Hæstiréttur íslands

Mál nr. 580/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


                                                        

Fimmtudaginn 8. nóvember 2007.

Nr. 580/2007.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri)

gegn

X

(Guðjón Ægir Sigurjónsson hrl.)

 

 

Kærumál. Farbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til mánudagsins 17. desember 2007, klukkan 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að uppfyllt séu skilyrði b. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili verði látinn sæta farbanni þann tíma sem í hinum kærða úrskurði greinir.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. nóvember 2007.

Dóminum barst í dag krafa lögreglustjórans á Selfossi þess efnis að X, pólskum ríkisborgara, kt. [...], til dvalar að [...], Selfossi, verði gert með úrskurði að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 16. janúar n.k. kl. 16:00 eða þar til rannsókn lögreglunnar á Selfossi í máli nr. 032-2007-9768 er lokið og ákvörðun hafi verið tekin um hugsanlega saksókn á hendur honum.

Í greinargerð með kröfunni kemur fram að lögreglan á Selfossi hafi til rannsóknar mál er varði meint kynferðisbrot kærða gegn Y, kt. [...] á Selfossi, aðfaranótt laugardagsins 27. október 2007. Kærði hefur neitað að hafa átt mök við kæranda, en kærandi og vitni bera annað.

Þá kemur fram að rannsókn málsins miði vel en beðið sé niðurstöðu rannsóknar á fatnaði kæranda auk lífsýna úr kærða. Kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa framið alvarlegt kynferðisbrot gegn kæranda.  

Brot kærða eru talin varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þau sakarefni sem um ræði varði allt að 16 ára fangelsi teljist sekt sönnuð.

Er vísað til þess að kærði sé erlendur ríkisborgari og þyki hætta á að hann reyni að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. 

Um heimild til farbanns er vísað til b-liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Kærði mótmælir framkominni kröfu.

Verjandi kærða kveður kærða hafa gefið fullnægjandi skýrslu fyrir lögreglu. Hann sé í fastri vinnu hér á landi og ekki sjáanlegar neinar breytingar á því að svo komnu. Þá telur verjandi kærða að rannsókn sú sem nú er verið að framkvæma erlendis á lífsýnum kæranda taki langan tíma og haft það sem farbann hafi í för með sér sé mjög íþyngjandi fyrir kærða. Þá sé mikill vafi um sekt kærða svo og að kærði sé hinn seki. Þá sé ekkert í gögnum málsins sem styðji það að nauðung hafi verið beitt í umrætt sinn. Þá sé ekkert í gögnum málsins sem réttlæti það að meina kærða að fara frjáls ferða sinna.

Svo sem fram kemur í gögnum málsins þykir fram kominn rökstuddur grunur um að X hafi framið brot það sem hann er grunaður um og getur varðað fangelsisrefsingu. Er sá grunur staðfestur með vætti vitna. Kærði er pólskur ríkisborgari og má fallast á það með lögreglustjóranum á Selfossi að brottför hans af landinu gæti tafið rannsókn málsins og því beri nauðsyn til að tryggja nærveru hans meðan rannsókn málsins er ólokið. Kærði kom fyrir dóminn í dag og var óskað eftir því af hálfu rannsakara að hann staðfesti efni skýrslna sem kærði gaf fyrir lögreglu. Neitaði kærði að tjá sig um skýrslunar en staðfesti undirritun sýna. Verður þar að taka undir sjónarmið rannsakara að frekari rannsókn verði því að fara fram og getur skipt miklu máli að hægt sé að kalla ákærða til frekari skýrslugjafar. Þá verður að taka undir það sjónarmið rannsakara að kærði geti farið úr landi þegar honum þóknast óháð því hvernig rannsókn málsins miðar, verði krafa kærða tekin til greina.

Dómurinn tekur einnig undir sjónarmið verjanda kærða um að farbann sé íþyngjandi ákvörðun og skerði frelsi hans verulega. Þá verður að gera þá kröfu við rannsókn slíkra mála sem þessa að þeim verði hraðað sem kostur er.

Af öllu ofansögðu virtu verður því að telja að uppfyllt séu skilyrði til að neyta heimildar í 110. gr. laga nr. 19/1991 til að banna kærða för úr landi. Er því fallist á framkomna kröfu lögreglustjórans á Selfossi að því leyti að kærði skal sæta farbanni til mánudagsins 17. desember nk. kl. 16.00. 

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð.

Kærða, X, kt. [...], er bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til mánudagsins 17. desember nk. klukkan 16.00