Hæstiréttur íslands
Mál nr. 577/2013
Lykilorð
- Skaðabætur
- Veð
|
|
Fimmtudaginn 23. janúar 2014. |
|
Nr. 577/2013. |
Draupnir
fjárfestingafélag ehf. (Friðbjörn E. Garðarsson hrl.) gegn Íslandsbanka
hf. (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Skaðabætur. Veð.
D ehf.
höfðaði mál á hendur Í hf. til heimtu skaðabóta vegna tjóns er félagið taldi
sig hafa orðið fyrir vegna niðurfellingar framkvæmdaláns sem bankinn hafði
veitt N ehf. vegna byggingar svonefnds Norðurturns við verslunarmiðstöðina
Smáralind í Kópavogi og stöðvun framkvæmda við bygginguna í kjölfarið. D ehf.
hafði 4. júlí 2008 keypt tíu skuldabréf í útboði vegna byggingarinnar sem
tryggð voru með veði í henni og lóðarréttindum. Hafði forveri Í hf. milligöngu
um kaupin. Í héraðsdómi var D ehf. ekki talinn hafa fært sönnur á að stjórn N
ehf. hefði gengið nauðug til samninga í merkingu 28. eða 29. gr. laga nr.
7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða öðrum þeim aðferðum
verið beitt við samningsgerðina að varðað gæti Í hf. bótaskyldu á grundvelli
almennu skaðabótareglunnar, laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga eða laga
nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða
dóms.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson, og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. ágúst 2013. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 113.758.510 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. mars 2010 til 2. maí 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í hinum áfrýjaða dómi er nánar lýst verksamningi þeim sem Norðurturninn ehf. og Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. gerðu 20. apríl 2008 um byggingu svonefnds Norðurturns við verslunarmiðstöðina Smáralind í Kópavogi. Samkvæmt gögnum málsins var Norðurturninn ehf. dótturfélag Fasteignafélags Íslands hf. sem var dótturfélag Eik Properties ehf. Síðastnefnda félagið var í eigu Saxbygg ehf. sem átti 52% hlutafjár, Glitnir banki hf. átti 46% hlutafjárins og 2% voru í eigu annarra. Með lánssamningi milli Norðurturnsins ehf. og Glitnis banka hf., sem undirritaður var 17. september 2008, tók sá síðarnefndi að sér að sér veita þeim fyrrnefnda lán til fjármögnunar framkvæmdanna. Í byrjun júlí 2008 réðst Norðurturninn ehf. í skuldabréfaútboð og gaf 4. júlí það ár út til áfrýjanda tíu skuldabréf fyrir samtals 100.000.000 krónur en Glitnir banki hf. hafði milligöngu um kaupin. Skuldabréfin voru tryggð með 1. veðrétti í lóðinni Hagasmára 3 í Kópavogi ásamt síðari viðaukum og breytingum en þar er um að ræða hinn svonefnda Norðurturn og lóðina sem hann stendur á.
Áður en til útgáfu fyrrgreindra skuldabréfa kom mun fyrirsvarsmaður áfrýjanda hafa tekið þátt í kynningu á vegum Glitnis banka hf. og fengið afhent ódagsett kynningarefni þar sem gerð var grein fyrir heildarkostnaði og fjármagnsþörf fyrirhugaðra framkvæmda við Norðurturninn. Þá mun hann einnig hafa fengið afhenta lánsskilmála Glitnis banka hf. vegna væntanlegs framkvæmdaláns. Í kynningarefninu kom fram að forsendur Norðurturnsins ehf. um langtímafjármögnun framkvæmdanna miðuðust meðal annars við að leigutekjur yrðu 43.000.000 krónur á mánuði. Þá sagði að áætlun félagsins gerði ráð fyrir að um 66% af rými yrði leigt „við opnun en húsið fyllist síðan á 5 árum.“ Miðað við þessar forsendur þyrfti að koma til viðbótar fjármögnun sem gæti numið allt að 400.000.000 krónum til að standa undir afborgunum fyrstu fimm árin. Fyrirsvarsmaður áfrýjanda kvaðst fyrir dómi ekki minnast þess að hafa farið sérstaklega yfir forsendur leigutekna enda „ákvað ég ... í viðræðum við Inga Júlíusson að kaupa þetta. Þar var aðal áherslan á fulla framkvæmdafjármögnun og verðmæti lánsins og í rauninni skipti litlu máli fasteignaverðmætið út af þessu láni ... ég ... man nú ekki sérstaklega eftir að hafa farið í gegnum þetta, en ... þetta var áherslan og ástæðan fyrir mínum kaupum.“
Nýi Glitnir banki hf., sem nú ber heiti stefnda, tók í framhaldi af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2010 yfir skuldbindingar Glitnis banka hf. samkvæmt framkvæmdalánssamningnum 17. september 2008. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð nánari grein fyrir viðauka þeim við framkvæmdalánssamninginn sem Norðurturninn ehf. og Nýi Glitnir banki hf. gerðu 14. nóvember 2008 og lánssamningi þeirra sama dag. Samkvæmt því sem að framan greinir og með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir þessum málsúrslitum ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Draupnir fjárfestingafélag ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2013.
Mál þetta sem dómtekið
var 7. maí 2013 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 12. apríl 2012 af
Draupni fjárfestingafélagi ehf., Skeifunni 17, Reykjavík, á hendur Íslandsbanka
hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.
Kröfur aðila
Af hálfu stefnanda er
þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð
113.758.510 krónur ásamt vöxtum skv.
1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. ml. 4. gr. s.l, frá 16. mars 2010 til
2. maí 2011, en ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr.
9. gr. s.l., frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar,
að skaðlausu, úr hendi stefnda, samkvæmt síðar framlögðum
málskostnaðarreikningi, eða mati dómsins.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum
stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður að skaðlausu.
Atvik máls
Hinn 20. apríl 2008 var gerður verksamningur um byggingu
svonefnds Norðurturns við verslunarmiðstöðina Smáralind í Kópavogi. Verkkaupi
var einkahlutafélagið Norðurturninn, sem var í eigu Fasteignafélags Íslands hf.
en verksali Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. Um var að ræða fyrirhugað
fjórtán og hálfrar hæða verslunar- og skrifstofuhúsnæði á norðvesturhluta
lóðarinnar að Hagasmára 3, Kópavogi, tengibyggingu sem ætlað var að tengja tvær
neðstu hæðir húsnæðisins við verslunarmiðstöðina Smáralind, bílastæðahús með um
798 bílastæðum, áhaldageymslu, glerlyftu, sem ætlað var að tengja bílastæðahúsið
við 3. hæð verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar, auk frágangs á lóð umhverfis
bygginguna. Umsamin verklaun voru 4.666.134.403 krónur auk verðbóta og
gengistrygginga, eins og nánar er lýst í verksamningnum. Umsamið var að
verklegar framkvæmdir hæfust í maí 2007 og skyldi verkinu að fullu vera lokið í
nóvember 2009.
5. maí 2008 samþykkti
hluthafafundur í Norðurturninum ehf. að auka hlutafé félagsins um 1.000.000.000
króna og skráði Fasteignafélag Íslands hf. sig fyrir öllu hlutafénu. Ákveðið
var um að hlutafjáraukninguna mætti að fullu greiða með verðmæti lóðarinnar
Hagasmára 3, sem var í eigu Fasteignafélags Íslands hf., en fyrirhugað var eins
og áður greinir að reisa framangreindan turn (hér eftir Norðurturn) á lóðinni.
Í byrjun júlí 2008 réðst Norðurturninn ehf. í skuldabréfaútboð vegna
byggingar Norðurturnsins. Gefin voru úr skuldabréf samtals að nafnverði
2.000.000.000 króna og var hvert bréf að nafnverði 10.000.000 króna. Bréfin
voru óverðtryggð kúlubréf með gjalddaga 7. janúar 2010 og báru þau 19,95%
nafnvexti. Bréfin voru tryggð með 1. veðrétti í lóðinni Hagasmára 3, ásamt
síðari viðaukum og breytingum. Gert var ráð fyrir að sótt yrði um skráningu
skuldabréfanna í Kauphöll Íslands, þegar sölutímabili lyki. Samkvæmt samkomulagi,
19. júní 2008, annaðist Glitnir banki hf. sölu bréfanna.
Stefnandi keypti, 4. júlí 2008, tíu skuldabréf í framangreindu útboði,
hvert að nafnvirði 10.000.000 króna eða samtals að nafnverði 100.000.000 króna
og hafði Glitnir banki hf. milligöngu um viðskiptin. Við kaupin lágu fyrir
upplýsingar frá Glitni banka hf. m.a. um fyrirhugaða fjármögnun byggingar
Norðurturnsins og kom þar m.a. fram að Norðurturninn ehf. hefði gert
framkvæmdalánasamning við Glitni banka hf. Ekki kom til þess að framangreindur
skuldabréfaflokkur yrði skráður í Kauphöll Íslands.
19. júní 2008 undirrituðu Norðurturninn ehf. og Glitnir banki hf.
lánaskilmála vegna framkvæmdaláns til félagins vegna framkvæmdanna við
Hagasmára 3. Voru skilmálarnir undirritaðir með fyrirvara um að samkomulag
næðist um endanlegan lánssamning og tryggingabréf. Samkvæmt skilmálunum átti
framkvæmdalánið að verða allt að 3.726.765.000 krónur og skyldi fjárhæðin
verðtryggð m.v. byggingavísitölu í apríl 2008. Útborgun lánsins átti að fara
eftir framgangi verksins, eins og nánar er lýst í skilmálunum, en lánstími að
vera frá undirritun lánssamnings til 1. mars 2010 en þá skyldi lánið
endurgreiðast með einni greiðslu. Meðal trygginga fyrir láninu voru pro rata
ábyrgðir Saxabyggs ehf. og Eik Properties ehf. Fyrrnefnda félagið var á þessum
tíma 52% hluthafi í Eik Propeties ehf. en Eik Propeties ehf. var eini
hluthafinn í Fasteignafélagi Íslands hf. Nokkuð dróst að ganga frá formlegum
samningi vegna framkvæmdalánsins en hann var undirritaður 17. september 2008. Umsamin lánsfjárhæð samkvæmt honum var
4.076.765.000 krónur.
Við fall Glitnis banka hf. haustið 2008 tók Fjármálaeftirlitið
ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda bankans til Nýja Glitnis banka hf. (nú
Íslandsbanki hf.). Fól ákvörðunin í sér m.a. yfirfærslu á öllum eignum, hverju
nafni sem nefndust, nema þær væru sérstaklega undanskyldar í viðauka með
ákvörðuninni. Með ákvörðuninni færðust réttindi og skyldur Glitnis banka hf.
samkvæmt lánasamningnum frá 17. september 2008 yfir til Nýja Glitnis banka hf.
svo og eignarhlutur Glitnis banka hf. í móðurfélagi Norðurturnsins ehf.,
Fasteignafélagi Íslands hf.
Við fall Glitnis banka hf. hafði
Norðurturninn ehf. fengið greiddar 800.000.000 króna af framkvæmdaláninu. Þegar
fyrirsvarsmenn félagsins hugðust draga frekar á lánið, um miðjan október, var
þeim tjáð að lokað hefði verið fyrir útgreiðslur af láninu og þeir jafnframt
boðaðir á fund í bankanum. Á fundi í bankanum 22. október 2008 mun fyrirsvarsmönnum Norðurturnsins ehf.
hafa verið tjáð að ekki gæti orðið um frekari útgreiðslur að ræða samkvæmt
lánssamningnum frá 17. september 2008.
Hinn 14. nóvember 2008 undirrituðu fyrirsvarsmenn Norðurturnsins ehf.
og fulltrúar bankans svonefndan viðauka við framkvæmdalánasamninginn frá 17.
september. Með viðaukanum var samið um að ekki yrði um frekari ádrætti á framkvæmdalánasamninginn að ræða. Þá var
samið um endurgreiðslu þess sem þegar hafði verið greitt út og ennfremur að
sjálfskuldarábyrgð Saxabyggs ehf., samkvæmt framkvæmdalánssamningnum, skyldi
falla niður. Í viðaukanum segir að að öðru leyti en í honum greini skuli ákvæði
framkvæmdalánasamningsins haldast óbreytt en stangist ákvæði viðaukans á við
ákvæði framkvæmdalánasamningsins skuli ákvæði viðaukans gilda.
Sama dag og framangreindur viðauki var undirritaður lánaði Nýi Glitnir
banki hf. Norðurturninum ehf. 200.000.000 króna til þess að greiða BYGG hf.,
sem starfaði sem verktaki við byggingu Norðurturnsins, ógreidda reikninga að
fjárhæð um 140.000.000 króna auk þess sem um 60.000.000 króna mun hafa verið
varið til þess að bæta aðgengi að verslunarhúsinu Smáralind.
Eins og áður er rakið voru skuldabréfin sem Norðurturninn ehf. gaf út
í júlí 2008, þ.m.t. bréfin sem stefnandi keypti, með gjalddaga 7. janúar 2010.
Norðurturninn ehf. vanefndi greiðslur á öllum skuldabréfunum. Með kaupsamningi, 16. mars 2010,
seldi
stefnandi framangreind skuldabréf sín. Söluverð
bréfanna var 50.000.000 króna.
Með beiðni, 28. ágúst 2010, fór stjórn Norðurturnsins ehf. þess á leit
við Héraðsdóm Reykjaness að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Fallist var á beiðnina og var félagið lýst gjaldþrota 2. september 2010. Frestur
til að lýsa kröfum í búið rann út í nóvember s.á.
19. nóvember 2010 gerðu stefndi og fimm aðrir tilgreindir kröfuhafar í
þrotabú Norðurturnsins ehf. með sér samkomulag um að vinna saman að hagsmunum
sínum í þrotabúinu með þeim hætti sem í samkomulaginu greinir. Með kaupsamningi
15. desember 2010 keyptu þessir sömu hluthafar skuldabréfin, sem stefnandi
hafði áður selt. Var kaupverðið 65.000.000 króna. 6. júlí 2012 gerðu sömu
hluthafar samkomulag um sameiginlega hagsmuni sína vegna byggingar
Norðurturnsins og ennfremur ásamt upphaflegum byggingarverktaka að
framkvæmdunum svonefnda samningsskilmála verksamnings, sbr. viðauka sama
dag.
Í máli þessu er um það deilt hvort ákvörðunin, sem tekin var 14.
nóvember 2008, um að fella niður eftirstöðvar lánsloforða stefnda samkvæmt
framkvæmdalánsamningi Norðurturnsins ehf. og Glitnis banka hf. hafi á
grundvelli almennu skaðabótareglunnar leitt til bótaskyldu stefnda gagnvart
stefnanda.
Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda
Stefnandi kveðst byggja
kröfu sína um skaðabætur á almennu sakarreglunni. Á því sé byggt að stefndi,
sem eigandi að 46% hlut í móðurfélagi Norðurturnsins ehf. og sem stærsti
lánveitandi Saxbyggs ehf., sem átt hafi 52% hlut í félaginu, hafi ráðið lögum
og lofum í félaginu og þannig í raun setið beggja megin borðs, annars vegar sem
lánveitandi vegna framkvæmdarinnar og hins vegar sem ráðandi aðili í félaginu.
Þannig hafi orðið samruni réttinda og skyldna. Stefndi hafi því í raun verið að
semja við sjálfan sig, þegar tekin hafi verið ákvörðun um að fella lánsloforð
niður og stöðva framkvæmdir við Norðurturninn, til tjóns fyrir veðhafa.
Samkomulag um að fella lánsloforð niður og hætta framkvæmdum hafi að mati
stefnanda verið gert til hagsbóta fyrir stefnda einan, enda hljóti hagsmunir Norðurturnsins
ehf. að hafa verið þeir, að ljúka byggingu fasteignarinnar. Stefnandi haldi því
fram að stefndi hafi haft frumkvæði að samningsgerðinni og stjórn
Norðurturnsins ehf. verið nauðugur sá kostur einn að samþykkja skilmála
stefnda, enda hafi stefndi haldið bæði beint og óbeint um stjórnartaumana, eins
og fram hafi komið. Í ljósi þess að stefndi hafi látið undir höfuð leggjast, að
boða veðhafa að samningaborðinu, áður en oftnefnt samkomulag hafi verið gert,
sé ljóst að fullkomið skeytingarleysi gagnvart hagsmunum þeirra hafi ráðið för.
Samkomulagið hafi og verið í fullkominni andstöðu við efni skuldabréfanna
sjálfra, sérstaklega 5. og 6. grein þeirra en skv. þeim hafi útgefandi tekið á
sig skyldur gagnvart veðhöfum þ.á.m. stefnanda, sem m.a. hafi verið þær að
aðhafast ekkert, sem rýra kynni tryggingarréttindi þeirra. Stefnda hafi hlotið
að hafa verið fullkunnugt um þá hagsmuni veðhafa þ.á.m. stefnanda sem legið
hafi í því að lokið yrði við framkvæmdir, enda hafi fyrirrennari stefnda annast
milligöngu um skuldabréfaviðskiptin auk þess sem veðréttur stefnanda hafi verið
þinglýstur á síðu fasteignarinnar Hagasmára 3. Sjálfstæður réttur veðhafa til
skaðabóta hafi lengi verið viðurkenndur í íslenskum rétti, sbr. t.a.m. 39. gr.
laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004.
Svipuð sjónarmið sé jafnframt að finna í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1997
um samningsveð, en í því felist, að eigandi veðandlags (veðsali) beri
skaðabótaábyrgð á því tjóni sem rekja megi til athafna- eða aðgæsluleysis hans.
Þá beri sérstaklega að hafa í huga, að ákvæði umræddra veðskuldabréfa mæli
sérstaklega fyrir um sérstaka aðgæsluskyldu stefnda. Stefndi hafi og verið
grandsamur um hagsmuni veðhafa, þ.á.m. stefnanda og því borið að kynna þeim
fyrirhugaða ráðstöfun og gefa þeim færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri
og eftir atvikum gæta hagsmuna sinna. Þá hafi stefndi verið í yfirburðastöðu
sem einn aðaleigandi Norðurturnsins ehf. og lánveitandi, eins og rakið hafi
verið. Þar sem bygging Norðurturnsins hafi verið fullfjármögnuð með
lánsloforðinu, sem gefið hafi verið út 17. september 2008, hafi stefnandi haft
réttmætar væntingar til þess að krafa hans væri fulltryggð, þegar að efndatíma
kæmi 7. janúar 2010. Samkomulag stefnda og Norðurturnsins ehf., sem gert hafi
verið 9. nóvember 2008, um niðurfellingu lánsloforðs og stöðvun framkvæmda hafi
leitt til þess að veðandlagið hafi orðið miklum mun rýrara en væntingar hafi
staði til. Samkvæmt mati Fasteignamats ríkisins sé virði Norðurturnsins nú
204.150.000 krónur. Til stuðnings
dómkröfu sé einnig vísað til þess, að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni
stefnanda á grundvelli 1. mgr. og/eða 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 eða
með lögjöfnun frá ákvæðunum. Stefndi hafi í raun haldið um stjórnartaumana í
Norðurturninum ehf. og álíti stefnandi að jafna megi stöðu hans við stöðu
félagsstjórnar auk þess sem stefndi hafi verið stór hluthafi í Norðurturninum
ehf. í gegnum Fasteignafélag Íslands hf. og Eik Properties ehf. Þannig hafi
stefndi með títtnefndri háttsemi sinni brotið í bága við fjölmörg ákvæði laga
nr. 138/1994, þ.á.m. 44. og 55. gr. laganna. Brot stefnda á fyrrgreindum
lagareglum hafi lýst sér í því að hann hafi látið undir höfuð leggjast að ganga
úr skugga um að ákvörðun, sem eingöngu virðist hafa verið tekin með hagsmuni
stefnda að leiðarljósi, skerti ekki lögvarinn rétt stefnanda og annarra
veðhafa. Verði tjón stefnanda rakið til fyrrgreindrar vanrækslu stefnda eða
fullkomins skeytingarleysis hans um hagsmuni stefnanda og á því beri stefndi
skaðabótaábyrgð, skv. ákvæði 1. mgr. og eða 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994.
Þá vísi stefnandi einnig til almennra reglna skaðabótaréttar. Krafa um málskostnað styðjist við
XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. Í
því tilfelli sem til umfjöllunar sé megi slá því föstu að stefnandi hafi orðið
fyrir tjóni. Útgefandi bréfanna hafi verið lýstur gjaldþrota og veðtryggingin
(fasteignin) einungis skammt á veg komin, þegar framkvæmdum við hana hafi verið
hætt og lánsloforð fellt niður. Nær öruggt megi telja að fullnustuverðmæti
fasteignarinnar Hæðarsmára 3 sé í dag talsvert innan við 200.000.000 króna. Ef
gengið væri út frá því að fasteignin væri seld á nauðungarsölu fyrir
200.000.000 króna myndu eigendur skuldabréfa á 1. veðrétti fá um 1.200.000
krónur upp í hvert skuldabréf að því gefnu að engar lögveðskröfur væru til
staðar. Stefnukrafan sé þannig reiknuð að fjárhæð samningsvaxta af hverju
skuldabréfi fram að gjalddaga, 5.869.851 krónur sé lögð við höfuðstólsfjárhæð
hvers skuldabréfs. Samtals hafi skuldara því borið að greiða stefnanda
158.698.510 krónur á gjalddaga. Samkvæmt efni skuldabréfanna skyldi
höfuðstóllinn bera dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá
gjalddaga til greiðsludags og séu því dráttarvextir reiknaðir ofan á
höfuðstólinn þar til krafan hafi verið seld 16. mars 2010. Söluverð kröfunnar,
50.000.000 króna hafi verið ráðstafað með þeim hætti að 5.000.000 króna hafi
verið nýttar til greiðslu inn á fjárhæð hvers skuldabréfs þannig að uppsafnaðir
dráttarvextir 506.000 krónur hafi verið
greiddir upp en afgangurinn 4.494.000 krónur verið nýttur til greiðslu inn á
gjaldfallinn höfuðstól. Tjón stefnanda sundurliðist því með eftirgreindum
hætti: 15.869.851 + 506.000 = 16.375.851 5.000.000 = 11.375.851 * 10 =
113.758.510. Með vísan til þess sem að framan sé rakið,
hvers um sig og saman, álíti stefnandi að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því
tjóni sem hann hafi orðið fyrir.
Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda
Stefndi
byggir sýknukröfu sína á því að engum saknæmum og ólögmætum athöfnum eða
athafnaleysi sé til að dreifa af hálfu stefnda, sem bakað hafi stefnanda tjón.
Þannig sé skilyrðum almennu skaðabótareglunnar fyrir bótaskyldu ekki fullnægt.
Stefndi
byggi kröfugerð á hendur stefnda á staðhæfingum um atburðarás sem ekki séu
réttar, þegar í stefnu sé fullyrt um eignarhald stefnda á Norðurturninum ehf.
Til þess hafi stofnast með samningi 8. desember 2009 en ekki í október 2008,
þegar Fjármálaeftirlitið hafi tekið ákvarðanir í málefnum Glitnis banka hf.,
eftir fall hans. Því sé staðhæfingum stefnanda um stjórn stefnda á málefnum
Norðurturnsins ehf. þegar framkvæmdir hafi stöðvast, skömmu eftir fall Glitnis
banka hf., eindregið mótmælt og staðhæfingar stefnanda um samruna réttinda og
skyldna fái ekki staðist. Stefndi hafi ekki verið að semja við sjálfan sig svo
sem stefnandi kjósi að orða það. Sem hluthafi í Eik Properties ehf., en stefndi
hafi yfirtekið 46% eignarhlut Glitnis banka hf. í því félagi við fall bankans,
hafi stefndi ekki ábyrgst þær ákvarðanir sem teknar hafi verið af hálfu
Norðurturnsins ehf. Eik Properties ehf. hafi ekki eignast beinan hlut í
Norðurturninum ehf. fyrr en rúmu ári síðar, svo sem fyrr greini. Raunar hagi
réttarskipanin því svo, með reglum um félög með takmarkaðri ábyrgð, að
hluthafar í hlutafélögum ábyrgist ekki skuldbindingar félaganna sjálfra, nema
með hlutafjárframlagi sínu. Gróf brot stjórnarmanna eða annarra sem veljist til
trúnaðarstarfa í þágu félags kunni að fella á þá beina ábyrgð þannig að ekki
tjái að bera fyrir reglur hlutafélagalaga um takmörkun ábyrgðar. Þess séu á
hinn bóginn almennt ekki dæmi að hluthafar beri ábyrgð á skuldbindingum félags
vegna hlutaeignar, einnar og sér, sem sé þó ekki einu sinni til dreifa í
tilviki stefnda á þeim tíma sem þeir atburðir hafi orðið sem stefnandi reisi
kröfugerð sína á, svo sem rakið hafi verið. Stefnandi gefi sér að stefndi hafi
beitt stjórnendur Norðurturnsins ehf. þrýstingi og fullyrði þar um, án þess þó
að tilgreina hverjir hafi átt í hlut og hvernig að því hafi verið staðið. Þessu
sé eindregið mótmælt af hálfu stefnda. Stöðvun framkvæmda haustið 2008 hafi
leitt af því hruni sem í íslensku viðskiptalífi hafði orðið og því hvernig
forsendur framkvæmdarinnar hafi brostið af þeim sökum. Þá sé í stefnu engin
grein fyrir því gerð, né reynt að rökstyðja í hverju ólögmæti athafna
starfsmanna stefndu eigi að felast, né heldur vikið að saknæmisskilyrði almennu
skaðabótareglunnar og hvernig stefnandi telji því fullnægt. Þetta tvennt séu þó
grundvallar skilyrði þess að bótaskyldu athæfi verði yfir höfuð talið til að
dreifa. Stefndi árétti að hann telji sig eða starfsmenn sína ekki hafa brotið
réttarreglur í samskiptum sínum við fyrirsvarsmenn Norðurturnsins ehf. né farið
fram með saknæmum hætti. Þau loforð sem gefin hafi verið af útgefanda þeirra
skuldabréfa sem stefnandi hafi keypt, verði ekki tekin sem loforð stefnda og
hann ábyrgist hvorki þau né þær gjörðir Glitnis banka hf., sem tvímælis kunni
að orka. Stefndi hafi ekki yfirtekið skuldbindingar Glitnis með almennum hætti.
Stefndi mótmæli því eindregið að hann sé í þeirri stöðu að hann verði á
grundvelli málsatvika talinn bera ábyrgð gagnvart stefnanda samkvæmt ákvæðum
39. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, 2. mgr. 8. gr. laga um samningsveð
nr. 75/1997 eða 44. gr., 55. gr. og 108 gr. laga um einkahlutafélög nr.
138/1994. Með falli íslensku bankanna í október 2008 hafi svo stór hluti
íslensks efnahags- og atvinnulífs hrunið, að stöðvun þeirra byggingarframkvæmda
sem kröfur stefnanda varði, verði ekki talin annað en eðlileg og raunhæf í
ljósi þeirrar stöðu sem upp hafi verið komin. Forsendur fyrir byggingunni hafi
brostið a.m.k. um skeið og fyrirséð að tekna til að standa straum af
byggingarkostnaði yrði ekki aflað á þeim misserum sem í hönd hafi farið. Í
stöðvun framkvæmdanna hafi því falist viðleitni til að draga úr frekara tjóni
húsbyggjandans og kröfuhafa hans, en þegar hafi verið orðið. Sú tilætlunarsemi
sem stefnandi ætli stefnda við þær aðstæður sem íslenskt efnahagslíf hafi verið
komið í sé næsta fáheyrð. Stefnandi verði sjálfur að bera hallann af eigin
áhættutöku. Þá sé tjónsútreikningi mótmælt. Vísað sé til þess að eigendur
veðbréfanna á 1. veðrétti hafi ítrekað leitað leiða til að leitast við að draga
úr tjóni sínu og að stefnandi hafi á
sínum tíma tekið þátt í þeim áformum, eða þar til hann hafi dregið sig
út úr þeim með sölu bréfa sinna. Að því
sé stefnt að koma framkvæmdum af stað að nýju sem leiða mun til
virðisaukningar. Stefnandi verði sjálfur að bera hallann af því að hafa rofið
það samstarf sem verið hafi með 1. veðréttar veðhöfum og selt bréf sín áður en
fullreynt yrði hvert virði þeirra kæmi til með að verða. Sé í þessu sambandi
vísað til sjónarmiða skaðabótaréttar um eigin sök og skyldunnar til að draga úr
tjóni sínu.
Forsendur og niðurstaða
Af hálfu stefnanda er á
því byggt að vegna 46% hlutar stefnda í Eik Properties ehf., sem verið hafi
móðurfélag Fasteignafélags Íslands hf., sem verið hafi móðurfélag
Norðurturnsins ehf. og vegna stöðu stefnda sem stærsta lánveitanda Saxabyggs
ehf., sem átt hafi 52% í Eik Properties ehf., hafi orðið samruni réttinda og
skyldna þ.e. stefndi hafi bæði verið kröfuhafi gagnvart Norðurturninum ehf. og
farið með yfirráð í félaginu. Þannig hafi stefndi í raun verið að semja við
sjálfan sig, þegar tekin hafi verið ákvörðun um að fella lánsloforð niður og
stöðva framkvæmdir við Norðurturninn, til tjóns fyrir veðhafa þ.m.t. stefnanda.
Eins og rakið hefur verið
var stefndi ekki, þegar eftirstöðvar umrædds framkvæmdaláns voru felldar niður,
beinn eigandi í Norðurturninum ehf., né hefur stefnandi sýnt fram á, gegn
andmælum stefnda, að yfirráð hans yfir félaginu hafi verið með þeim hætti að
jafna megi til beins eignaréttar. Verður umræddri málsástæðu stefnanda þegar af
þeirri ástæðu hafnað og er þá óþarfi að fjalla nánar um möguleg réttaráhrif
samruna kröfuréttinda og skyldna.
Stefnandi byggir á því að
samkomulag um að fella lánsloforð samkvæmt framkvæmdalánssamningnum frá 17.
september 2008 niður og hætta framkvæmdum hafi verið gert til hagsbóta fyrir
stefnda einan, enda hljóti hagsmunir Norðurturnsins ehf. að hafa verið þeir, að
ljúka byggingu fasteignarinnar. Stefndi hafi átt frumkvæði að samningnum um að
fella lánsloforðið niður og stjórn Norðurturnsins ehf. verið nauðugur sá kostur
einn að samþykkja skilmála stefnda, enda hafi stefndi haldið bæði beint og
óbeint um stjórnartaumana, eins og fram hafi komið. Í ljósi þess að stefndi
hafi látið undir höfuð leggjast, að boða veðhafa að samningaborðinu, áður en
nefnt samkomulag hafi verið gert, sé ljóst að fullkomið skeytingarleysi
gagnvart hagsmunum þeirra hafi ráðið för.
Af hálfu stefnda er á því
byggt að ríkar málefnalegar ástæður hafi legið að baki samkomulaginu frá 14.
nóvember 2008. Fyrirsjáanlegt hafi verið í kjölfar bankahrunsins og þeirra
hrikalegu fjárhagslegu afleiðinga sem hrunið hafi haft á fjárhag einstaklinga
og fyrirtækja að ómögulegt yrði að afla þeirra leigutekna af útleigu turnsins,
sem nauðsynlegar hafi verið til að standa undir framkvæmda- og fjármagnskostnaði
vegna byggingarinnar. Hafi samkomulagið því byggst, eins og áður segi, á
málefnalegum fjárhagslegum forsendum og verið gert í því skyni að takmarka tjón
bankans.
Ekki verður talið að máli
geti skipt fyrir niðurstöðu máls þessa, hvort frumkvæði að samkomulagi
Norðurturnsins ehf. og stefnda hafi komið frá bankanum eða ekki. Engin gögn
hafa verið lögð fram til stuðnings því að stjórn Norðurturnsins ehf. hafi
gengið nauðug til samninganna í merkingu 28. eða 29. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða öðrum þeim aðferðum verið beitt
við samningsgerðina að varðað geti stefnda bótaskyldu á grundvelli almennu
skaðabótareglunnar. Er framangreindum málsástæðum stefnandi því hafnað.
Stefnandi byggir á því að umrætt samkomulag
hafi verið í fullkominni andstöðu við efni skuldabréfanna sjálfra, sérstaklega
5. og 6. grein þeirra en samkvæmt þeim hafi útgefandi tekið á sig skyldur
gagnvart veðhöfum þ.á.m. stefnanda, sem m.a. hafi verið þær að aðhafast ekkert,
sem rýra kynni tryggingarréttindi þeirra.
Í framangreindum
tilvitnuðum ákvæðum skuldabréfanna er mælt fyrir um skyldu útgefanda/veðsala
til að hafa hið veðsetta ávallt vátryggt að fullu og nái veðrétturinn einnig
til vátryggingafjárhæðar veðsettra eigna sem og hvers konar skaðabóta og
annarra fjárgreiðslna sem kunni að koma í stað hins veðsetta. Þá er ennfremur
mælt svo fyrir að útgefanda/veðsala sé skylt að sjá til þess að fullnægt sé
öllum þeim öryggisráðstöfunum sem krafist sé í sambandi við hið veðsetta í
samræmi við fyrirmæli gildandi laga og reglugerða á hverjum tíma. Veðsala beri
á sama hátt að annast viðhald veðsettra eigna og tryggja að þær haldi verðgildi
sínu eins og framast megi ætlast til, þannig
að tryggingarréttindi veðhafa skerðist ekki. Stefndi var hvorki
útgefandi umræddra skuldabréfa né veðsali í framangreindri merkingu. Er
stefnanda því ekki hald í þessari málsástæðu.
Stefnandi byggir á að
stefnda hafi hlotið að hafa verið fullkunnugt um þá hagsmuni veðhafa þ.á.m.
stefnanda, sem legið hafi í því að lokið yrði við framkvæmdir, enda hafi
fyrirrennari stefnda annast milligöngu um skuldabréfaviðskiptin auk þess sem
veðréttur stefnanda hafi verið þinglýstur á síðu fasteignarinnar Hagasmára 3. Sjálfstæður réttur veðhafa til
skaðabóta hafi lengi verið viðurkenndur í íslenskum rétti, sbr. t.a.m. 39. gr.
laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004.
Svipuð sjónarmið sé jafnframt að finna í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1997
um samningsveð, en í því felist,
eigandi veðandlags (veðsali) beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem rekja megi til athafna- eða aðgæsluleysis
hans. Þá beri sérstaklega að hafa í huga, að ákvæði umræddra veðskuldabréfa
mæli sérstaklega fyrir um sérstaka aðgæsluskyldu stefnda. Stefndi hafi og verið
grandsamur um hagsmuni veðhafa, þ.á.m. stefnanda og því borið að kynna þeim
fyrirhugaða ráðstöfun og gefa þeim færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri
og eftir atvikum að gæta hagsmuna sinna. Þá hafi stefndi verið í yfirburðastöðu
sem einn aðaleigandi Norðurturnsins ehf. og lánveitandi, eins og rakið hafi
verið.
Stefnandi hefur ekki
fært sönnur fyrir því að á stefnda hafi hvílt lagaskylda eða skylda samkvæmt
samningi til að gæta sérstaklega hagsmuna stefnanda sem 1. veðréttarhafa í Norðurturninum,
þegar samið var um að fella niður eftirstöðvar lánsloforða samkvæmt
framkvæmdalánssamningi stefnda og Norðurturnsins ehf. Stefndi var eins og áður
er rakið ekki veðsali í umræddu tilviki og á tilvísun í 2. mgr. 8. gr. laga nr.
75/1997 því ekki við. Þá verður ekki með neinum hætti séð að lagarök séu til
þess að byggja kröfugerð stefnanda á 39. gr. laga nr. 30/2004 um
vátryggingarsamninga en í ákvæðinu eru settar reglur sem ætlað er að tryggja
með tilteknum hætti hagsmuni vátryggingartaka. Er framangreindum málsástæðum
stefnanda því hafnað.
Stefnandi byggir á því að
þar sem bygging Norðurturnsins hafi verið fullfjármögnuð með lánsloforðinu, sem
gefið hafi verið út 17. september 2008, hafði stefnandi haft réttmætar væntingar
til þess að krafa hans væri fulltryggð, þegar að efndatíma kæmi 7. janúar 2010.
Samkomulag stefnda og Norðurturnsins ehf., sem gert hafi verið 14. nóvember
2008, um niðurfellingu lánsloforðs og stöðvun framkvæmda hafi leitt til þess að
veðandlagið hafi orðið miklum mun rýrara en væntingar hafi staði til en
samkvæmt mati Fasteignamats ríkisins sé virði Norðurturnsins nú eingöngu
204.150.000 krónur.
Fallist er á það með
stefnda að ekki sé grundvöllur til að leggja bótaskyldu á stefnda á grundvelli
almennu skaðabótareglunnar, þótt væntingar stefnanda við kaup umræddra
skuldabréfa hafi ekki gengið eftir. Meginregla samningaréttar er að hver
samningsaðila beri ábyrgð á þeim forsendum eða væntingum sem liggja til
grundvallar loforðum hans nema viðsemjandi hafi ábyrgst forsenduna. Að kaupa
skuldabréf með 1. veðrétti í óbyggðri fasteign, af því tagi sem Norðurturninn
átti að vera, felur eðli máls samkvæmt í sér verulega áhættu. Fallist er á með
stefnda að á þeirri áhættu stefnanda beri hann ekki ábyrgð.
Stefnandi byggir á því að
stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli 1. mgr. og eða 2.
mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 eða með lögjöfnun frá ákvæðunum. Stefndi hafi í
raun haldið um stjórnartaumana í Norðurturninum ehf. og álíti stefnandi að jafna
megi stöðu hans við stöðu félagsstjórnar auk þess sem stefndi hafi verið stór
hluthafi í Norðurturninum ehf. í gegnum Fasteignafélag Íslands hf. og Eik
Properties ehf. Þannig hafi stefndi með títtnefndri háttsemi sinni brotið í
bága við fjölmörg ákvæði laga nr. 138/1994, þ.á.m. 44. og 55. gr. laganna. Brot
stefnda á fyrrgreindum lagareglum hafi lýst sér í því að hann hafi látið undir
höfuð leggjast að ganga úr skugga um að ákvörðun, sem eingöngu virðist hafa
verið tekin með hagsmuni stefnda að leiðarljósi, skerti ekki lögvarinn rétt
stefnanda og annarra veðhafa. Verði tjón stefnanda rakið til fyrrgreindrar
vanrækslu stefnda eða fullkomins skeytingarleysis hans um hagsmuni stefnanda og
á því beri stefndi skaðabótaábyrgð, skv. ákvæði 1. mgr. og eða 2. mgr. 108. gr.
laga nr. 138/1994.
Í tilvitnuðum ákvæðum
laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er mælt svo fyrir að stofnendur,
stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur og skoðunarmenn
einkahlutafélags, svo og rannsóknarmenn, séu skyldir að bæta félaginu það tjón
er þeir hafi valdið því í störfum sínum hvort sem sé af ásetningi eða gáleysi.
Sama gildi þegar hluthafi eða aðrir verði fyrir tjóni vegna brota á ákvæðum
laganna eða samþykktum félags. Þá sé hluthafi skyldur
til að bæta tjón sem hann af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hafi valdið
félaginu, öðrum hluthöfum eða þriðja aðila með broti á lögunum eða samþykktum
félagsins. Áður
hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi ekki verið hluthafi i
Norðurturninum ehf. Þá hefur því einnig verið hafnað að sýnt hafi verið fram á
að hann hafi í reynd farið með stjórn félagins. Þegar af þessum ástæðum er
framangreindum málsástæðum stefnanda hafnað en jafnframt áréttað að framagreind
ákvæði mæla fyrir um mögulega bótaskyldu m.a. stjórnar og hluthafa gagnvart því
félagi sem þeir stjórna eða eru hluthafar í. Hvorugt á við í tilviki stefnanda.
Tilvísun stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar, máli
sínu til stuðnings, er með öllu órökstudd og kemur því ekki til skoðunar.
Með vísan til alls
framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefndi skuli sýknaður af öllum
kröfum stefnanda í máli þessu. Með vísan til þessarar niðurstöðu, atvika
málsins og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að
stefndi greiði stefnanda málskostnað og telst hann hæfilega ákveðinn 1.000.000
króna.
Þórður S. Gunnarsson
héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Íslandsbanki
hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Draupnis fjárfestingarfélags ehf., í
máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 1.000.000 króna í málskostnað.