Hæstiréttur íslands
Mál nr. 253/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Miðvikudaginn 23. apríl 2014. |
|
Nr. 253/2014. |
A (Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.) gegn velferðarsviði
Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði
Staðfestur var
úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur lögræði í tvö ár.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar
Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur
hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar
með kæru 9. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama
mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2014, þar sem sóknaraðili
var sviptur lögræði, bæði sjálfræði og fjárræði, í tvö ár. Kæruheimild er í 1.
mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn
kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að lögræðissviptingu verði
markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum krefst hann þóknunar til handa skipuðum
verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða
úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða
úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga
greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir
Hæstarétti úr ríkissjóði og er hún ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins
og í dómorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila
fyrir Hæstarétti, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 125.500
krónur greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1.
apríl 2014.
Með
beiðni, sem barst dóminum þann 27. mars 2014, hefur Anna Guðrún Árnadóttir
hdl., f.h. Velferðarsviðs Reykjavíkur, krafist þess að A, kt.
[...], til heimilis að [...], verði sviptur lögræði, sjálfræði og fjárræði,
tímabundið í tvö ár á grundvelli a- og b-liða 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr.
lögræðislaga nr. 71/1997.
Um
aðild sóknaraðila, Velferðarsviðs Reykjavíkur, vísast til d-liðar 2. mgr. 7.
gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Málsatvik og málsástæður
Varnaraðili er 20 ára gamall,
einhleypur og barnlaus maður sem býr í búsetuúrræði að [...]. Foreldrar
varnaraðila óskuðu eftir því að sóknaraðili stæði að áframhaldandi
lögræðissviptingu, en varnaraðili var sviptur lögræði með úrskurði Héraðsdóms
Reykjavíkur hinn 29. mars 2012 í tvö ár, en lögræðissviptingin rann út 29. mars
sl.
Með beiðni um lögræðissviptingu fylgdi
læknisvottorð B, geðlæknis á göngudeild Geðsviðs Landspítala
háskólasjúkrahúss, dags. 17. mars 2014. Í vottorði læknisins kemur fram að
varnaraðili hafi verið skjólstæðingur hans frá því í maí 2012. Varnaraðili eigi
langa sögu um þroskaröskun og hegðunarröskun og 7 ára gamall hafi hann verið
metinn af sálfræðingi greindarskertur [...] og jafnframt reynst með ofvirknisröskun. Varnaraðili hafi síðan komið inn á BUGL í
fyrsta skipti 9 ára gamall og þá verið greindur með þráhyggju og áráttu.
Á sextánda ári hafi hann verið lagður
inn á BUGL í geðrofi og síðan aftur í ágúst 2001 í geðrofsástandi, mjög veikur
með ranghugmyndir, svefntruflanir, hömlulaus og ógnandi. Eftir að varnaraðili
var 18 ára gamall hafi hann alls verið vistaður 5 sinnum á geðdeild og síðast í
nóvember fram í desember á árinu 2013. Varnaraðili hafi í öll skiptin verið í
geðrofi með miklar ranghugmyndir, árásargjarn og hömlulaus. Samhliða alvarlegri
geðhvarfasýki með geðrofi hafi varnaraðili verið mikill fíkill, notað amfetamín
og kannabisefni og drukkið mikið áfengi. Þá hafi varnaraðili verið hömlulaus í
allri hegðun, illa fylgt reglum og verið uppvöðslusamur og árásargjarn.
Frá miðju ári 2013 hafi varnaraðili
dvalið í sértækum kjarna fyrir einstaklinga með þroskahömlun, geðræn vandamál
og vímuefnavanda og verið á köflum erfiður, ör, með ranghugmyndir og
svefntruflanir. Einnig hafi hann verið með ógnandi tilburði við starfsfólk. Á
síðustu mánuðum hafi tekist að ná betri tökum á varnaraðila og hann sé nú á
forðasprautum til að hindra frekara geðrof. Varnaraðili sé áfram mjög
dómgreindarlaus og kunni ekkert með fé að fara né fótum sínum forráð. Ef hann
væri frjáls myndi hann eyða öllu og strax lenda í vondum félagsskap sem myndi
gera stöðu hans mjög slæma.
Niðurstaða B geðlæknis er sú að
nauðsynlegt sé að svipta varnaraðila áfram lögræði, sjálfræði til að tryggja
megi honum áframhaldandi þjónustu og búsetuúrræði, og fjárræði til að halda
utan um fjármál hans svo hann eyði ekki öllu fé sínu. B kvað varnaraðila oft
neita að taka lyf og telur að ekki sé hægt að treysta honum til að taka þau lyf
sem honum eru nauðsynleg. Sá árangur sem náðst hafi nú sé því að þakka að séð
hafi verið til þess að hann fengi lyfin, en varnaraðili sé mjög innsæislaus á
veikindi sín. Þá telur B að lögræðissviptingin eigi að vera ótímabundin.
B geðlæknir gaf símaskýrslu í dómi,
gerði frekari grein fyrir veikindum varnaraðila og staðfesti vottorð sitt og
lagði áherslu á að lögræðissvipting væri nauðsynleg til að tryggja velferð
varnaraðila og að hann gæti áfram notið þess búsetuúrræðis sem hann hefði í
dag.
Varnaraðili kom fyrir dóm og kvaðst
ánægður með búsetuúrræði sitt, en kvaðst leggjast gegn fram kominni beiðni.
Varnaraðili kvaðst myndi taka þau lyf sem honum bæri að taka en stundum færi
það í taugarnar á honum að taka lyf og þá væri hann einnig mótfallinn því að
taka lyf. Varnaraðili kvaðst ósáttur við að lögráðamaður skammtaði sér naumt fé
sem væri 15.000 kr. á viku og það dygði illa fyrir mat. Varnaraðili kvaðst
þurfa að hafa heimild til að taka út það fé sem hann hefði fengið í arf eftir
móður sína til þess að geta veitt sér ýmislegt, eins og t.d. utanlandsferðir.
Verjandi varnaraðila kvaðst telja að ekki hefði verið sýnt fram á
nauðsyn áframhaldandi lögræðissviptingar varnaraðila og skilyrði fyrir henni
væru ekki uppfyllt. Til vara krafðist verjandi þess að sviptingunni yrði
markaður skemmri tími og þá sérstaklega með hliðsjón af þeim árangri sem orðið
hefði af meðferð varnaraðila.
Niðurstaða
Í ljósi þess sem rakið hefur verið og fyrirliggjandi gagna
telur dómari að sýnt hafi verið fram á með óyggjandi hætti að skilyrði 1. mgr.
5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. a- og b-lið 4. gr. sömu laga séu til
staðar. Geðlæknir, sem staðfesti framlagt vottorð sitt, gerði grein fyrir
framhaldi nauðsynlegrar meðferðar varnaraðila vegna alvarlegra veikinda hans og
lýsti þeirri afdráttarlausu skoðun sinni að viðeigandi meðferð yrði ekki komið
við nema varnaraðili yrði sviptur lögræði þar sem honum væri engan veginn
treystandi til að halda áfram að taka nauðsynleg lyf og varnaraðili væri með
lítið innsæi í veikindi sín. Ekki yrði með öðrum hætti tryggt að hann nyti áfram
þess búsetuúrræðis sem varnaraðili hefði í dag og velferð varnaraðila yrði að
öðrum kosti stefnt í hættu. Varnaraðili væri allsendis ófær um að gæta fjármuna
sinna. Hann taldi að svipta ætti varnaraðila lögræði ótímabundið en krafa er
gerð um lögræðissviptingu í tvö ár. Verður að telja að með þeirri kröfugerð
sóknaraðila sé gætt meðalhófs og því ekki efni til að marka sviptingu lögræðis
skemmri tíma en krafist er.
Með vísan til afdráttarlauss
læknisvottorðs, vættis B geðlæknis og langrar sjúkrasögu varnaraðila, og með
velferð hans og hagsmuni í huga, verður varnaraðili sviptur lögræði, bæði
fjárræði og sjálfræði, í tvö ár vegna alvarlegra veikinda sinna.
Allur málskostnaður greiðist úr
ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga, þar með talin þóknun skipaðs verjanda
varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., eins og í úrskurðarorði
greinir.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari
kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt. [...], til
heimilis [...], er sviptur lögræði, sjálfræði og fjárræði, tímabundið í 2 ár
frá deginum í dag að telja.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, að
fjárhæð 119.225 kr., greiðist úr ríkissjóði. Tillit hefur verið tekið til
virðisaukaskatts.