Hæstiréttur íslands
Mál nr. 322/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 24. maí 2011. |
|
|
Nr. 322/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. maí 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. maí 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Að því frágengnu krefst varnaraðili þess að gæsluvarðhald verði án takmarkana samkvæmt 99. gr. laga nr. 88/2008.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Við uppkvaðningu úrskurðarins kynnti fulltrúi lögreglustjóra varnaraðila að tilhögun gæsluvarðhaldsvistar yrði með takmörkunum samkvæmt c, d, e og f liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðili hefur ekki borið þessa ákvörðun undir héraðsdóm svo sem honum var heimilt samkvæmt 5. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 og kemur hún því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. maí 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krefst þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. maí 2011, kl. 16:00. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði krefst þess að kröfunni verði hrundið.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 218. gr. og 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þann 11. maí sl. leitaði til lögreglu A og skýrði frá því að kærði, ásamt meðkærða Y, hafi haldið sér í gíslingu og misþyrmt sér á heimili Y að [...] í [...] og í bifreið kærða X. Voru kærðu, Y og X, handteknir og í kjölfarið úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli a- liðar 1. mgr. 95. gr. til dagsins í dag, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands nr. 293/2011 og 294/2011.
Í kröfu lögreglustjórans og öðrum gögnum málsins kemur m.a. fram að brotaþoli hafi skýrt lögreglu svo frá að kærðu hafi sótt brotaþola að kvöldi þriðjudagsins 10. maí sl. í iðnaðarhverfi í [...]. Honum hafi síðan verið ekið að heimili Y og þar hafi hann mátt þola margvíslegar árásir. Hann hafi verið laminn ítrekað í höfuðið og líkama með ýmsum áhöldum, hann hafi verið hýddur með þykkri rafmagnssnúru, honum hótað að skornar yrðu í sundur sinar á fótleggjum og tennur dregnar úr honum. Barsmíðarnar hafi staðið yfir allt fram til kl. 00:30 um nóttina. Þá hafi hann verið fluttur með einhvers konar hettu yfir höfðinu frá húsnæðinu og í geymsluhúsnæði sem hann viti ekki hvar sé. Þar hafi honum verið haldið til morguns en kærði þá sótt hann og ekið með hann að heimili Y. Við Sprengisand við Reykjanesbraut hafi kærði tekið hettuna af honum og fleygt út um gluggann. Lögregla hafi fundið húfu við Sprengisand og sé hún nú í rannsókn hjá tæknideild lögreglunnar. Á heimili Y hafi kærðu X og Y ásakað brotaþola um að hafa gert á hlut þeirra og hann skuldi þeim 10 milljónir króna. Enn hafi verið ekið með brotaþola og er hann hafi verið staddur við Borgartún í Reykjavík hafi honum tekist að sleppa út úr bifreiðinni um kl. 12:00 á hádegi þann 11. maí sl.
Samkvæmt læknisvottorði hafi brotaþoli hlotið talsverða áverka m.a. nefbrot, fjölda yfirborðsáverka og tognanir, auk þess hafi hann sjóntruflanir og ógleði.
Við leit í íbúð kærða Y hafi mátt sjá blóðsletti á vegg, gangi og í svefnherbergi. Þá hafi fundist þar samskonar sverð, hnífur og leðurbelti sem brotaþoli hafi lýst. Í bifreið kærða X hafi fundist blóð sem lögregla ætli að stafi frá brotaþola. Tekin hafi verið blóðsýni úr íbúðinni og bifreiðinni og þau send í rannsókn. Í síma kærða Y hafi fundist drög að smáskilaboðum til brotaþola þar sem fram komi grófar hótanir um líkamlegt ofbeldi. Þá hafi lögreglan fundið húsnæði það sem hún telji að brotaþoli hafi verið vistaður í og komi lýsing hans á húsnæðinu heim og saman við húsnæðið. Á staðnum hafi lögreglan fundið munntóbak sem brotaþoli kvaðst hafa skilið eftir. Munntóbakið hafi verið sent í rannsókn.
Kærði X hafi alfarið neitað sök í málinu og mjög mikið ósamræmi sé í framburði kærða Y og X. Ljóst sé að taka þurfi frekari skýrslur af kærðu og þá liggi fyrir að taka þurfi skýrslur af vitnum sem nefnd hafa verið til sögunnar í skýrslutökum í gær.
Í kjölfar ofangreinds máls hafi lögreglunni borist tilkynning um að kærðu hefðu kúgað fé út úr nafngreindum manni. Þann 18. maí sl. hafi lögreglan haft samband við viðkomandi sem hafi staðfest að hafa greitt kærðu umtalsverða fjárhæð í því skyni að koma syni sínum undan þeim. Af ótta við kærðu hafi hann ekki viljað aðhafast frekar í málinu. Lögreglan hafi nú tekið þetta mál til rannsóknar og muni reyna að upplýsa það m.a. með því að afla upplýsinga um bankareikninga kærðu. Þá hafi lögreglan ennfremur fengið upplýsingar nýverið um að kærði X hafi svipt annan mann frelsi og haldið föngnum og misþyrmt í bifreið og í iðnaðarhúsnæði. Rannsókn þessa máls sé á algjöru frumstigi.
Þegar litið er til gagna málsins er fallist á það með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn 218. gr. og 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1991. Ljóst þykir að lögreglan þarf frekara svigrúm til að ná utan um rannsóknina og tryggja rannsóknarhagsmuni málsins. Verður því talið brýnt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi þannig að hann fái ekki tækifæri til að torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á aðra samseka eða vitni. Með vísan a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður með sömu rökum og rakin eru hér að framan, og með vísan til framangreinds b-liðar 1. mgr. 99. gr. sakamálalaga, fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun á með hann sætir gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurði þessum.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. maí 2011 kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.