Hæstiréttur íslands

Mál nr. 269/2016

A (Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.)
gegn
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.)

Lykilorð

  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Gjafsókn

Reifun

B krafðist þess að A yrði svipt forsjá tveggja barna sinni á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í forsjárhæfnismati sem lá fyrir í málinu kom fram að verulega skorti á innsæi A og skilning hvað varðaði þarfir barna hennar fyrir stöðugleika og öryggi. Þá kom þar fram að A ætti við verulega andlega og hegðunarlega erfiðleika að stríða sem hún hefði ekki fengist til að takast á við og ekki væri líklegt að miklar breytingar yrði á því nema með róttækri viðhorfsbreytingu af hennar hálfu. Var því talið fullvíst að daglegri umönnun og uppeldi barnanna og andlegri heilsu þeirra yrði stefnt í hættu ef A hefði forsjá þeirra og var krafa B tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. apríl 2016. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 1.000.000 krónur.

 

               

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2016.

Mál þetta var upphaflega dómtekið 7. mars 2016. Það var endurupptekið 15. mars á grundvelli 104. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og dómtekið að nýju 30. mars. Málið var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 11. janúar 2016 af Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, Reykjavík, á hendur A, [...], [...].

Kröfur aðila

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði svipt forsjá barna sinna, B, kt. [...] og C, kt. [...], sbr. a. og d. liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Stefnda krefst sýknu af kröfu stefnanda um að hún verði svipt forsjá barna sinna, B og C Þá krefst hún málskostnaður samkvæmt síðar framlagðri tímaskýrslu lögmanns hennar eins og eigi væri um gjafsókn að ræða og að tekið verði tillit til þess að virðisaukaskattur leggist á þóknun lögmannsins.                                                

Atvik máls

                 Stefnandi lýsir málsatvikum með þeim hætti að mál systkinanna C f. [...]  2004 og B [...] 2007, sem lúti forsjá foreldra sinna, stefndu og föðurins, D, hafi verið unnin á grundvelli barnaverndarlaga frá árinu 2008, fyrst í stað hjá fjölskyldu- og velferðarnefnd E, Sveitarfélaginu [...]. Foreldrar barnanna hafi skilið í ágúst 2011 og hafi stefnda flutt í kjölfarið með börnin í [...]. Áfram hafi verið hafðar áhyggjur af velferð barnanna en stefnda hafði þá hafið sambúð með öðrum manni, F. Í október 2012 hafi stefnda og sambýlismaður hennar, F, flutt í [...] og hafi málefni barnanna verið tilkynnt barnaverndaryfirvöldum þar í sama mánuði. Hafi í kjölfarið borist tilkynningar frá skóla barnanna, Barnavernd í [...] og frá ættingjum þeirra. Hafi tilkynningarnar allar lotið að því sama, það er að eldri bróðir barnanna, G, hafi haft miklar áhyggjur af systkinum sínum á heimili stefndu og sambýlismanns hennar. Hafi meðal annars komið fram í tilkynningum að stefnda væri vond við börnin og að F hellti köldu vatni yfir C, ef hann pissaði undir. Þá væru systkinin sett út á svalir illa klædd og látin vera þar lengi, ef þau gerðu eitthvað af sér. Hinn 24. maí 2013 hafi starfsmenn Barnaverndar [...] farið, að beiðni lögreglunnar á [...], í skóla barnanna og fært þau til skýrslutöku í Barnahúsi og í kjölfar þess í læknisskoðun. Ástæða beiðni lögreglunnar hafi verið að eldri bróðir barnanna, sem fæddur sé árið 2000, hafi í skýrslutöku í Barnahúsi greint frá ofbeldi af hendi stefndu og sambýlismanns hennar, F, í garð barnanna. Hafði eldri bróðirinn verið í skýrslutöku vegna ofbeldis, sem hann hafi sjálfur orðið fyrir af hendi F, á heimili stefndu, en leita hafi þurft með drenginn á bráða- og slysadeild af þessum ástæðum. Við skýrslutökuna hafi börnin staðfest það sem fram hafi komið hjá eldri bróðurnum. Í kjölfar þessa hafi verið óskað eftir samvinnu foreldra um að vista börnin utan heimilis, sem hafi verið gert. Síðar hafi Barnaverndarnefnd [...] úrskurðað að börnin skyldu vistuð utan heimilis í allt að þrjá mánuði og hafi börnin farið í fóstur að [...] við [...], þar sem eldri bróðir þeirra sé í varanlegu fóstri. Hafi vistunin síðar verið framlengd um tvo mánuði. Tilkynningar hafi haldið áfram að berast barnavernd seint á árinu 2013 og í byrjun árs 2014, um ofbeldi og neyslu stefndu og F og hafi lögreglan ítrekað verið kölluð á heimili þeirra vegna þessa. Þann 30. maí 2014 hafi Barnaverndarnefnd [...] kveðið upp úrskurð um vistun barnanna utan heimilis til tveggja mánaða. Hafi nefndin falið starfsmönnum sínum að gera kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjaness um að stefnda yrði svipt forsjá barnanna. Breyting hafði orðið á lögheimili barnanna, 13. maí 2014, en lögheimili þeirra hafi þá verið flutt til Reykjavíkur. Í ljósi þess hafi Barnaverndarnefnd [...]óskað eftir samkomulagi við barnaverndaryfirvöld í Reykjavík um vinnslu málsins skv. 3. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga, þannig að málefni þeirra yrðu áfram unnin hjá Barnavernd  [...], þrátt fyrir að stefnda væri búin að flytja lögheimili sitt til Reykjavíkur. Úrskurður nefndarinnar hafi verið felldur úr gildi með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, 18. júlí 2014, með vísan til þess að ofangreint samkomulag Barnaverndarnefnda [...] og Reykjavíkur hefði ekki legið fyrir á úrskurðardegi og hefði Barnaverndarnefnd [...] því ekki verið bær um að kveða upp úrskurð um áframhaldandi fóstur systkinanna á vegum nefndarinnar. Í ljósi þessa hafi málefni barnanna verið tilkynnt til Barnaverndar Reykjavíkur skv. 15. gr. barnaverndarlaga. Málefni barnanna hafi ítrekað verið tekin fyrir á fundum Barnaverndar Reykjavíkur á tímabilinu september til nóvember 2014. Á fundi stefnanda, 25. nóvember 2014, hafi verið ákveðið að börnin yrðu vistuð utan heimilis á meðan þess yrði freistað að stefnda undirgengist forsjárhæfnimat og bætti uppeldisaðstæður sínar. Í kjölfar fundarins hafi starfsmenn Barnaverndar verið í samskiptum við lögmann stefndu og hafi meðal annars verið ákveðið að halda fund 2. desember 2014. Áður en til þess fundar hafi komið hafi starfsmanni Barnaverndar hins vegar borist tölvupóstur frá lögmanni stefndu um að stefnda væri flutt ásamt börnunum til [...]. Þann 2. desember 2014  hafi starfsmaður Barnaverndar haft samband við skóla barnanna og hafi þá komið í ljóst að börnin væru hætt í skólanum þar sem þau væru flutt til [...] með stefndu og sambýlismanni hennar, F. Mál barnanna hafi verið tekið fyrir á meðferðarfundi, 9. desember 2014, þar sem fram hafi komið verulegar áhyggjur af aðstæðum barnanna og hafi nefndin talið fullreynt að ná samvinnu við stefndu um stuðningsaðgerðir á heimilinu að svo stöddu. Einnig hafi komið fram á fundinum að fyrir lægi samþykki Barnaverndarnefndar [...], frá 3. desember 2014, fyrir áframhaldandi vinnslu málsins hjá stefnanda, sbr. 3. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga. Á fundinum hafi verið úrskurðað að börnin skyldu vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði, sbr. 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, frá 9. desember 2014 til 9. febrúar 2015, en áform um að taka börnin af heimili stefndu hafi ítrekað brugðist vegna ófærðar. Óskað hafi verið liðsinnis barnaverndarstarfsmanna [...] við eftirlit með heimili barnanna. Samkvæmt skýrslu lögreglu hafi stefnda óskað aðstoðar á heimilinu laust fyrir miðnætti 30. desember 2014 og hafi hún virst vera undir áfengis- eða lyfjaáhrifum. Stefnda hafi tjáð lögreglu í síma að sambýlismaður hennar væri ölvaður, þau hefðu verið að rífast og vildi hún að hann yrði fjarlægður af heimilinu. Fram hafi komið að börnin væru á staðnum. Á leið á vettvang hafi borist tilkynning frá stefndu um að sambýlismaður hennar hefði lagt á hana hendur og hefðu börnin leitað skjóls undir eldhúsborði. Hafi sambýlismaður stefndu verið handtekinn og hafi gist fangageymslu um nóttina. Þá komi fram í skýrslu að börnin hafi orðið vitni að atvikum. Börnin hafi komið til Reykjavíkur í fylgd stefndu, föstudaginn 9. janúar 2015, til dvalar ásamt henni á Vistheimili barna og hafi málefni barnanna áfram verið til vinnslu hjá Barnavernd. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 19. janúar 2015, hafi úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, um vistun barnanna utan heimilis frá 9. desember 2014 til 9. febrúar 2015, verið staðfestur. Í kjölfar fundar, 20. janúar 2015, hafi verið gengið frá yfirlýsingu þar sem fram hafi komið að stefnda samþykkti að börnin yrðu áfram vistuð á Vistheimili barna með stefndu frá 9. febrúar 2015 til 9. apríl s.á. Börnin hafi byrjað skólagöngu í [..] í Reykjavík, 2. febrúar 2015. Jafnframt hafi H sálfræðingur verið fengin til að framkvæma sálfræðilegt forsjárhæfnimat á stefndu. Hinn 30. janúar 2015 hafi stefnda haft samband við starfsmann Barnaverndar og greint frá því að hún væri búin að fá vinnu á sjúkrahúsinu á [...]. Vildi stefnda taka vinnunni og fara með börnin aftur til [...]. Minnti starfsmaðurinn stefndu á að fyrir lægi úrskurður um vistun barnanna til 9. febrúar og jafnframt að hún hefði samþykkt áframhaldandi vistun þeirra til 9. apríl 2015 og ef hún ætlaði að draga samþykki sitt til baka færi málið á ný fyrir fund stefnanda. Hafi stefnda verið hvött til þess að vera til samvinnu. Hafi hún sagst ætla að hugsa málið. Hinn 10. febrúar 2015 hafi komið kom í ljós að stefnda hefði sótt börnin í skólann þá um morguninn og gefið þá skýringu að þau væru að fara til tannlæknis. Síðar sama dag hafi starfsmaður á Vistheimili barna haft samband við starfsmann Barnaverndar og greint frá því að hún hefði náð tali af stefndu. Hafði stefnda tjáð starfsmanninum að hún hefði tekið ákvörðun um að fara með börnin af Vistheimili barna, í samráði við  lögmann sinn, og að hún hefði fullt leyfi til þess. Var í kjölfarið óskað eftir liðsinni lögreglu við að leita að stefndu og börnunum. Um kl. 16:45 þann sama dag hafi lögreglan á [...] haft samband við bakvakt Barnaverndar og upplýst að lögreglan hefði haft uppi á stefndu þar í bæ. Hafi stefnda neitað að afhenda börnin og fara með lögreglu á lögreglustöðina. Hafi hún því verið handtekin og færð á lögreglustöð ásamt börnunum. Þar hafi stefndu verið afhent ákvörðun um neyðarráðstöfun barnanna skv. 31. gr. barnaverndarlaga. Hafi börnin verið færð aftur á Vistheimili barna við mikil mótmæli stefndu þar sem meðal annars hafi þurfti að kalla á aðstoð lögreglu fyrir utan Vistheimilið. Mál barnanna hafi verið tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, 17. febrúar 2015, þar sem meðal annars hafi verið lagt til að leitað yrði eftir samþykki stefndu fyrir því að hún afsalaði sér forsjá barnanna, sbr. 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga, ella yrði lagt til að úrskurðað yrði um vistun þeirra utan heimilis á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga. Hafi á fundinum verið ákveðið að fresta fyrirtöku málsins til 20. febrúar 2015. Mál barnanna hafi að nýju verið tekið fyrir á fundi nefndarinnar, 20. febrúar 2015. Hafi niðurstaða fundarins orðið að hagsmunir barnanna krefðust þess að þau yrðu vistuð utan heimilis í allt að fjóra mánuði. Hafi í framhaldinu verið úrskurðað að börnin skyldu vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði, sbr. 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga og á sama tíma ákveðið að borgarlögmanni yrði falið að höfða mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og gera kröfu um að vistun barnanna stæði til 20. júní 2015, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Hafi Héraðsdómur Reykjavíkur fallist á framangreinda kröfu með úrskurði, 13 maí 2015, og hafi úrskurðurinn verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands, 8. júní 2015, í máli nr. 373/2015. Forsjárhæfnimat H sálfræðings, sem gert hafi verið að beiðni stefnanda hafi legið fyrir, 1. júní 2015. Samkvæmt verkbeiðni skyldi gera sálfræðilegt forsjárhæfnimat á stefndu og mat lagt á fimm tilgreind atriði. Í niðurstöðu matsins komi meðal annars fram að stefnda búi yfir nægilegri hæfni til að veita börnum sínum góð uppeldisskilyrði nú og í framtíðinni að því tilskyldu að hún gangist við þeim vanda sem hafi fylgt henni um langt skeið og bregðist við honum betur en hún hafi gert. Í matsgerðinni komi einnig fram að persónuleikapróf sýni að stefnda sé leiðitöm og skorti innsæi í eigin hegðun og annarra og sé líkleg til að sýna af sér ábyrgðarleysi, vera óáreiðanleg og sjálfmiðuð í hegðun. Einnig komi fram í matsgerðinni að stefnda hafi fullyrt í viðtölum við matsmann að reglusemi ríkti í áfengisneyslu hjá henni og sambýlismanni hennar, en matsmaður kveðist ekki hafa haft tök á að kanna sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar. Þá sé haft eftir stefndu, í matsgerðinni, að hún og F hafi á þeim tíma verið í sambúð og að hún hafi „talið að hún fengi börnin frekar ef hún segði þau hafa slitið sambúð“. Mál barnanna hafi á ný verið tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur,  9. júní 2015, þar sem fyrir hafi legið tillaga um að leitað yrði samþykkis frá stefndu fyrir vistun barnanna utan heimilis í eitt ár eða til 20. júní 2016, ella yrði gerð krafa fyrir héraðsdómi skv. 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga um vistun barnanna í tólf mánuði. Stefnda hafi hafnað tillögunni. Fram hafi komið á fundinum að stefnda hefði ekki veitt starfsmönnum Barnaverndar réttar upplýsingar um samband sitt við F en ljóst væri að þau væru á þeim tíma í sambúð. Á fundinum hafi  starfsmaður Barnaverndar einnig upplýst fundarmenn um að börnin hafi tvisvar sinnum komið í umgengni, þar sem stefnda hefði ekki mætt. Hefði það valdið börnunum raski og haft neikvæð áhrif á líðan þeirra. Á fundinum hafi einnig verið vísað í skýrslu talsmanns barnanna þar sem fram komi að það sé mat talsmannsins að ró væri komin yfir börnin og þau væru öruggari og heimavanari í vistuninni á [...]. Þá komi fram í bókun Barnaverndarnefndar frá fundinum að gögn málsins styðja ekki að mati nefndarinnar að stöðugleiki hafi skapast í búsetu stefndu og að vímuefnaneysla og ofbeldi heyri sögunni til. Hafi það verið álit nefndarinnar að ekki væri hægt að tryggja aðstæður barnanna á heimili stefndu á meðan stuðningur við hana yrðir fullreyndur í samræmi við tillögur matsmanns á forsjárhæfni hennar. Hafi Barnaverndarnefnd því talið nauðsynlegt að vistun barnanna utan heimilis yrði áframhaldið á meðan þess yrði freistað að stefnda nýtti sér stuðning til þess að efla uppeldishæfni sína og skapa börnunum öruggt og traust uppeldisumhverfi til lengri tíma. Þá hafi nefndin einnig fjallað um nýjar upplýsingar um frásögn B af ofbeldi F í sinn garð. Hafi þær upplýsingar verið litnar alvarlegum augum og starfsmönnum Barnaverndar verið falið að hlutast til um að hið meinta ofbeldi yrði kannað frekar, án tafar. Hafi borgarlögmanni að lokum verið falið að gera þá kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að vistun barnanna yrði til 20. júní 2016, sbr. 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga.  Þann 26. júní 2015 hafi borist upplýsingar frá lögreglunni á [...] vegna afskipta af heimili stefndu og F, en í þeim hafi komið fram lýsing á ofbeldi, mikilli ölvun og hótunum, meðal annars líflátshótunum, í garð lögreglumanna og fjölskyldna þeirra. Hinn 30. júní 2015 hafi  meðferðaráætlun verið tilbúinn og send lögmanni stefndu. Hinn 17. júlí 2015 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur kveðið upp úrskurð um vistun barnanna utan heimilis til 5. janúar 2016 og hafi Hæstiréttur Íslands staðfest þá niðurstöðu með dómi, 21. ágúst 2015. Starfsmenn Barnaverndar hafi rætt við börnin, 10. september 2015, meðal annars um samskipti F við börnin. Hafi þau lýst ofbeldi af hálfu F í sinn garð og jafnframt greint frá því að þau vildu ekki fara heim til stefndu, ef F yrði á heimilinu. Starfsmenn Barnaverndar hafi ítrekað reynt að fá svör frá stefndu og lögmanni hennar um afstöðu hennar til fyrirliggjandi áætlunar um meðferð máls en án árangurs. Hafi málefni barnanna verið tekin fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar, 19. september 2015, þar sem bókað hafi verið að stefndu yrði send skrifleg viðtalsboðun, þar sem ganga mætti frá meðferðaráætlun og unnið yrði að því að setja stuðning á heimilið og við stefndu. Stefnda hafi ekki mætt í fyrirhugað viðtal en krafist þess að mál barnanna yrði sent barnaverndaryfirvöldum í því umdæmi sem hún byggi. Áfram hafi verið reynt að ná samvinnu við stefndu um gerð áætlunar um meðferð máls en án árangurs. Málefni barnanna hafi verið tekin fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar, 25. nóvember 2015. Á fundinum hafi meðal annars verið bókað að algert innsæisleysi virtist hrjá stefndu og að telja yrði að stefnda hefði fengið það svigrúm sem kveðið hefði verið á um í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. júlí 2015, en ekki nýtt sér það til að bæta aðstæður sínar og uppeldishæfni. Hafi fundurinn því ákveðið að mál barnanna yrði lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar með tillögu um að óskað yrði eftir því að stefnda samþykkti að afsala sér forsjá barnanna en að öðrum kosti yrði gerð krafa um það fyrir dómi að hún yrði svipt forsjá þeirra. Mál barnanna hafi að lokum verið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, 8. desember 2015, þar sem meðal annars hafi komið fram að stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga væru fullreynd gagnvart stefndu og hafi borgarlögmanni verið falið að krefjast þess fyrir dómi að stefnda yrði svipt forsjá barna sinna á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Stefnandi hafi bókað á fundi sínum, 8. desember 2015, að gera ætti kröfu um að stefnda yrði svipt forsjá barna sinna, B og C, sbr. a. og d. liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, þar sem stuðningsúrræði á grundvelli sömu laga væru fullreynd. Með bréfi, 14. desember 2015, hafi stefnandi falið borgarlögmanni að annast fyrirsvar og gera kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um að stefnda yrði svipt forsjá barna sinna í samræmi við framangreinda bókun stefnanda. Fyrir liggi dómur Hæstaréttar Íslands frá 21. ágúst 2015 þar sem vistun barnanna utan heimilis til 5. janúar 2016 hafi verið staðfest. Með yfirlýsingu, 21. desember 2015, hafi faðir barnanna afsalað sér forsjá þeirra.

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um forsjársviptingu á því að skilyrði ákvæða a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu uppfyllt í máli þessu. Það sé mat stefnanda, með hliðsjón af gögnum málsins og forsögu, að fullvíst sé að daglegri umönnun barnanna sé hætta búin fari stefnda með forsjá þeirra. Stefnandi telji einnig fullvíst að líkamlegri og andlegri heilsu barnanna sé hætta búin fari stefnda með forsjá þeirra. Stefnandi telji að stuðningsaðgerðir á grundvelli laganna dugi ekki til að tryggja öryggi barnanna og fullnægjandi uppeldisskilyrði til frambúðar hjá stefndu. Ítrekað hafi verið reynt að aðstoða stefndu á víðtækan hátt og hafi afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum barnanna staðið allt frá árinu 2008. Stefnda hafi ítrekað fengið tækifæri til að bæta aðstæður sínar og veita börnum sínum það öryggi, skjól og þá umhyggju sem ætlast sé til að foreldri veiti börnum sínum. Að mati stefnanda hafi börnin búið við óöruggar og óviðunandi aðstæður til lengri tíma á heimili stefndu og sambýlismanns hennar og hafi það haft alvarleg áhrif á líðan þeirra og hegðun. Þannig hafi sambúð stefndu við F einkennst af átökum og ofbeldi og tíðum heimsóknum lögreglu og barnaverndaryfirvalda. Þá hafi umræddur F meðal annars verið dæmdur fyrir ofbeldi gagnvart eldri syni stefndu. Hafi stefnda meðal annars viðurkennt að hún og F hafi til málamynda slitið sambúð í þeirri viðleitni að gera það líklegra að hún fengi börnin aftur til sín. Á sama tíma geri stefnda ráð fyrir að vera áfram í sambúð með F. Virðist stefnda engan veginn átta sig á alvarleika málsins. Að mati stefnanda sé niðurstaða forsjárhæfnismats H sálfræðings, frá 1. júní 2015 á skjön við þau gögn sem liggi fyrir í málinu og þær forsendur sem lagðar séu til grundvallar í matinu sjálfu. Í matinu komi meðal annars fram að niðurstaða prófa sem gerð hafi verið í tengslum við matið sýni konu sem sé leiðitöm og skorti innsæi í eigin hegðun og annarra og sé líkleg til að sýna af sér ábyrgðarleysi, vera óáreiðanleg og sjálfmiðuð í hegðun. Að þessu virtu komi því á óvart að stefnda sé metin hæf um að geta uppfyllt þau uppeldisskilyrði sem börnin eigi vissulega rétt á. Virðist sem að matsmaður byggi mat sitt nær eingöngu á einhliða frásögn stefndu en ekki þeim upplýsingum sem liggi fyrir í málinu og staðreyndar hafi verið. Þannig leggi matsmaður til að mynda til grundvallar frásögn stefndu um að áfengisneysla væri ekki lengur á heimilinu, en taki fram að ekki hafi verið unnt að afla staðfestingar á réttmæti þess. Í þessu sambandi skuli bent á að við framkvæmd matsins hafi matsmaður ekki haft undir höndum bréf lögreglunnar á [...] frá 26. júní 2015, þar sem fram komi afskipti af stefndu og F. Þá hafi matsmaður heldur ekki haft upplýsingar um að grunur hefði vaknað um að F kynni að hafa beitt börnin ofbeldi. Að þessu virtu og með tilliti til þess fyrirvara sem matsmaður hafi uppi í matinu sjálfu verði að telja að niðurstaða matsins gefi ekki rétta mynd af hæfni stefndu til að fara með forsjá barna sinna. Með hagsmuni barnanna að leiðarljósi telji stefnandi brýnt að börnin fái sem fyrst stöðugar uppeldisaðstæður eftir áfallasama bernsku. Telji stefnandi mikilvægt að aðstæður barnanna verði tryggðar héðan í frá og til frambúðar og að þau fái öruggar og viðunandi uppeldisaðstæður þar sem þau njóti verndar og velfarnaðar þeirra sé gætt í hvívetna. Börnin búi í dag hjá fósturforeldrum að [...] og hafi náð að tengjast þeim vel. Vel sé hlúð að börnunum jafnt heimafyrir sem og í skólanum og sé réttur þeirra til viðunandi uppeldis og umönnunar tryggður. Að mati stefnanda hafi verið leitast við að eiga eins góða samvinnu við stefndu um málið eins og aðstæður hafi leyft. Stefnandi telji stuðningsaðgerðir fullreyndar í því skyni að bæta forsjárhæfni stefndu. Frá því að málefni barnanna hafi verið tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í júlí 2015 hafi starfsmenn Barnaverndar ítrekað óskað eftir samvinnu stefndu um að hún nýti sér stuðningsúrræði til þess að bæta uppeldiaðstæður sínar en án árangurs. Sé það mat stefnanda að stefnda hafi þegar fengið það svigrúm sem kveðið sé á um í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. júlí 2015, til þess að sýna fram á það að hún hafi getu og vilja til að bæta og breyta aðstæðum sem leitt hafi til þeirra afskipa sem barnaverndaryfirvöld hafi haft af börnunum. Stefnda hafi hvorki nú né áður sýnt neinn vilja eða viðleitni til þess að þiggja stuðning og bæta aðstæður barna sinna. Stefnandi telji það ekki þjóna hagsmunum barnanna að búa við frekari óstöðugleika í búsetu. Að mati stefnanda skorti stefndu algjörlega innsæi í eigin vanda og áhrif vandans á börnin til lengri tíma. Stefnda virðist ekki með nokkru móti geta sett hagsmuni barnanna í forgang og velji að búa með manni, sem beitt hafi börnin og stefndu sjálfa bæði andlegu og líkamalegu ofbeldi. Fullreynt sé að reyna að ná samvinnu við stefndu og beita vægari úrræðum til úrbóta með hagsmuni barnanna í huga enda hafi slíkar aðgerðir verið reyndar án viðunandi árangurs. Önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting séu því ekki tæk nú, en brýna nauðsyn beri til að skapa börnunum til frambúðar það öryggi og umönnun sem þau eigi rétt á að búa við lögum samkvæmt. Geti þau stuðningsúrræði sem stefnandi hafi yfir að ráða ekki megnað að skapa börnunum þau uppeldisskilyrði sem þau eigi skýlausan rétt til hjá stefndu. Að mati stefnanda hafi vægustu ráðstöfunum ávallt verið beitt til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt og sé krafa stefnanda sett fram samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Það séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Það sé almenn skylda foreldra, sem lögfest sé í 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga, að sýna börnum virðingu og umhyggju, auk þess sem óheimilt sé með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á, séu hagsmunir barnsins, hvað því sé fyrir bestu, þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir sé mælt um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og í Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979. Með skírskotun til alls framanritaðs, meginreglna í barnaverndarrétti, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga, og gagna málsins, geri stefnandi þá kröfu að A verði svipt svipt forsjá barna sinna, B og C sbr. a- og d liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, enda muni önnur og vægari úrræði ekki skila tilætluðum árangri.

Málsástæður stefndu og tilvísun til réttarheimilda

Samkvæmt greinargerð stefndu var hún í erfiðu hjónabandi með ofbeldisfullum og óreglusömum föður þeirra barna sem mál þetta varðar. Fjölskyldan hafi búið í […] þar sem stefnda hafi verið í mjög góðri samvinnu við starfsmenn Barnaverndar á staðnum og hafi starfsmenn nefndarinnar aðstoðað stefndu við að fá íbúð í […], eftir skilnað hennar við föður barnanna. Stefnda hafi hafið sambúð með F og þau flutt til […] og síðan til Reykjavíkur. Þegar stefnda hafi búið í […] og í [..]  hafi hún verið í samvinnu við starfsmenn barnaverndar á þeim stöðum og skrifað undir áætlanir um meðferð máls og samþykkt vistun utan heimilis á meðan hún hafi farið í meðferð á Vogi og síðan í framhaldsmeðferð á Vík. Ekki sé rétt að ekki hafi náðst samvinna starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur við stefndu þar sem stefnda hafi samþykkt úrræðið ráðgjöf og kennslu heim, en Barnavernd Reykjavíkur aldrei látið verða af því að koma því úrræði í framkvæmd og borið fyrir sig að ekki hefði náðst að gera meðferðaráætlun, en stefnda hafi átt mjög erfitt með að komast á fund hjá Barnavernd Reykjavíkur því hún hafi þurft að sitja yfir drengnum í skóla vegna erfiðrar hegðunar hans og eins hafi hún þurft að vera heima hjá börnunum þegar þau hafi verið veik og eftir skóla, þegar þau hafi komið heim og einnig hafi stefnda þurft að fara í skólaferðalag með börnunum og því miður alltaf hist svo á, þegar starfsmenn Barnaverndar hafi boðað til fundar, að stefnda hafi ekki komist vegna framangreindra aðstæðna. Hefði því verið eðlilegt að starfsmenn Barnaverndar hefðu farið með meðferðaráætlunina á heimili stefndu til undirritunar til að úrræðið kæmist á í stað þess að láta úrræðið og þar með málið stranda á þessu stigi og halda því síðan ranglega fram að stefnda hafi ekki verið til samvinnu, en því fari fjarri. Með úrskurði, 9. desember 2014, hafi Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveðið að börn stefndu, C og B, skyldu vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði, frá þeim degi að telja, sbr. b - lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, eða til 9. febrúar 2015, og hafi börnin dvalið á Vistheimili barna frá byrjun janúar 2015 ásamt móður sinni samkvæmt samkomulagi við hana en hún hafi verið þar í greiningar- og kennsluvistun og til fullrar samvinnu við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur. Vegna mikils þrýstings á stefndu á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, 20. janúar, hafi stefnda síðan fallist á að börnin yrðu vistuð áfram á Vistheimili barna eftir að vistun samkvæmt úrskurði lyki, eða til 9. apríl, með því skilyrði að hún fengi að vera áfram með börnunum á Vistheimilinu. Áður en vistunartíma hafi lokið en eftir framangreindan fund með Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi stefndu boðist starf sem matráður í eldhúsi Sjúkrahússins á [...], ef hún gæti byrjað fljótlega í febrúar, en stefnda hafi ekki haft vinnu á þessum tíma og verið í atvinnuleit. Stefnda hafi rætt þetta við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur og að hún yrði nú að fara á heimili sitt á [...] ásamt börnum sínum og gæti því ekki verið þar áfram eftir að vistunartíma lyki samkvæmt úrskurði. Stefnda hafi rætt þetta við lögmann sinn sem hafi sagt henni að hún gæti dregið samþykki sitt til baka og verði að telja að móðir hafi verið í fullum rétti til að gera það. Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi verið í nánu sambandi við stefndu og hafi stefnda rætt opinskátt og afdráttarlaust um þetta við þá starfsmenn og einnig við starfsmenn Vistheimilisins og gert þeim fulla grein fyrir að hún gæti alls ekki verið lengur á Vistheimilinu með börn sín en út þann tíma sem úrskurðað hafði verið um vistun utan heimilis og sé því algerlega mótmælt  að stefnda hafi haldið því leyndu fyrir starfsmönnum Barnaverndar og Vistheimilis að hún væri að fara þaðan, en sjálfsagt hafi þar verið einhver misskilningur á ferðinni. Starfsmenn Vistheimilis hafi gefið stefndu góða umsögn varðandi umönnun barna sinna á heimilinu en börnum hennar hafi ekki liðið þar vel og viljað fara heim og fara í sinn skóla á […], en þau hafi ekki sótt skóla frá því þau hafi komið á Vistheimilið í byrjun janúar til 29. janúar er þau hafi byrjað í […], sem þau hafi alls ekki viljað fara í. Talsmaður barnanna hafi rætt við þau og þau lýst eindregnum vilja sínum til að fara aftur á heimili sitt og sambýlismaður hennar, sem hún hafi slitið sambúð við, verið farinn í meðferð á Vogi. Barnaverndarnefnd hafi verið það vel kunnugt að stefnda hafi slitið sambúð við F á þessum tíma og hafi það verið ítarlega rætt á fundi stefndu með starfsmönnum Barnaverndarnefndar. Í ljósi alls þess sem að framan sé rakið hafi stefnda ákveðið að fara til síns heima með börnin þegar vistunartími samkvæmt úrskurði væri liðinn og hafi hún talið sig hafa greint bæði starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur og starfsmönnum Vistheimilis frá að henni væri nauðsynlegt að fara til að missa ekki af þeirri vinnu sem henni hafi staðið til boða í sínum heimabæ. Á öllum þeim tíma sem stefnda hafi verið á Vistheimilinu hafi hún verið reiðubúin til að undirgangast forsjárhæfnimat og sé það hreinlega ekki rétt að svo hafi ekki verið og sé ekki unnt að ásaka hana fyrir að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur, sem iðulega hafi verið á fundum með varnaraðila á Vistheimilinu, hafi ekki látið hana skrifa undir sérstakt samþykki þess efnis. Stefndu hafi aldrei verið boðið að skrifa undir slíkt samþykki. Því sé alfarið andmælt að stefnda hafi ekki verið til samvinnu í þessum efnum. Varðandi málatilbúnað í stefnu um að stefnda hafi ekki sinnt umgengni sem skyldi sé þess að geta að eðlilega verði umgengni erfiðleikum bundin vegna fjarlægðar í tilvikum sem þessu og verið hafi ófært frá [...] til [...] fyrir minni bíla í eitt skiptið, sem umgengni hafi átt að fara fram, og í nær öll skiptin hafi starfsmenn Barnaverndar látið vita um umgengni með svo stuttum fyrirvara og rétt áður en starfsmenn hættu vinnu fyrir helgi að ekki hafi náðst að ljúka skipulagningu umgengni í samráði við stefndu og starfsmenn Barnaverndar, en lögmaður stefndu hafi haft milligöngu um það. Í þau skipti, sem umgengni hafi fallið niður, hafi því ekki viljaleysi móður verið um að kenna. Hún hafi viljað meiri umgengni. Stefnda hafi farið í foreldrahæfnismat á árinu 2015 og verið til fullrar samvinnu um það eins og áður segi. Fyrir liggi skýrsla sálfræðings sem telji stefndu vel hæfa til að fara með forsjá barnanna og verði að leggja það mat til grundvallar úrlausnar í þessu máli. Fullyrðingar um annað, af ófaglærðu fólki, séu út í hött og sé þeim harðlega andmælt. Enginn sé fullkominn. Allir hafi kosti og galla og reki sálfræðingurinn ýtarlega kosti og galla varnaraðila en taki fram að þrátt fyrir tiltekna galla verði að telja að varnaraðili sé fær um að annast forsjá barna sinna, sé hún til fullrar samvinnu við barnaverndaryfirvöld, og hafi stefnda lýst því yfir að hún sé tilbúin til fullrar samvinnu við starfsmenn barnaverndaryfirvalda fyrir austan og heimili þar óboðað eftirlit á heimili sitt. Stefnda hafi ekki ritað undir áætlun um meðferð máls því þar hafi verið gert ráð fyrir vistun barnanna utan heimilis til júní 2016, en það hafi stefnda ekki getað sætt sig við og hafði kært úrskurð Barnaverndarnefndar og síðan einnig úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, sem þó hafi aðeins fallist á vistun utan heimilis til 5. janúar 2016 og því í talsvert skemmri tíma en krafist hafi verið. Síðar hafi sama meðferðaráætlun verið boðin áfram til undirskriftar án þess að dagsetningum væri breytt og hafi verið á það bent og þess óskað að því yrði breytt, sem ekki hafi verið gert. Það sé því ekki rétt að móðir hafi ekki viljað vera til samvinnu. Hún hafi rækt umgengni, eftir því sem færð hafi leyft, auk þess sem hún hafi verið veik í eitt skipti sem umgengni hafi átt að vera. Engin stuðningsúrræði hafi verið boðin á vistunartímanum utan sálfræðiviðtöl sem fyrst hafi verið boðin undir árslok og hafi stefnda þegið þau strax, en ekki hafi verið komið á endanlegt skipulag á hvar og hvernig viðtölin ættu að fara fram enda talsverðar fjarlægðir milli sálfræðings og stefndu og hafi sálfræðingurinn verið að kanna hvernig best væri að haga því fyrirkomulagi, þegar það úrræði virðist hafa verið stoppað. Þá hafi móðir ekki fengið neina umgengni við börn sín síðan fyrir jól og því verið neitað að börnin fengju að koma til móður á jólum. Foreldrahæfnismatið sé unnið af sálfræðingi sem unnið hafi slík möt í forsjármálum og þekki vel til slíkra mata og vinnslu þeirra. Matið sé meðal annars byggt á PAI-persónuleikaprófi en gerðar hafi verið réttmætis- og áreiðanleika-athuganir á því við íslenskar aðstæður. Á bls. 13 í matinu sé einkum vikið að því sem úr þurfi að bæta og þar vísað til tíðra flutninga og samskiptaerfiðleika við sambýlis-mann. Í því sambandi sé þess að geta að stefnda búi enn á […], í sama húsnæði og hún hafi flutt í þegar hún hafi farið austur, og hún starfi enn á sama vinnustað og hafi því fasta vinnu og langtímaleiguhúsnæði, sem sé rúmgott fyrir fjölskylduna. Varðandi samskiptaörðugleika við sambýlismann, sem sé ljóst að hafi verið, sé þess að geta að stefnda segi að slíkt sé ekki lengur til staðar og sambýlismaður hennar hafi ekki neitt áfengis nú um talsverðan tíma. Tilvitnuð samskipti lögreglu hafi verið við sambýlismann en ekki stefndu. Ekki hafi verið sýnd gögn um frekari afskipti lögreglu og styðji það frásögn stefndu um að vel gangi nú á heimilinu. Sambýlismaður stefndu hafi verið í vinnu við löndun og sé nú kominn með pláss á bát hjá [...]. Ekki sé því annað að sjá en að stefnda hafi tekið á því sem þurft hafi að bæta samkvæmt matinu. Þess beri að geta að ekki virðist sem starfsmenn Barnaverndar-nefndar hafi óskað eftir að óboðað eftirlit væri haft með heimilinu, þó stefnda hafi margsagt að hún heimilaði það. Varðandi vilja barnanna beri að líta til þess sem þau segi talsmanni sínum en þar komi skýrt fram að drengurinn vilji koma heim til móður sinnar, en gera verði kröfu um að talsmaður tali aftur við börnin og þá augliti til auglitis en ekki símleiðis. Frásögnum um meint ofbeldi sambýlismanns við börnin, sem sagt er að þau hafi greint starfsmönnum Barnaverndar frá, sé vísað á bug sem ósönnuðum og kannist hvorki stefnda né sambýlismaður hennar við slíkt. Verði að telja eðlilegra að talsmaður eða annar þar til bær sérfræðingur ræði það við börnin og þá hugsanlega sá sálfræðingur sem framkvæmdi matið. Fram hafi komið að líklegt sé að börnin séu með áfallastreituröskun og sé slíkt eðlilegt eftir allt það sem starfsmenn Barnaverndar hafi lagt á þau m.a. handtöku móður þeirra og meðferð hennar eins og stórhættulegs afbrotamanns, fyrir framan börnin. Öll framkoma starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur við stefndu sé mjög ámælisverð og hafi ekki verið á þá leið sem telja verði börnunum fyrir bestu, enda séu þau orðin veik. Þegar börnin hafi verið flutt í fóstur á [...]i hafi þau ekki verið í neinum skóla í nánast mánuð því tíma taki að koma börnum í skóla í sveitarfélagi sem sé utan lögheimilissveitarfélags barns. Börnunum hafði liðið illa í skólanum á [...] áður og hegðun þeirra og þá sérstaklega drengsins verið mjög erfið og hann annaðhvort verið framá gangi eða úti, þegar kennslustundir hafi verið. Við úrlausn málsins verði einnig að líta til þess er fram komi í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí sl., sem staðfestur hafi verið af Hæstarétti Íslands, en þar komist dómarinn að þeirri niðurstöðu á bls. 15 að hann telji það ljóst með tilliti til matsgerðar að stefnda eigi að hafa alla burði til að tryggja til framtíðar aðstæður sínar þannig að börn hennar geti flutt á heimili hennar að nýju.  Með vísan til þess sem áður greini sé ekki annað að sjá en stefnda hafi einmitt náð tökum á því sem ábótavant hafi þótt svo sem tíðum flutningum en hún hafi sest að til framtíðar á [...], hafi þar fasta atvinnu og öruggt húsnæði. Ekki hafi verið lögð fram ný gögn sem bendi til að áfengisvandi og ósamkomulag sé nú til staðar á heimilinu né hafi verið það frá þeim tíma er greint sé frá í þeim úrskurði. Í ljósi alls framangreinds verði að telja að hagsmunum barnanna sé best borgið hjá móður sinni á lögheimili þeirra á […], en þar hafi þeim líkað vel í skólanum og þar hafði móðir sótt um greiningu í gegnum skólann á […] vegna hegðunarvanda drengsins, sem hafi verið verulegur. Komið hafi verið í veg fyrir það ferli með öllum þeim aðgerðum sem Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi staðið fyrir og verði að telja það mjög alvarlegt, en nefndinni hafi verið vel kunnugt um að slík greining hafi verið að fara af stað á vegum skólans fyrir austan. Hafi nefndin og starfsmenn Barnaverndar virt það að vettugi og ekki komið drengnum í greiningu, sem veruleg þörf sé á, en bróðir hans hafi verið greindur með ADHD og fengið aðstoð á BUGL. Eins og að framan sé rakið verði að telja ljóst að skilyrði svo íþyngjandi úrræðis sem svipting forsjár sé, geti ekki talist vera fyrir hendi og sé þess því krafist að þeirri kröfu verði hafnað.

Krafa stefndu um að hafnað verði kröfu stefnanda sé byggð á því að ekki séu fyrir hendi skilyðri fóstursviptingar skv. 29. gr., sbr. og 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og að ekki sé rétt að reynd hafi verið til þrautar stuðningsúrræði skv. 24. gr. sbr. og 23. gr. sömu laga í ljósi þess að stefnda sé tilbúin til fullrar samvinnu og heimili óboðað eftirlit með heimili. Forsjársvipting núna sé einnig andstæð meginreglu sem lögfest sé í  7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem segi að ávallt skuli miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt og því skuli aðeins grípa til íþyngjandi ráðstafana, ef lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Jafnframt sé krafan studd við meðalhófsreglu, sem lögfest sé í stjórnsýslulögum. Krafa um málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og eigi væri um gjafsóknarmál að ræða, byggi á 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggi á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Forsendur og niðurstaða

Dómkrafa stefnanda í málinu er grundvölluð á a- og d-liðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en þar er kveðið á um að barnaverndarnefnd sé heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annar eða báðir, skuli sviptir forsjá ef hún telur: a. að daglegri umönnun, uppeldi, eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska eða d. fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna fíkniefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.

                Af hálfu stefnanda er á því byggt að fullvíst sé með hliðsjón af gögnum málsins og forsögu að daglegri umönnun barnanna sé hætta búin fari stefnda með forsjá þeirra. Þá megi jafnframt telja fullvíst að bæði líkamlegri og andlegri heilsu barnanna sé hætta búin fari stefnda með forsjá þeirra. Telja verði að  stuðningsaðgerðir á grundvelli barnaverndarlaga dugi ekki til að tryggja öryggi barnanna og fullnægjandi uppeldisskilyrði hjá stefndu. Ítrekað hafi verið reynt að aðstoða hana á víðtækan hátt og hafi afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum barnanna staðið allt frá árinu 2008. Stefnda hafi ítrekað fengið tækifæri til að bæta aðstæður sínar og veita börnum sínum það öryggi, skjól og þá umhyggju sem ætlast sé til að foreldri veiti börnum sínum en án árangurs. Aðstæður á heimili stefndu og sambýlismanns hennar hafi haft alvarleg áhrif á líðan barnanna og hegðun en sambúð stefndu og sambýlismanns hennar hafi einkennst af átökum og ofbeldi og tíðum heimsóknum lögreglu og barnaverndaryfirvalda. Virðist stefnda engan vegin átta sig á alvarleika málsins. Börnin búi í dag hjá fósturforeldrum og hafi náð að tengjast þeim vel. Vel sé hlúð að þeim jafnt heimafyrir sem og í skóla og sé réttur þeirra til viðunandi uppeldis og umönnunar tryggður. Stefnandi telji stuðningsaðgerðir fullreyndar í því skyni að bæta forsjárhæfni stefndu og hún fengið nægilegt svigrúm til þess að sýna fram á það að hún hafi bæði getu og vilja til að bæta og breyta aðstæðum sem leitt hafi til þeirra afskipta sem barnaverndaryfirvöld hafi haft af börnum hennar. Hins vegar hafi hún hvorki nú né áður sýnt vilja eða viðleitni til þess að þiggja stuðning og bæta aðstæður barna sinna og sé að mati stefnanda fullreynt að reyna að ná samvinnu við stefndu og beita vægari úrræðum til úrbóta með hagsmuni barnanna í huga enda hafi slíkar aðgerðir verið reyndar án viðunandi árangurs. Önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting séu því ekki tæk nú, en brýna nauðsyn beri til að skapa börnunum til frambúðar það öryggi og umönnun sem þau eigi rétt á að búa við lögum samkvæmt. Geti þau stuðningsúrræði sem stefnandi hafi yfir að ráða ekki megnað að skapa börnunum þau uppeldisskilyrði sem þau eigi skýlausan rétt til hjá stefndu.

                Stefnda byggir á því að ekki séu lagalegar forsendur til svo viðurhlutamikillar aðgerðar að svipta hana forræði barna sinna með vísan til a- og d- liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, þar sem aðrar og vægari leiðir hafi ekki verið farnar. Stefnda hafi verið í mjög góðri samvinnu við starfsmenn barnaverndaryfirvalda í [...], meðan fjölskyldan hafi búið þar. Meðan stefnda hafi búið í [...] og síðar [...] hafi hún verið í samvinnu við starfsmenn barnaverndar á þessum stöðum og skrifað undir áætlanir um meðferð máls og samþykkt vistun utan heimilis á meðan hún hafi farið í meðferð á Vogi og síðan í framhaldsmeðferð á Vík. Ekki sé rétt að ekki hafi náðst samvinna starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur við stefndu þar sem hún hafi samþykkt úrræðið ráðgjöf og kennslu heim en Barnavernd Reykjavíkur aldrei látið verða af því að koma því úrræði í framkvæmd og borið fyrir sig að ekki hefði náðst að gera meðferðaráætlun, en stefnda hafi átt mjög erfitt með að komast á fund hjá Barnavernd Reykjavíkur vegna aðstæðna sem m.a. hafi varðað hegðun drengsins í skóla og veikindi barnanna beggja. Börnin hafi dvalið á vegum stefnanda, ásamt móður sinni, á Vistheimili barna frá byrjun janúar 2015. Stefnda hafi síðan undir þrýstingu frá stefnanda fallist á að börnin yrðu vistuð áfram á Vistheimilinu eftir að vistun samkvæmt úrskurði lyki eða til 9. apríl, með því skilyrði að hún fengi að vera áfram með börnunum á Vistheimilinu. Áður en vistunartíma hafi lokið hafi stefndu boðist starf sem matráður í eldhúsi Sjúkrahússins á [...], ef hún gæti byrjað fyrrihluta febrúar, en stefnda hafi ekki haft vinnu á þessum tíma og verið í atvinnuleit. Stefnda hafi rætt þetta við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur og starfsmenn Vistheimilisins og gert þeim grein fyrir að hún gæti ekki dvalið lengur á vistheimilinu með börnin.

                Málefni tveggja yngri barna stefndu, B, sem fædd er [...] 2007, og C, sem fæddur er [...] 2004, hafa samkvæmt gögnum málsins verið til meðferðar á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 frá desember 2009, þegar tilkynning barst barnaverndarnefnd á grundvelli nafnleyndar um meinta vanrækslu barnanna sökum fíkniefnaneyslu stefndu og föður barnanna. Elsta barn stefndu, drengurinn G, [...] 2000, er í varanlegu fóstri. Sé ekki annað tekið fram er með vísan til barna stefndu í niðurstöðukafla dóms þessa átt við tvö yngri börn stefndu. Þann 9. maí 2010 barst barnaverndarnefnd tilkynning frá leikskóla um að áfengislykt hefði ítrekað fundist af stefndu og föður B, þegar þau hafi komið með hana í leikskóla. Hinn 3. júní 2011 barst barnaverndarnefnd nafnlaus tilkynning um vanrækslu stefndu og föður B vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu beggja foreldra og erfiðrar og óagaðrar hegðunar  telpunnar. Hinn 16. nóvember 2011 var lögregla kölluð á heimili stefndu og föður barnanna vegna áfengisneyslu föðurins og ofbeldisfullrar hegðunar hans að börnunum og eldri bróður þeirra viðstöddum. Hinn 27. júní 2012 barst barnavernd tilkynning frá lögreglu í framhaldi af því að sambýlismaður stefndu hafði rekið hana á dyr ásamt börnunum. Hinn 1. ágúst 2012 barst barnaverndarnefnd nafnlaus tilkynning um ofbeldi sambýlismanns stefndu gagnvart B m.a. að hann hefði dregið hana á hárinu og hent henni berfættri út úr húsi. Hinn 18. október 2010 barst barnaverndarnefnd nafnlaus tilkynning um meinta vanrækslu barnanna vegna verulegrar áfengis- og fíkniefnaneyslu stefndu og sambýlismanns hennar. Hinn 12. desember 2012 barst barnaverndaryfirvöldum tilkynning um vanrækslu og ofbeldi gagnvart börnunum vegna mikillar óreglu stefndu og sambýlismanns hennar. Hinn 18. desember 2012 barst tilkynning um að börnin væru beitt ofbeldi, m.a. líkamlegu, af hendi stefndu og sambýlismanns hennar. Meðal annars væri köldu vatni hellt yfir drenginn, ef hann pissaði undir, og börnin bæði lokuð úti illa klædd og í langan tíma, ef þau þættu hafa gert eitthvað af sér. Hinn 12. júní 2013 barst yfirvöldum tilkynning um að sambýlismaður stefndu hefði ráðist á hana, að börnunum viðstöddum. Hinn 30. júlí, 6. ágúst, 5. nóvember, 14. nóvember og 24. desember 2013 var tilkynnt um átök milli stefndu og sambýlismanns hennar, að börnunum viðstöddum. Hinn 6. október 2014 var tilkynnt um átök milli stefndu og sambýlismanns hennar, að börnunum viðstöddum. Hinn 31. desember lentu stefnda og sambýlismaður hennar í átökum á heimili sínu að börnunum viðstöddum og var lögregla kölluð á vettvang.     

Samkvæmt gögnum málsins hafa barnaverndaryfirvöld í [...],  [...], [...] og Reykjavík haft margvísleg afskipti af málefnum stefndu og barna hennar allt frá því að mál þeirra komu fyrst til kasta barnaverndaryfirvalda í [...] í desember 2009, eins og áður er rakið. Í gögnum málsins liggur fyrir fjöldi meðferðaáætlana skv. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Hinn 9. desember 2009 var gerð áætlun um meðferð máls vegna beggja barnanna, þar sem gert var m.a. ráð fyrir sálfræðiviðtölum og  eftirliti með heimili. Hinn 1. júlí 2010 var gerð áætlun um meðferð máls vegna beggja barnanna þar sem m.a. var gert ráð fyrir eftirliti á heimili og í leikskóla. Hinn 21. júní 2011 var gerð áætlun um meðferð máls vegna beggja barnanna, þar sem gert var m.a. ráð fyrir reglulegum heimsóknum og viðtölum við börnin. Hinn 1. september 2014 var gerð áætlun, þar sem gert var ráð fyrir að fylgst yrði með líðan barnanna í skóla.  Hinn 2. mars 2015 var samþykkt meðferðaáætlun, sem fól m.a. í sér að stefnda skyldi undirgangast forsjárhæfnismat. Hinn 29. júní 2015 var gerð meðferðaráætlun, sem m.a. fól í sér að hlutast yrði til um fósturvistun barnanna, að börnin færu í sálfræðiviðtöl eða fengju annan sambærilegan stuðning, stefnda fengi meðferðarúrræði til að styrkja sig í uppeldishlutverki sínu og komið yrði á umgengi barnanna við stefndu.

Fyrir liggur að framangreindum meðferðaáætlunum var ekki hrint í framkvæmd nema hvað varðaði forsjárhæfnismatið. Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefnda hafi, þegar á reyndi, ekki fengist til að samþykkja áætlanirnar og/eða taka þátt í framkvæmd þeirra og því hafi þær ekki komið til framkvæmda en af hálfu stefndu er því borið við að ýmsar ástæður eins og veikindi barnanna og skortur á frumkvæði af hálfu barnaverndaryfirvalda hafi hindrað formlegan frágang meðferðaráætlananna og framkvæmd þeirra.

Fyrir liggur að stefnda dvaldi ásamt börnunum, samkvæmt samkomulagi við Barnavernd Reykjavíkur, á Vistheimili barna, frá 9. janúar 2015 til 9. febrúar 2015, þegar hún fór með börnin af heimilinu. Áður hafði hún á fundi hjá stefnanda, 20. janúar, samþykkt áframhaldandi dvöl þeirra á Vistheimilinu, frá 9. febrúar til 9. apríl. Þá liggur fyrir að börnin hafa verið vistuð á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda samfellt frá 10. febrúar 2015. 

H sálfræðingur mat að beiðni stefnanda hæfni stefndu sem foreldri og liggur skýrsla hennar fyrir í málinu og er dagsett 1. júní 2015. Í skýrslu hennar kemur m.a. fram það álit hennar að stefnda búi yfir ágætri dómgreind og ályktunarhæfni. Hún sé ekki haldin alvarlegum geðrænum vanda en merki séu um væga depurð, sem sé mjög skiljanleg í ljósi aðstæðna. Próf og viðtöl leiði í ljós að stefnda sé í mikilli vörn og verji sig gagnvart áliti yfirvalda með því að gangast ekki við því sem farið hafi úrskeiðis hjá henni. Hún dragi upp mynd af sér sem fái ekki staðist við nánari skoðun. Próf sýni konu sem sé leiðitöm og skorti innsæi í eigin hegðun og annarra og sé líkleg til að sýna af sér ábyrgðarleysi, vera óáreiðanleg og sjálfmiðuð í hegðun. Þá sýni próf að hún kunni að eiga erfitt með að læra af reynslunni og gera áætlanir fram í tímann og sé það álit hennar að þessir persónuþættir hafi m.a. birst í þeim óstöðugleika sem hún hafi boðið börnum sínum uppá hvað búsetu varði. Þessir persónuleikaþættir einir og sér geri stefndu hins vegar ekki vanhæfa til að fara með forsjá barna sinna. Hvað styrkleika og veikleika stefndu sem móður í foreldrahlutverki varði séu styrkleikar hennar m.a. að hún búi yfir góðri greind, þyki afar vænt um börn sín og vilji til að reynast þeim vel. Hún sé meðvituð um margt sem þurfi að viðhafa í uppeldi barna en líti framhjá öðrum mikilvægum þáttum eins og stöðugleika. Stefnda virðist vera kraftmikil og lifandi kona sem hafi áhuga á ýmsu eins og handverki, bóklestri, leik og útivist. Þessir eiginleikar geti haft gildi í foreldrahlutverkinu. Hún hafi hlýtt og elskulegt viðmót sem megi ætla að hún sýni börnum sínum. Hennar styrkleikar séu einnig hennar veikleikar. Vegna langvarandi vanrækslu á mótunarárum hafi stefnda vanist slæmu atlæti sem hafi hert hana gagnvart mótlæti og á sama tíma hafi hún umborið það lengur en nokkurri manneskju sé hollt. Hún hafi verið í ofbeldisfullri sambúð árum saman þar sem einnig hafi viðgengist mikil neysla áfengis og annarra vímugjafa. Það hafi án efa komið niður á börnum hennar. Þrátt fyrir orð hennar um að börn hennar hafi ekki upplifað heimilisofbeldi séu gögn sem sýni annað og verði það að teljast til veikleika hjá henni. Þær varnir sem hún viðhafi verði að teljast til veikleika því þeim fylgi ákveðin hætta á að hún bregðist ekki við á þann hátt að hún hafi velferð barnanna að leiðarljósi. Hvað hæfni, vilja og getu stefndu til að nýta sér meðferð og frekari stuðningsúrræði varði hafi komið fram í viðtölum við hana að hún álíti sig ekki þurfa á neinum stuðningi að halda hvorki til að takast á við uppeldi barna sinna eða persónulega líðan. Hún geri mjög lítið úr þeim vanda sem hún og fjölskylda hennar hafi ratað í og sem ítrekað hafi kallað á afskipti barnaverndarnefnda. Það beri vott um takmarkað innsæi í eigin hegðun og annarra. Svipaðar niðurstöður komi einnig fram á  persónuleikaprófum, sem lögð hafi verið fyrir hana. Þar komi m.a. fram að hún búi yfir takmörkuðu innsæi á eigin takmarkanir og galla. Prófin hafi einnig leitt í ljós að fólk með prófmynd eins og hún muni eiga í erfiðleikum með að nýta sér sálfræðilega meðferð. Þar komi tvennt til. Í fyrsta lagi þá gangist hún ekki nægilega við eigin vanda og í öðru lagi þá leiti fólk með prófmynd eins og hún eftir einföldum og yfirborðskenndum lausnum á þeim vanda sem það standi frammi fyrir hverju sinni. Þessar niðurstöður séu í samræmi við niðurstöður úr viðtölum matsmannsins við stefndu þar sem fram hafi komið í máli hennar að lausnin á vanda hennar væri að hún væri komin með fasta vinnu. Telja verði að kona eins og stefnda, sem alist hafi upp við mikla vanrækslu og búið í mjög ofbeldisfullu hjónabandi, þurfi faglegan stuðning til að vinna úr erfiðri reynslu og ná ákjósanlegu jafnvægi. Það sé álit sitt að stefnda búi yfir nægilegri hæfni til að veita börnum sínum góð uppeldisskilyrði nú og í framtíðinni að því tilskildu að hún gangist við þeim vanda sem fylgt hafi henni henni um langt skeið og bregðist við honum betur en hún hafi gert. Miðað við þær upplýsingar sem matsmaður hafi undir höndum sé ekki annað að sjá en að stefnda geti uppfyllt þau uppeldisskilyrði sem börn hennar eigi rétt á. Húsnæði sem hún geti boðið börnum sínum uppá virðist vera fullnægjandi. Hún sé í fastri vinnu og eigi því að geta axlað fjárhagslega ábyrgð á afkomu fjölskyldunnar. Hún sjái fyrir sér að setjast að á Seyðisfirði, sem sé nauðsynlegt fyrir börnin svo þau nái að festa rætur og búi við stöðugleika, sem hafi stórlega skort á í uppvexti þeirra. Mikilvægt sé að börnin fái stöðugleika í líf sitt, geti búið með móður sinni sem hafi verið þeirra megin uppalandi. Það sé ekki í samræmi við hagsmuni barnanna að fela ókunnugum umönnun þeirra til frambúðar heldur að barnaverndaryfirvöld styrki fjölskylduna í því að halda saman. Þar sem heimilisófriður hafi verið á heimili stefndu, áfengisneysla og ofbeldi, sé nauðsynlegt að barnaverndaryfirvöld hafi eftirlit með heimilinu.

H sálfræðingur gaf skýrslu fyrir dómi. Í skýrslu hennar kom m.a. fram að stefnda hefði átt við mikla vanrækslu að stríða af hálfu móður og einnig verið beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi á sínum yngi árum. Hún hafi einnig, á sínum yngi árum, búið við tíða flutninga og teldist til að hún hefði gengið í 20 grunnskóla. Væri líklegt að þetta hefði ýtt undir aðlögunarhæfni hennar. Þá hefði hún verið í ofbeldisfullu hjónabandi með barnsföður sínum og síðar sambýlismanni auk þess að hafa átt við áfengisvanda að stríða. Hefði henni ekki tekist að búa börnum sínum öruggt athvarf. Um væri að ræða fjölskyldu í gríðarlegum vanda. Hins vegar væri ekkert sem segði að ekki væri hægt að styðja fjölskylduna og hafa eftirlit með heimilinu. Slíkur stuðningur væri nauðsynlegur sem lýsti sér m.a. í því að stefnda liti á núverandi sambýlismann sinn sem sitt helsta bakland. Það væri samfélagsleg ábyrgð okkar að hjálpa svona illa stæðri fjölskyldu og tryggja öryggi barnanna með ráðgjöf og úrræðum sem til staðar væru. Hægt væri að hjálpa fjölskyldunni þannig að börnin gætu búið hjá móður sinni og þau byggju við stöðugleika. Fjölskyldan þarfnaðist   samhæfðs stuðnings en það væri skoðun sín að ekki væri verið að hjálpa börnunum með að setja þau upp í sveit til vandalausra þar sem þau þyrftu að mynda tengsl við einhvern sem þau þekktu ekki. Aðspurður svaraði matsmaðurinn því að prófanir sýndu að stefnda væri í mikilli vörn og ljóst að hún þyrfti að læra að treysta fólki. Ekki væri útilokað að hægt væri að bæta úr því. Stefnda ætti við afneitun og bælingu að stríða og hefði takmarkað innsæi enda hefði hún alist upp við vanrækslu og ekki fengið aðhald. Þá hefði hún ríka þörf til að þóknast öðru fólki, væri sjálfmiðuð og ætti við reiðivandamál að stríða. Mjög þýðingarmikið væri að stefnda notaði ekki áfengi og hún þyrfti heilmikla kennslu og leiðsögn í sambandi við innsæi frá einhverjum sem hún treysti. Hingað til hefði hún ekki fengist til að nýta sér slíka kennslu og leiðsögn. Hæfni hennar sem foreldri væri háð því að hún nýtti sér þessi úræði. Á þetta væri lögð áhersla í matsgerðinni þar sem talað væri um nægilega hæfni að því tilskildu að hún gangist við þeim vanda sem hafi fylgt henni um langt skeið og bregðist betur við honum en hún hafi gert. Stefnda búi yfir ákveðinni getu innra með sér, eða ætti að hafa hana, sem nauðsynlegt sé að ná frekar fram. Stefnda sé hlý og ástrík við börnin. Vissulega skorti hana innsæki í þarfir þeirra en hægt sé að  styrkja og efla slíkt innsæi. Ljóst sé að stefnda hafi fundið til samlíðunar með börnum sínum en þó sé mikið ábótavant í þeim efnum. Aðspurð svaraði matsmaðurinn því til að það myndi breyta talsverðu í sínum huga ef fyrir lægi að börnunum liði vel í dag. Stefnda þurfi mikla hjálp varðandi fortíð sína. Hún þyrfti að fara í langa og mikla sálfræðilega meðferð til að gera hana að heilli og sterkari manneskju. Það séu hindranir í vegi fyrir að hún nýti sér slík úrræði og ekki hægt að ábyrgjast að árangur náist að svo stöddu. Stefnda hafi verið í vörn og ekki fundist hún þurfa aðstoð. Hún hafi því hafnað meðferðarúrræðum.

                Í málinu liggja fyrir skriflegar skýrslur talsmanns barnanna, I fjölskylduráðgjafa, frá 4. og 7. október 2014, 18. janúar, 23. mars, 5. júní og 7. desember 2015 og 17. mars 2016. Í skýrslunum er m.a. fjallað um líðan barnanna í fósturvistun þeirra að [...], líðan þeirra í skóla á [...]og afstöðu þeirra til áframhaldandi vistunar að [...]. Talsmaðurinn gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins 7. mars og aftur 30. mars eftir endurupptöku þess og framlagningu skýrslu hans frá 17. mars. Í fyrri skýrslunni kvaðst talsmaður aðspurður hafa rætt við börnin í síma í desember s.l. Hafi börnin sagt að þeim liði vel á fósturheimilinu og í skólanum og þau verið hlynntari því að vera á fósturheimilinu en áður. Þetta hafi verið í sjötta skipti sem hún hefði talað við þau. Þau hafi áður og þá aðallega C viljað fara til móður sinnar en í síðustu skiptin sem hún hafi talað við þau hafi þau viljað vera á fósturheimilinu. Aðspurð svaraði hún því til að henni fyndist ekki fullnægjandi að ræða við börnin í síma um svona þýðingarmikið mál og hún hefði gjarnan viljað hitta börnin fyrir aðalmeðferðina til að ræða við þau en ekki verið falið það. Aðspurð svaraði hún því til að börnin væru búin að vera í skóla á [...] frá mars 2015. Líðan C hefði breyst mjög mikið frá því að hann hafi komið á [...] og væri hann miklu rólegri og liði nú betur en áður og væri öruggari í sjálfum sér. Honum fyndist gaman í skólanum og væri að tengjast öðrum drengjum þar. Heilmikið jákvætt hefði gerst hjá honum á þessum stutta tíma. Telpan hefði verið miklu fljótari að aðlagast en drengurinn og hefði hún tengst húsmóðurinni á heimilinu vel og ættingjum hennar, sem byggju í nágrenninu. Þá léti hún vel af skólanum. Aðspurð hverjar hún teldi líklegar afleiðingar þess ef börnin færu frá [...] og flyttu til [...] til móður og stjúpföður svaraði hún því til að með ólíkindum væri hvað börnin hefðu aðlagast á [...] og teldi hún mikilvægt að þau fengju að vera áfram í skólanum og klára hann á þessum stað. Það yrði álag fyrir þau að breyta um aðstæður núna enda væru þau búin að aðlagast núverandi aðstæðum mjög vel og gott fyrir þau að fá að vera áfram í núverandi skóla þar sem þau hefðu náð að  tengjast vel. Í skýrslu talsmannsins fyrir dómi 30. mars kom fram að hann hefði þá nýverið, að beiðni stefnanda, hitt börnin að [...] og rætt við þau þar. Í samtölunum hefði m.a. komið fram að þeim liði báðum nokkuð vel á [...]. Hvað framtíðarbúsetu varðaði vildi telpan fara til móður sinnar á [...] og hefði hún lýst því hvernig hún myndi bregðast við ef sambýlismaður móður hennar færi að drekka. Drengurinn hefði hins vegar helst verið á því að hann vildi vera 50% að [...] en 50% í Reykjavík, þar sem hann ætti félaga eftir að hafa sótt [...] um tíma. Hann gæti hins vegar hugsað sér að vera einn mánuð á ári hjá móður sinni á [...]i. Í samtölunum hafi komið fram að börnin væru bæði á varðbergi gagnvart mögulegri áfengisneyslu móðurinnar og sambýlismanns hennar og þá sérstaklega gagnvart sambýlismanninum en samskipin við hann hafi verið ofarlega í huga þeirra beggja. Fram hafi komið að telpan væri mjög ánægð í skólanum en drengurinn verið leiður yfir samskiptum við einn nemanda í skólanum en sagt að „verið væri að taka á því“. Aðspurður sagði talsmaðurinn að vel væri hugsað um börnin að [...] og telpan hefði náð sérstaklega góðum tengslum við húsmóðurina og eins ætti drengurinn gott samband við eldri bróður sinn, sem dveldi í varanlegu fóstri á heimilinu og léku þeir sér mikið saman í tölvuleikjum. Þá hefðu börnin endurnýjað tengsl við föður sinn og umgengist hann t.d. á hátíðum á heimil hans í [...]. 

Eins og að framan er rakið hafa, frá því að mál stefnu og barna hennar komu fyrst til kasta barnaverndaryfirvalda, verið gerðar sex áætlanir um meðferð máls, á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002. Var sú fyrst gerð 9. desember 2009. Í þessum áætlunum var gert ráð fyrir margháttuðum stuðningi við stefndu þannig að hún yrði betur í stakk búin til að annast börn sín og tryggja þeim það öryggi og stöðugleika sem þau höfðu þörf fyrir og áttu rétt á m.a. ráðgjöf fagfólks inn á heimili og sálfræðiviðtöl. Þá dvaldi stefnda frá 9. janúar 2015 til 9. febrúar s.á., ásamt börnum sínum, á Vistheimili barna m.a. til að efla foreldrahæfni sína eða þangað til hún fór af heimilinu, án samþykkis stefnanda, 9. febrúar. Varð það til þess að stefnda var handtekin með börnin á leið austur á land og börnin í framhaldinu neyðarvistuð á vegum stefnanda. Samkvæmt gögnum málsins tókst ekki að fá stefndu til samvinnu við barnaverndaryfirvöld á grundvelli umræddra meðferðaráætlana og verður að telja, að mati dómsins, að afstaða stefndu í þessum efnum endurspegli verulegan skort á innsæi hvað varðar þarfir barnanna m.a. með hliðsjón af þeim fjölda tilkynninga sem barnaverndaryfirvöldum hafa borist í gegnum árin frá lögreglu og öðrum um slæmar aðstæður barnanna, oft á tíðum í tengslum við áfengisneyslu stefndu og núverandi sambýlismanns hennar.  Dómurinn er þannig sammála þeirri ályktun sem fram kemur í forsjárhæfnismati H sálfræðings, sem áður hefur verið gerð grein fyrir og ítrekuð var í skýrslu hennar fyrir dómi, að verulega skorti á innsæi stefndu og skilning hvað varði þarfir barna hennar fyrir stöðugleika og öryggi. Er þá sérstaklega vísað til tíðra flutninga stefndu með börnin og þess rótleysis sem þeir hafa skapað í lífi barnanna, áfengisneyslu stefndu og sambýlismanns hennar, sem oft hefur leitt til átaka þeirra á milli og afskipta yfirvalda og þeirrar vanrækslu, hvað líkamlegar og andlegar þarfir þeirra varðar, sem þessari neyslu hefur fylgt. Þá er dómurinn sammála þeirri skoðun matsmannsins að stefnda eigi við verulega andlega og hegðunarlega erfiðleika að stríða sem hún hafi ekki fengist til að takast á við og ekki sé líklegt að miklar breytingar verði þar á nema með róttækri viðhorfsbreytingu af hennar hálfu.   

Með vísan til framangreinds er það skoðun dómsins að fullvíst megi telja að daglegri umönnun og uppeldi barnanna og andlegri heilsu þeirra væri stefnt í hættu fái stefnda forsjá þeirra. Verður því að telja fyllilega í ljós leitt að skilyrðum fyrir forsjársviptingu samkvæmt a- og d- liðum barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé fullnægt.

Svo sem áður er rakið dvelja börnin nú í fósturvistun á vegum stefnanda að [...]. Samkvæmt skýrslum talsmanns barnanna frá 7. desember 2015 og 17. mars s.l. og framburði hans fyrir dómi, hafa börnin, miðað við aðstæður, náð að aðlagast fósturheimili sínu vel og ljóst að vel fer um þau þar. Þá hafa þau, að mati Barnaskólans á [...], skv. vottorðum frá 15. október 2015 og 15. mars 2016, sýnt miklar framfarir frá því að þau komu í skólann í mars 2015. Mæla hagsmunir barnanna, að mati dómsins, eindregið með því að hagsmunum þeirra verði ekki raskað með því að flytja þau úr núverandi aðstæðum í fyrirsjáanlega mikla óvissu, ef þau yrði flutt til stefndu og sambýlismanns hennar en eins og áður er rakið telur stefnda sambýlismann sinn sitt helsta bakland. Er í því sambandi rétt að hafa í huga að umræddur sambýlismaður stefndu var í Héraðsdómi Reykjaness, hinn 21. janúar s.l., í málinu nr. S-1033/2013, dæmdur til refsingar fyrir að hafa í september 2012 misþyrmt elsta barni stefndu, G, bæði líkamlega og andlega, þannig að heilsu hans hafi verið hætta búin.  

Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skulu barnaverndar-yfirvöld, eftir föngum, gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þá skulu þau jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Skal því aðeins gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Í 2. mgr. 27. gr. laganna er þessi regla um meðalhóf sérstaklega áréttuð að því er tekur til kröfu um forsjársviptingu, en hún skal því aðeins gerð að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Telja verður að framangreindum ákvæðum um tæmingu vægari úrræða hafi verið gætt nægilega, áður en krafa um forsjársviptingu var gerð, með vísan til þess er að framan greinir um þann margvíslega stuðning sem stefndu hefur staðið til boða fyrir tilstuðlan stefnanda og annarra barnaverndaryfirvalda en hún ekki þegið.

Með vísan til alls framangreinds er það þannig niðurstaða dómsins að þarfir og hagsmunir barna stefndu þeirra B og C krefjist þess að stefnda verði svipt forsjá þeirra. Samkvæmt því er krafa stefnanda tekin til greina.

Af hálfu stefnanda er ekki gerð krafa um málskostnað en krafa stefndu um málskostnað úr hendi stefnanda verður ekki tekin til greina og fellur málskostnaður því niður.

Stefnda hefur gjafsókn í máli þessu. Gjafsóknarkostnaður hennar, sem er þóknun lögmanns hennar, Þuríðar K. Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagður kostnaður lögmannsins 4.000 krónur og ferðakostnaður stefndu vegna aðalmeðferðar málsins samtals 47.050 krónur, greiðist úr ríkissjóði. 

Dóm þennan kveða upp Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari, dómsformaður og meðdómsmennirnir Álfheiður Steinþórsdóttir sálfræðingur og Oddi Erlingsson sálfræðingur.

Dómsorð:

         Stefnda, A, er svipt forsjá barnanna C og B. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefndu, sem er þóknun lögmanns hennar, Þuríðar K. Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, 1.200.000 krónur og útlagður kostnaður lögmannsins 4.000 krónur  og ferðakostnaður stefndu vegna aðalmeðferðar málsins 47.050 krónur, greiðist úr ríkissjóði.