Hæstiréttur íslands

Mál nr. 235/2014


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Gengistrygging


                                     

Fimmtudaginn 11. desember 2014.

Nr. 235/2014.

 

Hilda ehf.

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.)

gegn

Magnúsi og Steingrími ehf.

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

og gagnsök

 

Lánssamningur. Gengistrygging.

Talið var að lánssamningur milli M ehf. og SR, sem H ehf. rakti rétt sinn til, væri um skuldbindingu í erlendum myntum, einkum að virtri fyrirsögn samningsins og því hvernig lánsfjárhæð samkvæmt honum var tilgreind í erlendum gjaldmiðlum. Var því tekin til greina krafa H ehf. um heimtu skuldar samkvæmt samningnum úr hendi M ehf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2014. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér aðallega 137.627.184 krónur, en til vara 70.624.486 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. maí 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 16. júní 2014. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en upphafsdag dráttarvaxta sem ákveðinn verði aðallega 4. febrúar 2014, til vara 28. febrúar 2013, en að því frágengnu annar dagur að mati Hæstaréttar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Mál þetta höfðaði Drómi hf., en eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hefur hann framselt aðaláfrýjanda kröfu sína á hendur gagnáfrýjanda. Því til samræmis hefur aðaláfrýjandi tekið við aðild að málinu fyrir Hæstarétti.

I

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir gerðu gagnáfrýjandi og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis með sér lánssamning 30. maí 2006. Á forsíðu samningsins sagði að um væri að ræða lánssamning í erlendum myntum. Samkvæmt 5. gr. hans lofaði gagnáfrýjandi að taka að láni og sparisjóðurinn að lána „jafnvirði 77.000.000 ISK í eftirtöldum myntum CHF 846.726,44, JPY 23.972.603, USD 159.486,33.“ Gerð er grein fyrir öðrum skilmálum samningsins í héraðsdómi.

Skilmálum lánssamningsins var breytt tvívegis. Í fyrra skiptið með viðauka við samninginn 7. nóvember 2008 þar sem meðal annars var vísað til framangreinds ákvæðis í 5. gr. hans og síðar tekið fram að eftirstöðvar lánsins 8. sama mánaðar væru: „JPY 21.894.977, USD 145.664,18 og CHF 773.343,48“ auk áfallinna vaxta sem greindir voru í sömu gjaldmiðlum. Skilmálum samningsins var breytt öðru sinni 1. mars 2010. Í skjali sem bar yfirskriftina „skilmálabreyting erlends lánasamnings“ sagði meðal annars að eftirstöðvar sundurliðust þannig 27. janúar 2010: „JPY 22.170.953 ... CHF 783.042,15 ... USD 148.458,31“. Jafnframt var tekið fram að eftirstöðvarnar væru „jafnvirði ISK 146.597.258“.

II

Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að binda lán eða annars konar skuldbindingu í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, svo sem tekið er fram í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til laganna. Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim.

Samkvæmt framansögðu bar fyrirsögn lánssamningsins, sem málið varðar, með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendum myntum. Ennfremur var skuldbindingin þar nákvæmlega tilgreind í svissneskum frönkum, japönskum jenum og bandaríkjadölum þótt jafnframt hafi verið vísað til jafnvirðis lánsfjárhæðarinnar í íslenskum krónum. Engin breyting varð á tilgreiningu skuldarinnar að þessu leyti þegar skilmálum lánssamningsins var síðar breytt.

Með skírskotun til þess að heiti lánssamningsins bar með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendum myntum og enn frekar að þar var hún nákvæmlega tilgreind í þeim þremur gjaldmiðlum, sem að framan greinir, er fallist á með aðaláfrýjanda að skuld gagnáfrýjanda hafi verið ákveðin í þeim gjaldmiðum en ekki í íslenskum krónum, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 23. nóvember 2011 í máli nr. 551/2011 og 5. júní 2014 í máli nr. 25/2014. Samkvæmt því verður aðalkrafa hans á hendur gagnáfrýjanda tekin til greina.

 Eftir þessum málsúrslitum verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað sem ákveðinn er í einu lagi á báðum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Magnús og Steingrímur ehf., greiði aðaláfrýjanda, Hildu ehf., 137.627.184 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. maí 2010 til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2014.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 10. desember sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Dróma hf., Lágmúla 6, Reykjavík, á hendur Magnúsi og Steingrími ehf., Bíldshöfða 12, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 27. febrúar 2013.

                Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda verði gert að greiða stefnanda 137.627.184 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 10. maí 2010 til greiðsludags og að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað, að skaðlausu.

                Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 70.624.486 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 10. maí 2010 til greiðsludags, og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað, að skaðlausu.

                Stefndi krefst sýknu af aðalkröfu stefnanda.  Þá krefst stefndi lækkunar á varakröfu, þannig að honum verði aðeins gert að greiða stefnanda 67.751.217 krónur miðað við 10. maí 2010 og að dráttarvextir verði ekki reiknaðir af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Jafnframt krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

                Málsatvik eru þau að hinn 30. maí 2006 gerðu Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, sem lánveitandi, og stefndi, sem lántaki, með sér lánssamning merktan nr. 9803, sem ber heitið „Lánssamningur í erlendum myntum“.  Tilefni lánveitingarinnar var fjármögnun á kaupum stefnda, sem er fyrirtæki rekið af tveimur trésmiðum, á fasteigninni Vagnhöfða 9, Reykjavík.  Samkvæmt 5. grein samningsins lofaði lántaki að taka að láni og lánveitandi að lána jafnvirði 77.000.000 króna í þremur nánar tilgreindum myntum, 846.726,44 svissneskum frönkum, 23.972.603 japönskum jenum og 159.486,33 Bandaríkjadölum.  Daginn áður greiddi stefnandi stefnda 76.225.001 íslenska krónu.

                Samkvæmt grein 5.2 í samningnum skyldi lánið endurgreiðast á 36 mánaðarlegum gjalddögum, í fyrsta sinn 8. september 2006.  Hver afborgun var 1/300 af upphaflegum höfuðstól lánsins ásamt áföllnum vöxtum en eftirstöðvar með einni greiðslu á lokagjalddaga, hinn 8. ágúst 2009.  Lántaka var heimilt að framlengja lánið ef samkomulag var um kjör. 

                Samkvæmt 6. grein samningsins skyldi lánið bera breytilega vexti sem samsvari LIBOR-vöxtum eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, að viðbættu 1,8% vaxtaálagi.  Vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi lánsins og greiðast á sömu dögum og afborganir.

                Samkvæmt grein 9.2 í samningnum var sparisjóðnum heimilt, félli lánið í gjalddaga eða væri sagt upp, að umreikna það í íslenskar krónur á gjalddaga/uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi sparisjóðsins á þeim myntum sem lánið samanstæði af. 

                Samkvæmt grein 6.4 bar stefnda að greiða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, ef ekki yrði staðið í skilum með greiðslur á gjalddögum.  Sérstaklega var tekið fram að sparisjóðurinn hefði val um hvort krafist yrði dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónu.

                Samkvæmt grein 5.5 í samningnum skyldu afborganir, vextir, dráttarvextir og aðrar greiðslur sem greiddar yrðu í íslenskum krónum umreiknaðar samkvæmt sölugengi bankans á þeim myntum sem lánið væri í á þeim tíma sem greiðslan væri innt af hendi.

                Samkvæmt grein 5.6 var lántakanda, stefnda, heimilt í lok hvers vaxtatímabils að breyta myntsamsetningu lánsins að uppfylltum nánari skilyrðum.

                Til tryggingar skuldinni var tryggingarbréf að fjárhæð 1.086.272 evrur með veði í Vagnhöfða 9, Reykjavík, fastanúmer 204-3111.

                Tvær skilmálabreytingar voru gerðar við lánssamninginn.  Sú fyrri 7. nóvember 2008, þar sem tilgreind var upprunaleg fjárhæð samningsins „jafnvirði ISK 77.000.000 í eftirtöldum myntum: JPY 23.972.603, USD 159.486,33 og CHF 846.726,44.“  Eftirstöðvar samningsins eru þar sagðar vera: „JPY 21.894.977, USD 145.664,18 og CHF 773.343,48 auk áfallinna vaxta JPY 56.724, USD 786,80 og CHF 3.329,46.“  Að beiðni skuldara samþykkti SPRON hf. að eftirleiðis skyldi lánið endurgreiðast þannig að 1/274 af höfuðstól skyldi greiðast ásamt áföllnum vöxtum mánaðarlega í fyrsta sinn 8. nóvember 2008, en eftirstöðvar höfuðstóls á einum gjalddaga 8. nóvember 2009 ef lánið yrði ekki framlengt í samræmi við ákvæði samningsins.

                Hinn 21. mars 2009 vék Fjármálaeftirlitið stjórn SPRON hf. frá og skipaði skilanefnd yfir sparisjóðnum.  Hinn 23. júní 2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur SPRON hf. slitastjórn, sbr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.  Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var stofnað sérstakt hlutafélag, Drómi hf., stefnandi máls þessa, í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., sem tók við öllum eignum félagsins og jafnframt öllum tryggingarréttindum, þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum SPRON hf.

                Hinn 1. mars 2010 var undirrituð önnur skilmálabreyting.  Ber hún heitið „Skilmálabreyting erlends lánssamnings.“  Þar eru eftirstöðvar hinn 27. janúar 2010 tilgreindar „JPY 22.170.953, CHF 783.042,15 og USD 148.458,3127“.  Þar á eftir er tilgreint jafnvirði eftirstöðva í íslenskum krónum „ISK 146.587.258“.  Skyldi stefndi greiða áfallna vexti mánaðarlega frá 8. nóvember 2009 og eftirstöðvar lánsins á einum gjalddaga hinn 8. maí 2010.

                Stefndi stóð að mestu leyti í skilum með greiðslur samkvæmt skilmálum lánsins og greiddi vaxtagjalddaga til og með 8. apríl 2010.  Á gjalddaga lánsins 10. maí 2010, sem var næsti virki bankadagur eftir tilgreinda dagsetningu, 8. maí 2010, varð greiðslufall af hálfu stefnda.

III

                Stefnandi byggir kröfu sína á lánssamningi aðila frá 30. maí 2006.  Stefndi hafi tekið að láni 23.972.603 japönsk jen, 159.486,33 Bandaríkjadali og 846.726,44 svissneska franka og beri honum að efna samninginn eftir efni hans og endurgreiða stefnanda lánið í samræmi við skilmála samningsins.  Byggir stefnandi á því að samningur aðila sé um lán í erlendri mynt.  Þegar litið sé til heitis samnings, tilgreiningu skuldbindingar í erlendum myntum, bæði í lánssamningi og skilmálabreytingum, vaxtakjara og ákvæða samningsins að öðru leyti sé ljóst að um sé að ræða lán í erlendir mynt, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 524/2011 og 50/2011.  Við mat á því hvort um sé að ræða skuldbindingu í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum beri að líta til eftirfarandi atriða:

                Lánssamningur aðila beri heitið „Lánssamningur í erlendum myntum“. 

                Í samningnum sé lánsfjárhæðin tilgreind í þremur erlendum gjaldmiðlum.  Þannig sé meginefni samningsins, þ.e. skyldur aðila, annars vegar stefnanda að lána og hins vegar stefnda að taka að láni, tilgreindar fjárhæðir í erlendum myntum, nánar tiltekið 846.726,44 svissneska franka, 23.972.603 japönsk jen og 159.486,33 Bandaríkjadali.  Skipti þar engu um þó að jafnvirði fjárhæðarinnar í íslenskum krónum sé einnig tilgreint.

                Skilningur aðila að um sé að ræða skuldbindingu í erlendri mynt sé áréttaður í báðum þeim skilmálabreytingum sem gerðar séu á efni samningsins.  Í skilmálabreytingunni 7. nóvember 2008 sé tilgreind upprunaleg fjárhæð lánsins að jafnvirði 77.000.000 íslenskra króna í eftirtöldum myntum: 23.972.603 japönsk jen, 159.486,33 Bandaríkjadalir og 846.726,44 svissneskir frankar.  Þá séu eftirstöðvar lánsins einungis tilgreindar í hinum erlendu myntum miðað við 8. nóvember 2008 sem „JPY 21.894.977, USD 145.664,18 og CHF 773.343,48 auk áfallinna vaxta“ í hinum tilgreindu myntum.  Skilmálabreytingin 1. mars 2010 beri heitið „Skilmálabreyting erlends lánasamnings“.  Þar séu tilgreindar eftirstöðvar lánsins miðað við 27. janúar 2010, að meðtöldum áföllnum vöxtum, 22.170.953 japönsk jen, 783.042,15 svissneskir frankar og 148.458,3127 Bandaríkjadalir.  Þar á eftir sé tilgreint jafnvirði eftirstöðva í íslenskum krónum hinn 27. janúar 2010, 146.587.258 íslenskar krónur.

                Stefnandi byggir og á því, að ákvæði samningsins um vaxtakjör, LIBOR-vextir auk álags, séu til samræmis við það að um sé að ræða erlent lán.  LIBOR-vextir séu ekki ákveðnir fyrir skuldbindingar í íslenskum krónum, ólíkt þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstandi af. 

                Stefnandi byggir einnig á því að önnur ákvæði samningsins séu til samræmis við það að um sé að ræða lán í erlendum myntum.  Samkvæmt ákvæði 5.5 í samningnum sé sérstaklega tekið fram að séu greiðslur inntar af hendi í íslenskum krónum skuli andvirði greiðslunnar umreiknað í þær myntir sem lánið samanstandi af á þeim tíma.  Enn fremur sé lánveitanda sérstaklega heimilað að umreikna gjaldfallnar afborganir og gjaldfelldar eftirstöðvar í íslenskar krónur á gjalddaga.

                Þegar ofangreind atriði séu metin hvert fyrir sig og heildstætt sé ljóst að um sé að ræða skuldbindingu í erlendri mynt en ekki lán í íslenskum krónum.

                Stefnandi kveðst hafa, í samræmi við ákvæði samningsins, umreiknað eftirstöðvar í íslenskar krónur á gjalddaga.  Samkvæmt ofangreindu hafi myntbreyttar eftirstöðvar á gjalddaga lánsins verið 137.627.183 krónur, sem sé stefnufjárhæð málsins og sé krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá gjalddaga 10. maí 2010, er eftirstöðvar lánsins hafi fallið í gjalddaga, til greiðsludags, í samræmi við ákvæði 4. mgr. 6. gr. og 9. gr. samningsins.

Stefnandi hefur sundurliðað aðalkröfu sína með eftirgreindum hætti í stefnu:

                Stefndi hafi greitt inn á lánið alls 42.749,61 Bandaríkjadal, þar af 13.822,15 Bandaríkjadali inn á höfuðstól þess, 4.122.058 japönsk jen, þar af 2.077.626 japönsk jen inn á höfuðstól lánsins og 177.368,11 svissneska franka, þar af 73.382,96 inn á höfuðstól lánsins.  Stefndi hafi greitt vexti af láninu í samræmi við skilmála þess til og með gjalddaga 8. apríl 2010.  Eftirstöðvar skuldarinnar á gjalddaga 10. maí 2010 hafi því verið:

                Í japönskum jenum:

                                Eftirstöðvar höfuðstóls                                                                                  21.894.977

                                Áfallnir vextir 8. apríl til 10. maí 2010                                                                38.049

                                Samtals                                                                                                             21.933.026

                Í Bandaríkjadölum:

                                Eftirstöðvar höfuðstóls                                                                                  145.644,18

                                Áfallnir vextir 8. apríl til 10. maí 2010                                                                265,53

                                Samtals                                                                                                             145.929,71

                Í svissneskum frönkum:

                                Eftirstöðvar höfuðstóls                                                                                  773.343,48

                                Áfallnir vextir 8. apríl til 10. maí 2010                                                            1.295,78

                                Samtals                                                                                                             774.639,26

                Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 9. gr. samningsins hafi stefnandi umreiknað eftirstöðvar lánsins í íslenskar krónur á gjalddaga miðað við sölugengi stefnanda á þeim tíma:

                                                               Staða skuldar      gengi                                     umreiknað í ISK

                                JPY                   21.933.026                       1,3551 kr.                              29.721.444 kr.

                                USD                  145.929,71                       126,46 kr.                              18.454,271 kr.

                                CHF                  774.639,26                    115,475 kr.                              89.451.469 kr.

                                Samtals                                                                                                     137.627.183 kr.           

                Verði ekki fallist á aðalkröfuna um að lánið sé í erlendum myntum heldur lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu byggir stefnandi til vara á því að lánið skuli bera vexti sem séu jafnháir almennum óverðtryggðum vöxtum sem Seðlabanki Íslands birti samkvæmt ákvæðum 10. gr. laga nr. 38/2001, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 471/2010.  Þar komi fram að bein og órjúfanleg tengsl séu milli gengistryggingar og ákvæða um vaxtakjör og óhjákvæmilegt sé að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiði til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð.  Þar sem ákvæðum um vaxtahæð verði ekki beitt svari atvik til þess að samið hefði verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir vextirnir séu.  Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, skyldu vextir þegar svo stæði á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. laganna.

Stefnandi kveður, ef lánið verður talið vera í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu, að atvik séu sambærileg og í dómum Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 600/2011 og 464/2012, og að víkja beri frá meginreglunni um að kröfuhafi, sem fengið hafi minna greitt en hann hafi átt rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé.  Verði því ekki gerð krafa um vangoldna vexti fyrir síðasta greidda gjalddaga, sem hafi verið 8. apríl 2010.  Frá þeim tíma beri lánið vexti sem séu jafnháir almennum óverðtryggðum vöxtum sem Seðlabanki Íslands birti samkvæmt ákvæðum 10. gr. laga nr. 38/2001. 

Stefnandi byggir fjárhæð varakröfu sinnar á því að stefnda beri að endurgreiða lán það sem SPRON hf. hafi sannanlega veitt honum ásamt vöxtum jafnháum almennum óverðtryggðum vöxtum en að öðru leyti í samræmi við samning aðila.  Eftirstöðvar höfuðstóls lánsins við síðasta greidda gjalddaga sé upprunalegur höfuðstóll að frádregnum greiðslum inn á höfuðstól, 77.000.000 króna, að frádregnum 6.905.120 krónum, eða 70.094.880 krónur.  Almennir óverðtryggðir vextir fyrir apríl og maí 2010 hafi verið 8,5%.  Áfallnir vextir fyrir tímabilið 8. apríl 2010 til 10. maí 2010 séu því 529.606 krónur.  Eftirstöðvar skuldarinnar á gjalddaga hennar 10. maí 2010 hafi því verið 70.624.486 krónur, sem sé fjárhæð varakröfu stefnanda.  Krafist sé dráttarvaxta frá gjalddaga lánsins, 10. maí 2010.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningaréttar, um skuldbindingargildi samninga og um efndir fjárskuldbindinga. 

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

                Stefndi byggir kröfu sína á því að umdeildur lánssamningur og skilmálabreytingar séu um gengistryggt lán í íslenskum krónum og því ólöglegt samkvæmt 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.  Bæði form og efni lánssamningsins og síðari skilmálabreytinga á honum, auk annarra atvika tengdu umræddu láni leiði óhjákvæmilega til þeirrar niðurstöðu að lánssamningurinn hafi falið í sér skuldbindingu í íslenskum krónum. 

Byggir stefndi á því, að heiti lánssamningsins „Lánssamningur í erlendum myntum“ skipti ekki máli þegar metið sé hvort um erlent lán eða lán í íslenskum krónum sé að ræða.  Í því sambandi megi m.a. vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 50/2012, en af honum megi ráða að heiti lánssamnings eða tryggingabréfa þeim tengdum hafi eitt og sér lítið gildi við mat á því hvort lánssamningur sé í íslenskum krónum og gengistryggður eða í erlendri mynt heldur ráði mestu hvert efni samningsins sé. 

Þá telur stefndi að draga megi þá ályktun af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 524/2011, að það skipti máli við mat á því hvort lánssamningur sé í íslenskum krónum og gengistryggður eða í erlendri mynt hvernig upptalning á lánsfjárhæð sé háttað, þ.e. hvort komi á undan fjárhæðin í íslenskum krónum eða erlendri mynt.  Þar sem fjárhæðin í umdeildum samningi sé fyrst tilgreind í íslenskum krónum, eigi það, sbr. fyrrgreindan hæstaréttardóm í málinu nr. 524/2011, að leiða til þeirrar niðurstöðu að skuldbinding hans samkvæmt umdeildum lánssamningi hafi verið í íslenskum krónum bundin gengistryggingu andstætt ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndi mótmælir því að þær tvær skilmálabreytingar á upphaflegum lánssamningi sýni að skuldbinding hans hafi verið í erlendri mynt.  Í þessu sambandi verði sérstaklega að líta til þess hvernig síðari skilmálabreytingin hafi verið útfærð af hálfu stefnanda.  Skilmálabreytingin, dagsett 7. nóvember 2008, heiti „Viðauki við lánasamning nr. 468“.  Í inngangsorðum viðaukans sé sérstaklega vísað til þess að lánssamningurinn hafi upphaflega verið að „jafnvirði ISK 77.000.000 í eftirtöldum myntum: JPY 23.972.603, USD 159.486,33 og CHF 846.726,44“.  Þá sé eftirstöðvum lánssamningsins einungis lýst með vísan til hinna erlendu gjaldmiðla.  Stefndi byggir á því að ekki sé unnt að túlka það sem svo að með þessu hafi verið samið um lán í erlendri mynt, eins og stefnandi haldi fram, heldur beri að líta á skilmálabreytinguna og upphaflegan lánssamning sem eina heild.  Líta verði til þess að viðaukinn vísi til lánssamnings nr. 468, en lánssamningurinn sé nr. 9803.  Röng tilgreining á númeri samningsins gefi til kynna að um flaustursleg vinnubrögð hafi verið að ræða af hálfu lánveitanda við frágang skilmálabreytingarinnar og hefði honum, nú stefnanda, borið að skýra sérstaklega þessa breytingu á tilgreiningu lánsfjárhæðar, en það hafi ekki verið gert.  Geti stefnandi því ekki borið skilmálabreytinguna fyrir sig að þessu leyti.  Jafnframt sé ljóst að skilmálabreytingin hafi að geyma skýra tilvísun til upphaflegs lánssamnings sem ekki verði horft fram hjá við túlkun á efni viðaukans.  Þá sé ljóst að jafnvirðisfjárhæðar sé að fullu getið í viðaukanum en í hæstaréttardómi í málinu nr. 524/2011, sem stefnandi vísi til, sé þess sérstaklega getið að í þeirri skilmálabreytingu, sem þar hafi verið til umfjöllunar, hafi jafnvirðisfjárhæðar ekki verið getið.  Með gagnályktun sé því ljóst að þessi málsástæða stefnanda eigi ekki við um þann lánssamning sem mál þetta snúist um.  Það skipti og máli við túlkun á orðalagi í fyrri skilmálabreytingunni hvernig lánsfjárhæðin sé tilgreind í síðari skilmálabreytingunni.  Í síðari skilmálabreytingunni, sem gerð hafi verið 1. mars 2010, séu eftirstöðvar lánssamningsins tilgreindar bæði á grundvelli þeirra þriggja erlendu gjaldmiða, sem upphaflega hafi verið vísað til og sérstaklega tilgreindar eftirstöðvar í íslenskum krónum, auk þess að framreikningur eftirstöðva miðist við íslenskar krónur.  Gegni því sama máli um þessa skilmálabreytingu og þá fyrri, að tilvísun stefnanda til hæstaréttardóma í málum nr. 542/2011 og 50/2012 eigi ekki við. 

Stefndi kveðst ekki vera sérfróður um framsetningu lánssamninga fjármálafyrirtækja en lánveitandi, sem einnig hafi annast fyrri skilmálabreytingu lánssamningsins og Arion-banki, sem hafi annast þá síðari, séu fjármálafyrirtæki, sem starfað hafi á grundvelli starfsleyfa frá Fjármálaeftirlitinu.  Tilgreining LIBOR-vaxta, sem vaxtafótar í lánssamningi verði því ekki talin sönnun þess að um sé að ræða erlent lán.  Lánssamningurinn og skilmálabreytingarnar hafi verið unnar einhliða af lánveitanda og Arion-banka.  Að mati stefnda sé því ljóst að við einhliða gerð lánssamnings og skilmálabreytinga hafi þessum aðilum orðið á mistök, sem falist hafi í því að íslenskt krónulán hafi verið bundið við gengi þriggja erlendra gjaldmiðla sem sé ólöglegt samkvæmt 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.  Stefndi geti ekki borið ábyrgð á mistökum stefnanda um framsetningu á vaxtafæti lánsfjárhæðar.  Stefnandi geti ekki réttlætt ólögmæta skilmála, að því er varði tilgreiningu lánsfjárhæðar í lánssamningi, með þeim hætti að benda á LIBOR-vaxtakjör samningsins.  Jafnframt beri að hafa í huga að samkvæmt grein 6.1 í lánssamningi geti komið til þess að vextir taki mið af „öðrum vöxtum á millibankamarkaði eða gjaldeyrismarkaði“, eins og segi í ákvæðinu.

Óumdeilt sé að stefndi hafi innt af hendi allar greiðslur vegna lánssamningsins í íslenskum krónum enda beinlínis gert ráð fyrir því, sbr. grein 5.3 í lánssamningnum.  Í ákvæðinu sé gert ráð fyrir því að tékkareikningur í íslenskum krónum, sem hvorki sé unnt að nota til innlagnar né úttektar á erlendum gjaldmiðli, verði skuldfærður til greiðslu afborgana og vaxta samkvæmt lánssamningnum.  Þá komi fram í ákvæðinu að lántaki skuldbindi sig til að hafa innstæðu á reikningnum til greiðslu afborgana og vaxta, sem sé skýr vísbending um það í hvaða mynt stefnandi hafi ætlast til að stefndi efndi samninginn.

Umreikningur sem vísað sé til í grein 5.5 hafi augljóslega ekki falið í sér neina skyldu af hálfu stefnda til að annast umreikning sjálfur á íslenskri fjárhæð yfir í erlenda gjaldmiðla.  Þvert á móti staðfesti ákvæðið enn frekar að lánssamningurinn hafi verið í íslenskum krónum sem hafi með ólögmætum hætti verið bundnar við sölugengi erlendra gjaldmiðla á hverjum tíma hjá lánveitanda og síðar stefnanda eða Arion-banka, eins og segi þar berum orðum.  Þá hafi engin gögn verið lögð fram af hálfu stefnanda sem sýni hvernig þessum umreikningi hafi verið háttað eða hvort hann hafi yfirleitt farið fram.  Ljóst sé að hér hafi verið um fyrirmæli að ræða í lánssamningnum sem á engan hátt beinist að stefnda heldur eingöngu stefnanda.  Telur stefndi að ákvæði greina 5.5 og 5.3 í lánssamningnum styrki þá skýringu að lánssamningurinn og skilmálabreytingar hafi verið í íslenskum krónum.  Stefndi telur einnig að notkun orðsins sölugengi í ákvæði greinar 9.2 í lánssamningnum, þar sem segi: „að umreikna [megi] allt lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi sparisjóðsins í þeim myntum sem lánið samanstendur af“, bendi til þess að um hafi verið að ræða gengistryggingu láns í íslenskum krónum.

Þegar allt framangreint sé virt, bæði eitt og sér sem og heildstætt, sé ljóst að lánssamningur nr. 9803 og skilmálabreytingar á þeim samningi sýni að samningurinn sé um lán í íslenskum krónum.

Í ljósi mismunandi aðstöðu stefnanda og stefnda, þar sem sá fyrrnefndi hafi tekið við eignum fjármálafyrirtækis sem starfað hafi á grundvelli starfsleyfis Fjármálaeftirlitsins, beri a.m.k. að túlka allan vafa, sem kunni að ríkja um rétta tilgreiningu myntar eða mynta í lánssamningi stefnda í hag.

Stefndi byggir og á því að önnur ákvæði í lánssamningi aðila styðji það að skuldbindingin samkvæmt fyrrnefndum samningi hafi verið í íslenskum krónum en ekki erlendum myntum.

Í fyrsta lagi vísar stefndi til greinar 5.4 í lánssamningi en þar komi m.a. fram að lántakanda sé heimil uppgreiðsla á láninu, sem þó sé bundin því skilyrði að uppgreiðslan nemi „að lágmarki ISK 10.000.000 eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðli sem sé útistandandi skv. lánssamningnum“.  Hér eigi það sama við og um lánsfjárhæðina sjálfa að lágmark uppgreiðslufjárhæðar sé tilgreint í íslenskum krónum en bundið sölugengi annarra gjaldmiðla sem vísað sé til í samningnum.  Líta verði svo á að þetta ákvæði feli í sér enn frekari staðfestingu þess að lánssamningurinn hafi falið í sér skuldbindingu í íslenskum krónum.

Í öðru lagi vísar stefndi til greinar 5.7 í lánssamningi, en þar segi að lántakandi staðfesti að hafa skilið að áhrif hugsanlegra gengissveiflna geti orðið þau að heildarskuld hans í þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstefndur af hverju sinni geti orðið hærri en upphafleg lánsfjárhæð.  Með orðalaginu „upphafleg lánsfjárhæð“ sé augljóslega verið að vísa til þess að upphafleg lánsfjárhæð hafi verið í íslenskum krónum og vegna gengistryggingar hennar geti komið til þess að fjárhæðin hækki.  Annar skilningur á þessu ákvæði standist enga skoðun enda beinlínis vísað til áhættu af gengissveiflum.

Í þriðja lagi megi vísa til greinar 5.8 í lánssamningi en í í lok ákvæðisins sé tekið fram að það sé á ábyrgð lántakanda að afla sér upplýsinga um hugsanleg áhrif gengissveiflna á lánið.  Orðalagið verði ekki skilið öðruvísi en svo að um sé að ræða lán í íslenskum krónum sem sé gengistryggt.

Í fjórða lagi segi í grein 8.2 í lánssamningi að lántaki skuli greiða lántökugjald, 1% af samningsbundinni fjárhæð, sem sé 1% af útborgun lánsfjárhæðar.  Eins og kaupnóta beri með sér hafi lántökugjaldið verið ákveðið 770.000 krónur, en auk þess hafi lántakandi greitt 5.000 krónur vegna skjalagerðar.  Hafi hann fengið greiddar inn á tékkareikning sinn, eins og fram komi á kaupnótu, 76.225.000 krónur.

Í fimmta lagi sjáist af kaupnótunni, og sé óumdeilt, að lánið sé greitt út degi áður en lánssamningurinn hafi verið undirritaður, eða 29. maí 2006.  Af því leiði að stefndi hafi tekið við láninu sem láni í íslenskum krónum án þess að nokkur lánssamningur hafi verið fyrir hendi. 

                Stefndi vísar til dómafordæma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 92/2010, 153/2010, 604/2010 og 155/2011, um það að engu máli skipti þótt fram komi að lánasamningar séu í erlendum myntum hafi andvirði þeirra í raun verið greitt út í íslenskum krónum.

                Stefndi leggi á það áherslu, að hann hafi aldrei fengið neina fjármuni í erlendum myntum frá forvera stefnanda heldur hafi verið greiddar inn á reikning hans sjötíu og sjö milljónir króna.  Um þá fjárhæð hafi lánssamningur, sem aðilar hafi gert í upphafi, verið.  Til marks um það sé sú staðreynd að sú fjárhæð hafi verið greidd inn á reikning stefnda en ekki erlendur gjaldeyrir.  Þannig skipti í raun engu máli hvert hafi verið efni þess samnings sem gerður hafi verið eftir á við stefnda, enda hafi hann verið einhliða settur fram af hálfu stefnanda.  Það sé hægt að klæða slíka samninga í búning sem ekki komi heim og saman við raunveruleikann.  Raunveruleikinn í málinu sé sá að forveri stefnanda hafi lánað stefnda íslenskar krónur inn á reikning hans og hafi því ekki getað eða mátt endurkrefja hann um erlendar myntir, enda í andstöðu við ákvæði laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Stefnandi geti nú ekki valið, þar sem það sé honum hagstæðara.  Þar sem svo mikill vafi sé á efnisinnihaldi samningsins verði að telja að hin sérfróða fjármálastofnun verði ekki látin njóta vafans heldur stefndi.

                Stefndi byggir á því, verði á það fallist að aðalkrafa stefnanda sé rétt reiknuð og rétt út fundin, að allar forsendur fyrir lánsfjárhæð og skilmálum hafi í raun brostið þegar hinir íslensku viðskiptabankar og síðar sparisjóðirnir á Íslandi hafi nánast hrunið á einni nóttu.  Stefndi geti ekki einn átt að bera áhættuna af þeim forsendubresti heldur verði að velta honum einnig yfir á stefnanda.  Stefnandi hafi tekið ákveðna áhættu með því að lána fjármuni og tengja þá erlendum myntum sem í raun hafi verið ólögmætt.  Í ljósi þess og eins 36. gr. laga nr. 7/1936, eigi því að víkja til hliðar þeim ákvæðum sem heimili stefnanda að notast við þá skilmála, er varði erlenda mynt, og ákvarða efni lánasamningsins þannig að hann miðist við íslenska fjárhæð frá upphafi án tengingar við erlendar myntir.  Í þessu sambandi megi líta til 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en þau hafi átt við um forvera stefnanda.

                Stefndi mótmælir varakröfu stefnanda og telur að útreikningur til stuðnings kröfu um höfuðstólsfjárhæð að fjárhæð 70.624.886 krónur, miðað við 10. maí 2010, sé með öllu ófullnægjandi.  Telur stefndi að skjalið sýni ekki á nokkurn hátt réttmæti kröfunnar og ekki sé unnt fyrir stefnda að átta sig á útreikningsgrunni.

                Þá telur stefndi kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta frá 10. maí 2010 óréttmæta í ljósi þeirrar miklu óvissu sem lengi hafi ríkt um gildi þeirra lánsskilmála sem mál þetta lúti að, þ.e. hvort þeir feli í sér erlenda lánsfjárhæð eða gengistryggingu láns í íslenskum krónum.  Með vísan til þess telur stefndi að ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, eigi ekki við í málinu og eðlilegt sé að með vaxtakröfu sé farið samkvæmt 7. gr. laganna og dráttarvextir ekki reiknaðir þann tíma sem greiðsludráttur hafi orðið.  Ljóst sé að stefnandi eigi ekki síður en stefndi sök á því hversu lengi mál þetta hafi tafist.  Þá verði að telja það afar ósanngjarnt með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, ásamt síðari breytingum, að krefja stefnda um dráttarvexti með þeim hætti sem lýst sé í varakröfu í stefnu.  Til marks um þetta sé sú staðreynd að stefnandi umreikni lánsfjárhæðina úr erlendum myntum yfir í íslenskar krónur eftir stökkbreytta gengisfellingu krónunnar og fái þannig út íslenskan höfuðstól sem sé úr takti við það sem aðilar hafi samið um, en notist síðan við íslenska dráttarvexti, sem séu u.þ.b. 20% á ári, og ætlist til þess að þeim sé bætt við hinn stökkbreytta gengisbundna höfuðstól í stað þess að miða við dráttarvexti á þær erlendu myntir sem um ræði.  Þá hafi stefnandi ekki stefnt inn til greiðslu á þeim erlendu myntum sem hann hafi talið sig hafa lánað heldur til greiðslu á íslenskum krónum.  Sú staðreynd ein og sér verði að túlka stefnanda í óhag.  Með því sé stefnandi í raun að viðurkenna að lánið sé í íslenskum krónum og megi ekki vera bundið við erlendar myntir.

                Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og um efndir fjárskuldbindinga, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og samningalaga nr. 7/1936, með síðari breytingum.

                Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

                Ágreiningur aðila máls þessa lýtur aðallega að því hvort skilmálar samnings þeirra nr. 9803, undirritaður 30. maí 2006, feli í sér að lán samkvæmt samningnum hafi verið í erlendum gjaldmiðlum eða í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.

                Eins og að framan greinir ber umdeildur lánssamningur, nr. 9803, fyrirsögnina „Lánssamningur í erlendum myntum“.  Tilgreining lánsfjárhæðarinnar er hins vegar ekki skýr um það hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum.  Í 5. grein lánssamningsins segir að lántaki lofi að taka að láni og sparisjóðurinn lofi að lána jafnvirði 77.000.000 íslenskra króna í eftirtöldum myntum: 846.726 svissneska franka, 23.972.603 japönsk jen og 159.486,33 Bandaríkjadali.  Þá kemur fram í grein 5.3 að lántaki heimili sparisjóðnum að skuldfæra tékkareikning sinn í íslenskum krónum fyrir greiðslu afborgana og vaxta samkvæmt samningnum, sem og fyrir gjaldfallinni afborgun ef vanskil yrðu af hálfu lántaka, auk vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar af láninu.

                Samkvæmt 6. gr. samningsins bar lánið breytilega LIBOR-vexti auk 1,8% vaxtaálags, og bendir það til þess að lánið hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.  Kæmi hins vegar til greiðslu dráttarvaxta skyldu þeir greiðast samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Lánveitandi skyldi þá hafa val um það hvort hann krefðist dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.

                Í grein 5.5 og grein 9 er mælt fyrir um hvernig skuli reikna út skuldbindingu lántaka í íslenskum krónum miðað við gengi hinna erlendu gjaldmiðla.  Fram kemur í grein 5.5 að greiði lántaki afborganir, vexti, dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skuli andvirði greiðslunnar umreiknað samkvæmt sölugengi sparisjóðsins í þeim myntum sem lánið sé í, á þeim tíma þegar greiðslan sé innt af hendi.  Í grein 5.6 er mælt fyrir um að lántaka sé heimilt að breyta gjaldmiðli lánsins í sérhvern þann gjaldmiðil sem sparisjóðurinn hafi aðgang að og Seðlabanki Íslands skrái.  Ein og sér gætu þessi ákvæði bent til þess að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum þótt þau séu ekki afgerandi hvað það varðar.  Hins vegar er í grein 5.7 og 5.8 kveðið á um það með skýrum hætti að lán samkvæmt samningnum sé gengistryggt.  Í grein 5.7 staðfesti lántakandi að hann hafi verið upplýstur um og hann hafi fyllilega skilið að áhrif hugsanlegra gengissveiflna gætu orðið þau að heildarskuld hans í þeim gjaldmiðlum sem lánið væri samsett af hverju sinni gæti orðið hærri en upphafleg lánsfjárhæð.  Jafnframt segir í grein 5.8 um ábyrgð lántakanda að honum sé ljóst og að hann staðfesti að sparisjóðnum beri engin skylda til að upplýsa hann um hvers kyns hækkanir sem kunni að verða á lánsfjárhæðinni vegna óhagstæðra gengissveiflna á lánið.  Þrátt fyrir að orðalag samningsins sé að öðru leyti nokkuð óljóst um hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, verður ekki litið fram hjá afdráttarlausu orðalagi framangreindra ákvæða í grein 5.7 og 5.8 í lánssamningnum.

                Þar að auki skal litið til þess hvernig aðilar efndu aðalskuldbindingar sínar samkvæmt lánssamningnum, en lánveitandi, SPRON hf., greiddi íslenskar krónur inn á tékkareikning hins stefnda félags.  Fjárhæðin, sem greidd var í íslenskum krónum, 76.225.001 króna, er lánsfjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum í lánssamningi aðila, 77.000.000 króna, að frádregnu 1% lántökugjaldi (770.000 krónur) og að frádregnum 5.000 krónum fyrir skjalagerð.  Af hálfu hins stefnda félags var ávallt greitt af láninu í íslenskum krónum og er það í samræmi við ákvæði greinar 5.3 í samningi aðila sem kveður á um skuldfærslu tékkareiknings félagsins í íslenskum krónum fyrir afborgunum og vöxtum af láninu.  Gögn málsins bera ekki með sér að gjaldeyrisviðskipti hafi farið fram vegna útborgunar lánsins eða  í tengslum við greiðslu af því. 

                Eins og að framan er rakið voru viðaukar við lánssamninginn undirritaðir 7. nóvember 2008 og 1. mars 2010.  Viðaukarnir breyta því ekki hvernig upphaflega var samið hvað varðar þann gjaldmiðil sem lánið var veitt í.  Þá veita viðaukarnir ekki miklar vísbendingar um viðhorf samningsaðila til þess í hvaða gjaldmiðli lánið var, enda er upphafleg fjárhæð lánsins tilgreind með sama hætti í fyrri viðaukanum og í samningnum sjálfum og í seinni viðaukanum er upphafleg lánsfjárhæð einungis tilgreind í íslenskum krónum.  Loks verður ekki litið svo á að með viðaukunum hafi aðilar samið um breytingu á gjaldmiðli lánsins enda ekkert í orðalagi þeirra sem gefur slíkt til kynna.  Eftirstöðvar lánsins eru tilgreindar í hinum erlendu myntum og lánið skyldi áfram bera LIBOR-vexti en jafnframt skyldu greiðslur af láninu áfram vera skuldfærðar af tékkareikningi hins stefnda félags í íslenskum krónum og aðrir skilmálar lánsins haldast óbreyttir.

                Þegar allt framangreint er virt í heild sinni verður að líta svo á að aðilar hafi, með lánssamningi nr. 9803, samið um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, sbr. 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Verður hið stefnda félag því sýknað af aðalkröfu stefnanda.

                Varakrafa stefnanda byggir á því að lán samkvæmt lánssamningi nr. 9803 sé í íslenskum krónum.  Er þá miðað við að endurútreikningur lánsins sé í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 600/2011 og nr. 464/2012 og að fullnaðarkvittanir gildi fyrir vaxtagjalddaga til og með 8. apríl 2010.  Hins vegar hefur stefnandi ekki lagt fram sundurliðaðan útreikning á varakröfu, þ.m.t. sundurliðun á greiðslu vaxta og afborgana af höfuðstól.  Má fallast á það með stefnda að ófullnægjandi sé að vísa í dómafordæmi án þess að gerð sé nánari grein fyrir tölulegum útreikningi á þeirri kröfu sem stefnandi telur sig eiga á hendur stefnda.  Stefndi hefur á hinn bóginn lagt fram sundurliðaðan útreikning á kröfu sinni, þar sem gerð er grein fyrir greiðslu vaxta og afborgana og má af þeim útreikningi ráða að krafa hans miðast við að stefnandi eigi ekki frekari kröfu um vexti aftur í tímann.  Sá útreikningur samræmist þeim fullyrðingum stefnanda, sem fram koma í stefnu, um að atvik séu sambærileg og í dómum Hæstaréttar Íslands nr. 600/2011 og 464/2012, og að víkja beri frá meginreglunni um að kröfuhafi, sem hafi fengið minna greitt en hann eigi rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé.  Með því að svo er verður fallist á með stefnda að miða eigi við að eftirstöðvar höfuðstóls lánsins séu 67.751.217 krónur.   Samkvæmt því verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda þá fjárhæð.

Óumdeilt er að hið stefnda félag hefur ekki greitt af láninu frá 10. maí 2010.  Samkvæmt samningnum og ákvæðum 1. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, ber stefnda að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð.  Getur ágreiningur um útreikning lánsins ekki leitt til þess að stefndi losni undan þeirri skyldu sinni, sem aðilar sömdu um sín á milli, vegna ágreinings um útreikning lánsins, enda hefði stefnda verið í lófa lagið að greiða þá fjárhæð sem hann taldi að sér væri skylt að greiða, samkvæmt samningnum.  Ekki verður því fallist á með hinu stefnda félagi að ósanngjarnt sé í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, að stefndi greiði dráttarvexti af vangreiddri fjárhæð lánsins.  Er réttmæt sú krafa að dráttarvextir reiknist frá og með fyrsta ógreidda gjalddaga fram að greiðsludegi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.  Stefndi veður því dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. maí 2010 til greiðsludags, af 67.751.217 krónum.

                Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að stefnandi greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur. 

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Magnús og Steingrímur ehf., greiði stefnanda, Dróma hf., 67.751.217 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 10. maí 2010 til greiðsludags.

Stefnandi greiði stefnda 700.000 krónur í málskostnað.