Hæstiréttur íslands

Mál nr. 111/2001


Lykilorð

  • Veðréttur
  • Sameign


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. júní 2001.

Nr. 111/2001.

Kristín Tryggvadóttir

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Lífeyrissjóði starfsmanna

Áburðarverksmiðju ríkisins

(Ragnar H. Hall hrl.)

 

Veðréttur. Sameign.

Þ, eiginmaður K, gaf  út veðbréf til tryggingar kröfum L á hendur sér. Til tryggingar var veitt veð í fasteign, sem Þ og K áttu til helminga. Áritaði K bréfið um samþykki sitt. Reis ágreiningur milli K og L um hvort eignarhluti hennar hefði jafnframt verið settur að veði. Sú staðreynd að nafn fasteignarinnar og orðin „öll eignin” komu fyrir feitletruð í tryggingarbréfinu þótti styðja það. Breytti því ekki að orðin „fasteign mín” komu fyrir í yfirlýsingu Þ í meginmáli bréfsins. Þá var talið að hluti þeirrar yfirlýsingar, sem K gaf í lok bréfsins, hefði verið alls óþarfur ef ekki hefði verið að því stefnt að öll eignin stæði til tryggingar kröfunum. Framburður þriggja vitna studdi einnig þá niðurstöðu. Var því fallist á að veðréttur L næði jafnframt til eignarhluta K í fasteigninni og að L hefði rétt til að gera fjárnám í honum til tryggingar kröfum sínum á hendur Þ.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2001. Hún krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málið á rætur að rekja til þess að 3. mars 1995 gaf eiginmaður áfrýjanda, Þorsteinn V. Þórðarson, út veðbréf til tryggingar hverjum þeim kröfum að fjárhæð allt að 5.795.000 krónum, sem stefndi ætti eða kynni að eignast á hendur honum. Skyldi sú fjárhæð verðtryggð miðað við lánskjaravísitölu marsmánaðar 1995. Til tryggingar var veitt veð í fasteignininni Fannafold 21 í Reykjavík, en áfrýjandi og eiginmaður hennar voru bæði þinglýstir eigendur hússins og er óumdeilt að hvort þeirra hafi átt þar helmingshlut. Áritaði áfrýjandi tryggingarbréfið um samþykki sitt. Lýtur deila málsaðila að því hvort veðsetningin taki aðeins til eignarhluta Þorsteins í fasteigninni eða hvort hún nái einnig til hluta áfrýjanda í henni.

Við aðalmeðferð málsins í héraði gáfu þrír hæstaréttarlögmenn skýrslu fyrir dómi. Einn þeirra, Sigurður G. Guðjónsson, hafði aðstoðað Þorstein við gerð munnlegs samnings hans við stefnda í byrjun árs 1995 vegna deilu, sem upp var komin milli þeirra vegna fésýslu hans fyrir stefnda, en tryggingarbréfið var gert á grundvelli þess samnings. Hinir lögmennirnir, Gestur Jónsson og Gunnar Jónsson, gættu hagsmuna stefnda í þessum skiptum við Þorstein og samdi Gunnar tryggingarbréfið. Sú skýring kom fram hjá þeim öllum að þegar fjárhæð tryggingarbréfsins var fundin hafi verið tekið mið af brunabótamati allrar fasteignarinnar, en frá því hafi verið dregnar uppreiknaðar eftirstöðvar áhvílandi veðskulda. Fjárhæð bréfsins hafi numið helmingi mismunarins. Hafi þá verið haft í huga að fjárhæðin skyldi svara til verðmætis eignarhluta Þorsteins, en veðréttur stefnda skyldi hins vegar ná til eignarinnar í heild sinni og þar með einnig til þess hluta, sem tilheyrði áfrýjanda.

II.

Í texta tryggingarbréfsins lýsti áðurnefndur Þorsteinn því yfir að stefnda væri sett að veði „fasteign mín að Fannafold 21, Reykjavík, öll eignin, á fimmta veðrétti með uppfærslurétti ... “. Af þessu voru feitletruð orðin „Fannafold 21, Reykjavík, öll eignin“. Orðalagið styður þá skýringu að veðréttinum hafi ekki aðeins verið ætlað að ná til eignarhluta Þorsteins, heldur allrar eignarinnar og þar með einnig hluta áfrýjanda. Orðið „mín“, sem kemur fyrir á undan hinum tilfærðu feitletruðu orðum, fær því ekki breytt. Texti í niðurlagi bréfsins, sem áfrýjandi undirritaði, styður einnig við þá skýringu, en þar segir: „Samþykki maka, sem er þinglýstur eigandi fasteignarinnar ásamt útgefanda.“ Að undanskildum tveim fyrstu orðunum felur þessi texti í sér skírskotun til þess að Þorsteinn var ekki einn eigandi hússins. Hefði sá hluti yfirlýsingarinnar verið alls óþarfur ef eingöngu væri stefnt að því að áfrýjandi samþykkti að eiginmaður hennar veðsetti hans hluta. Þá rennir framburður áðurnefndra þriggja vitna stoðum undir að með tryggingarbréfinu hafi verið stefnt að því að veita veðrétt í allri fasteigninni Fannafold 21.

Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að taka til greina kröfur stefnda um annað en málskostnað. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

D ó m s o r ð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. desember 2000.

          Mál þetta, sem dómtekið var 4. des. sl., var höfðað með stefnu birtri 17. maí sl.

          Stefnandi er Lífeyrissjóður starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins, kt. 430269-1949, Gufunesi.

          Stefnda er Kristín Tryggvadóttir, kt. 110643-4819, Fannafold 21, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda:

          Stefnandi krefst þess að staðfest verði með dómi að stefnandi eigi, samkvæmt veðtryggingarbréfi, útgefnu 3. mars 1995, 5. veðrétt með uppfærslurétti í eignarhluta stefndu í fasteigninni nr. 21 við Fannafold í Reykjavík til tryggingar allt að 5.795.000 kr. auk hækkunar sam orðið hefur í vísitölu neysluverðs (áður lánskjaravístala) frá grunnvísitölu bréfsins, 3402 stigum, vegna skulda Þorsteins Víðis Þórðarsonar, kt. 060843-4819, við stefnanda að fjárhæð 55.000.000 kr. auk dráttarvaxta frá 8. apríl 1997 til greiðsludags og málskostnaðar að fjárhæð 950.000 kr. samkvæmt dómi Hæstaréttar 10. desember 1998 í hæstaréttarmálinu nr. 109/1998.

          Jafnframt er þess krafist að staðfestur verði réttur stefnanda til að gera fjárnám til lúkningar þessum peningakröfum stefnanda á hendur Þorsteini í eignarhluta stefndu í fasteigninni Fannafold 21, Reykjavík, sem stefnandi hefur veðrétt fyrir.

          Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt gjaldskrá Lögmanna Mörkinni 1.

Dómkröfur stefndu:

          Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins en höfð verði hliðsjón af framlögðu málskostnaðaryfirliti.

 Málavextir

          Stefnandi krefst staðfestingar á veðrétti samkvæmt veðtryggingarbréfi, útg. af Þorsteini V. Þórðarsyni, eiginmanni stefndu, hinn 3. mars 1995. Höfuðstóll veðtryggingarbréfsins er 5.795.000 kr. bundinn lánskjaravísitölu, grunnvísitala er lánskjaravísitala marsmánaðar 1995, 3402 stig. Í bréfinu segir ma. svo:

          "Ég undirritaður, Þorsteinn V. Þórðarson, Fannfold 21, Reykjvík, kt. 060843-4819, geri kunnugt að:

          til tryggingar hverjum þeim kröfum sem Lífeyrissjóður starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins (Lífeyrissjóðurinn), Gufunesi, Reykjavík, kt. 430269-1949, á nú eða kann að eignast á hendur mér, hvort heldur er skv. dómi eða samkomulagi við Lífeyrissjóðinn, allt að fjárhæð kr. 5.795.000,-  --krónur fimmmilljónirsjöhundruðnítíuogfimmþúsund00/100-- er Lífeyrissjóðnum hér með sett að veði fasteign mín að Fannafold 21, Reykjavík, öll eignin, á fimmta veðrétti með uppfærslurétti…"

          Fyrir neðan undirritun útgefanda, Þorsteins V. Þórðarsonar er undirritun stefndu undir svofellda yfirlýsingu:  "Samþykki maka, sem er þinglýstur eigandi fasteignarinnar ásamt útgefanda."

          Þau stefnda og Þorsteinn V.  Þórðarson eiga eignina saman þannig að hvort þeirra um sig er eigandi að 50% eignarinnar.

          Með dómi Hæstaréttar Íslands, sem kveðinn var upp 10. desember 1998, var Þorsteinn Víðir dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 55.000.000 kr.  Sá hluti dómsorðsins, sem hér skiptir máli, er svohljóðandi:

“Gagnáfrýjandi, Þorsteinn V. Þórðarson greiði aðaláfrýjanda 55.000.000 króna, þar af óskipt með gagnáfrýjanda Sveini Sæmundssyni 4.000.000 króna, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. apríl 1997 til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi, Þorsteinn, greiði aðaláfrýjanda samtals 950.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar af óskipt með gagnáfrýjanda Sveini 250.000 krónur.  Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.”

          Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði fjárnám í fasteigninni nr. 21 við Fannafold í Reykjavík, 5. mars 1999, til tryggingar veðrétti gerðarbeiðanda samkvæmt framangreindu tryggingarbréfi. Þetta kemur fram í endurriti úr gerðabók sýslumannsins þar sem jafnframt kemur fram að að öðru leyti var fjárnámsgerðinni lokið án árangurs.  Stefnandi krafðist nauðungarsölu á fasteigninni með beiðni, dags. 8. mars 2000.  Voru gerðarþolar tilgreindir Þorsteinn Víðir Þórðarson og stefnda. Um lagaheimild var vísað til 1. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. 

          Að sögn stefnanda endursendi sýslumaðurinn í Reykjavík þessa beiðni 22. mars 2000, sbr. 2. mgr. 13. gr. sömu laga, með vísan til þess að uppboðsheimild vegna stefndu væri ábótavant. Stefnandi telur að embættið eigi væntanlega við að fyrrnefnt fjárnám hafi aðeins verið gert í eignarhluta Þorsteins og því hafi ekki verið fyrir hendi heimild til nauðungarsölu á eignarhluta stefndu.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

          Tilgangur stefnanda með málshöfðun þessari er að fá viðurkenndan veðrétt stefnanda í eignarhluta stefndu í umræddri fasteign. Stefnandi telur óþarft að beina kröfum að meðeigandanum Þorsteini V. Þórðarsyni eða gjaldþrotabúi hans, þar sem enginn ágreiningur hafi verið um gildi fjárnámsins, sem framkvæmt var 5. mars 1999 í hans eignarhluta. Stefnandi gerir sérstaka kröfu um að staðfestur verði réttur hans til að gera fjárnám í eignarhluta stefndu samkvæmt veðréttinum, enda sé megintilgangur málshöfðunarinnar að afla sér heimildar til að gera fjárnám hjá stefndu í þessari tilteknu eign.

          Stefnandi telur það ótvírætt að hann eigi þann veðrétt sem tilgreindur sé nákvæmlega í kröfugerðinni. Veðrétturinn taki til fasteignarinnar að Fannafold 21, Reykjavík. Hann taki til allrar eignarinnar, þ.e. 50% eignarhluta Þorsteins og 50% eignarhluta stefndu. Veðrétturinn byggist á þinglýstu veðtryggingarbréfi. Í þessu sambandi er vísað til meginreglna veðréttar, samninga- og kröfuréttar.

          Um að veðrétturinn taki til þeirrar skuldar Þorsteins Þórðarsonar, sem tilgreind er í kröfugerð, er vísað til skilmála veðtryggingarbréfsins. Um tilvist skuldar Þorsteins er vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 10. desember 1998 í málinu nr. 109/1998.

          Stefnanda sé nauðsyn á að fá umræddan veðrétt viðurkenndan með dómi. Krafa um staðfestingu dómsins á rétti til að gera fjárnám í veðinu til lúkningar á fyrrnefndum peningakröfum stefnanda á hendur Þorsteini sé gerð til þess að taka af allan vafa um að dómsniðurstaðan sem krafist er verði í framhaldi fullnægjandi aðfararheimild á hendur stefndu samkvæmt 1. mgr. 1. tl. laga nr. 89/1989 (svo í stefnu). Krafa þessi byggist á meginreglum veðréttarins. Bent er á að veðréttur sé tryggingaréttindi sem miði að því að greiðsla fari fram, en verði sú ekki raunin, geti veðhafi fengið fullnustu greiðslu með því að taka  hana af peningaverðmæti veðsins.

          Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og rökstuðningur stefndu

          Stefnda krefst sýknu þar sem hún hafi ekki veðsett eignarhluta sinn fyrir kröfum stefnanda á hendur Þorsteini V. Þórðarsyni, eiginmanni sínum. Slík veðsetning hafi þar að auki aldrei staðið til.

          Stefnda hafi ritað nafn sitt á tryggingarbréfið undir yfirlýsingu um samþykki maka í samræmi við 60. gr. laga nr. 31/1993. Engu öðru hafi verið lýst yfir af hennar hálfu enda hafi það ekki staðið til. Venjuleg orðskýring á greindri yfirlýsingu leiði ótvírætt til þessarar niðurstöðu. Jafnframt því sem hún feli fráleitt í sér ótvíræða viljayfirlýsingu um veðsetningu fasteignar stefndu fyrir tæpum sex milljónum að höfuðstól.

          Stefndu hafi verið kunnugt um samkomulag aðila og að með því væri stefnt að veðsetningu eignarhluta Þorsteins. Ágreiningsmál Þorsteins við stefnanda hafi verið stefndu óviðkomandi og hafi auk þess varðað flókin fjárhagsleg málefni sem stefnda hafi enga aðstöðu haft til að kynna sér til hlítar og taka afstöðu til. Svo flókin hafi þessi ágreiningsmál verið að upphaflega hafi Þorsteinn verið dæmdur til greiðslu bóta að fjárhæð 1.100.000 kr. með refsidómi. Síðan hafi honum verið stefnt til greiðslu ríflega 80.000.000 kr. en dæmdur með dómi Héraðsdóms til greiðslu 4.000.000 kr. og svo loks með dómi Hæstaréttar til greiðslu 55.000.000 kr. Engin rök hafi staðið til þess fyrir stefndu að blanda sér í þennan ágreining með því að gangast í ábyrgð fyrir Þorstein. Áletrunin beri það með sér, sem stefnda undirritaði, að hún samþykkti veðsetninguna sem maki.

          Svo virðist sem orðalag yfirlýsingarinnar sem stefnda undirritaði á veðskuldabréfinu hafi villt um fyrir þinglýsingarstjóra og valdið því að veðtryggingarbréfinu var þinglýst á alla eignina og jafnframt valdið því að þinglýsingarstjóri hafi ekki talið sér fært að leiðrétta þinglýsinguna. Ljóst sé  hins vegar sé yfirlýsing stefndu gaumgæfð að hún feli ekki í sér annað samþykki en samþykki maka. Hana sé alls ekki hægt að skilja sem einhliða ótvíræða viljayfirlýsingu stefndu til að eign hennar standi til tryggingar skuldum samkvæmt tryggingabréfinu.

          Tilgangur veðsetningar eignarhluta Þorsteins V. Þórðarsonar með útgáfu veðtryggingarbréfsins til stefnanda hafi verið að tryggja að eignir Þorsteins stæðu til reiðu til fullnustu hugsanlegra krafna sem stefnandi kynni að eignast á hendur honum að dómi eða dómum gengnum. Með veðsetningunni hafi ekki verið stefnt að því að stefnda setti sínar eigur að veði til tryggingar á kröfum þessum enda þær henni algerlega óviðkomandi þó réttmætar teldust vera. Þær hafi stafað af starfi Þorsteins fyrir stefnanda en hafi á engan hátt komið til kasta stefndu vegna sameiginlegs fjárfélags þeirra hjóna.

          Þá hafi það verið og markmið beggja aðila, veðhafans og Þorsteins, sem veðþola, að veðsetja eignarhluta hans eingöngu. Forsenda þessi komi glöggt fram í skriflegum drögum til staðfestingar á munnlegu samkomulagi sem aðilar hafi gert með sér samhliða útgáfu veðtryggingarbréfsins, sbr. dskj. 8. Augljóst sé af efni þess skjals að eingöngu hafi verið stefnt að veðsetningu eignarhluta Þorsteins. Með gerð samkomulagsins og tryggingarbréfsins hafi ekki staðið til að auka þær tryggingar sem stefnandi hefði með veði í eignum stefndu.

          Meginefni veðtryggingarbréfsins sjálfs ráðgeri jafnframt að einungis sé verið að veðsetja eignarhluta Þorsteins. Í skilgreiningu á veðandlagi segi er fjárhæð veðtryggingarbréfsins sleppir:  “…….er Lífeyrissjóðnum hér með sett að veði fasteign mín að Fannafold 21, Reykjavík, öll eignin, á fimmta veðrétti með uppfærslurétti næst á eftir….”

          Sé efni þessarar yfirlýsingar Þorsteins metið með  hliðsjón af þeirri yfirlýsingu sem stefnda undirritaði sé alveg ljóst að ekkert annað hafi staðið til en að veðsetja eignarhluta Þorsteins.

          Við mat á skýrleika orðalags veðtryggingarskjalsins verði að horfa til þess að það sé samið af lögmanni stefnanda.

          Allan vafa á því hvað áletrunin, sem stefnda ritaði undir, feli í sér verði því að skýra stefnanda í óhag enda sé stefnda ekki löglærður einstaklingur og hafi hún ekki áður áritað skjal af þessu tagi. Beri því að meta mál þetta með hliðsjón af ákvæðum III. kafla samningaslaga nr. 7/1936. Jafnframt sé afdráttarlaust, í ljósi dómafordæma um ábyrgð sérfræðistofnana og sérfræðinga þeirra, eins og stefnandi sé tvímælalaust, að stefnandi verði að bera hallann af hugsanlegum vafa um inntak yfirlýsingar stefndu.

          Jafnvel þó talið væri að í áletrun stefndu fælist annað og meira en samþykki maka  hafi hún verið í fullkominni villu um það. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfum stefnanda.

          Auk áðurgreindra laga og réttarreglna styðst málsvörn stefndu einkum við meginreglur eigna- og veðréttar um veðsetningar eigna.

          Jafnframt er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings kröfu um málskostnað. Stefnda sé ekki virðisaukaskattskyld og beri því nauðsyn til að fá fjárhæð er nemi skatti þessum dæmda úr hendi gagnaðila sbr. lög nr. 50/1988.

          Við aðalmeðferð málsins gaf stefnda og eiginmaður hennar, Þorsteinn V. Þórðarson, skýrslu fyrir dómi, svo og vitnin, Gestur Jónsson hrl., Sigurður G. Guðjónsson hrl. og Gunnar Jónsson hrl.

Niðurstaða

          Fram kom við skýrslutökur að tilefni útgáfu veðtryggingarbréfsins hafi verið að koma í veg fyrir að gert væri árangurslaust löghald hjá eiginmanni stefndu, Þorsteini Víði Þórðarsyni. Jafnframt kom  fram hvernig fjárhæð veðtryggingarbréfsins var ákveðin, þ.e. fundið var nettóandvirði fasteignarinnar Fannafold 21, Reykjavík, og þeirri fjárhæð deilt í tvennt. Sú fjárhæð átti að standa til tryggingar væntanlegum kröfum stefnanda á hendur eiginmanni stefndu. Þannig var fasteignin einungis veðsett fyrir fjárhæð sem taldist nema nettóeign Þorsteins í fasteigninni.

          Lögmennirnir þrír, sem báru vitni, báru að ætlunin hafi verið að veðtryggingin næði til allrar fasteignarinnar en fjárhæðin næmi einungis nettóeignarhluta útgefandans, eiginmanns stefndu.

          Með útgáfu veðtryggingarbréfsins setti eiginmaður stefndu, Þorsteinn V. Þórðarson, stefnanda fasteign sína að Fannafold 21, Reykjavík, alla eignina, að veði til tryggingar kröfum allt að fjárhæð 5.795.000 kr. Þessa veðsetningu samþykkti stefnda sem maki og þinglýstur eigandi.

          Þegar orðalag bréfsins er virt verður ekki fallist á túlkun stefndu, þ.e. að einungis hafi verið veðsettur eignarhluti eiginmanns hennar.

          Meðal skjala málsins eru ljósrit af veðskuldabréfum þar sem stefnda veðsetti eign þeirra hjóna og eiginmaður hennar áritaði veðskuldabréf um samþykki sem maki og bréf þar sem eiginmaður stefndu veðsetti fasteign þeirra hjóna og stefnda áritaði veðskuldabréf um samþykki sem maki. Í þeim tilvikum töldu stefnda og eiginmaður hennar að veðsetningin hefði náð til fasteignarinnar allrar.

          Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og þar sem ljóst er að útgefandi veðtryggingarbréfsins skuldar stefnanda þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í dómkröfu stefnanda verða kröfur stefnanda teknar til greina að öllu leyti.

          Samkvæmt 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma stefndu til greiðslu málskostnaðar sem ákveðst 400.000  kr. og hefur þá verið litið til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.

          Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð:

          Viðurkennt er að stefnandi eigi, samkvæmt veðtryggingarbréfi, útgefnu 3. mars 1995, 5. veðrétt með uppfærslurétti í eignarhluta stefndu í fasteigninni nr. 21 við Fannafold í Reykjavík til tryggingar allt að 5.795.000 kr. auk hækkunar sam orðið hefur í vísitölu  neysluverðs (áður lánskjaravísitala) frá grunnvísitölu bréfsins, 3402 stigum, vegna skulda Þorsteins Víðis Þórðarsonar, kt. 060843-4819, við stefnanda að fjárhæð 55.000.000 kr. auk dráttarvaxta frá 8. apríl 1997 til greiðsludags og málskostnaðar að fjárhæð 950.000 kr. samkvæmt dómi Hæstaréttar 10. desember 1998 í hæstaréttarmálinu nr. 109/1998.

          Viðurkenndur er réttur stefnanda til að gera fjárnám til lúkningar þessum peningakröfum stefnanda á hendur Þorsteini í eignarhluta stefndu í fasteigninni Fannafold 21, Reykjavík.

          Stefnda, Kristín Tryggvadóttir, greiði stefnanda, Lífeyrissjóði starfsmanna  Áburðarverksmiðju ríkisins 400.000 kr. í málskostnað.

                                                                                                Auður Þorbergsdóttir.