Hæstiréttur íslands

Mál nr. 196/2000


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Fasteign
  • Líkamstjón
  • Örorka


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. nóvember 2000.

Nr. 196/2000.

Árni Jakob Hjörleifsson

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

                                                   

Vinnuslys. Fasteign. Líkamstjón. Örorka.

B, starfsmaður í bakaríi, varð fyrir slysi við afhendingu á vörum í mötuneyti varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli er vængjahurð skall á hönd hans. Ekki var hafist handa um rannsókn slyssins fyrr en rúmum tveimur árum seinna og engin vitni urðu að því. Ekki þótti sýnt fram á að annmarkar hefðu verið á dyrabúnaðinum og því ekki hægt að rekja slysið til aðstæðna, sem Í teldist eiga sök á. Dómur héraðsdóms um sýknu Í var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hjörtur Torfason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. maí 2000. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefndi sé ábyrgur fyrir greiðslu skaðabóta að fullu til handa sér vegna þess atburðar að hurð á byggingu nr. 743 á Keflavíkurflugvelli skall á hönd hans að morgni 30. maí 1994. Hann krefst einnig málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist að sök aðila verði skipt og málskostnaður falli niður.

I.

Áfrýjandi kveðst að morgni 30. maí 1994 hafa verið staddur við mötuneyti varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, byggingu nr. 743, þar sem hann sinnti starfi við útkeyrslu á vörum frá vinnuveitanda sínum, Sigurjónsbakaríi í Keflavík. Hann hafi komið að inngangi á bakhlið byggingarinnar, sem hafi verið ætlaður meðal annars til að flytja aðföng í eldhús mötuneytisins. Til að afgreiða þar vörur hafi orðið að fara um tvennar dyr, innri og ytri, en á báðum hafi verið tvær vængjahurðir, sem hafi opnast út. Þegar áfrýjandi kom þar að hafi innri dyrnar verið opnar með því að önnur hurðin hafi verið skorðuð af með fleyg. Ytri dyrnar hafi hins vegar verið lokaðar. Kveðst áfrýjandi hafa tekið tvær grindur með brauðum og ætlað að bera þær inn í húsið. Hann hafi tyllt þeim á lærið á sér, opnað ytri dyrnar með því að taka í aðra hurðina og ætlað að smeygja sér inn. Þegar dyrnar voru opnaðar hafi myndast trekkur og áfrýjandi misst takið á hurðinni. Hún hafi skollið á hægri hönd hans af miklu afli.

Áfrýjandi kveðst hafa farið eftir þetta inn á skrifstofu mötuneytisins og greint bandarískum starfsmanni þar frá atvikinu. Eftir það hafi hann farið á vinnustað sinn, en fundið þá til mikils sársauka í hendinni. Í samráði við vinnuveitanda sinn hafi hann farið á Sjúkrahús Suðurnesja til að láta athuga hana. Þar hafi með röntgenmynd komið í ljós kurlað brot á nánar tilteknu miðhandarbeini. Að ráði læknis á sjúkrahúsinu hafi hann daginn eftir farið á Borgarspítalann í Reykjavík, þar sem hann gekkst undir aðgerð 2. júní 1994. Vegna dofa og skyntruflana í hendinni hafi hann aftur gengist undir aðgerð 10. febrúar 1995. Þrátt fyrir þetta hafi hann ekki fengið fullan bata eftir slysið. Áfrýjandi aflaði sér örorkumats læknis 23. maí 1996, þar sem komist var að niðurstöðu um að varanlegur miski og varanleg örorka hans væri 20%, auk þess sem hann hafi vegna áverkans verið rúmfastur í eina viku eftir slysið, en síðan veikur án þess að vera rúmliggjandi í sex vikur.

Áfrýjandi telur að slysið verði rakið til óforsvaranlegs dyrabúnaðar í húsi mötuneytis varnarliðsins. Beri stefndi því skaðabótaábyrgð á tjóni hans samkvæmt 2. tölulið 12. gr. fylgiskjals með varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess. Áfrýjandi höfðaði málið 25. júní 1998 til heimtu skaðabóta á þessum grunni. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi var sakarefninu skipt og er nú aðeins til úrlausnar hvort stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart áfrýjanda.

II.

Í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi greindi vinnuveitandi áfrýjanda meðal annars frá því að þegar áfrýjandi hafi komið á vinnustað úr för sinni umræddan morgun hafi hann sagt frá því að „hann hefði lent í einhverju slysi og að hurð hafi komið á hann og hann hafi borið höndina fyrir sig ...“. Í vottorði læknis við Heilbrigðistofnun Suðurnesja 30. nóvember 1999 er staðfest að áfrýjandi kom á slysastofu klukkan 9.40 hinn 30. maí 1994. Um ástæðuna fyrir komu hans segir eftirfarandi í vottorðinu: „Hann var við vinnu á Keflavíkurflugvelli og var að bera inn vörur í messann og klemmdist á útidyrahurð. Lagið kom á hæ. hendi.“ Verður ekki annað séð en að með þessu sé vitnað til frásagnar áfrýjanda um atvik að slysinu við komu á slysastofu. Að þessu virtu er ekki ástæða til að draga í efa að áfrýjandi hafi hlotið áverkann á hendi með því að hurð á umræddu húsi hafi skollið á hann.

Til þess verður að líta að ekkert var gert til að rannsaka atvik að slysi áfrýjanda eða vettvang þess fyrr en á síðari hluta árs 1996. Verður ekki annað ráðið en að þá fyrst hafi varnarliðinu verið gert kunnugt um atvikið, þótt ætla verði af gögnum málsins að starfsmenn í mötuneytinu hafi vitað að áfrýjandi hafi orðið fyrir slysi nokkru eftir að það gerðist. Varnarliðinu var hvorki rétt né skylt samkvæmt 2. mgr. 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum að tilkynna lögreglu og Vinnueftirliti ríkisins um slysið, enda ekki vinnuveitandi áfrýjanda. Með því að slíkri tilkynningu var ekki komið á framfæri fórst fyrir að afla viðhlítandi gagna um ástand dyrabúnaðarins á þeim tíma, sem áfrýjandi varð fyrir slysinu, en um það lá ekki fyrir haldbær vitneskja þegar um síðir var leitað eftir lögreglurannsókn og athugun vinnueftirlitsins. Þótt stefndi hafi ekki lagt fram gögn, sem ætla verður að varnarliðið hljóti að hafa tiltæk um viðhald á húsi mötuneytisins og eftirlit með öryggi þar, verður að því að gæta, að telja má óumdeilt í málinu að ekki séu dæmi um önnur slys af völdum dyrabúnaðarins. Að öllu þessu athuguðu er ósannað gegn mótmælum stefnda að hætta hafi stafað af dyrunum vegna vanbúnaðar á þeim tíma, sem áfrýjandi varð fyrir slysinu.

Engin vitni virðast vera til frásagnar um nánari atvik að slysi áfrýjanda. Stefndi kveðst ekki hafa komist að raun um hver geti hafa verið sá starfsmaður í mötuneytinu, sem áfrýjandi segist hafa átt orðaskipti við í kjölfar slyssins. Eru ekki efni til að láta stefnda gjalda þess þegar gætt er að því að ekki hefur verið haldið fram að sá maður gæti borið um hvernig slysið bar að höndum. Fram er komið í málinu að áfrýjandi var vegna starfa sinna vel kunnugur staðháttum á vettvangi, þar á meðal að unnt væri að nálgast þar fleyga til að skorða aftur hurðir. Í stað þess að nýta þann búnað eða leggja frá sér byrði sína til að opna ytri dyrnar beitti áfrýjandi að eigin sögn því verklagi, sem áður er getið. Með því að ekkert liggur fyrir samkvæmt framansögðu um að annmarkar hafi verið á dyrabúnaðinum á þeim tíma, sem slysið varð, er ekki unnt að líta svo á að það verði rakið til annars en óhapps, sem áfrýjandi skapaði hættu á með verklagi sínu. Samkvæmt því verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2000.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 11. febrúar 1999, er höfðað fyrir dómþinginu með stefnu áritaðri um móttöku 25. júní 1998.  Málið var þingfest 30. júní 1998.  Málið var dómtekið að aflokinni aðalmeðferð þriðjudaginn 30. nóvember sl.  Það var endurupptekið föstudaginn 11. febrúar sl. og flutt að nýju og það dómtekið sama dag.

Stefnandi er Árni Jakob Hjörleifsson, kt. 111074-4889, Suðurgötu 26, Keflavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Stefnukröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.674.757 krónur með 2% ársvöxtum frá 31. maí 1994 til 28. ágúst 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.650.149 krónur með 2% ársvöxtum frá 31. maí 1994 til 28. ágúst 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.  Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

Í þinghaldi 21. maí 1999 ákvað dómari að ósk aðila að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst yrði dæmt sérstaklega um bótaskyldu aðila, en önnur atriði málsins látin bíða dóms, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Var málið því eingöngu flutt um bótaskyldu aðila.  Dómkröfur aðila í þessum þætti málsins eru eftirfarandi:

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi, íslenska ríkið, sé ábyrgur fyrir greiðslu skaðabóta að fullu til handa stefnanda vegna þess atburðar er hurð í byggingu nr. 743 á Keflavíkurflugvelli lenti á hönd stefnanda að morgni 30. maí 1994.  Enn fremur krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað auk virðisaukaskatts samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.  Til vara krefst stefndi þess að sök aðila verði skipt og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

II.

Málsatvik

Stefnandi hóf störf hjá Sigurjónsbakaríi í Keflavík 15. júní 1993.  Var starf stefnanda m.a. fólgið í því að keyra vörur bakarísins út til viðskiptavina.  Að morgni 30. maí 1994 var stefnandi sem oftar að keyra út vörur þessar og var síðasti áfangastaður hans þann dag mötuneyti varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sem mun vera í byggingu nr. 743.  Stefnandi segir að vörur hafi ætíð verið bornar inn í eldhús mötuneytisins um bakdyr hússins, en þar þurfi að fara í gegnum tvennar dyr, ytri og innri dyr með vængjahurðum, sem opnist út.  Þegar stefnandi hafi komið að dyrunum hafi önnur hurðin í innri dyrunum verið opin og fleygur undir til að halda henni opinni.  Stefnandi kveðst hafa tekið tvær brauðgrindur í fangið og ætlað að bera þær inn.  Hafi hann tyllt grindunum á lær sér, opnað aðra hurðina og reynt að smeygja sér inn.  Þegar hurðin opnaðist hafi myndast mikill gegnumtrekkur, sem hafi orðið þess valdandi að stefnandi hafi ekki getað haldið við hurðina, sem skollið hafi á hægri hönd hans af miklu afli.  Stefnandi kveðst hafa farið rakleiðis til starfsmanns varnarliðsins á skrifstofu mötuneytisins, sem sé í sömu byggingu og tilkynnt honum um atvikið.  Þá hafi mikill fjöldi fólks verið að störfum í mötuneytinu þegar atburðurinn hafi átt sér stað.

Stefnandi kveðst að svo búnu hafa farið niður í Sigurjónsbakarí og ætlað að halda áfram störfum.  Eftir skamma stund hafi þrautir í hendinni orðið svo miklar að stefnandi og yfirmaður hans í bakaríinu, Sigurjón Héðinsson, hafi sammælst um að rétt væri að stefnandi leitaði strax til læknis, enda höndin þá tekin að bólgna mikið.

Samkvæmt vottorði Konráðs Lúðvíkssonar yfirlæknis dags. 30. nóvember 1999 kom stefnandi á slysastofu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja 30. maí 1994 kl. 9.40.  Er þar haft eftir stefnanda að hann hafi verið við vinnu á Keflavíkurflugvelli og verið að bera inn vörur í “messann”, eins og það er orðað í vottorðinu, þegar hann klemmdist á útidyrahurð.  Lagið hafi komið á hægri hönd.  Síðan segir í vottorðinu:  “Við komu hingað er hann töluvert bólginn á handarbaki medialt og kemur í ljós að hann er með fracturu á basis metatarsus V og þetta er comminutbrot þannig að það er tvíbrotið.  Það er svolítil færsla á fragmentinu lateralt.  Ég hringi í Sigurjón vegna gruns um að það þurfi að gera við þetta blóðugt og það er ákveðið að Árni komi fastandi á morgun til aðgerðar.  Hann fær nú spelku sem hann hefur þar til á morgun.”

Þá hefur vottorð Nönnu Kristinsdóttur deildarlæknis dags. 28. maí 1996 verið lagt fram í málinu.  Þar er greint frá því að stefnandi hafi leitað á slysadeild Borgarspítalans 31. maí 1994.  Segir í vottorðinu að fyrr sama dag hafi stefnandi klemmst á hægri hendi er hurð hafi skollið á hann er hann var að bera inn vörur í mötuneyti á Keflavíkurflugvelli.  Síðan segir:  “Kom með rtg.myndir frá Keflavíkurflugvelli með sér og sýndu þær mjög kurlað brot í nærlægu fimmta miðhandarbeini á hægri hendi.  Var með umbúðir á hendinni.  Eðli brotsins vegna var strax ljóst að aðgerð þyrfti að gera á brotinu og var hún sett upp á næstu dögum.”  Þá segir í vottorðinu að stefnandi hafi gengist undir fyrrgreinda aðgerð 2. júní 1994.  Hafi aðgerðin gengið vel, en þó hafi komið í ljós að um fleiri brotflaska var að ræða í brotinu en greina hafi mátt á röntgenmyndum.  Hafi því orðið að pinna brotið saman með vírum, sem þó hafi ekki verið hægt að öllu leyti.  Er stefnandi hafi komið til eftirlits í desember 1994 hafi hann kvartað undan viðvarandi dofa og skyntruflunum á útbreiðslusvæði taugagreina fram í hægri litla fingur.  Hafi stefnandi gengist undir aðgerð 10. febrúar 1995 þar sem taugin fram í handarbakshluta hægri litlafingurs hafi verið saumuð saman.  Er stefnandi hafi komið til eftirlits 21. febrúar 1995 og 14. mars 1995 hafi hann kvartað um að dofatilfinning á handarbaki væri óbreytt.  Hafi stefnandi gengist undir taugarannsókn 19. maí 1995 og í ljós komið að lítil svörun hafi verið í þeirri grein taugarinnar, sem saumuð hefði verið saman 10. febrúar 1995.  Einnig hafi komið í ljós að ekki var eðlileg svörun frá tauginni þumalfingursmegin fram í handarbakið, sem talið var benda til vægrar sköddunar á greininni.

Þá hefur verið lögð fram í málinu örorkumatsgerð Sigurjóns Sigurðssonar læknis dags. 23. maí 1996, en stefnandi óskaði eftir mati hans á afleiðingum slyssins með tilliti til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993.  Mat læknirinn tímabundið atvinnutjón stefnanda skv. 2. gr. skaðabótalaga 100% í þrjá mánuði, varanlega örorku skv. 5. gr. laganna 20% og varanlegan miska skv. 4. gr. laganna 20%.  Þá taldi læknirinn að stefnandi hafi þurft að vera rúmfastur í eina viku og síðan veikur án þess að vera rúmliggjandi í sex vikur, sbr. 3. gr. skaðabótalaganna.  Þá mat læknirinn tímabundna læknisfræðilega örorku stefnanda 100% í þrjá mánuði og varanlega læknisfræðilega örorku hans 20%.

Lögmaður stefnanda ritaði Vinnueftirliti ríkisins bréf 13. ágúst 1996 og óskaði eftir skýrslum um atvikið.  Í svarbréfi Vinnueftirlitsins 15. ágúst 1996 segir að Vinnueftirlitið hafi ekki verið kallað til vegna slyssins og því hafi ekki farið fram rannsókn á slysinu af þess hálfu.  Upplýsingar um slysið, sem fylgdi bréfinu, hefðu borist frá atvinnurekanda.  Sams konar fyrirspurn var beint til lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli 22. ágúst 1996.  Í bréfi 27. ágúst s.á. greinir lögreglustjóri frá því að ekki verði séð samkvæmt dagbók lögreglunnar á slysdegi að lögreglu hefði verið tilkynnt um slysið.  Í stefnu segir, að sams konar staðfesting hafi borist lögmanni stefnanda frá Jakobi G. Kolbeinssyni, “Chief Investigator, NAS Security”, á Keflavíkurflugvelli.

Með bréfi 30. janúar 1997 óskaði lögmaður stefnanda eftir úttekt eftirlitsins á mötuneytishúsinu.  Í svarbréfi Vinnueftirlitsins 16. maí 1997 segir m.a.:

“Um er að ræða tvennar tveggja hurða vængjadyr, ytri og innri og opnast allar hurðarnar (svo) út.  Enginn sjálfvirkur opnunarbúnaður er á dyrunum.  Vökvadælur eru á öllum hurðum, ætlaðar til að koma í veg fyrir að þær skellist harkalega aftur eftir að þær hafa verið opnaðar.  Enginn búnaður er til að halda dyrunum opnum.  Allur dyraumbúnaður er greinilega gamall og nokkuð úr sér genginn.  Vökvadælur eru nú slappar, hurðalamir að losna, hlífðarmálmspjöld að losna og fleira sem þarfnast viðhalds.”

Að ósk skaðabótanefndar samkvæmt lögum nr. 110/1951 rannsakaði lögregla málið.  Í skýrslu lögreglu 25. september 1996 um könnun á vettvangi er haft eftir Indriða Adólfssyni aðalverkstjóra að verulegar lagfæringar hefðu verið gerðar á húsinu fyrir 6 til 8 árum vegna dragsúgs.  Þó kæmi fyrir að verulegur dragsúgur myndaðist í húsinu, aðallega ef opið væri í gegnum húsið eða ef viftur væru búnar að vera í gangi án þess að útihurð væri opin, en mjög lítið væri um glugga á byggingunni.  Við ákveðin skilyrði myndaðist svo sterkur dragsúgur að hurðapumpur réðu ekki við að halda hurðunum.  Í skýrslunni kemur enn fremur fram að lögreglumaðurinn hafi engar festingar séð til að halda umræddri útihurð opinni.  Þá hafi hurðarpumpan verið gömul og ryðguð og mjög slöpp, en ekki vildi viðkomandi lögreglumaður þó fullyrða hvernig pumpan hefði verið tveimur árum fyrr.

Skaðabótanefnd samkvæmt lögum nr. 110/1951 hefur hafnað bótaskyldu vegna ofangreinds líkamstjóns stefnanda.

Við munnlegan málflutning kvað lögmaður stefnanda að ljóst væri með hliðsjón af áverkavottorði Konráðs Lúðvíkssonar læknis, að stefnandi hefði orðið fyrir umræddu slysi 30. maí 1994, en ekki 31. maí 1994 eins og fram kæmi í stefnu.

III.

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi, íslenska ríkið, beri ábyrgð á tjóni hans.  Byggt er á því að dyraumbúnaður mötuneytisins á Keflavíkurflugvelli hafi á slysdegi verið óforsvaranlegur almennt séð, en jafnframt sérstaklega með vísan til þess að staðfest sé að iðulega hafi myndast það sterkur dragsúgur í húsinu að hurðarpumpur hafi ekki haldið hurðum og þær skollið aftur.  Um sé að ræða húsnæði í eigu Bandaríkjahers og ljóst að herinn beri ábyrgð á grundvelli almennu sakarreglunnar eða eftir atvikum reglunnar um húsbóndaábyrgð á saknæmum athöfnum eða athafnaleysi starfsmanna sinna.  Aðild stefnanda að málinu og greiðsluskylda hans byggist á 12. gr. fylgiskjals með lögum nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess.  Vísar stefnandi til þeirra ströngu krafna, sem gerðar séu til umbúnaðar fsteigna og þeirrar ríku ábyrgðar sem eigendur fasteigna beri vegna tjóns sem verði af völdum vanbúnaðar.

Stefnandi telur sýnt að dyraumbúnaður hafi engan veginn verið fullnægjandi miðað við þá viðvarandi hættu, sem ágreiningslaust sé að hafi um árabil verið fyrir hendi í viðkomandi húsnæði af völdum dragsúgs.  Um sé að ræða húsnæði þar sem fjöldi fólks starfar og mikill umgangur sé um.  Ljós sé að slysið hefði aldrei átt sér stað ef forsvaranlegur dyraumbúnaður hefði verið til staðar.

Verði litið svo á að ósannað sé að dyraumbúnaðurinn hafi verið ófullnægjandi á slysdegi byggir stefnandi á því að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að ástand búnaðarins hafi verið annað og betra á slysdegi.  Stefnandi verði ekki látinn bera hallann af því að lögregla og Vinnueftirlit ríkisins hafi ekki verið kölluð á staðinn á slysdegi til skýrslugerðar og rannsóknar á vettvangi.  Í ljósi þess að stefnandi tilkynnti starfsmanni á skrifstofu mötuneytisins strax um atburðinn verði stefndi að bera hallann af sönnunarskorti um þetta atriði í samræmi við dómafordæmi í þá veru.

Við munnlegan málflutning benti lögmaður stefnanda á að stefnandi hefði greint vinnuveitanda sínum frá atvikinu skömmu eftir að hann slasaðist og að getið væri um það í sjúkraskýrslum í Keflavík og Reykjavík hvernig slysið atvikaðist.  Þá benti lögmaðurinn á það að vitni hefði greint frá því fyrir dóminum að stefnandi hefði komið síðar í mötuneytið á Keflavíkurflugvelli með umbúðir um höndina, tilvik eins og stefnandi lýsti væri alls ekki ósennilegt miðað við aðstæður og að framburður stefnanda um slysið hefði alltaf verið á sömu lund.  Með vísan til alls þessa væri komin fram lögfull sönnun þess, að slysið hefði atvikast með þeim hætti, sem stefnandi lýsti.

 

IV.

Málsástæður stefnda

Stefndi telur ósannað að hurð í húsi mötuneytisins á Keflavíkurflugvelli hafi skollið á stefnanda svo sem að ofan greinir og að því hafi valdið dragsúgur í húsinu.  Bendir stefndi á að lýsing stefnanda á tildrögum slyssins sé knöpp og byggi alfarið á frásögn hans sjálfs.  Engin vitni hafi verið að atburðinum og gögnum beri ekki saman um hvenær stefnandi leitaði fyrst læknis vegna handarbrots.

Þá telur stefndi einnig ósannað að dyraumbúnaður mötuneytisins á Keflavíkurflugvelli hafi verið óforsvaranlegur í lok maí 1994 og að ætlað slys stefnanda megi rekja til vanbúnaðar.  Ekki verði lögð bótaábyrgð á stefnda á þeim grundvelli að mötuneytið hafi verið vinnustaður stefnanda, enda hafi svo ekki verið.

Verði talið sannað að dragsúgur hafi valdið því að hurð skall á hönd stefnanda telur stefndi að leggja verði til grundvallar að menn beri það tjón sjálfir sem stafi af óhappi eða tilviljun.  Því sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu að húsið hafi verið vanbúið að þessu leyti.  Upplýst sé að tvennar dyr, ytri og innri dyr, séu á leiðinni inn í húsið bakdyramegin, en það vinni almennt gegn því að gegnumtrekkur myndist.  Engu saknæmu athafnaleysi sé til að dreifa af hálfu starfsmanna varnarliðsins.  Þrátt fyrir skýrslu Vinnueftirlits ríkisins frá 16. maí 1997 sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að dyraumbúnaður hafi verið í slæmu ásigkomulagi í maí 1994 eða að vökvadælur hafi þá verið svo slappar að þær hafi ekki ráðið við gegnumtrekk, hafi þeim yfirleitt verið ætlað það hlutverk.  Ekkert hafi komið fram um það að slappar hurðalamir hafi getað valdið slysinu eða eitthvað það, sem viðhald skorti, við skoðun Vinnueftirlitsins í maí 1997.  Ekkert sé komið fram í málinu um að bygging mötuneytisins hafi verið andstæð byggingalöggjöfinni.  Um áþekkt tilvik máli sínu til stuðnings vísar stefndi til hrd. 1962, bls. 137.

Stefndi mótmælir því að á hann verði lögð sönnunarbyrði um ástand dyrabúnaðar á slysdegi eða um önnur atriði, sem á reynir í málinu.  Samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar beri stefnandi ótvírætt sönnunarbyrði um ætlað tjón, saknæmi starfsmanna varnarliðsins og orsakatengsl.  Stefnanda hafi ekki tekist að sanna framangreint og beri hann sjálfur ábyrgð á því hversu langur tími leið þar til hann gerði reka að skaðabótakröfu sinni.  Starfsmönnum varnarliðsins hafi ekki verið skylt að tilkynna um slys það, sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir.  Í fyrsta lagi sé ekki vitað til þess að stefnandi hafi rætt um slysið við nokkurn mann innan dyra og sé það ósannað.  Að sögn stefnanda hafi hann farið strax af vettvangi og ekki aðhafst neitt vegna meiðsla sinna fyrr en hann var kominn aftur á vinnustað sinn.  Stefndi mótmælir því sem ósönnuðu að starfsmenn í mötuneytinu, verkstjórar eða aðrir hafi vitað eða mátt vita um slys stefnanda.  Sé því ekki vitað til þess að ætluð meiðsl stefnanda eða atburðurinn sjálfur hafi komið nokkrum í mötuneytinu þannig fyrir sjónir að ástæða væri til að kalla til lögreglu, vinnueftirlit eða aðra opinbera aðila.  Á starfsmönnum varnarliðsins hafi ekki hvílt skylda samkvæmt 81. gr. laga nr. 46/1981 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum að tilkynna um ætlað slys stefnanda, heldur á vinnuveitanda hans.  Hafi honum borið að tilkynna um slysið innan sólarhrings.  Það, að vinnuveitandi stefnanda hafi vanrækt að tilkynna um slysið, sé ekki á ábyrgð starfsmanna varnarliðsins eða stefnda.

Til vara kveðst stefndi byggja á því að tjón stefnda sé alfarið að rekja til eigin sakar stefnanda.  Eins og tildrögum slyssins sé lýst í stefnu og sé sú lýsing rétt verði að telja verklag stefnanda mjög varhugavert og andstætt því sem gegn og skynsamur maður hefði aðhafst við sömu aðstæður.  Sé vitaskuld undir hælinn lagt hvort aðferð sú, sem stefnandi viðhafði í umrætt sinn, takist og verði þeir sem þetta reyni að bera tjón sitt sjálfir ef út af bregður.  Stefnanda hefði verið í lófa lagið að setja fleyg undir hurðina eða biðja einhvern um að halda dyrunum opnum á meðan hann bar brauðkörfurnar inn í mötuneytið.  Þá muni stefnandi margoft hafa átt erindi í húsið og því fullkunnugt um hvernig dyrabúnaðinum var háttað og hvernig ástand hans var.  Slysið hefði ekki orðið ef stefnandi hefði sýnt lágmarksaðgæslu.

Þá mótmælir stefndi ætluðu tjóni stefnanda sem ósönnuðu, enda beri læknum og læknisfræðilegum gögnum í málinu ekki saman.  Í samantekt Nönnu Kristinsdóttur, deildarlæknis á bæklunardeild Sjúkrahúss Reykjavíkur frá 28. maí 1996, sé áverkum stefnanda og meðferð lýst.  Komi þar fram að beinbrot stefnanda hafi verið vel gróið 7. júlí 1994, en þó með vægri stallamyndun í liðfleti.  Þá segir að brot þetta ætti ekki að hafa miklar afleiðingar hvað varðar hreyfingu og líðan í hægri hendi.  Í örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar læknis frá 23. maí 1996 segi hins vegar að gert hafi verið að brotinu með aðgerð en það hafi gróið illa, stefnandi sé með skertar hreyfingar í fingrum, skert húðskyn á handarbaki og fram á þrjá fingur, kulvís, með skertan kraft í hendinni og skertar hreyfingar og sársauka í úlnlið.  Í mati Sigurjóns komi fram að hann hafi skoðað stefnanda 17. maí 1996 eða tveimur árum eftir slys.  Stefndi bendir á að í vottorði Nönnu sé ekki skráð að 27. desember 1994 hafi brotið verið illa gróið, en getið um dofa, skyntruflanir og taugahnúð.  Röntgenmyndir hafi sýnt að brotið hefði gróið í óbreyttri legu.  Í febrúar 1995 hafi taug verið saumuð saman og tíu dögum eftir þá aðgerð hafi sárið litið vel út en skyntruflanir einhverjar og dofi í handarbaki.  Með vísan til framangreinds sé ljóst að mikils ósamræmis gæti í niðurstöðu örorkumats Sigurjóns Sigurðssonar og samantekt Nönnu Kristinsdóttur.  Líklegra sé því en ella að ástand stefnanda eins og því sé lýst í matsgerð Sigurjóns stafi af öðrum ástæðum en þeim atburði, sem stefnandi kveður hafa átt sér stað í lok maí 1994.  Gera verði ráð fyrir því að 7. júlí 1994 eða rúmlega sex vikum eftir slys hafi mátt sjá hvort brotið var vel gróið eður ei.

V.

Niðurstaða

Svo sem fyrr greinir kveðst stefnandi hafa orðið fyrir slysi að morgni 30. maí 1994 er hann var að bera vörur inn í mötuneyti varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.  Hafi slysið orðið með þeim hætti að útihurð á mötuneytinu hafi skollið á hægri hönd hans af miklu afli vegna gegnumtrekks, sem myndast hafi er hann reyndi að opna dyrnar og smeygja sér inn.  Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé ábyrgur fyrir greiðslu skaðabóta að til handa stefnanda vegna þessa atburðar.

Stefndi telur ósannað að fyrrnefnd hurð hafi skollið á stefnanda svo sem að ofan greinir og að því hafi valdið dragsúgur í húsinu.  Þá telur stefndi einnig ósannað að dyraumbúnaður mötuneytisins á Keflavíkurflugvelli hafi verið óforsvaranlegur í lok maí 1994 og að ætlað slys stefnanda megi rekja til vanbúnaðar.

Í læknisvottorði 30. nóvember 1999 segir að stefnandi hafi komið á slysastofu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja 30. maí 1994 kl. 9.40.  Í vottorðinu segir að stefnandi hafi verið við vinnu á Keflavíkurflugvelli og verið að bera vörur inn í “messann” og klemmst á útidyrahurð.  Lagið hafi komið á hægri hönd.  Í læknisvottorði 28. maí 1996 segir að stefnandi hafi leitað á slysadeild Borgarspítalans 31. maí 1994.  Þar segir að stefnandi hafi fyrr sama dag klemmst á hægri hendi er hurð hafi skollið á hann er hann var að bera vörur inn í mötuneyti á Keflavíkurflugvelli.  Þá hefur þáverandi vinnuveitandi stefnanda borið hér fyrir dómi að stefnandi hafi greint sér frá því skömmu eftir að hann slasaðist að fyrrnefnd hurð hefði skollið á hönd hans og kvaðst vitnið hafa ráðlagt stefnanda að leita strax til læknis.

Engin vitni urðu að óhappi stefnanda.  Stefnandi kveðst hafa skýrt amerískum starfsmanni, sem verið hafi einn á skrifstofu mötuneytisins, frá slysinu.  Stefnandi kveðst engin deili vita á starfsmanni þessum og ekkert mun hafa fundist í gögnum varnarliðsins, sem bendir til þess að tilkynnt hafi verið um slysið.  Kveður stefnandi mikinn fjölda fólks hafa verið að störfum í mötuneytinu þegar atburðurinn átti sér stað.  Þó kveðst stefnandi hafa farið af vettvangi án þess að skýra fleirum frá slysinu en fyrrgreindum starfsmanni á skrifstofu mötuneytisins.  Með hliðsjón af framangreindu verður að telja ósannað að stefnandi hafi tilkynnt starfsmanni varnarliðsins um slysið í greint sinn.  Einnig verður að telja ósannað að starfsmenn mötuneytisins hafi vitað eða mátt vita af slysinu.  Stefnandi heldur því ekki fram í málinu að hann hafi tilkynnt starfsmönnum varnarliðsins um slysið síðar.  Fram kemur í skýrslu, sem vinnuveitandi stefnanda gaf hjá lögreglu 24. september 1996, að hann hafi bent stefnanda á að skýra Indriða Adólfssyni yfirverkstjóra í mötuneyti varnarliðsins frá óhappinu.  Sjálfur hafi hann haft í hyggju að tilkynna Indriða um slysið en gleymt því.

Fyrir liggur að stefnda var ekki tilkynnt um atburðinn fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda 9. september 1996 og stefnandi gaf fyrst skýrslu um atvikið hjá lögreglu 23. september sama ár.  Voru þá liðin rúm tvö ár frá því stefnandi kveður atvikið hafa borið að höndum.  Frásögn stefnanda um slysið fær ekki stuðning í öðrum gögnum málsins en þeim, sem að framan greinir.

Í ljósi þess, sem að framan er rakið, verður ekki talið sannað gegn eindregnum mótmælum stefnda að stefnandi hafi hlotið meiðsl sín með þeim hætti, sem hann heldur fram í málinu.  Þegar af þeirri ástæðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Dóminn kvað upp Ragnheiður Bragadóttir, settur héraðsdómari.  Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Árna Jakobs Hjörleifssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.