Hæstiréttur íslands
Mál nr. 438/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Afleiðusamningur
- Gjalddagi
|
|
Mánudaginn 24. ágúst 2015. |
|
Nr. 438/2015.
|
Prentmet ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn LBI hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Afleiðusamningur. Gjalddagi.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna kröfur P ehf. við slit L hf. P ehf. krafðist þess aðallega að L hf. yrði gert að afsala sér 21.000 hlutum í A samkvæmt tveimur afleiðusamningum milli málsaðila frá október 2008 gegn greiðslu á 5.310.341 bandaríkjadal eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum, sbr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en til vara viðurkenningar á kröfu að fjárhæð 935.616.668 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem skipað yrði í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 við slit L hf. Talið var að aðalkrafa P ehf. væri krafa um efndir gagnkvæms samnings milli aðila og félli því ekki undir efnisskilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991. Að því er varðaði varakröfu P ehf. laut ágreiningur aðila einkum að því hvort fyrrgreindir afleiðusamningar, sem höfðu samkvæmt efni sínu gjalddaga 13. október 2008, hefðu verið framlengdir og P ehf. því ekki verið skylt að efna þá á hinum umsamda gjalddegi. Með hliðsjón af samskiptum aðila frá október 2008 til apríl 2011 var ekki talið að L hf. hefði skuldbundið sig til að framlengja umrædda samninga og því gæti L hf. ekki hafa bakað P ehf. bótaskylt tjón, sbr. 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2015 þar sem kröfum sóknaraðila, sem á eftir greinir, var hafnað við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að afsala sér 21.000 hlutum í Apple Inc. samkvæmt tveimur framvirkum samningum milli málsaðila 8. september 2008 gegn greiðslu á 5.310.341 bandaríkjadal eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum, 686.202.235 krónum. Til vara krefst hann viðurkenningar á kröfu að fjárhæð 935.616.668 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. apríl 2012 til greiðsludags sem skipað verði í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvikum er skilmerkilega lýst í hinum kærða úrskurði. Þar greinir meðal annars að fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi skrifað undir yfirlýsingu í byrjun nóvember 2007 þar sem fram kom að hann hafi kynnt sér almenna skilmála varnaraðila um verðbréfaviðskipti. Í þeim skilmálum og almennum skilmálum varnaraðila fyrir markaðsviðskipti var kveðið á um heimild hans til að beita skuldajöfnun gagnvart viðskiptavinum sínum og láta réttindi og skyldur aðila mætast þannig að úr yrði krafa annars á hendur hinum, auk þess sem heimilt hafi verið að reikna þá kröfu í íslenskum krónum. Fyrir liggur í gögnum málsins yfirlýsing fyrirsvarsmanns sóknaraðila 29. janúar 2006 um að hann hafi kynnt sér efni síðargreindu skilmálanna.
Í afleiðusamningunum tveimur 8. september 2008, sem mál þetta snýst um, var kveðið á um að gjalddagi þeirra væri 13. október sama ár. Sóknaraðili heldur því hins vegar fram að í samskiptum aðila frá því um miðjan október 2008 og að minnsta kosti fram í apríl 2011 hafi þeir báðir litið svo á að sóknaraðila hefði ekki verið skylt að efna samningana tvo á hinum umsamda gjalddaga. Til stuðnings þeirri staðhæfingu vísar sóknaraðili hér fyrir dómi einkum til dreifibréfs varnaraðila 16. október 2008, sem sér hafi borist frá honum, yfirlits yfir hreyfingar á samningum sínum við varnaraðila á árinu 2008, sem sér hafi verið sent í byrjun árs 2009, og yfirlits yfir stöðu samninganna tveggja 15. apríl 2011 sem sér hafi verið kynnt af starfsmanni varnaraðila á fundi 28. sama mánaðar.
Í fyrrgreindu dreifibréfi varnaraðila 16. október 2008 sagði meðal annars: „Í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins dags. 13. október 2008 liggja réttindi og skyldur vegna afleiðusamninga áfram hjá Landsbanka Íslands hf. Að óbreyttu liggur fyrir að umræddum afleiðusamningum verður lokað.“ Þegar dreifibréfið var sent voru samningarnir tveir fallnir í gjalddaga samkvæmt efni sínu og höfðu því þá þegar runnið skeið sitt á enda. Af þeim sökum gat dreifibréfið ekki haft neina þýðingu fyrir uppgjör þeirra, sbr. dóm Hæstaréttar 12. maí 2014 í máli nr. 288/2014.
Í málinu liggur fyrir yfirlit yfir hreyfingar á samningum sóknaraðila við varnaraðila á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 1. janúar 2009. Þar var staða þeirra tveggja samninga sem um er deilt í þessu máli og þriðja afleiðusamningsins, sem gerður var á sama tíma og með sama gjalddaga, sögð „Opinn“, en stöðu annarra samninga ýmist lýst sem „Lokaður“ eða „Framlengdur“. Yfirlitið stafaði frá varnaraðila, en aðila greinir á um hvort það hafi verið sent sóknaraðila í upphafi árs 2009. Hvað sem þeim ágreiningi líður liggur fyrir að í fylgiskjali með bréfi, sem varnaraðili sendi sóknaraðila 12. febrúar 2009, kom fram að greiðsla samkvæmt samningunum þremur væri „gjaldfallin“. Með bréfinu var sóknaraðila „veittur 14 daga greiðslufrestur frá dagsetningu“ þess „til að ganga frá greiðslu eða semja um greiðslu á afleiðu- og/eða gjaldeyrissamningum yðar við LÍ, að öðrum kosti áskilur LÍ sér rétt til að innheimta kröfuna“. Hinn 17. mars sama ár sendi varnaraðili greiðsluáskorun til sóknaraðila þar sem ítrekuð var krafa þess fyrrnefnda vegna samninganna, sem sögð var alls 708.412.289 krónur að meðtöldum dráttarvöxtum, og skorað á sóknaraðila að greiða hana innan 7 daga frá dagsetningu áskorunarinnar. Að þessu virtu verður ekki talið að áðurnefnt yfirlit hafi falið í sér skuldbindingu af hálfu varnaraðila gagnvart sóknaraðila til að fresta umsömdum gjalddögum á samningum þeim sem mál þetta lýtur að.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði er óumdeilt að á fundi málsaðila, sem haldinn var 28. apríl 2011, hafi starfsmaður varnaraðila boðið sóknaraðila að ljúka uppgjöri á afleiðusamningunum þremur með greiðslu á ríflega 56.000.000 krónum þegar varnaraðili hefði leyst til sín þau veð sem sóknaraðili hafði sett til tryggingar efndum á þeim. Á hinn bóginn náðist ekki samkomulag með aðilum um uppgjör samninganna á þessum grundvelli og er varnaraðili því óbundinn af þessu tilboði.
Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Prentmet ehf., greiði varnaraðila, LBI hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2015.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 25. október 2013, sem móttekið var 1. nóvember s.á. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Málið var fyrst tekið til úrskurðar 9. febrúar 2015 en endurflutt og tekið til úrskurðar að nýju 8. júní sl.
Sóknaraðili er Prentmet ehf., Lynghálsi 1, Reykjavík en varnaraðili er LBI hf., Álfheimum 74, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðili verði dæmdur til að afsala sóknaraðila samtals 21.000 hlutum í Apple Inc. samkvæmt tveimur framvirkum samningum, sem sóknaraðili og varnaraðili gerðu um hluti í Apple Inc. 8. september 2008, gegn greiðslu á 5.310.341 bandaríkjadal eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum 686.202.235.
Til vara krefst hann þess að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sóknaraðila skaðabætur skv. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 935.616.668 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. apríl 2012 til greiðsludags.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.
I
Varnaraðili er fjármálafyrirtæki í slitameðferð en sóknaraðili var viðskiptamaður þess. Er því lýst í gögnum málsins að sóknaraðili tók lán hjá varnaraðila en átti einnig í verðbréfaviðskiptum við hann. Lýtur ágreiningsefni máls þessa einkum að framvirkum samningum um kaup sóknaraðila á samtals 21.000 hlutum í Apple Inc. Var fyrsti slíkur samningur milli aðila gerður 23. október 2007 um 11.000 hluti og næsti samningur degi síðar um 10.000 hluti. Samningar þessir voru endurnýjaðir í nokkur skipti og mun sóknaraðili hafa verið í tapi sem ekki var gert upp við endurnýjun heldur reiknað inn í hið nýja samningsverð. Síðast voru framangreindir samningar endurnýjaðir báðir 8. september 2008 og höfðu báðir gjalddaga 13. október sama ár. Þann dag bar sóknaraðila að greiða samtals 4.133.208 bandaríkjadali en varnaraðila bar að afhenda sóknaraðila samtals 21.000 hluti í Apple Inc.
Sóknaraðili og varnaraðili höfðu einnig átt í öðrum afleiðuviðskiptum sem ekki þykir ástæða til að rekja nánar hér. Þá er ekki ástæða til að rekja nánar lán sem varnaraðili veitti sóknaraðila.
Fyrirsvarsmaður sóknaraðila skrifaði undir yfirlýsingu í byrjun nóvember 2007 sem honum var send af varnaraðila í tilefni af gildistöku nýrra laga um verðbréfaviðskipti 1. nóvember það ár. Kemur m.a. fram í yfirlýsingunni að hann hafi kynnt sér almenna skilmála varnaraðila um verðbréfaviðskipti. Vísar varnaraðili til þess að í umræddum skilmálum sé m.a. kveðið á um heimild varnaraðila til að beita skuldajöfnun gagnvart viðskiptavinum sínum og láta réttindi og skyldur aðila mætast þannig að úr verði krafa annars á hendur hinum og að varnaraðila hafi verið heimilt að reikna þá kröfu í íslenskum krónum.
Með sérstöku samkomulagi aðila 13. febrúar 2008 var ákveðið að sóknaraðili greiddi inn á tilgreindan bankareikning sem handveðsettur var varnaraðila 100.000.000 krónur og síðan 5.000.000 krónur á mánuði í eitt ár. Var þessum greiðslum ætlað að standa til tryggingar skuldum sóknaraðila vegna afleiðuviðskipta við varnaraðila. Í samkomulaginu var einnig ákvæði um heimild til að óska eftir frekari tryggingum ef veðhlutfall færi niður fyrir tilgreint lágmark. Þann 1. október 2008 beindi varnaraðili veðkalli að sóknaraðila þar sem veðhlutfall væri komið undir umsamið lágmark, en sóknaraðili hafði ekki brugðist við því þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn varnaraðila.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Í framhaldi af því tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 9. sama mánaðar um ráðstöfun eigna og skulda bankans til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem nú heitir Landsbankinn hf. Síðastnefndri ákvörðun var breytt 12. sama mánaðar. Var vísað til þess að breytingarnar skyldu teljast gilda frá 12. október 2008. Umræddar ákvarðanir vörðuðu þá hagsmuni sem deilt er um í máli þessu þannig að með hinni upphaflegu ákvörðun var mælt fyrir um að hinn nýi banki tæki yfir afleiðusamninga en það var dregið til baka 12. október.
Samningar málsaðila þessa máls voru ekki efndir á gjalddaga. Þann 16. október 2008 var send almenn tilkynning til viðskiptavina varnaraðila sem átt höfðu í afleiðuviðskiptum þar sem þess var m.a. getið að umræddum samningum yrði lokað og hefur sóknaraðili vísað til þessa bréfs sem vísbendingar um það að samningum hans við varnaraðila hafi ekki verið lokað á gjalddaga þeirra. Varnaraðili á hinn bóginn telur umrætt bréf ekki hafa þýðingu gagnvart sóknaraðila þar sem gjalddagi samninga hans hafi þegar verið kominn. Sóknaraðili hefur og lagt fram í málinu yfirlit yfir afleiðusamninga þar sem fram kemur að þeir samningar sem hér um ræðir eru sagðir „opnir“ um áramót 2008/2009.
Þann 12. febrúar 2009 sendi varnaraðili sóknaraðila bréf þar sem fram kom m.a. að þeir afleiðusamningar sem hér eru til umfjöllunar væru gjaldfallnir og orðnir að kröfum, samtals að fjárhæð 250.725.545 krónur. Var gefinn 14 daga greiðslufrestur og því beint til sóknaraðila að hafa samband til að semja um greiðslur. Varnaraðili mun hafa brugðist við framangreindu bréfi með tölvubréfi til varnaraðila þar sem hann óskaði eftir að öll lán yrðu áfram í erlendri mynt og að hlutabréf í Apple Inc. yrðu ekki seld. Framangreind krafa varnaraðila var ítrekuð með greiðsluáskorun 17. mars 2009. Haldnir voru fundir með aðilum og einnig starfsmönnum Nýja Landsbanka Íslands hf. sem munu m.a. hafa lotið að hinum hér umdeildu samningum, en einnig að greiðsluerfiðleikum sóknaraðila sem munu hafa verið umtalsverðir á umræddum tíma. Heldur sóknaraðili því fram að á þeim fundum sem þarna hafi verið haldnir hafi verið gengið út frá því að umræddir samningar um kaup á Apple Inc. hlutabréfum ættu að haldast opnir. Af hálfu varnaraðila hefur þessum fullyrðingum verið mótmælt og kveður hann gögn málsins ekki styðja fullyrðingar sóknaraðila í þessa veru.
Þann 25. júní 2009 sendi varnaraðili sóknaraðila innheimtubréf þar sem hann var meðal annars krafinn um greiðslu vegna umræddra tveggja samninga með dráttarvöxtum frá gjalddaga þeirra 13. október 2008. Með bréfi 20. október sama ár bauð varnaraðili sóknaraðila að gera upp umrædda afleiðusamninga gegn framsali umsamins fjölda hlutabréfa í Apple Inc. Engar fjárhæðir koma fram í bréfinu en sóknaraðila er boðið að gera upp framvirka samninga um hlutabréf samkvæmt aðalefni sínu innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins. Í málinu liggur fyrir tölvubréf frá nafngreindum starfsmanni Nýja Landsbanka Íslands hf. sem ber með sér að síðastnefndu bréfi hafi ekki verið fylgt eftir og að sóknaraðili hafi ekki þurft að bregðast sérstaklega við því.
Þann 28. janúar 2010 voru þingfest tvö mál varnaraðila gegn sóknaraðila og varðaði annað þeirra þá samninga sem um er deilt í þessu máli. Krafðist varnaraðili þess í því máli að sóknaraðili greiddi sér umsamda fjárhæð með dráttarvöxtum frá 13. október 2008 gegn afhendingu 21.000 hluta í Apple Inc. Mál þessi munu hafa verið felld niður í kjölfar gerðar kyrrstöðusamkomulags sem síðar er vikið að.
Sóknaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 23. apríl 2010 og stóð hún til 15. október sama ár.
Í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með lögum nr. 44/2009, sem gildi tóku 22. apríl 2009, var varnaraðili tekinn til slitameðferðar og markar gildistökudagur framangreindra laga upphaf hennar. Um slitameðferð fjármálafyrirtækja gilda að meginstefnu ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þar á meðal um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki. Var varnaraðila skipuð slitastjórn sem gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. október 2009. Slitastjórn starfaði í fyrstu við hlið skilanefndar þar til hún tók alfarið yfir stjórn varnaraðila um áramótin 2011/2012. Sóknaraðili lýsti ekki kröfu vegna hinna umdeildu afleiðusamninga innan kröfulýsingarfrests.
Sóknaraðili gerði svokallað kyrrstöðusamkomulag við varnaraðila, Nýja Landsbanka Íslands hf. og Lýsingu hf. en skjalið mun hafa verið undirritað af hálfu varnaraðila 15. nóvember 2010, en af öðrum samningsaðilum nokkur fyrr eða 21. október sama ár og er það dagsett síðastnefndan dag. Samkomulagið gilti til 15. maí 2011. Munu framangreindir þrír kröfuhafar hafa verið stærstu kröfuhafar sóknaraðila. Gekk samkomulagið út á það í stórum dráttum að sóknaraðila bar að greiða fyrrnefndum kröfuhöfum tilteknar greiðslur mánaðarlega, en þeir lofuðu á móti að halda ekki áfram eða hefja innheimtuaðgerðir gegn sóknaraðila meðan leyst væri úr nánar tilgreindum álitamálum er vörðuðu stöðu gengistryggðra lána og það hvort tilteknir samningar teldust láns- eða leigusamningar. Var í þessu sambandi vísað til nánar tilgreindra ágreiningsmála sem þegar voru rekin fyrir dómstólum og talin voru geta gefið vísbendingu um réttarsamband aðila.
Í umræddu kyrrstöðusamkomulagi var einnig eftirfarandi klausa: „Á gildistíma samkomulags þessa stefna aðilar samkomulagsins jafnframt að því að klára uppgjör vegna framvirks samnings um kaup skuldara á bréfum í Apple Inc. (AAPL) og varðveislu trygginga og greiðslna vegna þeirra.“ Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að umræddur texti vísi til þess að samkomulag hafi verið með aðilum um að umræddir samningar teldust opnir. Varnaraðili hafnar því að leggja beri slíkan skilning í umræddan samningstexta og telur hann einungis fela í sér ráðagerð um að gera þurfi upp umrædda samninga í samræmi við efni þeirra.
Sóknaraðili óskaði eftir því við varnaraðila að síðastnefndur kyrrstöðusamningur yrði framlengdur en því hafnaði varnaraðili. Þann 28. apríl 2011 var haldinn fundur varnaraðila og sóknaraðila. Kynnti Stefán Reykjalín, starfsmaður varnaraðila, þar útreikning varnaraðila þar sem fram kom yfirlit yfir stöðu afleiðusamninga og var í yfirlitinu miðað við að lokadagur samninganna væri 15. apríl 2011. Samkvæmt umræddum útreikningi var skuld sóknaraðila ríflega 56.000.000 krónur þegar varnaraðili hefði leyst til sín undirliggjandi veð. Stefán Reykjalín kvaðst í skýrslu fyrir dómi hafa haft umboð til að ljúka samningum við sóknaraðila á þeim nótum sem fram hafi komið í samkomulaginu. Fyrirsvarsmaður sóknaraðila mun hafa gert fyrirvara um að rétt gengi Apple bréfa hefði verið lagt til grundvallar. Ekki varð samkomulag með aðilum í kjölfar þessa fundar.
Næst mun hafa verið haldinn fundur með aðilum 23. mars 2012 og mun sóknaraðili þá hafa krafist uppgjörs á hinum umdeildu afleiðusamningum. Kynnti hann varnaraðila að hann teldi samningana vera í hagnaði fyrir sóknaraðila sem næmi um milljarði króna sem rekja mátti til þess að verð hlutabréfa í Apple Inc. hafði hækkað verulega. Stefán Reykjalín kvað í skýrslu sinni fyrir dómi að samningaviðræðum sínum fyrir hönd varnaraðila hafi lokið í kjölfar þessa enda hefði hann ekkert umboð haft til að semja um lausn málsins á þessum nótum.
Varnaraðili stefndi sóknaraðila 4. október 2012 og krafði sóknaraðila um greiðslu að fjárhæð 201.079.429 krónur sem hann byggir á að hafi verið tapstaða hinna umdeildu framvirku samninga um kaup á 21.000 hlutum í Apple Inc. er samningarnir hafi fallið í gjalddaga 13. október 2008.
Sóknaraðili lýsti þeirri kröfu sem hér er til meðferðar við slitameðferð varnaraðila með kröfulýsingu 13. nóvember 2012. Slitastjórn hafnaði kröfunni og sóknaraðili mótmælti þeirri afstöðu innan lögmæltra tímamarka. Ekki tókst að jafna ágreining aðila á fundum sem haldnir voru í því skyni og var málinu í kjölfarið vísað til úrlausnar dómsins eins og fyrr greinir. Komið hefur fram við meðferð málsins að mál varnaraðila á hendur sóknaraðila sem getið er um hér að ofan er í fresti og bíður úrlausnar þessa máls.
Þá er rétt að geta þess að lokum að fyrir liggur í málinu að varnaraðili mun hafa átt nægilega marga hluti í Apple Inc. þegar samningar aðila voru gerðir og eins á gjalddaga þeirra 13. október 2008, en hlutirnir munu hafa verið seldir í lok árs 2009 og byrjun ársins 2010.
II
Sóknaraðili vísar í greinargerð sinni alfarið til málsatvikalýsingar og tilgreiningar málsástæðna og lagaraka í kröfulýsingu. Kemur fram í kröfulýsingunni að sóknaraðili geri tvíþætta kröfu, annars vegar byggða á 109. gr. laga nr. 21/1991 og hins vegar á 3. tl. 110. gr. sömu laga.
Aðalkrafa sé um efndir in natura á tveimur framvirkum samningum um hlutabréf í Apple Inc. sem sóknaraðili hafi gert við varnaraðila 8. september 2008 og upphaflega hafi verið á gjalddaga 13. október sama ár. Umræddum samningum hafi ekki verið lokað á gjalddaga þeirra heldur haldið opnum af skilanefnd varnaraðila allan þann tíma sem hún hafi farið með vald yfir eignum varnaraðila. Hafi engin breyting orðið á því þegar slitastjórn hafi tekið yfir vald- og verksvið skilanefndar. Vísar sóknaraðili og til þess að í 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og hún varð eftir þá breytingu sem gerð var á lögunum með 6. gr. laga nr. 44/2009, sé tekið sérstaklega fram að dómsúrskurður um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slitameðferðar leiði ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga og kveður sóknaraðili það einnig eiga við um kröfur samkvæmt gagnkvæmum samningum.
Kveðst sóknaraðili miða efndatíma umræddra framvirku samninga um 21.000 hluti í Apple Inc. við 23. mars 2012, en þá hafi fyrirsvarsmaður félagsins óskað eftir uppgjöri þeirra á fundi með varnaraðila. Kaupverðið sé 5.310.341 bandaríkjadalur og byggist það á útreikningi varnaraðila sjálfs á skuld sóknaraðila frá 15. apríl 2011 sem liggi fyrir í málinu. Samkvæmt umræddum útreikningum hafi kaupverð átt að vera 4.801.180 bandaríkjadalir. Við þá fjárhæð bæti sóknaraðili 6,45% samningsvöxtum frá dagsetningu útreiknings til dagsetningar kröfulýsingar. Hafi sóknaraðili verið reiðubúinn frá 23. mars 2012 að ljúka uppgjöri við varnaraðila og kveður sóknaraðili að frá þeim tíma sé um viðtökudrátt af hálfu varnaraðila að ræða.
Sóknaraðili kveður varakröfu sína vera um efndabætur geti varnaraðili ekki afhent 21.000 hluti í Apple Inc. gegn greiðslu kaupverðs þeirra. Byggi varakrafan á því að sóknaraðili hafi óskað eftir lokun hinna framvirku samninga 23. mars 2012. Þann dag hafi gengi hvers hlutar í Apple Inc. verið 596,05 og gengi krónu gagnvart bandaríkjadal 126,08 (21.000 x 596,05 = 12.517.050 x 126,08) Samtals séu þetta 1.578.149.664 krónur. Frá þessari fjárhæð dragist krafa bankans, sem verið hafi 5.096.233 bandaríkjadalir 23. mars 2012. Byggi sá útreikningur á sömu forsendum og í aðalkröfu. Fjárhæð kröfu varnaraðila hafi verið 642.532.996 krónur (5.096.233 x 126,02). Bótakrafa sóknaraðila sé því 935.616.668 krónur (1.578.149.664-642.532.996), auk dráttarvaxta frá 23. apríl 2012.
Kveðst sóknaraðili byggja á því að framvirkir samningar félagsins við varnaraðila um 21.000 hluti í Apple Inc. hafi verið opnir allt til 23. mars 2012, en þann dag hafi sóknaraðili lagt fram útreikninga sína á fundi með varnaraðila, um stöðu samninganna og hafi óskað eftir uppgjöri við varnaraðila og Nýja Landsbanka Íslands hf. Telur sóknaraðili að hagsmunir framangreindra tveggja lánardrottna félagsins hafi verið samtvinnaðir allt frá 9. október 2008 og svo mikið í reynd að lengi vel hafi starfsmenn Nýja Landsbanka Íslands hf. fyrst og fremst komið fram gagnvart sóknaraðila og hafi vélað um öll mál félagsins gagnvart bæði nýja og gamla bankanum.
Þessu til sönnunar bendi sóknaraðili aðallega á svokallað kyrrstöðusamkomulag sem sóknaraðili hafi gert 15. nóvember 2011 við lánardrottna sína. Hafi umrætt samkomulag falið í sér gagnkvæman samning sóknaraðila annars vegar og þriggja lánardrottna hans hins vegar, þar á meðal varnaraðila. Samkomulaginu hafi verið ætlað að gildi í sex mánuði eða til 15. maí 2012 en kveðið hafi verið á um heimild til að framlengja það, einn mánuð í senn, væru aðilar því samþykkir. Tekur sóknaraðili fram að samkomulagið hafi verið unnið af lögmönnum lánardrottnanna fyrst og fremst.
Varnaraðili hafi á þeim tíma sem umrætt samkomulag hafi verið undirritað getað undirgengist gagnkvæma samninga við viðskiptamenn sína. Hafi samkomulagið verið undirritað af starfsmanni varnaraðila á grundvelli umboðs frá formanni skilanefndar, sem þá hafi verið æðsta stjórn varnaraðila.
Innan umsamins gildistíma kyrrstöðusamkomulagsins hafi aðilar þess getað sameiginlega fellt það úr gildi, ef aðstæður sköpuðust vegna dómafordæma eða aðgerða Alþingis til að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu sóknaraðila, eins og stefnt hafi verið að með gerð þess. Á sama hátt hafi verið hægt að rifta því vegna vanefnda. Sóknaraðili hafi staðið við allar skuldbindingar sínar samkvæmt samkomulaginu og því hafi ekki skapast skilyrði til riftunar.
Samkvæmt skýru ákvæði kyrrstöðusamkomulagsins hafi aðilar málsins skuldbundið sig til að klára uppgjör vegna framvirks samnings um kaup sóknaraðila á bréfum í Apple Inc. og varðveislu trygginga vegna þeirra. Aðilar málsins hafi samkvæmt þessu samið um uppgjör kaupa sóknaraðila á 21.000 bréfum í Apple Inc. Samið hafi verið um efndir in natura.
Ákvæði um uppgjör kaupa sóknaraðila á hlutum í Apple Inc. hafi verið sett inn í kröfu sóknaraðila. Þetta hafi verið gert í fyrsta lagi til að staðfesta munnlegt samkomulag, sem gert hafi verið á fundum í mars og apríl 2009 við þá fulltrúa varnaraðila sem farið hafi með afleiðusamninga hans þá samkvæmt yfirlýsingu varnaraðila í bréfi til sóknaraðila 12. febrúar 2009 og í öðru lagi vegna þess að varnaraðili hafi krafið sóknaraðila um greiðslu kaupverðs hlutanna í Apple Inc. gegn afhendingu þeirra með innheimtubréfi 20. október 2009, og fylgt eftir með þingfestingu dómsmáls fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 28. janúar 2010, þar sem miðað hafi verið við að framvirku samningunum hefði verið lokað 13. október 2008. Þetta hafi sóknaraðili talið rangt og í andstöðu við það sem samið hafi verið um í byrjun árs 2009. Þessu til stuðnings sé bent á að þegar héraðsdómsmálið hafi verið höfðað hafi legið fyrir hjá Vali Sveinbjörnssyni, starfsmanni varnaraðila, tölvupóstur frá Sigurði Erlingssyni starfsmanni Nýja Landsbanka Íslands hf. frá 26. október 2009, sem einnig hafi verið sendur á Sigurð Sigurgeirsson, sem farið hafi með afleiðumál varnaraðila samkvæmt bréfi varnaraðila frá 12. febrúar 2009, að sóknaraðili ætti ekki að gera neitt vegna innheimtubréfsins af ástæðum sem varðað hafi meðhöndlun trygginga milli Nýja Landsbanka Íslands hf. og varnaraðila. Varnaraðili hafi með öðrum orðum ekki verið í stakk búinn til þess á árinu 2009 að efna framvirku samningana um hluti í Apple Inc. in natura. Á því hafi ekki orðið breyting á árinu 2010.
Sóknaraðili hafi efnt allar samningsskyldur sínar á gildistíma kyrrstöðusamkomulagsins, alveg eins og hann hafi gert samkvæmt viðbótarsamningi sínum við varnaraðila frá 8. febrúar 2008, en sá samningur hafi gilt í ár frá undirritun.
Varnaraðili hafi ekki einn getað fellt kyrrstöðusamkomulagið úr gildi og lokað framvirku samningunum og krafist uppgjörs miðað við 15. apríl 2011 eins og reynt hafi verið af hans hálfu. Kyrrstöðusamkomulagið hafi verið heildstætt samkomulag skuldara og þriggja lánveitenda, sem gert hafi verið til að vernda að jöfnu hagsmuni skuldarans og kröfuhafanna, vegna þeirrar miklu óvissu sem skapast hefði um réttindi og skyldur þessara aðila í kjölfar banka- og efnahagshrunsins sem orðið hafi hér á landi 6. október 2008. Skera hafi átt úr öllum eða sem flestum óvissuþáttum áður en til lokauppgjörs kæmi.
Varnaraðili hafi hins vegar getað synjað um framlengingu kyrrstöðusamkomulagsins þegar það hafi runnið út 15. maí 2011 og krafist uppgjörs á framvirkum samningunum. Varnaraðili hafi hafnað því að framlengja samkomulagið þó ekki lægju fyrir þá allar forsendur uppgjörs, þar sem enn hafi verið beðið dómsúrlausna um skuld sóknaraðila samkvæmt lána- og eignaleigusamningum.
Varnaraðili hafi hins vegar ekki gert kröfu um lokun framvirku samninganna eftir 15. maí 2011. Besta sönnun þess sé sú, að varnaraðili hafi ekki gengið að þeim tryggingum, sem sóknaraðili hafi sett honum samkvæmt samkomulagi aðila frá 8. febrúar 2008, í formi handveðsetts bankareiknings. Hafi varnaraðili þó væntanlega átt skýlausan rétt til þess fjár, sem verið hafi á reikningnum, tæki hann þá ákvörðun að loka afleiðusamningunum, ef horft sé til þeirra stjórnvalsákvarðana, sem Fjármálaeftirlitið hafi tekið varðandi ráðstöfun eigna og skulda varnaraðila í kjölfar falls hans 7. október 2008 til Nýja Landsbanka Íslands hf. Hagsmunir varnaraðila og Nýja Landsbanka Íslands hf. af því að fjárhagsleg endurskipulagning sóknaraðila gengi eftir hafi verið ríkir og samtvinnaðir á ýmsan hátt. Vegna þeirra og forsendna kyrrstöðusamkomulagsins hafi varnaraðili ekki gengið eftir efndum in natura á framvirku samningunum þegar kyrrstöðusamkomulagið hafi verið úti. Nýi Landsbanki Íslands hf. hafi haldið óbreyttu ástandi og hafi tekið við greiðslum eins og kyrrstöðusamkomulagið væri í gildi og geri enn. Hið sama geri Lýsing hf. enda telji báðir þessir aðilar, þó sérstaklega Lýsing hf., sig ekki enn hafa forsendur til að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu sóknaraðila, þar sem dómafordæmi vanti.
Varnaraðila hafi því borið þegar sóknaraðili hafi krafist uppgjörs 23. mars 2012 að ganga til uppgjörs og afhenda félaginu 21.000 hluti í Apple Inc. gegn greiðslu kaupverðs þeirra. Engu skipti hvort varnaraðili hafi þá átt umrædda hluti. Skylda samkvæmt framvirku samningunum sé skýr og ótvíræð. Hlutabréf í Apple Inc. hafi varnaraðili getað keypt í Kauphöll og geti enn. Engu breyti um skyldu varnaraðila til efnda in natura þó hlutir Apple Inc. hafi hækkað í verði. Áhættan af hækkun hluta í Apple Inc. umfram umsamnið framvirkt gengi hafi verið á ábyrgð varnaraðila frá og með 8. september 2008. Varnaraðili hafi ávallt getað tryggt sig við gerð framvirku samninganna og keypt hluti í Apple Inc. teldi hann líkur á því að verð þeirra hækkaði umfram umsamið framvirkt gengi þeirra. Um þessi áhættuskipti gildi almenn sjónarmið kauparéttar. Varnaraðili virðist hafa tryggt hagsmuni sína í upphafi og hafa átt 22.500 hluti í Apple Inc. fram til 9. október 2008.
Hlutirnir í Apple Inc. hafi verið fluttir 8. október 2008 með stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins til Nýja Landsbanka Íslands hf. og taldir til eigna hans. Vera kunni að einmitt þessi tilflutningur eigna varnaraðila til Nýja Landsbanka Íslands hf. hafi verið til umfjöllunar milli varnaraðila og nýja bankans haustið 2009 þegar starfsmaður Nýja Landsbanka Íslands hf. hafi sent starfsmanni varnaraðila tölvupóst 26. október 2009, þar sem hafi sagt að sóknaraðili þyrfti ekki að gera neitt vegna innheimtubréfs, þar sem félagið hafi verið krafið um greiðslu kaupverðs 21.000 hluta í Apple Inc. gegn afhendingu þeirra. Varnaraðili hafi á þessum tíma ekki verið í stakk búinn til efnda in natura.
Fyrir aðalkröfu máls þessa skipti ekki máli hvort varnaraðili eigi nú 21.000 hluti í Apple Inc. Skylda hans til efnda in natura sé skýr og ótvíræð. Skyldan sé bundin í gagnkvæman samning, sem gerður hafi verið 8. september 2008 með upphaflegum gjalddaga 13. október 2008. Hvorugur samningsaðila hafi efnt skyldur sínar þá, heldur hafi efndum verið frestað og samningunum verið haldið opnum að kröfu sóknaraðila og með samþykki varnaraðila, eins og kyrrstöðusamkomulag frá 15. nóvember 2011 sé ótvíræð sönnun um.
Vegna ákvæða og tilgangs kyrrstöðusamkomulagsins hafi fyrst verið hægt að krefjast efnda in natura loka framvirku samningunum 15. maí 2012. Enginn vafi geti verið um þetta þegar horft sé til efnis samkomulagsins. Sé engu að síður til staðar einhver óvissa eða vafi beri að skýra allan vafa um efni samninga sóknaraðila og varnaraðila hinum fyrrnefnda í hag, þar sem það hafi verið starfsmenn og trúnaðarmenn varnaraðila sem séð hafi um öll samskipti við sóknaraðila og hafi þekkt gjörla þær leikreglur sem borið hafi að virða og fara eftir við lokun, framlengingu og uppgjör afleiðusamninga. Fjármálafyrirtæki eigi að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Varnaraðili hafi verið fjármálafyrirtæki þegar samið hafi verið við sóknaraðila 8. september 2008 og eins þegar samið hafi verið 2009 og 15. nóvember 2010. Skilanefnd varnaraðila og allir starfsmenn hennar hafi verið bundnir af 19. gr. laga nr. 161/2002. Þeim hafi því borið að ganga svo frá málum við sóknaraðila strax í upphafi að enginn vafi léki á um rétt sóknaraðila gagnvart varnaraðila, m.a. til hlutanna í Apple Inc. Ósk um að halda samningum um hlutina í Apple Inc. opnum hafi komið fram í febrúar 2009 af hálfu sóknaraðila og hafi verið samþykkt þá. Ætti að víkja frá þeirri samþykkt hafi borið að gera það með skriflegum og formlegum hætti. Það hafi aldrei verið gert. Þvert á móti hafi verið samið sérstaklega um að stefnt skyldi að uppgjöri kaupa sóknaraðila á hlutum í Apple Inc. innan sex mánaða tímabils sem byrjað hafi að líða 15. nóvember 2011.
Slitastjórn varnaraðila sem skipuð hafi verið á grundvelli laga nr. 44/2009 í apríl sama ár, hafi tekið við hlutverki skilanefndar varnaraðila frá og með áramótum 2011/2012. Slitastjórn sé bundin af öllum þeim gagnkvæmu samningum sem skilanefndin hafi gert meðan hún hafi farið með allt vald yfir daglegri stjórnun varnaraðila. Slitastjórninni beri að efna þá samninga sem skilanefndin hafi gert eftir aðalefni sínu. Engu breyti um þessa skyldu þó varnaraðili hafi verið tekinn til formlegrar slitameðferðar, þar sem í lögum nr. 161/2002 sé gert ráð fyrir því að við slit þeirra falli gagnkvæmir samningar ekki í gjalddaga, líkt og almennt sé samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Með vísan til framangreinds beri slitastjórn varnaraðila að afhenda sóknaraðila 21.000 hluti í Apple Inc. gegn greiðslu á 5.310.341 bandaríkjadal. Kaupverðið sé framreiknað samningsverð hlutanna samkvæmt samningnum frá 8. september 2008.
Varakrafa um greiðslu efndabóta er sögð byggð á sömu málsástæðum og aðalkrafa, enda veiti gildir löggerningar, eins og þeir sem sóknaraðili og varnaraðili hafi gert 8. september 2008 og hafi endurnýjað formlega 15. nóvember 2011, rétt til efnda in natura eða efndabóta. Varnaraðila hafi borið skylda til, að samninga- og kröfurétti, að standa við gerða samninga. Varnaraðili hafi ekki gert það og afhent þá hluti í Apple Inc., sem samningar hafi kveðið á um að afhentir yrðu gegn greiðslu kaupverðs þeirra. Geti varnaraðili ekki afhent hlutina eins og aðalkrafan kveði á um verði hann að greiða efndabætur.
Verðmæti hinna umdeildu hluta, að frádreginni peningagreiðslu sóknaraðila, sé 935.616.668 krónur. Sú fjárhæð sé hið beina tjón sóknaraðila af vanefnd varnaraðila. Þá fjárhæð beri varnaraðila að greiða sóknaraðila þar sem hún sé afleiðing vanefnda varnaraðila á gildum gagnkvæmum samningi sem gerður hafi verið af þar til bærum aðila meðan varnaraðili hafi verið til slitameðferðar samkvæmt reglum laga nr. 161/2002 og laga nr. 21/1991. Efndabótakröfuna beri því að greiða sem búskröfu, eins og allar aðrar bótakröfur, sem til verði við slitameðferð og gjaldþrotaskipti og rekja megi til samnings sem gerður hafi verið af til þess bærum aðilum.
Sóknaraðili byggi kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um að samninga bera að halda og efna in natura, en að öðrum kosti greiða efndabætur, sbr. 23. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Þessar reglur eigi við um alla, bæði einstaklinga og lögaðila, hvort heldur þeir séu undir skiptum eða í slitameðferð samkvæmt sérstökum almennum reglum þar um, eins og reyndin sé með varnaraðila. Um slitameðferð varnaraðila gildi annars vegar hin sérstöku ákvæði XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. einkum 102. gr. laganna, eins og ákvæðum þess kafla var breytt og við hann aukið með lögum nr. 125/2008, nr. 129/2008 og nr. 44/2009 og hins vegar lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt 109. gr. þeirra laga eigi að afhenda þriðja manni eign eða réttindi sem hann sanni að hann eigi tilkall til. Með vísan til þess sé gerð krafa um efndir in natura, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009 sem kveði sérstaklega á um að við slit fjármálafyrirtækja, eins og varnaraðila, gildi ekki reglur laga nr. 21/1991 um gagnkvæma samning, sbr. 89. gr. laganna, sem bjóði að ákvæði XV. kafla laganna eigi ekki við ef annað leiði af öðrum lagaákvæðum eða eðli réttarsambands aðilanna. Geti varnaraðili ekki efnt skuldbindingu sína in natura beri honum að greiða efndabætur á grundvelli 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Krafa um dráttarvexti byggi á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um greiðslu þóknunar lögmanns sé sett fram með hliðsjón af reglum 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferða einkamála.
III
Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að slíkir annmarkar séu á málatilbúnaði sóknaraðila að leiða eigi til höfnunar allra krafna hans eða frávísunar málsins að sjálfsdáðum.
Samkvæmt 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skuli í greinargerð sóknaraðila koma fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar ásamt gögnum sem hann hyggist styðja málstað sinn við. Sambærilegan áskilnað sé að finna í d. og e. liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 gildi almennar reglur um meðferð einkamála um mál þetta að því leyti sem annað leiði ekki af ákvæðum laga nr. 21/1991.
Vísar varnaraðili til þess að hvorki sé gerð grein fyrir málsatvikum né málsástæðum að baki kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila í greinargerð hans. Um þessi atriði láti sóknaraðili nægja að vísa til framlagðra gagna í málinu og þá einkum til kröfulýsingar sinnar og bréfs sem hann hafi ritað til að mótmæla afstöðu slitastjórnar til hinnar lýstu kröfu. Í greinargerðinni sé þannig í engu gerð grein fyrir því á hverju kröfur sóknaraðila séu reistar eins og áskilið sé í 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem engar málsástæður sé að finna í greinargerðinni sé á því byggt að málið sé með öllu vanreifað af hálfu sóknaraðila, enda ósannað að sóknaraðili eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila.
Eins og málið liggi fyrir sé erfitt fyrir varnaraðila að taka til varna í málinu með fullnægjandi hætti. Jafnframt telji varnaraðili að örðugt verði fyrir dómara að dæma um réttmæti krafnanna vegna fyrrgreindra annmarka á greinargerð. Sé á því byggt að hvorki verði lagt á dómara né varnaraðila að fara í gegnum öll önnur framlögð gögn í málinu en greinargerð sóknaraðila til að átta sig á málatilbúnaði hans og samhengi þeirra málsástæðna sem þar greini gagnvart þeim kröfum sem fram komi í greinargerð sóknaraðila. Samkvæmt réttarfarslögum eigi málatilbúnaður sóknaraðila að liggja fyrir í greinargerð hans til dómsins, þ.e. hvaða málsatvik liggi til grundvallar og á hvaða málsástæðum kröfurnar byggi. Sé á því byggt að ekki sé nóg fyrir sóknaraðila að vísa til framlagðra gagna í málinu varðandi grundvöll þess, atvik og málsástæður eins og hann geri.
Í samræmi við framangreint telji varnaraðili að málatilbúnaður sóknaraðila brjóti í bága við framangreind ákvæði laga nr. 21/1991 og laga nr. 91/1991. Enga lagastoð sé að finna fyrir málatilbúnaði sóknaraðila að þessu leyti. Sé á því byggt að annmarkarnir á málatilbúnaði sóknaraðila séu slíkir að hafna beri öllum kröfum hans í málinu, eða vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.
Í öðru lagi kveðst varnaraðili byggja á að hinar ætluðu kröfur sóknaraðila séu fyrndar og beri þegar af þeirri ástæðu að hafna þeim. Kröfur um peninga eða aðrar greiðslur fyrnist samkvæmt lögum nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, nema annað sé ákveðið með lögum, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. sömu laga teljist fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi þegar kröfuhafi hafi fyrst getað átt rétt til efnda. Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda sé fjögur ár, sbr. 3. gr. laganna. Þá sé í IV. kafla laganna að finna ákvæði um slit fyrningar.
Kröfur sóknaraðila séu reistar á framvirkum samningum nr. 1103-6 og 11104-7 sem sóknaraðili og Landsbanki Íslands hf. hafi gert með sér 8. september 2008. Gjalddagi samninganna hafi verið 13. október 2008. Sé því mótmælt að sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila vegna hinna umþrættu samninga. Þar sem hinar ætluðu kröfur séu fyrndar samkvæmt lögum nr. 150/2007 sé að mati varnaraðila ekki þörf á að taka efnislega afstöðu til krafnanna við úrlausn sakarefnisins.
Varnaraðili byggi á því að fyrningarfrestur vegna ætlaðra krafna sóknaraðila á grundvelli hinna umþrættu samninga reiknist frá gjalddaga þeirra 13. október 2008. Sóknaraðili hafi vanefnt samningana fyrir sitt leyti á gjalddaga þeirra og hafi við þær vanefndir stofnast kröfuréttindi varnaraðila á hendur sóknaraðila. Þá sé á því byggt að hinn almenni fjögurra ára fyrningarfrestur sem kveðið sé á um í 3. gr. laga nr. 150/2007 eigi við um kröfur aðila samkvæmt hinum umþrættu samningum.
Einnig sé á því byggt að sóknaraðili hafi ekki slitið fyrningu samkvæmt IV. kafla laga nr. 150/2007 fyrir lok fjögurra ára fyrningarfrests. Sóknaraðili hafi ekki lýst kröfu innan kröfulýsingarfrests við slit varnaraðila vegna þeirra krafna sem umþrættar séu í máli þessu. Þannig hafi sóknaraðili ekki lýst kröfu við slitameðferð varnaraðila fyrr en 13. nóvember 2012 og hafi slitastjórn móttekið kröfulýsinguna 23. sama mánaðar. Hafi hinar ætluðu kröfur sóknaraðila á grundvelli hinna umþrættu samninga þá þegar verið fallnar niður fyrir fyrningu gagnvart varnaraðila. Vísi varnaraðili sérstaklega um þetta efni til 24. gr. laga nr. 150/2007 þar sem fjallað sé um réttaráhrif fyrningar. Nánar tiltekið komi fram í ákvæðinu að þegar krafa fyrnist falli hún niður og að kröfuhafi glati rétti sínum til efnda.
Í samræmi við allt framangreint sé á því byggt að hinar ætluðu kröfur sóknaraðila hafi verið fyrndar þegar hann hafi lýst kröfum sínum við slit varnaraðila. Við fyrningu hafi þær fallið niður og þar með réttur sóknaraðila til að krefjast efnda samkvæmt hinum umþrættu samningum. Sé því gerð krafa um að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Verði ekki talið að kröfurnar séu fyrndar þá byggi varnaraðili á því að þær séu engu að síður fallnar niður sakir tómlætis af hálfu sóknaraðila. Varðandi tómlæti sé vísað til framangreindra málsástæðna sem og til almennra meginreglna kröfu- og samningaréttar sem gildi um tómlætissjónarmið.
Í þriðja lagi sé á því byggt að sóknaraðili eigi ekki lögvarða kröfu á hendur varnaraðila. Þvert á móti sé það varnaraðili sem eigi kröfur á hendur sóknaraðila á grundvelli hinna umþrættu samninga sem og á grundvelli skiptasamnings nr. 12256-3. Um þær kröfur verði dæmt í héraðsdómsmálinu nr. E-3372/2012 milli sömu aðila.
Varnaraðili vísi til þess að með þeim framvirku samningum um kaup á hlutabréfum sem mál þetta taki til hafi Landsbanki Íslands hf. skuldbundið sig á gjalddaga samninganna til að selja og afhenda 21.000 hluti í Apple Inc. Þann dag hafi sóknaraðila borið að leggja samningsverð samkvæmt samningunum inn á viðskiptareikning Landsbanka Íslands hf. og hafi uppgjör samninganna átt að fara fram samdægurs fyrir kl. 16. Í samræmi við þetta hafi sóknaraðila sem kaupanda borið að eiga frumkvæði að efndum með því að bjóða fram greiðslur af sinni hálfu og leita eftir því að fá afhent þau hlutabréf sem samningarnir hafi tekið til. Um skyldu sóknaraðila til að eiga frumkvæði að efndum með því að bjóða fram greiðslu samningsverðsins og leita eftir því að fá afhent þau hlutabréf sem samningarnir hafi tekið til vísi varnaraðili til dóma Hæstaréttar í málum nr. 631/2012, Byggingahúsið ehf. gegn LBI hf., og nr. 509/2013, Einar Pétursson gegn LBI hf.
Í samræmi við framangreint sé á því byggt að sóknaraðili hafi ekki innt af hendi umsamdar greiðslur á gjalddaga samninganna og hafi því komið til vanefndar af hálfu sóknaraðila gagnvart varnaraðila. Samkvæmt ákvæðum almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti, sbr. einkum 3., 4. og 7. gr. skilmálanna, hafi varnaraðila verið heimilt, við vanefnd sóknaraðila, að jafna skyldum aðila samkvæmt afleiðusamningunum svo að aðeins kæmi til uppgjörs á skuld, þannig að varnaraðila hafi ekki verið skylt að krefjast efnda samkvæmt orðanna hljóðan (in natura) á samningunum. Í samræmi við framangreinda uppgjörsaðferð sé það varnaraðili sem eigi fjárkröfu á hendur sóknaraðila vegna hinna umþrættu samninga en ekki öfugt eins og sóknaraðili haldi fram og reisi kröfur sínar á.
Krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila á grundvelli hinna umþrættu samninga byggi á fjárhagslegu uppgjöri samninganna með skuldajöfnun (nettun) þeirra greiðslna sem aðilum hafi verið skylt að inna af hendi samkvæmt samningunum. Vísi varnaraðili til þess að sjá megi á dómskjali nr. 92 þær greiðslur sem sóknaraðila hafi borið að inna af hendi á gjalddaga samninganna og jafnframt virði þeirra undirliggjandi hlutabréfa sem Landsbanka Íslands hf. hafi borið að inna af hendi sem gagngreiðslu, sem fundið sé út með því að margfalda fjölda hluta með lokagengi Apple Inc. á gjalddaga samninganna 13. október 2008, þ.e. þegar greiðsla og afhending hafi átt að eiga sér stað samkvæmt samningunum. Yfirlit yfir lokagengi hlutabréfa í Apple Inc. í október 2008 sé að finna meðal gagna málsins en lokagengi þeirra hafi verið 110,26 á gjalddaga samninganna 13. október 2008. Séu aðilar með þessari uppgjörsaðferð því eins settir fjárhagslega og sóknaraðili hefði greitt varnaraðila umsamdar fjárhæðir og Landsbanki Íslands hf. afhent í kjölfarið til sóknaraðila umsaminn fjölda hluta í Apple Inc. á umsömdum gjalddaga samkvæmt hinum framvirku hlutabréfasamningum sem aðilar hafi gert með sér.
Varðandi útreikning á kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila vísist til dómskjals nr. 92, en þar megi sjá hvernig fjárhæð kröfunnar sé fundin út með því að skuldajafna (netta) greiðslu samningsfjárhæða, sem sóknaraðila hafi borið að inna af hendi samkvæmt samningum aðila, gagnvart virði þeirra hlutabréfa sem Landsbanka Íslands hf. hafi borið að afhenda sem gagngjald fyrir greiðslu samningsfjárhæða. Sé útkoma þeirrar skuldajöfnunar neikvæð fyrir sóknaraðila sem nemi 201.079.249 krónum, án vaxta, sem samsvari tapi sóknaraðila samkvæmt samningunum á hinum umsamda gjalddaga.
Skyldur aðila séu þannig jafnaðar með þeim hætti að virði undirliggjandi hlutabréfa, eins og það hafi verið skráð í dagslok á gjalddaga, sé dregið frá samningsfjárhæðum. Með þessum hætti komi aðeins til greiðslu taps aðila af viðskiptunum eins og kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila í héraðsdómsmálinu nr. E-3372/2012 séu grundvallaðar á, með heimild í hinum almennu skilmálum fyrir markaðsviðskipti.
Vísi varnaraðili til þess að framangreindur uppgjörsmáti megi teljast venjubundinn við uppgjör framvirkra hlutabréfasamninga og að sóknaraðila hafi verið kunnugt um þann uppgjörsmáta, enda eigi hann stoð í almennum skilmálum sem fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi kynnt sér og samþykkt. Veki varnaraðili athygli á að hinir umþrættu samningar séu framlengingar á eldri afleiðustöðum sama efnis. Þá sé á það bent að við innheimtu krafna samkvæmt hinum umþrættu samningum hafi varnaraðili krafið sóknaraðila um greiðslu á grundvelli skuldajöfnunar. Sé í þessu samhengi jafnframt vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 509/2013, Einar Pétursson gegn LBI hf., og nr. 30/2013, Skólabrú ehf. gegn LBI hf. Auk framangreinds sé vísað til þess að sóknaraðili hafi gert fjölda afleiðusamninga við Landsbanka Íslands hf., eða allt frá árinu 2007, og að sóknaraðili hafi ýmist hagnast á þeim samningum eða tapað, eins og ráða megi af hreyfingaryfirliti samninga sem liggi fyrir í málinu.
Varðandi heimild til að umreikna kröfur samkvæmt hinum framvirku samningum yfir í íslenskar krónur á gjalddaga samninganna vísi varnaraðili til 4. gr. hinna almennu skilmála fyrir markaðsviðskipti. Þá vísi hann jafnframt til 5. mgr. 7. gr. skilmálanna þar sem segi: „Komi til gjaldfellingar eða lokunar samnings/samninga annast LÍ útreikning á markaðsverðmæti trygginga samkvæmt eigin mati á hverjum tíma og útreikning á hagnaði/tapi viðskiptamanns af samningi(um).“
Varðandi rétt varnaraðila til að krefja sóknaraðila um dráttarvexti á höfuðstólsfjárhæð kröfunnar frá gjalddaga hennar til greiðsludags, líkt og málatilbúnaður sóknaraðila í málinu nr. E-3372/2012 sé grundvallaður á, vísi varnaraðili til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Gjalddagi hinna framvirku samninga hafi verið fyrirfram ákveðinn í skilningi ákvæðisins 13. október 2008. Jafnframt vísi varnaraðili til 7. mgr. 7. gr. hinna almennu skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands hf. og ákvæða (iii) í hinum umþrættu samningum.
Auk alls þess sem að framan greini sé á það bent að sóknaraðili hafi krafist sýknu á kröfum varnaraðila samkvæmt skiptasamningi aðila nr. 12256-3 í fyrrnefndu héraðsdómsmáli á þeim grundvelli að varnaraðila, sem stefnanda þess máls, hafi verið með öllu óheimilt að gera skiptasamning við sóknaraðila, sem stefnda í því máli, um hluti í Landsbanka Íslands hf. eftir gildistöku laga nr. 108/2007. Að mati varnaraðila rýri framangreint málatilbúnað sóknaraðila, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Samkvæmt þessu telji sóknaraðili sig annars vegar geta tekið út hagnað vegna afleiðuviðskipta sem almennur fjárfestir en hafni því hins vegar að greiða tap vegna annarra sambærilegra samninga á þeim grundvelli að hann hafi ekki haft heimild til þess að gera þá og þeir séu af þeim sökum óskuldbindandi fyrir hann. Slíkt valkvætt mat á skuldbindingargildi samninga eftir fjárhagslegri útkomu þeirra eigi sér ekki stoð í lögum eða samningum milli aðila.
Í samræmi við það sem að framan sé rakið sé á því byggt að sóknaraðili eigi ekki lögvarða kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli hinna umþrættu framvirku samninga. Þvert á móti sé það varnaraðili sem eigi kröfu á hendur sóknaraðila á grundvelli þeirra. Sé á þeim grunni gerð krafa um að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Í aðalkröfu sóknaraðila eins og hún komi fram í greinargerð hans sé í engu minnst á rétthæð kröfunnar og ekki sé að finna í greinargerðinni þær málsástæður sem hann byggi kröfuna á, en látið nægja að vísa til kröfulýsingar um það efni. Í kröfulýsingunni sé tilgreint að aðalkrafan sé um efndir in natura á hinum umþrættu samningum og að sú kröfugerð byggi á 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Sé byggt á því að umrædd krafa verði ekki felld undir síðastnefnda lagagrein og beri því að hafna henni.
Fjalli umrædd lagagrein um kröfur þriðja manns til afhendingar eignar eða annarra verðmæta í eigu þrotabús á grundvelli eignarréttar hans að þeim.
Sé á það bent annars vegar að sóknaraðili eigi hvorki tilkall til eignar né annarra réttinda í vörslum varnaraðila á grundvelli hinna umþrættu samninga eins og áskilið sé í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 og beri því að hafna aðalkröfu sóknaraðila. Samkvæmt samningunum hafi Landsbanki Íslands hf. skuldbundið sig til að selja sóknaraðila 21.000 hluti í Apple Inc. og sóknaraðili til að inna af hendi kaupverðið (samningsfjárhæðir) að fjárhæð 4.133.208 bandaríkjadalir á gjalddaga samningsins 13. október 2008. Sóknaraðila hafi borið sem kaupanda að eiga frumkvæði að efndum með því að bjóða fram greiðslu af sinni hálfu og leita eftir því að fá afhent þau hlutabréf sem samningurinn hafi tekið til. Fyrst þá hafi varnaraðila borið að hafa bréfin tiltæk, en fyrir liggi að varnaraðili hafi ráðið yfir og getað afhent sóknaraðili hluti í Apple Inc. á þeim tíma. Við vanefnd sóknaraðila á gjalddaga samninganna hafi kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila samkvæmt samningunum gjaldfallið. Samkvæmt almennum skilmálum fyrir markaðsviðskipti hafi varnaraðila verið heimilt, en ekki skylt, að beita skuldajöfnuði milla allra samninga, sem fallið hafi undir skilmálana, þannig að hagnaður eða tap hvors samningsaðila yrði gert upp í einu lagi. Þessa heimild hafi varnaraðili nýtt sér eins og framlögð innheimtubréf og önnur gögn málsins beri með sér. Í samræmi við það sé það varnaraðili sem eigi fjárkröfu á hendur sóknaraðila á grundvelli samninganna samkvæmt fjárhagslegu uppgjöri afleiðusamninganna með skuldajöfnuði eða „nettun“ þeirra greiðslna sem málsaðilum hafi, hvorum um sig, verið skylt að inna af hendi. Sé á því byggt að sóknaraðili eigi hvorki eign né réttindi í vörslum varnaraðila sem geti verið grundvöllur fyrir viðurkenningu á aðalkröfu hans samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Samningar aðila hafi ekki verið efndir á gjalddaga af ástæðum sem varðað hafi sóknaraðila, ekki varnaraðila. Sé á því byggt að sóknaraðili hafi fyrirgert öllum ætluðum rétti sínum samkvæmt samningunum á grundvelli eigin vanefnda. Hafi öll ætluð réttindi sóknaraðila samkvæmt samningunum því verið niður fallin þegar hann hafi lýst kröfu sinni við slitameðferð varnaraðila rúmlega fjórum árum eftir gjalddaga þeirra.
Hins vegar sé á það bent að hinir umkröfðu hlutir í Apple Inc. séu ekki í vörslum varnaraðila eins og áskilið sé í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Landsbanki Íslands hf. hafi ráðið yfir og getað afhent umrædd hlutabréf á gjalddaga samninganna 13. október 2008. Liggi fyrir í málinu staðfestingar á umráðum yfir 21.000 hlutum í Apple Inc., annars vegar 8. september 2008 og hins vegar á gjalddaga 13. október sama ár. Með því að hafa umráð yfir hlutunum á samningsdegi hafi Landsbanki Íslands hf. varið sig gagnvart breytingu á gengi hlutabréfanna á samningstímanum. Hafi bankinn því verið í stakk búinn til að mæta skuldbindingum sínum samkvæmt samningunum á gjalddaga þeirra. Til þess hafi hins vegar ekki komið vegna vanefnda sóknaraðila á greiðsluskyldu sinni eins og áður hafi verið lýst.
Kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila hafi gjaldfallið á gjalddaga samninganna 13. október 2008. Með vísan til þess sem og með hliðsjón af vanefndum sóknaraðila sem staðið hefðu í lengri tíma hafi bankinn selt þá hluti í Apple Inc. sem hann hafi haft yfir að ráða á tímabilinu frá 29. október 2009 til 14. janúar 2010. Í samræmi við það séu engir hlutir í Apple Inc. í vörslum varnaraðila.
Varnaraðilli telji rétt að árétta að sóknaraðili hafi hvorki fyrr né síðar átt eignarréttindi í þeim hlutum í Apple Inc. sem hinir umþrættu samningar taki til. Samkvæmt samningunum hafi sóknaraðili þannig verið skuldbundinn til að kaupa bréfin á gjalddaga samninganna. Til þess hafi hins vegar ekki komið vegna vanefnda sóknaraðila og hafi þá þegar stofnast kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila í samræmi við það sem fyrr sé lýst. Hafi eignarrétturinn yfir hlutunum því verið áfram á hendi varnaraðila allt þar til hlutirnir hafi verið seldir á markaði á tímabilinu frá 29. október 2009 til 14. janúar 2010.
Í samræmi við framangreint byggi varnaraðili á að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 og krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Engar málsástæður sé að finna í greinargerð sóknaraðila fyrir aðalkröfu hans. Varnaraðili kveðst mótmæla öllum málsástæðum til stuðnings kröfunni sem fram komi í kröfulýsingu, verði talið að þær komist að í málinu.
Í fyrsta lagi sé því mótmælt sem röngu sem greini í kröfulýsingu um að framvirku samningunum um 21.000 hluti í Apple Inc. hafi ekki verið „lokað“ á gjalddaga þeirra 13. október 2008, heldur haldið opnum af skilanefnd bankans til ársloka 2011. Vísi varnaraðili um þetta efni til fyrri umfjöllunar um vanefndir sóknaraðila á gjalddaga samninganna 13. október 2008 og hvernig kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila samkvæmt samningunum séu til komnar.
Í öðru lagi sé því mótmælt að unnt sé að miða efndatíma framvirku samninganna við 23. mars 2012 eins og byggt sé á í kröfulýsingu sóknaraðila þar sem því sé lýst að fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi óskað eftir uppgjöri samninganna á fundi þann dag. Vísi varnaraðili til þess að hvorki sé að finna lögbundna né samningsbundna heimild fyrir því að miða efndatíma samninganna við 23. mars 2012. Þá verði með engu móti ráðið af gögnum málsins að sóknaraðili hafi óskað eftir uppgjöri samninganna á tilgreindum degi. Auk þess sé á það bent að ekki hafi verið nóg fyrir sóknaraðila að óska eftir uppgjöri heldur hafi sóknaraðila þá borið að eiga frumkvæði að efndum með því að inna greiðslur af hendi til varnaraðila. Það hafi sóknaraðili hvorki gert fyrr né síðar. Sé því enga stoð að finna fyrir kröfu sóknaraðila á þessum grundvelli. Því til viðbótar sé á það bent að sóknaraðili hafi á framangreindu tímamarki vanefnt sínar skyldur á grundvelli hinna umþrættu samninga og hafi því ekki átt rétt til þeirra efnda sem hann segist hafa krafist.
Þá vísi varnaraðili til þess að enga stoð sé að finna fyrir þeirri uppgjörsaðferð sem sóknaraðili byggi á í kröfulýsingu sinni, þ.e. að reikna samningsvexti á þær samningsfjárhæðir sem honum hafi borið að inna af hendi til varnaraðila á gjalddaga samninganna 13. október 2008 sem gagngjald fyrir afhendingu hinna umþrættu hluta. Sé á það bent að varnaraðili eigi í öllum tilvikum rétti til dráttarvaxta á samningsfjárhæðir frá gjalddaga samninga til greiðsludags úr hendi sóknaraðila. Sé um það efni vísað til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, 7. mgr. 7. gr. hinna almennu skilmála fyrir markaðsviðskipti og ákvæða (iii) í hinum umþrættu samningum. Í samræmi við það sé ekki stoð fyrir aðalkröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að afsala til sóknaraðila 21.000 hlutum í Apple Inc. gegn greiðslu á 5.310.341 bandaríkjadal enda gagngjaldið í engu samræmi við efni undirliggjandi samninga. Í samræmi við framangreint sé á því byggt að það gagngjald sem tilgreint sé í aðalkröfu sóknaraðila sé alltof lágt enda beri að miða við dráttarvexti en ekki ætlaða samningsvexti. Sé kröfunni sérstaklega mótmælt á þeim grundvelli. Þá sé því mótmælt sem röngu að útreikningur kaupverðs í aðalkröfu sóknaraðila byggi á útreikningum varnaraðila. Sé vísað til framlagðra gagna í málinu um það efni.
Í þriðja lagi sé því mótmælt að þeir starfsmenn Nýja Landsbanka Íslands hf., síðar NBI hf. og nú Landsbankans hf., sem tilgreindir séu í kröfulýsingu sóknaraðila hafi komið fram fyrir hönd varnaraðila gagnvart sóknaraðila. Vísi varnaraðili til þess að tilgreindir starfsmenn hafi ekkert haft með málefni varnaraðila að gera.
Í fjórða lagi mótmæli varnaraðili í heild sinni þeim málsástæðum sem byggi á því að kyrrstöðusamkomulag sóknaraðila og lánardrottna félagsins 21. október 2010 hafi falið í sér að hinir umþrættu afleiðusamningar teldust hafa verið framlengdir. Varnaraðili mótmæli því sem röngu og ósönnuðu sem sóknaraðili byggi á í kröfulýsingu sinni að með samkomulaginu væri búið að semja um frestun á „lokun“ hinna framvirku samninga um Apple Inc. sem mál þetta varði. Vísi varnaraðili til þess að tilgreint samkomulag hafi verið gert vegna greiðsluerfiðleika sóknaraðila. Í samræmi við það hafi samkomulagið kveðið á um það að kröfuhafar myndu ekki hefja eða framhalda innheimtuaðgerðum gegn sóknaraðila á gildistíma samkomulagsins á meðan unnið væri að fjárhagslegri endurskipulagningu sóknaraðila. Þannig sé í engu vikið að ætlaðri frestun á „lokun“ hinna umþrættu samninga í samkomulagin aðila. Þvert á móti komi skýrt fram í samkomulaginu að Landsbanki Íslands hf. sé kröfuhafi sóknaraðila og að stefnt sé að því að klára uppgjör á milli aðila vegna krafna bankans á hendur sóknaraðila á gildistíma samkomulagsins. Við það uppgjör hafi átt að miða við stöðu gjaldfallinna krafna varnaraðila á hendur sóknaraðila. Sé fullyrðingum um samninga aðila í þá veru sem haldið sé fram í kröfulýsingu sóknaraðila sérstaklega mótmælt sem tilhæfulausum, röngum og ósönnuðum. Enga stoð sé að finna fyrir hinu ætlaða samkomulagi aðila sem haldið sé fram í kröfulýsingu sóknaraðila.
Í fimmta lagi sé því mótmælt sem röngu að varnaraðili hafi ekki verið í stakk búinn til að efna samningana eftir orðanna hljóðan (in natura) á gjalddaga þeirra 13. október 2008 þar sem hlutirnir í Apple Inc. hafi verið færðir til Nýja Landsbanka Íslands hf. á grundvelli stjórnvaldsákvarðanda Fjármálaeftirlitsins. Vísi varnaraðili til þess að Landsbanki Íslands hf. hafi haft umráð yfir hinum umþrættu hlutum í Apple Inc. í gegnum LI-Hedge reikninginn. Þannig liggi fyrir staðfestingar á eignarhaldi bankans á 21.000 hlutum í Apple Inc., þ.e annars vegar 8. september 2008 þegar samningar aðila um framvirk hlutabréfaviðskipti hafi verið gerðir og hins vegar á gjalddaga þeirra 13. október 2008. Með því að eiga hlutina á samningsdögum hafi Landsbanki Íslands hf. varið sig gagnvart breytingum á gengi hlutabréfanna í Apple Inc. á samningstíma. Hafi það verið gert í samræmi við góða og heilbrigða viðskiptahætti Landsbanka Íslands hf. enda hafi það verið sóknaraðili en ekki bankinn sem stundað hafi spákaupmennsku með gerð framvirkra samninga um hlutabréf í Apple Inc.
Í samræmi við framangreint hafi verið í vörslu Landsbanka Íslands hf. 21.000 hlutir í Apple Inc. bæði á samningsdegi sem og á gjalddaga samninga aðila. Hafi bankinn því verið í stakk búinn til að mæta skuldbindingum sínum samkvæmt samningunum á gjalddaga. Til þess hafi hins vegar ekki komið þar sem sóknaraðili hafi vanefnt greiðsluskyldu sína á gjalddaga samninganna. Sé því þannig með öllu mótmælt sem röngu að hlutirnir hafi orðið eign Nýja Landsbanka Íslands hf. á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 og að varnaraðili hafi því ekki verið í stakk búinn til að efna hina umþrættu framvirku samninga um 21.000 hluti í Apple Inc. á gjalddaga þeirra.
Í sjötta lagi sé því mótmælt að skýra beri allan vafa um efni samninganna sóknaraðila í hag enda sé enga stoð að finna fyrir slíkri túlkun samninganna. Sé á því byggt að varnaraðili hafi starfað í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði gagnvart sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002.
Með vísan til þess sem að framan sé rakið sé þess krafist að aðalkröfu sóknaraðila verði hafnað.
Þá byggir varnaraðili á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 og beri því einnig að hafna varakröfu sóknaraðila.
Samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði teljist til búskrafna kröfur sem orðið hafi til á hendur þrotabúi eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um töku búsins til gjaldþrotaskipta með samningum skiptastjóra eða vegna tjóns sem búið baki öðrum.
Varnaraðili kveðst mótmæla því að hin ætlaða krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila hafi stofnast eftir það tímamark sem kveðið sé á um í 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Vísi varnaraðili til þess að þeir samningar sem sóknaraðili reisi kröfur sínar á hafi verið gerðir 8. september 2008. Sé á það bent að krafa sóknaraðila eigi hvorki rætur að rekja til samninga skiptastjóra, þ.e. slitastjórnar eða eftir atvikum skilanefndar eins og sóknaraðili túlki 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, né mistaka starfsmanna varnaraðila. Bú varnaraðila hafi ekki bakað sóknaraðila tjón. Með vísan til þessa, auk þess sem áður greini, sé á því byggt að ekki séu uppfyllt skilyrði fyrrnefndrar lagagreinar og sé þess því krafist að varakröfu sóknaraðila verði hafnað.
Engar málsástæður sé að finna fyrir varakröfu sóknaraðila í greinargerð hans, en varnaraðili mótmæli öllum málsástæðum fyrir kröfunni sem komi fram í kröfulýsingu verði talið að þær komist að í málinu.
Í kröfulýsingunni sé tilgreint að varakrafa sóknaraðila sé um efndabætur geti varnaraðili ekki afhent 21.000 hluti í Apple Inc. gegn greiðslu kaupverðs þeirra. Af kröfulýsingu sóknaraðila verði helst ráðið að á því sé byggt að félagið hafi óskað eftir lokun hinna umþrættu samninga 23. mars 2012 og að miða beri uppgjör samninga við þann dag.
Varnaraðili mótmæli þessum málatilbúnaði sóknaraðila. Sé á það bent að hvorki sé að finna lögbundna né samningsbundna heimild til að óska eftir „lokun“ samninganna á tilgreindum degi. Auk þess sé á það bent að ekki hafi verið nóg fyrir sóknaraðila að óska eftir uppgjöri heldur hefði sóknaraðila þá borið að eiga frumkvæði að efndum með því að inna greiðslur af hendi til varnaraðila. Það hafi sóknaraðili ekki gert hvorki fyrr né síðar. Sé því enga stoð að finna fyrir kröfu sóknaraðila á þessum grundvelli. Því til viðbótar sé á það bent að sóknaraðili hafi á framangreindu tímamarki vanefnt sínar skyldur á grundvelli hinna umþrættu samninga og hafi því ekki átt rétt til þeirra efnda sem hann segist hafa krafist.
Sé á það bent að með sömu röksemdum væri unnt að miða efndatíma krafna við gjalddaga samninganna 13. október 2008 eða við kröfubréf varnaraðila til sóknaraðila 12. febrúar 2009, 17. mars 2009, 25. júní 2009 og 20. október 2009. Sé með öllu óútskýrt í málatilbúnaði sóknaraðila á hvaða heimild hann byggi ætlaða lokun samninganna 23. mars 2012.
Þá sé á því byggt að skaðabótakrafa sóknaraðila sé með öllu vanreifuð enda enga stoð að finna fyrir þeirri uppgjörsaðferð sem lögð sé til grundvallar í varakröfunni. Varðandi mótmæli gegn útreikningum sóknaraðila á kröfunni vísi varnaraðili sérstaklega til þess sem greini í röksemdum gegn aðalkröfu um það efni, þ.á.m. um að fjárhæð kaupverðs/gagngjalds sem sóknaraðila hafi borið að inna af hendi og komi til frádráttar í varakröfu hans sé með öllu vanreiknað.
Sé því sem fyrr mótmælt að varnaraðili hafi vanefnt hina umþrættu samninga gagnvart sóknaraðila. Vísi varnaraðili um það efni til fyrri umfjöllunar um að frumkvæðisskylda að efndum samninganna á gjalddaga þeirra hafi hvílt á sóknaraðila. Þar sem sóknaraðili hafi ekki innt af hendi greiðslu samningsfjárhæða á gjalddaga samninga hafi komið til vanefndar af hans hálfu, ekki varnaraðila.
Varnaraðili mótmæli tilvísun í kröfulýsingu sóknaraðila til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup en að mati varnaraðila nái þau lög ekki yfir það efni sem hér sé til úrlausnar. Að öðru leyti byggi varnaraðili á að með vanefndum sóknaraðila samkvæmt hinum umþrættu samningum hafi hann fyrirgert öllum rétti til þess að beita ætluðum vanefndaúrræðum síðastnefndra laga gagnvart varnaraðila.
Þá mótmæli varnaraðili sérstaklega kröfu sóknaraðila um dráttarvexti en í varakröfu sóknaraðila sé gerð krafa um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. apríl 2012. Sé á það bent að enginn gjalddagi sé á ætluðum kröfum sóknaraðila og í raun með hliðsjón af atvikum öllum megi efast um að skilyrði séu uppi til að verða við slíkri kröfu þar sem almenna viðmiðið sé að greiða einungis vexti af peningakröfu ef það leiði af samningi, venju eða lögum. Engu slíku sé fyrir að fara í máli þessu. Hinir umþrættu samningar hafi verið á gjalddaga 13. október 2008, ekki 23. mars 2012.
Vísi varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi fyrst krafið varnaraðila um greiðslu kröfunnar með kröfulýsingu sem borist hafi slitastjórn 23. nóvember 2012. Varnaraðili telji því að upphafsdagur dráttarvaxta geti aldrei miðað við fyrra tímamark en 23. desember 2012 en það sé sá dagur þegar mánuður hafi verið liðinn frá því kröfuhafi hafi krafið skuldara sannanlega með réttu um greiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Þá sé á það bent að eins og kröfugerð sóknaraðila sé háttað að þá virðist á því byggt að aðilinn hafi orðið fyrir tjóni sem nemi dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001. Mótmæli varnaraðili því með öllu sem ósönnuðu að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni í skilningi 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 sem nemi dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Hvorki sé að finna lagastoð fyrir kröfugerð sóknaraðila að þessu leyti né nokkur sönnunargögn sem sýnt geti fram á ætlað tjón aðilans.
Í samræmi við framangreint mótmæli varnaraðili kröfu sóknaraðila um dráttarvexti í heild sinni.
Með vísan til þess sem að framan greini sé gerð krafa um að varakröfu sóknaraðila verði hafnað.
Í samræmi við allt sem að framan greini geri varnaraðili kröfu um að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá kveðst hann benda á að annmarkar á málatilbúnaði sóknaraðila kunni að leiða til frávísunar málsins frá dómi án kröfu.
Þá kveðst varnaraðili krefjast málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Sé á það bent að í kröfulýsingu sóknaraðila hafi þess verið krafist að „skuldari greiði allan lögmannskostnað kröfuhafa vegna þessarar kröfugerðar og málaferla, ef til þeirra [komi].“ Enga kröfu um málskostnað sé að finna í greinargerð sóknaraðila. Verði því að leggja til grundvallar að sóknaraðili hafi fallið frá þeirri kröfu sinni um málskostnað sem fram komi í kröfulýsingu hans enda eigi í greinargerð að koma fram til fullnaðar þær kröfur sem sóknaraðili hafi uppi í málinu og á hverju þær séu byggðar, sbr. 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991. Vísaði varnaraðili og til þess við munnlegan málflutning að krafa sóknaraðila um málskostnað sem sett hafi verið fram í upphafi aðalmeðferðar sé of seint fram komin.
Varnaraðili kveðst vísa til almennra meginreglna samninga- og kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga, skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi. Þá vísi varnaraðili til laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Málskostnaðarkrafa sé byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
IV
Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að hafna beri kröfum sóknaraðila þar sem málatilbúnaður hans sé í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 einkum vegna þess að í greinargerð hans til dómsins séu ekki tilgreindar málsástæður þær sem hann byggi kröfur sínar á. Í kröfulýsingu sóknaraðila er ítarleg lýsing málavaxta og þar eru einnig tilgreindar þær málsástæður sem hann byggir málatilbúnað sinn á. Í greinargerð sinni til dómsins rekur sóknaraðili kröfur sínar með sambærilegum hætti og í kröfulýsingu, utan að þar er ekki gerð krafa um málskostnað. Þá er í greinargerðinni vísað til málsatvikalýsingar í kröfulýsingu sem og til málsástæðna sem þar komi fram. Það er mat dómsins að þessi háttur stangist engan veginn á við fyrirmæli laga um skýran og glöggan málatilbúnað þannig að varðað geti sóknaraðila réttarspjöllum. Verður kröfum sóknaraðila því ekki hafnað eða vísað frá dómi, vegna vanreifunar. Á hinn bóginn er fallist á með varnaraðila að krafa sóknaraðila um málskostnað, sem ekki var höfð uppi í greinargerð hans, varð ekki að réttu höfð uppi við munnlegan málflutning gegn andmælum varnaraðila.
Aðalkrafa sóknaraðila er um að varnaraðili afsali til hans 21.000 hlutum í Apple Inc. gegn greiðslu nánar tilgreinds kaupverðs. Af málatilbúnaði sóknaraðila er ljóst, þó ekki sé það tilgreint í kröfugerðinni sjálfri, að hann byggir kröfu þessa á 109. gr. laga nr. 21/1991. Í 1. mgr. nefndrar lagagreinar kemur m.a. fram að afhenda skuli eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sanni eignarrétt sinn að þeim. Þá greinir í 2. mgr. að krefjast megi afhendingar á greiðslu hafi þrotabú selt eign sem þriðji maður síðar sanni eignarrétt sinn að.
Eins og fyrr segir lýtur aðalkrafa sóknaraðila að afsali hlutabréfa gegn greiðslu. Felur krafan því í sér að sóknaraðili krefst afsals hlutabréfa sem hann hefur enn ekki greitt fyrir. Verður þegar af þeirri ástæðu ekki séð hvernig sóknaraðili gæti talist eigandi hlutabréfanna í skilningi umrædds lagaákvæðis. Efnislega fjallar krafa hans því ekki um eignarréttindi heldur er hún krafa um efndir gagnkvæms samnings milli aðila og fellur því ekki undir efnisskilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991. Verður að hafna kröfunni þegar af þeirri ástæðu.
Varakrafa sóknaraðila er um skaðabætur, nánar tilgreint efndabætur, og byggir m.a. á því að varnaraðila hafi borið að ganga til uppgjörs við sóknaraðila vegna hinna framvirku samninga þegar fyrirsvarsmaður sóknaraðila krafðist þess 23. mars 2012. Grundvallarforsenda kröfu sóknaraðila hlýtur að vera samningsskuldbinding sem varnaraðili teldist hafa gengist undir og hefði vanefnt. Í málinu liggja fyrir þeir framvirku samningar aðila um kaup hlutabréfa í Apple Inc. sem mál þetta snýst um. Voru þessir samningar samkvæmt efni sínu með gjalddaga 13. október 2008. Þurfti ekki sérstaka uppsögn eða tilkynningu til að greiðsluskylda samningsaðila samkvæmt þeim yrði virk umræddan dag. Á hinn bóginn þyrfti að liggja fyrir sérstakt loforð varnaraðila, eða einhver þau atvik sem jafna mætti til þess, ef telja ætti að fyrrnefndir samningar aðila hefðu átt að haldast „opnir“ eins og sóknaraðili byggir á, að því er virðist ótímabundið. Ber sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir því að varnaraðili hafi gengist undir slíka skuldbindingu. Nægir hér ekki að sóknaraðili sýni fram á að hann hafi sjálfur lýst vilja til að umræddir samningar teldust enn opnir ef skýrt samþykki varnaraðila skortir. Er fallist á með varnaraðila að samningsboð hans um uppgjör skulda sem gerði ráð fyrir því að aðeins væru reiknaðir samningsvextir á kröfu hans fram til 15. apríl 2011 geti ekki talist bindandi loforð hans um að umræddir samningar skyldu haldast „opnir“ um ótilgreindan tíma. Þá verður ekki talið að ákvæði svonefnds kyrrstöðusamkomulags sé orðað með þeim hætti að gefi tilefni til að telja varnaraðila hafa gefið slíkt loforð með samþykkt þess. Verður því fallist á með varnaraðila að hvorki gögn málsins né framburður vitna styðji fullyrðingar sóknaraðila um að samist hafi um að umræddir samningar skyldu haldast „opnir“.
Það er því mat dómsins að sóknaraðila hafi ekki tekist sönnun þess í málinu að varnaraðili hafi skuldbundið sig að lögum til að framlengja umrædda samninga milli aðila, eða eftir atvikum stofna til nýs samnings. Af þessu leiðir einnig að skilanefnd/slitastjórn getur ekki hafa bakað sóknaraðila tjón með því að efna ekki kröfu sem samkvæmt framansögðu er ósannað að hafi stofnast á hendur varnaraðila. Hefur sóknaraðili því ekki sýnt fram á í málinu að skilanefnd, eða eftir atvikum slitastjórn, varnaraðila hafi stofnað til samningsskuldbindingar við hann, eða valdið honum bótaskyldu tjóni, eftir að Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar í félaginu 9. október 2008. Verður krafa sóknaraðila því ekki að réttu höfð uppi með vísan til 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 og vegna ákvæða 118. gr. sömu laga kemur ekki til álita að kanna hvort sóknaraðili kynni að hafa átt kröfu á grundvelli 113. gr. sömu laga, enda kröfulýsingarfrestur löngu liðinn. Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar eru ekki efni til að taka varakröfu sóknaraðila til greina og verður henni því hafnað.
Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði. Hefur við þá ákvörðun m.a. verið tekið tillit til þess að varnaraðili greiddi 250.000 krónur í þingfestingargjald vegna málsins.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Sigurður G. Guðjónsson hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Sölvi Davíðsson hdl. vegna Kristins Bjarnasonar hrl.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Framangreindum kröfum sóknaraðila, Prentmets ehf., sem hann lýsti við slitameðferð varnaraðila, LBI hf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, 750.000 krónur í málskostnað.