Hæstiréttur íslands
Mál nr. 368/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Miðvikudaginn 11. júlí 2007. |
|
Nr. 368/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X (Oddgeir Einarsson hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að X sætti nálgunarbanni gagnvart Y, heimili hennar og vinnustað samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en ekki þótti ástæða til að nálgunarbannið næði einnig til vinnustaðar Y í Kringlunni þar sem óljóst var hvort eða hvenær Y hæfi þar störf á ný.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði, þannig að lagt var bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili Y, [...], Kópavogi, á svæði sem markast af 50 metra radíus umhverfis húsið, mælt frá miðju þess. Einnig var lagt bann við því að varnaraðili komi á eða í námunda við [...], Reykjavík, og [...], Kringlunni í Reykjavík, vinnustaði Y, á svæði sem markast af 50 metra radíus umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Jafnframt var lagt bann við því að varnaraðili veiti Y eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- og farsíma hennar eða setji sig á annan hátt beint í samband við hana. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að tími nálgunarbannsins verði styttur, að svæðið sem nálgunarbannið nær til verði látið markast af 50 metra radíus umhverfis [...], mælt frá miðju hússins, að úrskurðinn verði felldur úr gildi að því er varðar bann við símasamskiptum og að því er varðar bann við eftirför eða að varnaraðili nálgist hana á almannafæri.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Lagt var fyrir Hæstarétti nýtt gagn af hálfu varnaraðila sem staðfestir að sóknaraðili vann einungis tvær helgar í [...], Kringlunni og óljóst hvort eða hvenær hún muni koma þar aftur til starfa. Verður í því ljósi ekki fallist á að nálgunarbann á hendur varnaraðila nái til [...]. Að öðru leyti verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að nálgunarbann á hendur varnaraðila, X, tekur ekki til [...], Kringlunni í Reykjavík.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2007.
Í máli þessu, sem tekið var til úrskurðar í dag, krefst lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu þess að varnaraðila, X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili Y, kt. [...], [...], Kópavogi, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Einnig að lagt verði bann við því að varnaraðili komi á eða í námunda við [...], Reykjavík, og [...], Kringlunni, Reykjavík, vinnustaði Y, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis [...], mælt frá miðju hússins Jafnframt að lagt verði bann við því að varnaraðili veiti Y eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- og farsíma hennar eða setji sig á annan hátt beint í samband við hana.
Af hálfu varnaraðila er kröfu sóknaraðila mótmælt og til vara er þess krafist að nálgunarbannið nái eingöngu til heimilis Y en ekki til vinnustaða hennar. Varnaraðili kveður lýsingar Y í gögnum málsins mestmegnis vera ýkjur og lygi.
Skipaður verjandi varnaraðila krefst þóknunar.
I.
Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að kærði og kærandi í málinu hafi verið hjón, en þau skilið í apríl síðastliðnum. Frá þeim tími kveðist kærandi hafa mátt búa við hótanir og ógnanir frá varnaraðila.
Þann 12. júní sl. hafi kærandi komið á lögreglustöð í því skyni að kæra ítrekaðar hótanir og ofsóknir af hendi kærða. Hafi kærandi lýst því að hún hafi á sambúðartíma mátt þola mikið ofbeldi frá kærða, bæði andlegt og líkamlegt. Eftir að kærandi og kærði skildu og kærandi eignaðist eigin íbúð hefðu ofsóknir kærða orðið mun verri. Hefði kærandi lagt fram farsíma sinn hjá lögreglu, símanúmerið [...], þar sem heyra má kærða ávarpa kæranda á ensku, berja á útihurð heima hjá henni og bera upp ýmsar hótanir, m.a. um að ætla að eyðileggja líf hennar og að hún skyldi vera vör um bak sitt og skugga og að hún myndi ekki eiga neitt líf á Íslandi.
Í dagbók lögreglu er að finna eftirtaldar bókanir sem gerðar voru áður en kærandi lagði fram kæru sína:
Þann 13.mars sl. kl. 12:28 óskaði starfsmaður Kvennaathvarfsins eftir aðstoð fyrir konu sem ætti í vandræðum með að nálgast eigur sínar hjá eiginmanni. Sagði hún lögreglumönnum að fyrrverandi eiginmaður hefði ítrekað lagt á hana hendur og teysti hún sér því ekki til að nálgast þá muni sem hana vantaði. Höfðu lögreglumenn samband við kærða sem brást illa við afskiptum lögreglu og neitaði að láta muni kæranda af hendi.
Þann 8. júní sl. kl. 19:46 óskaði kærandi eftir aðstoð við að koma kærða á brott frá heimili sínu þar sem hann bankaði á hurðir og glugga. Við heimili kæranda hittu lögreglumenn fyrir kærða sem kvaðst vilja fá afhentan lykil af bifreið en kærandi vildi hvorki ræða við hann né opna hurðina. Hann hefði því lamið húsnæðið að utan í von um að komast inn og ræða við kæranda. Í viðræðum lögreglumanna við kæranda kvaðst hún vera hrædd við kærða. Sýndi hún lögreglumönnum sms-skilaboð þar sem kærði blótar henni. Kvað hún kærða elta sig og hringja í hana í tíma og ótíma. Tjáði kærði lögreglumönnunum að hann myndi bíða fyrir utan, á gangstéttinni og reyna að taka af henni lykilinn af bifreiðinni þegar hún yfirgæfi húsnæðið.
Þann 9. júní sl. kl. 19:18 óskaði kærandi eftir aðstoð lögreglu þar sem kærði væri að berja á glugga og kalla að henni ókvæðisorð. Er lögreglumenn komu á vettvang var kærði á bak og burt en hjá kæranda var vinkona hennar sem hafði orðið vitni af því sem fram fór og jafnframt var kærandi með hljóðupptökur þar sem kærði sagðist ætla að halda áfram að heimsækja kæranda og banka á glugga ítrekað í framtíðinni og það hefði ekkert að segja að kærandi hefði samband við lögreglu. Lögreglumenn höfðu samband við kærða símleiðis þar sem hann var inntur eftir heimsóknum hans til kæranda. Kvaðst kærði hvorki hafa heimstótt hana um nóttina né um daginn. Er kærði var spurður út í upptökur frá heimsókn hans kvaðst hann aðeins hafa verið að banka upp hjá kæranda sem honum væri heimilt. Brást kærði illa við tilmælum lögreglumanna um að ónáða kæranda ekki frekar og sakaði lögreglu um ofsóknir.
Þann 10. júní sl. kl. 15:43 óskaði kærandi eftir aðstoð þar sem kærði var mættur á heimili hennar. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var kærði nýfarinn en kærandi kvað hann hafa haft í hótunum við sig þar sem hann hefði sagst ætla að eyðileggja hana andlega og að hún ætti að „passa uppá skugga sinn“. Jafnframt sagði kærandi að kærði hefði hótað að drepa kæranda ef hún hefði samband við lögreglu og kvaðst hún mjög hrædd við kærða.
Eftir að kærandi lagði fram kæru í málinu eru eftirtaldar bókanir í dagbók lögreglu:
Þann 16. júní sl. kl. 19:30 var óskað eftir lögreglu á heimili kæranda. Tjáði kærandi lögreglu að kærði hefði verið að horfa inn um glugga hjá henni dag og nótt og héldi því fram að hann ætti allt sem í íbúðinni væri, jafnvel þrátt fyrir að það væri nýtt og hafi hún þurft að líma dagblöð fyrir glugga svo kærði sæi ekki inn. Enn fremur sagði kærandi frá því að kærði hefði hringt í hana oft á dag og haft uppi hótanir ásamt því að elta hana á bifreið sinni og fara inn á tölvupóst hennar og eyða þaðan út gögnum. Kærði var staddur í bifreið fyrir utan húsið er lögregla kom að heimili kæranda og var mjög ósamvinnuþýður. Fór hann á brott en hóf strax að ónáða kæranda með símtölum á meðan lögregla var enn á staðnum.
Þann 23. júní sl. kl. 11:44 var óskað eftir aðstoð lögreglu á heimili kæranda þar sem kærði hefði verið að kíkja á glugga hjá kæranda. Er lögregla kom á vettvang var kærði farinn. Tjáði kærandi lögreglu að kærði áreitti sig meðal annars með því að elta sig á bifreið sinni og með hringingum.
Þann 24. júní sl. kl. 09:11 var óskað eftir aðstoð lögreglu á heimili kæranda þar sem kærði hefði verið að gægjast inn um glugga hjá kæranda.
Þann 1. júlí sl. kl. 22:33 kom kærandi á svæðisstöðina í Kópavogi og sagði kærða hafa elt sig um kvöldið og væri að áreita sig vegna ágreinings þeirra um muni sem þau hafi eignast í hjónabandi þeirra. Sagði kærandi kærða hafa elt hana að lögreglustöðinni. Hafði lögregla samband við kærða símleiðis í samráði við kæranda og bað hann um að hætta að elta og áreita kæranda.
Þann 4. júlí sl. kl. 21:10 hafði lögregla símasamband við kæranda til að afla upplýsinga um hvort kærði hefði haldið uppteknum hætti við áreitni gagnvart henni. Kærandi greindi frá því að kærði hefði ítrekað hringt í farsíma hennar og skilið eftir skilaboð í talhólfi hennar, meðal annars um að hann hygðist skemma bifreið hennar. Þá hafi kærði staðið fyrir utan hjá henni 3. júlí sl. þegar hún kom heim til sín á bifreið sinni og hafi kærði hent undir hjól bifreiðarinnar flöskubrotum.
Af hálfu sóknaraðila er talið að rannsóknargögn framangreindra mála beri með sér að varnaraðili hafi með háttsemi sinni raskað mjög friði kæranda og valdið henni miklum ótta og ónæði. Um sé að ræða langvarandi og þrúgandi ástand, allt frá skilnaði aðila.
Með hliðsjón af framangreindum atvikum verði ekki ráðið að líklegt sé eða sennilegt að varnaraðili láti af hegðun sinni ef ekkert verði að gert. Telja verði kæranda hafa verulega hagsmuni af því að fá frið fyrir varnaraðila enda hafi hún raunhæfa ástæðu til óttast að kærði láti verða af hótunum í hennar garð. Kröfunni til stuðnings vísar sóknaraðili til framangreindra atvika og raka, framlagðra gagna og 110. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000.
Varnaraðili hefur mótmælt kröfunni um nálgunarbann á þeim grundvelli að lýsingar Y í gögnum málsins séu ýkjur og lygi. Fyrir dóminum kvaðst varnaraðili þurfa að eiga samskipti við lögmann sinn sem hefði aðsetur í Austurstræti 17, Reykjavík og þá þyrfti hann að greiða skuld hjá lögmönnum með aðsetur að [...], Reykjavík.
II.
Í ljósi framangreindrar atvikalýsingar og með hliðsjón af gögnum málsins og röksemdum sóknaraðila telur dómari skilyrðum 110. gr. a, laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, fullnægt fyrir því að verða megi við kröfu sóknaraðila. Röksemdir varnaraðila varðandi erindi hans á lögmannsstofur í Austurstræti og [...] verða ekki taldar koma í veg fyrir að krafa sóknaraðila nái fram að ganga að framangreindum skilyrðum fyrir nálgunarbanni uppfylltum. Ber því að fallast á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Samkvæmt greindum málsúrslitum ber varnaraðila og að greiða allan sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda, Oddgeirs Einarssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 45.000 krónur.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, X, kt. [...], [...], Reykjavík,, skal sæta nálgunarbanni í sex mánuði, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili Y, kt. [...], [...], Kópavogi, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Einnig er lagt bann við því að varnaraðili komi á eða í námunda við [...], Reykjavík, og [...], Kringlunni, Reykjavík, vinnustaði Y, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis [...], mælt frá miðju hússins Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti Y eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- og farsíma hennar eða setji sig á annan hátt beint í samband við hana.
Varnaraðili greiði þóknun verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hdl., 45.000 krónur.