Hæstiréttur íslands

Mál nr. 133/2009


Lykilorð

  • Lífeyrissjóður


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. nóvember 2009.

Nr. 133/2009.

Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar

(Anton B. Markússon hrl.)

gegn

Jóhönnu Guðbjörgu Bjarnadóttur

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

 

Lífeyrissjóður.

J starfaði sem leikskólastjóri hjá R og greiddi iðgjöld til L frá 1959. Hún lét af störfum og sótti um ellilífeyri hjá L í júlí 2002. Í samþykktum sjóðsins frá 2001 er gert ráð fyrir að um breytingar á fjárhæð lífeyris sjóðfélaga skuli farið eftir meðaltalsreglunni, það er breytingar skuli ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu samkvæmt launavísitölu. Samkvæmt samþykktunum geta þó sjóðfélagar, sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi, valið eftirmannsregluna, það er að fjárhæð lífeyris fylgi breytingum sem verða á launum fyrir það starf sem þeir gegndu síðast. Sjóðfélagar verða að taka ákvörðun um að velja þennan kost í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að greiðsla lífeyris hefst. Með bréfi 23. júlí 2002 var J tilkynnt að hún ætti rétt á ellilífeyri sem tæki mánaðarlegum breytingum samkvæmt launavísitölu fastra launa opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Ef hún óskaði eftir því að lífeyrisgreiðslur tækju breytingum eftir eftirmannsreglunni bæri henni að senda meðfylgjandi bréf aftur til sjóðsins innan þriggja mánaða. Í meðfylgjandi bréfi voru kynntar þær tvær leiðir sem í boði væru og var jafnframt tekið fram að til lengri tíma litið ættu þessar leiðir að vera jafnverðmætar fyrir sjóðfélaga. J óskaði ekki eftir því innan tilskilins frests að eftirmannsreglunni yrði fylgt varðandi ellilífeyri hennar og tók hann breytingum samkvæmt meðaltalsreglunni. J leitaði til starfsmanns L í september 2005 með ósk um að ellilífeyrir hennar tæki breytingum eftir eftirmannsreglunni eftir umfjöllun í stjórn L um samsvarandi beiðni frá öðrum sjóðfélaga, sem áður hafði gegnt hliðstæðu starfi við J. Stjórn L hafnaði erindi hennar endanlega á fundi 27. maí 2008. J höfðaði mál og krafðist þess að ákvörðun L um að ellilífeyrir hennar skyldi taka breytingum eftir meðaltalsreglunni væri ógild. Talið var að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 286/2007 hefði því verið slegið föstu að gera yrði ríkar kröfur til þess að lífeyrissjóðir veiti sjóðfélögum sínum ráðgjöf og tryggi að þeir hafi lágmarksupplýsingar til að geta tekið ákvörðun um þá kosti sem þeim standi til boða. Þá var ennfremur talið að ljóst væri að í mörgum tilvikum gæti L eingöngu gefið almennar upplýsingar um kosti og galla tveggja viðmiðana sem í boði væru því erfitt væri að ætla hver launaþróun yrði varðandi einstök störf. Í máli þessu lægi hins vegar fyrir að í tengslum við gerð samnings um breytingar á kjarasamningi yrði föst yfirvinna leikskólastjóra að hluta til færð inn í föst dagvinnulaun og launaflokkum endurraðað til samræmis. Um þetta hefði L mátt vera kunnugt. Þar sem þessar upplýsingar hefðu getað skipt verulegu máli fyrir val J yrði að telja að því færi fjarri að L hefði fullnægt skyldu sinni til upplýsingagjafar með bréfi sínu 23. júlí 2002. Var krafa J tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2009. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í grein 12.4 í samþykktum áfrýjanda frá 30. nóvember 2001 er mælt svo fyrir að eftir að sjóðfélagi byrjar að taka lífeyri úr sjóðnum skulu breytingar á fjárhæð hans ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar, sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands. Eftir gögnum, sem stafa frá áfrýjanda, hefur þetta verið nefnt meðaltalsreglan. Samkvæmt grein 12.8 í samþykktunum geta þó sjóðfélagar, sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi, í stað meðaltalsreglunnar valið að fjárhæð hans fylgi breytingum, sem verða á launum fyrir það starf sem þeir gegndu síðast. Þetta hefur verið nefnd eftirmannsreglan, en samkvæmt síðastnefndu ákvæði samþykkta áfrýjanda verður sjóðfélagi að taka ákvörðun um að velja þennan kost í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að greiðsla lífeyris hefst. Í máli þessu krefst stefnda þess að viðurkennt verði að ákvörðun áfrýjanda frá 23. júlí 2002 um að ellilífeyrir hennar skuli taka breytingum eftir meðaltalsreglunni sé ógild.

Samkvæmt gögnum málsins starfaði stefnda sem leikskólastjóri hjá Reykjavíkurborg og greiddi iðgjöld til áfrýjanda frá 1959. Hún lét af störfum 15. júlí 2002 og sótti um ellilífeyri hjá áfrýjanda 8. sama mánaðar. Á eyðublaði, sem stefnda fyllti út í þessu skyni, var ekki gert ráð fyrir að valið væri milli meðaltalsreglu og eftirmannsreglu. Með bréfi 23. júlí 2002 tilkynnti áfrýjandi stefndu að hún ætti rétt á ellilífeyri, sem næmi 79.67% af föstum launum og tæki upp frá því mánaðarlegum breytingum samkvæmt launavísitölu fastra launa opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Síðan sagði í bréfinu: „Ef þess er óskað að um ellilífeyri fastra launa fari skv. eftirmannsreglu sjóðsins vinsamlega endursendu meðfylgjandi bréf til lífeyrissjóðsins innan 3ja mánaða.“ Loks var tekið fram að ellilífeyrir greiddist frá 15. júlí 2002. Það skjal sem vísað var til í bréfinu er eyðublað fyrir svarbréf stefndu til sjóðsins dagsett 22. júlí 2002. Texti þess er svohljóðandi: „Þar sem þú ert nú að hefja töku lífeyris úr Lífeyrisjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar er athygli þín vakin á því að samkvæmt samþykktum sjóðsins geta lífeyrissjóðsgreiðslur þínar tekið breytingum með tvennum hætti: Hið sjálfgefna er að lífeyrisgreiðslur taki sömu breytingum og verða að meðaltali á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Þessi leið hefur verið nefnd meðaltalsregla. Önnur leið er að þær fylgi föstum dagvinnulaunum sem greidd eru fyrir það starf sem þú vannst síðast eða eftir atvikum vegna 10 ára í hærra launuðu starfi. Þessi leið hefur verið nefnd eftirmannsregla. Það skal tekið fram að til lengri tíma litið eiga þessar leiðir að vera jafnverðmætar fyrir sjóðfélaga. Óskir þú eftir að með lífeyrisgreiðslur þínar fari samkvæmt eftirmannsreglu þá vinsamlega sendið bréf þetta aftur til sjóðsins innan 3ja mánaða. Sé það ekki gert verður litið svo á að óskað sé óbreytts fyrirkomulags greiðslu og er ekki hægt að óska breytinga á viðmiði eftir þann tíma.“ Neðst á eyðublaðinu var ráðgert að stefnda gæti dagsett og undirritað ósk um að greiðsla lífeyris fylgdi eftirmannsreglu, en að endingu var tekið fram að væri frekari upplýsinga óskað væri stefndu velkomið að hafa samband við starfsmenn áfrýjanda í tilgreindu símanúmeri. Ekki er ágreiningur um að stefndu hafi borist þessi gögn. Stefnda óskaði ekki eftir því innan tilskilins frests að eftirmannsreglunni yrði fylgt varðandi ellilífeyri hennar og tók hann breytingum samkvæmt meðaltalsreglunni.

Fyrir liggur að stefnda leitaði til starfsmanns áfrýjanda í september 2005 með ósk um að ellilífeyrir hennar tæki breytingum eftir eftirmannsreglunni, en tilefni þessa mun hafa verið umfjöllun í stjórn áfrýjanda um samsvarandi beiðni frá öðrum sjóðfélaga, sem áður hafði gegnt hliðstæðu starfi við stefndu. Dómur Hæstaréttar í máli þess sjóðfélaga á hendur áfrýjanda nr. 286/2007 féll 17. janúar 2008 og í framhaldi af því óskaði stefnda 18. febrúar sama ár skriflega eftir „leiðréttingu á lífeyrisgreiðslum“ til sín á grundvelli niðurstöðu þess máls. Því erindi hafnaði áfrýjandi 1. apríl 2008. Eftir ítrekun stefndu var henni tilkynnt 25. júní 2008 að stjórn áfrýjanda hefði endanlega hafnað erindi hennar á fundi 27. maí sama ár.

II

Með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 286/2007 var því slegið föstu að samkvæmt grunnrökum að baki 5. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. 6. gr. laga nr. 56/2000, yrði að gera ríkar kröfur til þess að lífeyrissjóðir veiti sjóðfélögum sínum ráðgjöf og tryggi að þeir hafi lágmarksupplýsingar til að geta tekið ákvörðun um þá kosti sem þeim standi til boða, ekki aðeins varðandi ávöxtun lífeyrisiðgjalda og ávinnslu lífeyrisréttinda heldur einnig ella þar sem val milli fleiri en eins kosts getur skipt máli fjárhagslega fyrir sjóðfélaga. Ljóst er að í mörgum tilvikum er erfitt að ætla hver launaþróun verður varðandi einstök störf og því ekki hægt um vik fyrir áfrýjanda að gefa meira en almennar upplýsingar um kosti og galla framangreindra tveggja viðmiðana sem í boði eru fyrir þá sem eru að hefja töku lífeyris. Í máli þessu liggur hins vegar fyrir að í tengslum við gerð samnings um breytingar á kjarasamningi milli Launanefndar sveitarfélaga og Félags íslenskra leikskólakennara gaf Reykjavíkurborg yfirlýsingu 24. janúar 2001 um að hún myndi „færa fasta yfirvinnutíma leikskólastjóra að hluta til inn í föst dagvinnulaun og endurraða þeim í launaflokka til samræmis“. Um þetta hlýtur áfrýjanda að minnsta kosti að hafa mátt vera kunnugt. Í skýrslu fyrir héraðsdómi greindi formaður Kennarasambands Íslands frá því að sú kerfisbreyting að færa fasta yfirvinnu inn í grunnlaun hefði gerst í áföngum hjá skólastjórum grunnskóla frá 1998 til 2001, en hjá leikskólastjórum frá 2001 til 2005. Í fyrrgreindu ákvæði laga nr. 129/1997 er tekið fram að þess skuli gætt að ráðgjöf sé sett fram á hlutlægan og faglegan hátt og taki mið af hagsmunum hvers sjóðfélaga. Í ljósi þess og þar sem upplýsingar um framangreind atriði gátu skipt verulegu máli fyrir val stefndu verður að telja að því fari fjarri að áfrýjandi hafi fullnægt skyldu sinni til upplýsingagjafar með hinu stutta og mjög svo almennt orðaða bréfi sem stefndu var sent 23. júlí 2002 og að framan er lýst. Samkvæmt því og þar sem ekki verður fallist á að stefnda hafi fyrirgert rétti sínum með tómlæti verður héraðsdómur staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar, greiði stefndu, Jóhönnu Guðbjörgu Bjarnadóttur, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2009.

                Mál þetta höfðaði Jóhanna Guðbjörg Bjarnadóttir, Efstalandi 10, Reykjavík, með stefnu birtri 21. júlí 2008 á hendur Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar, Vegmúla 2, Reykjavík.  Málið var dómtekið 5. janúar sl. 

                Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að sú ákvörðun stefnda þann 23. júlí 2002 að greiða stefnanda ellilífeyri samkvæmt meðaltalsreglu gr. 12.4 í samþykktum sjóðsins sé ógild.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins. 

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. 

                Stefnandi var leikskólastjóri hjá Reykjavíkurborg og greiddi iðgjöld til stefnda frá árinu 1959.  Hún lét af störfum 15. júlí 2002 og hóf töku lífeyris hjá stefnda. 

                Um það leyti er stefnandi lét af störfum ritaði hún umsókn um ellilífeyri á eyðublað ætlað stefnda og tveimur öðrum sjóðum.  Í eyðublaði þessu er ekki vikið að valkostum um ákvörðun lífeyrisins. 

                Stefndi sendi stefnanda bréf dags. 22. júlí 2002.  Þar segir:

                ... er athygli þín vakin á því að samkvæmt samþykktum sjóðsins geta lífeyris­sjóðsgreiðslur þínar tekið breytingum með tvennum hætti:

                Hið sjálfgefna er að lífeyrisgreiðslur taki sömu breytingum og verða að meðal­tali á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu.  Þessi leið hefur verið nefnd meðaltalsregla. 

                Önnur leið er að þær fylgi föstum dagvinnulaunum sem greidd eru fyrir það starf sem þú vannst síðast eða eftir atvikum vegna 10 ára í hærra launuðu starfi.  Þessi leið hefur verið nefnd eftirmannsregla. 

                Það skal tekið fram að til lengri tíma litið eiga þessar leiðir að vera jafn­verðmætar fyrir sjóðfélaga. 

                Óskir þú eftir að með lífeyrisgreiðslur þínar fari samkvæmt eftirmannsreglu þá vinsamlega sendið bréf þetta aftur til sjóðsins innan 3ja mánaða.  Sé það ekki gert verður litið svo á að óskað sé óbreytts fyrirkomulags greiðslu og er ekki hægt að óska breytinga á viðmiði eftir þann tíma. 

                ...  Ef þú óskar frekari upplýsinga er þér velkomið að hafa samband við starfs­menn sjóðsins sími 5-400-700.

                Þær reglur um ákvörðun lífeyris sem vísað er til í bréfinu er að finna í greinum 12.4 og 12.8 í samþykktum stefnda.  Þarf ekki að skýra muninn á þessum tveimur reglum frekar. 

                Stefnandi staðfesti fyrir dómi að hún hefði fengið framangreint bréf.  Hún kvaðst hafa kynnt sér það, en vegna þess sem þar kom fram um að leiðirnar væru jafn­verðmætar, hefði hún talið að þetta skipti ekki máli fyrir hana.  Hún hefði ekki fengið neinar aðrar leiðbeiningar.  Hún kvaðst hafa komist að því á fundi vorið 2005 að yfir­vinna hefði verið færð inn í laun leikskólakennara og þá séð að eftirmannsreglan hefði verið hagstæðari fyrir hana. 

                Fram kom í skýrslum stefnanda og Arents Claessen, sviðsstjóra réttindamála hjá stefnda, að þau hefðu rætt um lífeyri stefnanda um haustið 2005.  Þá hefði hann sagt henni frá því að mál annars leikskólastjóra væri til umfjöllunar í stjórn stefnda.  Kvaðst stefnandi hafa talið að afgreiðsla þess máls ætti að verða fordæmi um sitt mál.  Arent staðfesti að stefnandi hefði haft samband við hann er dómur lá fyrir í máli þessa sjóðfélaga, en um er að ræða mál Soffíu Zophoníasdóttur, hæstaréttarmál nr. 286/2007. 

                Arent Claessen sagði að sér hefði ekki verið kunnugt um það á árinu 2002 að fyrirhugað hefði verið að færa yfirvinnu inn í föst laun.  Hann sagði að fram til 2005 hefði meðaltalsreglan skilað stefnanda meiri hækkunum en eftirmannsregla. 

                Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, gaf skýrslu við aðal­meðferð málsins.  Fram kom hjá honum að fyrsti vísir að því að færa yfirvinnu starfs­manna leikskóla inn í föst laun hefði komið fram með yfirlýsingu með kjarasamningi 2001.  Þeirri breytingu hefði verið lokið hjá öllum kennurum á árinu 2005. 

                Í stefnu er skorað á stefnanda að leggja fram útreikning á ellilífeyri stefnanda miðað við annars vegar eftirmannsreglu og hins vegar meðaltalsreglu.  Þessari áskorun sinnti stefndi ekki. 

                Frammi liggja afrit tölvupóstskeyta er gengu á milli stefnanda og Arents Claessen vorið 2008.  Má sjá að stefnandi bendir á í skeyti að fallinn sé dómur í áður­nefndu máli og spyr hvort vænta megi leiðréttingar á greiðslum til sín.  Þetta erindi ítrekaði stefnandi einu sinni, en var þá svarað fljótt og tilkynnt að ekki væri unnt að leiðrétta lífeyri hennar til samræmis við eftirmannsreglu. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi segir að stefndi sé lífeyrissjóður og að honum sé falið að ávaxta sem best þá fjármuni sem í hann eru lagðir, til þess að sjóðfélagar fái sem hæstan lífeyri.  Liður í þessari skyldu sé að veita sjóðfélögum þá faglegu ráðgjöf er þeir eigi rétt á, þannig að þeir njóti bestu mögulegu réttinda. 

                Stefnandi segir að á þeim tíma er hún hóf töku lífeyris hafi legið fyrir að föst yfirvinna leikskólastjóra hjá Reykjavíkurborg yrði færð inn í grunnlaun þeirra.  Þannig myndu föst laun eftirmanns stefnanda hækka meira en meðallaun og lífeyrir þar með.  Þetta telur stefnandi að starfsmenn stefnda hafi vitað.  Þeir hafi hins vegar ekki gert henni grein fyrir þessu og skýrt þann mikla mun er yrði á lífeyri hennar eftir því hvora regluna hún veldi.  Mikill aðstöðumunur hafi verið með aðilum. 

                Stefnandi vísar til grunnraka 5. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 6. gr. laga nr. 56/2000.  Sérfróðum starfsmönnum stefnda hafi borið að leiðbeina henni á hlut­lægan hátt.  Styður hún mál sitt hér við fordæmi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 286/2007.  Hún telur að stefnda hafi borið að kalla eftir upplýstri ákvörðun hennar í því vali er hún stóð frammi fyrir.  Sjálfvirkt val samkvæmt gr. 12.4, sbr. gr. 12.8, standist ekki þær kröfur sem gerðar séu í áðurnefndri 5. gr. 34. gr. laga nr. 129/1997.  Hún bendir á að umsóknareyðublað stefnda hafi ekki upplýst um þá valmöguleika sem umsækjendur stóðu frammi fyrir. 

                Stefnandi byggir á því að samkvæmt 4. mgr. 18. gr. laga nr. 129/1997 eigi sjóðfélagi rétt á því að lífeyrissjóður rökstyðji ákvörðun um réttindi viðkomandi.  Val um launaviðmiðun sé slík ákvörðun enda íþyngjandi.  Hafi stefnda borið að veita henni kost á rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun að greiða lífeyri samkvæmt gr. 12.4 í samþykktum stefnda. 

                Stefnandi byggir á því að skylduaðild að lífeyrissjóðum felli þá skyldu á sjóðina að veita sjóðfélögum faglega og hlutlæga ráðgjöf.  Hafi borið að setja ákvæði um upplýsingaskyldu í samþykktir stefnda, sbr. 11. tl. 27. gr. laga nr. 129/1997. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi kveðst telja sig hafa farið eftir lögum og samþykktum sínum er lífeyrir stefnanda var ákveðinn. 

                Stefndi bendir á að meginregla um launaviðmiðun lífeyris komi fram í gr. 12.4, svonefnd meðaltalsregla.  Eina undantekningu sé að finna, í gr. 12.8 sé mælt fyrir um svonefnda eftirmannsreglu.  Ákvörðun um hvor reglan er valin skuli tilkynna eigi síðar en þremur mánuðum eftir að taka lífeyris hefst.  Strangar formreglur gildi í tengslum við þetta val.  Sé þetta enda mikilvæg ákvörðun. 

                Stefndi segir að þessi framgangsmáti sem viðhafður sé byggist á málefnalegum sjónarmiðum.  Er sjóðfélagar hefji töku lífeyris séu þeir upplýstir bréflega um þær reglur sem gildi um lífeyrisgreiðslurnar og muninn á þeim.  Hér sé eðli máls samkvæmt um almenna upplýsingagjöf að ræða án nokkurra skuldbindinga eða loforða. 

                Stefndi segir að eins hafi verið farið með mál stefnanda og allra annarra sjóð­félaga.  Henni hafi verið gefinn kostur á að breyta fyrirkomulagi lífeyrisgreiðslnanna.  Það hafi hún ekki gert. 

                Þá byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé niður fallin fyrir tómlæti.  Fyrsta lífeyrisgreiðsla hafi verið greidd í byrjun ágúst 2002.  Hún hafi allt til ársins 2005, í rúmlega þrjú ár, tekið athugasemdalaust við greiðslum. 

                Stefndi mótmælir því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 286/2007 hafi fordæmis­gildi hér.  Atvik séu ekki sambærileg.  Þá mótmælir stefndi því að hann hafi ekki upp­fyllt þær skyldur er hann beri samkvæmt 5. gr. 34. gr. laga nr. 129/1997.  Loks mótmælir stefndi því að honum hafi borið að leita eftir upplýstu samþykki stefnanda við val á viðmiðun. 

                Forsendur og niðurstaða

                Stefnandi krefst í málinu viðurkenningar á að tilgreind ákvörðun stefnda sé ógild.  Nánar er það ákvörðun um hvernig lífeyrir stefnanda var ákveðinn og hvernig reikna skyldi breytingar á honum.  Er hér byggt á því að unnt var að ákveða tvær ólíkar aðferðir, sem kunna að leiða til ólíkrar niðurstöðu.  Krafan er nægilega skýrt af­mörkuð til að leyst verði úr henni og ekki er umdeilt að stefnandi hefur fjárhagslega hagsmuni af úrslitum málsins.  Er henni heimilt að höfða mál þetta sem viður­kenningarmál samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. 

                Eins og að framan greinir var fjallað um stöðu annars sjóðfélaga hjá stefnda í dómi Hæstaréttar 17. janúar 2008, í máli nr. 286/2007.  Þar er skýrð 5. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 6. gr. laga nr. 56/2000, en stefnandi byggir í þessu máli mjög á þessu ákvæði.  Ákvæðið lýtur samkvæmt orðanna hljóðan einungis að þeim tilvikum að sjóður býður upp á val varðandi ávöxtun iðgjalda og ávinnslu réttinda.  Hæstiréttur segir hins vegar:  „Samkvæmt grunnrökum að baki [ákvæðinu] verður að gera ríkar kröfur til þess að lífeyrissjóðir veiti sjóðfélögum sínum ráðgjöf og tryggi að þeir hafi lágmarksupplýsingar til þess að geta tekið ákvörðun um þá valkosti sem þeim standa til boða, ekki aðeins varðandi ávöxtun lífeyrisiðgjalda og ávinnslu lífeyrisréttinda heldur einnig ella þar sem val milli fleiri en eins kosts getur skipt máli fjárhagslega fyrir sjóðfélaga.“ 

                Dómurinn er bundinn af þessu fordæmi Hæstaréttar.  Að sönnu eru atvik í þessum tveimur málum ekki alls kostar sambærileg, en þessi lögskýring á við í þessu máli jafnt og í því sem dæmt var. 

                Samkvæmt þessu bar stefnda að veita stefnanda ráð og leiðbeiningar um þá valkosti sem hún stóð frammi fyrir á árinu 2002.  Þetta val er ekki einfalt og þær skýringar sem fram koma í bréfi stefnda frá 22. júlí 2002 fela ekki í sér neins konar ráðgjöf.  Þá er sú fullyrðing sem þar kemur fram um að leiðirnar séu til lengri tíma litið jafnverðmætar í það minnsta ónákvæm.  Þá getur staðlað bréf ekki komið í stað þeirrar einstaklingsbundnu ráðgjafar sem ákvæðið mælir fyrir um. 

                Samkvæmt þessu hefur stefnandi ekki notið þeirra leiðbeininga af hálfu stefnda er hún átti rétt á og var forsenda þess að hún gæti tekið upplýsta ákvörðun um mikilvægt atriði varðandi lífeyrisréttindi sín.  Ekki er sýnt fram á að stefnandi hafi öðlast vitneskju um þau atriði sem stefnda bar að leiðbeina henni um, fyrr en á árinu 2005.  Hófst hún þá handa um að kanna réttarstöðu sína.  Hefur hún ekki sýnt af sér tómlæti um réttindi sín.  Verður að meta ákvörðun um að reikna lífeyri stefnanda miðað við meðaltalsreglu ógilda. 

                Stefnda verður gert að greiða stefnanda málskostnað sem að teknu tilliti til virðisaukaskatts er ákveðinn 600.000 krónur. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Ákvörðun stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, þann 23. júlí 2002 um að greiða stefnanda, Jóhönnu Guðbjörgu Bjarnadóttur, ellilífeyri samkvæmt meðaltalsreglu gr. 12.4 í samþykktum sjóðsins er ógild. 

                Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.