Hæstiréttur íslands
Mál nr. 543/2007
Lykilorð
- Þjófnaður
- Nytjastuldur
- Hilming
|
|
Fimmtudaginn 17. janúar 2008. |
|
Nr. 543/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari) gegn Ásgeiri Heiðari Stefánssyni (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Þjófnaður. Nytjastuldur. Hilming.
Á var sakfelldur fyrir stórfelld auðgunarbrot og var þetta í þriðja sinn sem hann hlaut refsingu vegna slíkra brota. Var niðurstaða héraðsdóms um 18 mánaða fangelsi Á staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. október 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjenda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 248.112 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, 6. september 2007.
Ár 2007, fimmtudaginn 6. september, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 1021/2007: Ákæruvaldið (Karl Vilbergsson) gegn X (Jón Höskuldsson hrl.) og Ásgeiri Heiðari Stefánssyni (Sigmundur Hannesson hrl.), sem tekið var til dóms hinn 31. ágúst sl. að lokinni aðalmeðferð.
Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 7. ágúst sl. á hendur ákærðu, X, [kt. og heimilisfang], og Ásgeiri Heiðari Stefánssyni, [kt.], Bröttukinn 14, Hafnarfirði, “fyrir eftirtalin fíkniefna-, hegningar- og umferðarlagabrot:
I. (007-2007-15754)
Á hendur ákærðu báðum fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 6. mars 2007, í sameiningu farið inn húsnæði A að [...], og stolið þaðan Canon litaprentara, Kodak myndavél, Dell borðtölvu, Dell fartölvu, Dell tölvuskjá, 11 15” sjónvarpstækjum af gerðinni Elfunk, 31 19” sjónvarpstæki af gerðinni Daewoo, 8 DVD bíltækjum af gerðinni Pyle og 7.000 krónum í reiðufé, samtals að verðmæti 2.381.565 krónur.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í málinu gerir B f.h. A, [kt.], þá kröfu að ákærðu verði dæmdir til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 1.663.594, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 6. gr. til greiðsludags.
II. (007-2007-15754)
Á hendur ákærðu báðum fyrir nytjastuld, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 6. mars 2007, í sameiningu tekið til eigin nota, í heimildarleysi, húsbifreið af gerðinni Fiat Liberty, þar sem hún stóð í sýningarsal að [...] og ekið henni að Rauðhólum í Reykjavík.
Í málinu gerir B f.h. A., [kt.], þá kröfu að ákærðu verði dæmdir til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 180.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 6. gr. til greiðsludags.
III. (007-2007-15757)
Á hendur ákærðu báðum fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 6. mars 2007, í sameiningu stolið kerrunni [...], að verðmæti 750.000 krónur, þar sem hún stóð fyrir utan bensínafgreiðslu Skeljungs að Gylfaflöt í Reykjavík.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
IV. (010-2006-53466)
[...]
XX. (007-2007-2179)
Á hendur ákærða Ásgeiri Heiðari, fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 10. janúar 2007, farið inn í nýbyggingar nr. 1-3 og 2-14 að [...], og stolið þaðan fjórum höggborvélum, blöndunartækjum, flísaskera, verkfæratösku með ýmsum smáverkfærum í, slípirokki, fimm batterísskrúfvélum, hnoðbyssu, þremur hjólsögum, einni bútsög, reykháf, loftljósi, járnaklippum og fjórum jeppadekkjum á felgum, auk bílkerru, samtals að verðmæti um 1.405.000 krónur.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
XXI. (007-2007-11764)
Á hendur ákærða Ásgeiri Heiðari, fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 19. febrúar 2007, stolið fjórhjóli af gerðinni Yamaha Raptor, að verðmæti 1.400.000 krónur, þar sem það stóð fyrir utan verslunina C við [...].
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
XXII. (007-2007-11631)
Á hendur ákærða Ásgeiri Heiðari, fyrir hylmingu með því að hafa í marsmánuði 2007, tekið við ofangreindu bifhjóli úr höndum meðákærða X í bifreiðageymslu við Hamraborg í Kópavogi, þrátt fyrir að vita að X hafi stolið hjólinu.
Telst þetta varða við 1.mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
XXIII. (007-2007-16046)
Á hendur ákærða Ásgeiri Heiðari, fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 7. mars 2007, brotist inn í vörugám á athafnasvæði D að [...], með því að klippa í sundur hengilás á gámnum og stolið þaðan sextán hjólbörðum af gerðinni Mickey Thompson, að verðmæti um 700.000 krónur og bílkerru.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í málinu gerir E f.h. D, [kt.], þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 530.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 6. gr. til greiðsludags.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og jafnframt að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001. Þá er þess krafist að ákærði X verði sviptur ökuréttindum skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66, 2006”
Fallið hefur verið frá því ákæruatriði í XVII. lið ákærunnar, að 15.000 krónur í reiðufé hafi verið í veskinu, sem þar er talið hafa verið stolið.
Málavextir
A. Báðir ákærðu.
Ákærði X neitar sök að því er tekur til ákæruliða IX, XIV og XV. Að öðru leyti hefur hann skýlaust játað þau brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um verknaði þá sem lýst er í ákærunni og hann þar sagður hafa framið. Eru þeir réttilega færðir til refsiákvæða.
Ákærði Ásgeir Heiðar neitar sök að því er tekur til ákæruliða XXII. Að öðru leyti hefur hann skýlaust játað þau brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um verknaði þá sem lýst er í ákærunni og hann þar sagður hafa framið. Eru þeir réttilega færðir til refsiákvæða en þess er þó að geta að í II. lið ákærunnar hefur fallið niður heimfærsla til refsiákvæðis, 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga. Það kemur þó ekki að sök.
B. Ákærði X.
[...]
C. Ákærði Ásgeir Heiðar.
XXII. Fyrir liggur að ákærði keypti nýtt bifhjól af meðákærða í marsmánuð 2007, að talið er. Hafði hjóli þessu hafði verið stolið úr ólæstum gámi við fyrirtækið K, [...] í febrúar. Ákærði, sem að eigin sögn var þá “í rugli” segist hafa greitt 50.000 krónur út í hönd fyrir hjólið og segir hann engin skjöl hafa blandast í þau viðskipti. Að sögn ákærðu beggja fóru þau fram í bílageymslu í Hamraborg í Kópavogi. Ákærði var kunnugur meðákærða og höfðu þeir m.a. verið saman í innbroti ekki löngu áður og vissi að eigin sögn að meðákærði var í afbrotum á þessum tíma. Þá segist ákærði hafa ætlað kærustu sinni hjólið og ekki ætlað að láta skrá það. Hann neitar sök og segist ekki hafa gert sér grein fyrir því að hjólið væri illa fengið og ekki hugsað neitt út í slíkt. Hefur meðákærði, sem var einnig í fíkniefnaneyslu og húsnæðislaus á þessum tíma, sagt að hann hafi ekki sagt ákærða að hjólið væri stolið en hafa gert ráð fyrir því að ákærði vissi það. Hann hefur viðurkennt að hafa stolið hjólinu fyrir utan F, fyrr í sama mánuði, sbr. XII. lið ákærunnar.
Dómurinn telur það fullvíst, vegna verðsins sem ákærði galt fyrir nýtt bifhjólið, vegna þess sem hann vissi um meðákærða og vegna þess hvernig viðskiptin gerðust, að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að það var illa fengið. Hefur hann því gerst brotlegur við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.
Viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður.
[...]
Ákærði Ásgeir Heiðar hefur að baki nokkurn sakaferil, sem nær aftur til 1999 að hann fékk ákærufrestun fyrir nytjastuld. Hann hefur verið sektaður fimm sinnum, mest fyrir umferðarlagabrot. Þá hefur hann alls verið dæmdur fimm sinnum fyrir hegningarlagabrot. Hann var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir stórfelld auðgunarbrot og nytjastuld í apríl 2002. Í mars 2003 var hann sakfelldur fyrir fjársvik en ekki gerð refsing. Þá var hann aftur dæmdur í 18 mánaða fangelsi í nóvember það ár fyrir sams konar brot og loks var hann dæmdur í sekt í október 2005 fyrir fíkniefnalagabrot og hraðakstur og jafnframt sviptur ökurétti. Ákærði hafði hlotið reynslulausn í maí 2004 af 540 fangelsisdögum og hefur verið litið svo á að hann hafi staðist það skilorð. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir stórfelld auðgunarbrot í þriðja sinn og þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Frá refsingunni ber að draga þriggja daga gæsluvarðhaldsvist, sem ákærði sætti.
[...]
Bótakröfur á hendur ákærðu frá A eru vanreifaðar og óljósar og verður þeim vísað frá dómi af þeim sökum.
[...]
[...] Loks ber að dæma ákærða Ásgeir Heiðar til þess að greiða verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hrl., 120.000 krónur í málsvarnarlaun. Virðisaukaskattur er reiknaður með verjandalaununum.
Annan sakarkostnað, 219.714 krónur, ber að leggja á ríkissjóð.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði. Frestað er framkvæmd 12 mánaða af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð. Frá refsingunni dregst 59 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærði Ásgeir Heiðar Stefánsson, sæti fangelsi í 18 mánuði. Frá refsingunni dregst 3 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærði X sæti upptöku á 1,96 g af amfetamíni.
Ákærði X greiði [...] 200.000 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 2. júlí 2007 til dómsuppsögu en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.
Ákærði X greiði verjanda sínum, Jóni Höskuldssyni hrl., 270.000 krónur í málsvarnarlaun en úr ríkissjóði greiðist verjandanum 120.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði X greiði Sigmundi Hannessyni hrl. 168.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Ásgeir Heiðar greiði verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hrl., 120.000 krónur í málsvarnarlaun.
Annar sakarkostnaður, 219.714 krónur, greiðist úr ríkissjóði.