Hæstiréttur íslands

Mál nr. 69/2002


Lykilorð

  • Banki
  • Verðbréfaviðskipti
  • Samningur
  • Hlutafé


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. júní 2002.

Nr. 69/2002.

WSC eignarhaldsfélag hf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

 

Bankar. Verðbréfaviðskipti. Samningur. Hlutafé.

Í tók að sér sölu hluta í W á ákveðnu gengi og samið var um að kaupendur skyldu greiða álag á hvern seldan hlut tækist W að uppfylla tiltekin skilyrði. W, sem taldi sig hafa uppfyllt öll skilyrðin, krafðist síðar bóta úr hendi Í á þeim grundvelli að ekki hefði verið innheimt umrætt álag úr hendi kaupenda. Að atvikum málsins virtum þótti sýnt að W hefði ekki á umsömdum tíma lagt fram gögn því til staðfestu að hann hefði uppfyllt samning aðila um fyrrgreind skilyrði. Af 1. mgr. 15. gr. laga nr. 113/1996 um verðbréfaviðskipti var talið leiða, að Í hefði verið rétt og skylt að gefa þeim sem fjárfestu í hlutafé W allar upplýsingar um það hvernig gekk að uppfylla skilyrði samningsins og ekki var talið eins og á stóð, að Í hefði borið að reyna innheimtu viðbótargreiðslunnar. Var Í samkvæmt þessu sýknaður af kröfum W. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Haraldur Henrysson.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. febrúar 2002.  Hann gerir þá kröfu að stefndi greiði sér 28.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júlí 2000 til 30. júní 2001, en III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2001 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að dómkröfur verði verulega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram krefst áfrýjandi efndabóta af stefnda og reisir þá kröfu á samningi aðila 12. apríl 2000 um milligöngu stefnda um sölu hlutafjár fyrir sig að nafnvirði allt að 3.887.366 krónum. Gengi hlutanna var 10 krónur fyrir hverja einingu nafnverðs hlutafjár en auk þess áttu kaupendur að greiða 8 krónur til viðbótar fyrir hverja einingu nafnverðs tækist áfrýjendum að uppfylla þrjú nánar greind skilyrði fyrir 30. júní 2000. Samkvæmt málflutningi aðila hafði stefndi milligöngu um sölu hluta að nafnvirði 3.500.000 krónur, sem greitt var fyrir á genginu 10 krónur samkvæmt samningi aðila. Stefndi heldur því hins vegar fram að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrðum fyrir viðbótargreiðslunni hafi verið fullnægt og hann því ekki innheimt hana heldur kynnt kaupendum að skilyrðin hafi ekki verið efnd fyrir tilsettan tíma.

II.

Niðurstaða máls þessa ræðst af framangreindum samningi. Skilyrði hans fyrir viðbótargreiðslum fyrir hverja einingu nafnverðs hlutafjár voru þrjú og átti áfrýjandi að uppfylla þau öll fyrir 30. júní 2000, svo sem að framan greinir. Samkvæmt fyrsta skilyrðinu átti áfrýjandi að semja við einhvern nánar tilgreindra erlendra knattspyrnumanna um uppsetningu heimasíðu viðkomandi á vef áfrýjanda. Átti að fá knattspyrnumanninn til að leggja nafn sitt við auglýsingar á vefnum og taka þátt í kynningu á honum. Áfrýjandi hefur til staðfestingar þess að hann hafi efnt þetta skilyrði lagt fram samning frá 13. apríl 2000 við brasilíska knattspyrnumanninn Rivaldo Vitor Borba Ferreira. Samkvæmt samningum átti áfrýjandi meðal annars að leggja fram bankaábyrgð til tryggingar efndum sínum fyrir 1. júní 2000 en hann að öðrum kosti að falla niður. Óumdeilt er að bankaábyrgðin var ekki lögð fram á réttum tíma. Áfrýjandi heldur því fram að hann hafi fengið frest til þess að setja ábyrgðina og hefur því til styrktar lagt fram í málinu yfirlýsingu umboðsmanns knattspyrnumannsins frá 12. júlí 2000. Þetta breytir því ekki að 30. júní 2000 lá bankaábyrgðin ekki fyrir og hafði stefndi á þeim tíma ekkert í höndum því til staðfestu að hún myndi verða sett. Ábyrgð þessi hefur ekki enn verið verið lögð fram og hefur umboðsmaðurinn rift samningnum.

Annað skilyrðið varðaði saming milli áfrýjanda og UWin Network Operations Limitied um að það fyrirtæki legði fram tækniþekkingu við að gera heimasíðu áfrýjanda. Samningur þessi var ekki í höfn 30. júní 2000, en 11. júlí það ár var undirritaður samningur milli aðilanna, sem gilda átti aftur í tímann eða frá 29. júní. Samningur þessi byggðist á minnisblaði um „gagnkvæman skilning“ samningaðila frá 9. júní. Þótt svo ætti að heita að gengið hefði verið frá samningi 11. júlí átti eftir að semja um ýmis atriði og þeirra getið í viðauka við samninginn. Samningur þessi var því ekki frágenginn fyrr en eftir 30. júní 2000 og verður hann auk þess varla talinn fullfrágenginn í þeirri mynd sem hann er lagður fram.

Þriðja skilyrðið var að undirritaður yrði samningur við annaðhvort tveggja fyrirtækja um að ganga til samstarfs við áfrýjanda. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagður samningur um „Joint Venture Agreement“ milli dótturfélags áfrýjanda og Arete Global Sports Inc., sem var annað af þessum fyrirtækjum, um að stofna sameiginlegt félag til að setja upp vef áfrýjanda á portúgölsku og viðhalda honum. Áfrýjandi og stefndi deila um hvort samningur þessi uppfylli efnisskilyrði samnings þeirra.

Af framansögðu leiðir að áfrýjandi hafði ekki 30. júní 2000 lagt fram gögn því til staðfestu að hann hefði uppfyllt samning aðila um skilyrði fyrir viðbótargreiðslunum. Samkvæmt lokaákvæði 1. mgr. 44. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði gilda ákvæði laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti um þessi viðskipti bankans. Samningur aðila var gerður í samræmi við 17. gr. þeirra laga, en eftir 1. mgr. 15. gr. laganna skulu fyrirtæki í verðbréfaþjónustu gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart viðskiptamönnum sínum og haga störfum sínum þannig að viðskiptamenn njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör. Af lagaákvæði þessu leiðir að stefnda var rétt og skylt að gefa þeim sem fjárfestu í hlutafé áfrýjanda allar upplýsingar um það hvernig gekk að uppfylla skilyrði samningsins og verður ekki talið eins og hér stóð á að stefnda hafi borið að reyna innheimtu viðbótargreiðslunnar. Ber þegar af þessum ástæðum að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms og sýkna stefnda af kröfu áfrýjanda.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                         Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður nema um málskostnað.

Áfrýjandi, WSC eignarhaldsfélag hf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., alls 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2001.

I

Mál þetta var höfðað 11. maí sl. og tekið til dóms 31. október sl.

Stefnandi er WSC eignarhaldsfélag hf., Brautarholti 8, Reykjavík.

Stefndi er Íslandsbanki FBA hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 28.000.000 króna auk dráttarvaxta frá 1. júlí 2000 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar. 

Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar.  Þá er krafist málskostnaðar.

II

Málavextir eru þeir að með samningi 12. apríl 2000 tók Fjárfestingarbanki at­vinnu­lífsins hf., er síðar varð hluti af stefnda, að sér að hafa milligöngu um sölu hluta­fjár stefnanda að nafnvirði allt að 3.887.366 krónur.  Gengi hlutabréfanna var 10 krónur fyrir hverja einingu nafnverðs hlutafjár en kaupendur bréfanna áttu þó að greiða 8 krónur til viðbótar fyrir hverja einingu nafnverðs ef stefnanda tækist að uppfylla  þrjú skilyrði fyrir 30. júní 2000. 

Fyrsta skilyrðið var að gerður yrði samningur við einn af nánar tilgreindum níu knatt­spyrnumönnum um að opinber heimasíða hans á internetinu yrði sett upp á vef stefn­anda og að viðkomandi knattspyrnumaður legði nafn sitt við auglýsingar á vef stefn­anda og tæki þátt í kynningu á honum. 

Annað skilyrðið var að undirritaður yrði samningur á milli stefnanda og UWIN, sem er veðfyrirtæki, um að það legði fram tækniþekkingu við að koma veðbanka á heima­síðu stefnanda þar sem stefnandi nyti hlutfallslegs ávinnings af ágóða allra veðmála.

Þriðja skilyrðið var svo að undirritaður yrði samningur við T1 New Media um að T1 New Media gerðist samstarfsaðili stefnanda í Þýskalandi, setti upp vef stefnanda á þýsku og viðhéldi honum í a.m.k. þrjú ár eða að undirritaður yrði samningur við Arete Global Sports um að það gerðist samstarfsaðili stefnanda í Brasilíu, setti upp vef stefn­anda á portúgölsku og viðhéldi honum í a.m.k. þrjú ár.

Stefnandi kveður sig hafa uppfyllt þessi skilyrði.  Þannig hafi samningur verið und­irritaður við knattspyrnumanninn Rivaldo 13. apríl 2000.  Sá samningur hefði gert ráð fyrir að knattspyrnumanninum yrði sett bankaábyrgð fyrir 2 milljónum banda­ríkja­dala fyrir 1. júní 2000.  Þetta hafi stefnandi ekki gert, enda legið fyrir og stefnda um það kunnugt, að knattspyrnumaðurinn hafði fallið frá þessari kröfu og breytt henni á þann veg að ábyrgðin þyrfti að liggja fyrir fyrir 1. ágúst 2000.   Þetta hafi verið stað­fest í bréfi umboðsmanns hans 12. júlí 2000.  Bankaábyrgðin hafi aldrei verið for­senda þess að samningurinn tæki gildi heldur aðeins hluti af þeim skilmálum sem stefn­andi hafi orðið að mæta svo ekki yrði beitt vanefndaúrræðum samningsins.  Hefði stefn­andi ekki mætt þessari kröfu hefði hann átt það á hættu að knattspyrnumaðurinn segði samningum upp.  Sú hafi ekki orðið raunin fyrr en 12. febrúar 2001 en þá hafi um­boðsmaður hans tilkynnt um uppsögn  samningsins frá og með 15. mars 2001 ef ekki yrði gengið frá gjaldföllnum greiðslum og öðrum atriðum, sem hann taldi þá van­efnd.  Ekkert hafi þar verið vikið að bankaábyrgðinni en stefnandi hafi ekki getað mætt þessum kröfum og sé hann því núna fyrst án samnings við knattspyrnumanninn.

Samningur við UWIN hafi legið fyrir þegar um miðjan júní 2000 og hafði starfs­mönn­um stefnda verið kunnugt um hann og efni hans.  Af ástæðum, sem lutu að innri mál­efnum UWIN hafi hins vegar ekki verið hægt að undirrita samninginn fyrr en 11. júlí 2000.  Gildistíminn hafi hins vegar verið frá 29. júní 2000. 

Varðandi samninginn við T1 New Media eða við Arete Global Sports þá kveður stefn­andi óumdeilt að þessu skilyrði hafi verið mætt.

Stefnandi kveður að þrátt fyrir að stefndi hafi vitað um það að öllum skilyrðum samn­ingsins hafi verið mætt þá hafi hann ekki hirt um að innheimta yfirverð fyrir selda hluti.  Stefndi hafi selt hluti að nafnverði 3.500.000 krónur og hafi kaupendur þeirra átt að greiða til stefnda fyrir hönd stefnanda, auk upphaflega kaupverðsins, 8 krónur á hvern hlut eða 28.000.000 króna þann 1. júlí 2000 og er þetta stefnufjárhæð málsins.

 

Af hálfu stefnda eru ekki gerðar aðrar athugasemdir við framangreinda mála­vaxta­lýsingu en að benda á það, að þegar kom að því að stefnandi skyldi vera búinn að upp­fylla ofangreind skilyrði og innheimta skyldi viðbótarkaupverðið, hafði stefnandi ekki sýnt fram á að öllum ofangreindum skilyrðum væri fullnægt.  Samningurinn við knatt­spyrnumanninn, sem áskilinn var í samningi aðila, hafi verið fallinn úr gildi og samn­ingur milli stefnanda og UWIN hafi ekki legið fyrir.  Þessu til viðbótar hafi ýms­um öðrum skilyrðum ekki verið fullnægt.  Stefndi kveðst af þessum ástæðum ekki hafa innheimt viðbótarkaupverðið og tilkynnt stefnanda um þessa afstöðu sína 11. júlí 2000. 

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að samkvæmt framangreindum samningi hafi stefndi tekið að sér sölu hluta í stefnanda á genginu 10 krónur á hlut og innheimtu sölu­verðs hlutanna að viðbættu 8 króna álagi á hvern seldan hlut að vissum skilyrðum upp­fylltum.  Fyrir þennan starfa hafi stefndi áskilið sér 5% þóknun auk endurgreiðslu á kostnaði.  Stefndi hafi selt hluti að nafnverði 3.500.000 krónur til hóps fjárfesta, m.a. til eigin sjóðs sem hafi verið stærsti kaupandinn.  Stefndi hafi innheimt grunnverð hinna seldu hluta og skilað því til stefnanda að frádreginni þóknun og kostnaði.  Stefndi hafi hins vegar ekki hirt um að innheimta umsamið álag á kaupverðið úr hendi kaup­enda sem kræft hafi verið 1. júlí 2000 þar sem stefnandi hafði 30. júní s.á. mætt öll­um skilyrðum samningsins við stefnda.  Með þessu hafi stefndi í raun leyst kaup­end­urna undan skyldu þeirra til greiðslu álagsins.  Með þessu hafi stefndi vanefnt samn­ingsskyldu sína og í raun farið að vinna gegn hagsmunum stefnanda án þess að segja nokkru sinni samningi sínum við stefnanda upp.  Með þessu framferði hafi stefndi valdið stefnanda tjóni, annað hvort af ásetningi eða af stórkostlegu gáleysi, og beri honum því að bæta stefnanda tjón hans samkvæmt ákvæði í samningi aðila.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann geti ekki fengið hina umdeildu viðbótarþóknun greidda vegna háttsemi stefnda.  Þrátt fyrir að stefndi hafi með samningi tekið að sér milligöngu um sölu á hluta­bréfum þá hafi hann á engan hátt ábyrgst greiðslu frá væntanlegum kaupendum.  Þegar stefnandi taldi öllum skilyrðum fyrir viðbótargreiðslu hafa verið fullnægt hafi hann beint staðfestingarbréfi beint til kaupenda þar sem hann hafi skorað á þá að greiða viðbótarkaupverðið.  Eðlilegt hefði því verið, með hliðsjón af málatilbúnaði stefn­anda nú, að fylgja þeirri kröfu eftir með frekari aðgerðum þar sem greiðslur hafi ekki borist frá kaupendum.  Stefnandi hafi ekki krafið þá um greiðslur og sé því á engan hátt hægt að fullyrða hvort og þá að hve miklu leyti stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna neitunar stefnda á innheimtu viðbótarkaupverðs.  Stefndi hafi á engan hátt leyst kaupendurna undan hugsanlegri skyldu til greiðslu viðbótarkaupverðs þrátt fyrir að hann hafi, fyrir sitt leyti, talið að skilyrði til greiðslu þess hafi ekki verið uppfyllt.  Ekkert af hálfu stefnda hafi hindrað stefnanda í að innheimta greiðslu við­bót­ar­kaup­verðs hjá kaupendunum og verði þess vegna að sýkna stefnda, ef ekki alfarið þá í öllu falli að svo stöddu.

Í öðru lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að honum hafi eigi verið skylt að inn­heimta  viðbótarkaupverðið þar sem skilyrðum fyrir greiðslu þess hafi ekki verið full­nægt eins og áskilið var í samningi aðilanna.  Þessum skilyrðum hafi enn þann dag í dag ekki verið fullnægt. 

Samkvæmt 1. gr. samningsins bar stefnanda að gera samning við þar til greinda aðila fyrir ákveðinn tíma.  Þau skjöl sem stefnandi hafi lagt fram því til sönnunar að þessum skilyrðum hafi verið fullnægt bera öll með sér að stefnandi eigi ekki aðild að þeim.  Allir þeir samningar, sem lagðir hafa verið fram í málinu, bera það með sér að þeir voru gerðir við WSC, Inc., félag sem er skráð í Kaliforníu.  Eins og sjá megi af efni þessara samninga séu þeir óframseljanlegir og þau réttindi, sem fylgdu þeim, til­heyrðu því sannanlega ekki stefnanda málsins.  Þegar af þessari ástæðu sé augljóst að skil­yrðum fyrir greiðslu viðbótarkaupverðs hafi ekki verið fullnægt fyrir 30. júní 2000.

Verði ekki fallist á sýknu af framangreindum ástæðum þá bendir stefndi á að í samningi aðila hafi verið tilgreint að gera þyrfti samning fyrir 30. júní 2000 við einn af þeim knattspyrnumönnum, sem upp voru taldir í samningnum.  Ekki sé um það deilt að 13. apríl 2000 hafi verið gerður samningur við knattspyrnumanninn Rivaldo.  Þessi samningur hafi hins vegar fallið einhliða niður 1. júní sama ár þar sem stefnandi hafði ekki lagt fram bankaábyrgð eins og áskilið var í samningnum.  Samningurinn hafi þannig verið fallinn úr gildi 30. júní 2000 og vegna þessa verði að telja að skilyrði í samningi aðila hafi ekki verið uppfyllt að þessu leyti.  Þessu til viðbótar er á því byggt að samningurinn hefði þurft að vera skilyrðislaus hvað gildistöku varðar.  End­an­legur samningur hafi ekki getað komist á milli stefnanda og Rivaldo fyrr en öllum gild­isskilyrðum hafi verið fullnægt en þessu gildisskilyrði hafi aldrei verið fullnægt.  Þá bendir stefndi á að ekki hafi legið fyrir samningur á milli UWIN og stefnanda fyrir 30. júní 2000 eins og áskilið hafi verið í samningi aðila.  Ekki sé unnt að fallast á þá túlkun stefnanda að hann hafi uppfyllt þetta skilyrði með því að gera samning þann, sem liggur fyrir í málinu og gerður var 11. júlí 2000 með gildistíma frá 29. júní sama ár.  Þegar samningurinn var undirritaður, hafi skuldbinding til að greiða fyrrgreinda við­bót fyrir hverja einingu hlutafjár í stefnanda verið fallin niður og  breyti afturvirk ákvæði í öðrum samningi engu þar um.  Slíkur samningur geti ekki talist uppfylla skil­yrði í samningi aðila þar sem hann lá ekki fyrir áður en umsaminn frestur leið.  Þá er og byggt á því að samningur stefnanda og UWIN uppfylli ekki þau skilyrði sem áskil­in séu í samningi aðila.  Loks er byggt á því að samningur stefnanda við Arete Global Sports fullnægi ekki þeim skilyrðum sem samningur aðila um sölu hlutafjár setti fram.  Í því sambandi er einkum bent á að samkvæmt efni samningsins sé ekki gert ráð fyrir að Arete Global Sports setji upp vef stefnanda og viðhaldi honum í a.m.k. 3 ár.  Samkvæmt samningnum sé gert ráð fyrir að sett verði á stofn sérstakt “joint venture” fyrir­tæki á milli stefnanda og Arete Global Sports sem eigi að sjá um reksturinn á þessum vef en jafnframt geti samningstíminn orðið mun styttri en gert sé ráð fyrir í samn­ingi aðila um milligöngu sölu hlutafjár.

Enn fremur byggir stefndi á því að skuldbinding hans um innheimtu á við­bót­ar­kaup­verði hafi verið tímabundið loforð sem einungis hafi verið ætlað að gilda kæmi til þess að skilyrði til viðbótargreiðslu væri uppfyllt fyrir 30. júní 2000.  Réttaráhrif lof­orðs um innheimtu viðbótargreiðslu hafi þannig fallið niður á framangreindum tíma þar sem frestsskilyrði það, er mælt var fyrir um í samningi aðila, hafi ekki verið komið fram og réttaráhrif loforðsins um innheimtuna þannig fallin niður.

Loks er á því byggt að ekki sé um það að ræða að stefndi hafi verið um­boðs­maður stefnanda í hefðbundnum skilningi.  Stefndi hafi einungis verið að inna af hendi þjónustu sem honum sé heimil samkvæmt ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti og laga um viðskiptabanka og sparisjóði.  Sú skylda hvíli á fyrirtækjum í verð­bréfa­­þjón­ustu að gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart viðskiptamönnum sínum hverju sinni og gæta þess að aðilar njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og viðskiptakjör.  Stefndi hafði því ekki einungis ríkar skyldur gagnvart stefnanda heldur jafnframt gagnvart þeim aðilum sem voru kaupendur að þeim hlutabréfum sem hann hafði milligöngu um sölu á.  Þar sem óumdeilanlegt var að stefnandi hafði ekki uppfyllt öll skilyrði fyrir við­bótargreiðslu var stefnda rétt og skylt að halda að sér höndum og láta kaupendur og seljanda leysa úr þeim ágreiningi sem upp var kominn.  Eins og að framan hefur verið gerð grein fyrir hafi starfsmönnum stefnda verið kunnugt um að skilyrði fyrir við­bót­ar­greiðslu var ekki fullnægt.  Hefði stefndi hafið innheimtu á viðbótargreiðslunum hefði það verið gegn betri vitund hans og slík innheimta hefði getað bakað honum skaða­bótaábyrgð gagnvart kaupendum þegar síðar hefði komið í ljós að við­bót­ar­greiðslan hefði verið innheimt án þess að skilyrðum hennar væri fullnægt. 

Komi til þess að kröfur stefnanda verði teknar til greina krefst stefndi skulda­jafn­aðar með kröfu sem hann kveðst eiga á hendur stefnanda vegna bakfærslu á við­skipt­um með hlutabréf.

IV

Stefnandi og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. sömdu um það 12. apríl 2000 að bankinn tæki að sér milligöngu um sölu hlutafjár í stefnanda að nafnvirði 3.887.366 krónur.  Bankinn sameinaðist síðar Íslandsbanka hf. og úr því varð stefndi í máli þessu.  Gengi hlutabréfanna var 10 krónur "fyrir hverja einingu nafnverðs hlutafjár, en kaup­endur bréfanna munu þó greiða 8 krónur til viðbótar fyrir hverja einingu nafn­verðs hlutafjár, þá og því aðeins að WSC hafi uppfyllt öll neðangreind skilyrði fyrir 30. júní 2000" eins og segir orðrétt í samningnum.

Fyrsta skilyrðið var að stefnandi gerði samning við einn af níu tilgreindum knatt­spyrnu­mönnum um að opinber heimasíða hans á Internetinu yrði sett upp á vef stefn­anda og að knattspyrnumaðurinn legði nafn sitt við auglýsingar á vef stefnanda og tæki þátt í kynningu á vef hans.  Eins og að framan var rakið byggir stefnandi á því að honum hafi tekist að uppfylla þetta ákvæði samningsins með samningi við knatt­spyrnu­manninn Rivaldo frá Brasilíu.  Þessu hefur stefndi hafnað og er þetta atriði því fyrst til úrlausnar í málinu.

Það er ágreiningslaust að 13. apríl 2000 gerði stefnandi samning við Rivaldo, sem átti að uppfylla framangreint fyrsta skilyrði samnings stefnanda og Fjárfestingarbanka at­vinnulífsins hf.  Í samningnum við Rivaldo var ákvæði þess efnis að stefnandi yrði að setja umboðsmanni hans bankaábyrgð eigi síðar en 1. júní 2000 að fjárhæð tvær milljónir bandaríkjadala.  Upplýst er í málinu að þessi ábyrgð var ekki sett.  Meðal gagna málsins er bréf umboðsmannsins til stefnanda frá 12. júlí 2000 þar sem fram kemur að umboðsmaðurinn framlengir frestinn til að setja ábyrgðina, til 1. ágúst 2000. 

Í samningi stefnanda og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. er ákvæði um að í milli­göngu bankans um sölu hlutafjárins felist m.a. að innheimta greiðslur vegna sölu hluta­bréfanna.  Viðbótarverð hlutafjárins áttu kaupendur því aðeins að greiða að upp­fyllt væru öll skilyrðin fyrir 30. júní 2000.  Stefnanda tókst ekki að setja umboðsmanni Rivaldo bankaábyrgð fyrir tilskilinn tíma og hafði því samningur þeirra frá 13. apríl 2000 ekki öðlast gildi 30. júní sama ár.  Stefnandi hafði þannig ekki uppfyllt fyrsta skil­yrðið í samningi sínum og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.  Af þessu leiddi að stefnda var rétt að innheimta ekki viðbótarverð hlutafjárins hjá kaupendum þess.  Samn­ingar stefnanda og Rivaldo eftir 30. júní 2000 breyta ekki þessari niðurstöðu, enda breyta þeir í engu samningi stefnanda og bankans frá 12. apríl 2000.  Þegar af þessari ástæðu verður að sýkna stefnda af kröfu stefnanda og dæma stefnanda til að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Stefndi, Íslandsbanki FBA hf., er sýknaður af kröfu stefnanda, WSC eign­ar­halds­fél­ags hf., og skal stefnandi greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað.