Hæstiréttur íslands
Mál nr. 204/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Aðfarargerð
- Eignarnám
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. mars 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að nánar greind landsréttindi í óskiptu landi jarðarinnar Heiðarland Vogajarða á Vatnsleysuströnd yrðu tekin úr vörslum varnaraðila með beinni aðfarargerð og fengin sér. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að aðfararbeiðni sóknaraðila fullnægi þeim skilyrðum, sem gerð eru til forms slíkrar beiðni í 1. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989.
Eins og greinir í úrskurðinum gerir sóknaraðili kröfu um að sér verði fengin umráð áðurgreindra landsréttinda með beinni aðfarargerð á grundvelli 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms með skírskotun til ákvörðunar iðnaðar- og viðskiptaráðherra 24. febrúar 2014 þar sem sóknaraðila var heimilað með vísan til raforkulaga nr. 65/2003 að framkvæma eignarnám vegna lagningar háspennulínu, svonefndrar Suðurnesjalínu, um óskipt land jarðarinnar Heiðarland Vogajarða sem er í eigu varnaraðila. Er krafa sóknaraðila jafnframt byggð á úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta 30. júlí 2015 um hæfilegar bætur fyrir eignarréttindin til handa varnaraðilum.
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 verða þau réttindi gerðarbeiðanda, sem hann tjáir sig eiga, að vera svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verður eftir 83. gr. laganna. Þótt svo sé fyrir mælt í 60. gr. stjórnarskrárinnar, að enginn geti komið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málinu til dóms, hafa varnaraðilar fært fyrir því rök, sem ekki verður augljóslega vísað á bug, að heimild sóknaraðila til eignarnáms þess, sem hér um ræðir, fái ekki staðist að lögum og borið þann ágreining undir dómstóla. Héraðsdómur í því máli var kveðinn upp 30. júní 2015 og hefur málinu verið áfrýjað til Hæstaréttar þar sem fyrirhugað er að flytja það 20. apríl 2016. Sökum þess að heimild sóknaraðila til eignarnáms er sem fyrr segir ekki vafalaus og endanlegrar úrlausnar dómstóla um lögmæti hennar er að vænta innan skamms verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Landsnet hf., greiði varnaraðilum, Reykjaprenti ehf., Ólafi Þór Jónssyni og Sigríði Jónsdóttur, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. mars 2016.
Mál þetta, sem barst dóminum 10. nóvember 2015, var tekið til úrskurðar 18. febrúar 2016. Gerðarbeiðandi er Landsnet hf., Gylfaflöt 9, Reykjavík. Gerðarþolar eru Reykjaprent ehf., Síðumúla 14, Reykjavík, Sigríður Jónsdóttir, Hvassaleiti 56, Reykjavík, og Ólafur Þór Jónsson, Sléttuvegi 31, Reykjavík.
Dómkröfur gerðarbeiðanda eru þær að eftirgreind landsréttindi verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda: Samtals 6,957 hektarar lands gerðarþola í óskiptu landi Heiðarlands Vogajarða á Vatnsleysuströnd, landnr. 206748, sem gerðarbeiðanda var heimilað að taka eignarnámi með eignarnámsákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra, dags. 24. febrúar 2014, undir 4.463 metra langt og 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 476 metra langa og 6 metra breiða vegslóða, 13 burðarmöstur og 1 hornmastur, sem nánar er afmarkað á fylgiskjali 3.
Gerðarþolar krefjast þess að aðfararbeiðni gerðarbeiðanda verði hafnað. Verði fallist á beiðni gerðarbeiðanda krefjast gerðarþolar þess að kveðið verði á um að málskot til Hæstaréttar fresti aðfarargerð á hendur þeim þar til endanlegur dómur réttarins gengur. Þá gera gerðarþolar kröfu um málskostnað.
I.
Málsatvik eru þau að með beiðni 20. febrúar 2013 fór gerðarbeiðandi þess á leit við atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að gerðarbeiðanda yrði heimilað að taka eignarnámi tiltekin réttindi í óskiptu landi jarðarinnar Heiðarland Vogajarða á Vatnsleysuströnd, í þágu hluta Suðurnesjalínu 2, á grundvelli 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Um er að ræða háspennulínu sem fyrirhugað er að reisa milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar.
Með ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra 24. febrúar 2014 var gerðarbeiðanda heimilað að „framkvæma eignarnám vegna lagningar 220 kV háspennulínu (Suðurnesjalínu 2) á landi undir 4.463 metra langt og tæplega 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 476 metra langa og 6 metra breiða vegslóða, 13 burðarmöstur og 1 hornmastur, samanber yfirlitskort af jörðinni Heiðarland Vogajarða í fylgiskjali 1 við framlagða eignarnámsbeiðni, dags. 20. febrúar 2013. Eignarnámið er heimilað til ótímabundinna afnota fyrir Landsnet hf.“ Í þessu skyni skyldi kvöð verða þinglýst á jörðina. Með henni fylgdi að óheimilt væri að koma fyrir mannvirkjum á 46 metra breiðu belti undir og við línuna. Einnig var Landsneti heimilað að leggja 476 metra langan vegslóða að línunni.
Í kjölfar ákvörðunar ráðherra fór gerðarbeiðandi þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að meta til fjár endurgjald það sem gerðarbeiðandi skyldi greiða gerðarþolum fyrir hin eignarnumdu landsréttindi, sbr. 4. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Í úrskurði 30. júlí 2015 í máli nr. 8/2014 var það mat nefndarinnar að hæfilegar bætur væru 45.628.180 kr., auk málskostnaðar.
II.
Í aðfararbeiðni segir að gerðarbeiðandi geri kröfu um að eftirgreindir eignarhlutir gerðarþola verði afhentir honum:
Nafn gerðarþola: Samtals ha:
Reykjaprent ehf. 4,897
Sigríður Jónsdóttir 1,030
Ólafur Þór Jónsson 1,030
Gerðarbeiðandi byggir á því að samkvæmt 13. gr. laga nr. 11/1973 um eignarnám geti eignarnemi, þegar mat liggur fyrir, tekið umráð eignarnumins verðmætis gegn greiðslu matsfjárhæðar og kostnaðar af mati. Með bréfi lögmanns gerðarbeiðanda 18. ágúst 2015 til lögmanns gerðarþola hafi verið óskað eftir upplýsingum um reikningsnúmer vegna greiðslu eignarnámsbóta og kostnaðar. Í bréfi lögmanns gerðarþola 25. ágúst 2015 hafi komið fram að gerðarþolar myndu ekki veita gerðarbeiðanda umráð hins eignarnumda lands nema þar til bærir aðilar heimiliðu aðför, sbr. 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Afstaða gerðarþola sé sú að afhenda ekki hið eignarnumda land fyrr en niðurstaða liggi fyrir í dómsmáli sem gerðarþolar hafa höfðað á hendur gerðarbeiðanda um ógildingu eignarnámsákvörðunar ráðherra. Með dómi 30. júní 2015 hafi héraðsdómur hafnað kröfum gerðarþola um ógildingu eignarnámsins. Dóminum hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar en það fresti á engan hátt réttaráhrifum eignarnámsins. Gerðarbeiðandi þurfi að fá hið eignarnumda land sem fyrst, enda hafi hann fengið útgefið framkvæmdaleyfi í öllum sveitarfélögum á línuleiðinni.
Gerðarbeiðandi kveðst hafa greitt bætur inn á geymslureikning samkvæmt heimild í lögum nr. 9/1978, en í 1. gr. laganna segir að hver sá sem eigi að inna af hendi peningagreiðslu en fái ekki greitt kröfueiganda vegna aðstæðna eða atvika sem kröfueigandi beri ábyrgð á geti fullnægt greiðsluskyldu sinni með því að greiða skuldina á geymslureikning í viðskiptabanka eða sparisjóði.
Gerðarbeiðandi byggir á því að enginn ágreiningur sé um það að lögformleg heimild gerðarbeiðanda liggi fyrir. Afstaða gerðarþola sé engu að síður sú að andlagið verði ekki afhent gerðarbeiðanda nema með beinni aðfarargerð. Gerðarbeiðanda sé því nauðugur einn sá kostur að krefjast úrskurðar um að umrædd réttindi verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslu gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda. Ekki verði séð að neinar varnir geti komið sem hindri rétt gerðarbeiðanda.
III.
Gerðarþolar byggja á því í greinargerð sinni að hvorki form- né efnisskilyrði fyrir aðfararbeiðninni séu uppfyllt. Um skort á formskilyrðum vísa gerðarþolar til 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, þar sem m.a. séu fyrirmæli um að í aðfararbeiðni skuli koma fram, svo ekki verði um villst, við hverja heimild hún styðst. Í aðfararbeiðni sé hvergi að finna tilvísun til þeirra lagaheimilda sem gerðarbeiðandi styður beiðni sína við. Ekki sé að finna eina einustu tilvísun til laga um aðför. Gerðarþolar eigi því mjög örðugt með að setja fram varnir sínar. Telja gerðarþolar hafið yfir vafa að aðfararbeiðni málsins fullnægi ekki skilyrðum 10. gr. laga um aðför, sbr. og f-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þessari ástæðu beri að hafna beiðni gerðarbeiðanda.
Gerðarþolar byggi jafnframt á því að framsetning kröfugerðar gerðarbeiðanda uppfylli ekki áskilnað 72. gr. aðfararlaga, sbr. 1. mgr. 78. gr. laganna. Af ákvæðunum leiði að krafa gerðarbeiðanda um beina aðför verði að vera í þeim búningi að þess sé krafist að „sýslumaður“ taki umráð af gerðarþolum, enda standi ekki heimild í tilvitnuðum ákvæðum til annars. Krafa gerðarbeiðanda sé hins vegar á þá leið að krafist er dómsúrskurðar um að tiltekin landsréttindi verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda, án þess að tilgreint sé hverjum eigi að fela framkvæmd aðfararbeiðninnar. Slík krafa uppfylli sýnilega ekki fyrirmæli d-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, þar sem mælt sé fyrir um skýrleika krafna.
Með vísan til framangreinds telja gerðarþolar ljóst að stórkostlegir formgallar séu á aðfararbeiðni gerðarbeiðanda og gerðarþolum sé ómögulegt að verjast málatilbúnaði gerðarbeiðanda og undirbúa efnislegar varnir. Framsetning aðfararbeiðninnar fullnægi auk þess ekki réttarfarskröfum einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. d- og f-lið 1. mgr. 80 gr. laga um meðferð einkamála, sbr. og 1. mgr. 84. gr. aðfararlaga. Telja gerðarþolar að af þessum sökum verði ekki hjá því komist að hafna beiðni gerðarbeiðanda í heild sinni á grundvelli 1. mgr. 10. gr., 13. gr. og 78. gr. aðfararlaga. Að öðrum kosti gefist gerðarþolum ekki sanngjarn kostur á að verjast beiðninni.
Gerðarþolar telja að hvað sem formgöllum líði sé ekki unnt að fallast á aðfararbeiðni gerðarbeiðanda á meðan verulegur vafi leiki á um lagagrundvöll þeirrar framkvæmdar er liggi beiðninni að baki. Gerðarþolar vísa til þess að þeir hafi skotið eftirfarandi ágreiningsefnum er varða framkvæmdina til dómstóla: 1) Dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. júní 2015 í málum nr. E-2012/2014, E-2073/2014, E-2624/2014 og E-2625/2014, um lögmæti ákvarðana atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 24. febrúar 2014 um eignarnám á jörðum gerðarþola, hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnum 7. ágúst 2015, sbr. mál nr. 511/2015, 512/2015, 513/2015 og 541/2015. Gagnaöflun málsins í Hæstarétti sé lokið og bíði málið munnlegs málflutnings. 2) Dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. október 2015 í máli nr. E-1051/2014 um lögmæti ákvörðunar Orkustofnunar frá 5. desember 2013 hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnu 30. nóvember 2015, sbr. mál 706/2015. Ákvörðunin varði leyfisveitingu Orkustofnunar til handa gerðarbeiðanda til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2. Gerðarþoli hafi skilað Hæstarétti greinargerð sinni 13. janúar sl. 3) Ákvörðun Sveitarfélagsins Voga frá 25. febrúar 2015 um að veita gerðarbeiðanda framkvæmdaleyfi vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 hafi verið borin undir Héraðsdóm Reykjaness með réttarstefnu, dags. 3. nóvember 2015. Fallist hafi verið á að málið sæti flýtimeðferð á grundvelli 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Auk framangreindra mála séu rekin mál á stjórnsýslustigi fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála um lögmæti útgefinna framkvæmdaleyfa í Hafnarfjarðarbæ, Sveitarfélaginu Vogum, Grindavíkurbæ og Reykjanesbæ, bæði af hálfu gerðarþola og annarra hagsmunaðila. Að mati gerðarþola er ótækt að gerðarbeiðanda verði veitt umráð lands meðan dómstólar og úrskurðarnefndir hafa til umfjöllunar lögmæti eignarnáms, framkvæmdaleyfis og ákvörðunar Orkustofnunar.
Gerðarþolar segja að mál þessi varði öll kjarnaatriði eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar um almenningsþörf og meðalhóf. Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sé eignarrétturinn friðhelgur. Gerðarþolar telja framangreindar ákvarðanir haldnar verulegum form- og efnisannmarka og óhjákvæmilegt sé að fella þær úr gildi. Af þessum sökum sé afar brýnt að fá úrlausn dómstóla um það hvort umrædd framkvæmd, sem skerði eignarréttindi gerðarþola, hafi sætt lögmætu undirbúningsferli og hvíli á lögmætum grunni. Það hljóti að vera réttur þeirra að fá niðurstöðu um slíkt áður en gerðarbeiðandi fái umráð og hefjist handa við óafturkræfar framkvæmdir á eignarlandi gerðarþola. Sú staða gæti komið upp að dómstólar myndu komast að þeirri niðurstöðu að framangreindar ákvarðanir séu reistar á ólögmætum grundvelli en að óafturkræft jarðrask væri þá þegar yfirstaðið á landi gerðarþola.
Þá byggja gerðarþolar á því að skilvirkur aðgangur að dómstólum og réttur til raunhæfrar endurskoðunar á úrskurðum stjórnvalda njóti einnig stjórnarskrárverndar og verndar mannréttindasáttmálans, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmálans. Gerðarþolar eigi rétt á því að fá úrlausn dómstóla um lögmæti framangreindra ákvarðana. Að öðrum kosti verði að engu gerð þau réttindi gerðarþola að geta leitað til dómstóla til þess að fá skorið úr um lögmæti íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana sem að þeim beinast. Ekki sé heldur útilokað að í áðurnefndum dómsmálum muni dómendur vilja ganga á vettvang til þess að skoða aðstæður. Mikilvægt sé að vettvangsgöngur fari fram áður en óafturkræf spjöll séu unnin á landinu.
Auk þessa fáist ekki séð að það myndi vera gerðarbeiðanda íþyngjandi að þurfa að bíða niðurstöðu dómstóla og stjórnvalda um framangreind álitaefni. Í þessu sambandi bendir gerðarþoli á að undirbúningur að lagningu Suðurnesjalínu 2 hafi staðið yfir í langan tíma, eða allt frá árinu 2007. Álit Skipulagsstofnunar vegna framkvæmdarinnar hafi legið fyrir í september 2009, en gerðarbeiðandi hafi þó ekki hafið samningaviðræður við gerðarþola fyrr en á árinu 2011. Seint á árinu 2012 og snemma árs 2013 hafi gerðarbeiðandi sótt um leyfi til Orkustofnunar og heimild til eignarnáms. Athafnir gerðarbeiðanda sjálfs bendi því ekki til að nauðsyn standi til þess að hann fái umráð landsins nokkrum vikum eða mánuðum áður en dómstólar komast að niðurstöðu um lögmæti áformanna.
Samkvæmt framanrituðu telja gerðarþolar það í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og meðalhófsreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar að veita gerðarbeiðanda umráð landsins. Af þeim sökum sé óhjákvæmilegt annað en að synja aðfararbeiðninni með vísan til þess að varhugavert sé að hún fari fram í skilningi 3. mgr. 83. gr. aðfararlaga.
Um lagarök vísa gerðarþolar til 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá vísast, eftir því sem við á, til ákvæða laga nr. 90/1989 um aðför og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Krafa gerðarþola um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989.
IV.
Í máli þessu byggja gerðarþolar á því að ekki séu fyrir hendi formskilyrði til að fallast á kröfu gerðarbeiðanda. Í aðfararbeiðni gerðarbeiðanda kemur skýrt fram hvers er krafist með aðfarargerð og fullnægir kröfugerð gerðarbeiðanda formskilyrðum 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í aðfararbeiðninni er um heimild til aðfarargerðar vísað til sérreglu 13. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, sem kveður á um heimild til að beita beinni aðfarargerð, og í kröfugerð gerðarbeiðanda kemur skýrt fram að krafist er „beinnar aðfarargerðar“. Að þessu virtu og þar sem gerðarþolar virðast ekki hafa átt í vandræðum með að taka til varna í málinu leiðir sá annmarki á aðfararbeiðni gerðarbeiðanda að vísa ekki til ákvæða í lögum nr. 90/1989 ekki til þess að kröfu gerðarbeiðanda verði hafnað.
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 verður krafa gerðarbeiðanda að vera svo ljós að hægt sé að sanna réttindi hans með þeim gögnum sem verður aflað samkvæmt 83. gr. laganna, þ.e. með sýnilegum sönnunargögnum. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laganna skal að jafnaði hafna aðfararbeiðni ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga. Þannig veldur vafi um réttmæti kröfu gerðarbeiðanda því að synja ber um aðför.
Gerðarbeiðandi reisir kröfu sína á ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 24. febrúar 2014, þar sem heimilað var að framkvæma eignarnám vegna lagningar háspennulínu á landi gerðarþola, og úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 8/2014 þar sem metnar voru bætur til gerðarþola. Ágreiningur er um téða ákvörðun ráðherra. Einnig er ágreiningur um lögmæti ákvörðunar Orkustofnunar frá 5. desember 2013 til handa gerðarbeiðanda til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2 og einnig um ákvörðun Sveitarfélagsins Voga frá 25. febrúar 2015 um að veita gerðarbeiðanda framkvæmdaleyfi vegna lagningar línunnar. Úr þessum ágreiningi verður ekki leyst í aðfararmáli þessu. Að mati dómsins er að svo stöddu varhugavert að fallast á kröfu gerðarbeiðanda, sem myndi hafa í för með sér óafturkræf umhverfisáhrif, meðan ekki hefur verið endanlega leyst úr ágreiningi um framangreindar ákvarðanir fyrir dómstólum. Af þessu, ásamt e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, leiðir að ekki er ástæða til að fjalla um þær málsástæður sem teflt var fram af hálfu gerðarþola við munnlegan flutning málsins til viðbótar því sem fram kemur í greinargerð þeirra, um að krafa gerðarbeiðanda gangi mun lengra en leiða má af ákvörðun ráðherra frá 24. febrúar 2014 og að krafa gerðarbeiðanda sé ekki í samræmi við meginreglur um sérstaka sameign.
Samkvæmt framansögðu er kröfu gerðarbeiðanda um aðför hafnað.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, verður gerðarbeiðanda gert að greiða gerðarþola málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar verður litið til þess að vinna lögmanns gerðarþola í þessu máli nýtist jafnframt í málum nr. A-351/2015, A-352/2015 og A-353/2015. Er málskostnaður hæfilega ákveðinn 65.000 krónur til hvers gerðarþola um sig.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Hafnað er kröfu gerðarbeiðanda, Landsnets hf., um að eftirgreind landsréttindi verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda: Samtals 6,957 hektarar lands gerðarþola í óskiptu landi Heiðarlands Vogajarða á Vatnsleysuströnd, landnr. 206748, sem gerðarbeiðanda var heimilað að taka eignarnámi með eignarnámsákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra, dags. 24. febrúar 2014, undir 4.463 metra langt og 46 metra breitt háspennulínubelti, samtals 476 metra langa og 6 metra breiða vegslóða, 13 burðarmöstur og 1 hornmastur, sem nánar er afmarkað á fylgiskjali 3.
Gerðarbeiðandi greiði gerðarþolum, Reykjaprenti hf., Sigríði Ólafsdóttur og Ólafi Þór Jónssyni, hverjum um sig 65.000 krónur í málskostnað.