Hæstiréttur íslands
Mál nr. 366/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 29. maí 2012. |
|
Nr. 366/2012. |
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X
skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2012 sem barst héraðsdómi og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. júní 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í málinu er kominn fram
rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi sem
fangelsisrefsing liggur við og að rannsóknarhagsmunir standi til að hann sæti
gæsluvarðhaldi þann tíma sem ákveðinn var með hinum kærða úrskurði. Samkvæmt
þessu verður hann því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður
Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2012.
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X,
kt. [...], [...],[...] verði á grundvelli a-liðar 1.
mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi,
allt til föstudagsins 1. júní, kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti
einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Mál
lögreglu nr. 007-2012-[...]. Í greinargerð lögreglu kemur fram að í gær, 24.
maí 2012, kl. 11:13 hafði verið tilkynnt um innbrot að [...] í [...] og hafi
lögregla verið kölluð til vegna grunsamlegra mannaferða í [...] í [...]. Þar
hafi sést til þriggja hettuklæddra manna með málverk undir höndum, sveipað laki,
og íþróttatösku. Þegar lögreglan hafði afskipti af þeim hafi þeir reynt að
hlaupa burt og kasta þýfinu frá sér. Í kjölfarið hafi þeir verið handteknir og hafi
verið um ræða ætlað þýfi úr innbroti við [...], m.a. flatskjár og DVD myndir og
annað úr húsnæðinu.
Lögregla
hafi tekið skýrslu af kærða, sem handtekinn hafi verið í gærmorgun og hafi hann
játað aðild sína að innbrotinu að [...], en hann kvaðst hafa verið einn á ferð
og neitaði hann að svara um aðkomu meðkærðu að þessu innbroti Að mati lögreglu sé nauðsynlegt að taka
frekari skýrslu af kærða, en vitni hafa borið því við að fleiri aðilar hafi verið að verki.
Kærði
sé einnig grunaður um innbrot, sem séu í rannsókn:
Mál
lögreglu nr. 007-2012-[...]. Kærði sé
einnig grunaður um innbrot að [...] í [...] þann 27. apríl, þar var stolið tölvu,
farsímum og fleiru. Þar hafi meðkærði bent á kærða sem aðila að því innbroti,
en kærði hafi neitað því.
Mál
lögreglu nr. 007-2012-[...]. Innbrot
að [...] þann 27. apríl þar sem stolið var fartölvum. Kærði sé grunaður um
innbrot þar ásamt meðkærða en kærði hafi neitað því.
Mál
lögreglu nr. 007-2012-[...]. Innbrot
að [...], þann 22. maí, en þar var stolið fartölvu og myndavél. Vitni hafi séð
tvo aðila, sem hún hafi lýst, fara að húsinu að [...] og í kjölfarið hafi verið
kallað á húsráðanda sem hafi komið að manni á hlaupum. Fótspor hafi fundist á
vettvangi.
Að
mati lögreglu sé gæsluvarðhald nauðsynlegt til að unnt verði að vinna að
rannsókn málanna, án þess að kærði nái að tala við ætlaða vitorðsmenn og spilla
sönnunargögnum. Einnig eigi eftir að taka skýrslu af vitni eða vitnum og
frekari skýrslutöku af kærða og meðkærðu.
Rannsókn
lögreglu sé á frumstigi og þurfi lögreglan ráðrúm til að vinna að rannsókn
málanna. Að mati lögreglu séu miklir hagsmunir af því að orðið verði við kröfum
hennar.
X
sé grunaður um brot gegn 244. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a-liðar 1. mgr.
95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga
nr. 88, 2008, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún
er sett fram.
Niðurstaða:
Með
vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram
rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing
liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi, en eftir er að yfirheyra kærða
frekar, auk annarra sem grunaðir eru í málinu og taka skýrslur af vitnum.
Fallist er á með lögreglustjóra að skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008 séu uppfyllt. Er krafa um gæsluvarðhald því tekin til greina eins og
nánar greinir í úrskurðaroði. Þá er fallist á að kærði verði látinn vera í
einrúmi meðan á gæsluvarðahaldinu stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr.
88/2008, en máli þykir skipta að kærði og aðrir sem grunaðir eru í málinu geti
ekki samræmt framburð sinn.
Ragnheiður
Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði,
X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til
föstudagsins 1. júní nk., kl. 16:00. Kærði skal látinn vera í einrúmi á meðan á
gæsluvarðhaldinu stendur.