Hæstiréttur íslands

Mál nr. 285/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Föstudaginn 9. maí 2014.

Nr. 285/2014.

 

Sigurður Pétur Hauksson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf. og

Halldóri Helga Backman

(Hákon Árnason hrl.)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfum S á hendur V hf. með skírskotun til þess að málsóknarreglur 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga giltu ekki vegna tjónsatvika sem urði fyrir gildistöku laganna, sbr. dóm Hæstaréttar 10. janúar 2007 í máli nr. 651/2006.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. apríl 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2014 þar sem vísað var frá dómi kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðilanum Vátryggingafélagi Íslands hf. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til dóms Hæstaréttar 10. janúar 2007 í máli nr. 651/2006 verður fallist á það með varnaraðilum að málsóknarreglur 44. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga gildi ekki vegna tjónsatviks sem varð fyrir gildistöku laganna 1. janúar 2006. Þá breytir engu þótt varnaraðilinn Vátryggingafélag Íslands hf. hafi í bréfum sínum til sóknaraðila vísað til laganna. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann veg sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

 

 

Dómsorð:

Málinu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar varnaraðilann Vátryggingafélag Íslands hf.

Sóknaraðili, Sigurður Pétur Hauksson, greiði varnaraðilum, Vátryggingafélagi Íslands hf. og Halldóri Helga Backman, 125.000 krónur hvorum um sig í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2014.

                Mál þetta höfðaði Sigurður Pétur Hauksson, kt. [...], Leirubakka 12, Reykjavík, með stefnu birtri 12. nóvember 2013, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. [...], Ármúla 3, Reykjavík, og Halldóri Helga Backman, kt. [...], Perlukór 12, Kópavogi.  Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda Vátryggingafélags Íslands 13. mars sl. 

                Í málinu krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd óskipt til greiðslu skaða­bóta.  Aðallega krefst hann greiðslu 65.000.000 króna, til vara 41.900.000 króna, til þrautavara 25.000.000 króna, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum frá 14. maí 2002. 

                Stefndu krefjast báðir sýknu.  Stefndi Vátryggingafélag Íslands krefst þess aðallega að kröfum á hendur sér verði vísað frá dómi.  Þá krefst þessi stefndi máls­kostnaðar. 

                Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu verði hafnað.  Þá krefst hann máls­kostnaðar sérstaklega í þessum þætti. 

                Málið höfðar stefnandi til heimtu skaðabóta úr hendi stefnda Halldórs, sem vann nokkur verkefni fyrir hann sem lögmaður, og stefnda Vátryggingafélags Íslands sem ábyrgðartryggjanda meðstefnda. 

                Upphaf málsins er á árinu 1991 er Íslandsbanki hóf að innheimta skuldir hjá stefnanda vegna einkafyrirtækis hans.  Fasteign stefnanda við Kirkjubraut á Akranesi var seld á nauðungaruppboði í febrúar 1992.  Í kjölfarið krafðist bankinn þess að bú stefnanda  yrði tekið til gjaldþrotaskipta.  Var svo gert með úrskurði skiptaréttar Akraness 14. maí 1992.  Skiptum var lokið 30. september 1996. 

                Í maí 2001 höfðaði stefnandi mál á hendur Íslandsbanka.  Því máli lauk með Hæstaréttardómi 15. apríl 2003.  Þar var fallist á tiltekna niðurfærslu skulda hans við bankann, vegna þess að fasteignin við Kirkjubraut var talin hafa verið lögð bankanum út á lægra verði en sannvirði. 

                Stefnandi höfðaði annað mál á hendur bankanum með stefnu er birt var 14. maí 2002.  Í því máli krafðist hann skaðabóta vegna þess að ekki hefðu verið skilyrði til þess af hálfu bankans að krefjast gjaldþrotaskipta á búi hans á árinu 1992.  Lauk því máli ekki fyrr en með Hæstaréttardómi 10. nóvember 2011.  Segir svo í dóminum: 

„... krafa stefnda um gjaldþrotaskipti á búi áfrýjanda var komin til skiptaráðandans á Akranesi fyrir 13. maí 1992.  Fallist verður á forsendur héraðsdóms um að miða beri upphafsdag fyrningarfrests skaðabótakröfu, sem reist er á 2. mgr. 20. gr. þágildandi gjaldþrotalaga nr. 6/1978, við þann dag er gjaldþrotaskipta er krafist en ekki við úrskurðardag um gjaldþrot eins og áfrýjandi heldur fram.  Fyrningarfrestur kröfunnar var 10 ár samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.  Áfrýjandi hafði ekki uppi ráðstafanir sem samkvæmt lögum geta rofið fyrningu kröfunnar fyrr en hann lét birta stefnu í máli þessu.  Krafa áfrýjanda, hafi hún verið fyrir hendi að einhverju leyti, var því fyrnd þegar málið var höfðað.  Verður hinn áfrýjaði dómur því þegar af þessari ástæðu staðfestur.“

                Stefndi Halldór annaðist fyrra málið fyrir stefnanda og hið síðara fyrst í stað, en hætti að vinna fyrir hann á árinu 2003. 

                Stefnandi telur að stefndi Halldór hafi valdið sér tjóni með því að höfða málið of seint.  Beri hann skaðabótaábyrgð á þessari vanrækslu.  Stefnir hann Halldóri og Vátryggingafélagi Íslands saman til að þola dóm í málinu. 

                Stefndi Vátryggingafélag Íslands byggir frávísunarkröfu sína á því að ekki séu skilyrði til beinnar aðildar félagsins að málinu.  Ákvæði 44. gr. laga nr. 30/2004 verði ekki beitt hér þar sem atvik málsins hafi gerst fyrir gildistöku laganna.  Tjónsatvikið sem um sé deilt hafi gerst fyrir 14. maí 1992.  Þá hafi gilt lög nr. 20/1954.  Samkvæmt 95. gr. þeirra laga öðlist tjónþoli fyrst rétt á hendur félaginu þegar skaðabótaskylda vá­tryggðs hafi verið staðfest og upphæð skaðabóta ákveðin.  Þessum skilyrðum sé ekki fullnægt í þessu máli.  Því verði að vísa málinu frá dómi samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. 

                Stefnandi mótmælir því að kröfum á hendur Vátryggingafélagi Íslands verði vísað frá dómi.  Hann bendir á að í bréfi félagsins 10. maí 2012, þar sem svarað hafi verið kröfubréfi hans, sé vísað til laga nr. 30/2004.  Þá hafi úrskurðarnefnd samkvæmt 141. gr. laganna fjallað um kröfu þá sem höfð sé uppi í þessu máli.  Þá hafi nefndin viðurkennt kröfu stefnanda.  Loks hafi félagið, með tölvupósti 8. nóvember 2013, þar sem erindi stefnanda um málshöfðun var svarað, óskað eftir því að Halldóri Backman yrði stefnt til hliðar við félagið, ekki einungis til vara.  Hafi ekki verið gerð nein athugasemd við að félaginu yrði stefnt til beinnar aðildar. 

                Niðurstaða

                Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir tjóni með því að krafa er hann hafi átt á hendur Íslandsbanka hafi fallið niður fyrir fyrningu.  Orsök þess telur hann vanrækslu stefnda Halldórs Backman.  Eins og fram kemur í framangreindum dómi Hæstaréttar var krafan fyrnd fyrir 13. maí 2002.  Hafi stefnandi átt kröfu á hendur bankanum féll hún niður þá.  Meint tjón sem krafið er um í þessu máli varð er krafan á hendur bankanum féll niður fyrir fyrningu.  Verður í skaðabótamáli vegna þessa tjóns að fara eftir þeim lögum sem voru í gildi í maí 2002.  Lög nr. 30/2004 höfðu ekki tekið gildi, þannig að fara verður eftir reglum laga nr. 20/1954.  Ákvæði 146. gr. laga nr. 30/2004 leiðir einungis til þess að lögunum verði beitt um samninga er í gildi voru þegar lögin tóku gildi, en ekki til þess að þeim verði beitt um atvik er gerðust fyrir gildistökuna. 

                Ekki er hægt að fallast á það með stefnanda að krafa hans hafi verið viður­kennd í skilningi 95. gr. laga nr. 20/1954 með úrskurði Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.  Í úrskurðinum er einungis fallist á að vanrækt hafi verið að höfða mál á hendur Íslandsbanka, en ekki leyst úr því hvort stefnandi hafi á sínum tíma átt kröfu á hendur bankanum. 

                Þá hefur hið stefnda félag ekki fallist skýrlega á að lögum nr. 30/2004 skuli beitt í þessu tilviki, eða samþykkt að eiga beina aðild að málinu. 

                Þar sem ekki eru skilyrði til að höfða skaðabótamál þetta beint á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands, verður í samræmi við dómvenju að vísa kröfum á hendur félaginu frá dómi. 

                Stefnanda verður gert að greiða þessum stefnda 175.000 krónur í málskostnað.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Kröfum stefnanda, Sigurðar Péturs Haukssonar, á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., er vísað frá dómi. 

                Stefnandi greiði stefnda 175.000 krónur í málskostnað.