákærða snerta brjóst brotaþolans D og er ekkert ósamræmi að finna í framburði hennar. Brotaþolinn C kvaðst hafa séð ákærða koma við rass og brjóst brotaþolanna B og D, en ósamræmis gætir hjá henni um það hvað hún sá nákvæmlega og þá er á reiki hjá henni hversu oft ákærði snerti brjóst hennar og rass. Brotaþolinn D kvaðst hafa séð ákærða slá brotaþolana A, B og C í rassinn en ósamræmis gætir hjá henni um það hvað hún sá nákvæmlega og hversu oft hann snerti rass hennar.

                Telja verður nægilega sannað að ákærði hafi haft fulla vitneskju um aldur allra brotaþola. Honum var ljóst að þær voru grunnskólanemendur og hafði hann samskipti við þær í leikfélaginu og í félagsmiðstöð sem þær sóttu. Þær hafa allar lýst því að þær hafi borið traust til ákærða og litið upp til hans. Gera verður athugasemdir við þau vinnubrögð sálfræðinga að ræða við brotaþolana í sameiningu áður en málinu var vísað til lögreglu. Þá er það óútskýrt og athugavert að skýrslutökur af brotaþolum hafi ekki farið fram fyrr en 5. og 6. apríl 2011, en samkvæmt gögnum málsins barst lögreglunni í [...] beiðni um lögreglurannsókn þann 21. febrúar sama ár. Það þykir þó ekki breyta þeirri niðurstöðu dómsins að þegar allt framanritað er virt í heild sinni og með hliðsjón af játningu ákærða að hluta, þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í öllum ákæruliðum, þó þannig að ósannað er að ákærði hafi snert brjóst og rass brotaþolanna A, C og D oftar en einu sinni. Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákæru. 

                Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu. Við ákvörðun refsingar verður að hafa í huga að brot ákærða beindust að fimm stúlkum á viðkvæmum unglingsaldri sem hann hafði afskipti af í leikhúsi og í ungmennastarfi í félagsmiðstöð. Þær treystu honum en hann brást trúnaðartrausti þeirra freklega. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að mál þetta hefur dregist úr hömlu af ástæðum sem ákærði verður ekki talinn eiga sök á, en nú eru liðin rúmlega þrjú ár frá því brot ákærða voru framin. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði, en fullnustu hennar þykir mega fresta og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. 

                Fyrir hönd brotaþolans A er krafist miskabóta að fjárhæð 900.000 krónur úr hendi ákærða með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan er rökstudd með þeim hætti að brotaþola hafi þótt athygli ákærða óþægileg og hafi henni farið að líða verulega illa þegar hún hafi áttað sig á því sem væri í gangi og aðrar stúlkur hefðu lýst því sem þær hefðu lent í með ákærða. Hún hafi grátið sig í svefn, verið í miklu uppnámi og verið hrædd við að hitta ákærða úti á götu. Brotaþoli hafi verið á aldursskeiði sem sé sérstaklega viðkvæmt fyrir kynferðislegu áreiti og hafi brotin valdið henni kvíða, svefntruflunum og miklum áhyggjum.

                Í máli þessu liggja fyrir gögn sem staðfesta að brotaþolinn A hafi orðið fyrir áfalli sem telja verður að ákærði beri ábyrgð á, þar á meðal vottorð N sálfræðings og vætti móður hennar um líðan hennar eftir umrædd atvik. Brot ákærða gagnvart brotaþolanum A var til þess fallið að valda henni miska og á hún því rétt á bótum úr hendi hans með vísan til 26. gr. skaðabótalaga. Ákærða var kynnt skaðabótakrafan við birtingu fyrirkalls og ákæru þann 16. júlí 2013. Þykja miskabætur til þessa brotaþola hæfilega ákveðnar 250.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

Fyrir hönd brotaþolans B er krafist miskabóta að fjárhæð 900.000 krónur úr hendi ákærða með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan er rökstudd með þeim hætti að brotaþoli hafi ekki áttað sig á því sem væri í gangi enda óharðnaður unglingur, saklaus og grunlaus. Henni hafi fundist athygli ákærða óþægileg og farið að líða verulega illa þegar hún hafi áttað sig á því að aðrar stúlkur hefðu lýst því sem þær hefðu lent í með ákærða. Brotaþoli hafi verið á aldursskeiði sem sé sérstaklega viðkvæmt fyrir kynferðislegu áreiti og hafi brotin valdið henni kvíða, svefntruflunum og miklum áhyggjum. Þegar hún hafi séð ákærða bregða fyrir hafi hún frosið og verið mjög hrædd við hann.

                Í máli þessu liggja fyrir gögn sem staðfesta að brotaþolinn B hafi orðið fyrir áfalli sem telja verður að ákærði beri ábyrgð á, þar á meðal vottorð sálfræðinganna N og Æ og vætti móður hennar um líðan brotaþola eftir umrædd atvik. Brot ákærða gagnvart brotaþolanum B var til þess fallið að valda henni miska og á hún því rétt á bótum úr hendi hans með vísan til 26. gr. skaðabótalaga. Ákærða var kynnt skaðabótakrafan við birtingu fyrirkalls og ákæru þann 16. júlí 2013. Þykja miskabætur til þessa brotaþola hæfilega ákveðnar 250.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

Fyrir hönd brotaþolans C er krafist miskabóta að fjárhæð 900.000 krónur úr hendi ákærða með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan er rökstudd með þeim hætti að brotaþoli hafi ekki áttað sig á því sem væri í gangi enda óharðnaður unglingur, saklaus og grunlaus. Henni hafi fundist athygli ákærða óþægileg og farið að líða verulega illa þegar hún hafi áttað sig á því að aðrar stúlkur hefðu lýst því sem þær hefðu lent í með ákærða. Brotaþoli hafi verið á aldursskeiði sem sé sérstaklega viðkvæmt fyrir kynferðislegu áreiti og hafi brotin valdið henni kvíða, svefntruflunum og miklum áhyggjum. 

                Í máli þessu liggja fyrir gögn sem staðfesta að brotaþolinn C hafi orðið fyrir áfalli sem telja verður að ákærði beri ábyrgð á, þar á meðal vottorð sálfræðingsins N og vætti foreldra hennar um líðan brotaþola eftir umrædd atvik. Brot ákærða gagnvart brotaþolanum C var til þess fallið að valda henni miska og á hún því rétt á bótum úr hendi hans með vísan til 26. gr. skaðabótalaga. Ákærða var kynnt skaðabótakrafan við birtingu fyrirkalls og ákæru þann 16. júlí 2013. Þykja miskabætur til þessa brotaþola hæfilega ákveðnar 250.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

Fyrir hönd brotaþolans D er krafist miskabóta að fjárhæð 900.000 krónur úr hendi ákærða með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan er rökstudd með þeim hætti að brotaþoli hafi ekki áttað sig á því sem væri í gangi enda óharðnaður unglingur, saklaus og grunlaus. Henni hafi fundist athygli ákærða óþægileg og farið að líða verulega illa þegar hún hafi áttað sig á því að aðrar stúlkur hefðu lýst því sem þær hefðu lent í með ákærða. Brotaþoli hafi verið á aldursskeiði sem sé sérstaklega viðkvæmt fyrir kynferðislegu áreiti og hafi brotin valdið henni kvíða, svefntruflunum og miklum áhyggjum. 

                Í máli þessu liggja fyrir gögn sem staðfesta að brotaþolinn D hafi orðið fyrir áfalli sem telja verður að ákærði beri ábyrgð á, þar á meðal vottorð sálfræðinganna N og Z og vætti móður hennar um líðan brotaþola eftir umrædd atvik. Brot ákærða gagnvart brotaþolanum D var til þess fallið að valda henni miska og á hún því rétt á bótum úr hendi hans með vísan til 26. gr. skaðabótalaga. Ákærða var kynnt skaðabótakrafan við birtingu fyrirkalls og ákæru þann 16. júlí 2013. Þykja miskabætur til þessa brotaþola hæfilega ákveðnar 250.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

Fyrir hönd brotaþolans E er krafist miskabóta að fjárhæð 900.000 krónur úr hendi ákærða með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan er rökstudd með þeim hætti að brotaþoli hafi ekki áttað sig á því sem væri í gangi enda óharðnaður unglingur. Henni hafi fundist athygli ákærða óþægileg og farið að líða verulega illa þegar hún hafi áttað sig á því að aðrar stúlkur hefðu lýst því sem þær hefðu lent í með ákærða. Brotaþoli hafi verið á aldursskeiði sem sé sérstaklega viðkvæmt fyrir kynferðislegu áreiti og hafi brotin valdið henni kvíða, svefntruflunum og miklum áhyggjum. 

                Í máli þessu liggja fyrir gögn sem staðfesta að brotaþolinn E hafi orðið fyrir áfalli sem telja verður að ákærði beri ábyrgð á, þar á meðal vottorð N sálfræðings um líðan brotaþola eftir umrædd atvik. Brot ákærða gagnvart brotaþolanum E var til þess fallið að valda henni miska og á hún því rétt á bótum úr hendi hans með vísan til 26. gr. skaðabótalaga. Ákærða var kynnt skaðabótakrafan við birtingu fyrirkalls og ákæru þann 16. júlí 2013. Þykja miskabætur til þessa brotaþola hæfilega ákveðnar 150.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

Þá ber með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara, 383.680 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Trausta Ágústs Hermannssonar hdl., 960.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 28.200 krónur. Þá ber að dæma ákærða til að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola við lögreglurannsókn og dómsmeðferð málsins, Páleyjar Borgþórsdóttur hdl., 1.800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferða- og gistikostnaðar lögmannsins, 56.664 krónur.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Ragnheiði Thorlacius og Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómurum. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram  yfir lögbundinn frest en dómari og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

Dómsorð:

Ákærði, Gunnar Friðberg Jóhannsson, sæti fangelsi í 9 mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði A, kt. [...], 250.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. janúar 2011 til 16. ágúst 2013, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. 

Ákærði greiði B, kt. [...], 250.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. janúar 2011 til 16. ágúst 2013, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. 

Ákærði greiði C, kt. [...], 250.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. janúar 2011 til 16. ágúst 2013, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. 

Ákærði greiði D, kt. [...], 250.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. janúar 2011 til 16. ágúst 2013, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. 

Ákærði greiði J, kt. [...], f.h. E, kt. [...], 150.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. janúar 2011 til 16. ágúst 2013, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. 

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara, 383.680 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Trausta Ágústs Hermannssonar hdl., 960.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 28.200 krónur. Þá greiði ákærði þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola við lögreglurannsókn og dómsmeðferð málsins, Páleyjar Borgþórsdóttur hdl., 1.800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferða- og gistikostnaðar lögmannsins, 56.664 krónur.