Hæstiréttur íslands
Mál nr. 625/2015
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Fyrning
- Skriflegur málflutningur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 9. júlí 2015. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 26. ágúst sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 21. september 2015 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að „500 milljóna króna skaðabótakrafan teljist ófyrnd, bæði hvað höfuðstól varðar og dráttarvexti frá 9. febrúar 1988.“ Þá krefst hann þess að „framlagning dómskjala nr. 176, 180 og 183 – sem eru óundirritaðar og ódagsettar bókanir stefnda ... – teljist meinsæri og að Hæstiréttur byggi ekki rétt á þeim við úrlausn málsins.“ Enn fremur krefst hann þess að stefndi leggi fram skjöl „sem stefndi hefur í sinni vörslu“, nánar tiltekið „þau innri frumgögn sem skrá hreyfingar og færslur sem eru til skýringar á því að 746 milljónir voru færðar af afskriftarreikningi á fjórða ársfjórðungi ársins 2002 og endanlega út úr bókum bankans í ársreikning Búnaðarbanka Íslands árið 2002.“ Verði stefndi ekki við þessari kröfu krefst áfrýjandi þess að „litið verði svo á að þögn sé sama og samþykki þannig að stefndi hafi í raun samþykkt það sem áfrýjandi heldur fram – að 746 milljóna króna hafi verið stolið af afskriftarreikningi bankans.“ Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Mál þetta var skriflega flutt á grundvelli 2. málsliðar 3. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991.
I
Samkvæmt héraðsstefnu málsins krafðist áfrýjandi þess aðallega að stefndi yrði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 500.000.000 krónur auk dráttarvaxta, en til vara lægri fjárhæðar. Þá krafðist hann málskostnaðar. Samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 tók héraðsdómari þá ákvörðun að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst yrði dæmt um þann ágreining aðila hvort ætluð skaðabótakrafa áfrýjanda væri fyrnd og var hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp til úrlausnar á því.
Í áfrýjunarstefnu gerir áfrýjandi þær kröfur sem að framan eru raktar auk þess sem hann útfærir þær nánar í greinargerð sinni fyrir réttinum. Eins og málatilbúnaði áfrýjanda fyrir Hæstarétti er háttað verður ráðið að hann geri nú frekari kröfur en hann hafði uppi í héraði. Með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 koma ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti aðrar kröfur en að ætluð skaðabótakrafa hans sé ófyrnd. Að frátalinni þeirri kröfu áfrýjanda og kröfu hans um að framlagning tilgreindra dómskjala teljist meinsæri hafa nýjar kröfur hans þann blæ að vera í raun málsástæður fyrir því að krafan sé ekki fyrnd. Verður málatilbúnaður áfrýjanda skilinn með þeim hætti, en þessar málsástæður voru hafðar uppi í héraðsdómi og eru því ekki of seint fram komnar í skilningi tilvitnaðs lagaákvæðis.
II
Áfrýjandi reisir skaðabótakröfu sína á því að starfsmenn Búnaðarbanka Íslands hafi með ýmsum ólögmætum athöfnum sínum, allt frá árinu 1987, bakað honum tjón sem stefndi beri ábyrgð á. Af málatilbúnaði áfrýjanda verður ráðið að hann telji að ólögmætar athafnir starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hafi leitt til þess að hlutafjáreign hans í Hólmadrangi hf. hafi verið seld langt undir verði á nauðungaruppboði 9. febrúar 1988 sem síðan hafi leitt til gjaldþrots hans og einkafyrirtækis hans Stokkfisks 22. apríl sama ár.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem eiga hér við, taldist fyrningarfrestur frá þeim degi sem krafa varð gjaldkræf. Hafi áfrýjandi orðið fyrir því tjóni sem málatilbúnaður hans byggist á miðast upphaf fyrningarfrests skaðabótakröfu hans í síðasta lagi við þann dag er bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 22. apríl 1988 en skaðabótakröfur fyrndust samkvæmt 2. tölulið 4. gr. fyrrgreindra laga á 10 árum. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Þorsteinn Helgi Ingason, greiði stefnda, Arion banka hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2015.
Mál þetta höfðaði Þorsteinn Ingason, Hátúni 6, Reykjavík, með stefnu birtri 15. janúar 2013 á hendur Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 500.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 9. febrúar 1988 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann lægri fjárhæðar með dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu.
Sakarefni málsins var skipt samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 þannig að nú verður leyst úr því hvort hugsanlegar kröfur stefnanda á hendur stefnda væru fyrndar. Málið var flutt um þetta atriði og dómtekið 12. mars sl.
Stefnandi rak einkafyrirtæki sem hét Stokkfiskur og einnig hlutafélag með sama nafni á 9. áratug síðustu aldar. Fyrirtækin verkuðu skreið og seldu til Nígeríu. Þau voru í viðskiptum við Búnaðarbanka Íslands sem veitti þeim svokölluð afurðalán. Í stefnu er sagt frá þremur lánum sem veitt voru. Þarf ekki að gera nánari grein fyrir þeim hér.
Lánin voru ekki með ákveðnum gjalddögum, en stefnandi segir að Búnaðarbankinn hafi krafist þess að hann legði fram tryggingarvíxla vegna lánanna, sem hann hann gæfi út og framseldi sjálfur, en faðir hans ábekti. Reynir í þessu máli á þrjá slíka víxla. Þeir eru allir útgefnir af stefnanda 28. nóvember 1984 og samþykktir til greiðslu ýmist af einkafirma hans Stokkfiski eða hlutafélaginu Stokkfiski. Gjalddagi var skráður 28. apríl 1987.
Þann 22. september 1987 sendi Búnaðarbankinn stefnanda símskeyti þar sem sagt var að birgðir fyrirtækja hans hefðu rýrnað og svöruðu ekki lengur til áhvílandi afurðalána. Var sagt að munurinn næmi 14.869.000 krónum. Var þess krafist að hann greiddi mismun þennan eða veitti fullnægjandi skýringar eigi síðar en 30. september. Var honum jafnframt hótað kæru fyrir skilasvik og útgáfu innistæðulausra ávísana.
Sama dag sendi bankinn löghaldsbeiðni til sýslumannsins í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem krafist var kyrrsetningar á eignum stefnanda til tryggingar skuld samkvæmt þremur víxlum að höfuðstól samtals 8.689.669,18 krónur.
Löghaldsgerð hófst í fógetarétti Þingeyjarsýslu, en var lokið í fógetarétti Strandasýslu 8. október 1987 með því að hald var lagt á hlutabréf stefnanda í Hólmadrangi hf. að nafnverði 2.020.000 krónur.
Búnaðarbankinn höfðaði mál á hendur stefnda og föður hans, Inga Tryggvasyni, með stefnu útgefinni 30. september 1987. Stefndi sótti þing í byrjun, en síðar varð útivist af hans hálfu. Var málið dæmt 26. nóvember 1987. Var stefndi dæmdur til greiðslu á 8.689.669,18 krónum auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Þá var löghaldsgerðin staðfest.
Í kjölfarið var gert fjárnám í hlutabréfunum í Hólmadrangi og voru þau seld á nauðungaruppboði 9. febrúar 1988. Búnaðarbankinn keypti bréfin á uppboðinu fyrir 3.000.000 króna. Stefnandi heldur því fram að samið hafi verið við annan veðhafa um að hann byði ekki á móti bankanum í bréfin. Bankinn seldi bréfin á árinu 1994 fyrir 30 milljónir króna. Stefndi segir að bankinn hafi ráðstafað söluverðinu upp í skuldir Stokkfisks, sem stefnandi hafi borið ábyrgð á.
Bú stefnda og einkafirma hans Stokkfisks var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 22. apríl 1988.
Áðurgreindum bæjarþingsdómi var áfrýjað til Hæstaréttar og var hann staðfestur með dómi 29. nóvember 1991. Við undirbúning málsins fyrir Hæstarétt var krafist vitnaleiðslna fyrir bæjarþingi Reykjavíkur. Gögn um þetta vitnamál hafa ekki verið lögð fram, en stefnandi fullyrðir í umfjöllun sinni um málsástæður að bankinn hafi ekki látið starfsmenn sína mæta til skýrslugjafar og þannig leynt dómstóla því hvernig útfyllingu víxlanna hefði verið hagað.
Búnaðarbanki Íslands hafði verið að fullu að eigu ríkissjóðs, en var breytt í hlutafélag. Á árinu 2003 var stór hlutur í bankanum seldur og í kjölfarið sameinaðist Búnaðarbankinn Kaupþingi banka. Stefnandi segir að við söluna á hlut í bankanum hafi verið tekið tillit til kröfu sinnar og kaupverðið lækkað sem kröfunni nam. Í þessu felist viðurkenning kröfunnar.
Þann 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka og skipaði skilanefnd. Stefndi, nú Arion banki, var stofnaður 21. október 2008 og tók yfir hluta af eignum og skuldum Kaupþings banka.
Stefnandi hefur áður höfðað mál til heimtu sömu kröfu og hann hefur hér uppi. Samkvæmt upptalningu í stefnu hefur hann höfðað mál sjö sinnum, fyrst á árinu 2001. Síðasta málið var höfðað á hendur Kaupþingi banka á árinu 2007, en var fellt niður 22. október 2008. Mál þetta var síðan höfðað eins og áður segir þann 15. janúar 2013.
Við rekstur hins fyrsta af þessum málum voru dómkvaddir matsmenn að kröfu stefnanda til að meta tjón hans af „að missa eignarráð yfir 30,8% hlutafjár í Hólmadrangi hf.“ Með samkomulagi aðila var matsspurningu breytt þannig að einungis skyldi meta upplausnarverðmæti fyrirtækisins ásamt veiðiheimildum.
Matsgerð þeirra Þórhalls Björnssonar, viðskiptafræðings og löggilts endurskoðanda, og Guðmundar Ólafssonar hagfræðings er dags. 18. október 2002. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að 30,8% af eigin fé félagsins hafi í árslok 1987 numið 57.776.158 krónum. Á sama tíma hafi sama hlutfall af aflaheimildum félagsins verið að verðmæti 405.481.489 krónur.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir málssókn sína á því að starfsmenn Búnaðarbanka Íslands hafi með atferli sínu valdið honum fjárhagslegu tjóni, sem stefndi Arion banki beri ábyrgð á.
Hann telur að óheimilt hafi verið að gjaldfella afurðalán fyrirtækja hans, en ríkissjóður hafi vegna aðgerða stjórnvalda verið skráður meðskuldari að þessum lánum. Því hafi Búnaðarbankanum verið óheimilt að innheimta tryggingarvíxlana eins og hann gerði.
Þá byggir stefnandi á því að starfsmenn bankans hafi breytt tryggingarvíxlunum með saknæmum og ólögmætum hætti í þeim tilgangi að komast yfir hlutafé hans í Hólmadrangi hf. Þeir hafi sett gjalddaga á víxlana og breytt greiðslustað þeirra. Þegar þetta var gert hafi víxilréttur verið fallinn niður enda víxlarnir verið sýningarvíxlar og eitt ár liðið frá útgáfu þeirra. Vísar hann um þetta til 1. mgr. 34. gr. og 1. mgr. 53. gr. víxillaga nr. 93/1933. Telur stefnandi að það hafi verið refsivert að færa gjalddaga á víxlana, það varði við 155. gr. almennra hegningarlaga. Hafi bankinn með þessu tryggt sér aðgang að stefnanda sem var útgefandi víxlanna og föður hans, sem var ábekingur. Það hafi gert bankanum kleift að ganga að persónulegum eignum stefnanda, fyrst og fremst hlutabréfum hans í Hólmadrangi hf. Þegar bankinn hafi verið búinn að ná að láta selja hlutabréfin á nauðungaruppboði hafi ekki verið hægt að reka Stokkfisk fyrirtækin lengur. Þá hafi hann ekki getað lokið kaupum á Haferninum hf. eins og samið hafi verið um. Aðgerðir bankans hafi leitt til gjaldþrots stefnanda.
Stefnandi byggir á því að bankinn hafi með samráði við Sparisjóð Reykdæla komið í veg fyrir að hæsta mögulegt verð fengist fyrir hlutabréf hans í Hólmadrangi á nauðungaruppboðinu 9. febrúar 1988. Sala bankans á hlutabréfunum hafi síðan verið örlætisgerningur til hagsbóta fyrir viðskiptavin sem hafi verið bankanum þóknanlegur. Verðmæti bréfanna hafi verið mun meira en söluverð bankans gefi til kynna.
Stefnandi byggir á því, eins og áður segir, að háttsemi Búnaðarbankans hafi valdið honum tjóni og að bankinn hafi verið bótaskyldur vegna þess. Samkvæmt lögum nr. 50/1997 hafi Kaupþing banki hf. tekið við öllum réttindum og skyldum Búnaðarbankans frá 1. janúar 1998 að telja. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 hafi stefndi Arion banki (þá Nýi Kaupþing banki) yfirtekið þær ábyrgðir Kaupþings banka sem ekki hafi verið taldar upp í sérstakri samantekt. Skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda hafi ekki verið talin upp og því hafi stefndi tekið yfir þessa ábyrgð.
Þá byggir stefnandi á því að þegar ríkissjóður hafi selt 45,8% hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003 hafi krafa stefnanda verið viðurkennd af bankanum og því hafi kaupendum hlutarins verið veittur afsláttur af kaupverði.
Stefnandi byggir á því að krafa sín sé ekki fyrnd. Vegna sviksamlegrar launungar, refsiverðrar háttsemi og brota á eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum hafi krafan ekki fyrnst. Í stefnu eru talin í níu töluliðum þau atriði sem hann vísar hér til.
Í fyrsta lagi hafi Búnaðarbankinn leynt Hæstarétt því hvernig staðið hefði verið að útfyllingu tryggingarvíxlanna með því að láta starfsmenn sína ekki mæta í vitnaleiðslu vegna Hæstaréttarmálsins.
Í öðru lagi hafi bankinn reynt að réttlæta útfyllingu víxlanna í bréfi til Fjármálaeftirlitsins með því að halda því vísvitandi rangt fram að stefnandi hefði sjálfur mætt við löghaldsgerðina og í bæjarþingi og ekki gert athugasemd við útfyllinguna. Þetta sé ósanngjörn rangfærsla, en stefnandi kveðst ekki hafa mætt til að halda uppi vörnum þar sem bankinn hafi hótað að gera föður hans, sem var ábekingur á víxlunum, gjaldþrota.
Í þriðja lagi hafi bankinn krafist þess af stefnanda, á meðan bú hans var undir gjaldþrotaskiptum, að hann gengist í ábyrgð fyrir skuldum Framsóknarflokksins. Stefnandi hafi af hálfu bankans og flokksins verið látinn standa frammi fyrir því að bankinn yrði gerður gjaldþrota ef hann gengist ekki í ábyrgð. Hafi hann gert það að lokum.
Í fjórða lagi hafi bankinn samið við Sparisjóð Reykdæla um að sparisjóðurinn keypti ekki hlutabréfin í Hólmadrangi á uppboðinu. Bankinn hafi ekki getað haft aðra hagsmuni af slíkum samningi en þá að þurfa ekki að gera grein fyrir kröfum sínum á hendur stefnanda, en krafa sparisjóðsins hafi verið aftar í veðröð en krafa bankans.
Í fimmta lagi segir stefnandi að hann hafi átt fund með þáverandi varaformanni bankaráðs Búnaðarbankans, Þórólfi Gíslasyni, sem hafi fullyrt að bankinn myndi samþykkja að hlutlausir aðilar yrðu látnir fara yfir útfyllingu víxlanna og málsatvik. Stefnandi kveðst hafa lagt slíka beiðni fram, en bankaráðið hafi hafnað henni umsvifalaust.
Í sjötta lagi bendir stefnandi á að Búnaðarbankinn hafi útbúið skjal, sem hafi verið efnislega rangt og lagt það fyrir Fjármálaeftirlitið til að blekkja. Skjal þetta sé dags. 25. nóvember 1999 og beri heitið Vaxtatap vegna Stokkfiskfyrirtækjanna.
Í sjöunda lagi segir stefnandi að eftir að notkun skjalsins hefði verið kærð til lögreglu, hefði bankinn haft afskipti af rannsókninni sem hafi orðið til þess að lögreglan hætti rannsókn án þess að allra sakargagna hefði verið aflað.
Í áttunda lagi bendir stefnandi á að þegar hann hafi þingfest mál á hendur bankanum í desember 2001 hafi verið krafist tólf milljóna króna málskostnaðartryggingar. Hafi komið fram í úrskurði héraðsdóms að það sætti furðu að bankinn reyndi að loka þeirri leið sem bankinn hefði sjálfur lagt til að yrði farin.
Í níunda lagi kveðst stefnandi telja að stefndi eigi hluta að því að minnispunktar sem eigi að vera varðveittir í forsætisráðuneytinu séu glataðir, en þeir varði viðurkenningu á skaðabótakröfu stefnanda við sölu á hlut í Búnaðarbankanum.
Stefnandi kveðst telja að þessi atriði sýni háttsemi eins og þá sem 7. gr. laga nr. 14/1905 taki til. Krafa sín sé því ekki fyrnd.
Stefnandi skýrir fjárhæð kröfu sinnar í stefnu og byggir m.a. á matsgerð dómkvaddra matsmanna. Þar sem ekki reynir á fjárhæð kröfunnar í þessum þætti verður þetta ekki reifað nánar.
Við aðalmeðferð mótmælti stefnandi því sérstaklega að krafan væri fyrnd. Taldi hann að Búnaðarbankinn hefði beitt vísvitandi launung með því að koma í veg fyrir að starfsmenn hans gæfu skýrslu fyrir dómi vegna áðurnefnds Hæstaréttarmáls. Þá hefði krafa sín verið viðurkennd við sölu hluta ríkisins í bankanum, en krafan hefði leitt til lækkunar söluverðs. Taldi hann að hér gilti ekki sú regla einkamálaréttar að viðurkenningu þyrfti að beina að viðkomandi aðila. Hér ætti að beita reglum stjórnsýsluréttar. Til vara vildi stefnandi byggja á því að ekki væri áskilið hvenær viðurkenning kæmi til vitundar viðkomandi aðila. Vísaði hann loks til undirstöðuraka 16. gr. eldri fyrningarlaga og sagði að hann ætti ekki að bera hallann af því að bankinn hefði leynt misgjörðum sínum með víxla hans.
Málsástæður og lagarök stefnda
Í umfjöllun sinni um málið vísar stefndi fyrst til þess að atvik máls þessa hafi gerst áður en hlutafélagið Arion banki var stofnað. Því geti hann ekki vitað um ýmis atriði sem á reyni og þá eigi alls ekki við að snúa sönnunarbyrði við um einhver atriði.
Í fyrsta lagi byggir stefndi á aðildarskorti, að það sé rangt að beina kröfu stefnanda að sér. Hann telur að í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008 felist að ábyrgð á kröfu, eins og þeirri sem stefnandi haldi uppi, hafi ekki flust til stefnda. Þá leiði ábyrgð hans ekki af lögum eða reglum skaðabótaréttar. Hann hafi heldur ekki gefið neinar yfirlýsingar um ábyrgð á kröfunni, eða vakið réttmætar væntingar stefnanda um að hann myndi takast á hendur slíka ábyrgð.
Í öðru lagi telur stefndi að skilyrði bótaskyldu séu ekki uppfyllt. Hann vísar til þess að dæmt hafi verið um innheimtuaðgerðir Búnaðarbankans í Hæstarétti, en stefndi hafi verið dæmdur til greiðslu víxlanna. Dómurinn hafi fullt sönnunargildi um heimild til að fylla út víxlana og þau áhrif að krafa um skaðabætur vegna þeirra verði ekki borin undir dómstóla. Þá hafi víxlarnir verið tryggingarvíxlar, en ekki sýningarvíxlar eins stefnandi haldi fram. Ljóst sé að stefndi og bæði hlutafélagið og einkafirmað hafi verið í vanskilum við Búnaðarbankann. Þá hafi bú stefnda verið tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu annars aðila en Búnaðarbankans á árinu 1988. Stefnandi hefði því allt að einu misst yfirráð yfir hlutabréfunum. Loks mótmælir hann því að krafa stefnanda hafi verið viðurkennd þegar hún var nefnd í tengslum við sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.
Stefndi byggir í þriðja lagi á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Skaðabótakrafa eins og þessi fyrnist á tíu árum samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905. Krafan hafi átt að stofnast 9. febrúar 1988. Ekki sé sýnt fram á að fyrningu hafi verið slitið áður en þetta mál var höfðað. Stefndi byggir sérstaklega á því að vaxtakrafa stefnanda sé fyrnd. Hann mótmælir því sérstaklega að hún fyrnist ekki vegna sviksamlegrar launungar eða annarra ástæðna. Þær fullyrðingar stefnanda séu ósannaðar.
Í fjórða lagi byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé niður fallin vegna tómlætis. Hann hafi ítrekað höfðað mál til heimtu kröfunnar, en ætíð fellt þau niður án sýnilegrar skýringar. Þá hafi hann fyrst höfðað mál á hendur stefnda fimm árum eftir að félagið var stofnað.
Í fimmta lagi byggir stefndi á því að fjárhæð kröfu stefnanda sé ósönnuð. Hann mótmælir þeirri málsástæðu að tjónið nemi 500 milljónum króna. Bendir hann á að samkvæmt mati á verðmæti bréfanna í nóvember 1993 hafi það verið lítillega hærra en söluverðið á árinu 1994.
Loks mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda sem vanreifaðri. Verði dæmdar bætur krefst hann þess að vextir reiknist ekki fyrr en frá dómsuppsögudegi.
Stefndi vísar til 16. og 116. gr. laga nr. 91/1991, almennra reglna skaðabótaréttar, víxillaga nr. 93/1933, laga um fyrningu nr. 14/1905 og eldri gjaldþrotalaga nr. 6/1978.
Stefndi mótmælti málsástæðum stefnanda um sviksamlega launung sem of seint fram komnum.
Niðurstaða
Eins og áður segir var sakarefni málsins skipt þannig að nú verður einungis leyst úr þeirri málsástæðu stefnda að krafa stefnanda sé fyrnd.
Krafa stefnanda er skaðabótakrafa vegna tjóns sem hann telur sig hafa hlotið þegar hlutafjáreign í Hólmadrangi gekk honum úr greipum í febrúar 1988. Slík krafa fyrnist á tíu árum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905.
Upphaf fyrningarfrests ber að telja frá 9. febrúar 1988 þegar hlutafjáreignin var seld á nauðungaruppboði og tjón stefnanda kom fram.
Af reifun málsins í stefnu má sjá að mál til heimtu kröfunnar var höfðað fyrst á árinu 2001.
Stefnandi byggir á því að krafan hafi verið viðurkennd er hlutur ríkisins í Búnaðarbankanum var seldur, með því að kaupverð hlutabréfanna hafi verið lækkað vegna þessarar kröfu hans. Yrði á þetta fallist bæri að telja fyrningarfrest kröfunnar frá 16. janúar 2003.
Í munnlegum málflutningi kom fram að stefnandi byggir á því að Búnaðarbankinn og síðar Kaupþing banki og stefndi hafi leynt atvikum sviksamlega, þannig að 7. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 eigi við. Stefndi mótmælti þessari málsástæðu stefnanda sem of seint fram kominni. Á það er ekki unnt að fallast. Þessi málsástæða er svar við þeirri málsástæðu stefnda að krafan sé fallin niður fyrir fyrningu. Kom hún því réttilega fram í munnlegum málflutningi og þurfti ekki að reifa hana fyrr.
Málsástæða þessi var skýrð ítarlega í málflutningi, en sönnunargögn um atriðið eru af skornum skammti. Stefnandi heldur því fram að bankinn hafi leynt því hvernig staðið hafi verið að útfyllingu víxla sem fjallað var um í áðurnefndu bæjarþingsmáli. Á bankinn að hafa komið í veg fyrir að starfsmenn hans mættu fyrir dóm til skýrslugjafar. Frásögn af þessu kemur raunar fram í stefnu. Þá hefur stefnandi lagt fram afrit af bréfi þáverandi lögmanns síns til yfirborgardómara, þar sem óskað er eftir vitnaleiðslum vegna hæstaréttarmálsins. Hann hefur hins vegar ekki lagt fram endurrit úr þingbók eða gögn um birtingu vitnakvaðninga. Að þessu virtu eru fullyrðingar hans um sviksamlega launung ósannaðar. Hann hefur ekki sýnt fram á að 7. gr. fyrningarlaga eigi við. Enn síður hefur hann sannað að beita megi reglu 16. gr. laganna eða undirstöðurökum hennar.
Viðurkenning kröfu samkvæmt 6. gr. fyrningarlaga verður að beinast að kröfuhafanum. Stefnandi fékk engar tilkynningar frá bankanum um að reiknað væri með því að hann skuldaði honum tiltekna fjárhæð. Umfjöllun um kröfu stefnanda milli þeirra sem komu fram við sölu á hlutafé ríkisins í bankanum felur ekki í sér viðurkenningu kröfunnar í skilningi 6. gr. þannig að fyrningu sé slitið. Engu breytir í þessu efni þótt hlutaféð sem selt var hafi verið í eigu ríkisins, reglur stjórnsýsluréttar eiga ekki við gagnvart stefnanda að þessu leyti.
Samkvæmt þessum niðurstöðum reiknast fyrning á kröfu stefnanda frá febrúar 1988. Krafan fyrnist á 10 árum samkvæmt 2. mgr. 4. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 eins og áður segir. Krafan var því hvað sem öðru líður fallin niður fyrir fyrningu er stefnandi höfðaði mál til heimtu hennar fyrst á árinu 2001. Þegar af þessari ástæðu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Ekki verður hjá því komist að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað að hluta til. Er hann ákveðinn 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Arion banki hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Þorsteins Helga Ingasonar.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.