Hæstiréttur íslands

Mál nr. 404/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Skuldabréf
  • Fölsun


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. nóvember 2001.

Nr. 404/2001.

Júlíus Baldursson

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Gylfi Thorlacius hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám. Skuldabréf. Fölsun.

J kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að ógilt yrði fjárnám sem sýslumaður gerði hjá honum 7. júní 2001, að kröfu R, á grundvelli skuldabréfs útgefnu af B og árituðu af J ásamt Á um sjálfskuldarábyrgð þeirra á skuldinni. Í héraði lagði J fram skýrslu, sem hann gaf hjá lögreglu 18. september 2001, þar sem hann bar fram kæru á hendur B um fölsun á nafnritun J á bréfinu. Einnig lagði J fram skýrslu fyrir Hæstarétti sem lögreglan tók af B 25. október, þar sem hann gekkst m.a. við því að hafa falsað undirskrift J á skuldabréfið. Að þessum gögnum fram komnum þótti vera slíkur vafi um réttmæti kröfu R á hendur J samkvæmt umræddu skuldabréfi að ekki væri fært að láta standa á grundvelli þess fjárnám, sem gert var án undangengins dóms eða sáttar. Var því fallist á kröfu J um ógildingu fjárnámsins, en auk þess gerðar athugasemdir við það hvernig staðið var að fjárnáminu af hálfu sýslumanns.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 7. júní 2001 að kröfu varnaraðila, en lagt fyrir sýslumann að taka gerðina upp á ný og fresta henni þar til fyrir lægi niðurstaða nánar tiltekinnar lögreglurannsóknar. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst aðallega „sýknu og að staðfest verði hin kærða aðfarargerð“, en til vara að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur um annað en málskostnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

I.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Verður því ekki komið að fyrir Hæstarétti neinum kröfum um breytingu honum í hag á niðurstöðum hins kærða úrskurðar.

II.

Samkvæmt gögnum málsins krafðist varnaraðili þess í nafni húsnæðisnefndar sinnar 27. febrúar 2001 að sýslumaðurinn í Reykjavík gerði fjárnám hjá sóknaraðila til tryggingar kröfu samkvæmt skuldabréfi útgefnu 30. október 1998 af Baldri Skaftasyni og árituðu af sóknaraðila ásamt Ástu D. Baldursdóttur um sjálfskuldarábyrgð þeirra á skuldinni. Eftir hljóðan skuldabréfsins nam skuldin upphaflega 532.500 krónum, sem áttu að greiðast með 36 jöfnum mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 10. desember 1998. Átti skuldin að bera nánar tilgreinda ársvexti. Í skuldabréfinu var mælt fyrir um heimild til að fella eftirstöðvar skuldarinnar í gjalddaga ef vanskil yrðu 15 daga eða lengur á greiðslu afborgunar, svo og til að gera fjárnám hjá útgefanda skuldabréfsins og sjálfskuldarábyrgðarmönnum án undangengins dóms eða sáttar. Samkvæmt beiðni varnaraðila um fjárnám höfðu orðið vanskil á afborgunum allt frá 10. júní 2000 og var skuldin sögð samtals að fjárhæð 361.565 krónur að meðtöldum áföllnum vöxtum og kostnaði. Með beiðninni fylgdi greiðsluáskorun 3. október 2000 til sóknaraðila, sem var birt fyrir honum 10. þess mánaðar.

Sýslumaðurinn í Reykjavík tók þessa beiðni fyrir 7. júní 2001 og mættu þá lögmenn af hálfu beggja aðila. Var fært í gerðabók að lögmanni sóknaraðila hafi verið „leiðbeint um réttarstöðu sína og kröfu gerðarbeiðanda.“ Hafi lögmaðurinn mótmælt kröfu varnaraðila á þeirri forsendu að undirritun sóknaraðila á skuldabréfið væri fölsuð. Verður ekki séð af endurriti úr gerðabók að sýslumaður hafi berum orðum tekið ákvörðun um þessi mótmæli, heldur var þar bókað að skorað hafi verið á lögmann sóknaraðila að benda á eignir til tryggingar kröfu varnaraðila. Hafi lögmaðurinn sagst vera ókunnugur því hvort sóknaraðili ætti eignir til að tryggja kröfuna. Var eftirfarandi síðan bókað: „Talsmaður gerðarbeiðanda hefur kannað eignastöðu gerðarþola og kveður að engar eignir séu skráðar á gerðarþola til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðandi krefst að fjárnámi verði lokið án árangurs og er svo gert með vísan til 8. kafla laga nr. 90/1989.“

Með bréfi, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 4. júlí 2001, leitaði sóknaraðili úrlausnar um þessa aðfarargerð.

III.

Meðal gagna málsins fyrir héraðsdómi var skýrsla, sem sóknaraðili gaf hjá lögreglunni í Reykjavík 18. september 2001, þar sem hann bar fram kæru á hendur föður sínum, áðurnefndum Baldri Skaftasyni, um fölsun á nafnritun sóknaraðila á skuldabréfinu, svo og á undirskrift systur hans, fyrrnefndrar Ástu D. Baldursdóttur. Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar tók lögreglan skýrslu 25. október 2001 af Baldri Skaftasyni, þar sem hann gekkst meðal annars við því að hafa falsað undirskriftir sóknaraðila og Ástu á skuldabréfið.

Að fram komnu því, sem hér var greint, er slíkur vafi um réttmæti kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila samkvæmt skuldabréfinu frá 30. október 1998 að ekki er fært að láta standa á grundvelli þess fjárnám, sem gert var án undangengins dóms eða sáttar. Þegar af þeirri ástæðu verður að fella úr gildi fjárnámið, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 7. júní 2001 hjá sóknaraðila. Ber og að athuga að andstætt var ákvæðum 8. kafla laga nr. 90/1989 að ljúka fjárnáminu án árangurs samkvæmt þeim yfirlýsingum einum, sem þar komu fram og áður var getið, auk þess sem ekki átti við að leiðbeina héraðsdómslögmanni, sem mætti við gerðina af hálfu sóknaraðila, eins og um væri að ræða ólöglærðan málsaðila, sbr. lokaorð 4. mgr. 25. gr. laga nr. 90/1989.

Dæma verður varnaraðila til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Fellt er úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 7. júní 2001 hjá sóknaraðila, Júlíusi Baldurssyni, að kröfu varnaraðila, Reykjavíkurborgar.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2001.

Málsaðilar:

Sóknaraðili er Júlíus Baldursson, kt. 011260-2259, Veghúsum 31, Reykjavík, en varnaraðili er Reykjavíkurborg vegna Húsnæðisnefndar Reykjavíkur, kt. 580475-0199, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík.

Mál þetta barst héraðsdómi 4. júlí sl. með bréfi lögmanns sóknaraðila, sem dagsett er sama dag.

Það var tekið til úrskurðar hinn 26. september sl. að afloknum munnlegum málflutningi.

Dómkröfur:

Dómkröfur sóknaraðila eru þær, að ógilt verði með dómi aðfarargerð í máli nr. 011-2001-04436, sem fram fór hjá sóknaraðila hinn 7. júní sl. að kröfu Húsnæðisnefndar Reykjavíkur.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins að viðbættum lögmæltum virðisaukaskatti.

Varnaraðili krefst sýknu af kröfu sóknaraðila, auk þess sem sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að mati réttarins, að viðbættum virðisaukaskatti.

Varnaraðili krafðist upphaflega frávísunar málsins en féll frá þeirri kröfu við munnlegan flutning málsins.

Í beiðni sinni til dómsins beindi sóknaraðili málinu, að Húsnæðisnefnd Reykjavíkur, enda var húsnæðisnefndin gerðarbeiðandi í aðfararmáli því, sem sóknaraðili krefst að ógilt verði. Lögmaður varnaraðila upplýsti undir rekstri málsins, að Húsnæðisnefnd Reykjavíkur hafi verið stjórnsýslunefnd á vegum Reykjavíkurborgar, sem falin hafi verið ýmis verkefni sveitarfélagsins. Þau verkefni hafi nú verið færð annars vegar til Félagsbústaða ehf. en hins vegar til Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar.  Reykjavíkurborg taki því til varna gagnvart kröfu sóknaraðila.

Málavextir, málsástæður og lagarök:

Málavextir eru þeir, að Baldur Skaftason, faðir sóknaraðila, gaf út skuldabréf til handhafa, sem dagsett er 30. október 1998. Skuldabréfið er að fjárhæð 532.500 krónur og  skyldi greitt með 36 mánaðarlegum afborgunum, auk vaxta,  sem nánar er lýst í bréfinu sjálfu. Gjalddagi fyrstu afborgunar var 10. desember 1998.  Fram kemur í skuldabréfinu, að Ásta D. Baldursdóttir, kt. 230668-4429, og sóknaraðili gangast in solidum í sjálfskuldarábyrgð, en þau eru börn útgefanda bréfsins. Bréfið er undirritað nöfnum þeirra í sérstaka reiti, sem ætlaðir eru sjálfskuldarábyrgðarmönnum til undirritunar.  Skuldabréfið er vottað tveimur vottum, sem votta rétta dagsetningu, fjárræði og undirskriftir aðila, eins og segir í yfirskrift að nafnritun sjálfskuldarábyrgðarmanna. Vottar eru Bergur Oliversson, lögfræðingur og Ásta Þ. Guðmundsdóttir, sem mun vera móðir sóknaraðila.

Af skuldabréfinu má ráða, að það sé í vanskilum frá 10. júní 2000. Lögmaður varnaraðili sendi sóknaraðila greiðsluáskorun dags. 3. október 2000 og krafðist greiðslu á eftirstöðvum skuldabréfsins, auk vaxta, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar, samtals að fjárhæð 321.042 kr.  Greiðsluáskorunin var birt fyrir sóknaraðila 10. október s.á.  Ekkert kemur fram í gögnum málsins um viðbrögð sóknaraðila við greiðsluáskorun lögmanns varnaraðila, en lögmaðurinn upplýsti við munnlegan flutning málsins, að sóknaraðili hafi ekkert samband haft hvorki við sig né heldur við umbj. hans eða nokkurn á hennar vegum.

Varnaraðili sendi aðfararbeiðni til sýslumannsins í Reykjavík, sem dagsett er 27. febrúar sl. og krafðist fjárnáms hjá sóknaraðila til lúkningar skuld að fjárhæð 361.565 kr.

Fjárnám var gert hjá sóknaraðila í starfstöð sýslumannsins í Reykjavík hinn 7. júní sl. Ágreiningur málsaðila varðar þá aðfarargerð. Lúðvík Emil Kaaber hdl. mætti við gerðina f.h. sóknaraðila. Í gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík er m.a. eftirfarandi fært til bókar. ,,Fyrir gerðarbeiðanda mætir Kristján Thorlacius hdl. Fyrir gerðarþola mætir Lúðvík E. Kaaber hdl. Fyrirsvarsmanni gerðarþola er leiðbeint um réttarstöðu sína og kröfu gerðarbeiðanda. Hann mótmælir kröfu gerðarbeiðanda og kveður undirskrift sjálfskuldarábyrgðaraðila skuldabréfs, sem liggur til grundvallar kröfunni falsaða. Skorað er á fyrirsvarsmann gerðarbeiðanda að benda á eignir til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda. Hann kveðst ókunnugur því hvort gerðarþoli eigi eignir til að tryggja kröfu gerðarbeiðanda. Talsmaður gerðarbeiðanda hefur kannað eignastöðu gerðarþola og kveður að engar eignir séu skráðar á gerðarþola til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðandi krefst að fjárnámi verði lokið án árangurs og er svo gert með vísan til 8. kafla laga nr. 90/1989. Mættum er kynnt efni þessarar bókunar, sem engar athugasemdir eru gerðar við.”  Gerðin er undirrituð af fulltrúa sýslumanns og lögmönnum málsaðila.

Við munnlegan flutning málsins lagði lögmaður sóknaraðila fram kæru á hendur föður sínum, Baldri Skaftasyni og Bergi Oliverssyni, lögfræðingi fyrir fölsun á skuldabréfi því, sem hér er til umfjöllunar. Kæran er bókuð eftir sóknaraðila hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík 18. september sl. Sóknaraðili kærir þar Baldur Skaftason og Berg Oliversson til refsingar fyrir skjalafals. Í kærunni segir enn fremur: ,,Einnig vil ég kæra Húsnæðisnefnd Reykjavíkur fyrir að taka við skuldabréfinu sem þeir vissu að var falsað. Kom þetta í ljós þegar foreldrar mínir voru bornir út úr íbúðinni að Veghúsum 31. þann 31.08. s.l.”  Þessari staðhæfingu var alfarið mótmælt af hálfu lögmanns varnaraðila við munnlegan flutning málsins.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila:

Lögmaður sóknaraðila lýsti atburðarrásinni hjá sýslumanni með þeim hætti, að hann hafi gert fulltrúa sýslumanns grein fyrir því, að nafn sóknaraðila sé falsað á skuldabréfinu, sem lægi til grundvallar aðfarargerðarinnar, og hafi mótmælt því að gerðin færi fram. Einnig hefði hann lýst því yfir, að hann gæti engar upplýsingar veitt um eignir sóknaraðila, þar sem honum hafi aðeins verið falið að mæta við gerðina fyrir hönd sóknaraðila á grundvelli fölsunar á nafni hans á skuldabréfið sem sjálfskuldarábyrgðarmanns. Fulltrúi sýslumanns hafi engu að síður haldið gerðinni áfram og lagt til grundvallar yfirlýsingu lögmanns varnaraðila um að sóknaraðili væri ekki skráður fyrir eignum. Gerðinni hafi þannig verið lokið án árangurs, þrátt fyrir mótmæli sín. Honum hafi verið tjáð, að hann þyrfti ekki að undirrita gerðina, en slík neitun hefði enga þýðingu. Hann hafi því talið ástæðulaust að synja nafnritunar, þar sem bókun fulltrúa sýslumanns hafi verið rétt, svo langt sem hún náði.

Sóknaraðili kveðst byggja á tveimur málsástæðum. Í fyrsta lagi, að undirritun hans undir umrætt skuldabréf sé fölsuð, en í annan stað á því, að forsendur árangurslausrar fjárnámsgerðar hafi ekki verið fyrir hendi, jafnvel þótt lögmæta aðför hefði mátt gera hjá honum.

Að því er varðar fyrri málsástæðuna byggir sóknaraðili á því, að löngu sé viðurkennt sem grundvallaratriði laga, að fölsuð nafnritun sé ekki skuldbindandi. Öllum megi gera þann óleik að falsa nöfn þeirra og standi fólk varnarlaust fyrir því. Réttarfarsreglur aðfararlaga komi í veg fyrir að fölsun sé unnt að sanna eða afsanna. Það standi varnaraðila nær, eða þeim sem aðfarar krefst, að sanna falsleysi skjals, fremur en sóknaraðila, eða viðkomandi gerðarþola. Því hefði átt að synja um framgang gerðarinnar. Það verði að vera gerðarbeiðendum næg trygging fyrir misbeitingu varnar af þessu tagi, að ósönn skýrsla geti falið í sér hegningarlagabrot og verið liður í skilasvikum. Því standi það og lánveitendum nær en utan að komandi aðilum að gæta þess eftir föngum, að skuldaskjöl séu ófölsuð. Sú afstaða sýslumanns að neita að huga að slíku atriði, þegar gerðarþoli beri það sérstaklega fyrir sig, sé áhyggjuefni. Sóknaraðili vísar í þessu sambandi til Hæstaréttardóms frá 1989, bls. 610.

Sóknaraðili byggir á því, hvað varðar síðari málsástæðuna, að árangurslaus aðför geti haft veigamiklar lögfylgjur í för með sér. Því sé í aðfararlögun leitast við að tryggja, að skýrsla gerðarþola um eignir eða eignaleysi sé áreiðanleg. Árangurslaus aðfarargerð eyðileggi lánstraust manna og geti þannig valdið þeim tjóni, ef hún eigi ekki við rök að styðjast. Gerðarþolar eigi því allan rétt á að koma fyrir sýslumann og gera grein fyrir eignum sínum eða eignaleysi. Því hafi verið ljóst, að lögmaður sóknaraðila hafi ekki getað gegnt því hlutverki, sem mælt sé fyrir um í 62. gr. aðfararlaga. Skilyrði hafi því ekki verið fyrir því að ljúka gerðinni sem árangurslausri, heldur hefði átt að leita bitastæðari upplýsinga um eignastöðu sóknaraðila í samræmi við ákvæði aðfararlaga. Þeirra upplýsinga hefði verið unnt að afla, ef fyrst hefði verið leitt í ljós, að aðrar varnir sóknaraðila væru haldlausar. Sóknaraðili telur ranga þá skoðun fulltrúa sýslumanns, að gera megi árangurslaust fjárnám á grundvelli þeirra fullyrðingar gerðarbeiðenda, að eignir sé ekki að finna í opinberum skrám.

Málsástæður og lagarök varnaraðila:

Varnaraðili lýsir málavöxtum með sama hætti og að framan er rakið, en til viðbótar því, upplýsir varnaraðili að umrætt skuldabréf hafi Baldur Skaftason gefið út til greiðslu á húsaleiguskuld við Húsnæðisnefnd Reykjavíkurborgar. Greiðslufall hafi orðið á skuldabréfinu og hafi það því verið sent lögmanni til innheimtu. Lögmaður varnaraðila hafi sent aðalskuldara þess greiðsluáskorun, svo og báðum ábyrgðar­mönnum skuldabréfsins. Þar hafi því verið skilmerkilega lýst, að aðfarar yrði krafist, yrði greiðsluáskoruninni ekki sinnt. Það hafi hins vegar engin viðbrögð kallað fram af hálfu aðalskuldara eða ábyrgðarmanna og því hafi verið krafist fjárnáms hjá sóknaraðila. Lögmaður sóknaraðila hafi mætt við aðfarargerðina og mótmælt henni, eins og bókað sé í gerðarbók sýslumanns.

Varnaraðili byggir sýknukröfu sína á því, að ekkert sé fram komið sem sanni eða veki grun um fölsun. Fram komin kæra breyti þar engu um. Áritun aðalskuldara skuldabréfsins og ábyrgðarmanna þess sé vottuð af tveimur vottum, Ástu Þ. Guðmundsdóttur og Bergi Oliverssyni, lögfræðingi. Sóknaraðili hafi tekið við greiðsluáskorun 10. október árið 2000. Þá hafi hann verið boðaður til að mæta hjá sýslumanni með góðum.  Hann hafi ekki borið við andmælum gegn ábyrgð sinni eða undirritun á skuldabréfið, fyrr en við umrædda aðfarargerð. Þar hafi ekkert verið fært fram til sönnunar fyrir þeirri fullyrðingu að nafnritun hans væri fölsuð og því hafi sýslumanni borið að ljúka aðfarargerðinni án dráttar, sbr. meginreglu aðfararlaga. Gerðin hafi að öllu leyti farið rétt fram. Sóknaraðili geti því ekki krafist ógildingar á þessum grunni.

Sóknaraðili geti heldur ekki krafist ógildingar aðfarargerðarinnar á grundvelli þess, að eignastaða hans sé betri en upplýst hafi verið við gerðina.

Varnaraðili vísar til meginreglu laga um sönnunarskort til stuðnings sýknukröfu sinni og vísar einni til þeirra meginreglu aðfararlaga, að andmæli fresti ekki aðfarargerð.

Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísar varnaraðili til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Forsendur og niðurstaða:

Skuldabréf það, sem lá til grundvallar aðfarargerð nr. 011-2001-04436, sem fram fór hjá sóknaraðila hinn 7. júní sl. að kröfu varnaraðila, er að mati dómsins gild aðfararheimild gagnvart sóknaraðila.  Skuldabréfið fullnægir skilyrðum 7. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 (afl.), sbr. 1. mgr. 3. sömu laga. Í skuldabréfinu er og ákvæði, sem mælir fyrir um það, að aðför megi gera til fullnustu skuldarinnar, án undangengis dóms eða réttarsáttar. Það er vottað tveimur vitundarvottum. Ástæða þess að það lagaskilyrði er sett, að skuldabréf skulu vera vottuð af tveimur vitundarvottum, er m.a. til að koma í veg fyrir fölsun, enda segir í yfirskrift að undirritun vottanna: ,,Vottar að réttri dagsetningu, fjárræði og undirskrifum aðila.” Vottunum er þannig ætlað að tryggja, að undirskriftir á viðkomandi skjal hafi átt sér stað.  Því ber þeim, sem heldur því fram, að eigin nafnritun sé fölsuð, að sanna þá staðhæfingu.

Sóknaraðila var send greiðsluáskorun, sem hann móttók, eins og áður er lýst, sbr. 1. mgr. 7. gr. afl.

Fulltrúa sýslumanns var því rétt og skylt að kröfu lögmanns varnaraðila að ljúka aðfarargerðinni, sbr. 27. gr. afl. Fullyrðing lögmanns sóknaraðila þess efnis,  að nafnritun umbj. hans væri fölsuð var engum rökum studd. Sóknaraðila hlaut að hafa verið ljóst frá því honum var birt greiðsluáskorun varnaraðila 10. október á síðastliðnu ári, að varnaraðili hafði í höndum umrætt skuldabréf með nafni hans sem sjálfskuldarábyrgðarmanns. Sóknaraðili hafði því fengið nægilegt ráðrúm til að gera ráðstafanir til að tryggja sönnur á því, að nafn hans væri falsað.

Það sérstaka réttarfarshagræði, sem felst í 7. tl. 1. mgr. 1. gr. afl. væri virði og lítil réttarbót, ef fullyrðing um fölsun ein og sér kæmi í veg fyrir að því ákvæði væri beitt.

Ekki þykja því efni til að ógilda umrædda aðfarargerð á grundvelli meintrar fölsunar vegna sönnunarskorts.

Sóknaraðili byggir einnig á því, að sýslumanni hafi borið að fresta aðfarargerðinni, þar sem hann hafi ekki verið viðstaddur, þegar hún fór fram og lögmanni hans, sem mætt hafði fyrir hans hönd var alls ókunnugt um eignir hans. Sóknaraðili vísar til 62. gr. afl. í þessu sambandi.

Greinin hljóðar svo:,,Fjárnámi skal ekki lokið án árangurs, nema gerðarþoli hafi sjálfu verið staddur við gerðina eða másvari hans, eða hann hvorki finnst né neinn, sem málstað hans getur tekið.“  

Ljóst er að lögmaður sóknaraðila var viðstaddur gerðina. Því verður tilvitnuðu ákvæði ekki beitt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 282/1993.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið þykir verða að hafna kröfu sóknaraðila um að ógilt verði með dómi aðfarargerð í máli nr. 011-2001-04436, sem fram fór hinn 7. júní sl. að kröfu Húsnæðisnefndar Reykjavíkur.

Sóknaraðili mætti á skrifstofu Lögreglustjórans í Reykjavík hinn 18. september s.l. og lagði fram kæru á hendur föður sínum, Baldri Skaftasyni og Bergi Olíverssyni, lögfræðingi um meinta fölsun á nafn hans á skuldabréf það, sem hér er deilt um.

Í niðurlagi lögregluskýrslu, sem lögmaður sóknaraðila lagði fram við munnlegan málflutning og áður er getið, segir svo: ,, Ég læt fyljga skýrslu minni gögn sem ég hef fengið varðandi málið, ljósrit af skuldabréfinu, endurrit úr gerðarbók, greiðsluáskorun, birtingarvottorð, aðfararbeiðni svo og rithandarsýnishorn mitt sem ég hef útfyllt á lögreglustöðinni.”

Rétt þykir, eins og hér stendur á, að leggja fyrir sýslumann að endurupptaka aðfarargerð nr. 011-2001-4436 og fresta henni, þar til fyrir liggur niðurstaða þeirrar lögreglurannsóknar, sem þegar er hafin, um meinta fölsun á undirritun sóknaraðila á skuldabréf það, sem lá til grundvallar framangreindri aðfarargerð.

Eins og mál þetta er, vaxið þykir rétt, að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Júlíusar Baldurssonar um að ógilt verði með dómi aðfarargerð nr. 011-2001-04436, sem fram fór hjá sóknaraðila hinn 7. júní sl. að kröfu varnaraðila, Húsnæðisnefndar Reykjavíkurborgar, nú Reykjavíkurborgar.

Lagt er fyrir sýslumanninn í Reykjavík að endurupptaka aðfarargerð nr. 011-2001-4436 og fresta henni þar til fyrir liggur niðurstaða lögreglurannsóknar um meinta fölsun á undirritun sóknaraðila á skuldabréf það, sem lá til grundvallar framangreindri aðfarargerð.

Málskostnaður fellur niður.