Hæstiréttur íslands

Mál nr. 646/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Mánudaginn 18

 

Mánudaginn 18. desember 2006.

Nr. 646/2006.

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Eiríksson hdl.)

 

Kærumál. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur

úr gildi.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var felldur úr gildi, þar sem ekki þótti liggja fyrir með nægjanlegri vissu að brotastarfsemi hans hefði að undanförnu verið með þeim hætti að fullnægt væri skilyrðum ákvæðisins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. desember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. janúar 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið með nægjanlegri vissu að ætluð brotastarfsemi varnaraðila hafi að undanförnu verið með þeim hætti að fullnægt sé skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ber því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. desember 2006.

Lögreglustjórinn í Hafnarfirði hefur krafist þess með skírskotun til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði, að X, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. janúar 2007 kl. 16.00.

Kærði mótmælir framkominni kröfu en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjórans í Hafnarfirði kemur fram að kærði hafi viðurkennt í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa, í samvinnu við annan mann, þann 23. nóvember 2006 spennt upp stormjárn á glugga að [...], og í kjölfarið farið inn í íbúðarhúsnæðið og tekið þaðan á brott með sér mikinn fjölda húsmuna. (mál 10-2006-59680)

 Þá leiki sterkur grunur um að kærði hafi átt aðild að eftirtöldum málum;

1.       Þann 21. nóvember sl. tekið ófrjálsri hendi fartölvutösku með fartölvu af gerðinni ASUS A6000 úr stigagangi að [...] , samtals mun að verðmæti kr. 120.000. (mál 10-2006-59199)

2.       Þann 23. nóvember sl. brotið rúðu í versluninni [...],og í kjölfarið farið í heimildarleysi inn í verslunina og tekið þaðan ófrjálsri hendi muni, samtals að áætluðu verðmæti kr. 358.900. (mál 10-2006-59591)

3.       Þann 23. nóvember sl. brotið upp stormjárn á glugga að [...], og í kjölfarið farið inn í íbúðarhúsnæðið og tekið þaðan á brott með sér mikinn fjölda húsmuna. (mál 10-2006-59702)

4.       Þann 10. desember sl., mögulega í samvinnu við annan aðila, brotist inn í félagsheimili golfklúbbs [...] með því að brjóta rúðu í hurð og í kjölfarið farið í heimildarleysi inn í húsnæðið og tekið þaðan ófrjálsri hendi Panasonic 42” flatskjá. (mál 36-2006-14420)

5.       Aðfararnótt 11. desember sl. farið í heimildarleysi inn í bílskúr að [...], mögulega í samvinnu við annan mann. (mál 36-2006-14443)

6.       Aðfararnótt 11. desember sl. farið í heimildarleysi inn í bifreiðina [...] þar sem hún stóð utan við Mjósund 10, Hafnarfirði, og tekið þaðan ófrjálsri hendi veski auk þess að vinna skemmdir á mælaborði.

 

     Ljóst þyki að brýn hætta sé á að kærði muni halda áfram brotum gangi hann laus, en brot þau sem kærði er grunaður um að hafa framið, varða flest við ákvæði 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er meðfylgjandi nýuppkveðinn dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðinn 6. desember sl. þar sem kærði var dæmdur til 3 ára fangelsisvistar fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fyrir liggur að kærði er í mikilli fíkniefnaneyslu og virðist á undanförnum misserum hafa fjármagnað neyslu sína með þjófnuðum.  Það er mat lögreglustjóra að þegar hafi sýnt sig að brýn hætta er á að kærði haldi áfram afbrotum meðan málum hans er ólokið fyrir dómi.

Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna, sem og þeirra almanna- og einstaklingsbundnu hagsmuna sem fyrir hendi eru, c-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, er þess krafist að fallist verði á hina umkröfðu gæslu.

 

Fyrir liggur að kærði var dæmdur í 3 ára fangelsi þann 6. desember sl. fyrir rán. Í dómnum er sakaferill kærða rakinn allt til dóms frá 2. desember 2003 er hann var 15. ára gamall. Var refsingu fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar þá frestað skilorðsbundið í 2 ár. Þann 14. maí 2004 var hann dæmdur í 7 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár fyrir rán og þjófnað. Þá var hann dæmdur í 8 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár þann 27. júní 2005 og fyrri dómurinn dæmdur upp. Loks segir að hann hafi með dómi þann 13. febrúar 2006 hlotið 3 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir nytjastuld og þjófnað. Í framburði kærða í rannsóknargögnum segir að hann hafi þar til fyrir einum til einum og hálfum mánuði síðan verið í bullandi fíkniefnaneyslu og neytt allra fíkniefna sem í boði voru þar á meðal amfetamíns og kókaíns o.fl. Ekki þykir frásögn kærða um að hann hafi ekki neytt fíkniefni undanfarið trúverðug. Segir í skýrslu sem tekin var af honum í gær að hann hafi verið í annarlegu ástandi og ekki getað gert grein fyrir ferðum sínum. Í fyrirliggjandi rannsóknargögnum eru sterkar vísbendingar um þátttöku hans í þeim brotum sem tilgreind eru í gæsluvarðhaldskröfunni sem hann hefur neitað aðild að. Kærði hefur viðurkennt fyrir lögreglu að hafa áður fjámagnað fíkniefnaneyslu sína með innbrotum og þjófnuðum og sagt að hann væri ónýtur vegna langvarandi fíkniefnaneyslu.

Þegar allt er virt sem nú hefur verið rakið þykir dómara einsýnt að þeirri brotahrinu sem sterkar vísbendingar eru um að tengist sífelldri brotastarfsemi kærða til þess að fjármagna fíkniefnaneyslu sína muni ekki linna án þess að tekið sé í taumana. Þegar til þess er litið og fyrri sakaferils þykja skilyrði c- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir því að kærði verði látinn sæta gæsluvarðhaldi meðan málum þeim sem honum tengjast er ekki lokið vera uppfyllt. Mikilvægt er að hraða rannsókn mála hans sem vissulega eru nokkuð á veg komin samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans í Hafnarfirði um að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 103. gr. laga um meðferð opinberra mála til fimmtudagsins 4. janúar nk. kl. 16.00.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

 

ÚRSKURÐUR

X, [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. janúar 2007 kl. 16:00.