Hæstiréttur íslands
Mál nr. 384/2013
Lykilorð
- Uppsögn
- Samningur
|
|
Fimmtudaginn
21. nóvember 2013. |
|
Nr.
384/2013. |
Gagnavarslan ehf. (Andri
Árnason hrl.) gegn Reykjanesbæ (Ásbjörn
Jónsson hrl.) |
Samningur.
Uppsögn.
G ehf. krafði bæjarfélagið
R um greiðslur samkvæmt samstarfs- og þróunarsamning aðila frá 29. febrúar 2009
þar sem G ehf. leigði R húsnæði og veitti bæjarfélaginu ýmsa sérfræðiaðstoð.
Byggði G ehf. aðallega á því að þar sem engin tilkynning hefði borist um
uppsögn samningsins bæri R að greiða reikninga í samræmi við samningsskuldbindingarnar.
Talið var að í tölvupósti fyrirsvarsmanns G ehf. í lok nóvember 2009 hefði
falist ótvíræð uppsögn á samningnum. Var því fallist á þrautavarakröfu G ehf.
sem tók mið af 6 mánaða uppsagnarfresti samkvæmt ákvæðum samningsins.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson,
Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 2013. Hann
krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 27.278.257 krónur með dráttarvöxtum,
samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af nánar
tilgreindum fjárhæðum frá 1. janúar 2010 til 1. desember 2011, en af
framangreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann
þess að stefnda verði gert að greiða sér 14.551.510 krónur auk dráttarvaxta
samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1.
janúar 2010 til 1. janúar 2011, en af síðastgreindri fjárhæð frá þeim degi til
greiðsludags. Að þessu frágengnu krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og
málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins
og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Gagnavarslan ehf., greiði stefnda, Reykjanesbæ, 400.000
krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. apríl
2013.
Mál
þetta, sem dómtekið var 15. mars sl., var höfðað 17. janúar 2012.
Stefnandi
er Gagnavarslan ehf., Grænásbraut 720, Reykjanesbæ.
Stefndi er Reykjanesbær, Tjarnargötu 12,
Reykjanesbæ.
Stefnandi
krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 27.278.257
krónur auk dráttarvaxta samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um
grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um
vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, af 1.112.580 krónum frá 1.
janúar 2010, af 2.225.160 krónum frá 1.
febrúar 2010, af 3.337.740 krónum frá 1. mars 2010, af 4.450.320 krónum frá 1. apríl 2010, af
5.562.900 krónum frá 1. maí 2010, af 7.799.872 krónum frá 1. júlí 2010, af
8.924.264 krónum frá 1. ágúst 2010, af 10.048.656 krónum frá 1. september 2010,
af 11.173.048 krónum frá 1. október 2010, af 12.297.440 krónum frá 1. nóvember
2010, af 13.421.832 krónum 1. desember 2010, af 14.551.510 krónum frá 31.
desember 2010, af 15.681.188 krónum frá 1. febrúar 2011, af 16.810.866 krónum
frá 1. mars 2011, af 17.940.545 krónum frá 31. mars 2011, af 19.070.223 krónum
frá 1. maí 2011, af 20.199.901 krónum frá 1. júní 2011, af 21.379.627 krónum
frá 30. júní 2011, af 22.559.353 krónum frá 1. ágúst 2011, af 23.739.079 krónum
frá 1. september 2011, af 24.918.805 krónum frá 1. október 2011, af 26.098.531
krónum frá 1. nóvember 2011, af 27.278.257 krónum frá 1. desember 2011, af
28.457.983 krónum frá 1. janúar 2012, til greiðsludags.
Til
vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 14.551.510 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt
ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og
vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu,
með síðari breytingum, af 1.112.580 krónum frá 1. janúar 2010, af 2.225.160
krónum frá 1. febrúar 2010, af 3.337.740 krónum frá 1. mars 2010, af af 4.450.320 krónum frá 1. apríl 2010, af
5.562.900 krónum frá 1. maí 2010, af 7.799.872 krónum frá 1. júlí 2010, af 8.924.264
krónum frá 1. ágúst 2010, af 10.048.656 krónum frá 1. september 2010, af
11.173.048 krónum frá 1. október 2010, af 12.297.440 krónum frá 1. nóvember
2010, af 13.421.832 krónum 1. desember 2010, af 14.551.510 krónum frá 31.
desember 2010 til greiðsludags.
Stefnandi
krefst þess til þrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda
5.562.900 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á
hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga
nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, af 1.112.580
krónum frá 1. janúar 2010, af 2.225.160 krónum frá 1. febrúar 2010, af
3.337.740 krónum frá 1. mars 2010, af
4.450.320 krónum frá 1. apríl 2010, af 5.562.900 krónum frá 1. maí 2010
til greiðsludags.
Stefnandi
krefst málskostnaðar í öllum tilvikum.
Stefndi
krefst aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda, en til vara lækkunar á dómkröfum
stefnanda.
Stefndi krefst málskostnaðar.
I.
Helstu málavextir eru þeir að þann
29. febrúar 2008 var undirritaður skriflegur samningur á milli stefnanda og
stefnda sem ber yfirskriftina: ,,Samstarfs- og þróunarsamningur milli
Gagnavörslunnar ehf. og Reykjanesbæjar”. Í 1. gr. samningsins er markmiði
samningsins lýst. Þar segir m.a. að markmiðið með samningnum sé að aðilar vinni
saman að þróun þekkingar á sviði varðveislu, skjalaráðgjafar, rafrænnar
vistunar, forvörslu og safnafræða. Verktaki (stefnandi) muni byggja upp öflugt
fyrirtæki á þessu sviði í Reykjanesbæ, en fyrirtækið muni bjóða heildarlausn í
geymslumálum fyrirtækja, stofnana, ríkis og sveitarfélaga. Síðan eru í þessari
grein samningsins talin upp fleiri atriði sem snúa að stefnanda. Tekið er fram
að verkkaupi (stefndi) muni vista skjalasafn sitt, listasafn og söfn
Byggðasafns stefnanda í húsnæði stefnanda. Í greininni er síðan nánari lýsing á
framkvæmd þessa.
Í 2. gr. samningsins er fjallað um
umfang samningsins og tíundað hvað undir hann falli.
Í 3. gr. samningsins er kveðið á
um skyldur aðila samkvæmt samningnum. Þar segir m.a. að stefnanda beri að gæta þess
að húsnæði fyrirtækisins uppfylli skilyrði til varðveislu muna og skjala fyrir
stefnda sambærilegt og húsnæðið sé í dag á Njarðarbraut. Í húsnæðinu verði
öflugt öryggiskerfi frá viðurkenndum aðila sem vaktað verði allan
sólarhringinn. Þá segir að nýtt húsnæði muni verða mun fullkomnara og að
safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar
muni fá tækifæri til að koma að hönnun á því húsnæði. Þá er kveðið á um
að stefnandi leiti til Þjóðskjalasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og
Listasafns Íslands um staðfestingu á að húsnæðið uppfylli þau skilyrði sem
þessar stofnanir gera til slíks húsnæðis. Í þessari grein eru síðan ákvæði um
trúnaðarskyldu, aðstöðu fyrir starfsmenn stefnda, öryggisþætti, tryggingar o.fl.
Í 4. gr. samningsins er kveðið á
um að samningurinn gildi frá og með 1. mars 2008 og að uppsagnarfrestur af
hálfu beggja aðila sé 6 mánuðir frá og með 1. degi næsta mánaðar frá því
skrifleg uppsögn berst hinum samningsaðila samnings þessa með sannanlegum
hætti.
Í 5. gr. samningsins er kveðið á
um samningsfjárhæð og greiðslur stefnda.
Í 6. gr. samningsins er kveðið á
um breytingar á samningnum, sem skuli vera skriflegar og taka gildi við
undirritun beggja aðila. Þá segir í þessari grein að aðilar séu sammála um að
endurskoða verði þennan samning fá og með 1. janúar 2009 og setja sem viðauka
við samninginn. Áætlað sé að breyting á fjárhæð samningsins verði tilbúin í
síðasta lagi í desember 2008.
Í 7. gr. samningsins er kveðið á
um vanefndir. Þar er í fyrsta lagi kveðið á um dráttarvexti sé leiga ekki
greidd á gjalddaga. Í öðru lagi um vanefndaheimildir stefnanda vegna dráttar á
greiðslu reikninga og um tilkynningaskyldu stefnanda vegna vanefnda. Þá eru
ákvæði um áhrif force majeure
á skyldur aðila og loks segir í þessari grein að ef forstöðumaður Byggðasafns eða
til þess bærir matsmenn meti að varðveislu safnkosts sé hætta búin og ekki hafi
verið orðið við skriflegum tilmælum til úrbóta sé stefnda heimilt að rifta
samningi tafarlaust.
Í stefnu segir m.a. að stefnandi
sé nýsköpunarfyrirtæki og hafi á þessum tíma verið í sambandi við nokkur
sveitarfélög varðandi uppbyggingu á starfsemi sinni í viðkomandi sveitarfélagi.
Fyrir hafi legið að leggja þyrfti út í umtalsverðar fjárfestingar til að hægt
væri að byggja upp varðveisluhúsnæði og því hafi verið talið lykilatriði að
velja sveitarfélag sem væri tilbúið til að koma með alla sína muni, listaverk
og skjöl í vörslu. Af þeim
sveitarfélögum sem voru tilbúin í slíkt hafi Reykjanesbær verið valinn. Við
samningsgerð hafi báðir samningsaðilar verið meðvitaðir um að starfsemi
stefnanda var staðsett í bráðabirgðahúsnæði sem stefnandi var með á leigu þar
til stefnandi hefði fundið hentugt húsnæði til kaupa undir starfsemi sína.
Samningur aðila hafi ekki verið bundinn við tiltekið húsnæði. Þar sem bærinn
hafi verið búinn að klára fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 á þeim tíma er
samningur var gerður, hafi verið komist að samkomulagi um að stefndi greiddi
stefnanda það sama og stefnandi væri að greiða fyrir sambærilega húsaleigu
þegar samningur var gerður, en síðan yrðu verð endurskoðuð í árslok 2008, ýmist
með gerð nýs samnings eða viðauka við upprunalegan samning. Samningaviðræður um
slíka endurskoðun hafi hafist snemma á árinu 2009. Þá þegar hafi kröfur
starfsmanna stefnda um betri umbúnað verið farnar að aukast frá því sem áður
var rætt.
Eftir vandlega leit eftir hentugum
húsakosti fyrir starfsemina, þar sem virkt samráð var haft við starfsmenn
stefnda með tilliti til vistunar á byggðasafni bæjarins, hafi stefnandi gengið
frá kaupum á 4.500 m2 húsnæði og fengið það afhent í byrjun maí
2009. Húsnæði þetta hafi orðið fyrir vali stefnanda svo hægt yrði að uppfylla
kröfur Byggðasafns Reykjanesbæjar um takmarkaða lofthæð og annan umbúnað. Stefnandi hafi þegar haft samband við stefnda
og óskað eftir að vinna við undirbúning flutninga á munum bæjarins gæti hafist, en slíkur flutningur
hafi aðeins getað átt sér stað að undangengnum undirbúningi og hönnun í
samstarfi við starfsmenn stefnda svo sem gert sé ráð fyrir í 3. gr. samnings
aðila.
Nokkur tímapressa hafi verið á
þessum flutningum þar sem eigandi bráðabirgðahúsnæðisins sem munirnir voru
vistaðir í hafði sagt upp leigusamningi og þurfti að hefja eigin framkvæmdir
við húsnæðið. Stefnandi hafi hins vegar óskað eftir því að beðið yrði til
haustsins með flutninga og fengið góðfúslegt leyfi frá leigusala sínum til að
fá að vera lengur í húsnæðinu. Í millitíðinni hafi stefnandi ráðið til sín
sérhæfðan safnafræðing til að geta sinnt sem allra best þjónustu við byggðasafn
og listaverkasafn bæjarins og undirbúið hið nýja húsnæði undir flutning upp að
því marki sem hægt var án ráðgjafar starfsmanna stefnda.
Um haustið hafi reglulegir fundir
um skipulag flutninga hafist. Fundina hafi setið Brynja Guðmundsdóttir,
forstjóri stefnanda og Þorbjörg Gunnarsdóttir, safnafræðingur fyrir hönd
stefnanda og Valgerður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri menningarsviðs
Reykjanesbæjar, Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður byggðasafns
Reykjanesbæjar og Þórey Guðmundsdóttir, fjármálastjóri Reykjanesbæjar fyrir
hönd stefnda. Á þeim fundum hafi verið lagðar fram um margt óraunhæfar kröfur
af hálfu stefnda um aðbúnað húsnæðis stefnanda sem hafi gengið þvert á það sem
gert var ráð fyrir í samningi aðila og rætt hafði verið um í upphafi samstarfs
varðandi fyrirhuguð not stefnanda af húsnæðinu. Ýmsar útfærslur hafi verið
lagðar til af stefnanda en öllum tillögum stefnanda hafi verið hafnað af
fulltrúum stefnda. Er líða tók á haustið hafi samskipti aðila verið orðin mjög
erfið sem hafi orðið til þess að forstjóri stefnanda sendi Valgerði
Guðmundsdóttur tölvupóst þann 30. nóvember 2009 þar sem sá möguleiki var ræddur
að aðilar leituðu sitt í hvora áttina. Ekki sé með nokkrum hætti hægt að skilja
efni umrædds tölvupósts sem formlega uppsögn af hálfu stefnanda, hvorki af
orðalagi hans eða formi né í ljósi samhengis atburða, en eftir að
tölvupósturinn var sendur hafi aðilar
verið sammála um að finna lausn á málinu og viðræður um útfærslur á samstarfi
haldið áfram. Af samskiptum aðila megi glögglega sjá að báðir aðilar stóðu í
þeirri meiningu að samningur væri enn í gildi, þó svo óljóst væri með frekari
viðskipti. Viðræður þessar hafi haldið áfram allt þar til forstjóra stefnanda
barst tölvupóstur frá Valgerði Guðmundsdóttur dags. 23. mars 2010 þar sem hún
tilkynnti að húsnæðið „Ramminn“ hafi verið keypt og að varðveisluhúsnæði safnanna
muni flytjast þangað með vorinu, en rætt
sé um áframhaldandi samstarf varðandi skjalamál.
Aldrei hafi stefnanda verið gerð
grein fyrir því, hvorki leynt né ljóst, að stefndi hafi litið á tölvupóst á dskj. 9 sem uppsögn af hálfu stefnanda. Megi skýrlega
greina þann sameiginlega skilning í eftirfarandi samskiptum. Þegar stefndi hafi
hætt að greiða útgefna reikninga stefnanda í lok árs 2009 hafi stefndi borið
fyrir sig að reikningar væru ekki greiddir þar sem húsnæði það sem munir
stefnda voru vistaðir í hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gera megi til slíks
húsnæðis þar sem á tímum hafi verið hita- og rafmagnslaust, auk þess sem
aðgengi starfsmanna stefnda að húsnæðinu hafi verið ábótavant. Slíkum
athugasemdum hafi aldrei verið komið á framfæri við stefnanda með formlegum
hætti eins og samningur aðila geri ráð fyrir. Brugðist hafi verið þegar í stað
við þeim óformlegu athugasemdum sem fram komu.
Það sem skipti hér höfuðmáli að mati stefnanda sé sú staðreynd að á þeim
tíma sem athugasemdir komu fram af hálfu stefnda um umbúnað húsnæðis hafði um
nokkurra mánaða skeið staðið autt annað og brátt fullkomnara húsnæði stefnanda
og tilbúið til flutninga á munum stefnda. Umkvartanir stefnda varðandi umbúnað
þess húsnæðis sem stefndi vissi að var ekki lengur á forræði stefnanda séu því
í besta falli hæpnar. Stefnandi fái engan annan skilning í samskipti sín við
stefnda en að um eftiráskýringar hafi verið að ræða þegar hentað hafi að hætta
greiðslum til stefnanda, sökum annarra valkosta sem stefnda höfðu boðist.
Um vorið 2010 hafi munir stefnda
verið fluttir út úr bráðabirgðahúsnæði því sem munirnir höfðu verið vistaðir í. Það sé því skemmst
frá því að segja að ekki hafi enn orðið af flutningi á munum í eigu bæjarins í
húsnæði stefnanda, svo sem gildandi samningur aðila geri ráð fyrir.
Ýmsar óformlegar samningaviðræður
hafi lengi átt sér stað milli starfsmanna stefnanda og stefnda. Þá hafi stjórn
og forstjóri stefnanda átt fund með bæjarstjóra og fjármálastjóra stefnda í
júní 2010 þar sem bent hafi verið á að enn hafi ekki verið fluttir neinir munir
eða skjöl í húsnæði stefanda, þó svo að húsnæðið standi, og hafi um langan tíma
staðið stefnda til afnota í samræmi við samning aðila. Þá hafi sérstaklega
verið bent á að samningi aðila hafi ekki verið sagt upp en jafnframt óskað
eftir því að leitað yrði leiða til að halda áfram samstarfi í samræmi við
samninginn. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar stefnanda um að samningi hafi ekki
verið sagt upp og áskoranir þar um hafi stefnanda ekki enn borist tilkynning um
uppsögn samnings frá stefnda. Hafi stefnandi því sent stefnda reikninga í
samræmi við samning aðila mánaðarlega allt til dagsins í dag. Hafi reikningar
stefnanda iðulega verið endursendir til stefnanda, ýmist með vísan til þess að
þeir hafi ekki fengist samþykktir, að þeir séu ekki réttir eða með vísan til
þess að ágallar hafi verið á leiguhúsnæði. Aldrei hafi verið lýst yfir uppsögn
samningsins og því hafi fyrst verið hreyft að samningi hafi verið sagt upp með
tölvupósti stefnanda á dskj. 9, í bréfi lögmanns
stefnda dags. 3. febrúar 2011, eða 14 mánuðum eftir að umræddur tölvupóstur var
ritaður.
Stefnandi hafi eins og að ofan getur lengi reynt að komast
að samkomulagi við stefnda um áframhaldandi samstarf eða lok málsins. Stefnandi
hafi borið fram ótal tillögur til lausnar málsins en án árangurs. Síðustu
tillögur hafi verið lagðar fyrir stefnda í upphafi desembermánaðar 2011 en
verið alfarið hafnað af stefnda með bréfi dags. 29. desember 2011, Sé nú svo
komið að stefnandi fái ekki lengur beðið eftir að fá fullnustu réttmætra krafna
sinna á grundvelli gildandi samnings við Reykjanesbæ. Eigi stefnandi því engra
annarra úrkosta en að höfða mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
Stefndi kveður markmið samnings aðila samkvæmt 1. gr. samningsins hafa verið að aðilar myndu
vinna saman að þróun þekkingar á sviði varðveislu, skjalaráðgjafar, rafrænnar
vistunar, forvörslu og safnafræða. Öll samskipti aðila hafi frá upphafi verið í
þá veru, að hér hafi verið um eiginlegan þróunarsamning að ræða. Stefnandi hafi
sjaldnast verið í aðstöðu til að veita þá þjónustu og aðstöðu, sem samningurinn
tekur til, og þarfir stefnda hafi sömuleiðis tekið breytingum á
samningstímanum. Húsnæðið sem stefnandi hafði til umráða á tímabili hafi verið
ófullnægjandi en miklar vanefndir hafi orðið af hálfu stefnanda frá upphafi í
samstarfi aðila. Að mati stefnda geri stefnandi tilraunir til þess, í stefnu
málsins , að snúa þessum staðreyndum á hvolf. Í 1. gr. samningsins megi finna
eftirfarandi markmið: ,,Verktaki [stefnandi] mun byggja upp öflugt fyrirtæki á
þessu sviði í Reykjanesbæ, en fyrirtækið mun bjóða heildarlausn í geymslumálum
fyrirtækja, stofnana, ríkis og sveitarfélaga“. Skemmst sé frá því að segja, að
vegna vandamála í húsnæði stefnanda, hafi stefnandi, hvorki fyrr né síðar, náð
að uppfylla þetta markmið samningsins.
Í 3. gr. samningsins sé fjallað um skyldur verktaka
(stefnanda) og verkkaupa (stefnda). Samkvæmt ákvæðinu bar stefnanda að gæta
þess að húsnæði fyrirtækisins uppfyllti skilyrði til varðveislu muna og skjala.
Stefnandi hafi ekki uppfyllt nein af
þessum skilyrðum 2. gr.
Stefnanda
hafi verið fullkomlega kunnugt um að ástand húsnæðisins var algjörlega
óforsvaranlegt og hafi stefnandi, hvorki fyrr né síðar, verið í aðstöðu til að
geta uppfyllt samningsskyldur sínar. Húsnæðið hafi að engu leyti uppfyllt þær
kröfur sem stefnandi gerði sjálfur til húsnæðisins og finna megi í fyrrgreindum
samningi. Þá hafi rafmagn verið tekið af húsnæðinu á umræddu tímabili, ekki
hafi verið öryggisvöktun með húsnæðinu og svo hafi loks farið að stefnandi
missti yfirráð fasteignarinnar yfir til Verne Holding ehf. á árinu 2009. Ekki hafi orðið úr að stefnandi
gæti boðið upp á þjónustu í nýju húsnæði, í samræmi við þarfir stefnda. Hafi
verið á því byggt, af hálfu stefnanda, að kröfur stefnda um lágmarkskröfur til
húsnæðisins og þjónustu væru ,,ósanngjarnar“. Ekkert hald sé fyrir þessum
ásökunum stefnanda.
Þann 21. apríl 2009 hafi komið á daginn að stefnandi hafði
misst húsnæði sitt. Þann 30. apríl s.á. hafi fulltrúi Byggðasafns stefnda sent
stefnanda tillögur vegna fyrirhugaðs samnings. Haustið 2009 hafi undirbúningur
á flutningi Byggðasafns hafist í húsnæði þeirra, sem byggði alfarið á
framangreindum tillögum. Á fundi aðila þann 27. október 2009 hafi forsvarsmaður
stefnanda lýst því yfir að stefnandi gæti ekki orðið við óskum stefnda frá 30.
apríl s.á. og boðið nýja lausn. Í kjölfarið hafi starfsmaður stefnda átt
samskipti við þjóðminjavörð o.fl. og svo sent forsvarsmanni stefnanda
skriflegar spurningar. Á þessum tímapunkti hafði stefndi miklar efasemdir um að
stefnandi gæti sinnt skyldum sínum, á grundvelli samningsins, og mörgum
spurningum hafi verið ósvarað. Aðilar hafi átt með sér samskipti um ýmsar
tillögur sem voru uppi um fyrirkomulag á vörslu á munum fyrir stefnda.
Í byrjun desember 2009 hafi stefnandi gert stefnda formlegt
tilboð. Á fundi aðila í byrjun desember hafi aðilar rætt tilboðið en þar hafi
ýmis vafaatriði verið rædd. Forstöðumaður Byggðasafns stefnda hafi í kjölfarið
tekið saman minnispunkta varðandi samskiptin. Í þeim segi m.a.:
,,Lokatilboð frá fyrirtækinu barst Reykjanesbæ í desember
2009, það sem hefur verið lagt fyrir Safnaráð. Eins og sjá má er þar ekki
tíundað með ítarlegum hætti hvernig fyrirtækið hugsar sér að þessi samvinna eða
þjónusta verði í framkvæmd. Það er mat forstöðumanns Byggðasafns Reykjanesbæjar
að þessar hugmyndir séu of skammt á veg komnar til að hægt sé að meta
nægjanlega hversu vel þær falla að safnarekstrinum.“
Í stefnu málsins bls. 3-4 er þess getið að nýtt húsnæði hafi
staðið stefnda til boða. Stefndi hafni þessu alfarið. Jafnvel þó húsnæðið hafi
verið tilbúið til afhendingar að hluta, þá hafi aldrei legið fyrir í hvaða
hluta stefndi gæti flutt og hvert leiguverðið yrði. Þá hafi ekkert legið fyrir
um innra skipulag húsnæðisins. Því skuli haldið til haga að það sé dýrt að
flytja safnkost stefnda og afar kostnaðarsamt. Þá fari það ekki vel með
safnkostinn. Tillögur stefnanda hafi ekki verið í samræmi við framangreindan
samning aðila frá árinu 2008. Stefnda hafi verið boðið 250 m2
aðgreint rými sem varðveislu rými, 40 m2 fyrir ,,grófhluti“, 20 m2
skrifstofurými eða samtals um 310 m2. Í fylgiskjali með
framangreindum samningi hafi komið fram að stefndi fengi um 1000 m2
til umráða. Loks hafi sú mikla óvissa, sem lýst var að framan, varðandi það
hvernig stefnandi ætlaði að þjónusta stefnda, leitt til þess að stefndi gat
ekki samþykkt tillögur stefnanda. Farið hafi svo að stefnandi sjálfur sagði
samningi aðila upp þann 29. nóvember 2009.
Ljóst sé, með vísan til framangreinds, að um sé að ræða
samning vegna samstarfs, sem var ekki fullmótað er aðilar undirrituðu hann í
febrúar árið 2008. Fari það algjörlega í bága við staðreyndir málsins að ætla,
að hægt sé að byggja á samningnum líkt og um fullmótað samstarf hafi verið að
ræða. Þá liggi það einnig fyrir, að stefndi lagði mikið af mörkum til þess að
stefnandi gæti hafið starfsemi. Liður í því hafi verið að ganga til samninga
við stefnanda varðandi framangreint þróunarverkefni.
Í samningi aðila sé kveðið á um ákveðnar forsendur, sem
þurftu að vera til staðar, svo samningurinn héldi gildi sínu. Aðilar hafi ætlað
að endurskoða samninginn sameiginlega fyrir 1. janúar 2009. Ljóst sé að
stefnandi uppfyllti ekki skilyrði samningsins hvað varðar vörslu munanna og
hafi gagnkvæmur skilningur milli aðila verið sá að samningurinn hefði runnið
sitt skeið þann 1. mars 2009 af þessum sökum.
Í stefnu málsins sé þess getið að tölvubréf forsvarsmanns
stefnanda til stefnda þann 30. nóvember 2009 hafi ekki verið uppsögn. Sé þessu
algjörlega hafnað af hálfu stefnda. Tölvubréfið sé skýrt og afdráttarlaust. Í
því felist uppsögn á samningi aðila, en varla sé hægt að orða uppsögn á
samningi með skýrari hætti.
Í tölvupósti forsvarsmanns stefnanda til starfsmanns stefnda
daginn eftir sé uppsögnin staðfest:
,,Þetta boð er alveg óháð því hvort þið takið tilboði okkar til
samstarfs eða ekki.“
Athygli veki að í tölvupóstsamskiptum aðila er jafnan talað
um ,,samningaviðræður“ og renni það enn frekari stoðum undir að enginn
samningur hafi verið í gildi á milli aðila á þessum tíma. Í kjölfarið hafi
stefndi tilkynnt stefnanda að samþykkt hafi verið í Menningarráði að keypt yrði
hús í Reykjanesbæ undir safnakost stefnda. Hafi þetta verið enn og aftur
ítrekað með tölvubréfi stefnda þann 23. mars 2010.
Tölvubréf forsvarsmanns stefnanda til forsvarsmanna stefnda,
dags. 12. júlí 2010, fari algjörlega í bága við málavaxtalýsingu stefnanda í
stefnu málsins. Ekki sé að sjá annað, en að forsvarsmaður stefnanda kannist þar
við, að samningi aðila hafi verið slitið nokkru áður.
Stefnandi hafi haldið áfram að senda stefnda reikninga á
grundvelli framangreinds samnings, sem hafði verið sagt upp á árinu 2009. Með
bréfi dags. 3. nóvember 2010 hafi stefnandi ítrekað við stefnda að reikningar
vegna tímabilsins 1. janúar 2010 1. október 2010 yrðu greiddir. Aðilar
málsins hafi haft með sér umtalsverð samskipti vegna þessa og hafi svo farið að
stefndi sendi stefnanda bréf dags. 29. nóvember 2010 þar sem hann endursendi
stefnanda reikninga með rökstuddum skýringum. Í bréfinu hafi þess m.a. verið
getið að stefnandi hafi misst yfirráðarétt sinn yfir húsnæðinu, þar sem
stefnandi hafði reynt að þjónusta stefnda. Þess hafi og verið getið að húsnæðið
hafði, áður en stefnandi missti yfirráðarétt þess, verið hita- og ljóslaust.
Þannig hafi safnkostur stefnda legið undir skemmdum. Loks hafi svæðinu í
kringum framangreinda fasteign verið lokað fyrir bílaumferð, þannig að stefndi
komst ekki lengur að því. Ljóst sé, af framangreindum bréfasamskiptum að dæma,
að stefndi hafi litið svo á, að ekkert viðskiptasamband væri í gildi á milli
aðila.
Þann 23. desember 2010 hafi stefnda borist bréf frá
þáverandi lögmanni stefnanda. Óskað hafi verið eftir viðræðum vegna meintrar
skuldar stefnda við stefnanda. Þann 3.
febrúar 2011 hafi erindinu verið svarað með vísan til ofangreindra sjónarmiða,
en þó aðallega þess að stefnandi hafi sjálfur sagt samningnum upp. Þann 7. júní
2011 hafi núverandi lögmaður stefnanda sent lögmanni stefnda bréf vegna
málsins.Erindinu hafi verið hafnað með vísan til framangreindra sjónarmiða með
bréfi dags. 29. júní 2011. Þá hafi ,,sáttatilboði“ stefnanda verið hafnað, enda
afar ósanngjarnt og fjárhæðir algjörlega úr lausi lofti gripnar.
Stefndi hafi alla tíð endursent reikninga stefnanda, jafnvel
með rökstuðningi. Sé ljóst að stefndi hafi ítrekað reynt að koma stefnanda í
skilning um raunverulega stöðu mála.
Í stefnu málsins sé málsatvikum lýst á þann hátt að aðilar
hafi gert með sér samning, sem þeir hafi báðir starfað eftir í kjölfarið. Ekki
sé vikið að vanefndum stefnanda í málsatvikalýsingu. Þá sé að engu leyti gerð
grein fyrir þeim fjölbreyttu, rökstuddu athugasemdum sem starfsmenn stefnda
hafa gert við þjónustu stefnanda og húsnæðiskost frá því að samstarf aðila
hófst. Þá sé rangt farið með það, að einhver sameiginlegur skilningur hafi verið
milli aðila, um að samningi þeirra hafi ekki verið einhliða sagt upp af hálfu
stefnanda í lok árs 2009. Af stefnu málsins megi ráða að hér sé á ferðinni
venjulegt innheimtumál vegna þjónustusamnings eða greiðslu vegna geymslu.
Með vísan til framangreindrar málavaxtalýsingar sé ljóst að
málatilbúnaður stefnanda sé í besta falli óljós en í versta falli algjörlega
vanreifaður. Ekki sé útskýrt á hvaða grundvelli stefnandi krefjist nú greiðslu,
í ljósi þess að enginn samningur sé í gildi á milli aðila. Þá séu fjárhæðir
málsins alfarið vanreifaðar og virðast með öllu gripnar úr lausu lofti.
Með vísan til alls framangreinds sé það mat stefnda að
verulega skorti á að þeim atvikum sem málsástæður stefnanda byggja á sé
nægilega lýst í stefnu. Telji stefndi að dómkröfur stefnanda séu vanreifaðar.
Komi því til greina, að mati stefnda, að máli þessu verði vísað frá dómi ex officio.
II.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á reikningum á grundvelli
gildandi samnings milli aðila. Um sé að ræða grunn samningsfjárhæðar sem var
ákvörðuð sem mánaðarleg greiðsla að fjárhæð 700.000 krónur, auk vsk fyrir leigu á húsnæði og sérfræðiþjónustu, sbr. 5. gr.
samnings aðila. Samningsfjárhæð sé samkvæmt sama ákvæði tengd
neysluverðsvísitölu og uppfærist tvisvar á ári, 1. janúar og 1. júlí hvers árs.
Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi í fyrsta lagi til þess að ekki sé með
nokkru móti hægt að skilja orðalag Brynju Guðmundsdóttur í tölvupósti til
starfsmanna Reykjanesbæjar dags. 30. nóvember 2009 með þeim hætti að um sé að ræða uppsögn á
gildandi samningi. Í 4. gr. samningsins segi að uppsögn skuli berast hinum
samningsaðilanum skriflega og með sannanlegum hætti. Ljóst sé að umræddur
tölvupóstur feli ekki sér slíka uppsögn, enda sé þar hvergi vísað til
samningsins, hvorki með beinum né óbeinum hætti og uppsögn hvergi nefnd. Í
umræddum tölvupósti sé hins vegar verið að ræða almennt um samskipti milli
starfsmanna stefnanda og tiltekins starfsmanns stefnda og áform um frekara
samstarf þar sem stefnandi myndi taka að sér að vera varðveislusetur fyrir
Reykjanesbæ sem tæki til fjölda tegunda skjala- og minja. Hafi starfsmenn
stefnda kosið að skilja ummælin sem uppsögn hefði þeim verið í lófa lagið að
óska eftir staðfestingu á þeim skilningi. Sá skilningur hafi hins vegar sem
fyrr segir fyrst verið borinn upp við Gagnavörslunnar í bréfi Lögfræðistofu
Suðurnesja dags. 3. febrúar 2011. Hafi stefndi allt frá því að umræddur
tölvupóstur var ritaður litið svo á að um uppsögn hafi verið að ræða hefði
stefndi enn fremur engu að síður þurft að greiða út uppsagnarfrest samkvæmt
samningi, sem ekki var gert. Styðji sú staðreynd þau rök stefnanda að um
eftiráskýringu af hálfu stefnda hafi verið að ræða.
Í öðru lagi sé fullyrðingum Reykjanesbæjar um að húsnæði það
er til umráða var á grundvelli samningsins hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem
áskilin voru vísað á bug. Fulltrúar stefnda hafi að fullu verið upplýstir um að
Verne Holding, eigandi
húsnæðisins, hafi sagt upp leigusamningi við stefnanda og að leit stæði yfir að
hentugu húsnæði fyrir vörslu minja byggðasafnsins. Starfsmenn menningarráðs
bæjarins sem og forstöðumaður byggðasafns bæjarins hafi tekið þátt í þeirri leit og höfðu þeir
samþykkt það húsnæði sem stefnandi festi kaup á sem fullnægjandi. Gagnavarslan
hafi ávallt brugðist skjótt við ábendingum Reykjanesbæjar varðandi ágalla á
umræddu bráðabirgðahúsnæði, en Reykjanesbær hafi aldrei komið skriflegum
tilmælum til úrbóta á framfæri við Gagnavörsluna, svo sem gert sé ráð fyrir í
4. mgr. samningsins. Nýtt húsnæði
stefnanda, þar sem engir þeir ágallar
sem kvartað var undan voru til staðar, hafi staðið stefnda til boða.
Umkvörtunum bæjarins hafi fyrst verið komið á framfæri við stefnanda með
formlegum hætti í bréfi dags. 29. nóvember 2010, sem var póstlagt þann 1.
desember 2011 og barst stefnanda stuttu
síðar.
Þar sem stefnanda hafi aldrei borist skrifleg uppsögn á
samningnum frá stefnda sé því enn litið svo á að samningurinn sé í fullu gildi,
þó svo að stefndi nýti sér í dag ekki það leiguhúsnæði og þá þjónustu sem
samningurinn gerir ráð fyrir, en leigutaka beri eðlilega að greiða það
leigugjald sem hann hefur skuldbundið sig til á grundvelli samnings þó svo að
hann nýti ekki húsnæðið. Aldrei hafi staðið á stefnanda að standa við skyldur
sínar samkvæmt samningnum. Stefnandi
líti svo á að samningur aðila sé enn í gildi þar sem honum hafi aldrei verið
formlega sagt upp. Höfuðstóll vangreiddra krafna hafi þann 1. janúar 2012 því
numið um 28.457.983 krónum auk dráttarvaxta.
Varakrafa stefnanda byggi á því að stefndi hafi fyrst borið
formlega fyrir sig samningsbrot stefnanda þegar ástandi hússins var mótmælt
skriflega í bréfi stefnda dags. 29. nóvember 2010, en í því bréfi sé því í
fyrsta sinn lýst yfir að bærinn líti á ástand húsnæðisins sem vanefnd af hálfu
stefnanda. Verði með einhverjum hætti, þrátt fyrir það sem stefnandi hefur
rakið hér að ofan, litið svo á að umrætt bréf feli í sér riftun á samningi
aðila, sem myndi þá taka gildi frá og með 1. janúar 2011, sem sé fyrsti dagur
næsta mánaðar frá því að stefnanda barst umrætt bréf, þá hafi stefndi vangreitt
samkvæmt samningi 14.551.510 krónur auk dráttarvaxta frá gjalddaga hvers
mánaðar miðað við samningsbundinn sex mánaða uppsagnarfrest.
Þrautavarakrafa stefnanda byggi á því að þó svo að litið
verði svo á að tölvupóstur Brynju Guðmundsdóttur dags. 30. nóvember 2009 hafi falið í sér fullgilda uppsögn, þrátt
fyrir allt sem að ofan er rakið, þá gildi gagnkvæmur 6 mánaða uppsagnarfrestur
á milli aðila. Samningurinn hafi því í fyrsta lagi runnið úr gildi í lok maí
2010. Stefndi hafi hins vegar hætt að greiða reikninga frá stefnanda frá og með
janúar 2010 og hafi því vangreitt að lágmarki 5.562.900 krónur auk dráttarvaxta
frá gjalddaga hvers mánaðar. Munir Reykjanesbæjar hafi auk þess ekki verið
fluttir úr því húsnæði sem Gagnavarslan hafði afnot af fyrr en um vorið 2010.
Rétt sé að geta þess að fjárhæð stefnukröfu miðast eingöngu
við umsamda samningsfjárhæð á
grundvelli samnings stefnanda og stefnda. Þá sé óátalið afleitt tjón af
völdum þess að önnur starfsemi stefnanda hefur borið umtalsverðan skaða af fjárfestingum
þeim sem kosta þurfti til að standa við sinn hluta samnings aðila. Stefnandi
hafi uppi áskilnað um rétt sinn til að krefjast skaðabóta vegna afleidds tjóns
vegna samningsbrota stefnda á síðari stigum.
Vísað er til meginreglna samningaréttarins um
skuldbindingargildi samninga og kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga.
Krafa um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, er byggð á reglum II. kafla laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu, og um vaxtaútreikning vísar stefnandi til
ákvörðunar Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og
vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 með síðari breytingum.
Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð
einkamála. Varðandi varnarþing vísast
til 33. gr. laga nr. 91/1991. Um aðild og fyrirsvar vísast til 1. mgr. 17. gr.
laga nr. 91/1991 og 1. gr. laga nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara.
III.
Aðalkröfu sína um sýknu byggir stefndi á því að með
tölvupósti sínum dags. 30. nóvember 2009 hafi forsvarsmaður stefnanda sagt
samningi aðila upp. Uppsögnin hafi verið skýr og óskilyrt. Engin leið sé til að
túlka uppsögnina á annan hátt, eins og látið sé í veðri vaka í stefnu málsins.
Ljóst sé að tölvupósturinn, sem innihélt hina skýru uppsögn, batt stefnanda
þegar stefndi hafði móttekið hann.
Eftiráskýringar stefnanda, varðandi það að uppsögn
samningsins þurfi að vera skrifleg, standist engan vegin. Í fyrsta lagi verði
að líta til þess að mest öll samskipti aðila, á grundvelli samningsins, voru í
tölvupósti. Í öðru lagi verður að líta til þess að samningurinn hafði lengi
verið vanefndur af hálfu stefnanda og í raun voru aðilar hættir að starfa
samkvæmt samningnum. Í þriðja lagi hafði samningurinn þegar runnið sitt skeið.
Loks virðist forsvarsmaður stefnanda líta svo á að uppsögnin hafi verið gild.
Með vísan til framangreindrar uppsagnar stefnanda hvíli
skylda á honum að sýna fram á að uppsögnin hafi ekki haft þau réttaráhrif sem
lýst hafi verið.
Stefndi hafi greitt stefnanda vegna vinnu hans á grundvelli
hins umþrætta samnings. Þá hafi stefndi endursent stefnanda reikninga sem voru
sendir eftir að samningi aðila hafði verið sagt upp. Með vísan til
framangreinds telji stefndi að hann hafi að fullu gert upp við stefnanda.
Krefjist hann af þeim ástæðum sýknu af dómkröfum málsins.
Með vísan til málavaxtalýsingar og dómskjala, þar sem ástand
húsnæðis stefnanda hafi verið gert að umfjöllunarefni, sé ljóst að húsnæðið
uppfyllir ekki skilyrði þess að geta geymt muni stefnda. Húsnæðið hafi verið
hitalaust, rafmagnslaust, lyklalaust og undir lok samningstímans hafði verið
lokað fyrir umferð að húsinu. Loks hafi farið svo að stefnandi missti yfirráð
húsnæðisins.
Kjarninn í samstarfs- og þróunarsamningi aðila hafi falist í
því að stefnandi hefði til umráða húsnæði, þar sem ætlunin var að geyma muni
stefnda. Stefnandi hafi aldrei uppfyllt samningsskyldur sínar á grundvelli
samningsins. Hafi báðum aðilum verið það fullkomlega ljóst að ekki stæðu efni
til að halda samstarfinu áfram á grundvelli samningsins.
Stefndi hafi tilkynnt stefnanda það stuttu eftir að stefnandi
hafði sagt samningi aðila upp, að til stæði að flytja muni stefnda í annað
húsnæði í Reykjanesbæ. Tilkynningin hafi verið ítrekuð fáeinum vikum síðar.
Hvorugur aðila hafi getað haft réttmætar væntingar um að í gildi væri samningur
þeirra á milli. Því skuli einnig haldið til haga, að tölvupóstsendingar
stefnanda, í kjölfar uppsagnar hans, benda til þess að litið hafi verið svo á
að enginn samningur væri í gildi.
Verði talið að stefndi beri greiðsluskyldu gagnvart
stefnanda sé þess krafist að krafa stefnanda verði lækkuð verulega. Málsástæður
í umfjöllun um aðalkröfu eigi einnig við um varakröfu stefnda. Stefndi telji að
umkrafin fjárhæð stefnanda sé allt of há og ósanngjörn, enda krefjist stefnandi
fullrar greiðslu vegna samnings sem hann vanefndi fullkomlega, vegna tímabils
sem samningurinn var ekki í gildi.
Stefnandi hafi fengið greiðslur á samningstímanum sem voru
annars vegar vegna leigu á húsnæði og hins vegar vegna ,,sérfræðiaðstoðar“.
Stefnandi hafi ekki veitt stefnda neina sérfræðiaðstoð af þessu tagi. Með vísan
til þessa beri að lækka stefnufjárhæð stefnanda sem nemi téðum greiðslu vegna
sérfræðiaðstoðar.
Stefndi hafi, í því skyni að koma stefnanda til aðstoðar,
samþykkt að greiða u.þ.b. 5.000.000
krónur vegna samningsins. Tilboðið hafi verið veitt umfram skyldu og í
því skyni að leysa málið. Ekki hafi verið fallist á þessa tillögu stefnda.
Verði talið að stefndi beri greiðsluskyldu gagnvart stefnanda sé þess krafist
að aðal- og varakröfu stefnanda verði hafnað. Þrautavarakrafa stefnanda nemi
fjárhæð sem samsvarar greiðslum á meintum uppsagnarfresti aðila.
Stefndi vísar, máli sínu til stuðnings, til almennra reglna
samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir þeirra. Hvað
varðar málskostnaðarkröfu stefnda er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt vísast til laga um virðisaukaskatt nr.
50/1988.
Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt og þess krafist að
dráttarvextir verði lagðir á frá dómsuppsögu verði ekki fallist á dómkröfu
stefnda með vísan til málsatvika eins og þeim háttar til í þessu máli.
IV.
Við aðalmeðferð málsins gaf
Brynja Guðmundsdóttir, fyrirsvarsmaður stefnanda aðilaskýrslu. Skýrslur vitna
gáfu Valgerður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri menningarsviðs stefnda, Þorbjörg
Brynhildur Gunnarsdóttir, safnafræðingur, Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður
Byggðasafns stefnda og Þórey Guðmundsdóttir, fjármálastjóri stefnda.
Eins og áður hefur verið rakið gerðu málsaðilar með sér
samning þann 29. febrúar 2009 sem ber
yfirskriftina: ,,Samstarfs- og þróunarsamningur milli Gagnavörslunnar ehf. og
Reykjanesbæjar”. Í 1. gr. samningsins er markmiði samningsins lýst. Þar segir
m.a. að markmiðið með samningnum sé að aðilar vinni saman að þróun þekkingar á
sviði varðveislu, skjalaráðgjafar, rafrænnar vistunar, forvörslu og safnafræða.
Verktaki (stefnandi) muni byggja upp öflugt fyrirtæki á þessu sviði í
Reykjanesbæ, en fyrirtækið muni bjóða heildarlausn í geymslumálum fyrirtækja,
stofnana, ríkis og sveitarfélaga.
Í 4. gr. samningsins er kveðið á
um að samningurinn gildi frá og með 1. mars 2008 og að uppsagnarfrestur af
hálfu beggja aðila sé 6 mánuðir frá og með 1. degi næsta mánaðar frá því
skrifleg uppsögn berst hinum samningsaðila samnings þessa með sannanlegum
hætti.
Af hálfu stefnanda er á því
byggt að stefndi hafi vanefnt samninginn með því að greiða ekki umsamið
leigugjald. Samningnum hafi aldrei verið sagt upp, hvorki af hálfu stefnanda né
stefnda. Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi sagt samningnum upp
með tölvupósti fyrirsvarsmanns stefnanda til stefnda þann 30. nóvember 2009.
Aðila greinir á um það hvort í umræddum tölvupósti felist uppsögn samningsins.
Af því sem fram hefur komið í
málinu flutti stefndi muni sína í húsnæði það sem stefnandi tók á leigu hjá Verne í kjölfar samningsins við stefnda frá 29. febrúar
2008. Ekki er hægt að ætla annað en að samstarf aðila í því húsnæði hafi gengið
snurðulaust fyrir sig fram á fyrri hluta ársins 2009 er stefnandi flutti sína
starfsemi úr leiguhúsnæðinu í kjölfar þess að Verne
riftir samningnum fyrr en reiknað var með þar sem fyrirtækið þurfti sjálft á
húsnæðinu að halda. Áður hafa verið rakin vandræði sem stefndi lenti í vegna
rafmagns- og hitaleysis í þessu húsnæði, sem ekki virðist ágreiningur um. Af
málinu má ráða að Verne hafi leyft stefnda að geyma
muni sína í húsnæðinu fram á mitt ár 2010 enda þótt stefnandi hefði húsnæðið
ekki lengur á leigu.
Eins og áður greinir festi
stefnandi kaup á húsnæði sem til stóð að stefndi flytti muni sína í. Frá fyrri
hluta ársins 2009 áttu sér stað viðræður milli aðila um skipulag þess húsnæðis
með þarfir stefnda í huga og gengu tillögur milli aðila. Í lok nóvember 2009
var ljóst að aðilar næðu ekki saman en stefnandi taldi sig ekki geta orðið við
kröfum stefnda. Í tölvupósti fyrirsvarsmanns stefnanda til Þóreyjar
Guðmundsdóttur fjármálastjóra stefnda og Valgerðar Guðmundsdóttur forstöðumanns
menningarsvið stefnda dagsettum 30. nóvember 2009 segir m.a: ,,En eftir póstana
sem ég hef séð fara milli Sigrúnar og Þorbjargar í morgun get ég ekki séð lausn
á þessu máli okkar á milli þótt ég komi með frábært tilboð til ykkar.......en
því miður er það löngu augljóst að neikvætt viðhorf Sigrúnar til samstarfsins
gera það að verkum að ég tel þetta því
miður ekki ganga upp. Ég er sannfærð um að ef þetta hefði gengið upp þá hefði
það skapað mörg atvinnutækifæri í Reykjanesbæ.. Ég get ekki lagt það á
starfsfólkið að vera í svona samskiptum......Ég er þakklát fyrir samstarfið við
Reykjanesbæ og mér þykir þetta miður. Ég er enn sannfærð um að við hefðum getað
skapað hátt í 50 störf ef þetta hefði gengið vel miðað við það sem við höfum
verið að skoða.”
Í póstinum óskar
forstöðumaðurinn síðan eftir fundi með viðtakendum póstsins til að kanna
möguleika á að lágmarka tjón stefnanda og kanna möguleika á að stefnandi
varðveiti og þjónusti listaverkasafnið og skjalasafnið og að skilin við
Byggðasafnið verði rædd.
Fulltrúar stefnda telja þennan
tölvupóst fela í sér yfirlýsingu um uppsögn samningsins frá 2008 en jafnframt
ósk um viðræður um nýjan samning með öðru sniði.
Að mati dómsins verður að telja
yfirlýsingu fyrirsvarsmanns stefnanda sem fram kemur í framangreindum
tölvupósti ótvíræða uppsögn á samningi
aðila. Ýmis bréfaskipti aðila og eftir þennan umrædda tölvupóst styðja þá niðurstöðu.
Verður því að reisa niðurstöðu málsins á því að stefnandi hafi með þessari yfirlýsingu sagt samningi
aðila upp með 6 mánaða uppsagnarfresti. Í málinu er ágreiningslaust að miða
beri við þann uppsagnarfrest sem á sér stoð í umræddum samningi aðila. Þegar af
framangreindum ástæðum er því hvorki
fallist á aðal- né varakröfu stefnanda í máli þessu og samkvæmt þessu ber
stefnda því að greiða stefnanda þá fjárhæð sem í þrautavarakröfu stefnanda
greinir, en ekki er fallist á neina skerðingu þeirrar fjárhæðar vegna vanefnda
stefnanda sem hlutust af rafmagns-og hitaleysi í leiguhúsnæðinu og öðrum
óþægindum því tengt, enda liggur ekkert fyrir í málinu um fjárhæð slíks tjóns
stefnda.
Með vísan til alls þess sem að
framan hefur verið rakið er niðurstaða dómsins því sú að fallast beri á þrautavarakröfu
stefnanda og samkvæmt því er stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 5.562.900
krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu af 1.112.580 krónum frá 1. janúar 2010 til 1. febrúar 2010, af
2.225.160 krónum frá þeim degi til 1. mars 2010, af 3.337.740 krónum frá þeim
degi til 1. apríl 2010, af 4.450.320 krónum frá þeim degi til 1. maí 2010 og af
5.562.900 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Eftir
úrslitum málsins ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem
eftir atvikum þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.
Finnbogi
H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.
DÓMSORÐ:
Stefndi
Reykjanesbær greiði stefnanda Gagnavörslunni ehf., 5.562.900 krónur ásamt
dráttarvöxtum af 1.112.580 krónum frá 1. janúar 2010 til 1. febrúar 2010, af
2.225.160 krónum frá þeim degi til 1. mars 2010, af 3.337.740 krónum frá þeim
degi til 1. apríl 2010, af 4.450.320
krónum frá þeim degi til 1. maí 2010 og af 5.562.900 krónum frá þeim degi til
greiðsludags.
Stefndi
greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.